Greinasafn fyrir merki: páskar

EXIT

Ég var sjö ára gamall. Vorið var komið og börnin í götunni voru úti. Það var fjör á Tómasarhaganum. Eldri strákar sem ég þekkti komu og vildu sýna okkur krökkunum inn í bílskúr við götuna. Það var galsi í hópnum og ævintýraleiðangur hófst. Strákarnir opnuðu skott á bíl sem þar var og einn úr hópnum sneri sér að mér og skipaði mér að að klifra upp í skottið. Ég hlýddi og þá var skottlokinu skellt aftur. Ég var strand í myrkrinu og æpti: „Sleppið mér út!En strákarnir hlógu. Svo heyrði ég að þeir fóru, lokuðu bískúrshurðinni og allt hljóðnaði. Á nokkrum mínútum hrundi tilveran. Ég hafði verið úti, í birtu og undir berum himni frelsis og gleði. Allt í einu var ég strand í myrkri og bjargarlaus. Ópin skiluðu engu. Ekkert skínandi exitmerki vísaði veg í myrkrinu. Engin neyðarútgangur og ógerlegt að opna læsingu á skottlokinu. Mér tókst ekki heldur að spyrna því upp. Ég vonaðist til að ég myndi finnast en hversu langan tíma myndi það taka? Myndi ég vera týndur í bílnum heila nótt? Hvað átti ég að gera? Ná í felgulykil og berja mig til frelsis, æpa þar til einhver heyrði? Eða bíða, hlusta og biðja um Guðshjálpina? Ég komst að því að það væri það eina sem ég gæti gert. Eftir klukkutíma í líflausri og illa lyktandi farangursgeymslunni kom einn af sökudólgunum og opnaði skottið. Hann hljóp svo burt. Ég brölti úr fangelsinu. Mikið var frelsið stórkostlegt, birtan undursamleg og súrefnið svalandi sem streymdi niður í lungun. Upprisa. 

Lokun

Innilokun er vond og getur valdið fólki djúptækum sálarskaða. Lokun getur verið með margvíslegu móti í lífi okkar manna. Við getum lokast í ofbeldissambandi eða í fangelsi fíkna. Vonska fólks getur farið illa með viðkvæmar sálir. Valdakerfi og hagsmunakerfi geta kramið. Áföll, veikindi og slys verða mörgum fjötrar. Kærleiksskert fólk kremur.

 

Oft hefur verið spurt hvað væri það hræðilegasta við það sem fólk túlkar sem helvíti? Svarið hefur löngum verið að þar væri engin neyðarútgangur, ekkert exit. Hið hræðilegasta af öllu skelfilegu erlokaður veruleiki. Dauðinn. Jesús var lagður í holu. Lífið var farið. Steini var velt fyrir hellismunnan. Engin útleið, engin flóttaleið, ekkert exit. Líkami Jesú var lokaður inni. Hann var þó ekki einn heldur í hlutverki sem fulltrúi allra manna. Í hinum fyrsta Adam voru allir menn og í Jesú voru sömuleiðis allir. Allt búið, engin útleið?

Út

Nútíma hús er svo gerð að fólk á ekki að geta lokast inni. Neyðarútgangar eru í byggingum, líka kirkjum. Til að leiðbeina fólki eru sett upp flóttaleiðarmerki. Á þeim er gjarnan mannvera á hlaupum. Þar er líka ör fyrir stefnu og oftast ljós reitur sem dyratákn. Svona merki eru líka í flugvélum og skipum. Merkin eru græn á Íslandi og í mörgum löndum erlendis en víða eru líka til rauð merki. Neyðarútgangur stendur á sumum hinna íslensku. Erlendis stendur gjarnan EXIT á merkjunum. Þau eru vegvísar sem er ætlað að leiðbeina þó dimmt sé, rafmagn farið og reykur fylli hús.

