Greinasafn fyrir merki: lífsafstaða

Hvenær endar þetta?

Fólk er orðið þreytt á faraldrinum. Bylgjan nú er mörgum þungbærari en í vor. Ekki sér til enda farsóttarinnar. Veiran hemur samfélag manna. Þreyta fólks, ótti og leiði hefur nafn; fararsóttarþreyta. Sú þreyta er jafnvel í veldisvexti. Þegar álag vex og ekki sér út úr kófinu verður styttra í kviku fólks. Samfélagsstreitan vex og ósætti líka. Deilur hafa vaknað um hvert eigi að stefna og hvað og hver eigi að ráða. Hverjum á að þjóna í samfélaginu í aðkrepptum aðstæðum? Það eru djúpu siðferðisspurningarnar sem dynja á okkur þessa daga.

Hvenær dagar?

Einu sinni var spekingur í fornöld að kenna nemahóp og spurði spurningarinnar: „Á hvaða augnabliki endar nóttin og dagurinn byrjar?“ Einn neminn svaraði: „Það er þegar nógu bjart er til að hægt sé að greina milli hunds og kindar.“ Annar sagði: „Þegar það er nógu bjart er til að sjá hvað er ólífutré og hvað fíkjutré.“ Meistarinn sagði: „Þetta eru góð svör en þó ekki hin réttu. Svarið er: „Þegar ókunnugur maður kemur og við höldum að hann sé bróðir okkar og allar deilur hætta, þá er nákvæmlega stundin þegar nóttin endar og dagur byrjar.“

Hvað finnst þér um svona svar? Það er ekki svar um birtumagn eða myrkur, ekki um skilgreiningar eða yfirborðsmál heldur er það svar um fólk og lífsgæði. Þegar ókunnugir koma sem við ekki þekkjum og við sjáum í þeim hrífandi fólk, vini, eins og systur og bræður og höfum bara löngun til að gleðjast með þeim þá endar nóttin. Þegar við virðum aðra og metum enda deilurnar og dagurinn getur orðið bjartur.

Þrennan

Textar þessa sunnudags kirkjuársins eru eins og burðarvirki menningar og kristni. Lexían úr gamla testamentinu eru boðorðin. Þau eru eins og umferðarreglur fyrir lífið, forskriftir um hvað gagnist fólki í samskiptum. Í nýjatestamentistextanum segir frá að spekingur í lögfræði lífs og samfélags fór til Jesú Krists til að að spyrja hann hvernig hann fengi botn í lífsreglurnar og lögspekina. Hvað er æðsta boðorðið? spurði hann. Og Jesús svaraði með því að fara með það sem Gyðingar allra alda hafa lært: Shema Yisrael ( Heyr Ísrael… ). Það er æðsta boðorðið um að elska Guð algerlega, með sínu innsta inni, með skilningi og í öllu athæfi og annað fólk eins og sjálft sig. Þessi lífsspeki Gyðingdómsins – Shema – er arfur spekinnar í kristninni líka. Þetta boð er nefnt tvöfalda eða tvíþætta kærleiksboðið en það má líka kalla það þrefalda kærleiksboðið. Það er þrenna: Ást til Guðs, annarra og sjálfs sín. Allt þarf að vera í jafnvægi til að vel sé lifað. Ef fólk elskar bara aðra en ekki sjálft sig verður innra hrun. Ef maður elskar bara sjálfan sig hrynur maður inn í sjálfan sig og hamingjan visnar. Ef sambandið við Guð dofnar er lífi ógnað samkvæmt trú og reynslu þúsunda kynslóða.

Siðferði – líf

Hvenær endar nóttin og hvenær byrjar dagurinn? Lífið flæðir alltaf yfir mörk. Ekkert þolir algerar skorður og kassahugsun. Það er hægt að þjálfa fólk í hlýðni, en allt verður til einskis og óhamingju nema ræktin verði á dýptina í fólki. Það var þessi innsýn sem Jesús tjáði með því að beina sjónum að baki lögum og reglum og inn í fólk. Alla leið.

Jesús hafði enga trú á ytri þjónkun ef innri maður var ósnortinn. Hvaða skoðun hefur þú á því? Við getum lifað við allsnægtir en þó verið frosin, búið við stórkostleg kerfi, þróaða löggjöf og háleitar hugsjónir en ekkert verður þó gott nema fólk sé ræktað til dýpta. Jesús sagði að fólk væri ekki heilt nema innri maður þess væri tengdur hinu góða.

Hvenær endar nóttin og hvenær byrjar dagurinn? Það er þegar við viðurkennum dýrmæti annarra, að aðrir eru djásn Guðs, ómetanleg og undursamleg þá getum við elskað. Og dagur er á lofti þegar við virðum aðra eins og okkur sjálf. Getum við tamið okkur slíka mannsýn, mannrækt, mannelsku? Snilldarviðbót Jesú Krists var að Guð legði ekki aðeins til hugsun, mátt, kraft og anda heldur gerði eitthvað í málum, kæmi sjálfur. Guð sætti sig ekki við myrkur fólks heldur horfir á mennina sem sína bræður og systur. Saga Jesú er saga um dagrenningu heimsins, að Guð ákvað að sjá í mönnum bræður og systur. Okkar er að lifa í þeim anda.

Í farsóttarþreytu er myrkrið svart, kuldinn sækir í sálina, deilurnar magnast. Þegar innlokanir fara illa með fólk, streitan vex, kvíði og reiði er þarfast að opna, rækta hið jákvæða, sækja í það sem eflir fólk og láta ekki myrkrið taka yfir sál og útrýma vitund um gildi annarra. Hvenær byrjaði dagurinn? Það var þegar Guð horfði með vinaraugum á veröldina. Hvenær byrjar þinn dagur? Þegar þú lærir að lifa í elskuþrennunni.

Verkefnið er að elska Guð, elska aðra, elska okkur sjálf. Það er þrennan fyrir lífið. Og hefur mikil áhrif á hvort dagar í lífi þínu og margra annarra. En Guð í elskuþrennu sinni er þér nærri og styður.

Amen.

2020 11. OKT 18. SUNNUDAGUR EFTIR ÞRENNINGARHÁTÍÐ A

Lexía: 2Mós 20.1-17

Drottinn mælti öll þessi orð: „Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig. Þú skalt hvorki gera þér líkneski né neina eftirlíkingu af því sem er á himnum uppi eða því sem er á jörðu niðri eða í hafinu undir jörðinni. Þú skalt hvorki falla fram fyrir þeim né dýrka þau því að ég, Drottinn, Guð þinn, er vandlátur Guð og refsa niðjum í þriðja og fjórða lið fyrir sekt feðra þeirra sem hata mig en sýni kærleika þúsundum þeirra sem elska mig og halda boð mín. Þú skalt ekki leggja nafn Drottins, Guðs þíns, við hégóma því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt sem leggur nafn hans við hégóma. Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. Þú skalt vinna sex daga og sinna öllum verkum þínum. En sjöundi dagurinn er hvíldardagur Drottins, Guðs þíns. Þá skaltu ekkert verk vinna, hvorki þú sjálfur né sonur þinn eða dóttir, þræll þinn né ambátt eða skepnur þínar eða aðkomumaðurinn sem fær að búa innan borgarhliða þinna. Því að á sex dögum gerði Drottinn himin og jörð, hafið og allt sem í því er en hvíldist sjöunda daginn. Þess vegna blessaði Drottinn hvíldardaginn og helgaði hann. Heiðra föður þinn og móður svo að þú verðir langlífur í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér. Þú skalt ekki morð fremja. Þú skalt ekki drýgja hór. Þú skalt ekki stela. Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum. Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, þræl hans eða ambátt, uxa hans eða asna eða nokkuð það sem náungi þinn á.“

Guðspjall: Mark 12.28-34

Þá kom til Jesú fræðimaður einn. Hann hafði hlýtt á orðaskipti þeirra og fann að Jesús hafði svarað þeim vel. Hann spurði: „Hvert er æðst allra boðorða?“Jesús svaraði: „Æðst er þetta: Heyr, Ísrael! Drottinn, Guð vor, hann einn er Drottinn. Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum. Annað er þetta: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ekkert boðorð annað er þessum meira.“Fræðimaðurinn sagði þá við Jesú: „Rétt er það, meistari, satt sagðir þú. Einn er Guð og enginn er Guð annar en hann. Og að elska hann af öllu hjarta, öllum skilningi og öllum mætti og elska náungann eins og sjálfan sig, það er öllum brennifórnum og sláturfórnum meira.“Jesús sá að hann svaraði viturlega og sagði við hann: „Þú ert ekki fjarri Guðs ríki.“

Lífið er svo hlykkjótt – Kristín Sigurðardóttir og lífsafstaðan

Hvað gerist þegar við erum slegin niður, verðum fyrir áfalli eða slysi? Krist­ín Sig­urðardótt­ir, slysa- og bráðalæknir, er fyrirmynd um skapandi lífsleikni. Hún hef­ur starfað sem slysa- og bráðalækn­ir. Hún hefur búið og unnið í Bretlandi, á Kana­ríeyj­um og á Íslandi. En allt í einu varð Kristín fyrir áfalli. Hún þoldi ekki mygluna á Landspítalanum. Eins og margt starfsfólk spítalans varð hún að hætta vinnu þar vegna veik­inda sem rakaskemmdir ollu. Þessi kraftmikla og heilsuhrausta kona hrundi heilsufarslega. Í heilt ár var hún að gera sér grein fyrir að ytri aðstæður á vinnstað hennar ollu heilsubresti hennar. Átti hún að reyna að þrauka til að vinna við það sem henni þótti mikilvægt og skemmtilegt? Valið stóð hjá henni, eins og svo fjölmörgum öðrum, milli heilsu og vinnu. Hún valdi heilsuna, skráði sig í leiðsögumannanám og hóf störf í nýjum greinum. Niðurstaða hennar er að lífið sé hlykkjótt.

Hvað gerist þegar fólk lendir í áfalli. Margir verða reiðir og finna sökudólgana í kringum sig, festast reiðinni. En Kristín sagði: „Ég er svo mik­il Pol­lý­anna í mér að ég hef ekki lagst í reiði. Ég meira að segja neita að hugsa um mig sem veika, held­ur segi ég bara eins og er, að ég þoli ekki sumt hús­næði. Þá forðast ég það bara og geri allt sem ég get til að halda mér hraustri. Ég var líka lán­söm að áður en ég veikt­ist var ég rosa­lega hraust og gat hlaupið upp hvaða fjall sem er. Fyrst var ég mjög svekkt og sorg­mædd að hafa misst þessa hreysti mína. En það breytt­ist og seinna varð ég þakk­lát fyr­ir að hafa í raun verið svona hraust áður, því það hef­ur hjálpað mér að þola veik­ind­in bet­ur. Ég horfi á það sem ég hef og er þakk­lát fyr­ir að vera með svona góða fjöl­skyldu og vini, hreyfigetu og að geta stundað úti­vist.“

Lífsafstaða skiptir máli. Við veljum fæst af áföllum okkar eða slysum. En við höfum alltaf val um hvernig við bregðumst við þeim. Það er þungbært að hrekjast úr vinnu sinni. En þegar valið stendur milli heilsu og vinnu er mikilvægt að flýja ekki heldur horfast í augu við vandann. En í kreppum eru líka tækifæri. Kristín var opin fyrir hlykkjóttum leiðum lífsins. Þakklæti fyrir styrkleikana hjálpar við að bregðast við kreppunum. Þannig opnast framtíð.

Takk fyrir Kristín Sigurðardóttir.

Viðtal við Kristínu í sunnu­dags­blaði Mbl, 3. maí 2020. Ásdís Ásgeirsdóttir. Meðfylgjandi mynd er einnig tekin af Ásdísi, sem er frábær ljósmyndari og líka penni. Takk Ásdís. 

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/05/03/lifid_er_svo_hlykkjott/

 

Kristur er upprisinn

LífSprengjur sprungu í Belgíu í vikunni. Yfir þrjátíu létust og hundruð manna særðust. Myndirnar sem bárust með vefmiðlum heimsins voru hjartaslítandi. Drengirnir á mínu heimili voru heima í skólafríi og urðu varir við að dagskráin var rofin. Skyndifréttatími færði þeim vátíðindin og þeir hringdu í okkur foreldra sína til að ræða málin. Með sprengjurykinu þyrluðust spurningarnar upp. Koma þessir glæpamenn til okkar? Er hætta á að truflaðir sprengjumenn komi líka og ráðist á okkur? Við fórum yfir skelfingarefnin – og svipaðar spurningar og vöknuðu í tengslum við ofbeldisverkin í París í nóvember síðastliðnum. Brusselsprengjurnar voru ítrekun á voðaverkunum í Frakklandi. Og þar sem við fjölskyldan vorum nýlega á ferðinni í Evrópu og Afríku ræddum við ítarlega í tengslum við þá ferð um öryggi, líf, dauða, ofbeldi og hvernig við gætum brugðist við. Hvaða afstöðu temjum við okkur gagnvart því sem ógnar lífi og limum? Hvernig getum við brugðist sem best við?

Öryggi

Hvenær ertu örugg og öruggur? Í hverju eru hættur lífsins fólgnar? Það er ólíðandi að glæpalýður sem knúinn er af hatri og eyðingarfýsn nái að sprengja óttasprengjur sínar og skjóta skelfingarkúlum sínum í almannarými heimsins. En það eru ekki aðeins íbúar og ferðafólk í Brussel og París sem líða. Morðingjarnir í Sýrlandi hafa gert sig að óvinum okkar allra því þeir reyna að valda sem mestum ótta, raunum og skelfingum sem víðast. Og gleymum því ekki að milljónir Sýrlendinganna sem eru á flótta í og við Evrópu eru á flótta undan sömu sveitunum og sprengja í borgunum í nágrenni okkar.

Hvað ætlum við að hleypa þeim langt? Ætlum við að leyfa hatursflokkunum að sprengja óttasprengjur líka innan í okkur? Leyfum við soranum að síast inn í okkur og krydda hugsun okkar, móta innræti og magna okkur til andúðar og hræðsluviðbragða? Það væri að virða vald ofbeldissegjanna og játa mátt þeirra. Það er mál dauða og grafar.

Hátíð lífs

En nú er gröfin tóm. Páskar eru hátíð lífsins. Páskar eru dagar gleði, ljóss og fögnuðar því dauðinn dó en lífið lifir. Mál íslamska ríkisins er ekki mál páska heldur föstudagsins langa. Hverju trúum við og hvernig lifum við? Hvað temjum við okkur og hvaða lífsstefnu höfum við? Ertu föstudagskona eða föstudagskarl? Er í þér lífssafstaða föstudagsins langa? Leyfir þú ótta eða neikvæðni að ráða geðslagi þínu, hugsunum og tilfinningum? Bregstu við breytingum með neikvæðni, líka pólitískum tíðindum, listrænum gerningum eða alvarlegum heilsufarstíðindum? Hræðistu og ferð í bakkgírinn? Hvort ertu þá föstudagsvera eða páskakona eða páskakarl?

Kúbudeilan og móðursvör

Ég skildi vel spurningar drengjanna minna. Í bernsku minni varð Kúbudeilan að skelfingarviðburði í mínu lífi. Vegna fréttaflutningsins sannfærðist ég um að heimurinn væri á heljarþröm. Kennedy var kominn með puttann á kjarnorkutakkann og skuggi kjarnaoddana náði inn í barnssálina. Ég var svo sannfærður um vanda og endalok að ég tók ákvörðun um að ef heimurinn færist ekki á sjöunda áratugnum væri siðferðilega óábyrgt af mér að eignast börn því heimurinn hlyti að farast innan nokkurra áratuga. En móðir mín setti drenginn sinn á hné sér og minnti mig á að ef Guð væri til, páskarnir væru hátíð lífins, Jesús væri á lífi og Guð væri besti ferðafélagi mannsins væri ótti skiljanlegur en ætti þó ekki að fylla hugann og myrkva veröldina. Guð væri sterkari en brjálaðir karlar sem lékju sér að fjöreggjum heimsins. Þessi lífsviska ófst inn í trú mína og hefur síðan verið mér ljósgjafi í einkalífi og einnig forsenda í starfi mínu sem prests, frammi fyrir syrgjandi fólki og fórnarlömbum vonds kerfis eða spillts valds. Og svo eignaðist ég nú reyndar fimm börn sem er sterk tjáning á að Guð er gjafmildur og að lífið lifir!

Afstaða til lífsins

Trú er ekki bláeyg heldur skarpskyggn. Trú er ekki flótti frá lífinu heldur forsenda lífsstyrkjandi afstöðu. Páskarnir eru tjáning þess að líf, ást, gæði og hamingja eru sterkari og altækari en neikvæðni, hatur, eiturlyfjabyrlun, sérhyggja, vond stjórnmál, ástleysi, hatursorðræða, mengun, fyrirlitning – alls þess sem hindrar fólk í að njóta hins góða lífs. Páskarnir eru veruleiki og tjáning kraftaverksins – að lífið er gott, – að maðurinn er ekki einn. Páskarnir eru ekki aðeins dagur með boðskap heldur lífshvati að við stoppum aldrei á löngum föstudegi heldur höldum áfram, berjust gegn því sem hindrar fólk til hamingjulífs. Því varðar páskadagur flóttafólk frá Sýrlandi og hvernig eigi að bregðast við í trú og af ábyrgð. Páskar varða líka pólitík í okkar eigin landi. Páskarnir eru boðskapur um hvernig við eigum að nota og umgangast land, sjó og loft. Páskatrúin er kraftuppspretta og lífsmótandi fyrir tengsl okkar við fólk. Dauðinn dó og lífið lifir varðar hvort við hættum að fyrirlíta aðra og förum að sjá í þeim vini Guðs, stórvini Jesú Krists, já fulltrúa hans í heimi. Páskatrú varðar því félagsafstöðu, pólitík, umhverfismál, utanríkismál, hlutverk kirkju í heiminum og einkalíf þitt við eldhúsborð og páskatrúin á líka erindi inn í svefnherbergin! Hvort við erum föstudagsfólk eða páskafólk varðar hvort við sjáum tilgang í að vera góðir foreldrar eða ekki, blása bjartsýni í hrædda drengi og skelfdar dætur eða ekki. Páskatrú er afstaða til lífsins – að fara út úr skugga föstudagsins langa og inn í birtuskin hinnar dansandi sólar á páskum, standa alltaf lífsmegin.

Hvernig ertu hið innra? Ertu föstudagsmaður eða sunnudagsmaður? Er glasið þitt hálffullt eða hálftómt? Kannski er í þér blanda af báðum dögum. Hvernig ferðu með allt, sem er þér mótdrægt og andsnúið? Ég heyrði um konu, sem alla ævi bjó við kröpp kjör, mikla fátækt og missti mikið. Hún átti sér orðtæki og sagði gjarnan: „Ég er svo heppin.“ Hún hafði lært að sjá í erfiðum aðstæðum ljós og möguleika. Hún var – þrátt fyrir áföllin – hamingjusöm og lánsöm því hún tamdi sér jákvæðni.

En lífið er ekki bara spurning um jákvæðni eða neikvæðni, að vera í stuði eða í mínus, föstudagsgeðslag eða sunnudagsstemmingu. Þegar föstudagurinn langi var að kvöldi kominn var öllu lokið. Guð og maður á krossi! Þá var illt í efni og verra verður það ekki. En síðan er seinni hluti sögunnar sá, að dauða var snúið í andhverfu sína og sagan endaði vel þrátt fyrir dauða söguhetjunnar. Gröfin sleppti feng sínum, lífið lifnaði og tilveran er góð. Það eru þær fréttir, sem breyta öllu í lífi kristins manns.

Ef við temjum okkur jákvæðni í lífinu höfum við lært lífsleikni, sem hjálpar í þrautum og þegar eitthvað verður okkur mótdrægt. Við verðum þar með sunnudagsfólk. En þegar við heyrum páskaboðskapinn og tökum hann til okkar verðum við að auki páskafólk. Og páskaboðskapurinn er kraftaverk í lífi sunnudagsjákvæðninnar. Því lífið er ekki bara af sjálfu sér heldur líf í sólarsamhengi Guðs. Ekkert er svo slæmt í þínu lífi, ekkert er svo dapurlegt, engin áföll eru svo stór, ekki í Brussel, París, Sýrlandi eða í Reykajvík, að Guð geti ekki, megni ekki og megi ekki koma þar að með hjálp sína og gleði. Trúir þú því?

Kristur er upprisinn. Hann reis upp fyrir þig og þér til lífs. Amen.

Textaröð: A

Lexía: Slm 118.14-24

Drottinn er styrkur minn og lofsöngur,

hann varð mér til hjálpræðis.

Fagnaðar- og siguróp kveða við í tjöldum réttlátra:

„Hægri hönd Drottins vinnur máttarverk,

hægri hönd Drottins er upphafin,

hægri hönd Drottins vinnur stórvirki.“

Ég mun eigi deyja heldur lifa

og kunngjöra dáðir Drottins.

Drottinn hefur hirt mig harðlega

en eigi ofurselt mig dauðanum.

Ljúkið upp fyrir mér hliðum réttlætisins

að ég megi ganga inn um þau og lofa Drottin.

Þetta er hlið Drottins,

réttlátir ganga þar inn.

Ég þakka þér að þú bænheyrðir mig

og komst mér til hjálpar.

Steinninn, sem smiðirnir höfnuðu,

er orðinn að hyrningarsteini.

Að tilhlutan Drottins er þetta orðið,

það er dásamlegt í augum vorum.

Þetta er dagurinn sem Drottinn gerði,

fögnum og verum glaðir á honum.

Pistill: 1Kor 5.7-8

Hreinsið burt gamla súrdeigið til þess að þið séuð nýtt deig enda eruð þið ósýrð brauð. Því að páskalambi okkar er slátrað sem er Kristur. Höldum því hátíð, ekki með gömlu súrdeigi eða súrdeigi illsku og vonsku heldur með ósýrðum brauðum hreinleikans og sannleikans.

Guðspjall: Mrk 16.1-7

Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: „Hver mun velta fyrir okkur steininum frá grafarmunnanum?“ En þegar þær líta upp sjá þær að steininum hafði verið velt frá en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju, og þær skelfdust.

En hann sagði við þær: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjáið þarna staðinn þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann eins og hann sagði yður.“