Greinasafn fyrir merki: Sigurvin Lárus Jónsson

Stríð, börn, eldgos og ást

Ávarp dr. Sigurvins Lárusar Jónssonar á örþingi í Neskirkju 11. nóvember 2023. Mynd/sáþ var tekin á vígsludegi Sigurvins 11. maí 2011. 

Góðu vinir, það er mér heiður að fá að tala hér í dag um ástina.

Sigurvin Lárus Jónsson heiti ég og er vinur Sigurðar Árna, áhugamaður um ástina, prestur og fræðimaður á sviði Nýja Testamentisins.

Ástin er það eina sem skiptir máli í lífinu, svo einfalt er það. Ást er það sem skapar okkur; án ástar kemst ekkert ungabarn til eðlilegs líkamlegs þroska, það hefur sár reynsla kennt okkur; án ástar kemst enginn unglingur til manns; og án ástar er engin fullorðin manneskja farsæl. Ástin er okkur allt.

Þetta orðar Sigurður Árni í þessari nýútkomu bók í umfjöllun sinni um trúarjátningu, kjarna þess sem kristnir menn deila og miðla, er hann segir „Trúarjátning … tjáning á djúpu og persónulegu sambandi. Trúarjátning er ástarjátning. Í bænum trúmanna og safnaðarsöng í helgihaldi er trú játuð með tjáningu sem er svipuð og tjáningar ástfangins fólks sem hvíslar ástarorð í eyra hins elskaða. Ef þú hefur einhvern tíma elskað og notið ástar veistu hve dásamlegt er þegar ástvinir baða hver annan með orðum elskunnar. Almætti snýst ekki um mátt heldur ást. Í trúarjátningunni mætti því allt eins orða: Ég trúi á alelskandi Guð.“ (bls. 73).

Sem prestur hef ég aldrei upplifað ástvini í sorgarhúsi leggja áherslu á það sem við höldum á lofti sem forgangsatriðum í fjölmiðlum, að græða fé, finna frægð eða öðlast frama. Nei, fólkið sem stendur næst, þeim sem kveður, ræðir einungis ást, og því miður á stundum skorti á ást. Ástin er okkur allt, annað er eftirsókn eftir vindi.

Ég er þakklátur fyrir þessa bók, kæri Sigurður Árni; sem vinur, en ég samgleðst þér að hafa kjarnað og miðlað þá prédikun um ástina sem þú hefur haldið á lofti í starfi þínu og lífi; sem prestur, því hér er komið út verkfæri sem prestar geta sótt í, nýtt skapalón fyrir prédikun inn í samtímann; og síðast en ekki síst sem fræðimaður.

Og nú langar mig að setja bókina í fræðilegt samhengi þess fags sem ég tilheyri, ritskýringu. Sigurður Árni er eins og þið vitið trúfræðingur, menntaður við einn fremsta háskóla Bandaríkjanna, Vanderbilt, en hann skrifaði doktorsritgerð um það sem okkur liggur á hjarta sem Íslendingar, Líf og mæri: Liminality in Icelandic religious tradition. Þar er á ferðinni greining á íslenskri guðfræði, sem mótast af því að búa í og á síkviku landi. Trúfræði sem er ekki einungis akademískar æfingar, heldur guðfræði sem getur gagnast með beinum hætti við þessa atburði sem nú eiga sér stað við Grindavík. Hagnýt guðfræði þjóðar sem býr á eldfjallaeyju, þar sem er allra veðra von.

Bókin þín núna er að sama skapi hagnýt guðfræði, guðfræði ástarinnar annarsvegar og aðferðafræði prédikunarinnar hinsvegar. Það sem ég vil sem biblíufræðingur minna á er að öll hagnýt guðfræði byrjar á lestri Biblíunnar.

Það orðar Sigurður Árni undir yfirskriftinni „Að lífga heiminn“; er hann segir: „Þá er komið að biblíutúlkun og þeim aðferðum sem við notum til að skilja helga texta. Biblían tjáir þróun hugmynda og því verður að vinsa úr það sem er þarft. Biblían er lagskipt. Í Biblíunni eru mishljómandi raddir og innbyrðis togstreita.“ (bls. 96).

Þessi deigla Biblíunnar birtist með beinum hætti í orðræðu Biblíunnar um ástina. Jesús sagði „elska skaltu“, og er þar að vinna með hefðina, Þriðju Mósebók: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig“ (3M 19.18). Páll hinsvegar setur ástina, agape, á oddinn og endurskilgreinir hugtakið sem útgangspunkt sinnar guðfræði. Sá kærleikur sem við hittum fyrir í óði Páls til kærleikans er nýr í hugmyndasögunni, þó hann byggi sannarlega á hefðum Biblíunnar og arfleifð Krists.

Öllum fræðilegum erindum ber að hafa rannsóknarsögu og þar legg ég til, Nygren, Wischmeyer og Sigurð Árna Þórðarson.

Anders Nygren eiga allir guðfræðingar að þekkja en hann var sænskur prestur, trúfræðingur, prófessor í Lundi og síðar biskup. Nygren sagði grískuna eiga tvö hugtök yfir ástina og dró skörp skil á milli þeirra, eros væri hin kynferðislega, eigingjarna ást, skilyrtum háð og jafnvel duttlungum, á meðan að agape væri hinn kristni kærleikur, sem er gefandi og fórnandi og byggir á skilyrðislausri ást Guðs til mannanna. Bók hans Eros och Agape kom út í tveimur hlutum 1930 og 1936 og var tímamótaverk, en er jafnframt barn síns tíma. Mynd hans af eros endurspeglar ekki með trúverðugum hætti grísk/rómverska menningu og skilin sem hann dró á milli eros og agape er hvergi að finna í Nýja testamentinu – eros er hvergi að finna í Nýja testamentinu. Það sem hann gerði vel er að gera kærleikanum skil sem kjarnaatriði kristinnar guðfræði.

Þá að Oda Wischmeyer. Prófesorinn minn er þýsk, heitir Eva-María, og í Þýskalandi eignast maður foreldra í fræðunum, hún er mín doktormutter. Oda þessi er með sömu skilgreiningu amma mín, fyrrum prófessor í Erlangen, heiðursdoktor frá Lundi, og fyrsti biblíufræðingurinn til að skrifa bók um agape síðan Nygren, á 90 árum – hugsið ykkur. Bók hennar Love As Agape: The Early Christian Concept and Modern Discourse frá 2021 rekur hugtakið frá grikkjum og gyðingum, til Páls, og þaðan í gegnum menningarsöguna og segir tvennt: annarsvegar að Páll sé einstakur í notkun sinni á agape og hinsvegar, sem engum kemur á óvart, að Ástin, trú og tilgangur lífsins eru samofin. Það er sem er óvenjulegt við agape hugtakið hjá Páli er að ástin, kærleikurinn, er svarið við öllum spurningum okkar – bókstaflega. Þau sjö bréf sem við eigum varðveitt frá Páli eru rituð á þeim forsendum að Páll er að bregðast við vanda eða átökum sem eiga sér stað í samfélaginu. Vandanum er oft lýst með nákvæmum hætti, flokkadrættir, tilvistarótti og átök manna á milli, en svör Páls eru ekki nákvæm, hann leysir aldrei vanda, bendir einungis á kærleikann – agape.

Hvaða kærleika? Í bókinni Ástin, trú og tilgangur lífsins, segir Sigurður Árni Þórðarson „Páll postuli var róttækur og skapandi hugsuður.“ (bls. 26) og hann lýsir ástaróði Páls í samaburði við kónginn: „„Það er gott að elska,“ söng þjóðarpopparinn Bubbi. … „Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi,“ söng Páll postuli. Ástin er alls staðar“ (bls. 63).

Ef ég hefði byrjað þessa ræðu á orðunum, ‚við stöndum nú á tímamótum‘,væri það sígilt stef. Við stöndum alltaf á tímamótum og frammi fyrir erfiðum áskorunum, stríð, hamfarir mannleg eymd.

Hvernig leysum við stríð – með ást!

Hvernig bregðumst við við eldgosi – með ást!

Hvernig ölum við upp börn, höldum í maka, réttum af samfélagslegt óréttlæti, fyrirgefum misgjörðir, stöðvum hnatthlýnun og bindum enda á fátækt – með ást.

 

Ástin, kærleikurinn, eros og agape, eru eina leiðin áfram og eina leiðin til að lifa.

 

„Hver er áhersla prédikana í þessari postillu? Mér hefur þótt vestræn menning vera ástarskert. Heimspeki og mannvísindin almennt eru ekki ástarleitandi greinar. Djúpboðskapur kristninnar er um elsku Guðs og ástarsókn manna en oft kalla hörmungar, samfélagsmál, stríð og önnur stórmál á kirkjuræður um heldur ástarrýr stef. Í lífi og starfi hef ég sannfærst um að ástin er grunnstef trúar, lífs, siðferðis og Guðs. „Það er gott að elska“ söng þjóðpopparinn Bubbi. „All you need is love“ sungu Bítlarnir. „Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi“ söng Páll postuli. Ástin er alls staðar og margvísleg. Ást til maka, barna, foreldra, eigin sjálfs og náttúrunnar. Ég hef horft í augu á fjölda fólks sem tjáir djúpa ást. Aðrir hafa talað um ástarþrá. Ástarsögur fólks hafa heillað mig. Svo eru harmsögur fólks stundum skuggalegar ástarsögur. Á bak við ástarsögur heimsins og okkur öll er ástarsaga Guðs.“ (bls. 415)

 

Takk Sigurður Árni fyrir að orða það og boða til þjóðarinnar með Ástin, trú og tilgangur lífsins.

 

Sigurvin Lárus Jónsson, vinur, prestur, fræðimaður.