Flóttamerkin eru til að hjálpa í neyð. Þeim má treysta og stefnan út úr ógninni er gefin. En hvað um þegar við rötum í andlegar ógöngur? Eru til einhver græn leiðarmerki sem vísa veg? Jesús Kristur var ekki haminn af neinum festum. Grafhvelfingin hélt honum ekki föngnum. Dauðinn dó en lífið lifir. Opnun er einkenni lífs. Trúin sér í Jesú Kristi leiðina út úr heftingum. Ekkert myrkur er honum of myrkt, enginn sálarkreppa er honum ofraun. Engin ástarsorg er honum ókunn. Ekkert vinnupuð er honum framandi. Ekkert ofbeldi er honum fjarlægt. Hann er við hlið fólks í skottum lífsins, í hellum sorgarinnar og í lífleysu vonskunnar. Hann heldur í hendi okkar þegar við dettum, tekur á móti þegar við hrösum. Við erum laus úr skottinu því Kristur er upprisinn. Kristur er sannarlega upprisinn. 

Páskar 2021

Lífið lifir

Kristur er upprisinn – Kristur er sannarlega upprisinn. Þetta er hin forna páskakveðja um, að dauðinn dó og lífið lifir. Kveðjan þarf að berast sem víðast, heyrast sem best og ná inn í grunn lífs okkar. Fréttin varðar okkur öll, mennina, en líka allt líf, líka lífið í hreiðrum fugla, í moldinni, sjónum, ám og slímhúð mannanna.

Fyrir tæpu ári síðan stóðum við nokkur við leiði neðst í Fossvogskirkjugarði. Fallegt duftker ástvinar var þegar komið að gröfinni. Sólin skein og geislar hennar þrengdu sér milli greina og umvöfðu kerið. Þröstur sat á steini og fylgdist með okkur. Ástarsöngvar annarra fugla heyrðust úr trjánum umhverfis. Til okkar barst líkaflugvélahljóð og bílaniður. Vorflugur voru komnar á kreik. Ástvinirnir færðu sig að gröfinni. Þegar við ætluðum að byrja athöfnina var allt í einu hækkað í útvarpi í bíl, sem var við gröf nálægt okkur. Mannlegi þátturinn var að byrja á RÚV og fjörleg músík hljómaði. „Þetta er forspilið“ sagði ég og ástvinirnir kinnkuðu kolli brosandi. Útfararstjórinn hljóp af stað til bílstjórans og bað um að fjörið yrði dempað. Svo var hægt að halda áfram. Öll voru tilbúin til síðustu kveðju. Ég las úr sálmabók Jesú, Davíðssálmunum, sem tjá allar mannlegar tilfinningar. Kerið fór í jörð og ég mokaði fyrstu skóflufyllunum. Síðan komu synir hins látna og molduðu. Hin líkamlega kveðja.

Þegar grafarholan var nánast full kom þrösturinn fljúgandi. Hann settist við fætur mér og leitaði að möðkum í moldinni. Það var undursamlegt, að sjá þennan fiðraða vin, fullkomlega rólegan og óhræddan. Var þetta teikn, kannski engill? Fleiri ástvinir komu og mokuðu. Fuglinn veik ávallt til hliðar þegar moldin féll, en smeygði sér svo niður í holuna á milli mokstra. Ég beygði mig og setti nokkra maðka til hliðar og þrösturinn þakkaði fyrir sig með höfuðhneigingu. Svo fullmokuðum við. Þrösturinn þjappaði og maðkhreinsaði. Þá blessuðum við og krossuðum, komum fyrir blómum, horfðum hvert á annað, síðan upp í himininn og táruðumst svolítið. Sólin kyssti okkur öll.

Þrösturinn leitaði að fæðu fyrir ungviði sitt á gröfinni. Dauðinn er hluti af lífinu og líf sprettur af gröf. Orðin í 104. Davíðssálmi leituðu á mig: „Öll vona þau á þig að þú gefir þeim fæðu þeirra á réttum tíma. Þú gefur þeim og þau tína, þú lýkur upp hendi þinni og þau mettast gæðum.“ Ég prédikaði ekki yfir fuglunum þennan daginn, en fuglinn prédikaði stórkostlega um Guð og dýrmæti lífsins. Jarðsetning duftkers varð stund upprisunnar. Þrösturinn velti steinum frá tilfinningalegum grafarmunnum. Já, dauðinn dó og lífið lifir.

