Greinasafn fyrir flokkinn: Prédikanir

Nálgast má eldri prédikanir mínar á tru.is Þar eru 267 prédikanir. Slóðin er þessi: https://kirkjan.is/kirkjan/tru.is/$PreachesListAdvanced/Index/?types=pistlarogpostillur&authorid=916cc6c9-cdbe-4136-a5c0-c57c836eb8fe&query=

Viltu lifa vel?

Við prestar þjónum mörgum þessa dagana – ekki aðeins í jólamessum og í áramótaguðsþjónustum – heldur í skírnum, útförum, með samtölum, sálgæslu og í giftingum og annarri kirkjulegri þjónustu. Við fáum að vera með fólki á stærstu stundum lífsins. Við heyrum margt stórkostlegt og verðum vitni að því þegar fólk tekur þroskaskref og sækir í hamingjuna. Þar er engin þöggun. Í gær skírði ég fallega stúlku og aðra fyrir þremur dögum síðan. Þegar ég horfði í augu þeirra brosti framtíðin. Þær og uppvaxandi líf hvetur okkur til að lifa vel. Þegar ég lít til baka hef ég séð fólk lifa fallega og elska. En á þessu ári hef ég hef líka furðað mig á hve margir dólgar eru í mannheimum og í okkar samfélagi. Hrottarnir eru ekki aðeins í Moskvu og hópi Rússa í Úkraínu. Þeir eru víða, jafnvel í fjölskyldum okkar, félögum og á vinnustöðum. Dólgar í samskiptum valda þolendum skelfilegum þjáningum. Ekkert okkar vill lifa við ofbeldi eða vanvirðu. Við erum kölluð til ábyrgðar sem er að bera góða ávexti í lífinu.

Líf beri ávöxt

Guðspjallstexti gamlársdags talar inn í aðstæður tímans. Jesús segir kennslusögu sem er skiljanleg líka á okkar dögum. Hvað á að gera við tré sem ekki ber ávöxt? Bændur og skógræktarfólk veraldar fella slík tré og nota til annars t.d. húshitunar eða í kokkhúsinu. Í Jesúsögunni er tréð nytjajurt en ekki skrauttré eða gróðursett vegna flugkvíða og kolefnisspora. Grænfingraðir vita að sjúkdómar hrjá líf og farsóttir geisa í ávaxtagörðum veraldar. Þrjú geld ár er tæplega hægt að umbera en ekki fjögur. Ræktunarmenn vita að þá er næsta vel reynt. Eigandinn vill því höggva en garðyrkjumaðurinn vill þó veita enn einn séns. Lengi skal tré reyna – rétt eins og menn. Jesúmeiningin er að Guð sé langlyndur umfram mannlega kvarða. En líka að lífi er ætlað að bera ávöxt. Það sem ber ekki ávöxt verður höggvið. Í því er hin djúpa alvara fólgin. Hvaða kröfur eigum við að gera til sjálfra okkar og ráðamanna? Hvað með framtíðina?

Blessunin er alls konar

Við erum fædd til réttinda en líka til ábyrgðar og elskulegs lífs. Er forréttindafólkið sem tré í miðri Paradís sem bara neytir og tekur til sín en skilar ekki ávöxtum. Er það, já erum við – á fjórða ári dómsins? Margir ímynda sér að trú sé fyrst og fremst einkamál og varði sálarró. En Guð sérhæfir sig ekki bara í sálarmálum. Guð vakir yfir sprengingum í sólkerfum, nýjustu rannsóknum í krabbameinslækningum, árásarstríðum, loftslagsvá og ástamálum heimsins. Okkur hættir til að hugsa um trú í anda úreltrar tvíhyggju að hið efnislega og andlega séu andstæður og trúmenn eigi bara að halda sér til hlés frá ati heimsins. Hið andlega sé aðalmálið en líkami, efni, peningar, mengun og samfélag sé eitthvað óæðra. Sú lífsafstaða er ekki komin frá Jesú Kristi eða úr Biblíunni. Trú varðar heilsu fólks, líkamlega næringu, efnislegar þarfir, náttúru og frið. Samkvæmt Biblíunni er hið andlega, félagslega, náttúrulega og pólitíska allt þættir sem varða Guð og trú þar með. Kristnin boðar heildarhyggju. En tvíhyggja spillti þeirri heildarsýn. Það er komið að því að við hættum að rugla. Mengun náttúrunnar, stríðsátök og skrímslavæðing stjórnmálanna eru mál sem Guð skiptir sér af og trúmönnum er skylt að beita sér í.

Hamingjuleitin

Í þjóðsögusafni Íslendinga er merkileg viskusaga sem tjáir sjúka en líka heilbrigða lífsafstöðu. Sagan túlkar raunar kristna siðfræði. Þjóðsögur eru ekki bara skemmtilegar heldur oft kennslusögur til að kenna fólki að lifa vel. Þær eru sumar dæmisögur til að kenna lífsleikni. Ein saga af því tagi er sagan af systrunum Ásu, Signýju og Helgu. Sagan er reyndar til í ýmsum útgáfum en grunnáherslan er sú sama. Í samþjöppun er sagan svona og með skýringum.

Eitt sinn voru karl og kerling og áttu dæturnar Ásu, Signýju og Helgu. Eldurinn dó í kotinu sem var mikið áfall og mun verra en að rafmagnið færi, allar tölvur rugluðust og símkerfið hryndi. Að eldur slokknaði var dauðans alvara. Því fór Ása elsta dóttirin til að sækja eld. Á leiðinni gekk hún fram hjá hól og heyrði talað úr honum til sín: „Hvort viltu hafa mig með þér eða móti“? Ása svaraði að sér væri alveg sama og hélt áfram göngu sinni. Að lokum kom hún að helli. Þar var lifandi eldur og pottur á hlóðum með kjöti. Þar var líka brauð. Þar sem enginn maður var sjáanlegur og stúlkan var hungruð borðaði hún kjöt og brauð en henti afganginum. Til hennar kom vinalegur hundur en Ása lamdi hann. Hundurinn brást hinn versti við og beit af henni hendina. Og Ása flýði eldlaus. Þá fór næsta systirin Signý af stað. Fyrir henni fór eins og systur hennar en hundurinn beit af henni nefið.Hin yngsta fór þá. Röddinni úr hólnum svaraði hún með því að segja: „Ég vil gjarnan eiga þig að.“ Í hellinum sauð hún kjötið og bakaði brauðið en vildi ekki borða í leyfisleysi. Hún beið því húsráðanda sem leyfði henni að borða. Helga fékk að fara með eldinn. Heima fékk hún þó engar þakkir en síðar kom svo hellisbúinn til að sækja Helgu og gera hana að drottningu í ríki sínu. Hann var – eins og vera ber í góðu ævintýri – prins í álögum.

