Leiðtoginn sem elskar og …

“Drottinn er minn hirðir” segir í 23. Davíðssálmi. Jesús bætir við og segir um sjálfan sig: “Ég er góði hirðirinn.” Mörg eigum við minningar um litríkar biblíumyndir, sem afhentar voru í sunnudagskólum kirkjunnar. Meðal þeirra voru myndir af fallegum Jesú í framandlegum fötum og í upphöfnu landslagi. Á mörgum myndanna hélt Jesús á lambi, sem hvíldi óttalaust á armi hans. Hann hafði gjarnan staf í hendi, risastaf, mannhæðarháan. Myndin á Ljósgeislamyndunum brenndist inn í vitundina, þannig hlytu Jesús og stafurinn að hafa litið út. Eftir á að hyggja held ég, að ég hafi haft meiri áhuga á staf Jesú en hirðishlutverki hans, meiri áhuga á græjunni en gerandanum. Og þannig er það með afstöðu margra til trúar – meiri áhugi á smáatriðunum, en á aðalmálinu, meiri áhugi á aukaatriðum en aðalpersónunni.

Elska og afleiðingar

Í texta dagsins talar Jesús við sitt fólk. Og samtalsaðferðin er mjög persónuleg og ávirk. Hann spyr beinnar spurningar, sömu spurningarinnar, aftur og aftur og ekki annað hægt en svara. Jesús spyr Símon Pétur: “Elskar þú mig?” – ekki einu sinni eða tvisvar, heldur þrisvar! Það hlýtur að hafa verið óþægilegt að svara svona persónulegri spurningu aftur og aftur. Þrisvar nefndi Jesús afleiðingu elskunnar: Gæta sauðanna. Hvað er málið? Það er að elska hirðinn og gæta sauðanna. Þá höfum við það. Boðskapur þessa sunnudags á gleðidögum er að elska og passa. Elskar þú? Gætir þú? Spurning Jesú varðar þjóðfélag, kirkju, menningu, heimili, þennan söfnuð, aðalfund sóknarinnar og þitt eigið líf. Elskar þú? Gætir þú? Þroskatvenna lífs og kirkju er að elska og gæta. Gæta og elska – það er einkenni góðs mannlífs, tilgangsríks lífs.

Brestir og viðmið

Tungumálið er lifandi og breytist. Mikilvægur þáttur þess eru líkingar, myndmálið sem við notum til að túlka viðburði og skýra og skilja. Og líkingar lifna í málinu en geta líka dáið, tapað merkingu og orðið líflausar klisjur. Hirðishlutverkið skildist í landbúnaðarsamhengi, en síður nú þegar engir fjárhirðar eru í fjölskyldu okkar lengur. Ég spurði einu sinni barn hvað fjárhirðir væri og fékk svarið: „Það er sá sem tekur alla peningana og hleypur svo í burtu!“ Sem sé, hirðir peningana og leggur svo á flótta! En hirðir er ekki þjófur heldur þvert á móti. Hirðir er vörður og verndari lífs.

Hverjir eru hirðar í samtíðinni? Það eru þau, sem hafa áhrif til góðs. Það eru leiðtogarnir. Hirðir er leiðtogi, sem eflir líf annarra. Hirðir er ekki sá eða sú, sem stýrir í krafti stöðu eða valds heldur lífsgæða.

Leiðtogahlutverk er ekki sjálfgefið og er á breytingaskeiði í samtíð okkar. Börn þarfnast góðra fyrirmynda, nándar foreldra og ástvina. Annars verður sjálfsmynd þeirra sprungin. Poppgoðin, álitsgjafar og íþróttahetjur eru ímyndir en ekki góðir hirðar, sem taka í hendina á fólki og þrýsta að barmi sér, þegar ástarsorgir dynja yfir, maki deyr eða áföll lama einstaklinga og fjölskyldur. Þau, sem ekki hafa notið góðra fyrirmynda og eru neydd til að búa sig til sjálf, púsla eigið egó úr molum og brotum, verða aldrei annað en samtíningur, án kjarna og heildarmyndar. Hver eru góðir leiðtogar. Elskar þú og passar þú?

Skjól í veröldinni

Hvernig varstu þegar þú fæddist? Þú varst örugglega hrífandi og hafðir mikil áhrif á alla nærstadda. Þú varst vonarvera, með engar spjarir en opna framtíð. Að við fæðumst nakin eru engin tíðindi og öllum augljóst mál. Börn deyja því ekki á Íslandi vegna klæðleysis. En þó við ættum nóg af fötum gætum við þó ekki lifað eða þroskast nema í skjóli annars, sem gerir okkur að mannfólki. Við hljótum þann yl, sem verður okkur vaxtarrammi í samhengi, í því sem við köllum menningu. Föt eru líkamsklæði, en menning er andleg klæði okkar. Við eigum skjólgóðar flíkur og hús, en það er sístæð spurning hvort þjóðfélag okkar sé skjólgott öllum. Af hverju deyja svo margir í sjálfsvígum? Af hverju er svo mikil vanlíðan í öllu ríkidæminu? Af hverju er misskipting í samfélaginu? Er menningin götótt?

Og þá að þér. Hvað hefði orðið um þig, ef þú hefðir ekki notið fræðslu og öryggis, ekki verið miðlað gildum og gæðum í bernsku? Þú hefðir farist í einhverjum skilningi. Menning er ekki bara listir. Menning er allt, sem gefur stefnu, staðfestu og haldreipi í lífinu. Menning er vissulega bækur, myndir, tónverk en ekki síður það sem fólkið þitt, mamma og pabbi hvísluðu að þér þegar þú varst lítill eða lítil. Lífsreglur og viska, sem þú notar síðar í lífinu og miðlar áfram til komandi kynslóða, þinna barna, er líka menning, skjólklæði sálarinnar. Vinnulag, heiðarleiki, hláturefni og sögur eru menning til lífs. Trúarefnin, bænirnar sem þú lærðir, vefur öryggis, sem þér var færður, er líka menning, jafnvel mikilvægasta skjólið sem þér var veitt til lífsgöngunnar. Fötin skapa ekki manninn, heldur skapar menning föt og fólk. Trúmenn vita svo, að Guð gefur máttinn og andann til að skapa fólk og föt sköpunar.

Góði hirðirinn og hamingjan

Einn merkilegasti þáttur mennskunnar, að vera manneskja, er getan eða færnin að snúa við, t.d. hverfa frá villu síns vegar, endurnýjast og taka nýja stefnu. Okkur mönnum er gefið að geta tekið ákvörðun um að láta ekki áföll, slys og sorgarefni brjóta niður heldur fremur stæla til vaxtar. Í mestu hörmungum er líka hægt að greina tækifæri, færi til að snúa frá því sem ekki gekk upp og að því sem er til góðs. Láta ekki fortíð hindra góða framtíð. Opna sig fyrir framtíðinni.

Lífsafstaða skiptir máli. Ímyndir, ofurstirni, hetjur verða þér til lítils, þegar stóru spurningarnar æða um hug þinn eða ljár dauðans syngur. Þú nærð ekki kyrrð og sátt nema þú eigir hið innra með þér það, sem getur verið þér leiðsögn, stefna, hirðir.

„Elskar þú mig?” spyr Jesús. Hvernig er ástarbúskapurinn í þér? Í því er hin góða menning fólgin að elska Guð. Elskan verður uppistaðan í vef lífsins til að við náum sambandi við samhengi alls sem er. Þegar fólk elskar þá er það líka aðgætið og passasamt.

Elskar þú? Gætir þú? Umhyggjan er systir elskunnar og báðar eru dætur Jesú. Það er ástæða þess, að hirðistextarnir eru íhugaðir á gleðidögunum eftir páska. Elskaðu og iðjaðu, njóttu og miðlaðu, lifðu og passaðu. Elskan er gefin og ætti að töfra lífið til unaðar. Lífið lifir af því Guð elskar og gætir. Ef okkur lánast að leyfa elskunni að eflast í okkur nærist líf okkar.

Elska og aðgát eru góðar systur sem fylgja þér úr kirkju í dag vegna þess að dauðinn dó og lífið lifir. Iðkaðu ástina. Farðu heim og játaðu fólkinu ást þína. Þér verður örugglega vel tekið. Elska og aðgát – lyklar dagsins á þessum gleðitíma eftir páska.

Hallgrímskirkju, 2. sunnudag eftir páska, 2019. Aðalfundur safnaðarins.

Textaröð:  B

Lexía:  Slm 23

Davíðssálmur. Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta. Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum þar sem ég má næðis njóta. Hann hressir sál mína, leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns. Þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig. Þú býrð mér borð frammi fyrir fjendum mínum, þú smyrð höfuð mitt með olíu, bikar minn er barmafullur. Gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína og í húsi Drottins bý ég langa ævi.

 

Pistill:  1Pét 5.1-4

Öldungana ykkar á meðal hvet ég sem einnig er öldungur og vottur písla Krists og einnig á hlutdeild í þeirri dýrð sem mun opinberast: Verið hirðar þeirrar hjarðar sem Guð hefur falið ykkur. Gætið hennar ekki nauðugir heldur af fúsu geði eins og Guð vill, ekki af gróðafíkn heldur fúslega. Þið skuluð ekki drottna yfir söfnuðunum heldur vera fyrirmynd hjarðarinnar. Þegar hinn æðsti hirðir birtist munuð þið öðlast þann dýrðarsveig sem aldrei fölnar.

 

Guðspjall:  Jóh 21.15-19

Þegar þeir höfðu matast sagði Jesús við Símon Pétur: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig meira en þessir?“ Hann svarar: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Gæt þú lamba minna.“ Jesús sagði aftur við hann öðru sinni: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“ Hann svaraði: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Ver hirðir sauða minna.“ Hann segir við hann í þriðja sinn: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“ Pétur hryggðist við að hann skyldi spyrja hann þriðja sinni: „Elskar þú mig?“ Hann svaraði: „Drottinn, þú veist allt. Þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Gæt þú sauða minna. Sannlega, sannlega segi ég þér: Þegar þú varst ungur bjóstu þig sjálfur og fórst hvert sem þú vildir en þegar þú ert orðinn gamall munt þú rétta út hendurnar og annar býr þig og leiðir þig þangað sem þú vilt ekki.“ Þetta sagði Jesús til að kynna með hvílíkum dauðdaga Pétur mundi vegsama Guð. Og er hann hafði þetta mælt sagði hann við hann: „Fylg þú mér.“