Er líf Guðs þess virði að lifa því?

Hvað er það merkilegasta í lífi okkar? Jostein Gaarder þorði að spyrja þeirrar spurningar og skrifaði svo bókina Appelsínustelpan. Í sögunni er sagt frá Georg sem fékk bréf sem látinn faðir hans hafði skrifað. Drengurinn var fimmtán ára en pabbinn hafði dáið mörgum árum áður. Sagan er ástarsaga og fjallar um mann sem heillaðist af stúlku sem rogaðist með appelsínur þegar hann sá hana fyrst. Þau urðu ástfanginn og urðu par en hann dó ungur. Áður en hann lést skrifaði ástarsögu sína fyrir drenginn þeirra. Enginn vissi um að maðurinn var dauðsjúkur þegar hann ritaði þetta opinskáa og tilfinningaþrungna bréf til drengsins því hann faldi það. En svo fannst það ellefu árum síðar og þá var Georg var kominn á unglingsaldur.

Sagan er grípandi. Hin áleitna meginspurning sem pabbinn vill fá drenginn sinn til að hugsa um er: Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Menn hafa pælt í þeirri gátu frá árdögum manna. Aristóteles glímdi við hana, sjáendur Gamla testamentisins líka. Jesús Kristur vann með þá spurningu með ýmsu móti. Við komust ekki heldur undan því að svara henni eða bregðast við henni, jafnvel þó við flýjum eða viljum ekki horfast í augu við hana. Við svörum með atferli, vinnu, tómstundum, hugðarefnum – og líka hvernig við strjúkum og föðmum ástvini okkar – eða látum það vera.

Tengdar spurningar eru: Hvað þarf maður að hafa reynt og lifað til að vera sáttur við líf sitt? Er stutt líf minna virði en það sem er langt og jafnvel ekki þess virði að lifa því? Niðurstaðan er hin sama fyrir fólk allra alda og allra heimsvídda að lífið er mikils virði vegna þess að fólk elskar, fólk upplifir ástina, upplifir að lífið er í ástvinunum. Ekkert okkar sleppur við einhverjar raunir – líka vegna ástvina okkar. Við missum ástvini og syrgjum þá. Öll lifum við mótlæti en lífið er stórkostlegt og gjöfult vegna þess að við fáum að elska og vera elskuð.

Við getum víkkað sjónsviðið og skynjað í elskutjáningum manna tákn eða speglun þess að Guð teygir sig til manna. Af því Guð elskar erum við mikils virði, eigum í okkur gildi og erum markmið í sjálfum okkur. Guð er forsenda alls sem er, allra gilda, sjálfsvirðingar manna og ástarinnar þar með. Ástarsögur manna eru eins og smáútgáfur af ástarsögu Guðs.

Menn geta elskað þótt þeir trúi ekki á Guð en trúmaðurinn sér í þeirri elsku afleggjara Guðs. Menn geta elskað börnin sín og maka óháð trú en trúmaðurinn sér í þeirri elsku ávöxt himinelskunnar sem er hið stóra samhengi þegar lífsferð manna lýkur. Við erum elskuð.

Guð og ungbarn virðast í fljótu bragði vera fullkomnar andstæður en eru þó meginmál kristninnar. Spurningin um hvað geri mannlífið þess vert að lifa því er áleitin. Hin hlið þeirrar spurningar er hvað geri líf Guðs þess virði að lifa því. Já, af hverju lætur Guð sig varða þennan útnára geimsins sem jörðin og mannheimur er? Af hverju lýtur stórveldið að smælkinu? Af hverju er Guð ekki bara upptekinn af sínu eigin jólaboði í eilífðinni, heldur tekur eftir fólki, heyrir jafnvel í þér, finnur til með sjúkum frumum þínum, fagnar með þér þegar gleðin hríslast um þig, líður með þér angist þína og kemur til þín þegar þú ert komin í öngstræti? Það er vegna þess að Guð er guð ástarinnar. Guð er vanur að elska í fjölbreytni samfélags guðdómsins. Guð er ekki innilokaður og sjálfhverfur heldur stór og útleitandi í ástalífi sínu. Guð er ríkur og fangvíður. Sagan af Guði er ástarsaga.

Hvernig horfir þú á veröldina? Er hún þér smá og lokuð eða stór og skapandi? Getur þú hugsað þér að túlka jörð og stjörnur, heimsferla og vetrarbrautir, líf þitt og líf í fjarlægð sem ástarsögu, sögu sem á sér rætur í guðlegu drama?

Í ástarsögum heimsins sjáum við Guð. Veröldin er frá upphafi alin í ástareldi. Allt efni, öll tilveran kraumar af ást eins og við sjáum t.d. í kvikmyndinni Love actually. „Það er gott að elska“ söng þjóðarpopparinn Bubbi. „All you need is love“ sungu Bítlarnir. „Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi“ söng Páll postuli. Því svo elskaði Guð heiminn segir í Jóhannesarguðspjalli. Það er inntaksboðskapur jólanna og að ástin er alls staðar.

Hluti íhugunar jóladags, sjá Ástin, trú og tilgangur lífsins, 353-356.