Hvað merkir svona saga? Til hvers að endursegja hana í kirkju við áramót? Líf okkar allra, hópa og samfélaga er samfelld leit að hamingju, velsæld, góðu mannlífi, lífsgildum, visku – já, öllu því sem getur gert okkur og fólkinu okkar gott. Starf og vinna okkar allra er sókn til frumgæða. Við leitum gleði og lífsfyllingar. Líf okkar er eldsókn. En hvað um annað fólk og lífríki jarðarkringlunnar? Eru þau markmið eða bara tól sem við megum fara vel eða illa með?

Viska aldanna er að við lifum í brothættu samfélagi og hlutverk okkar er ekki aðeins að uppfylla eigin þarfir eða fýsnir heldur þjóna líka öðrum. Djásn og dýrmæti eru vandmeðfarin og geta orðið til mikillar ógæfu ef við virðum ekki aðra, þarfir þeirra og gildi. Hamingja er ekki einkamál heldur samstarfsmál. Stundum breytumst við sjálf í tröll þegar við virðum ekki gerð okkar og vinnum með sjálf okkur. Við verðum að gæta að því að vera ekki dólgar í samskiptum. Foreldrar stúlknanna áttu – ef við færum til nútímans – hús, bíl, höfðu vinnu og allt þetta venjulega til að uppfylla grunnþarfir. En samt var allt í rugli og skralli. Heimilislífið var í upplausn og lífi fólksins var ógnað. Tvær systur af þremur voru hrokafullar. Ása og Signý voru dólgarnir en ekki sá sem virtist hættulegur.

Á vit hins djúpa – trúarlega

Systurnar í sögunni fóru ekki til nágrannana til að sækja eld, heldur á vit frumkraftanna og þar með á vit hins trúarlega. En þær brugðust ólíkt við. Þær eldri voru kjánar, voru sjálfhverfar og skeyttu ekki um lífsreglur. Þær misstu því hönd og nef. Þær náðu ekki markmiði sínu vegna frekju og höfðu að auki varanlegan skaða af. Helga fór leið hinnar markvissu og ábyrgu sóknar. Hún virti frumreglurnar, lét gott af sér leiða, missti ekkert og ávann allt. Þannig lifir gott fólk, þroskað og gott samfélag.

Eldsókn mannkyns er leit að því sem er rétt, til eflingar, menningarauka, réttlætis, friðar og mannbóta. Það sem menn öðlast til gagns er hið torsótta sem gefið er utan hins venjulega í einhverjum helli lífsreynslu eða stórviðburða. Það er mikilvægt fyrir þig að muna að í mestu erfiðleikum, sorg og lífsháska ertu á ferð til að sækja eld. Erfiðustu atburðir lífs þíns eru þínar eldgöngur.

Ég vil gjarnan eiga þig að

Hrifsar þú til þín og átt þar með á hættu að missa nef eða hendi? Iðkar þú hófstillingu í lífinu? Þarftu að breyta? Hvað viltu á nýju ári? Hvaða lífsreglur viltu virða og styðja í samfélagi þínu á nýjum tíma? Á þessu kvöldi og á nýjum degi nýs tíma berast okkur orðin: „Viltu eiga mig að?“ Það er rödd gildanna, djúpsins, himinsins. Hverju svörum við: Svörum við með skeytingarleysi, ofbeldi og hroka? Eða svörum við með: „Ég vil gjarnan eiga þig að.“„Viltu eiga mig að?“ spyr Guð.

Árið er farið, nýtt ár er að fæðast. Eldurinn slokknar reglulega, dólgarnir hamast og myrkrið sækir að. Okkar verkefni er sístætt að fara vel og með ábyrgð og bera ávexti í lífinu. Stefna og kenning kristninnar er skýr: Dauðinn dó en lífið lifir. Okkur opnast nýr tími – nýtt ár – til að nýta það sem okkur er gefið til lífsgleði en einnig í þágu annarra. Þannig er lífsstefna Guðs, sem er frumeldurinn sjálfur.

——

Við áraslit langar mig að þakka samskiptin við það fólk sem hefur komið á Skólavörðuholt og í kirkjuna á árinu sem er að líða. Yfir eitt þúsund skólabörn komu í Hallgrímskirkju á aðventunni. Mikill fjöldi hefur sótt helgihald og tónleika og ferðamannafjöldinn er mikill. Við, prestar, stjórn og starfsfólk Hallgrímskirkju þökkum samskipti og hlýju í okkar garð og biðjum ykkur öllum blessunar á nýju ári. Fegin viljum við eiga ykkur að og verið velkomin í kirkjuna á nýju ári. Við eigum öll þennan helgidóm og hann er hlið himins. Gleðilegt ár í Jesú nafni: Amen.

Hugvekja – gamlárskvöld, Hallgrímskirkju, 31. desember.

Meðfylgjandi myndir tók ég frá Öskjuhlíð á menningarnótt 2022.

Aular?

Fyrir utan Hallgrímskirkju eru skúlptúrar Steinunnar Þórarinsdóttur á sumarsýningu Listahátíðar. Það eru ekki eftirmyndir eða afsteypur einstaklinga og stórmenna heldur fremur táknmyndir. Annars vegar eru menni án klæða, eins og táknverur mennskunnar sem býr í öllum áður en menning eða ómenning mótar, íklæðir eða afskræmir. Hins vegar brynjuð menni sem táknmyndir vígvæddrar mennsku. Mennin annars vegar og vopnafólkið hins vegar standa saman úti á holtinu. Bil er á milli. Fólkið sem á leið um Skólavörðuholt þessa dagana hleypur ekki fram hjá þessum skúlptúrum eins og Leifi heppna heldur fer að þeim, skoðar þá, snertir þá, stillir sér upp við þá, ræðir um mennin og hermennina og sum segja að brynjuliðið sé eins og her af Pútínum allra landa. Á móti séu saklausir borgarar allra alda. Tvennur Steinunnar vekja viðbrögð og eru þátttökuskúlptúrar og ýmsar túlkanir vakna. Suma dagana eru þeir með fangið fullt af blómum. Fyrir nokkrum dögum kom ung kona og kyssti eina brynjuna rembingskossi – eins og hún væri að reyna að leysa ófreskju úr álögum, kyssa prinsinn til lífs og gleði. Tvær ólíkar manngerðir á torgi lífsins. Önnur í álögum og hin til framtíðar – en til lífs – eins og við förufólk heimsins erum kölluð til.

