Greinasafn fyrir merki: leiðtogi

Leiðtoginn sem elskar og …

“Drottinn er minn hirðir” segir í 23. Davíðssálmi. Jesús bætir við og segir um sjálfan sig: “Ég er góði hirðirinn.” Mörg eigum við minningar um litríkar biblíumyndir, sem afhentar voru í sunnudagskólum kirkjunnar. Meðal þeirra voru myndir af fallegum Jesú í framandlegum fötum og í upphöfnu landslagi. Á mörgum myndanna hélt Jesús á lambi, sem hvíldi óttalaust á armi hans. Hann hafði gjarnan staf í hendi, risastaf, mannhæðarháan. Myndin á Ljósgeislamyndunum brenndist inn í vitundina, þannig hlytu Jesús og stafurinn að hafa litið út. Eftir á að hyggja held ég, að ég hafi haft meiri áhuga á staf Jesú en hirðishlutverki hans, meiri áhuga á græjunni en gerandanum. Og þannig er það með afstöðu margra til trúar – meiri áhugi á smáatriðunum, en á aðalmálinu, meiri áhugi á aukaatriðum en aðalpersónunni.

Elska og afleiðingar

Í texta dagsins talar Jesús við sitt fólk. Og samtalsaðferðin er mjög persónuleg og ávirk. Hann spyr beinnar spurningar, sömu spurningarinnar, aftur og aftur og ekki annað hægt en svara. Jesús spyr Símon Pétur: “Elskar þú mig?” – ekki einu sinni eða tvisvar, heldur þrisvar! Það hlýtur að hafa verið óþægilegt að svara svona persónulegri spurningu aftur og aftur. Þrisvar nefndi Jesús afleiðingu elskunnar: Gæta sauðanna. Hvað er málið? Það er að elska hirðinn og gæta sauðanna. Þá höfum við það. Boðskapur þessa sunnudags á gleðidögum er að elska og passa. Elskar þú? Gætir þú? Spurning Jesú varðar þjóðfélag, kirkju, menningu, heimili, þennan söfnuð, aðalfund sóknarinnar og þitt eigið líf. Elskar þú? Gætir þú? Þroskatvenna lífs og kirkju er að elska og gæta. Gæta og elska – það er einkenni góðs mannlífs, tilgangsríks lífs.

Brestir og viðmið

Tungumálið er lifandi og breytist. Mikilvægur þáttur þess eru líkingar, myndmálið sem við notum til að túlka viðburði og skýra og skilja. Og líkingar lifna í málinu en geta líka dáið, tapað merkingu og orðið líflausar klisjur. Hirðishlutverkið skildist í landbúnaðarsamhengi, en síður nú þegar engir fjárhirðar eru í fjölskyldu okkar lengur. Ég spurði einu sinni barn hvað fjárhirðir væri og fékk svarið: „Það er sá sem tekur alla peningana og hleypur svo í burtu!“ Sem sé, hirðir peningana og leggur svo á flótta! En hirðir er ekki þjófur heldur þvert á móti. Hirðir er vörður og verndari lífs.

Hverjir eru hirðar í samtíðinni? Það eru þau, sem hafa áhrif til góðs. Það eru leiðtogarnir. Hirðir er leiðtogi, sem eflir líf annarra. Hirðir er ekki sá eða sú, sem stýrir í krafti stöðu eða valds heldur lífsgæða.

Leiðtogahlutverk er ekki sjálfgefið og er á breytingaskeiði í samtíð okkar. Börn þarfnast góðra fyrirmynda, nándar foreldra og ástvina. Annars verður sjálfsmynd þeirra sprungin. Poppgoðin, álitsgjafar og íþróttahetjur eru ímyndir en ekki góðir hirðar, sem taka í hendina á fólki og þrýsta að barmi sér, þegar ástarsorgir dynja yfir, maki deyr eða áföll lama einstaklinga og fjölskyldur. Þau, sem ekki hafa notið góðra fyrirmynda og eru neydd til að búa sig til sjálf, púsla eigið egó úr molum og brotum, verða aldrei annað en samtíningur, án kjarna og heildarmyndar. Hver eru góðir leiðtogar. Elskar þú og passar þú?

