Greinasafn fyrir merki: lífsleikni

Lífsleikni og hvísl Guðs

Ríkur maður bauð vinkonu heim til sín. Þegar gesturinn kom fóru þau upp í háan útsýnisturn til að skoða umhverfið. Heimamaðurinn benti í allar áttir. „Þetta land þarna í austri á ég, þú sérð hæðirnar. Akrarnir þarna suður frá eru á mínu landi. Ég keypti líka allt landið, líka fjöllin sem þú sérð í vestri. Til norðurs líka, allt að borgarmörkum, sem við reyndar sjáum ekki.” Ræðan var áhrifarík og landeigandinn var rogginn. Vinkonan benti beint upp í loftið og spurði: „En áttu eitthvað í þesari átt? Hvernig er með eignina á himnum?” Er þetta góð saga? Reyndar er hún ein af mörgum tvistuð útgáfa af freistingasögunni. Bestu sögur heimsins hafa inntak eða visku sem fólk græðir á. Við græðum meira á lífsvisku en á öllum löndum heimsins.

Guð er hjálp mín

Biblíusaga dagsins eru um ítökin á himnum, hvað við eigum þarna uppi. Sagan er viskusaga um lífsleikni. Hún er útlistun á hvernig við menn ættum að lifa til að vel fari fyrir sjálfum okkur og samferðafólki okkar. Sagan er erkisaga, sem Jesús sagði til að efla hugsun fólks. Hann vildi, að fólk staldraði við, hugsaði og greindi á milli þess, sem væri einhvers virði og hins sem væri rugl og hjóm. Í guðspjallinu býr hinn ríki við allsnægtir og fötin, sem hann klæddist, voru merkjavörur þess tíma. Klæðið var úr úrvalsbómull af Nílarbökkum og litarefnið var unnið úr krabbadýrum, sem sé topptíska tímans. Karlinn var vel stæður. En fyrir dyrum hans var svo Lasarus, öreigi og þurfamaður. Reyndar er hann eini maðurinn, sem ber nafn í sögum þeim sem guðspjallamaðurinn Lúkas hafði eftir Jesú. Nafnið Lasarus merkir „Guð er hjálp mín.” Nafnið var ekki út í hött. Þó hann hefði verið lukkugrannur í jarðlífinu var hann lukkumaður í hinu eilífa. Sá voldugi og vel stæði sinnti ekki hinum fátæka og hunsaði því ábyrgð sína. Það gerðu hins vegar hundarnir, sem sleiktu sár hins ólánssama Lasarusar. Dauðinn kom að óvörum. Báðir létust. Abraham tók á móti Lasarusi, sem merkir að hann fékk góða heimkomu í ríki himinsins. Hinn ríki var ólánssamur og leið kvalir handan grafar. Í sögunni er hann það nærri að hann sá betlarann Lasarus álengdar fjær, sá hve vel var fyrir honum séð og hverrar sælu hann naut. Hann bað um að Lasarus færði honum vökva til að slökkva brunasviða og lina þjáningar. En honum er bent á, að enginn samgangur væri milli sviða og enginn möguleiki á bót. Þá bað hann um, að bræður hans yrðu varaðir við. En Abraham, ættfaðir Hebrea og Gyðinga, sagði honum að þeir myndu ekki frekar en aðrir láta af villu síns vegar þó þeir sæju upprisinn mann. Þessi saga Jesú vísaði þar með á framtíð Jesú sjálfs.

