Greinasafn fyrir flokkinn: Prédikanir

Nálgast má eldri prédikanir mínar á tru.is Þar eru 267 prédikanir. Slóðin er þessi: https://kirkjan.is/kirkjan/tru.is/$PreachesListAdvanced/Index/?types=pistlarogpostillur&authorid=916cc6c9-cdbe-4136-a5c0-c57c836eb8fe&query=

Rósir og páskar

Kristur er upprisinn. Kristur er sannarlega upprisinn.

Skammt frá München í Þýskalandi er Dachau. Þar voru fangabúðir sem nazistar notuðu til að aflífa fólk. Þegar ég kom til München í fyrsta sinn fór ég líka til Dachau. Ég vissi ímislegt um búðirnar. Starfskona á háskólabókasafni í Nashville hafði sagt mér sögur af ættingjum hennar sem höfðu dáið þar og svo fann hún til bækur sem nýttust í námskeiði sem ég sótti. Það er reyndar sálarslítandi að lesa helfararfrásagnir, hvort sem er úr fortíð eða nútímasögur frá Úkraínu, sem halda stíft að manni grimmd og illmennsku. Meðal þess sem ég las á Þýskalandstíma var viskubókin Leitin að tilgangi lífsins. Höfundurinn, Viktor Frankl, var um tíma fangi í Dachau-búðunum. Yfir hliðinu þar stóð: Arbeit macht frei – vinna er til frelsis. En veruleikinn var annar og myrkari hinum megin hliðs og innan girðingar. Auk Gyðinganna höfðu margir pólitískir fangar verið þar vistaðir, fólk sem hafði það eitt til saka unnið að vera ósammála stefnu valdhafa Þýskalands. Meðal þeirra var hinn merki prestur Martin Niemöller, en Sigurbjörn Einarsson þýddi stólræður hans meðan Sigurbjörn var prestur hér á Skólavörðuholtinu.

Skálarnir, húsin og minnismerki Dachau-búðanna sögðu hljóðláta sögu sem var ávirk þeim sem höfðu næði til að hlusta á nið sögunnar og höfðu einhver tengsl við hana. Sláandi var minnismerkið um kristna menn, sem höfðu dáið á þessum stað. Það var róða, Jesús Kristur hékk á krossinum. Þetta var kaghýddur og vannærður Jesús, bróðir harmkvælamanna. Gyðingaminnisvarðinn er hús en í mynd stórs bjargs. Til að komast inn í þá byggingu varð að fara niður í jörðina og þegar inn var komið sást að veggirnir voru bognir en komu saman á einum stað. Veggir og loft hækkuðu til þeirrar áttar, sem veggir komu saman. Þar var því hæst. Augu leituðu upp og hátt uppi var hringlaga op. Þar sást upp í himininn . Öll var byggingin myrk, tilfinningin fyrir grjóti var sterk. Þetta var eins og grafhvelfing. Umhverfi hins dána Jesú leitaði á hugann. Ein ljósleið var þarna og það var leiðin upp í himininn. Sjónlínan var sem vonarslóð – páskaleiðin.

Rósir

Á skírdagskvöldinu var altari þessarar kirkju strípað og borðbúnaður veislu himinsins fjarlægður og borinn út. Fimm rósir voru lagðar á altarið til tákns um síðusár Jesú Krists. Blómin liðu langan föstudag í kirkjunni. Nekt altarisins var sem tákn um hörmungar í lífinu. Allir menn verða einhvern tíma fyrir andstreymi, sorg og áföllum. Að flýja og grafa ógæfu og sorgarefni hefur aldrei verið gæfulegt ráð eða til bóta. Japanska skáldið, Miyasawa Kenji, benti á eins og vitringar aldanna, að til að vinna sigur á þjáningu megum við menn ekki flýja, heldur ættum fremur að viðurkenna hana, umfaðma og nýta síðan til lífsbóta. Í þessu er fólgin mikilvæg leiðarlýsing til góðs. Kenji orkti ljóð um rósaburð. Í einfaldri samantekt segir í ljóðinu: Ímyndaðu þér að þú haldir á fölnuðum, dauðum rósum. Þyrnarnir stinga og freistandi er að sleppa særandi blómunum. En í stað þess að gefast upp gengurðu af stað og í átt að eldstæðinu. Þú hendir rósavendinum í eldinn. Í þeim kviknar. Eldurinn lifnar, vermir og lýsir.

Í þessum rósaburði birtast stig sorgarvinnu. Hið fyrsta er að viðurkenna vanda, ganga síðan með hann og varpa honum í eldinn. Allir, sem hafa átt við eldstæði í köldu rými, kannast við hve vermandi er þegar eldur lifnar, hiti vex og lífsaðstæður batna. Rósaburðurinn er ferli manna í bata og við getum notað það ferli til innsæis á afstöðu Guðs. Rósaburðurinn getur hjálpað okkur til að sjá líf og veröld frá sjónarhóli Guðs. Rósir eru sem tákn heimsins. Guð viðurkennir vanda veraldar, tekur menn og heim í fangið eins og rósabúnt – faðmar veröldina, leggur af stað með meinvaldinn, heldur út sársaukann, fer alla leið og sleppir síðan öllu sem særir. Bálið lifnar, lausn verður, meinið er frá, lífið lagast. Glóðin lifnar, eldur funar, hiti vex til hagsbóta fyrir líf í vanda og sorg. Páskar eru undur himinsins eftir að gert hefur verið upp við sorg og höfnun. Því hefur verið eytt sem menn ollu. Allt böl er uppgert, reikningar sléttaðir og lífið bætt. Mál mannheima hefur verið gert upp í máli guðsheima.

Heimssýn

Hvað hefur reynst þér erfiðast í lífi þínu? Þínir föstudagar eiga sér samfellu í máli bænadaganna. Nú er allt nýtt, allt er breytt. En hefur eitthvað breyst? Hver er heimssýn þín? Fjöldi fólks sér í páskviðburðinum ekkert annað en óra, viðurkennir ekki boðskap sjónarvotta og allra þeirra sem sáu hinn látna Jesú Krist lifandi. Hvaða skoðun hefur þú á páskamálinu að lífið lifir? Allir þeir sem aðhyllast lokaða og sjálfstilvísandi heimsmynd viðurkenna ekki annað líf en það sem efnisvísindi geta staðfest. Þar með er öllu hafnað sem er utan seilingar fræðanna. Slíkir menn munu aldrei viðurkenna upprisu nema sem óefnislegan upplifunarþátt, tilfinningamál og blekkingu. Jesús Kristur hafi ekki risið upp nema í tilbeiðslu frumkristninnar. Líkami hans hafi rotnað, en andi hans orðið til vegna samsinnis, samtals, samfélags og samskynjunar. Allt annað megi síðan skýra og túlka með hjálp mannvísinda, t.d. fagurfræði, sálfræði, mannfræði og félagsvísindum og hafi ekkert með efnisvísindi að gera.

En þótt menn skilgreini vísindi þröngt er ástæðulaust að smætta heiminn. Óþarft er að þrengja túlkun heims. Við megum leyfa okkur að vera opin gagnvart öðrum víddum en hinum efnislegu. Raunvísindi hafa ekkert með að gera hvort Guð er til eða ekki, hvort tilgangur ríki í veröldinni eða ekki og hvort ástin eigi sér djúpa skírskotun handan æxlunarþarfa. Raunvísindi geta ekkert sagt um Guð og eiga ekkert að segja um þann veruleika, sem er og má vera utan seilingar þeirra. Ef Guð er ekki til eru engir páskar. En ef Guð er til og elskar þig og heiminn er von. Í því ljósi nálgast kristinn maður boðskap páskanna. Á þeim forsendum túlka ég líf og nálgun Guðs í boðskap um að Jesús Kristur lifnaði og birtist. Mér hefur verið innrætt í háskólaheiminum að gera kröfur til fræða, en ég held að það séu skottuvísindi sem krefjast þess, að Jesús Kristur liggi enn í gröf sinni. Slík fræði eru á villigötum.

Sjónarhóll

Í lestinni frá München til Dachau voru með mér í klefa nokkur ungmenni. Þau sögðu mér að þau væru á lestarreisu í Evrópu. Þegar inn í búðirnar kom fóru þau hraðar yfir en ég og voru snögg að skoða fábrotna svefnskálana. Þau sögðu hissa hvert við annað: „Hér er ekkert að sjá.” Þau settust niður og fengu sér smók og fóru svo. Þau sáu aldrei neitt annað en nakta skála og nokkrar byggingar. Þau sáu aldrei hinn krossfesta, sáu aldrei grafarminnismerkið um Gyðingana, þetta með ljósopinu til himins. Þau höfðu ekkert heyrt um þennan stað annað en að þetta hefðu verið fangabúðir. Þau voru snögg að sjá að það var ekkert að sjá. Það var ekkert gert til að auka áhrifin, sem aðeins voru í huga þeirra sem komu. Ef maður vill ekki sjá sér maður ekkert, fær sér bara sígó og fer svo.

Svo er það með líka með páska. Við getum orðið föst í kyrruviku lífsins, misst sjónar á hve dramatískt lífið er, farið á mis við að skoða möguleika í lífi okkar og lífshætti. Við getum tamið okkur lokaða heimssýn í stað opinnar. Við getum orðið föst í einhverri sprungu föstudagsins langa eða lokast á laugardegi og aldrei upplifað páska. Páskarnir eru opnun, að horfa upp, komast upp úr byrginu, að sjá að bjargið sem hefur verið okkur farartálmi eða fyrirstaða er farið og hefur verið velt frá. Okkur getur jafnvel lánast að sjá engil sitjandi á grjótinu. Boðskapur hans er: Jesús er ekki hér, hann er farinn, hann er farinn á undan ykkur, farin heim! Það merkir að lífið er stórkostlegt. Guð er annarrar víddar en við en þó nálægur. Það merkir líka að þú ert svo mikils virði að Guð er alltaf með þér, Guð vill vera með þér í stóru og smáu.

Guð hefur þegar lagt sprekin á eldinn og ljósið leikur um veröldina. Frá erkiarni heimsins leggur bæði hita og ljós. Það er til að efla lífsgæði okkar allra. Hver sem þú ert, hvað sem þú hefur gert, hvernig sem þú hefur iðjað, hversu djúpt sem þú hefur sokkið, hversu miklar sem raunir þínar hafa orðið er samt ljós þarna uppi. Von. Það ljós er úr arni himinsins, sem yljar allri veröld. Þú ert minn og ég er þinn er mál þeirrar birtu og elsku. Við upphaf heims sagði Guð: Verði ljós. Í starfi og lífi Jesú Krists var það endurtekið. Í þínu lífi, líka í myrkrinu, er hvíslað: „Verði ljós.“ Það er mál upprisunnar. Dauðinn dó en lífið lifir.

Kristur er upprisinn – Kristur er sannarlega upprisinn.

Páskadagur 17. apríl, 2022.

Brauð lífsins

Ég spurði móður mína einu sinni hvort hún hefði einhvern tíma fengið svo lítið að borða í uppvextinum að hún hefði svelt. Hún svaraði neitandi og sagðist vera af fyrstu kynslóð Íslendinga sem hefði ekki soltið. En foreldrar hennar hefðu oft verið svöng. Og afi og amma pabbamegin hefðu soltið líka. Hún minnti mig svo á að það væri ástæða fyrir því að í Faðirvorinu er beðið: „Gef oss í dag vort daglegt brauð.“

Hungur er skelfilegt og hefur fylgt mannkyninu allar aldir. Það er hræðilegt þegar fólk sveltur. Daglegt brauð, sultur aldanna, hungur heimsins. Þessar vikur lifum við bakfall í tíma. Vegna Pútínstríðsins er brauðskortur allt í einu yfirvofandi í veröldinni. Hveitiverð hefur skyndilega hækkað ógnvænlega síðustu daga. Hveitiskortur verður víða í heiminum á þessu ári, jafnvel brauðþurrð. Úkraína og Rússland eru ekki aðeins brauðkörfur Evrópu heldur heimsins einnig. Hveitið sem þar er ræktað er mikilvægt allri heimsbyggðinni. Ársásarstríð Pútínstjórnarinnar drepur ekki aðeins fólk og sprengir hús heldur skaddar brauðgerð alls heimsins. Pizzubakstur veraldar mun raskast en er þó ekki aðalvandinn, heldur að hungrið. Sultur mun læðast um veröldina og sérstaklega meðal öreiganna. Þau sem eru fátæk og á jarðrinum munu svelta. Við munum borga meira fyrir hveitið en hin fátæku munu ekki hafa efni á pizzum, súrdeigsbrauði, rúnnstykkjum, pítubrauði eða bara einföldu venjulegu brauði.

Kornþurrð og hveitiskortur er í nútíð eins og í fornöld alvörumál. Jesús kenndi okkur að minna Guð á daglega brauðið. „Gef oss í dag vort daglegt brauð.“ Þegar kornuppsprettan íPalestínu brást svalt fólk og dauðinn kom í kjöfarið. En þegar kornakrar náðu þroska var víst, að allir myndu njóta næringar og lifa. Brauð er tákn lífs. Ólíkt Pútín er Jesú ekki minnst fyrir stríð, heldur fyrir að gefa fólki mat og drykk. Hann gaf og útdeildi brauði, kenndi gjafmildi og að við værum systkin sem bærum sameiginlega ábyrgð. Hann bauð fólki að gefa með sér. Brauð handa hungruðum heimi er stefna kristinna manna. Ölturu í kirkjum minna á, að allir þarfnast næringar, ekki aðeins andlegrar heldur líkamlegrar einnig, venjulegrar fæðu, sem gerir fólki gott. Að allir fái að borða og lifa vel er hinn kristni boðskapur. Það eru mannréttindi að allir fái notið friðar og fæðu. Svo róttækt er erindi kristninnar og svo árangurstengt er það líf, sem okkur er boðið að lifa. Þegar við brjótum brauðið í kirkjunni boðum við frið, frelsi, réttlæti og mannvirðingu. Það er sprengikraftur í því táknræna atferli. Einfaldur gjörningur en varðar alla heima, víddir og veraldir.

Brauðundur á fjalli

Texti dagsins er í sjötta kafla Jóhannesarguðspjalls. Sagt er frá útihátíð norður í landi, hátíð sem nærri því endaði með ósköpum. Fyrirhyggjuleysið var talsvert og maturinn búinn. Mótshaldararnir urðu verulega skelkaðir og vissu ekki hvernig væri hægt að leysa málið. Kostnaðurinn við matarkaup var nærri árslaun og fjárráðin voru lítil samkvæmt budduskoðun lærisveinanna. Sagan greinir frá því, að Jesús notaði tækifæri til kennslu í lífsleikni. Ungur drengur eða þræll var vel nestaður. Í poka hans voru fimm byggbrauð og tveir fiskar. Þetta blessaði Jesús og lagði saman. Útkoman af tveir plús fimm var ekki sjö, heldur matur fyrir fimm þúsund karla auk ótilgreinds fjölda kvenna og barna. Öll guðspjöllin segja margföldunarsöguna en með mismunandi móti. Jóhannesarguðspjall segir Jesúsöguna ávallt með sínum ákveðna hætti. Tvendir einkenna þetta guðspjall. Í því er ógjarnan sagt frá bara einu heldur fremur pörum í spennu. Ekki er bara talað um ljós, heldur par ljóss og myrkurs. Lífsáhersla guðspjallsins er í andófi gegn dauða. Svo er trú rædd með vísan til veruleika vantrúar. Jóhannes var dramadrottinn. Tilgangur þessa dramatíska ofurstíls guðspjallins er að beina sjónum fólks til Jesú, að gera sér grein fyrir að í honum var og er lausn lífsgátunnar, ljós í myrkri, sannleikurinn.

Á fjallinu með fólkinu

Fólkið á fjallinu var komið með sultarverk. Þau vissu að enginn skyndibitastaður var í nágrenninu, engar pítur eða pizzur. Svo báru Jesúsveinarnir körfur um og útdeildu fátækrabrauði og fiskmeti líka. Nóg handa öllum. Gyðingar þekktu sögu sína og vissu, að svona máltíðarundur vísaði beint til sögu hungraðra hebrea á leið frá Egyptalandi og um eyðimörk. Til þeirra hungruðu ferðalanga fauk brauðefni af himni. Inntak mettunarsögunnar í eyðimörkinni var að þegar kraftaverk yrði og fólk fengi að borða væri Guð að baki undrinu.

Þegar allir verða svo mettir er farið að hugsa um hvað eigi að gera við undramanninn, sem margfaldaði brauð og fisk. Ekki vissu þau að hann yrði brátt krossfestur, hæddur og deyddur. Þau þekktu ekki sögu Vesturlanda í kjölfar reynslunnar af lífgun hans. Ekki gátu þau ímyndað sér kenningarnar um hann, sem heimsbyggðin býr við. Hver var þessi Jesús? Hann var flottur í brauðgerðinni. Hann gæti kannski orðið fínn landbúnaðarráðherra, nema bara fyrir þá sök, að hann gerir sig sekan um offramleiðslu. Hvað gerir saddur múgur við mann, sem hefur gefið þeim brauð og sögur? Jú, hyllir og vill gera hann að leiðtoga, jafnvel að einvaldi. En þegar menn ætluðu að krýna hann hvarf hann bara. Þegar menn vildu veita Jesú Kristi veraldarvöld gufaði hann upp. Jesús hafði engan áhuga á valdi þessa heims. Hann var ekki, er ekki og verður ekki eins og Hitler, Stalín og Pútín.

Jesús gefur lífið

Þegar Jóhannesarfrásögnin er skoðuð sést, bæði í guðspjallstexta dagsins og líka í öllum sjötta kaflanum, að Jesús túlkar líf sitt og tilveru með ákveðnu móti. Í þessum kafla segir hann um sig: „Ég er brauð lífsins.” Það merkir hvorki meira né minna en að Jesús efli líf. Hann er forsenda lífs og næring þess lífs. Hvaða afstöðu höfum við til hans? Trúum við því eða er Jesús eitthvað annað, t.d. góðmenni, siðferðisviðmið eða spekingur?

Samfélagsmyndun – hópur – kirkja

Annað stóratriði í þessum texta er, að lífgjöf Jesú hefur félagslegar afleiðingar. Jesús skapar hópkennd, tengir fólk saman og hvetur til að fólk líti á sig sem einn lífshóp. Það hefur líka afleiðingar í starfi kirkjunnar. Öllum, sem koma í þessa kirkju, er ljóst að borðið í kirkjunni, altarið, er miðja hússins. Altarisgangan er endurtekning máltíðar á fjallinu, máltíðum Jesú, þegar hann braut og brýtur brauðið og gefur sínum lærisveinum. Sú máltíð er máltíð hans. Þegar við göngum til altaris erum við samfélag Jesú Krists, vinir hans.

Brauðið og kærleikurinn

Hið þriðja í textanum eru hagnýtar afleiðingar í lífi þeirra, sem trúa og eru hluti hópsins. Það eru verkin, sem oft er nefnt kærleiksverk. Brauð handa hungruðum heimi, brauð handa fólki. Allir eiga að njóta grunnréttinda t.d. matar, öryggis, vatns og annarra lífsgæða. Vegna þess að við njótum lífgjafar Jesú, gefum við af gæðum okkar til að hungraðir fái næringu og þyrstir fái drukkið gott vatn. Aðferð Jesú er okkur fyrirmynd. Hann sendir ekki fólk frá sér svangt, heldur notar allt sitt til að gefa það sem fólk þarfnast. Með sama hætti látum við fólk okkur varða og gefum þeim mat og gæði til lífs.

Hvað gerir þér gott? Fjölbreytilegt fæði og í hæfilegum skömmtum. Allir þarfnast tengsla við fólk, tilfinninganæringar, líkamlegrar hreyfingar, gæfu í lífi og starfi. Þú þarfnast þess að einhver sjái þig og meti og játi þér mikilvægi þitt. Svo er hin hlið sama máls. Hvað getur þú gert til að aðrir njóti lífsins? Getur þú sagt eitthvað jákvætt og nærandi við samferðafólk þitt og ástvini? Getur þú bakað brauð og fært einhverjum syrgjandi, einmana eða þurfandi? Getur þú umlukið einhver með kærleiksríkum bænum? Öll getum við fært öðrum eitthvað sem verður þeim til góðs, næringar og hlýju. Jesús gaf brauð og var lífgjafi. Við erum brauðberar Guðs, friðflytjendur, málsvarar réttlætis og góðs lífs. Sprengjur Pútíns slasa og deyða. En sprengikraftur brauðs og víns er mun meiri því þar birtist máttur lífsins sem er sterkari en dauðinn.

4. sunnudagur í föstu 2022. 27. mars. Lexía 5. Mós. 8.2-3. Pistill Róm. 5.1-5. Guðspjall Jóh. 6.1-15.  Myndina af brauðinu tók ég í brauðhúsi í Gautaborg. 

Neyðaróp sem frumóp

Hvað gerir fólkið í Mariupol í stríðshrjáðri Úkraínu þessa dagana þegar skothríðin er nánast samfelld? Hvað gerði Mariana Vishemirsky, slösuð, barnshafandi konan á fæðingardeild, þegar barnasjúkrahúsið var rústað og hún var komin að fæðingu? Hvað gera tugir milljóna Úkraínumanna sem búa við sprengjuregn? Hvað gera milljónir fólks á flótta? Fólkið hrópar á hjálp. Óp þeirra eru ekki bara til hjálparaðila, hjálparstofnana eða vinveittra ríkja. Vissulega hljóma þannig neyðaróp. En skerandi hjálparveinin eru meira en pöntun á plástrum og byssum. Köll fólks í algerum vanda eru frumóp. Jafnvel trúlausir æpa upp í himininn. Úkraínsk kona sagði fyrir nokkrum dögum að þetta væru trúarleg sálaróp. „Ég er trúlaus,“ sagði hún. „Ég trúi ekki á Guð. En núna er ég farin að biðja, eiginlega æpa til Guðs um að hjálpa okkur.“ Hið úkraínska frumóp er: Hjálp Guð. Hjálpaðu okkur með börnin, aldraða foreldra, með mat, eldivið og vatn. Okkur er kalt, við erum hrædd og svöng. Við erum reið og máttvana. Hjálp. Hvar ertu Guð? Vestrænu makræði hefur verið ógnað þessa daga Úkraínustríðs. Við erum vissulega ekki í ísköldum kjallara í Mariupol án vatns, hita, salernis og matar. Við getum ekki kafað í djúp tilfinninga fólks í þessum hræðilegu aðstæðum stríðs, en getum þó skilið að afkróað fólk kallar upp í himininn: „Guð minn góður bjargaðu fólkinu mínu.“ Þegar allt hrynur og lífi er ógnað æpir fólk. Það er viðbragð lífsins. Hjálpaðu er sama bænin og „Drottinn, miskunna þú mér.“ Frumóp lífsins.

Miskunna þú oss

Í guðspjalli dagsins segir frá Jesú á ferð utan Gyðingalands og eiginlega við endimörk heimsins. Hann heyrði að hrópað var til hans: „Hjálp Jesús.“ Kallarinn var kanversk kona, sem sé útlendingur. Hún var stefnuföst og vildi úrlausn mála. Erindið var brýnt. Dóttir konunnar var hættulega veik. Þessi móðir hefur vafalaust verið búin að reyna alla lækna og kraftaverkameðul. Þegar börn heimsins eru í lífshættu reyna foreldrar allt til að bjarga þeim. Ekkert hafði dugað og nú var Jesús einn eftir. Hún setti allt sitt traust á hann. Þar sem konan var útlensk vildu Gyðingar sem minst hafa með hana að gera og var illa séð, að Jesús væri að skipta sér af henni. Jesús minnti konuna á að hlutverk hans væri að þjóna Gyðingum. Konan var hins vegar ákveðin og sprengdi öll viðmið  og hlutverk. Hún bað um hjálp, að Jesús miskunnaði henni. Jesús herti vörn sína og sagði að það sem hann hefði fram að færa ætti að gefa börnum en ekki kasta fyrir hunda. En konan var glögg og hnyttið skopskynið var í góðu lagi. Hún þekkti atferli hunda og minnti á, að þeir næðu í molana sem féllu af borðum húsbændanna og ætu þá. Í konunni spratt fram frumóp lífsins. Hún var einbeitt og lausnamiðuð. Þá gaf Jesús eftir. Þegar eftir er leitað og æpt er upp í himininn er alltaf opnað. Guð heyrir. En heyrum við frumópin? Skiljum við þau?

Í upphafi þessarar athafnar og í upphafi allra messugerða segjum við eða syngjum: „Drottinn, miskunna þú oss. Kristur, miskunna þú oss. Drottinn, miskunna þú oss.“ Er þessi söngur bara eitthvað sem við raulum, setningar sem við meinum ekkert með, aðeins orðaleppar? Er þetta merkingarlaus og blóðlaus þula án svita og tára? Ef svo er þurfum við að endurskoða fordóma okkar. Messan er alvöru en ekki glans. Kirkjuorðin tengjast lífi fólks, vonum og þrá, áföllum og stríðum. Allt, sem er sagt og tjáð í messunni, varðar lífsviðburði, tengist atburðum í lífi fólks og því sem við erum og reynum. Orðin eru ekki himneska, utan við heiminn í dauðhreinsuðu helgirými, heldur varða okkar allt líf fólks, líka barnshafandi konur austur í Mariupol – já allt í margbreytileika sögu og samtíðar. „Drottinn, miskunna þú okkur.“ Orðin á grísku eru Kyrie eleison. Þau birtast eða hljóma okkur í tónverkatextunum, kirkjuversunum, bókmenntum og menningarefni kristninnar. Í þessari setningu er orðuð þrá lífs í landi dauðans. Miskunn er orð um hjálp, sem fólki veitist til að það geti lifað af og náð friði og heilsu. Miskunn er ekki eitthvað á himni, heldur á jörðu og varðar mat, hjálp í hamförum, þegar börnin deyja, maki ferst eða brjálaðir einvaldar æða. Að njóta miskunnar er að vera bjargað. Beiðnin um að verða miskunnað merkir að fólk nái heilsu, fái svalað svengd maga og sálar. Kanverska konan var ekki ein um þessa bæn. Hún er beðin í messum þessa dags, bæði í íslenskum kirkjum og í messum í Úkraínu, líka í Rússlandi og öðrum kirkjum heimsins. Allir kórar, sem syngja kirkjuleg stórverk læra að syngja Kyrie eleison. Þau orð tjá kjarnabæn kristninnar ásamt með Faðirvorinu. Þetta er ópið: Guð hjálpaðu! Það er frumtjáning sálarinnar. Kyrie eleison. Orðið Kyrie – það er orðið á bak við orðið “kirkja.” Orðið eleison vísar í heim olíunnar sem er notuð til að hreinsa sár, elda mat og njóta til heilsu. Orðið á við ólífuolíu. Það er ljómandi tenging fyrir okkur – heimili og kirkja tengjast. Lífsháski og lífslausn líka, líf mitt og þitt saman í einni samtengingu. Þegar þú eldar með ólífuolíunni má frumbænin stíga upp yfir pönnunni: „Guð hjálpaðu.“

Hvernig tengir þú?

Fjöldi Úkraínumanna var í Hallgrímskirkju fyrr í þessari viku til að taka þátt í friðargjörningi. Höfuðbúnaður þeirra var fallegur og þjóðbúningarnir líka. Frá þeim barst neyðaróp. Á eftir syngjum við syngjum í bænagerðinni Kyrie eleison með lagi frá Kiev. Um allan heim er sungið:Drottinn, miskunna þú okkur.“ Við höldum áfram að biðja með kanversku konunni, mæðrum, feðrum, fólki í Úkraínu og Rússlandi og fæðandi konum á fæðingardeildum sem skotið er á og fólki á flótta. Endir sögunnar í guðspjallinu, hver var hann? „Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt.“ Dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu. Jesús hlustaði, heyrði og svaraði. Hin blóðuga, særða og þungaða kona, Mariana í Mariupol, lifði af árás á fæðingardeildina. Myndirnar af henni þegar hún staulaðist milli hæða í húsarústunum fóru um allan hinn rafræna heim. En Mariana fæddi lifandi barn, þrátt fyrir að fæðingardeildin hefði verið eyðilögð. Það var dóttir sem lifði. Í gær var tilkynnt að hún hafi verið nefnd Veronika. Hvað þýðir það nafn: Boðberi sigurs. Stórkostlegt. Lífið heldur áfram. Framtíðin er opin af því Guð heyrir lífsóp, frumóp fólks. „ … mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt.“

Lexía: 1Mós 32.24-30, pistill: Jak 5.13-16, guðspjall: Matt 15.21-28

Prédikun í Hallgrímskirkju 13. mars, 2. sunnudag í föstu, 2022. Myndin er af bænatré Hallgrímskirkju. Mismunandi litir tákna mismunandi bænir og fánlitir Úkraínu eru áberandi en líka rauður litur umhyggju og kærleika. Tíminn er tími opnunar og frumópa! Myndina tók ég 11. mars. 

Rússnesk óróðursyfirvöld héldu fram að Maríana í Mariupol hefði tekið þátt í leikriti sem hefði verið fals og uppspuni. Um spunann allan fjallar BBC í grein að baki þessari smellu. 

Pútínlandið – ferðir á föstu

Friður sé með þér og ég segi aftur: Friður sé með þér. Nú höldum við brátt inn í föstuna. Þessi dagur er kallaður sunnudagur í föstuinngangi. Fastan í kirkjunni er tími sem hefur texta, skilaboð og umræðuefni. Um hvað er talað í kirkjum á föstutímanum fyrir páska? Það sama og talað er um í Passíuálmunum. Hvað var það nú aftur? Ferð Jesú til Jerúsalem, sem alltaf er líka um líf og ferðir allra einstaklinga og kynslóða. Ferðlag Jesú er okkar ferð. Okkar ferðir ganga upp í ferð Jesú til Jerúsalem. Við erum samferða Jesú. Jesús á undan og ég á eftir. Það er ferðastíll passíusálma, Nýjatestamentisins og kristninnar.

En þessi ferð var óvissuferð með mög ef, spurningar og til hvers. Lærisveinar og vinir Jesú voru ekki alveg vissir um til hvers hann færi og til hvers þessi ferð leiddi. Væntingarnar voru mismunandi. Margir vonuðust til, að hún yrði ferð til sigurs, að þeirra lið ynni og Jesús yrði þjóðarleiðtogi. En eitt voru væntingar fólks og annað afstaða Jesú sjálfs. Hann vissi, að hlutverk hans væri annað en það, sem margir aðdáendur hans vonuðu og klapplið vildi. Hann óttaðist um líf sitt og skelfdist. Jesús þekkti sögu þjóðar sinnar, misgerðir hennar, félagslegt, pólitískt og andlegt gjaldþrot. Hann skildi líka köllun sína og að honum var ætlað að þjóna. Það var hans vandi að vinna úr. Ferð Jesú var ekki túristaferð, heldur upp á líf eða dauða, líf veraldar eða enda. Hann hefði getað látið undan freistingunni, forðast Rómverja, forðast yfirvöld, hefði getað hætt að vera Kristur og bara farið í handverk smiðsins í Nasaret. Hann hefði getað eignast fjölskyldu, lifað hamingjuríku lífi til elliára og týnst svo í gleymskudoða sögunnar – eða hvað?

Helförin

Ferðir eru mismunandi og tilgangurinn alls konar. Það vitum við og þekkjum úr okkar eigin lífi. Við verðum líka vitni að alls konar ferðum og sumar ferðir eru alls ekki góðar og enda með skelfingu. Þessa dagana hefur heimsbyggðin fylgst með skelfilegri innrás Rússa inn í Úkraínu. Það er viðburður, sem fæstir áttu von á í Evrópu 21. aldar. Úkraínumenn hafa það eitt til saka unnið að hafa aðra skoðun en einræðisherrann í nágrannalandi þeirra ætlast til að þeir hefðu. Úkraínumenn vildu auka tengsl vestur á bóginn og ganga í samtök Vestur-Evrópu og NATO. Það vildu Rússar ekki. Skoðanafrelsi er ekki virt eða viðurkennt í Rússlandi, nema menn hafi sömu skoðun og valdaklíkan sem öllu ræður. Tugir milljónir líða vegna árásar Rússa. Fjölskyldum er splundrað, konur og börn eru á vergangi. Á næstu vikum geta milljónir orðið landflótta. Hver vill stríð? Einræðisherrann í Moskvu hefur einangrast frá þjóð sinni og dælt falsfréttum í æðar stór-Rússlands. Nú hefur hann við föstuupphaf tekið ákvörðun að fara til sinnar Jerúsalem, til Kiev, og kremja réttkjörna stjórn nágrannaríkis. Hvers konar föstuferð er það? Rússar kunna að sigra einhverjar orustur, en þeir munu tapa þessu stríði því það er röng afstaða sem liggur að baki.

Réttlætanleg?

Í byrjun vikunnar kom sonur minn til mín og sagði mér frá því, að hann hefði fengið það verkefni í Menntaskólanum í Reykjavík að skrifa röksemdarritgerð. Hann mátti velja efnið og hann ákvað að meta kröfur Rússa til Úkraínumanna. Sonur minn sagðist þurfa að skilja Pútínlandið og líka afstöðu Úkraínumanna. Mér þótti merkilegt, að hann veldi svo hápólitískt mál sem væri viðfang allra fjölmiðla heimsins. Svo byrjaði hann að skoða sögu Rússa og Úkraínumanna og smátt og smátt komu rökin fram með og móti. Yfirskriftin og viðfangsefnið var: Er innrás Rússa í Úkraínu réttlætanleg? Hann skilaði ritgerð sinni á miðvikudagskvöldi og nokkrum klukkutímum síðar réðust tugir þúsunda Rússa yfir landamærin og mikill fjöldi vígvéla skaut á skotmörk, sem ekki voru bara hernaðarleg heldur líka borgaraleg. Það var ljóst að lama átti innviði Úkraínumanna. Mér þótti merkilegt að íhuga ritgerð sonar míns og horfa svo á stríðsmyndir í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Í ritgerðinni sá ég að saga Rússa og Úkraínumanna fléttaðist saman í meira en þúsund ár. Kiev var um tíma helsta borg á svæði RUS-ættbálkanna á sama tíma og Moskva var eiginlega þorp. Enda hefur Pútín og margir Rússar talað um Kiev, höfuðborg Úkraínu, sem krúnudjásn Rússa. En þessa dagana er krúnudjásnið löðrað blóði úkraínsku þjóðarinnar. Rússar hegða sér sem illmenni er ráðast á heimili ættmenna sinna, skjóta þau og níðast á þeim. Sonur minn skoðaði rök Rússanna og hafnaði þeim og benti í ritgerð sinni á, að Úkraínumenn hafi verið fullvalda ríki, með réttkjörna stjórn, vel virkt og réttlátt stjórnkerfi og hafi gert marga alþjóðlega samninga um samskipti við Rússa. Rússar hafi brotið þessa samninga með því að ráðast inn á Krímskagann og síðar inn í austurhluta Úkraínu. Innrás væri ólögleg og brot á samningum. Ég er sammála honum og bæti við að hún er ósiðleg. Rússar hafa framið afbrot og Pútín er sekur um glæpi gegn mannkyninu.

Jesús og Pútín hafast ólíkt að. Jesús fór í friði og vildi hjálpa fólki. Ferð hans var til að leysa vanda og aðeins hann gat gert það. Engir herir, engin fórnarlömb. Hann var sjálfur farvegur friðarins. Föstuferð Pútíns er alger andstæða. Jesús fór ekki til að spilla valdi eða efna til átaka. Pútín fer með eldi og neyðir fólk til ofbeldis og hlýðni. Hann sendir fólk í dauðann og beitir ofríki gagnvart nágrönnum sínum, fullvalda frændsystkinum og drepur þau ef þau hlýða ekki túlkun hans. Jesús gerði sér grein fyrir að ferð hans til Jerúsalem gæti endað með skelfingu. Hann hafnaði að sölsa undir sig með valdi heldur fór leið friðarins. Hann var tilbúinn að fórna lífinu fyrir sannleika og réttlæti sem pólitískt vald getur aldrei nokkurn tíma tryggt eða skapað. En Pútin telur sig hafa vald til að skilgreina frelsi fólks, jafnvel fullveðja nágranna sinna. Pútínferðin er leiðangur dauðans og opinberar allt það versta í spillingu og sjálfsdýrkun manna sem hafa tapað tengslum við gildi, fegurð og frelsi fólks. Við getum skýrt Pútínatferlið með því að skoða sögu Rússlands, Sovétríkjanna og fall þeirra. Í þessari pútínsku heljarslóð er sorg og reiði en það réttlætir ekki helförina. Fall Sovét er fortíð sem Úkraína lifði líka. En Úkraína vann að sjálfstæðri framtíð sinni þrátt fyrir fortíðina. Að reyna að endurheimta fortíð leiðir oft til glæpa. Það er hin djúpa harmsaga helfarar Pútíns um lendur Úkraínu og að krúnudjásninu. Pútínæðið þarf að stoppa. Pútínlandið þarf að horfast í augu við að Sóvét er fallið. Einræði hentar ekki nútíma, allra síst óupplýst einræði. Fortíð er fortíð en framtíðin kallar á algerlega nýja lífshætti og stjórnunarhætti. Fólk Pútínlandsins og nágrannar þeirra eiga að fá að ráða lífi sínu, lifa í frelsi og taka nýja stefnu. Föstuferð Jesú er andstæða Pútínplágunnar. Jesús vildi líf en Pútín velur dauða.  

Guð í fortíð – Guð í framtíð

Þessa föstu verða margar sögur sagðar. Föstuferð Jesú til Jerúsalem sem var svo sannarlega dapurleg. En niðurstaða Jerúsalemferðarinnar var að dauðinn dó en lífið lifir. Svo er harmsaga Úkraínu. Hvaða ferð ferð þú þessar næstu viukur? Fasta er dramtísk. Jesús var opinn og þorði. Hann opnaði líf sitt og var tilbúinn að taka afleiðingum. Hann vissi að kjarni lífsins er ekki að hafa vald til að stjórna fólki, menningu og hugsun. Lífsskilningur Jesú var að gefa fólki frelsi frá mistökum, syndum og öllu sem gæti hindrað fólk til þroska, friðar og hamingju. Af þessu getum við lært. Jesúreisan til Jerúsalem er ferð, sem var fyrir okkur. Okkur er boðið að ganga með Jesú. Jesús á undan og ég á eftir, stíll guðspjallanna, andi Passíusálma, fyrirmynd fyrir okkur. Jesúreisan er til lífs. Jesúafstaðan er eflir lífið.

Á svona dramatískum tíma er gott að geta á ný gengið að borði Drottins. Þar er veisla himins og jarðar. Guð býður til þeirrar veislu og þar er allt rétt og gott. 

Lexían; Jes. 50. 4–10. Pistillinn: 1. Kor. 1. 18-25. Guðspjallið: Lúk. 18. 31-34

Jesús tók þá tólf til sín og sagði við þá: „Nú förum við upp til Jerúsalem og mun allt það koma fram sem spámennirnir hafa skrifað um Mannssoninn. Hann verður framseldur heiðingjum. Þeir munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann. Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta en á þriðja degi mun hann upp rísa.“ En þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin og þeir skynjuðu ekki það sem sagt var.

Sunnudagur á föstuinngangi, 27. febrúar, 2022. Myndin er af litríku bænatré Hallgrímskirkju og að baki er verndarengill á íkón Kristínar Gunnlaugsdóttur. Ljósmynd SÁÞ

Guð er Bónus

Veistu hvaða ljóðabók hefur verið söluhæst síðustu árin. Það er sálmabók þjóðkirkjunnar. Þar finna allir örugglega eitthvað við hæfi og sér til gagns. En þó margt sé í sálmabókinni er alveg áreiðanlegt, að þar auglýsir ekkert fyrirtæki á Íslandi. Ekkert stórfyrirtæki hefur komið að óbeinni auglýsingu í einhvern sálminn, ekki flugfélög, útgerðarfélög, verslunarkeðja eða stórfyrirtæki. En þó engar séu auglýsingarnar eða nafn kostunarfélags er þó eitt íslenskt fyrirtæki nefnt í einum sálmi sálmabókarinnar, fyrirtæki sem margir versla við og sumir í hverri viku ársins. Hvaða fyrirtæki, hvaða verslun, skyldi vera nefnd í sálmbók þjóðkirkjunnar? Meira um það síðar.

Faðir smásögunnar

Jesús er frægur fyrir margt. Hann var kunnur fyrir virðingu fyrir utangarðsfólki. Hann var alræmdur í sjálfhverfu karlaveldissamfélagi fortíðar fyrir að virða manngildi kvenna, útlendinga, barna og erlendra hermanna setuliðs. Hann varð frægur fyrir frábærar ræður, merkilega siðfræði, guðstraust, leiðtogahæfileika, spekiorð og djúpsæknar bænir. Svo er hann auðvitað kunnastur fyrir að hegða sér allt öðru vísi en dauðum mönnum var og er skylt og tamt. Hann fylltist lífi efir að hafa legið í gröf sinni í meira en sólarhring. Flest sem Jesús sagði var í frásögur færandi. Eitt af því, sem mörgum yfirsést, er hve frábær smásagnahöfundur hann var. Líkingasögurnar, sem hann sagði, eru auk alls annars bókmenntaperlur, sem enginn bókabéus lætur fram hjá sér fara.

Þrúgur tíndar

Saga dagsins er ein af þessum dásemdarsögum. Aðstæðurnar voru þær, að vinir Jesú, sem fylgdu honum, voru að velta vöngum yfir launum sínum og spurðu áleitinna spurninga eins og: Heyrðu Jesús. Hvað græði ég nú á öllu þessu brölti með þér, öllu veseninu, fjarri einfaldri hamingju venjulegs fólks? Þeir voru reyndar skynugir og vissu, að fé og frami var ekki á launamiða guðsríkisins. En hvað var það þá? Til að svara Pétri og hinum vinunum sagði Jesús þeim sögu um víngarðseigandann. Það var komið að uppskerutíma, sem er reyndar stórkostlegur tími á öllu Miðjarðarhafssvæðinu, þegar stórir flotar af fólki halda út á akrana til að týna þrútin berin. Ég hef upplifað slíka hátíð í Toscana á Ítalíu og hef séð hve gleðin er mikil, bros í augunum og alvöru hátíð. Réttarstemming í íslenskum sveitum jafnast við slíkt. Líka þegar okkar lið í íþróttum ná á toppinn. Jesús segir frá því, að víngarðseigandinn hafi ráðið til sín vinnufólk á mismunandi tímum, þá fyrstu í dögun, síðan fleiri þremur tímum síðar. Þannig hélt hann áfram allan daginn og þeir síðustu komu til starfa um það leyti sem verkum dagsins lauk. Þeir fyrstu fengu loforð um ákveðið og eðlilegt dagkaup, sem þeir voru fullsáttir við. Svo var byrjað að borga laun í verklok. Þeir, sem síðastir komu, fengu óskert dagkaup og þá þótti þeim sem fyrr komu útlitið gott og ímynduðu sér, að þeir hlytu að fá margfalt kaup á við þá, sem síðastir komu. En þegar allir höfðu fengið sitt kaup voru allir með sömu upphæð í hendi. Þá byrjaði möglið og þeir, sem höfðu puðað daglangt, þótti að þeir hefðu verið órétti beittir.

Órétti beittir?

Víngarðseigandinn tók eftir bullandi reiðinni og spurði hvort þeir hefðu ekki fengið það, sem um var samið? Jú, þeir viðurkenndu það. En þeir voru bara ósáttir við, að hinir hefðu fengið jafn mikið en hefðu þó unnið minna. Hver getur ekki sett sig í spor mannanna? Samanburður er meginþáttur allra kjarasamninga. Það er í samræmi við almenna réttlætisvitund, að laun eigi að vera í hlutfalli við vinnuframlag. En víngarðseigandinn fór allt öðru vísi að, minnti á að hann ætti þetta fé og mætti borga hinum síðustu jafn mikið og hinum. Hann væri ekki að brjóta neina kjarasamninga þótt hann borgaði þeim meira en þeir hefðu unnið fyrir. „Ég er góður” sagði hann. Svo kom hið áleitna en torskilda, að hinir síðustu verði fyrstir.

Það eru til ýmsar skýringar á merkingu sögunnar. Tilgangur Jesú væri að gera upp við forréttindahyggju samferðamanna sinna. Hann vildi benda þeim á, að þeir sem hefðu lengi verið samferðamenn Guðs í veröldinni fengju ekki neinn aukabónus í himnaríki vegna tímalengdar. Þau, sem hefðu slegist í hópinn á síðustu stundu, væru jafnmiklir Guðsvinir og hin, sem hefðu verið það alla ævi. Trúarleg stéttaskipting er ekki til í kenningu Jesú. Forréttindamenn í himnaríki eru ekki til þó menn vilji gjarnan búa til virðingastiga þar líka og verða trúarleg yfirstétt eða kirkjueigendafélag.  Virðing, laun og gildi eru öðru vísi í hinu andlega ríki en í veröldinni. Stéttakerfi er ekki hægt að varpa yfir á himininn. Ekkert kvótakerfi þar eða kvótakóngar. Menn eiga enga kröfu á hendur Guði. Verk okkar, líferni, vitund okkar um eigin gæði verða ekki yfirfærð yfir í himneskan gjaldmiðil. Það er ekkert veðkall til á hendur Guði og lífeyrissjóði eða eigum við að segja lífernissjóði himinsins. Við byggjum ekki upp kröfugerð og útborgun hinum megin eins og við byggjum upp lífeyri hinum megin við starfslok okkar. Þetta benti siðbótarmaðurinn Marteinn Lúther á og öðrum betur.

Laun himins

Hvað segir þá sagan? Smásöguhöfundurinn Jesús kunni að segja sögu á mörgum plönum og hana er hægt að túlka í ýmsar áttir. Gagnvart Símoni Pétri í samningahrotu um eilífðarumbun er svarið skýrt. Laun himinsins eru söm og jöfn fyrir alla. Engu skiptir hvort menn hoppa á eilífðarvagninn snemma eða seint, allir ná sama marki. Þetta voru mikilvæg skilaboð í frumkirkjunni. Menn skyldu ekki setja sig á háan hest þótt þeir hefðu snemma orðið fylgjendur Jesú. Þetta varðar síðan alla kirkjumenn. Broddur Jesú er gegn kirkjueigendum allra tíma. Enginn er yfir annan settur þegar eilífðarlaunum er útdeilt, allir eru jafnir. Síðan er líka elskudjúp í þessari sögu. Enginn er of seinn eða útilokaður frá guðsríkinu hvar svo sem menn hafa verið, hvað sem þeir hafa gert og hversu djúpt þeir hafa sokkið. Í sögum Jesú er djúp og einbeitt umhyggja gagnvart fólki. Enginn er settur hjá, guðsríkið er allra.

Menn hafa löngum velt vöngum yfir hverjir komist til Guðs, hverjir verði hólpnir. Hvað verður um óskírt barn sem deyr? Margir hafa grátið yfir þeirri spurningu. Hvað verður um þau, sem tilheyra öðrum trúarbrögðum? Spurningar af þessu tagi eru margar. Þegar við svörum er mikilvægt, að við stöldrum við og spyrjum okkur hvers konar Guð við trúum á og hvers konar Guð Biblían túlkar og Jesús Kristur birtir okkur. Dæmisagan um gjafmilda bóndann er um Guð, sem útdeilir jafnt þeim sem koma seint og hinum sem koma snemma. Við getum séð í henni og ýmsum öðrum sögum Jesú túlkun á elskuríkum Guði, sem er mun stærri og meiri en smáguð ættbálks eða þjóðar eða guðfræðilegrar einsýni eða bókstafshyggju. Sá Guð er skapari alls sem er, djúp allrar elsku, ljós alls ljóss, brunnur fegurðarinnar, forsenda manngildisins, hinn mikli húmoristi, sem skapar litríka fjölvíddaveröld og elskar þig heitt og ákaflega.

Upprisa allra – vonarmál trúmannsins

Kristinn maður, sem trúir á slíkan stórguð, hlýtur að vona ákveðið, að allir megi njóta himinvistar, óháð ætt, uppruna og fyrri störfum! Það er ekki til nein kirkjuleg dogma, kenning, um að allir hljóti óhjákvæmilega að komast til himins, en kristin kirkja biður hins vegar fyrir upprisu allra. Múslimum, hindúum, kristnum, trúlausum og trúarveikum mætum við með þeirri bæn til Guðs, að Guð geymi hann, hana, já okkur öll. Þetta er hin vonarríka afstaða. Þetta er líka ástæða þess, að maður sem tekur Jesú Krist alvarlega getur ekki leyft sér að trúa því að heimur fari versnandi, að allt fari á versta veg, að öllu fari aftur, að lífið sé leiðinlegt. Kristindómur bannar mönnum ekki að gagnrýna og greina milli góðs og ills. En kristnin bannar mönnum, að loka augunum fyrir fegurð, möguleikum, nýsköpun og gleði og að Guð er frábær.

Afstaða hins óvænta

En hvernig var með íslenska fyrirtækið, sem er nefnt í sálmabókinni? Áður en gátan er leyst er þarft að við hugsum um hvað einkennir Jesú Krist, sögur hans, afskipti af fólki og veru hans. Hann var maður hins óvænta. Hann hegðaði sér oftast öðru vísi en búast hefði mátt við. Hann bar ekki bara virðingu fyrir þeim, sem nutu almennrar virðingar, heldur bar líka óvænt virðingu fyrir þeim, sem voru fyrirlitnir. Allir menn áttu möguleika í samskiptum við Jesú. Hann var meistari hinna óvæntu endaloka í smásögum sínum. Sneri jafnan uppá sögurnar og jafnvel á hvolf. Sögur hans enda gjarnan með óvæntu móti eins og brandarar. En hnykkurinn eða snúningurinn í lokin var það, sem Jesús vildi að yrði mönnum til íhugunar og yrði til að menn hugsuðu mál sín að nýju, afstöðu, trú og siðfræði. Jesús sagði ekki aðeins sögur hins óvænta heldur var slíkur sjálfur. Upprisa hans var ótrúleg, hið algerlega óvænta en alveg í samræmi við allt sem hann var og sagði. Allt var þetta til að opna líf fólks, efla það og bæta.

Bonus – Guð

Þá er komið að fyrirtækinu sem nefnt er óvænt í sálmabókinni, söluhæstu ljóðabók ársins. Það er ótrúlegt nokk – bonus. Það er satt, að bonus kemur raunverulega fyrir í sálmi sem að vísu er á latínu. Þar segir

Confitemini Domino
quoniam bonus.
Confitemini Domino.
Alleluia!

Og þýðingin er svona:

Þökk sé þér, ó, Guð Drottinn vor,
því þú ert góður.
Þökk sé þér, ó, Guð Drottinn vor.
Hallelúja!

Ég spurði Jóhannes Jónsson sem stofnaði Bónus hvort hann vissi að Bónus teygði anga sína inn í sálmabók þjóðkirkjunnar? Hann viðurkenndi hissa, að hann hefði ekki gert sér grein fyrir að ítök Bónuss væru svona gífurleg. Það væri ekki skrítið, að stjórnmálamenn yrðu smeykir þegar jafnvel sálmabókin væri farin að boða bonus! En hvað merkir bónus í hinu trúarlega samhengi? Það er ekki bara kjarabót, sérstakt happ, lottóbónus eða launaplús, heldur merkir það góður. Guð er bónus, Guð er góður. Þess vegna er þakkað í sálminum. Sjálfsagt er að þakka ef verslunin Bónus býður lægsta verðið. En það eru ekki eiginlegu bónusarnir. Það er meira segja ekki hinn eiginlegi bónus lífsins að hækka launin. Það er ekki bónus heldur réttlætismál að laun séu góð. Bónus lífsins, hver er hann? Hann verður ekki keyptur í neinni búð. Kristinn maður veit að bónusinn er Guð og sálmurinn í sálmabókinni segir að Guð sé góður. Guð á fleiri ráð en við þekkjum. Lífeyrissjóður himinsins er ekki gulltryggður heldur guðstryggður, sem er betri öðrum tryggingum. Meginstarfsregla þess sjóðs er gjafmildi. Greiðslur eru ekki samkvæmt innlögn heldur umhyggju Guðs og þörf manna. Guð hefur sjálfur lagt allt til hins mikla sjóðs, lífið í Jesú Kristi, sem er höfuðstóllinn sjálfur. Guð er gjafmildur, gefur lífið, af því að Guð er bonus, Guð er góður. Engir peningar, engar kjarabætur, enginn hagnaður þessa heims er nokkuð í samanburðinum við þann bónus, það er bónus lífsins.

A-röð Lexía: Jer. 9.23-24. Pistill: 1Kor. 9.24-27. Guðspjall: Matt. 20.1-16