Greinasafn fyrir merki: grafarhola

Þröstur í kirkjugarðinum og lífið

Við stóðum við leiði neðst í Fossvogskirkjugarði. Fallegt duftker ástvinar var þegar komið að gröfinni. Sólin skein og geislar hennar þrengdu sér í gegnum laufþykknið og umvöfðu kerið. Þröstur sat á steini og fylgdist með okkur. Fuglasöngur var í fjarska, þotuhljóð og bílaniður og flugur suðuðu. Svo komu ástvinirnir nær og athöfnin byrjaði. Þá kom í ljós að Mannlegi þátturinn var byrjaður á RÚV og fjörleg músíkin hljómaði frá útvarpi. „Þetta er forspilið“ sagði ég og allir brostu. Nafni minn, hjá Útfararstofu kirkjugarðanna, var snöggur að bílstjóranum og bað um að tónlistin yrði lækkuð. Öll voru tilbúin til síðustu kveðju. Svo las ég úr sálmabók Jesú, Davíðssálmunum, sem tjá allar mannlegar tilfinningar. Kerið fór í jörð og ég mokaði fyrstu skóflufyllunum yfir kerið í jörðu. Síðan komu synir hins látna og þá hin. Allir molduðu. Hin líkamlega kveðja.

Þegar grafarholan var nánast fyllt kom þrösturinn fljúgandi, stóð við fætur mér og leitaði að möðkum í moldinni. Það var undursamlegt að sjá þennan fiðraða vin, fullkomlega rólegan og yfirvegaðan. Var þetta teikn, kannski engill? Fleiri komu og mokuðu, fuglinn veik ávallt til hliðar þegar moldin féll en smeygði sér svo niður. Ég beygði mig  og setti nokkra maðka til hliðar og þrösturinn þakkaði fyrir sig með höfuðhneigingu. Svo fullmokuðum við, þrösturinn þjappaði og maðkhreinsaði. Þá blessuðum við og krossuðum, kvöddum, komum fyrir blómum, horfðum hvert á annað, síðan upp í himininn og táruðumst svolítið.

Þrösturinn leitaði að fæðu fyrir ungviði sitt.  Og lexía hvítasunnunnar leitaði á mig, orðin í 104. Davíðssálmi: „Öll vona þau á þig að þú gefir þeim fæðu þeirra á réttum tíma. Þú gefur þeim og þau tína, þú lýkur upp hendi þinni og þau mettast gæðum.“ Þarna prédikaði ég ekki mikið yfir fuglunum, en fuglinn prédikaði stórkostlega um Guð og dýrmæti lífsins. Jarðsetning duftkers var stund upprisunnar og þrösturinn velti nokkrum steinum frá tilfinningalegum grafarmunnum. Já dauðinn dó og lífið lifir.