Hroki og auðmýkt
Guðspjallstexti þessa sunnudags er líka um tvo menn, tvennu. Sagan segir frá tveimur í tengslum og með mismunandi skilning. Þeir voru eins ólíkir og spennuverurnar á torginu utan kirkjunnar. Annar var upptekinn af stöðu sinni. Hann var drambsamur. En hinn baðst miskunnar og fékk lífsdóm. Annar var með bólgið egó en hinn útflatt. Annar var hrokagikkur en hinn í rusli. Þeir fóru á sama staðinn til að vinna með tilvist sína. Annar kom til að fá staðfestingu þess að hann væri frábær. Hinn kom til að vinna með bresti sína og fá, það sem heitir á máli Biblíunnar, fyrirgefningu syndanna. Annar var brynjaður en hinn vitjaði mennsku sinnar. Sagan er ein útgáfa tvennuspennu sem frjóvgar hugsun, nærir íhugun, hvetur til þátttöku, breytir fólki og stælir visku. Mennið í okkur er guðsmyndin og er kallað til mennsku, að frumgerð okkar sé virkjuð til ástar og lífs.

Jesús hefði fengið Nóbelinn ef hann hefði verið sögumaður í samtíð okkar. Smásögurnar hans eru hrífandi og hnittnar. Þær hafa jafnan óvæntan endi, sem vekur til umhugsunar. Sögurnar eru lyklar að visku. Drambsamir líta niður á aðra, gera grín að fólki, benda á veikleika, missmíði, áföll og hefja sjálfa sig upp á kostnað annarra. Þeir temja sér botnhegðun. Hinn hrokafulli lítur niður á aðra því hann horfir ekki upp, sér ekki hærra en eigin topp, eigin stöðu og dýrð. Hinn drambsami talar niður til fólks, rýrir málstað annarra, gildi og stefnur sem ekki henta honum. Farísei texta dagsins var slíkur maður. Við þekkjum öll slíkt fólk, við lifum jú blómatíma hinna hrokafullu sjálfhverfunga. Þeir eru brynjulið samtíma okkar og vakna ekki af álögunum þó þau séu kysst.

En það er ímynd auðmýktarinnar, sem mig langar til að við íhugum. Tollheimtumaðurinn í Jesúsögunni kemur algerlega blankur fram fyrir Guð, þorir varla að biðja um hjálp, en stynur upp miskunnarbæninni, svipaðri þeirri og við höfum yfir í messunni alla sunnudaga. Kristnin hafnar hroka en er tollheimtumaðurinn hin hreina mynd hins kristna manns? Bæði já og nei. Vissulega er tollheimtumaðurinn ímynd þeirra, sem hafa skrapað botninn, skilja að lengra verður ekki haldið á lastabrautinni. Tollheimtumaðurinn getur verið fyrirmynd fyrir fíkla og þau, sem hafa misst allar festur og fóta. En mörgum mun reynst örðugt að samsama sig atferli hans og afstöðu. Þá erum við komin að auðmýktinni. Er tollheimtumaðurinn ímynd auðmýktarinnar?

Auðmýktarsagan
Í mörg þúsund ár hefur auðmýkt verið lofsungin. Í Orðskviðum segir: „Drambsemi er undanfari tortímingar, og oflæti veit á fall. Betra er að vera lítillátur með auðmjúkum en að skipta herfangi með dramblátum.“ Svipaðar setningar og áherslur má finna víða í ritum forn-Grikkja, sem skildu vel speki hófsemi. Jesús lagði áherslu á auðmýkt og hógværð. Síðan spunnu kristnir spekingar í þessar gyðing-grísku uppistöður. Mér sýnist þó að margir kirkjujöfrarnir hafi farið offari í túlkun sinni á auðmýkt og eðli hennar og raunar spillt auðmýktarhugtakinu. Klaustraforkólfurinn Benedikt frá Núrsíu talaði t.d. um tólf skref auðmýktar og að toppnum væri náð þegar menn gerðu sér grein fyrir að maður sé lægst settur og aumastur allra. Síðar skrifaði Bernharður frá Clairvaux, annar merkur klaustramaður, líka um tólf skref auðmýktar. Hann áleit að auðmýktin gerði menn óttalausa og kærleiksríka. Hann taldi auðmýktina vera þá dyggð, sem kenndi mönnum að sjá sjálfan sig með réttum hætti og þá með því móti að menn fyrirlitu sjálfa sig. Er þetta góð kenning? Er auðmýkt að eðli til sjálfsfyrirlitning? Nei, ég held ekki.

Auðmýkt aðeins fyrir karla?
Ég heyrði öflugan guðfræðing halda fram, að auðmýktarsiðfræðin væri fyrir karla en alls ekki fyrir konur! Ég fór að íhuga þessa ydduðu yrðingu. Jú, boðskapur um auðmýkt hefur verið predikaður fyrir fólki lengi. Hin trúarlegu skilaboð runnu inn í karlstýrt þjóðfélags- og menningarkerfi þar sem auðmýktaráhersla var notuð til að skilgreina stöðu kvenna skör lægra en karlana. Við getum samþykkt að konur hafi haft veikari stöðu en er fyrirbærið auðmýkt úrelt þar með? Mér þykir algerlega ótækt að auðmýkt sé aðeins mál okkar karla en ekki kvenna líka. Vissulega þurfa konur að leggja sig eftir styrkleika og sjálfstæði, berjast fyrir jafnrétti og jafnstöðu á við karla. En þær eiga ekki að berja af sér auðmýkt til að vera sterkar. Sem sé, það er ástæða til að endurnýta auðmýktina, endurskilgreina hana og endurlífga.

Kíkjum aðeins á sögu hugtaksins. Vestrænir hugsuðir hafa því miður lemstrað, “ræfilvætt” og undirlægjuskilyrt auðmýktarhugtakið. Þess vegna er ekki skrítið að heimspekingar síðustu alda hafi farið háðuglegum orðum um auðmýkt. Spinoza hafði t.d. litla trú á gildi auðmýktar og taldi hana yfirvarp annars. Hann taldi líka, að auðmýkt væri löstur ásamt með hrokanum. David Hume taldi auðmýktina, ásamt klaustradyggðum, ganga gegn góðum lífsmarkmiðum og beinlínis skadda fólk.

