Greinasafn fyrir merki: elskhugi

Elskhugi veraldar

Guðsmyndir manna eru tjáning á þrá og oft klisjur. Guð er gjarnan samsafn drauma og óttaefna mennskunnar. Guðstjáning er frumljóð manna. En þegar við skiljum manngerðar klisjur getum við betur skilið að Guð er ekki með stýripinna eða putta á efnaferlum, snjóflóðum eða krabbameinum veraldar. Guð er ekki harðstjóri einhverra hungurleika manna. Valdasæknir henda upp á himininn eigin ímynd í bólginni yfirstærð til að geta síðan réttlætt eigið vald, eigin grimmd og hrylling. Þeir búa til sinn guð sem er alls ekki guð kristninnar. Gagnrýnendur slíkra grunnra klisjuhugmynda hafa rétt fyrir sér. Þannig guð væri hræðilegur. Guð kristninnar ýtir ekki af stað snjóflóðum eða lætur börn deyja og fólk missa ástvini. Sá guð væri fáránlegur. Guð sem ég þekki er bæði mennskur og guðlegur og hefur reynslu af lífi og þjáningu heimsins. Guð sem Jesús Kristur tengir okkur við er ekki hátt upp hafið vald sem bara skiptir sér af okkur og veröldinni í stuði eða reiðikasti. Guð er lífgjafinn sjálfur og nálægur í gleði og böli. Í hryllilegum aðstæðum hvíslar Guð í eyra þér: „Ég elska þig og er með þér og nærri þér.“ Fólk sem missir börn sín en heldur áfram að trúa á Guð lifir fremur í ástartengslum við Guð en auðmýkt fyrir valdi. Frelsi einkennir heilbrigt ástarsamband og einnig guðssamband. Í slíku trúarsambandi er Guð ekki lengur sá sem skipar eða veldur heldur hefur áhrif og er nærri. Í stað þess að stýra fólki eins og leikbrúðum er Guð nærri í lífsferli manna og í náttúrunni líka. Guð er ekki eins og yfirvald í efnaverksmiðju heldur skapar kjöraðstæður. Guð vill ekki vera ofurstjóri heimsins heldur elskhugi veraldar. Guð beitir ekki ofstjórn og þaðan af síður ofbeldi heldur er andlegt fang og stuðningur til hjálpar. Guðstengslin eru frelsistengsl.

Úr bókinni Ást, trú og tilgangur lífsins.