Bréfið frá Bessastöðum

Guðni Th. Jóhannesson er skrifandi forseti og að auki vel skrifandi. Hann kann ágætlega á lyklaborð á tölvu og notar það þegar hann skrifar bækur. En hann notar penna til að skrifa persónuleg bréf. Eitt slíkt barst mér í dag inn um bréfalúguna á heimili mínu.

Þegar útgáfan auglýsti bók mína Ástin, trú og tilgangur lífsins var Guðni Th. sá fyrsti – af miklum fjölda – til að panta bókina. Mér fannst það skemmtilegt. En svo kom forsetabréf í dag og það var elskulegt bréf til að þakka fyrir bókina góðu sem hann sagði glæsilega að innihaldi og útliti. Og taldi að gott væri að grípa í hana – fyrir sálarheill og líka þegar semja þyrfti ræður og ávörp! Fallegt rit og notadrjúgt. 

Þvílíkur þjóðhöfðingi sem sest niður með penna, hugsar með hlýju til viðtakanda og skrifar svona vermandi texta! Fallega sagt og vænt þætti mér um ef bókin eflir þjóðhöfðingja í ræðugerðinni. Ég bað um hljóð við kvöldverðarborðið, tilkynnti að ég ætlaði að lesa upp bréf sem hefði komið fyrr um daginn og það væri ljómandi gott. Fagnaðarlæti brutust út við lestrarlok og meira að segja hundurinn gelti líka. Guðni Th. er einstakur. Bréfið verður geymt. Ljósmynd af texta forsetans er hér að neðan en forsíðan hér að ofan. 

forsetabréfið