Á þessum páskum er hugur okkar með öllum þeim, sem eru veik, af kórónaveirunni eða öðrum sjúkdómum. Þeim eru margir dagar langir föstudagar. Margir standa álengdar fjær og hafa áhyggjur af þeim sem eru sóttsjúkir og berjast við veikindi. Og blessað veri allt það fólk sem sinnir hinum veiku. Hin örsmáa kórónaveira hefur kastað álagaham á heimsbyggðina, veiklað kerfi, opinberað vit og mikilvægi þekkingar og fagemennsku en líka vitgrannt vald, sem ekki lætur stjórnast af mannúð, kærleika og umhyggju. Liðið ár og þessi sóttartími hefur dýpkað vitund margra um, að mannkyn og náttúra eru eitt. Menn geta valdið miklum spjöllum og eyðilagt líf og lítil veira getur sett mannlíf þúsunda milljóna úr skorðum. Við menn og lífvefnaður heimsins erum eitt og verðum ekki slitin í sundur. Okkur ber að virða betur hið fíngerða samspil lífheimsins og vera ábyrg.

Kristur er upprisinn er erindi dagsins. Það fagnaðarerindi á erindi við líkamlega sjúkt en líka heilbrigt fólk, en einnig veirur og bakteríur, lofthjúp og sjó, jökla og ár, fiska og fugla. Dauðinn dó en lífið lifir er boðskapur um að föstudagurinn langi er ekki niðurstaða tilraunar um líf á jarðarkúlu okkar. Lífið lifir er erindi páskanna og varðar allt og alla. Líf okkar manna er ekki tilvera til dauða heldur lífs. Fuglinn í dauðaholunni prédikaði um lífið, að öllu er vel fyrir séð og að við erum blessuð.

Kristur er upprisinn – Kristur er sannarlega upprisinn. Guð gefi þér gleðilega páska.

Meðfylgjandi mynd tók ég af þrestinum við matarleit á gröfinni. Sigurður Árni Þórðarson

 

Þröstur í kirkjugarðinum og lífið

Við stóðum við leiði neðst í Fossvogskirkjugarði. Fallegt duftker ástvinar var þegar komið að gröfinni. Sólin skein og geislar hennar þrengdu sér í gegnum laufþykknið og umvöfðu kerið. Þröstur sat á steini og fylgdist með okkur. Fuglasöngur var í fjarska, þotuhljóð og bílaniður og flugur suðuðu. Svo komu ástvinirnir nær og athöfnin byrjaði. Þá kom í ljós að Mannlegi þátturinn var byrjaður á RÚV og fjörleg músíkin hljómaði frá útvarpi. „Þetta er forspilið“ sagði ég og allir brostu. Nafni minn, hjá Útfararstofu kirkjugarðanna, var snöggur að bílstjóranum og bað um að tónlistin yrði lækkuð. Öll voru tilbúin til síðustu kveðju. Svo las ég úr sálmabók Jesú, Davíðssálmunum, sem tjá allar mannlegar tilfinningar. Kerið fór í jörð og ég mokaði fyrstu skóflufyllunum yfir kerið í jörðu. Síðan komu synir hins látna og þá hin. Allir molduðu. Hin líkamlega kveðja.

Þegar grafarholan var nánast fyllt kom þrösturinn fljúgandi, stóð við fætur mér og leitaði að möðkum í moldinni. Það var undursamlegt að sjá þennan fiðraða vin, fullkomlega rólegan og yfirvegaðan. Var þetta teikn, kannski engill? Fleiri komu og mokuðu, fuglinn veik ávallt til hliðar þegar moldin féll en smeygði sér svo niður. Ég beygði mig  og setti nokkra maðka til hliðar og þrösturinn þakkaði fyrir sig með höfuðhneigingu. Svo fullmokuðum við, þrösturinn þjappaði og maðkhreinsaði. Þá blessuðum við og krossuðum, kvöddum, komum fyrir blómum, horfðum hvert á annað, síðan upp í himininn og táruðumst svolítið.

Þrösturinn leitaði að fæðu fyrir ungviði sitt.  Og lexía hvítasunnunnar leitaði á mig, orðin í 104. Davíðssálmi: „Öll vona þau á þig að þú gefir þeim fæðu þeirra á réttum tíma. Þú gefur þeim og þau tína, þú lýkur upp hendi þinni og þau mettast gæðum.“ Þarna prédikaði ég ekki mikið yfir fuglunum, en fuglinn prédikaði stórkostlega um Guð og dýrmæti lífsins. Jarðsetning duftkers var stund upprisunnar og þrösturinn velti nokkrum steinum frá tilfinningalegum grafarmunnum. Já dauðinn dó og lífið lifir.