Skjól í veröldinni

Hvernig varstu þegar þú fæddist? Þú varst örugglega hrífandi og hafðir mikil áhrif á alla nærstadda. Þú varst vonarvera, með engar spjarir en opna framtíð. Að við fæðumst nakin eru engin tíðindi og öllum augljóst mál. Börn deyja því ekki á Íslandi vegna klæðleysis. En þó við ættum nóg af fötum gætum við þó ekki lifað eða þroskast nema í skjóli annars, sem gerir okkur að mannfólki. Við hljótum þann yl, sem verður okkur vaxtarrammi í samhengi, í því sem við köllum menningu. Föt eru líkamsklæði, en menning er andleg klæði okkar. Við eigum skjólgóðar flíkur og hús, en það er sístæð spurning hvort þjóðfélag okkar sé skjólgott öllum. Af hverju deyja svo margir í sjálfsvígum? Af hverju er svo mikil vanlíðan í öllu ríkidæminu? Af hverju er misskipting í samfélaginu? Er menningin götótt?

Og þá að þér. Hvað hefði orðið um þig, ef þú hefðir ekki notið fræðslu og öryggis, ekki verið miðlað gildum og gæðum í bernsku? Þú hefðir farist í einhverjum skilningi. Menning er ekki bara listir. Menning er allt, sem gefur stefnu, staðfestu og haldreipi í lífinu. Menning er vissulega bækur, myndir, tónverk en ekki síður það sem fólkið þitt, mamma og pabbi hvísluðu að þér þegar þú varst lítill eða lítil. Lífsreglur og viska, sem þú notar síðar í lífinu og miðlar áfram til komandi kynslóða, þinna barna, er líka menning, skjólklæði sálarinnar. Vinnulag, heiðarleiki, hláturefni og sögur eru menning til lífs. Trúarefnin, bænirnar sem þú lærðir, vefur öryggis, sem þér var færður, er líka menning, jafnvel mikilvægasta skjólið sem þér var veitt til lífsgöngunnar. Fötin skapa ekki manninn, heldur skapar menning föt og fólk. Trúmenn vita svo, að Guð gefur máttinn og andann til að skapa fólk og föt sköpunar.

Góði hirðirinn og hamingjan

Einn merkilegasti þáttur mennskunnar, að vera manneskja, er getan eða færnin að snúa við, t.d. hverfa frá villu síns vegar, endurnýjast og taka nýja stefnu. Okkur mönnum er gefið að geta tekið ákvörðun um að láta ekki áföll, slys og sorgarefni brjóta niður heldur fremur stæla til vaxtar. Í mestu hörmungum er líka hægt að greina tækifæri, færi til að snúa frá því sem ekki gekk upp og að því sem er til góðs. Láta ekki fortíð hindra góða framtíð. Opna sig fyrir framtíðinni.

Lífsafstaða skiptir máli. Ímyndir, ofurstirni, hetjur verða þér til lítils, þegar stóru spurningarnar æða um hug þinn eða ljár dauðans syngur. Þú nærð ekki kyrrð og sátt nema þú eigir hið innra með þér það, sem getur verið þér leiðsögn, stefna, hirðir.

„Elskar þú mig?” spyr Jesús. Hvernig er ástarbúskapurinn í þér? Í því er hin góða menning fólgin að elska Guð. Elskan verður uppistaðan í vef lífsins til að við náum sambandi við samhengi alls sem er. Þegar fólk elskar þá er það líka aðgætið og passasamt.

Elskar þú? Gætir þú? Umhyggjan er systir elskunnar og báðar eru dætur Jesú. Það er ástæða þess, að hirðistextarnir eru íhugaðir á gleðidögunum eftir páska. Elskaðu og iðjaðu, njóttu og miðlaðu, lifðu og passaðu. Elskan er gefin og ætti að töfra lífið til unaðar. Lífið lifir af því Guð elskar og gætir. Ef okkur lánast að leyfa elskunni að eflast í okkur nærist líf okkar.

Elska og aðgát eru góðar systur sem fylgja þér úr kirkju í dag vegna þess að dauðinn dó og lífið lifir. Iðkaðu ástina. Farðu heim og játaðu fólkinu ást þína. Þér verður örugglega vel tekið. Elska og aðgát – lyklar dagsins á þessum gleðitíma eftir páska.

Hallgrímskirkju, 2. sunnudag eftir páska, 2019. Aðalfundur safnaðarins.

