Eftirlýstur

Fyrir þremur vikum slapp fangi úr haldi lögreglu við dómhúsið við Lækjartorg og hljóp lögregluna af sér. Lýst var eftir honum og leitin var áköf. Saklaus unglingur varð m.a. tvisvar fyrir að lögreglan hélt að hann væri hinn eftirlýsti sakamaður. „Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig.” Það var lýsingin á fangamissi og fangafundi. Eftirlýstur – og þessir viðburðir rifjuðu upp fyrir mér hálfrar aldar eftirlýsingu, auglýsingaplakat, sem við, unglingarnir í Neskirkju, gerðum af miklum metnaði. Þetta var á hippaárunum þegar Jesúfólkið erlendis hélt á lofti myndum af öðru vísi Jesú en í kirkjunum. Það voru myndir af andófsjesú, þessum sem þorði að vera öðru vísi. Og þannig hafði Jesús verið en rímaði líka við draum og hugsjónir fólks um ábyrgð í samfélagi, þor til að vera í samræmi við dýpri viðmið. Svo var sá Jesús auðvitað líka vörpun á draumum okkar unglinganna, sem gerðum uppsteit gegn foreldrum og uppreisn gegn hátterni eldri kynslóðarinnar. Svoleiðis uppreisnarjesús var spennandi. Eftirlýstur Jesús Kristur.

Þetta var snemma vors árið 1972 og efnt var til „Jesúmessu“ í Neskirkju við Hagatorg. Prestur og æskulýðsleiðtogar kirkjunnar virkjuðu okkur ungviðið til verka og hvöttu til dáða. Við Jónas Þórir, síðar organisti og tónlistarjöfur, vorum stórhuga og efndum til hátíðar unga fólksins á fyrsta sunnudagskvöldinu í mars. Það voru engin vandræði með kirkjusóknina. Unglingarnir í hverfinu komu og fylltu kirkjuna. Yfirskriftin var: Eftirlýstur Jesús Kristur. Fjöldi unglinga ræddi um trú sína, las ljóð, söng og spilaði. Kalli Sighvats í Trúbrot lánaði Hammondorgel sitt, sem var þá Rollsinn í poppheiminum. Hammondinn bilaði þó reyndar í miðju lagi, okkur Jónasi Þóri, sem stýrðum samkominni, til mikillar hrellingar. Sóknarnefndin var talsvert stressuð yfir látunum og aðsókninni og óttaðist að allt færi úr böndum. En okkur Jónasi Þóri var þó treyst og við höfðum m.a. hannað og fengið prentað plakat til auglýsinga, til dreifingar í hverfinu og upphenginga í kirkjunni. Þetta var flott plakat með lýsingum á hinum eftirlýsta rétt eins og krimma í villta vestrinu. Eftirlýstur Jesús Kristur. Svo var þarna líka felumynd af Jesú. Plakatið vakti mikla hrifningu og prentað í mörgum grunnlitum. Það lá við slagsmálum í lokin þegar fólk fékk að ná sér í eintak af vegg kirkjunnar. Þessi plaköt voru síðan hengd upp í hundruðum unglingaherbergja í Reykjavík.

Eftirlýstur Jesús Kristur. Á öllum tímum er hann eftirlýstur; um hann rætt; hvort hann sé týndur eða dáinn; hvort hann tengist samtímanum; hvers eðlis tengslin við hann geti verið og hvaða gildi hann hafi á hverri tíð. Í dag verður málþing í Hallgrímskirkju um málefni fanga og tilgang fangavistar. Fangar og Jesús eiga reyndar margt sameiginlegt, m.a. að hafa verið stungið í steininn! Jesús komst reyndar út úr grjótinu og fangar vilja eiga afturkvæmt úr fangelsi, ekki aðeins úr húsi heldur líka til frelsis, nýrra möguleika og nýs lífs í samfélagi fólks. Fangar vilja fá að lifa upprisu í eigin lífi.

Að sjá og sjá ekki

Texti guðspjallsins er um eftirlýsingu. Það var auðvitað alveg rétt hjá Jesú sem hann sagði við vini sína, lærisveinana: „Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig.” Þessir samverkamenn Jesú skildu ekki orð hans fyrr en þeir sáu heildarmyndina löngu síðar. „Þið sjáið mig ekki en svo munuð þið sjá mig að nýju.“ Hvað átti Jesús við með þessu? Hvað meinti hann með að hann færi til föðurins og kæmi svo til baka? Jesús áttaði sig á að alls konar falsfréttir breiddust út. Jesús bað því fólk að að hlusta vel. Sjálfur vissi hann að hann var eftirlýstur af yfirvöldum. Stjórnvöld vildu ná honum og ekki aðeins stinga honum í steininn, heldur beinlínis ryðja honum úr vegi. En Jesús Kristur sá lengra. Hann þekkti framvinduna og vissi að meira væri í vændum en pyntingar og aftaka. Síðan skýrði hann út fyrir lærisveinunum hvað það merkti að innan skamms myndu þeir ekki sjá hann en svo innan skamms sæju þeir að nýju. Það yrði þeim sorgarefni þegar hann færi og þau, sem vildu hinni ungu hreyfinu Jesú Krists illt, myndu fagna. En líkt og við barnsfæðingu er fagnað þegar barnið er fætt og lifir getur hið vonda orðið til góðs.

Jesúmyndir

Á plakatinu sem prentað var fyrir Neskirkju fyrir fimmtíu árum var mynd af Jesú Kristi. Það var felumynd, sem varð ekki sýnileg eða augljós nema fólk staldraði við og skoðaði vel. Hún á sér þá sögu að ljósmyndari var að taka myndir af bráðnandi snjó að vori. Þegar hann fixeraði myndirnar sá hann allt í einu hvernig mannsmynd birtist á ljósmyndablaðinu. Það var mynd af síðhærðum, che guevarískum, skeggjuðum Jesú Kristi. Þetta var ekki það sem myndasmiðurinn átti von á og honum varð svo mikið um að sjá þennan Jesú Krist birtast sér við framköllunina að myndbirtingin breytti lífi hans.

Plakat okkar unglinganna í Neskirkju vakti hrifningu. Plakatið var tvírætt, kveikti í fólki og virkjaði ímyndunaraflið. Svo var Jesús Kristur eftirlýstur. Þannig er hann á hverri tíð. Sumir vilja Jesú Krist dauðan eða úthýsa honum úr lífi og menningu. En aðrir gera sér grein fyrir að Guð er uppspretta lífs. Í krafti Jesú Krists er allt líf þessa safnaðar. Í hans mætti störfum við prestar og starfsmenn þessarar kirkju. Í krafti mannvinsemdar Jesú Krists lýsum við eftir góðu samfélagi, mýkt í tengslum og ábyrgð í afstöðu til fólks, náttúru og heims. Hvað merkir að sjá ekki Jesú lengur? Hvenær sjáum við hann og með hvað móti sjáum við hann eins og hann er? Er Jesús Kristur lifandi bróðir og samfylgdarmaður? Eða er hann eftirlýstur? Hvaða hlutverki gegnir Jesús Kristur í lífi þínu? Hver er Jesúmyndin í þínum huga?

Við erum eftirlýst

Við höfum tilhneigingu til að hengja þungar byrðar lífsins á þunna þræði. Það sem við höldum að geri okkur hamingjusöm slítur oft böndin. Þá verða áföll sem oft valda innanmeinum. Við þurfum að læra listina að greina hvað er raunverulega til hamingju, friðar, gleði og farsældar og hengja þau gæði ekki á þunna þræði. Hver er þrá þín? Eftir hverju lýsir þú í lífinu? Eftir hverju sækist þú? Hvernig væri að skoða mál lífsins með nýjum hætti? Við getum og megum gjarnan snúa öllu við og hugsa út frá betri forsendum og róttækari sjónarhóli. Jesús Kristur er ekki eftirlýstur heldur lýsir eftir okkur og að við sjáum hans ljós og lifum í því ljósi. Við erum eftirlýst. Guð vill vera okkar vinur og tengjast okkur ástarböndum. Það eru hin þykku bönd sem hvorki fangelsa né bresta á álagstímum. Þráðurinn að ofan. Lífsbönd ástar og umhyggju. Amen. 

Prédikun í Hallgrímskirkju, 8. maí, 2022, 3. sunnudag eftir páska.