Margir hafa síðan fylgt í kjölfar þessara rýnenda. En gagnrýni þeirra hittir ekki auðmýktina heldur fremur undirlægjuhátt, aumingjaskilning og kúgunarþáttinn. Ég held við ættum að segja skilið við sjálfsfyrirlitningarskilning klaustramanna. Það er brynja sem má losa sig við að ósekju. Við þurfum hins vegar að endurvekja þá vitund, að við þiggjum allt að láni, njótum alls vegna elsku, erum ráðsmenn í þjónustu kærleikans og til gagns fyrir fólk og sköpun veraldar. Við erum menni á lífsleið ástar og gæsku.

Styrkur persónu – forsenda auðmýktar?
Frumþáttur auðmýktar kristins manns er fólgin í vitund um, að manneskjan lifir í ljósi Guðs, er af Guði og þiggur þaðan allt, líf og gæði, egó og aðstöðu. Kristinn maður er þakklátur og lítillátur af því að allt er frá Guði komið, stundir og dagar, fjölskylda og fé. Allt er að láni, líf og eignir og allir menn, já öll sköpun er hluti guðslífsins. Því er maðurinn, einstaklingurinn, hlekkur í milli lífs- og þjónustukeðju. Svo er hitt að enginn verður auðmjúkur við að sjálf og persónan hið innra brotni. Auðmýkt er persónueigind sterks sjálfs en ekki veiks. Til að auðmýkt spíri, vaxi og beri ávöxt þarf góðan skjólgarð hið innra. Auðmýkt verður ekki til nema í heilli, sterkri persónu sem ber virðingu fyrir reynslu sinni, gildum, stefnu og eigindum. Jesús Kristur er besta dæmið. Hann var ekki sundurknosaður karakter, heldur hafði fullkomlega heila og sterka vitund og mótað sjálf. En hann var auðmjúkur framar öðrum. Hann lifði í þessari samsettu vídd, að lúta föður sínum, sjá líf sitt og hlutverk í elskusamhengi, bera virðingu fyrir sér og köllun sinni og vera óttalaus í þjónustu gagnvart gildum, mönnum, verkefnum og þar með líka dauðaógn og skelfingarmálum.

Eitt sinn var sagt um íslenskan biskup: „Hann þóttist vera góður.” Það var meinlega sagt. En auðmýktin er ekki viljamál. Auðmýktin er dyggða erfiðust því um leið og menn verða sér meðvitaðir um eigin auðmýkt byrjar hún að deyja. Ákvörðuð auðmýkt er því miður ein gerð hroka. En tileinkun auðmýktar er æfiverkefni. Marteinn Lúther minnti gjarnan á, að auðmýkt er algerlega hulin hinum auðmjúka, sem  veit ekki og sér ekki eigin auðmýkt. Dýrlingur veit ekki af dýrðardómi sínum. Um leið og menn vilja vera dýrlingar verður þeim það ómögulegt. Góðverk eru auðvitað góð en verða stórkostleg, þegar fólk gerir þau án vitundar um hversu góð þau eru. Auðmýkt er ómeðvituð en sjálfræktuð lífslist.

Þrennan
Ekkert okkar er algerlega brynjuð vera né heldur fullkomlega nakið menni. En það er brot af báðum í okkur öllum. Jesús sagði yddaðar sögur til að minna okkur á að við lifum frammi fyrir Guði. Þar er ljósið skarpara en í mannheimi, þar sjást lífshrukkurnar, brestir og brot. Þar gildir ekkert annað en auðmýkt, því þar er upphaf og samhengi alls. Þann vísdóm megum við síðan fara með út í mannlífið, því þar er Guð líka, hvert sem við förum erum við í musterinu frammi fyrir Guði. Í lífi okkar þarf að vera auðmýkt til að brynjur falli, fólk verði glatt, öllum verði þjónað. Þegar við lærum að tjá: „Guð vertu mér syndugum líknsamur” þá verður undrið. Brynjan lifnar við kossinn og álögin falla.

Lexían: Jes 2. 11-17. Pistillinn: Rm 3. 21-26. Guðspjallið: Lk. 18.9-14.

11. sunnudagur eftir þrenningarhátíð – A-röð. 

Lífsleikni og hvísl Guðs

Ríkur maður bauð vinkonu heim til sín. Þegar gesturinn kom fóru þau upp í háan útsýnisturn til að skoða umhverfið. Heimamaðurinn benti í allar áttir. „Þetta land þarna í austri á ég, þú sérð hæðirnar. Akrarnir þarna suður frá eru á mínu landi. Ég keypti líka allt landið, líka fjöllin sem þú sérð í vestri. Til norðurs líka, allt að borgarmörkum, sem við reyndar sjáum ekki.” Ræðan var áhrifarík og landeigandinn var rogginn. Vinkonan benti beint upp í loftið og spurði: „En áttu eitthvað í þesari átt? Hvernig er með eignina á himnum?” Er þetta góð saga? Reyndar er hún ein af mörgum tvistuð útgáfa af freistingasögunni. Bestu sögur heimsins hafa inntak eða visku sem fólk græðir á. Við græðum meira á lífsvisku en á öllum löndum heimsins.

Guð er hjálp mín

Biblíusaga dagsins eru um ítökin á himnum, hvað við eigum þarna uppi. Sagan er viskusaga um lífsleikni. Hún er útlistun á hvernig við menn ættum að lifa til að vel fari fyrir sjálfum okkur og samferðafólki okkar. Sagan er erkisaga, sem Jesús sagði til að efla hugsun fólks. Hann vildi, að fólk staldraði við, hugsaði og greindi á milli þess, sem væri einhvers virði og hins sem væri rugl og hjóm. Í guðspjallinu býr hinn ríki við allsnægtir og fötin, sem hann klæddist, voru merkjavörur þess tíma. Klæðið var úr úrvalsbómull af Nílarbökkum og litarefnið var unnið úr krabbadýrum, sem sé topptíska tímans. Karlinn var vel stæður. En fyrir dyrum hans var svo Lasarus, öreigi og þurfamaður. Reyndar er hann eini maðurinn, sem ber nafn í sögum þeim sem guðspjallamaðurinn Lúkas hafði eftir Jesú. Nafnið Lasarus merkir „Guð er hjálp mín.” Nafnið var ekki út í hött. Þó hann hefði verið lukkugrannur í jarðlífinu var hann lukkumaður í hinu eilífa. Sá voldugi og vel stæði sinnti ekki hinum fátæka og hunsaði því ábyrgð sína. Það gerðu hins vegar hundarnir, sem sleiktu sár hins ólánssama Lasarusar. Dauðinn kom að óvörum. Báðir létust. Abraham tók á móti Lasarusi, sem merkir að hann fékk góða heimkomu í ríki himinsins. Hinn ríki var ólánssamur og leið kvalir handan grafar. Í sögunni er hann það nærri að hann sá betlarann Lasarus álengdar fjær, sá hve vel var fyrir honum séð og hverrar sælu hann naut. Hann bað um að Lasarus færði honum vökva til að slökkva brunasviða og lina þjáningar. En honum er bent á, að enginn samgangur væri milli sviða og enginn möguleiki á bót. Þá bað hann um, að bræður hans yrðu varaðir við. En Abraham, ættfaðir Hebrea og Gyðinga, sagði honum að þeir myndu ekki frekar en aðrir láta af villu síns vegar þó þeir sæju upprisinn mann. Þessi saga Jesú vísaði þar með á framtíð Jesú sjálfs.

Andleg gæði varða inntak

En sagan er rosaleg. Um aldir hafa menn viljað skilja hana bókstaflega og búa til kenningar um helvíti og himnaríki. En saga Jesú er ekki lýsing á yfirborðsmálum. Sögur Jesú á ekki að taka bókstaflega. Þær eru sagðar vegna inntaks og áhersluatriða. Dæmisögur eru ekki fréttaskot úr borgarlífinu, heldur um merkingu, tilgang og dýpri rök. Sögurnar eru dæmi til skilnings. Hvað er það þá, sem Jesús vill miðla þeim sem staldra við? Jesús hafði ekkert á móti auði eða ríkidæmi. Hann fagnaði því, að menn nytu gæða lífsins. Hann var sjálfur úthrópaður partíkall. Hann var skammaður fyrir að hann væri með þeim lífsglöðu. En Jesús varaði við, að menn yrðu þrælar einhvers í heimi og færu að breyta verkfæri til góðs lífs í markmið. Í því ljósi dró hann upp andstæður af ríkidæmi anda og þrældómi við efnisleg gæði. Auður væri tæki til að bæta lífið en ekki sérstakt markmið. Jesús spurði fólk skipulega að því hvað það setti í forgang og hver gildi þess væru. Við hvað hefur þú fest þitt ráð, elsku og umhugsun? „Því hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera,” sagði hann. Vinkonan spurði í sama anda. Hvaða ítök áttu þarna uppi? Hver er eign þín, viska þína, afstaða?

Erindi við okkur

Á þessi saga erindi við okkur? Erum við kannski upptekin af því að safna hlutum og eignum, vilja meira og stærra? Ruglumst við ekki stundum í ríminu og gleymum, að hlutir eru ekki markmið heldur tæki til að lifa vel? Fipumst við ekki stundum og gleymum, að fjármunir eru til að gera gott? Munum við alltaf vel, að við verðum fljótt þrælar þeirra, en ekki húsbændur. Sagan um ríka manninn varðar sálarstefnu okkar. Hefur þú tíma fyrir það, sem máli skiptir, fyrir kyrru ástarinnar og faðmlög? Hefur þú tíma fyrir að næra þinn innri mann? Hefur þú næði og getu til að gera það, sem gerir þig hamingjusama og hamingjusaman? Lúther sagði einhvern tíma, að maðurinn væri kengboginn inn í sjálfan sig. Það er myndræn útlegging guðspjalls þessa dags. Hinn ríki var svo upptekin af eignum sínum, að hann gleymdi þeim sem var við dyrnar og var hjálpar þurfi. Auðæfin eru mikil og auðvelt að týnast í þeim önnum sem þeim fylgja. En það er aldrei hörgull á Lasarusum heimsins. Lestu blöð og samfélagsmiðlana, talaðu við starfsfólk hjálparstofnana og fólkið í kirkjunni. Lasarusarnir eru við dyrnar okkar og bíða.

Í þjáningunni kallar Guð

Það er ekki Guð sem sendir dauða, þjáningu og sorg til að aga okkur. Guð hegðar sér ekki eins og kaldlyndur uppalandi. Guð kallar til okkar í þjáðum systrum og bræðrum, kallar okkur til mennskunnar. Í veinum fólks á þurrkasvæðum heimsins hljómar rödd Guðs. Í gráti fólks á stríðshrjáðum svæðum er Guð. Í stunum misnotaðra kvenna um allan heim hvíslar Guð. Í vanlíðan sjúks fólks í húsinu við hliðina á þér biður Guð um aðstoðarfólk. Í vanlíðan barna á lemstruðum heimilum er Guð að biðla til þín. Í fréttabréfi Hjálparstarfs kirkjunnar og fréttum fjölmiðla spyr Guð, hvort þú getir axlað einhverja ábyrgð og hver mennska þín sé. Í réttindakröfum kvenna um allan heim hvíslar Guð. Lifum vel og með ábyrgð.

Köll til lífs

Strákur keyrði niður Miklubrautina á nýjum sportbíl. Aðrir bílstjórar hægðu á sér til að virða fyrir sér bílinn. Allt í einu skall steinn á bílnum. Ökumaðurinn snöggreiddist, beygði uppá grasbalann og rauk út til að góma grjótkastarann. Það var auðvelt. Lítill strákur var skammt frá og ökumaðurinn rauk til hans og æpti. „Af hverju ertu að henda grjóti í bílinn.” Drengurinn var hræddur. „Fyrirgefðu, ég var búinn að kalla svo lengi og enginn kom. Bróðir minn er lamaður og er í hjólastól. Við vorum þarna á milli grenitrjánna og hjólastóllinn datt og bróðir minn liggur á jörðinni. Við gátum ekki komið honum upp í stólinn. Geturðu hjálpað okkur?” Það var ekki skemmdarfýsn að baki grjótkastinu. Með samanbitnar varir lyfti bíleigandinn lömuðum dreng í stólinn og horfði svo á eftir bræðrunum. Hann sá lakkskemmdina og lét ekki gera við hana fyrr en fór að ryðga undan. Hann notaði beygluna til að minna sig á hvað máli skipti í lífinu.

Hver eru ítökin uppi og hvað sérðu allt í kringum þig? Hlustaðu eftir fréttunum, hlustaðu á köllin í heiminum, hlustaðu á hvíslið hið innra í þér. Guð er að kalla til þín. Raddir heimsins eru Guðsraddirnar. Þegar þú heyrir í Guði í heiminum og skilur samhengið hefur þú líka sinnt ferðaundirbúningi í tíma þegar hinn skyndilegi dauði kemur.

A – Lúk. 16. 19-31 Hallgrímskirkja 19. júní, 2022. 1. sd. eftir þrenningarhátíð og kvenréttindadagurinn. 

Eftirlýstur

Fyrir þremur vikum slapp fangi úr haldi lögreglu við dómhúsið við Lækjartorg og hljóp lögregluna af sér. Lýst var eftir honum og leitin var áköf. Saklaus unglingur varð m.a. tvisvar fyrir að lögreglan hélt að hann væri hinn eftirlýsti sakamaður. „Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig.” Það var lýsingin á fangamissi og fangafundi. Eftirlýstur – og þessir viðburðir rifjuðu upp fyrir mér hálfrar aldar eftirlýsingu, auglýsingaplakat, sem við, unglingarnir í Neskirkju, gerðum af miklum metnaði. Þetta var á hippaárunum þegar Jesúfólkið erlendis hélt á lofti myndum af öðru vísi Jesú en í kirkjunum. Það voru myndir af andófsjesú, þessum sem þorði að vera öðru vísi. Og þannig hafði Jesús verið en rímaði líka við draum og hugsjónir fólks um ábyrgð í samfélagi, þor til að vera í samræmi við dýpri viðmið. Svo var sá Jesús auðvitað líka vörpun á draumum okkar unglinganna, sem gerðum uppsteit gegn foreldrum og uppreisn gegn hátterni eldri kynslóðarinnar. Svoleiðis uppreisnarjesús var spennandi. Eftirlýstur Jesús Kristur.

Þetta var snemma vors árið 1972 og efnt var til „Jesúmessu“ í Neskirkju við Hagatorg. Prestur og æskulýðsleiðtogar kirkjunnar virkjuðu okkur ungviðið til verka og hvöttu til dáða. Við Jónas Þórir, síðar organisti og tónlistarjöfur, vorum stórhuga og efndum til hátíðar unga fólksins á fyrsta sunnudagskvöldinu í mars. Það voru engin vandræði með kirkjusóknina. Unglingarnir í hverfinu komu og fylltu kirkjuna. Yfirskriftin var: Eftirlýstur Jesús Kristur. Fjöldi unglinga ræddi um trú sína, las ljóð, söng og spilaði. Kalli Sighvats í Trúbrot lánaði Hammondorgel sitt, sem var þá Rollsinn í poppheiminum. Hammondinn bilaði þó reyndar í miðju lagi, okkur Jónasi Þóri, sem stýrðum samkominni, til mikillar hrellingar. Sóknarnefndin var talsvert stressuð yfir látunum og aðsókninni og óttaðist að allt færi úr böndum. En okkur Jónasi Þóri var þó treyst og við höfðum m.a. hannað og fengið prentað plakat til auglýsinga, til dreifingar í hverfinu og upphenginga í kirkjunni. Þetta var flott plakat með lýsingum á hinum eftirlýsta rétt eins og krimma í villta vestrinu. Eftirlýstur Jesús Kristur. Svo var þarna líka felumynd af Jesú. Plakatið vakti mikla hrifningu og prentað í mörgum grunnlitum. Það lá við slagsmálum í lokin þegar fólk fékk að ná sér í eintak af vegg kirkjunnar. Þessi plaköt voru síðan hengd upp í hundruðum unglingaherbergja í Reykjavík.

Eftirlýstur Jesús Kristur. Á öllum tímum er hann eftirlýstur; um hann rætt; hvort hann sé týndur eða dáinn; hvort hann tengist samtímanum; hvers eðlis tengslin við hann geti verið og hvaða gildi hann hafi á hverri tíð. Í dag verður málþing í Hallgrímskirkju um málefni fanga og tilgang fangavistar. Fangar og Jesús eiga reyndar margt sameiginlegt, m.a. að hafa verið stungið í steininn! Jesús komst reyndar út úr grjótinu og fangar vilja eiga afturkvæmt úr fangelsi, ekki aðeins úr húsi heldur líka til frelsis, nýrra möguleika og nýs lífs í samfélagi fólks. Fangar vilja fá að lifa upprisu í eigin lífi.

Að sjá og sjá ekki

Texti guðspjallsins er um eftirlýsingu. Það var auðvitað alveg rétt hjá Jesú sem hann sagði við vini sína, lærisveinana: „Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig.” Þessir samverkamenn Jesú skildu ekki orð hans fyrr en þeir sáu heildarmyndina löngu síðar. „Þið sjáið mig ekki en svo munuð þið sjá mig að nýju.“ Hvað átti Jesús við með þessu? Hvað meinti hann með að hann færi til föðurins og kæmi svo til baka? Jesús áttaði sig á að alls konar falsfréttir breiddust út. Jesús bað því fólk að að hlusta vel. Sjálfur vissi hann að hann var eftirlýstur af yfirvöldum. Stjórnvöld vildu ná honum og ekki aðeins stinga honum í steininn, heldur beinlínis ryðja honum úr vegi. En Jesús Kristur sá lengra. Hann þekkti framvinduna og vissi að meira væri í vændum en pyntingar og aftaka. Síðan skýrði hann út fyrir lærisveinunum hvað það merkti að innan skamms myndu þeir ekki sjá hann en svo innan skamms sæju þeir að nýju. Það yrði þeim sorgarefni þegar hann færi og þau, sem vildu hinni ungu hreyfinu Jesú Krists illt, myndu fagna. En líkt og við barnsfæðingu er fagnað þegar barnið er fætt og lifir getur hið vonda orðið til góðs.

Jesúmyndir

Á plakatinu sem prentað var fyrir Neskirkju fyrir fimmtíu árum var mynd af Jesú Kristi. Það var felumynd, sem varð ekki sýnileg eða augljós nema fólk staldraði við og skoðaði vel. Hún á sér þá sögu að ljósmyndari var að taka myndir af bráðnandi snjó að vori. Þegar hann fixeraði myndirnar sá hann allt í einu hvernig mannsmynd birtist á ljósmyndablaðinu. Það var mynd af síðhærðum, che guevarískum, skeggjuðum Jesú Kristi. Þetta var ekki það sem myndasmiðurinn átti von á og honum varð svo mikið um að sjá þennan Jesú Krist birtast sér við framköllunina að myndbirtingin breytti lífi hans.

Plakat okkar unglinganna í Neskirkju vakti hrifningu. Plakatið var tvírætt, kveikti í fólki og virkjaði ímyndunaraflið. Svo var Jesús Kristur eftirlýstur. Þannig er hann á hverri tíð. Sumir vilja Jesú Krist dauðan eða úthýsa honum úr lífi og menningu. En aðrir gera sér grein fyrir að Guð er uppspretta lífs. Í krafti Jesú Krists er allt líf þessa safnaðar. Í hans mætti störfum við prestar og starfsmenn þessarar kirkju. Í krafti mannvinsemdar Jesú Krists lýsum við eftir góðu samfélagi, mýkt í tengslum og ábyrgð í afstöðu til fólks, náttúru og heims. Hvað merkir að sjá ekki Jesú lengur? Hvenær sjáum við hann og með hvað móti sjáum við hann eins og hann er? Er Jesús Kristur lifandi bróðir og samfylgdarmaður? Eða er hann eftirlýstur? Hvaða hlutverki gegnir Jesús Kristur í lífi þínu? Hver er Jesúmyndin í þínum huga?

Við erum eftirlýst

Við höfum tilhneigingu til að hengja þungar byrðar lífsins á þunna þræði. Það sem við höldum að geri okkur hamingjusöm slítur oft böndin. Þá verða áföll sem oft valda innanmeinum. Við þurfum að læra listina að greina hvað er raunverulega til hamingju, friðar, gleði og farsældar og hengja þau gæði ekki á þunna þræði. Hver er þrá þín? Eftir hverju lýsir þú í lífinu? Eftir hverju sækist þú? Hvernig væri að skoða mál lífsins með nýjum hætti? Við getum og megum gjarnan snúa öllu við og hugsa út frá betri forsendum og róttækari sjónarhóli. Jesús Kristur er ekki eftirlýstur heldur lýsir eftir okkur og að við sjáum hans ljós og lifum í því ljósi. Við erum eftirlýst. Guð vill vera okkar vinur og tengjast okkur ástarböndum. Það eru hin þykku bönd sem hvorki fangelsa né bresta á álagstímum. Þráðurinn að ofan. Lífsbönd ástar og umhyggju. Amen. 

Prédikun í Hallgrímskirkju, 8. maí, 2022, 3. sunnudag eftir páska.

 

Rósir og páskar

Kristur er upprisinn. Kristur er sannarlega upprisinn.

Skammt frá München í Þýskalandi er Dachau. Þar voru fangabúðir sem nazistar notuðu til að aflífa fólk. Þegar ég kom til München í fyrsta sinn fór ég líka til Dachau. Ég vissi ímislegt um búðirnar. Starfskona á háskólabókasafni í Nashville hafði sagt mér sögur af ættingjum hennar sem höfðu dáið þar og svo fann hún til bækur sem nýttust í námskeiði sem ég sótti. Það er reyndar sálarslítandi að lesa helfararfrásagnir, hvort sem er úr fortíð eða nútímasögur frá Úkraínu, sem halda stíft að manni grimmd og illmennsku. Meðal þess sem ég las á Þýskalandstíma var viskubókin Leitin að tilgangi lífsins. Höfundurinn, Viktor Frankl, var um tíma fangi í Dachau-búðunum. Yfir hliðinu þar stóð: Arbeit macht frei – vinna er til frelsis. En veruleikinn var annar og myrkari hinum megin hliðs og innan girðingar. Auk Gyðinganna höfðu margir pólitískir fangar verið þar vistaðir, fólk sem hafði það eitt til saka unnið að vera ósammála stefnu valdhafa Þýskalands. Meðal þeirra var hinn merki prestur Martin Niemöller, en Sigurbjörn Einarsson þýddi stólræður hans meðan Sigurbjörn var prestur hér á Skólavörðuholtinu.

Skálarnir, húsin og minnismerki Dachau-búðanna sögðu hljóðláta sögu sem var ávirk þeim sem höfðu næði til að hlusta á nið sögunnar og höfðu einhver tengsl við hana. Sláandi var minnismerkið um kristna menn, sem höfðu dáið á þessum stað. Það var róða, Jesús Kristur hékk á krossinum. Þetta var kaghýddur og vannærður Jesús, bróðir harmkvælamanna. Gyðingaminnisvarðinn er hús en í mynd stórs bjargs. Til að komast inn í þá byggingu varð að fara niður í jörðina og þegar inn var komið sást að veggirnir voru bognir en komu saman á einum stað. Veggir og loft hækkuðu til þeirrar áttar, sem veggir komu saman. Þar var því hæst. Augu leituðu upp og hátt uppi var hringlaga op. Þar sást upp í himininn . Öll var byggingin myrk, tilfinningin fyrir grjóti var sterk. Þetta var eins og grafhvelfing. Umhverfi hins dána Jesú leitaði á hugann. Ein ljósleið var þarna og það var leiðin upp í himininn. Sjónlínan var sem vonarslóð – páskaleiðin.

Rósir

Á skírdagskvöldinu var altari þessarar kirkju strípað og borðbúnaður veislu himinsins fjarlægður og borinn út. Fimm rósir voru lagðar á altarið til tákns um síðusár Jesú Krists. Blómin liðu langan föstudag í kirkjunni. Nekt altarisins var sem tákn um hörmungar í lífinu. Allir menn verða einhvern tíma fyrir andstreymi, sorg og áföllum. Að flýja og grafa ógæfu og sorgarefni hefur aldrei verið gæfulegt ráð eða til bóta. Japanska skáldið, Miyasawa Kenji, benti á eins og vitringar aldanna, að til að vinna sigur á þjáningu megum við menn ekki flýja, heldur ættum fremur að viðurkenna hana, umfaðma og nýta síðan til lífsbóta. Í þessu er fólgin mikilvæg leiðarlýsing til góðs. Kenji orkti ljóð um rósaburð. Í einfaldri samantekt segir í ljóðinu: Ímyndaðu þér að þú haldir á fölnuðum, dauðum rósum. Þyrnarnir stinga og freistandi er að sleppa særandi blómunum. En í stað þess að gefast upp gengurðu af stað og í átt að eldstæðinu. Þú hendir rósavendinum í eldinn. Í þeim kviknar. Eldurinn lifnar, vermir og lýsir.