Textaröð:  B

Lexía:  Slm 23

Davíðssálmur. Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta. Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum þar sem ég má næðis njóta. Hann hressir sál mína, leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns. Þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig. Þú býrð mér borð frammi fyrir fjendum mínum, þú smyrð höfuð mitt með olíu, bikar minn er barmafullur. Gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína og í húsi Drottins bý ég langa ævi.

 

Pistill:  1Pét 5.1-4

Öldungana ykkar á meðal hvet ég sem einnig er öldungur og vottur písla Krists og einnig á hlutdeild í þeirri dýrð sem mun opinberast: Verið hirðar þeirrar hjarðar sem Guð hefur falið ykkur. Gætið hennar ekki nauðugir heldur af fúsu geði eins og Guð vill, ekki af gróðafíkn heldur fúslega. Þið skuluð ekki drottna yfir söfnuðunum heldur vera fyrirmynd hjarðarinnar. Þegar hinn æðsti hirðir birtist munuð þið öðlast þann dýrðarsveig sem aldrei fölnar.

 

Guðspjall:  Jóh 21.15-19

Þegar þeir höfðu matast sagði Jesús við Símon Pétur: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig meira en þessir?“ Hann svarar: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Gæt þú lamba minna.“ Jesús sagði aftur við hann öðru sinni: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“ Hann svaraði: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Ver hirðir sauða minna.“ Hann segir við hann í þriðja sinn: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“ Pétur hryggðist við að hann skyldi spyrja hann þriðja sinni: „Elskar þú mig?“ Hann svaraði: „Drottinn, þú veist allt. Þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Gæt þú sauða minna. Sannlega, sannlega segi ég þér: Þegar þú varst ungur bjóstu þig sjálfur og fórst hvert sem þú vildir en þegar þú ert orðinn gamall munt þú rétta út hendurnar og annar býr þig og leiðir þig þangað sem þú vilt ekki.“ Þetta sagði Jesús til að kynna með hvílíkum dauðdaga Pétur mundi vegsama Guð. Og er hann hafði þetta mælt sagði hann við hann: „Fylg þú mér.“

Guð blessi Ísland

IMG_0055Hrunið dundi yfir árið 2008. „Guð blessi Ísland“ – var fróm ósk og viðeigandi niðurlag í sjónvarpsávarpi forsætisráðherrans. Sömu orð, sama bæn, kom í hugann þegar ég horfði á hinn dramatíska Kastljósþátt fyrir viku síðan. Svo skrifaði ég þau á facebook: „Guð blessi Ísland II.“ Vinur minn skrifaði strax og spurði á móti: „Heldurðu ekki að hann sé orðinn þreyttur á því?“ Góð spurning. Er Guð þreyttur á okkur Íslendingum og Íslandi? Erum við sveimhugar, verri viðureignar en aðrir? Verður Guð þreyttur á sumum og síður á öðrum? Gerir Guð sér mannamun og elskar Guð mismikið? Á gleðidögum, tímanum eftir páska er vert að spyrja: Af hverju deyr dauðinn og lífið lifir? Af því Guð er ekki lúinn, gefst ekki upp – elskar.

Mikil pólitísk tíðindi hafa orðið liðna daga. Flestir hafa einhverjar skoðanir á framvindu, skúrkum og hetjum. Óþægilegar spurningar vakna við vandann: Lauk Hruninu ekki á árunum eftir 2008? Getur verið að Hrunið hafi aðeins verið fyrsti hluti í lengri sögu okkar Íslendinga – kannski bara einn af milliköflunum í breytingasögu þjóðar og vestrænna samfélaga? Ég held að svo sé og held raunar að grunnur samfélagsins hafi gliðnað sem síðan veldur skjálftum m.a. í skattaskjólunum. Hin klassísku kristnu gildi, sem við þáðum í arf frá kynslóðum liðins tíma, hafa tapað samfélagslegri seltu sinni. Og ég fór – í fyrradag – að lesa Passíusálma og Vídalínspostillu til að rifja upp boðskap fortíðar. Það var eins og mig minnti um samfélagsmálin: Hallgrímur Pétursson og Jón Vídalín eru afar skýrir um getu manna til afbrota, um skyldur hins kristna, opinbert og prívat siðferði og skyldur valdamanna. Þar kemur fram að Guð blessar Ísland þegar fólk ræktar siðvit og setur sig í samband við það sem máli skiptir.

Hvernig tengir þú reynslu daganna við lífsafstöðu þína? Eru einhver sár eða reið meðal ástvina þinna eða vina? Sá fjöldi sem mætir til mótmælafunda er teikn um miklar skoðanir og tilfinningar. Samtöl við fólk í trúnaðarsamtölum prestsþjónustunnar sem og á vinnustöðum í borginni hefur staðfest að systurnar sorg og reiði fara víða. Og þær beina spjótum sínum að einstaklingum, hreyfingum, opinberum aðilum og félögum. Miklar tilfinningar þurfa að fá útrás. Ljós sannleikans – hversu ljótur sem hann er – þarf að skína í einstaklingum og samfélagi. Guð blessi Ísland.

Þegar systurnar sorg og reiði ganga um torgin gerist margt. Ekki er að undra að þegar mikið gengur á í þjóðfélaginu að þér líði einkennilega og jafnvel á skjön við upplifun annarra í kringum þig. Af hverju? Samfélagsmein hafa áhrif á einstaklinga. Samfélagsfár rífur gjarnan ofan af gömlum einkasárum. Í látum nútíðar rifjast upp áföll fortíðar og tilfinningar þeirra spretta fram. Sorg yfir ástvinamissi vitjar fólks í umbrotum þjóðfélagsins. Ef fólk hefur einhvern tíma orðið fyrir kúgun, einelti, óréttlæti eða öðrum áföllum koma tengdar tilfinningar gjarnan í ljós á álagstíma. Í sumum tilvikum opnar samfélagsfár sálarkassa í geymslum hugans. Það sem við héldum að væri unnið og grafið kemur óvænt upp. Hitinn í samfélaginu ýtir á leynitakka sálnanna og opnar lager eða safn sorgarefna. Í uppnámi samfélagsins slengist fortíð inn í samtíðina. Þegar fólk er slegið vegna pólitískra áfalla hitnar orðræðan. Sum fara á límingunum og „missa sig.“ Fólk sem lætur sig stjórnmál miklu varða er sumt tilfinningalega og félagslega laskað þessa dagana. Og fólk dettur í sinn gír, hvort sem það er meðvirkni, vörn, kvíði eða eitthvað annað. Tökum ekki þátt í hóphýðingum, gerum ekki grín að fólki í uppnámi. Það er þarft að muna að við megum hafa hlýtt hjarta en kaldan heila, umvefja fólk með kærleika en líka góðum rökum og skynsemd. Guð blessi Ísland.

Leiðtoginn

Textar dagsins fjalla um hinn góða hirði. Ísraelsþjóðin rauk út á sinn Austurvöll og spurði ákaft hvort yfirstjórn ríkisins væri góð og skilaði sínu hlutverki. Boðskapur spámannsins Ezekíels í lexíu dagsins, var að Guð myndi sjálfur ganga í verkið, safna hinum villuráfandi sauðum, hjálpa í vanda, græða sár, binda um brot  og tryggja góðar aðstæður til lífshamingju. Gamall boðskapur og fyrir rappið á Austurvelli. Jesús talar í guðspjalli dagsins um góða hirðinn og þar ýtir hann á gamlan takka í vitund þjóðar sinnar um leiðtoga og gildi. Góður stjórnandi er sá sem engin svik eru í. Og með öll stjórnvöld og alla málaliða í heiminum í huga bendir Jesús á hinn sviklausa sem er reiðubúinn að greiða hæsta gjaldið, allan skattinn, já lífið. Lífið er hæsta gjaldið. Trúmennskan er ekki innflutt, ekki útflutt í skjólin heldur, hún er heimaræktuð. Sá einn er alverðugur sem ekki flýr heldur stenst til enda. Texti dagsins fjallar ekki um pólitík heldur lífsafstöðu. Hvar er traust þitt og hvernig tengir þú gæði, gildi, lífshætti, siðferði og tengsl við fólk? Ertu sannur og sönn? Eða ertu aðeins málaliði sem lifir með eigin hag fyrir augum? Textar dagsins eru ekki um stjórnmál liðinnnar viku en eru þó fullkomlega hagnýtir til að dæma um hvernig við menn eigum að lifa í umróti og ringulreið daganna. Við erum Guðs og eigum að bregðast við með trúmennsku og í trú. Jesúpólitíkin er að samfélagsmálin eigi að vera bæði siðleg og lögleg. Innræti stjórnar siðferði, notkun fjármuna og valda. Guð blessi Ísland.