Andleg gæði varða inntak

En sagan er rosaleg. Um aldir hafa menn viljað skilja hana bókstaflega og búa til kenningar um helvíti og himnaríki. En saga Jesú er ekki lýsing á yfirborðsmálum. Sögur Jesú á ekki að taka bókstaflega. Þær eru sagðar vegna inntaks og áhersluatriða. Dæmisögur eru ekki fréttaskot úr borgarlífinu, heldur um merkingu, tilgang og dýpri rök. Sögurnar eru dæmi til skilnings. Hvað er það þá, sem Jesús vill miðla þeim sem staldra við? Jesús hafði ekkert á móti auði eða ríkidæmi. Hann fagnaði því, að menn nytu gæða lífsins. Hann var sjálfur úthrópaður partíkall. Hann var skammaður fyrir að hann væri með þeim lífsglöðu. En Jesús varaði við, að menn yrðu þrælar einhvers í heimi og færu að breyta verkfæri til góðs lífs í markmið. Í því ljósi dró hann upp andstæður af ríkidæmi anda og þrældómi við efnisleg gæði. Auður væri tæki til að bæta lífið en ekki sérstakt markmið. Jesús spurði fólk skipulega að því hvað það setti í forgang og hver gildi þess væru. Við hvað hefur þú fest þitt ráð, elsku og umhugsun? „Því hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera,” sagði hann. Vinkonan spurði í sama anda. Hvaða ítök áttu þarna uppi? Hver er eign þín, viska þína, afstaða?

Erindi við okkur

Á þessi saga erindi við okkur? Erum við kannski upptekin af því að safna hlutum og eignum, vilja meira og stærra? Ruglumst við ekki stundum í ríminu og gleymum, að hlutir eru ekki markmið heldur tæki til að lifa vel? Fipumst við ekki stundum og gleymum, að fjármunir eru til að gera gott? Munum við alltaf vel, að við verðum fljótt þrælar þeirra, en ekki húsbændur. Sagan um ríka manninn varðar sálarstefnu okkar. Hefur þú tíma fyrir það, sem máli skiptir, fyrir kyrru ástarinnar og faðmlög? Hefur þú tíma fyrir að næra þinn innri mann? Hefur þú næði og getu til að gera það, sem gerir þig hamingjusama og hamingjusaman? Lúther sagði einhvern tíma, að maðurinn væri kengboginn inn í sjálfan sig. Það er myndræn útlegging guðspjalls þessa dags. Hinn ríki var svo upptekin af eignum sínum, að hann gleymdi þeim sem var við dyrnar og var hjálpar þurfi. Auðæfin eru mikil og auðvelt að týnast í þeim önnum sem þeim fylgja. En það er aldrei hörgull á Lasarusum heimsins. Lestu blöð og samfélagsmiðlana, talaðu við starfsfólk hjálparstofnana og fólkið í kirkjunni. Lasarusarnir eru við dyrnar okkar og bíða.

Í þjáningunni kallar Guð

Það er ekki Guð sem sendir dauða, þjáningu og sorg til að aga okkur. Guð hegðar sér ekki eins og kaldlyndur uppalandi. Guð kallar til okkar í þjáðum systrum og bræðrum, kallar okkur til mennskunnar. Í veinum fólks á þurrkasvæðum heimsins hljómar rödd Guðs. Í gráti fólks á stríðshrjáðum svæðum er Guð. Í stunum misnotaðra kvenna um allan heim hvíslar Guð. Í vanlíðan sjúks fólks í húsinu við hliðina á þér biður Guð um aðstoðarfólk. Í vanlíðan barna á lemstruðum heimilum er Guð að biðla til þín. Í fréttabréfi Hjálparstarfs kirkjunnar og fréttum fjölmiðla spyr Guð, hvort þú getir axlað einhverja ábyrgð og hver mennska þín sé. Í réttindakröfum kvenna um allan heim hvíslar Guð. Lifum vel og með ábyrgð.

Köll til lífs

Strákur keyrði niður Miklubrautina á nýjum sportbíl. Aðrir bílstjórar hægðu á sér til að virða fyrir sér bílinn. Allt í einu skall steinn á bílnum. Ökumaðurinn snöggreiddist, beygði uppá grasbalann og rauk út til að góma grjótkastarann. Það var auðvelt. Lítill strákur var skammt frá og ökumaðurinn rauk til hans og æpti. „Af hverju ertu að henda grjóti í bílinn.” Drengurinn var hræddur. „Fyrirgefðu, ég var búinn að kalla svo lengi og enginn kom. Bróðir minn er lamaður og er í hjólastól. Við vorum þarna á milli grenitrjánna og hjólastóllinn datt og bróðir minn liggur á jörðinni. Við gátum ekki komið honum upp í stólinn. Geturðu hjálpað okkur?” Það var ekki skemmdarfýsn að baki grjótkastinu. Með samanbitnar varir lyfti bíleigandinn lömuðum dreng í stólinn og horfði svo á eftir bræðrunum. Hann sá lakkskemmdina og lét ekki gera við hana fyrr en fór að ryðga undan. Hann notaði beygluna til að minna sig á hvað máli skipti í lífinu.

Hver eru ítökin uppi og hvað sérðu allt í kringum þig? Hlustaðu eftir fréttunum, hlustaðu á köllin í heiminum, hlustaðu á hvíslið hið innra í þér. Guð er að kalla til þín. Raddir heimsins eru Guðsraddirnar. Þegar þú heyrir í Guði í heiminum og skilur samhengið hefur þú líka sinnt ferðaundirbúningi í tíma þegar hinn skyndilegi dauði kemur.

A – Lúk. 16. 19-31 Hallgrímskirkja 19. júní, 2022. 1. sd. eftir þrenningarhátíð og kvenréttindadagurinn. 

Lífskúlurnar

Kennslustund var að hefjast. Kennarinn rogaðist með stóra glerskál að kennarapúltinu og kom henni þar fyrir. Síðan fór hann að veiða úr fötu golfkúlur sem hann setti í glerílátið. Þegar það var orðið kúfað spurði hann áhorfendur hvort hann væri ekki búinn að fylla það. „Já,“ svaraði hópurinn í stofunni. Þá tók kennarinn kassa með föndurperlum og hellti yfir kúlurnar sem fyrir voru, hristi glerílátið svo perlurnar sáldruðust á milli golfkúlanna og settust í holrúmin á milli þeirra. „Er það núna fullt?“ spurði hann. „Jaaá,“ muldraði hópurinn, sem fylgdist með þessum óvænta gjörningi í stofunni. Enn á ný lyfti kennarinn íláti. Nú var það fata með þurrum sandi, sem hann hellti yfir það, sem fyrr var komið. Sandurinn rann á milli allra kúlanna. Ótrúlega mikið magn komst fyrir. „Er ílátið orðið fullt?“ spurði kennarinn. Nú var orðið augljóst, að ekki væri ráð að svara of ákveðið, enda tók kennarinn upp ölflösku, opnaði hana og hellti í ílátið, sem tók lengi við. Nemendurnir hlógu og kennarinn kímdi. „Er það nú fullt?“ spurði hann. „Já, já,“ svöruðu þau. Kennarinn sagði: „Mig langar til að þið hugsið um það, sem þið hafið séð, og svör ykkar.

Stóru kúlurnar – verðmætin

Golfkúlurnar eru tákn um það, sem skiptir ykkur raunverulega máli í lífinu. Það eru fjölskyldur ykkar, makar og börn, vinir, heimili, vinnan og hugðarefni. Ef þið misstuð allt annað en hélduð þessum þáttum væri líf ykkar samt ríkulegt og gott. Litlu kúlurnar, sem runnu á milli hinna stærri, eru tákin um allt það sem ekki skilgreinir hvað þú ert í lífinu, t.d. í hvaða húsi þú býrð, hvort þú átt bíl eða hvaða gerðar hann er, hvert þú fórst í sumarfrí, hvort þú nærð að fara í borgarferð í ár eða ekki og annað álíka. Sandurinn er það, sem skiptir enn minna máli, t.d. hvort þú varst búinn að taka til í bílskúrnum, þværð þvottinn í dag eða á morgun. Ef sandurinn er settur í glerskálina fyrst er ekkert pláss, hvorki fyrir smáar eða stórar kúlur. Ef við fyllum lífið af smáverkefnum og smáatriðum er ekki lengur pláss fyrir það, sem máli skiptir og veitir hamingju. Gefið gaum því, sem varðar lífshamingjuna. Leikið við börnin ykkar, gælið við ástina og munið eftir leiknum í samskiptum við fólk. Munið eftir að sinna heilsurækt, hinu andlega lífi og heimsækja foreldra ykkar. Ef þessum málum er sinnt og þau rækt verður alltaf tími til að þrífa á bak við eldavél eða taka til í kústaskápnum. Setjið lífsþættina í forgangsröð. Aðalmálin fyrst og síðan annað í gildaröð. Lífið fyrst og annað er sandur. Einn nemandinn lyfti hendi: „En hvað með vökvann sem þú helltir yfir hitt?“ “Gott að þú spurðir,“ var svarað. „Það er nú einu sinni svo að hversu gott og ríkulegt líf þitt er, getur verið ljómandi líka að setjast niður með vini þínum og fá sér bjór!“ 

Verðmætamat og forgangur
Er viska í þessari sögu? Hvað er sandurinn í lífi þínu? Gerir þú of mikið úr þrifunum eða puðinu? Fer of mikill tími af lífi þínu í hringsól og snatt? Er ekki ráð að þú staldrir við og spyrjir hvað það er sem skiptir þig verulegu máli. Hvað má hverfa, án þess að líf þitt blikni? Hvað skaðar hamingju þína? Hvað myndi algerlega kremja í þér hjartað og eyða lífsgleðinni? Er lífsskál þín full af sandi eða er þar nóg pláss fyrir stóru lífskúlurnar? Er í þér ástarkraftur? Áttu nægan nægan tíma fyrir vini, börn, hlátur, strokur og kossa? Er eitthvað, sem mætti fara eða jafnvel verður að hverfa, til að meira næði sé fyrir það sem máli skiptir? Er einhver möl og grjót sem er í leið þinni. Hver er dýptin og hvar er Guð í þínu lífi? Jesús stendur hjá þér: Ég mun gefa ykkur nýtt hjarta og leggja ykkur nýjan anda í brjóst. Brautin hefur verið rudd. Þér standa til boða stórar og smáar lífskúlur. Það neyðir þig enginn til að lifa vel, en þér er boðið í veislu lífsleikninnnar.

Lífið er svo hlykkjótt – Kristín Sigurðardóttir og lífsafstaðan

Hvað gerist þegar við erum slegin niður, verðum fyrir áfalli eða slysi? Krist­ín Sig­urðardótt­ir, slysa- og bráðalæknir, er fyrirmynd um skapandi lífsleikni. Hún hef­ur starfað sem slysa- og bráðalækn­ir. Hún hefur búið og unnið í Bretlandi, á Kana­ríeyj­um og á Íslandi. En allt í einu varð Kristín fyrir áfalli. Hún þoldi ekki mygluna á Landspítalanum. Eins og margt starfsfólk spítalans varð hún að hætta vinnu þar vegna veik­inda sem rakaskemmdir ollu. Þessi kraftmikla og heilsuhrausta kona hrundi heilsufarslega. Í heilt ár var hún að gera sér grein fyrir að ytri aðstæður á vinnstað hennar ollu heilsubresti hennar. Átti hún að reyna að þrauka til að vinna við það sem henni þótti mikilvægt og skemmtilegt? Valið stóð hjá henni, eins og svo fjölmörgum öðrum, milli heilsu og vinnu. Hún valdi heilsuna, skráði sig í leiðsögumannanám og hóf störf í nýjum greinum. Niðurstaða hennar er að lífið sé hlykkjótt.

Hvað gerist þegar fólk lendir í áfalli. Margir verða reiðir og finna sökudólgana í kringum sig, festast reiðinni. En Kristín sagði: „Ég er svo mik­il Pol­lý­anna í mér að ég hef ekki lagst í reiði. Ég meira að segja neita að hugsa um mig sem veika, held­ur segi ég bara eins og er, að ég þoli ekki sumt hús­næði. Þá forðast ég það bara og geri allt sem ég get til að halda mér hraustri. Ég var líka lán­söm að áður en ég veikt­ist var ég rosa­lega hraust og gat hlaupið upp hvaða fjall sem er. Fyrst var ég mjög svekkt og sorg­mædd að hafa misst þessa hreysti mína. En það breytt­ist og seinna varð ég þakk­lát fyr­ir að hafa í raun verið svona hraust áður, því það hef­ur hjálpað mér að þola veik­ind­in bet­ur. Ég horfi á það sem ég hef og er þakk­lát fyr­ir að vera með svona góða fjöl­skyldu og vini, hreyfigetu og að geta stundað úti­vist.“

Lífsafstaða skiptir máli. Við veljum fæst af áföllum okkar eða slysum. En við höfum alltaf val um hvernig við bregðumst við þeim. Það er þungbært að hrekjast úr vinnu sinni. En þegar valið stendur milli heilsu og vinnu er mikilvægt að flýja ekki heldur horfast í augu við vandann. En í kreppum eru líka tækifæri. Kristín var opin fyrir hlykkjóttum leiðum lífsins. Þakklæti fyrir styrkleikana hjálpar við að bregðast við kreppunum. Þannig opnast framtíð.

Takk fyrir Kristín Sigurðardóttir.

Viðtal við Kristínu í sunnu­dags­blaði Mbl, 3. maí 2020. Ásdís Ásgeirsdóttir. Meðfylgjandi mynd er einnig tekin af Ásdísi, sem er frábær ljósmyndari og líka penni. Takk Ásdís. 

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/05/03/lifid_er_svo_hlykkjott/

 

Hvernig hlustar þú?

heyrnGrein mín um hlustun birtist í Fréttablaðinu í morgun. Rétt fyrir hádegið hringdi kona til að þakka mér fyrir. Hún sagði mér að greinin hefði orðið til að hún hefði tekið ákvörðun um að breyta hlustun sinni – gagnvart fólki sem hún væri í samskiptum við. Ég er þakklátur fyrir ef skrifin verða til að styðja fólk í lífsleikni. Greinin fer hér á eftir:

Hvernig hlustar þú?

Á námskeiði sem ég sótti í liðinni viku var hópnum skipt í pör og fengin samtalsverkefni. Við fórum í hlutverkaleik og æfðum viðbrögð, mismikila nánd og misgóða hlustun. Viðmælandi minn átti að halda fram persónulegu markmiði, en mitt hlutverk var að tjá efasemdir og andúð. Svo hófst samtalið og var dapurlegt. Svo skiptum við um hlutverk. Ég reyndi að halda fram málstað sem var mér mikilvægur en uppskar aðeins úrtölur og grettur. Þrátt fyrir leikinn fór ég að efast um gildi þess sem ég hélt fram.

Svo fengum við nýtt verkefni, áttum ekki lengur að vera fúl og neikvæð heldur tjá hrifningu og stuðning. Við áttum hvetja og hrósa. Þvílík breyting. Gleðin spratt fram og augun leiftruðu. Málin urðu ekki aðeins mikilvæg, heldur urðu samtölin skemmtileg. Í þessum hlutverkaleikjum fundum við vel hve afstaða viðmælenda hefur mikil og afgerandi áhrif.

Hugsanir þutu um koll minn. Minningar um hópa sem kunnu jákvæð samskipti spruttu fram, en líka um hópa sem liðu fyrir neikvæð samskipti. Það er hægt að draga úr fólki trú og sjálfstraust með líkamsbeitingu. Þegar fólk fitjar upp á nefið, snýr sér frá þeim sem það talar við eða fettir sig til að tjá yfirburði verður óöruggur viðmælandi hræddur. Svo er hægt að spúa eitraðri neikvæðni, streitu og óþolinmæði yfir fólk og fylgja svo eftir með niðrandi ummælum. En jákvæðni gerir hins vegar kraftaverk. Þau sem virða fólk stíga úr yfirburðastöðu niður á plan jöfnuðar og uppskera gjarnan opið og heiðarlegt samtal. Þau sem tala frá hjartanu tala til hjartans.

Okkur leið fremur illa þegar við vorum að draga kjark úr fólki, rífa niður skoðanir þess og málstað. En það var gefandi og skemmtilegt að hrósa, hvetja og lofa. Þá varð gaman og samtalið varð lipurt. Hvernig væri nú að efna til einfaldra lífsleikniæfinga á heimilum, skólum og vinnustöðum? Allir, yngri og eldri, þurfa að vita í hverju jákvæð samskipti eru fólgin.

Hvernig hlustar þú? Hvernig nánd temur þú þér? Afstaða fólks skiptir máli. Viðmælendur dauðans eru þau sem bara kvarta, draga niður og efla ekki. Það er engin ástæða til skjalls og yfirborðslegs hróss. En þegar tilefni er til má gjarnan segja: „Þetta er glæsilegt hjá þér. Þetta líst mér vel á.“ Þannig tala viðmælendur lífsins. Ertu einn af þeim?