Í þessum rósaburði birtast stig sorgarvinnu. Hið fyrsta er að viðurkenna vanda, ganga síðan með hann og varpa honum í eldinn. Allir, sem hafa átt við eldstæði í köldu rými, kannast við hve vermandi er þegar eldur lifnar, hiti vex og lífsaðstæður batna. Rósaburðurinn er ferli manna í bata og við getum notað það ferli til innsæis á afstöðu Guðs. Rósaburðurinn getur hjálpað okkur til að sjá líf og veröld frá sjónarhóli Guðs. Rósir eru sem tákn heimsins. Guð viðurkennir vanda veraldar, tekur menn og heim í fangið eins og rósabúnt – faðmar veröldina, leggur af stað með meinvaldinn, heldur út sársaukann, fer alla leið og sleppir síðan öllu sem særir. Bálið lifnar, lausn verður, meinið er frá, lífið lagast. Glóðin lifnar, eldur funar, hiti vex til hagsbóta fyrir líf í vanda og sorg. Páskar eru undur himinsins eftir að gert hefur verið upp við sorg og höfnun. Því hefur verið eytt sem menn ollu. Allt böl er uppgert, reikningar sléttaðir og lífið bætt. Mál mannheima hefur verið gert upp í máli guðsheima.

Heimssýn

Hvað hefur reynst þér erfiðast í lífi þínu? Þínir föstudagar eiga sér samfellu í máli bænadaganna. Nú er allt nýtt, allt er breytt. En hefur eitthvað breyst? Hver er heimssýn þín? Fjöldi fólks sér í páskviðburðinum ekkert annað en óra, viðurkennir ekki boðskap sjónarvotta og allra þeirra sem sáu hinn látna Jesú Krist lifandi. Hvaða skoðun hefur þú á páskamálinu að lífið lifir? Allir þeir sem aðhyllast lokaða og sjálfstilvísandi heimsmynd viðurkenna ekki annað líf en það sem efnisvísindi geta staðfest. Þar með er öllu hafnað sem er utan seilingar fræðanna. Slíkir menn munu aldrei viðurkenna upprisu nema sem óefnislegan upplifunarþátt, tilfinningamál og blekkingu. Jesús Kristur hafi ekki risið upp nema í tilbeiðslu frumkristninnar. Líkami hans hafi rotnað, en andi hans orðið til vegna samsinnis, samtals, samfélags og samskynjunar. Allt annað megi síðan skýra og túlka með hjálp mannvísinda, t.d. fagurfræði, sálfræði, mannfræði og félagsvísindum og hafi ekkert með efnisvísindi að gera.

En þótt menn skilgreini vísindi þröngt er ástæðulaust að smætta heiminn. Óþarft er að þrengja túlkun heims. Við megum leyfa okkur að vera opin gagnvart öðrum víddum en hinum efnislegu. Raunvísindi hafa ekkert með að gera hvort Guð er til eða ekki, hvort tilgangur ríki í veröldinni eða ekki og hvort ástin eigi sér djúpa skírskotun handan æxlunarþarfa. Raunvísindi geta ekkert sagt um Guð og eiga ekkert að segja um þann veruleika, sem er og má vera utan seilingar þeirra. Ef Guð er ekki til eru engir páskar. En ef Guð er til og elskar þig og heiminn er von. Í því ljósi nálgast kristinn maður boðskap páskanna. Á þeim forsendum túlka ég líf og nálgun Guðs í boðskap um að Jesús Kristur lifnaði og birtist. Mér hefur verið innrætt í háskólaheiminum að gera kröfur til fræða, en ég held að það séu skottuvísindi sem krefjast þess, að Jesús Kristur liggi enn í gröf sinni. Slík fræði eru á villigötum.

Sjónarhóll

Í lestinni frá München til Dachau voru með mér í klefa nokkur ungmenni. Þau sögðu mér að þau væru á lestarreisu í Evrópu. Þegar inn í búðirnar kom fóru þau hraðar yfir en ég og voru snögg að skoða fábrotna svefnskálana. Þau sögðu hissa hvert við annað: „Hér er ekkert að sjá.” Þau settust niður og fengu sér smók og fóru svo. Þau sáu aldrei neitt annað en nakta skála og nokkrar byggingar. Þau sáu aldrei hinn krossfesta, sáu aldrei grafarminnismerkið um Gyðingana, þetta með ljósopinu til himins. Þau höfðu ekkert heyrt um þennan stað annað en að þetta hefðu verið fangabúðir. Þau voru snögg að sjá að það var ekkert að sjá. Það var ekkert gert til að auka áhrifin, sem aðeins voru í huga þeirra sem komu. Ef maður vill ekki sjá sér maður ekkert, fær sér bara sígó og fer svo.

Svo er það með líka með páska. Við getum orðið föst í kyrruviku lífsins, misst sjónar á hve dramatískt lífið er, farið á mis við að skoða möguleika í lífi okkar og lífshætti. Við getum tamið okkur lokaða heimssýn í stað opinnar. Við getum orðið föst í einhverri sprungu föstudagsins langa eða lokast á laugardegi og aldrei upplifað páska. Páskarnir eru opnun, að horfa upp, komast upp úr byrginu, að sjá að bjargið sem hefur verið okkur farartálmi eða fyrirstaða er farið og hefur verið velt frá. Okkur getur jafnvel lánast að sjá engil sitjandi á grjótinu. Boðskapur hans er: Jesús er ekki hér, hann er farinn, hann er farinn á undan ykkur, farin heim! Það merkir að lífið er stórkostlegt. Guð er annarrar víddar en við en þó nálægur. Það merkir líka að þú ert svo mikils virði að Guð er alltaf með þér, Guð vill vera með þér í stóru og smáu.

Guð hefur þegar lagt sprekin á eldinn og ljósið leikur um veröldina. Frá erkiarni heimsins leggur bæði hita og ljós. Það er til að efla lífsgæði okkar allra. Hver sem þú ert, hvað sem þú hefur gert, hvernig sem þú hefur iðjað, hversu djúpt sem þú hefur sokkið, hversu miklar sem raunir þínar hafa orðið er samt ljós þarna uppi. Von. Það ljós er úr arni himinsins, sem yljar allri veröld. Þú ert minn og ég er þinn er mál þeirrar birtu og elsku. Við upphaf heims sagði Guð: Verði ljós. Í starfi og lífi Jesú Krists var það endurtekið. Í þínu lífi, líka í myrkrinu, er hvíslað: „Verði ljós.“ Það er mál upprisunnar. Dauðinn dó en lífið lifir.

Kristur er upprisinn – Kristur er sannarlega upprisinn.

Páskadagur 17. apríl, 2022.