Páskafólk

Konur á leið út úr borginni og í ómögulegum erindagerðum. Þær voru vonsviknar og sorgbitnar. Þær höfðu ekki aðeins misst náin vin í blóma lífsins, heldur líka málstað, sem hafði virst svo gæfulegur en hafði tapað, já með því róttæka móti að leiðtogin var aflífaður. Konurnar, sem gengu út til garðs og grafar á páskamorgni voru á leið að lokaðri gröf, sem þær gætu alls ekki opnað.

Þessar konur eru fulltrúar fólks, sem verður fyrir áföllum, verður fyrir sjúkdómum, óttast um ástvini sína, missir vinnu, tapar fé, lendir í ógöngum, verður fyrir skakkaföllum. Þessar konur höfðu upplifað langan föstudag. Þær voru föstudagskonur.

Í lífi allra manna verða áföll. Við erum öll föstudagsfólk, við eigum öll okkar löngu föstudaga í lífinu, verðum fyrir þungum raunum sem fylla okkur depurð og eru okkur raun. En miklu skiptir hvernig úr áföllum er unnið. Öllu varðar að reyna að læsast ekki inni. Það sem einkennir föstudagsfólkið er lokun, hefting og bæling. Föstudagsfólkinu er starsýnt á vandkvæði, vesen, sjúkdóma og vond tíðindi. Heimur þeirra hefur tilhneigingu til að fara versnandi og hin góðu mál fara fram hjá þeim. Föstudagsfólkinu er tamt, að sjá bara það sem næst er og túlka með ótta eða neikvæðni í huga. Í stað þess að sjá möguleika, nýjung og opnun í þróun og jafnvel áföllum hættir föstudagsfólkinu til að ræða um erfiðleika, ógnir og fyrirstöður. Í stað þess að hrífast af undrum lífsins, litbrigðum jarðar, bruminu á trjánum hér utan kirkju eða þungum nið tíma og geims sér föstudagsfólkið bara lokuð kerfi og afþakkar eða afneitar öllum frekari dýptum og víddum.

Jú, áföllin eiga sinn tíma – allir þarfnast næðis eftir að lífið hefur krossað þá. Allir verða ringlaðir á löngum föstudögum lífsins. En er náttúran bara ljót? Er tilveran bara neikvæð, sjúk, dapurleg og til dauða? Föstudagsfólkið hneigist til þeirrar afstöðu, ef ekki í lífsskoðun þá í praxis.

Páskalíf

Og þá er mál páskamorguns. Nýr dagur, dauðinn dó en lífið lifir. Kristur er upprisinn – Kristur er sannarlega upprisinn. Yfirvöld höfðu sett verði við gröfina til að varna grafarráni og hindra að líki Jesú yrði stolið. En verðirnir urðu fyrir mikilli reynslu, og það hefur væntanlega verið einhvers konar ljósvitrun. Það sem þeir urðu vitni að var svo rosalegt að þeir lögðu á flótta, sem varðmenn gerði ekki nema í ítrustu neyð því hlaup frá varðmennskunni var grafalvarlegt brot.

Þegar harmþrungnar föstudagskonurnar komu út í garðinn var steinninn frá, gröfin tóm og lík hins látna Jesú Krists horfið. Konurnar urðu líka fyrir reynslu, sem síðan var höfð í minnum, sögð og endursögð margsinnis og íhuguð. Þá lenti föstudagsfólkið í sunnudagsfréttunum. Konurnar urðu að bregðast við viðburðinum, nýjum aðstæðum og nýrri túlkun. Já, tilveran breyttist vissulega þegar leiðtoginn féll frá við krosspyntingarnar. En svo breyttist allt að nýju með boðskap páskadags.

Innri ákörðun

Hvað viltu með þessa frásögn þessa lífsdags? Hvað gerir þú með gleðifréttina að dauðinn dó og lífið lifir? Hvernig ertu hið innra? Ertu föstudagsmaður eða sunnudagsmaður? Er glasið þitt hálffullt eða hálftómt? Hvernig ferðu með allt, sem er þér mótdrægt og andsnúið?

Ég veit um konu, sem sagði gjarnan: “Ég er svo heppin.” En alla ævi bjó hún þó við kröpp kjör, mikla fátækt og missti mikið. Hún hafði lært að sjá í erfiðum aðstæðum ljós og möguleika. Hún var – þrátt fyrir áföllin – hamingjusöm og lánsöm því hún tamdi sér jákvæðni. Hún sá ekki bara ógnir heldur tækifæri, gleði í stað sorga, líf í stað dauða.

En lífið er ekki bara spurning um jákvæðni eða neikvæðni, að vera í stuði eða í mínus, föstudagsgeðslag eða sunnudagsstemmingu. Þegar föstudagurinn langi var að kvöldi komin var öllu lokið. Guð og maður á krossi! Þá var illt í efni. Verra verður það ekki. En síðan er seinni hluti sögunnar sá, að dauðanum var snúið í andhverfu sína, sagan endaði vel þrátt fyrir dauða söguhetjunnar. Gröfin sleppti feng sínum, lífið lifnaði og tilveran er góð. Það eru þær fréttir, sem breyta öllu í lífi kristins manns. Það eru þær fréttirnar sem eru kallaðar fagnaðarerindi. Slíkar fréttir eru gleðifréttir, frábærar fréttir.

Ef við temjum okkur jákvæðni í lífinu höfum við lært lífsleikni, sem hjálpar í þrautum og þegar eitthvað verður okkur mótdrægt. Við verðum þar með sunnudagsfólk. En þegar við heyrum páskaboðskapinn og tökum hann til okkar verðum við að auki páskafólk. Og páskaboðskapurinn verður sem kraftaverk í lífi sunnudagsjákvæðninnar, þegar geisli sólar sem fer í gegnum okkur og umbreytir okkur. Lífið er ekki bara af sjálfu sér heldur líf í sólarsamhengi Guðs.

Lífsfrásögn páskanna umbreytti veröldinni. Þegar við heyrum páskaboðskapinn megum við leyfa honum að umbylta lífi okkar. Veröldin er ekki lengur lokað kerfi dapurlegra ferla. Heimurinn er ekki bara til dauða, heldur er opið kerfi og jafnvel lögmál lífs og dauða eru brotin. Ekkert er svo slæmt í þínu lífi, ekkert er svo dapurlegt, engin áföll eru svo stór, að Guð geti ekki, megni ekki, nái ekki og megi ekki koma þar að með hjálp sína og gleði.

En engillinn mælti við konurnar: „Þið skuluð eigi óttast. Ég veit að þið leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn … Hann er upp risinn frá dauðum …“

Konungur ljónanna

kon ljónannaFyrir páskana fór ég á leiksýningu Hagaskóla á Konungi ljónanna. Á annað hundrað nemenda gegndu einhverju hlutverki við uppsetninguna, m.a. 22 manna hljómsveit. Þetta var frábær uppfærsla og uppselt á allar tíu sýningarnar. Ég var djúpt snortinn af leik, söng, hljóðfæraleik, dönsum og líka búningum sem nemendur gerðu sjálfir. Ég heyrði ekki aðeins í foreldrum og skólafólkinu heldur líka í fagfólki úr leikhús- og tónlistar-geiranum að sýningin hefði heppnast framar vonum. Það var gaman að fylgjast með ungmennunum sem ég þekki úr fermingarfræðslunni kirkjunni leika, dansa, stjórna, spila, sjá um tæki og tól og þau megnuðu að veita okkur upplifun á dýptina. (Sigríður Birna Valsdóttir, leiklistarkennari, skólastjórn, starfsfólk og nemendur Hagaskóla eiga hrós skilið)

Að heiman og heim
Konungur ljónanna – hvers konar saga er það? Sagan er byggð á minnum úr Gamla testamnti Biblíunnar – um Móse og Jósep – og rithöfundar hafa um aldir notað frumsögurnar, líka Shakespeare í Hamlet og Macbeth. Konungur ljónanna kom fyrst út sem Disneymynd árið 1994. Þetta er þroskasaga og segir af ungum Simba sem var hugaður, djarfur en líka einfaldur, lét plata sig og gerði hrapaleg mistök. Hann flúði svo að heiman því hann hélt að hann hefði banað föður sínum. Svo eignaðist hann nýtt líf í fjarlægu landi. En hann heyrði svo hve illa gengi heima, allt hafði farið á verri veg. Hann hafði hlaupið frá skyldu sinni og hlutverkum og þar með sjálfum sér. Simbi neyddist til að íhuga hlutverk sitt og stöðu. Þegar hann horfðist í augu við sjálfan sig skildi hann að flótti í lífinu dugar ekki. Allir verða að mæta verkefnum lífsins, þó þau séu hættuleg og erfið. Hið illa má ekki sigra. Hið góða verður ekki nema fyrir því sé haft og barist fyrir því. Flótti leiðir ekki til farsældar heldur aðeins það að axla ábyrgð og hafa fyrir því sem máli skiptir og eflir lífsgæðin. Simbi, Pumba, Nala, Tímon og að lokum allir með ráði og réttri rænu tóku þátt í baráttunni fyrir lífinu. Hið góða sigraði.

Þín saga og þín viska?
Hvað er að lifa með ábyrgð? Það er m.a. að komast aftur heim með þroska að veganesti, verða að fullveðja og ábyrgri mannveru. Konungur ljónanna er kennslusaga, góð í snittinu, aukin með tónlist Elton John og Tim Rice og vel unnin. Það var ánægjulegt að sjá vel farið með stóra sögu og gaman að sjá unglinga túlka svo vel. Í sögunni eru íhuganir um föðurinn, um heiminn, himininn, skyldu, siðferði, ábyrgð, flótta, synd, sundrungu, náttúrusýn, samfélag og hin stóru samskiptastef hvernig lífi þarf að lifa til að farsæld ríki. Og hið illa læðist um og reynir alltaf að ná völdum – en vei því samfélagi sem lýtur vondu valdi.

Móse og einnig Jósep fóru að heiman og gerðu tilraunir. Þeirra þroski skilaði góðu til samfélags þeirra. Biblían segir sögur um venjulegt fólk sem gerð mistök en gekk í sig. Sögurnar eru okkur til styrktar og eftirbreytni. Enginn lifir fyrir okkur, við gerum okkar tilraunir til góðs en stundum líka til ills. Jesús sagði hina frægu sögu af syninum sem vélaði út arf sinn, sóaði honum og kom síðan heim að nýju gjaldþrota hið ytra sem innra. Við honum var þó tekið í Jesúdæmisögunni. Hvernig er þín saga? Fórstu að heiman og gerðir tilraunir með þanþol þitt, fjölskyldu þinnar eða lífsins? Fórstu einhvern tíma að mörkum, dastu jafnvel og hruflaðir þig illa? Elskaðir þú en misstir? Áttir þú einhvern tíma í fangi þér ástvin sem er farinn? Mesta undur lífsins er að elska og vera elskaður. Dýpstu sorgir sem menn lifa er þegar elskurnar deyja eða hverfa.

Möguleikar
Biblían stendur alltaf með lífinu. Sögurnar sem hún segir eru gjarnan um að þrátt fyrir missi, ólán og hörmungar er lífs að vænta. Við megum endurnýjast. Móse sneri aftur til að beita sér fyrir hinu góða. Jósep varð til stórkostlegrar gæfu þrátt fyrir hann yrði ofbeldi að bráð og margs konar órétti. Og boðskapur Jesú var boðskapur guðsríkisins að hin fangelsuðu, sjúku, fyrirlitnu, kúguðu – þau sem væru á röngunni í lífinu – hefðu líka séns. Lífið væri fyrir alla – ekki aðeins forréttindafólk. Biblían kennir að alltaf er möguleiki, aldrei eru öll sund lokuð, aldrei erum við svo djúpt sokkin og aldrei svo fyrirlitleg að við megum ekki snúa við, fara til baka, horfast í augu við ástand okkar eða aðstæður. Aldrei of seint að snúa við – alltaf nýtt upphaf mögulegt. Okkar er vænst, Guð þráir að við verum við sjálf og í sambandi við okkur sjálf, við samfélag og Guð.

Exit?
En svo er það stóri plús páskanna. Saga Jesú er ekki aðeins það að snúa til baka frá Egyptalandi, úr óbyggðinni eða pólitískri klemmu. Saga hans er ekki þroskasaga unglings sem kemur til sjálfs sín og verður að fullveðja og ábyrgum manni. Jesús Kristur dó, öllu var lokið og öll sund voru lokuð. Honum var komið fyrir holu með engri útleið. Bjargi var velt fyrir innganginn og þar með: Ekkert exit – lífi lokið. Sagan var harmsaga. Ramminn var skýr um mörk mennsku, lögmál heims, lífs og dauða. En Guð er stærri en heimur. Lokaður veruleiki sprakk. Í upprisuboðskapnum er komið að mörkum. Í veruleika Guðs eru möguleikar. Höfundur lífsins er stærri en lífslok. Ást Guðs á mönnum og veröld er meiri enn þröngsýni, sjálfsást eða samsöfnuð eyðilegging manna. Lokurnar voru frá og stórheimur Guðs var opinberaður. Jesús var ekki lengur í landi dauðans heldur lífsins.

Guðssaga
Hvað þýðir það? Okkur er flestum blásið í brjóst það hyggjuvit að við getum bætt fyrir afbrot okkar. Áföllin geta verið stór en mörg má bæta fyrir. Við megum rísa á fætur þrátt fyrir að við hrösum eða dettum. En páskarnir eru opnun alls sem er. Dauðinn er ekki lengur helsi lífsins. Hinn lifandi Jesús Kristur hefur leyst alla fjötra og opnað nýtt land og þar með skilning. Í því er plúsinn fólginn. Guð vill leyfa okkur að lifa í mun stærra samhengi en við fáum séð með eigin hygjguviti. Hin góðu tíðindi páskanna er að líf þessa heims er í góðum tengslum við líf himinsins. Þessi heimur er ekki lokaður heldur galopinn. Jesús Kristur er ekki aðeins konungur ljónanna heldur lífsins. Páskasagan er engin þroskasaga heldur Guðssaga.

Í ljósi páskasólarinnar megum við opna allar gáttir sálar og lífs. Leyfa okkur að snúa við í öllum skilningi, leyfa ástvinum okkar að hvíla í öryggi himinsins, sjá okkur í góðum tengslum við tíma og eilífð. Þegar við opnum getum við sagt með ákefð og nýrri von og trú. Kristur er upprisinn – og svarið við því er: Kristur er sannarlega upprisinn.
Amen.

Páskar 2013, 31. mars.

Textaröð: B
Lexía: Jes 25.6-9
Drottinn allsherjar mun á þessu fjalli
búa öllum þjóðum veislu,
veislu með réttum fljótandi í olíu
og með dreggjavíni, með réttum úr olíu og merg
og skírðu dreggjavíni.
 Á þessu fjalli, fyrir framan fortjaldið,
sem er hula öllum þjóðum
og forhengi öllum lýðum,
mun hann afmá dauðann að eilífu.
 Drottinn Guð mun þerra tárin af hverri ásjónu
og afmá smán lýðs síns af allri jörðinni
því að Drottinn hefur talað.
 Á þeim degi verður sagt:
 Þessi er Guð vor sem vér höfum vonað á
og hann mun frelsa oss.
 Þessi er Drottinn sem vér höfum vonað á,
 fögnum og gleðjumst yfir hjálp hans.

Pistill: 1Kor 15.1-8a

Ég minni ykkur, systkin, á fagnaðarerindið sem ég boðaði ykkur, sem þið og veittuð viðtöku og þið standið einnig stöðug í. Það mun og frelsa ykkur ef þið haldið fast við það sem ég boðaði ykkur, ella hafið þið til einskis tekið trú. Því það kenndi ég ykkur fyrst og fremst, sem ég einnig hef meðtekið, að Kristur dó vegna synda okkar samkvæmt ritningunum, að hann var grafinn, að hann reis upp á þriðja degi samkvæmt ritningunum og að hann birtist Kefasi, síðan þeim tólf. Því næst birtist hann meira en fimm hundruð bræðrum í einu sem flestir eru á lífi allt til þessa en nokkrir eru sofnaðir. Síðan birtist hann Jakobi, því næst postulunum öllum.
 En síðast allra birtist hann einnig mér.

Guðspjall: Matt 28.1-8
Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina. Þá varð landskjálfti mikill því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann. Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór. Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir.
En engillinn mælti við konurnar: „Þið skuluð eigi óttast. Ég veit að þið leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn þar sem hann lá. Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: Hann er upp risinn frá dauðum, hann fer á undan ykkur til Galíleu. Þar munuð þið sjá hann. Þetta hef ég sagt ykkur.“
Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin.