Greinasafn fyrir merki: elska

Er líf Guðs þess virði að lifa því?

Hvað er það merkilegasta í lífi okkar? Jostein Gaarder þorði að spyrja þeirrar spurningar og skrifaði svo bókina Appelsínustelpan. Í sögunni er sagt frá Georg sem fékk bréf sem látinn faðir hans hafði skrifað. Drengurinn var fimmtán ára en pabbinn hafði dáið mörgum árum áður. Sagan er ástarsaga og fjallar um mann sem heillaðist af stúlku sem rogaðist með appelsínur þegar hann sá hana fyrst. Þau urðu ástfanginn og urðu par en hann dó ungur. Áður en hann lést skrifaði ástarsögu sína fyrir drenginn þeirra. Enginn vissi um að maðurinn var dauðsjúkur þegar hann ritaði þetta opinskáa og tilfinningaþrungna bréf til drengsins því hann faldi það. En svo fannst það ellefu árum síðar og þá var Georg var kominn á unglingsaldur.

Sagan er grípandi. Hin áleitna meginspurning sem pabbinn vill fá drenginn sinn til að hugsa um er: Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Menn hafa pælt í þeirri gátu frá árdögum manna. Aristóteles glímdi við hana, sjáendur Gamla testamentisins líka. Jesús Kristur vann með þá spurningu með ýmsu móti. Við komust ekki heldur undan því að svara henni eða bregðast við henni, jafnvel þó við flýjum eða viljum ekki horfast í augu við hana. Við svörum með atferli, vinnu, tómstundum, hugðarefnum – og líka hvernig við strjúkum og föðmum ástvini okkar – eða látum það vera.

Tengdar spurningar eru: Hvað þarf maður að hafa reynt og lifað til að vera sáttur við líf sitt? Er stutt líf minna virði en það sem er langt og jafnvel ekki þess virði að lifa því? Niðurstaðan er hin sama fyrir fólk allra alda og allra heimsvídda að lífið er mikils virði vegna þess að fólk elskar, fólk upplifir ástina, upplifir að lífið er í ástvinunum. Ekkert okkar sleppur við einhverjar raunir – líka vegna ástvina okkar. Við missum ástvini og syrgjum þá. Öll lifum við mótlæti en lífið er stórkostlegt og gjöfult vegna þess að við fáum að elska og vera elskuð.

Við getum víkkað sjónsviðið og skynjað í elskutjáningum manna tákn eða speglun þess að Guð teygir sig til manna. Af því Guð elskar erum við mikils virði, eigum í okkur gildi og erum markmið í sjálfum okkur. Guð er forsenda alls sem er, allra gilda, sjálfsvirðingar manna og ástarinnar þar með. Ástarsögur manna eru eins og smáútgáfur af ástarsögu Guðs.

Menn geta elskað þótt þeir trúi ekki á Guð en trúmaðurinn sér í þeirri elsku afleggjara Guðs. Menn geta elskað börnin sín og maka óháð trú en trúmaðurinn sér í þeirri elsku ávöxt himinelskunnar sem er hið stóra samhengi þegar lífsferð manna lýkur. Við erum elskuð.

Guð og ungbarn virðast í fljótu bragði vera fullkomnar andstæður en eru þó meginmál kristninnar. Spurningin um hvað geri mannlífið þess vert að lifa því er áleitin. Hin hlið þeirrar spurningar er hvað geri líf Guðs þess virði að lifa því. Já, af hverju lætur Guð sig varða þennan útnára geimsins sem jörðin og mannheimur er? Af hverju lýtur stórveldið að smælkinu? Af hverju er Guð ekki bara upptekinn af sínu eigin jólaboði í eilífðinni, heldur tekur eftir fólki, heyrir jafnvel í þér, finnur til með sjúkum frumum þínum, fagnar með þér þegar gleðin hríslast um þig, líður með þér angist þína og kemur til þín þegar þú ert komin í öngstræti? Það er vegna þess að Guð er guð ástarinnar. Guð er vanur að elska í fjölbreytni samfélags guðdómsins. Guð er ekki innilokaður og sjálfhverfur heldur stór og útleitandi í ástalífi sínu. Guð er ríkur og fangvíður. Sagan af Guði er ástarsaga.

Hvernig horfir þú á veröldina? Er hún þér smá og lokuð eða stór og skapandi? Getur þú hugsað þér að túlka jörð og stjörnur, heimsferla og vetrarbrautir, líf þitt og líf í fjarlægð sem ástarsögu, sögu sem á sér rætur í guðlegu drama?

Í ástarsögum heimsins sjáum við Guð. Veröldin er frá upphafi alin í ástareldi. Allt efni, öll tilveran kraumar af ást eins og við sjáum t.d. í kvikmyndinni Love actually. „Það er gott að elska“ söng þjóðarpopparinn Bubbi. „All you need is love“ sungu Bítlarnir. „Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi“ söng Páll postuli. Því svo elskaði Guð heiminn segir í Jóhannesarguðspjalli. Það er inntaksboðskapur jólanna og að ástin er alls staðar.

Hluti íhugunar jóladags, sjá Ástin, trú og tilgangur lífsins, 353-356.

Leiðtoginn sem elskar og …

“Drottinn er minn hirðir” segir í 23. Davíðssálmi. Jesús bætir við og segir um sjálfan sig: “Ég er góði hirðirinn.” Mörg eigum við minningar um litríkar biblíumyndir, sem afhentar voru í sunnudagskólum kirkjunnar. Meðal þeirra voru myndir af fallegum Jesú í framandlegum fötum og í upphöfnu landslagi. Á mörgum myndanna hélt Jesús á lambi, sem hvíldi óttalaust á armi hans. Hann hafði gjarnan staf í hendi, risastaf, mannhæðarháan. Myndin á Ljósgeislamyndunum brenndist inn í vitundina, þannig hlytu Jesús og stafurinn að hafa litið út. Eftir á að hyggja held ég, að ég hafi haft meiri áhuga á staf Jesú en hirðishlutverki hans, meiri áhuga á græjunni en gerandanum. Og þannig er það með afstöðu margra til trúar – meiri áhugi á smáatriðunum, en á aðalmálinu, meiri áhugi á aukaatriðum en aðalpersónunni.

Elska og afleiðingar

Í texta dagsins talar Jesús við sitt fólk. Og samtalsaðferðin er mjög persónuleg og ávirk. Hann spyr beinnar spurningar, sömu spurningarinnar, aftur og aftur og ekki annað hægt en svara. Jesús spyr Símon Pétur: “Elskar þú mig?” – ekki einu sinni eða tvisvar, heldur þrisvar! Það hlýtur að hafa verið óþægilegt að svara svona persónulegri spurningu aftur og aftur. Þrisvar nefndi Jesús afleiðingu elskunnar: Gæta sauðanna. Hvað er málið? Það er að elska hirðinn og gæta sauðanna. Þá höfum við það. Boðskapur þessa sunnudags á gleðidögum er að elska og passa. Elskar þú? Gætir þú? Spurning Jesú varðar þjóðfélag, kirkju, menningu, heimili, þennan söfnuð, aðalfund sóknarinnar og þitt eigið líf. Elskar þú? Gætir þú? Þroskatvenna lífs og kirkju er að elska og gæta. Gæta og elska – það er einkenni góðs mannlífs, tilgangsríks lífs.

Brestir og viðmið

Tungumálið er lifandi og breytist. Mikilvægur þáttur þess eru líkingar, myndmálið sem við notum til að túlka viðburði og skýra og skilja. Og líkingar lifna í málinu en geta líka dáið, tapað merkingu og orðið líflausar klisjur. Hirðishlutverkið skildist í landbúnaðarsamhengi, en síður nú þegar engir fjárhirðar eru í fjölskyldu okkar lengur. Ég spurði einu sinni barn hvað fjárhirðir væri og fékk svarið: „Það er sá sem tekur alla peningana og hleypur svo í burtu!“ Sem sé, hirðir peningana og leggur svo á flótta! En hirðir er ekki þjófur heldur þvert á móti. Hirðir er vörður og verndari lífs.

Hverjir eru hirðar í samtíðinni? Það eru þau, sem hafa áhrif til góðs. Það eru leiðtogarnir. Hirðir er leiðtogi, sem eflir líf annarra. Hirðir er ekki sá eða sú, sem stýrir í krafti stöðu eða valds heldur lífsgæða.

Leiðtogahlutverk er ekki sjálfgefið og er á breytingaskeiði í samtíð okkar. Börn þarfnast góðra fyrirmynda, nándar foreldra og ástvina. Annars verður sjálfsmynd þeirra sprungin. Poppgoðin, álitsgjafar og íþróttahetjur eru ímyndir en ekki góðir hirðar, sem taka í hendina á fólki og þrýsta að barmi sér, þegar ástarsorgir dynja yfir, maki deyr eða áföll lama einstaklinga og fjölskyldur. Þau, sem ekki hafa notið góðra fyrirmynda og eru neydd til að búa sig til sjálf, púsla eigið egó úr molum og brotum, verða aldrei annað en samtíningur, án kjarna og heildarmyndar. Hver eru góðir leiðtogar. Elskar þú og passar þú?

Skjól í veröldinni

Hvernig varstu þegar þú fæddist? Þú varst örugglega hrífandi og hafðir mikil áhrif á alla nærstadda. Þú varst vonarvera, með engar spjarir en opna framtíð. Að við fæðumst nakin eru engin tíðindi og öllum augljóst mál. Börn deyja því ekki á Íslandi vegna klæðleysis. En þó við ættum nóg af fötum gætum við þó ekki lifað eða þroskast nema í skjóli annars, sem gerir okkur að mannfólki. Við hljótum þann yl, sem verður okkur vaxtarrammi í samhengi, í því sem við köllum menningu. Föt eru líkamsklæði, en menning er andleg klæði okkar. Við eigum skjólgóðar flíkur og hús, en það er sístæð spurning hvort þjóðfélag okkar sé skjólgott öllum. Af hverju deyja svo margir í sjálfsvígum? Af hverju er svo mikil vanlíðan í öllu ríkidæminu? Af hverju er misskipting í samfélaginu? Er menningin götótt?

Og þá að þér. Hvað hefði orðið um þig, ef þú hefðir ekki notið fræðslu og öryggis, ekki verið miðlað gildum og gæðum í bernsku? Þú hefðir farist í einhverjum skilningi. Menning er ekki bara listir. Menning er allt, sem gefur stefnu, staðfestu og haldreipi í lífinu. Menning er vissulega bækur, myndir, tónverk en ekki síður það sem fólkið þitt, mamma og pabbi hvísluðu að þér þegar þú varst lítill eða lítil. Lífsreglur og viska, sem þú notar síðar í lífinu og miðlar áfram til komandi kynslóða, þinna barna, er líka menning, skjólklæði sálarinnar. Vinnulag, heiðarleiki, hláturefni og sögur eru menning til lífs. Trúarefnin, bænirnar sem þú lærðir, vefur öryggis, sem þér var færður, er líka menning, jafnvel mikilvægasta skjólið sem þér var veitt til lífsgöngunnar. Fötin skapa ekki manninn, heldur skapar menning föt og fólk. Trúmenn vita svo, að Guð gefur máttinn og andann til að skapa fólk og föt sköpunar.

Góði hirðirinn og hamingjan

Einn merkilegasti þáttur mennskunnar, að vera manneskja, er getan eða færnin að snúa við, t.d. hverfa frá villu síns vegar, endurnýjast og taka nýja stefnu. Okkur mönnum er gefið að geta tekið ákvörðun um að láta ekki áföll, slys og sorgarefni brjóta niður heldur fremur stæla til vaxtar. Í mestu hörmungum er líka hægt að greina tækifæri, færi til að snúa frá því sem ekki gekk upp og að því sem er til góðs. Láta ekki fortíð hindra góða framtíð. Opna sig fyrir framtíðinni.

Lífsafstaða skiptir máli. Ímyndir, ofurstirni, hetjur verða þér til lítils, þegar stóru spurningarnar æða um hug þinn eða ljár dauðans syngur. Þú nærð ekki kyrrð og sátt nema þú eigir hið innra með þér það, sem getur verið þér leiðsögn, stefna, hirðir.

„Elskar þú mig?” spyr Jesús. Hvernig er ástarbúskapurinn í þér? Í því er hin góða menning fólgin að elska Guð. Elskan verður uppistaðan í vef lífsins til að við náum sambandi við samhengi alls sem er. Þegar fólk elskar þá er það líka aðgætið og passasamt.

Elskar þú? Gætir þú? Umhyggjan er systir elskunnar og báðar eru dætur Jesú. Það er ástæða þess, að hirðistextarnir eru íhugaðir á gleðidögunum eftir páska. Elskaðu og iðjaðu, njóttu og miðlaðu, lifðu og passaðu. Elskan er gefin og ætti að töfra lífið til unaðar. Lífið lifir af því Guð elskar og gætir. Ef okkur lánast að leyfa elskunni að eflast í okkur nærist líf okkar.

Elska og aðgát eru góðar systur sem fylgja þér úr kirkju í dag vegna þess að dauðinn dó og lífið lifir. Iðkaðu ástina. Farðu heim og játaðu fólkinu ást þína. Þér verður örugglega vel tekið. Elska og aðgát – lyklar dagsins á þessum gleðitíma eftir páska.

Hallgrímskirkju, 2. sunnudag eftir páska, 2019. Aðalfundur safnaðarins.

Textaröð:  B

Lexía:  Slm 23

Davíðssálmur. Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta. Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum þar sem ég má næðis njóta. Hann hressir sál mína, leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns. Þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig. Þú býrð mér borð frammi fyrir fjendum mínum, þú smyrð höfuð mitt með olíu, bikar minn er barmafullur. Gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína og í húsi Drottins bý ég langa ævi.

 

Pistill:  1Pét 5.1-4

Öldungana ykkar á meðal hvet ég sem einnig er öldungur og vottur písla Krists og einnig á hlutdeild í þeirri dýrð sem mun opinberast: Verið hirðar þeirrar hjarðar sem Guð hefur falið ykkur. Gætið hennar ekki nauðugir heldur af fúsu geði eins og Guð vill, ekki af gróðafíkn heldur fúslega. Þið skuluð ekki drottna yfir söfnuðunum heldur vera fyrirmynd hjarðarinnar. Þegar hinn æðsti hirðir birtist munuð þið öðlast þann dýrðarsveig sem aldrei fölnar.

 

Guðspjall:  Jóh 21.15-19

Þegar þeir höfðu matast sagði Jesús við Símon Pétur: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig meira en þessir?“ Hann svarar: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Gæt þú lamba minna.“ Jesús sagði aftur við hann öðru sinni: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“ Hann svaraði: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Ver hirðir sauða minna.“ Hann segir við hann í þriðja sinn: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“ Pétur hryggðist við að hann skyldi spyrja hann þriðja sinni: „Elskar þú mig?“ Hann svaraði: „Drottinn, þú veist allt. Þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Gæt þú sauða minna. Sannlega, sannlega segi ég þér: Þegar þú varst ungur bjóstu þig sjálfur og fórst hvert sem þú vildir en þegar þú ert orðinn gamall munt þú rétta út hendurnar og annar býr þig og leiðir þig þangað sem þú vilt ekki.“ Þetta sagði Jesús til að kynna með hvílíkum dauðdaga Pétur mundi vegsama Guð. Og er hann hafði þetta mælt sagði hann við hann: „Fylg þú mér.“

Skot í mark

skot í mark

Sumardagurinn fyrsti, kosningar og messudagur hafa fléttast saman. Í dag er Sara Karítas skírð og svo gifti ég hér í kirkjunni eftir hádegið á fimmtudeginum og allt hefur orðið að fléttu í mínum huga.

Sumardagurinn fyrsti er gjafadagur á mínum heimili. Drengirnir mínir fengu boga í sumargjöf. Boginn er fallegur, leðurbryddaður, úr góðum viði og fer vel í hendi. Drengirnir voru spenntir og fengu úthlutað skotsvæði. Ég hreifst af spenningi þeirra og vildi miðla þeim hvernig á boga er haldið, hvernig líkama er beitt, hvernig ör er haldið við streng og hvernig hún á að liggja. Bogmennska er list. Bogfimi þarfnast þjálfunar, spenna þarf boga hæfilega svo örin fljúgi rétt og í passandi sveig. Þegar skotið er um langan veg þarf að áætla fall örvarinnar miðað við fjarlægð og skotstyrk. Þessi viska bernskunnar rifjaðist upp við að kenna skottæknina.

Á fyrsta skotdegi voru drengirnir þó ekki tilbúnir til mikils náms. Þeir vildu helst bara skjóta og var alveg sama um skotstíl og tækni. Í upphafi var ekki þörf á mikilli kennslu heldur að taka þátt í gleðinni. Þjálfun, ögun og framfarir koma seinna og smátt og smátt. Nú, nokkrum dögum síðar, eru þeir tilbúnir til að læra ný trix og sjá bogmennsku í nýju ljósi. Þeir hafa gert sér grein fyrir takmörkum sínum og bætt skotmennskuna með því að læra og taka leiðbeiningum.

Markhittni verður ekki nema með æfingum, elju og þolinmæði. Bogfimi er líka mál hins innri manns og hvernig þessum tækjum er beitt gagnvart lífi og í umhvefi. Þetta skilja þau sem stundað hafa af kappi einhvera íþrótt eða agaða list. Að skjóta er lítið mál, að skjóta nærri marki er meira mál en að hitta í mark oft og reglulega er mál ögunar og samstillingar anda og líkama. Og þetta er baksvið umræðu um guðspjall og kosningar.

Í kjölfar kosninga
Dagurinn eftir kjördag. Við erum mörg búin fara “í kjósina” – eins og ferð á kjörstað er kölluð á mínu heimili – og skjóta okkar atkvæði í kassann í kjörklefanum. Þar vorum við ein og x-uðum í samræmi við okkar samfélagslestur, mark og mið. Í kjörklefanum vorum við ein en í úrslitum erum við þjóð. Við erum aðilar að vali og leggjum okkar til og skrifum okkar x en síðan er unnið úr samkvæmt lögum og leikreglum hefðarinnar.

Guðspjallstexti dagsins er hnyttinn og við hæfi á sunnudegi eftir kosningar. Í textanum segir: „Þér hafið ekki útvalið mig heldur hef ég útvalið yður.“ Kjósendur hafa útvalið – sett x-ið. Nú eru komin úrslit. Þau ber að virða. Markmið stjórnmála og þar með kosninga er að skipa málum og stjórn í samræmi við réttlæti og hlutverk fulltrúa almennings er að þjóna vilja fólks. Stjórnmálamenn eru þjónar. Aðferðin er að almenningur í landinu velur fulltrúa sína en það eru ekki stjórnmálaöflin sem eiga að velja sér Ísland.

Í guðspjallstexta þessa 4. sunnudags eftir páska er speki og hafdjúp visku sem hentar á tímanum að baki kosningum. Og hentar reyndar alltaf því boðskapurinn er: Elskið hvert annað. Niðurstaða, erindi og boðskapur kirkjunnar á þessum degi er elska, umhyggja og þjónusta. Og Jesús lagði meira segja svo mikla áherslu á ástina að hann minnti á hina algeru þjónustu sína. Hann væri tilbúinn að fórna sér, öllu, – líka lífinu. Lífið sjálft er hið mesta dýrmæti og þegar fólk er tilbúið að fórna lífinu verður ekki sterkar elskað.

Elska og þjónusta
Skiptir afstaða fólks í þjónustustörfum máli? Fólk getur gegnt opinberum störfum og lokið ýmsum verkum þó það hafi í sér litla umhyggju og sé jafnvel í nöp við þá sem það starfar fyrir. Fólk getur líka misskilið hlutverk sitt eða reynt að umbreyta því í annað en það er.

Stjórnmálastarf er þjónustustarf en ekki starf yfirráða. Það er starf í þágu samfélags og réttlætis þess. Embættisstörf eru störf í þágu annarra en ekki störf sem veita heimild til að stjórna stjórnunar vegna. Markmið ráðuneyta og opinberra stofnana er ekki að stýra málum eða til að veita embættismönnum möguleika til að láta ljós, snilli, og visku sína skína sem skærast. Hlutverk hins opinbera er stuðla að réttlæti, fara að lögum og hlýta vilja almennings í landinu og ganga erinda hans. Og það er ekki aðeins í skotæfingum ungsveina sem marks er misst. Svo er einnig í pólitík, í störfum hins opinbera, já hvarvetna þar sem fólk er – að skotið er fram hjá marki.

Því er ábending Jesú svo mikilvæg – boðið um elsku. Þjónustan verður ekki alger nema elskan stýri og móti. Elskan, kærleikurinn, þjónustuviljinn gerir kraftaverk í þjónustustarfi. Í nýjum stjórnarsáttmála ætti að vera elskuákvæði. Ráðherrar eiga að elska fólk í landinu en líta ekki á það sem stjórnviðfang. Stjórnvöld eiga að beita sér fyrir að samfélagi séð þjónað með kærleika og réttlæti að leiðarljósi. Ég óska eftir að næsta ríkisstjórn verði elskuleg stjórn – ástarstjórnin 2013-17.

Ungt fólk gekk fyrir altarið á fimmtudag og sagði já og svo kysstust þau hjartanlega. Þau eiga ástina í hjarta og sambandið blómstrar. Sara Karítas var borin að skírnarlauginni áðan og Guð segir sitt stjóra elskujá. Hún er elskuð og velkomin. Og það skiptir máli hvernig líf þessa fólks er og hverngi það lifir og fer með líf sitt.

Skotmennskan
Þegar ég fór að aðstoða skotmennina ungu og skoða bogfimi þeirra kom í ljós að þeir vildu vel, reyndu að skjóta vel. En þeir kunnu ekki bogfimi. Þeir gerðu mistök og uppgötvuðu að þeir gætu lært af öðrum sér til eflingar. Drengirnir verða kannski ekki jafnokar Kyoto-bogmanna, meistara bogfiminnar. En mér er í mun að mínir karlar læri að skjóta eins vel og þeim er fært, læri að samstilla hug og hönd, læri siðfræði bogmennskunnar og þar með gæti að því að meiða aldrei og særa aðra með ógætilegum skotum. Bogmennskan er ögunarmál. Svo er einnig um pólitíkina og samfélagsmál. Það verður ekki sátt í landinu ef stjórnvöld starfa ekki í anda umhyggju og réttlætis. Stjórnvöld eiga að hitta í rétt mark. Ef ekki – fer illa, eins og dæmin sanna í pólitík og samfélagsrekstri áratuganna.

Missa marks eða hitta
Gríska orðið að syndga, drýgja synd, er hamartía, άμαρτία. Það orð kemur upprunalega úr máli íþróttanna en rataði í heimspekirit t.d. Aristótelesar og einnig í Nýja testamentið. Hamartía merkir að skjóta fram hjá. Að syndga er að hitta ekki og vera misheppnaður. Þegar menn gera mistök í lífinu brenna menn af. Í einkalífinu, í vinnu og í samfélagi klúðrum við stundum málum og skorum ekki. Þá daprast lífslán og lífsgæði skerðast. Í pólitík er hægt að skjóta illa fram hjá, þá verður óréttlæti og hrun. Í stjórnsýslu er hægt að skjóta fram hjá þegar þjónustan verður ekki í samræmi við lög og réttlæti og tapar ástinni. Í einkalífinu getur þú syndgað þegar þú bregst þér eða öðrum, gerir rangt eða aðhefst ekki þegar þér er skylt. Í huganum missir þú marks, syndgar, þegar þér tekur rangar ákvarðanir.

Kosningar veita tilefni til ígrundunar um þjóðarkúltur og lífshætti. Þegar menn hitta ekki í afstöðu og samskiptum við aðra menn fer illa. Það er hamartía, skortur á fagmennsku og klúður. Verst er þegar menn halda fram hjá sjálfum sér og tapa þar með tengslum við Guð og lífið.

Í lífi og samfélagi gerum við oft mistök, tökum rangar ákvarðanir og pönkumst í röngum málum. Við gerum tilraunir sem mistakast og skjótum jafnvel langt frá markinu. Hvað er til ráða: Elskið, elskið, elskið. Þar er hin sanna pólitík, sanna bogmennska, samfélagssalvi og til blessunar. Ástin lifi – því hún er frá Guði. Skot og mark.

Amen

28. apríl, 2013 – 4. sunnudagur eftir páska.

Fjórði sunnudagur eftir páska (Cantate)

Textaröð: B

Lexía: 5Mós 1.29-33
Þá sagði ég við ykkur: „Óttist þá ekki og verið ekki hrædd. Drottinn, Guð ykkar, sem fer fyrir ykkur, mun berjast fyrir ykkur eins og hann gerði fyrir augum ykkar í Egyptalandi. Í eyðimörkinni sást þú hvernig Drottinn, Guð þinn, bar þig eins og maður ber son sinn hvert sem þið fóruð uns þið komuð á þennan stað.“ En þrátt fyrir þetta trúðuð þið ekki á Drottin, Guð ykkar, sem gekk á undan ykkur á leiðinni til að finna tjaldstað handa ykkur. Hann fór fyrir ykkur um nætur í eldi en um daga í skýi til að vísa ykkur veginn sem þið áttuð að halda.

Pistill: 1Jóh 4.10-16
Þetta er kærleikurinn: Ekki að við elskuðum Guð heldur að hann elskaði okkur og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir okkar.
Þið elskuðu, fyrst Guð hefur elskað okkur svo mikið þá ber okkur einnig að elska hvert annað. Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Ef við elskum hvert annað þá er Guð í okkur og kærleikur hans er fullkomnaður í okkur. Guð hefur gefið okkur anda sinn og þannig vitum við að við erum í honum og hann í okkur. Við höfum séð og vitnum að faðirinn hefur sent soninn til að vera frelsari heimsins. Hver sem játar að Jesús sé sonur Guðs, í honum er Guð stöðugur og hann í Guði. Við þekkjum kærleikann, sem Guð hefur á okkur, og trúum á hann.
Guð er kærleikur og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum.

Guðspjall: Jóh 15.12-17
Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hvert annað eins og ég hef elskað yður. Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína. Þér eruð vinir mínir ef þér gerið það sem ég býð yður. Ég kalla yður ekki framar þjóna því þjónninn veit ekki hvað húsbóndi hans gerir. En ég kalla yður vini því ég hef kunngjört yður allt sem ég heyrði af föður mínum. Þér hafið ekki útvalið mig heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt sem varir svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni. Þetta býð ég yður, að þér elskið hvert annað.