Gleðidagar

Þessir sumpart dapurlegu dagar eru gleðidagar. Tíminn eftir páska er tími til að fagna. Ekkert er svo slæmt og þungbært að sigur lífsins gildi ekki. Engin áföll í samfélagi eða sálarlífi þínu eru svo stór að ljós páskanna megi ekki lýsa yfir og gefa birtu.

Gleðidagar eftir páska geta verið mjög sorglegir, en hætta ekki við að vera gleðidagar þótt margt dapurlegt gerist. Sorg getur dunið yfir á gleðidögum, reiði getur blossað upp á lífsdögum. Systurnar reiði og sorg eru á kreiki alla daga og koma Guði við. Við megum gjarnan nýta gleðidaga til að ígrunda hvaða sorg, áföll, reiði og miklar tilfinningar vakna í þér. Þær varða sálarlíf þitt. Hvað getur þú gert til að grisja, hverju má leyfa að fara inn í endurvinnslu eilífðar? Hvað getur þú gert til að styrkja fólk í uppnámi? Hvað getur þú gert til að íslenskt samfélag megi njóta gilda og góðs lífs?

Viltu leyfa nánd Guðs að umlykja þig, gildum guðsríksins að vefjast inn í samfélag þitt og viltu vera ásjóna Jesú Krists gagnvart fólki í sorg og reiði. „Ég er góði hirðirinn“ segir Jesús Kristur. Guð blessi Ísland.

Amen

Stólræða í Hallgrímskirkju 10. apríl, 2016.

Textaröð: A

Lexía: Esk 34.11-16, 31

Því að svo segir Drottinn Guð: Nú ætla ég sjálfur að leita sauða minna og líta eftir þeim. Eins og hirðir lítur eftir hjörð sinni þegar hún er á dreif í kringum hann mun ég fylgjast með mínu fé. Ég mun bjarga sauðum mínum frá öllum þeim stöðum sem þeir dreifðust til á hinum dimma og drungalega degi. Ég mun leiða þá burt frá þjóðunum, safna þeim saman úr löndunum og leiða þá heim til síns eigin lands. Ég mun halda þeim í haga á fjöllum Ísraels, í daladrögum og á hverju byggðu bóli í landinu. Ég mun sjálfur halda þeim til beitar í góðu haglendi, beitiland þeirra verður á háfjöllum Ísraels. Þar munu þeir leggjast og ganga í frjósömu haglendi á fjöllum Ísraels. Ég mun sjálfur halda fé mínu til beitar og sjá því fyrir hvíldarstað, segir Drottinn Guð. Ég mun leita þess sem villist og sækja hið hrakta, binda um hið limlesta og styrkja hið veikburða. Ég mun gæta hins feita og þróttmikla og halda því í haga eins og rétt er. Þið eruð hjörð mín sem ég held í haga. Ég er Guð ykkar, segir Drottinn Guð.

Pistill: 1Pét 2.21-25

Þetta er köllun ykkar. Því að Kristur leið einnig fyrir ykkur og lét ykkur eftir fyrirmynd til þess að þið skylduð feta í fótspor hans. „Hann drýgði ekki synd og svik voru ekki fundin í munni hans.“ Hann svaraði ekki með illmælum er honum var illmælt og hótaði eigi er hann leið, heldur fól það honum á vald sem dæmir réttvíslega. Hann bar sjálfur syndir okkar á líkama sínum upp á tréð, til þess að við skyldum deyja frá syndunum og lifa réttlætinu. Fyrir hans benjar eruð þið læknuð. Þið voruð sem villuráfandi sauðir en nú hafið þið snúið ykkur til hans sem er hirðir og biskup sálna ykkar.

Guðspjall: Jóh 10.11-16

Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Sá sem er leigður og hvorki er hirðir né á sauðina, hann flýr og yfirgefur sauðina þegar hann sér úlfinn koma og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim. Enda gætir hann sauðanna aðeins fyrir borgun og er ekkert annt um þá. Ég er góði hirðirinn og þekki mína og mínir þekkja mig eins og faðirinn þekkir mig og ég þekki föðurinn. Ég legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina. Ég á líka aðra sauði sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir.