Viltu lifa vel?

Við prestar þjónum mörgum þessa dagana – ekki aðeins í jólamessum og í áramótaguðsþjónustum – heldur í skírnum, útförum, með samtölum, sálgæslu og í giftingum og annarri kirkjulegri þjónustu. Við fáum að vera með fólki á stærstu stundum lífsins. Við heyrum margt stórkostlegt og verðum vitni að því þegar fólk tekur þroskaskref og sækir í hamingjuna. Þar er engin þöggun. Í gær skírði ég fallega stúlku og aðra fyrir þremur dögum síðan. Þegar ég horfði í augu þeirra brosti framtíðin. Þær og uppvaxandi líf hvetur okkur til að lifa vel. Þegar ég lít til baka hef ég séð fólk lifa fallega og elska. En á þessu ári hef ég hef líka furðað mig á hve margir dólgar eru í mannheimum og í okkar samfélagi. Hrottarnir eru ekki aðeins í Moskvu og hópi Rússa í Úkraínu. Þeir eru víða, jafnvel í fjölskyldum okkar, félögum og á vinnustöðum. Dólgar í samskiptum valda þolendum skelfilegum þjáningum. Ekkert okkar vill lifa við ofbeldi eða vanvirðu. Við erum kölluð til ábyrgðar sem er að bera góða ávexti í lífinu.

Líf beri ávöxt

Guðspjallstexti gamlársdags talar inn í aðstæður tímans. Jesús segir kennslusögu sem er skiljanleg líka á okkar dögum. Hvað á að gera við tré sem ekki ber ávöxt? Bændur og skógræktarfólk veraldar fella slík tré og nota til annars t.d. húshitunar eða í kokkhúsinu. Í Jesúsögunni er tréð nytjajurt en ekki skrauttré eða gróðursett vegna flugkvíða og kolefnisspora. Grænfingraðir vita að sjúkdómar hrjá líf og farsóttir geisa í ávaxtagörðum veraldar. Þrjú geld ár er tæplega hægt að umbera en ekki fjögur. Ræktunarmenn vita að þá er næsta vel reynt. Eigandinn vill því höggva en garðyrkjumaðurinn vill þó veita enn einn séns. Lengi skal tré reyna – rétt eins og menn. Jesúmeiningin er að Guð sé langlyndur umfram mannlega kvarða. En líka að lífi er ætlað að bera ávöxt. Það sem ber ekki ávöxt verður höggvið. Í því er hin djúpa alvara fólgin. Hvaða kröfur eigum við að gera til sjálfra okkar og ráðamanna? Hvað með framtíðina?

Blessunin er alls konar

Við erum fædd til réttinda en líka til ábyrgðar og elskulegs lífs. Er forréttindafólkið sem tré í miðri Paradís sem bara neytir og tekur til sín en skilar ekki ávöxtum. Er það, já erum við – á fjórða ári dómsins? Margir ímynda sér að trú sé fyrst og fremst einkamál og varði sálarró. En Guð sérhæfir sig ekki bara í sálarmálum. Guð vakir yfir sprengingum í sólkerfum, nýjustu rannsóknum í krabbameinslækningum, árásarstríðum, loftslagsvá og ástamálum heimsins. Okkur hættir til að hugsa um trú í anda úreltrar tvíhyggju að hið efnislega og andlega séu andstæður og trúmenn eigi bara að halda sér til hlés frá ati heimsins. Hið andlega sé aðalmálið en líkami, efni, peningar, mengun og samfélag sé eitthvað óæðra. Sú lífsafstaða er ekki komin frá Jesú Kristi eða úr Biblíunni. Trú varðar heilsu fólks, líkamlega næringu, efnislegar þarfir, náttúru og frið. Samkvæmt Biblíunni er hið andlega, félagslega, náttúrulega og pólitíska allt þættir sem varða Guð og trú þar með. Kristnin boðar heildarhyggju. En tvíhyggja spillti þeirri heildarsýn. Það er komið að því að við hættum að rugla. Mengun náttúrunnar, stríðsátök og skrímslavæðing stjórnmálanna eru mál sem Guð skiptir sér af og trúmönnum er skylt að beita sér í.

Hamingjuleitin

Í þjóðsögusafni Íslendinga er merkileg viskusaga sem tjáir sjúka en líka heilbrigða lífsafstöðu. Sagan túlkar raunar kristna siðfræði. Þjóðsögur eru ekki bara skemmtilegar heldur oft kennslusögur til að kenna fólki að lifa vel. Þær eru sumar dæmisögur til að kenna lífsleikni. Ein saga af því tagi er sagan af systrunum Ásu, Signýju og Helgu. Sagan er reyndar til í ýmsum útgáfum en grunnáherslan er sú sama. Í samþjöppun er sagan svona og með skýringum.

Eitt sinn voru karl og kerling og áttu dæturnar Ásu, Signýju og Helgu. Eldurinn dó í kotinu sem var mikið áfall og mun verra en að rafmagnið færi, allar tölvur rugluðust og símkerfið hryndi. Að eldur slokknaði var dauðans alvara. Því fór Ása elsta dóttirin til að sækja eld. Á leiðinni gekk hún fram hjá hól og heyrði talað úr honum til sín: „Hvort viltu hafa mig með þér eða móti“? Ása svaraði að sér væri alveg sama og hélt áfram göngu sinni. Að lokum kom hún að helli. Þar var lifandi eldur og pottur á hlóðum með kjöti. Þar var líka brauð. Þar sem enginn maður var sjáanlegur og stúlkan var hungruð borðaði hún kjöt og brauð en henti afganginum. Til hennar kom vinalegur hundur en Ása lamdi hann. Hundurinn brást hinn versti við og beit af henni hendina. Og Ása flýði eldlaus. Þá fór næsta systirin Signý af stað. Fyrir henni fór eins og systur hennar en hundurinn beit af henni nefið.Hin yngsta fór þá. Röddinni úr hólnum svaraði hún með því að segja: „Ég vil gjarnan eiga þig að.“ Í hellinum sauð hún kjötið og bakaði brauðið en vildi ekki borða í leyfisleysi. Hún beið því húsráðanda sem leyfði henni að borða. Helga fékk að fara með eldinn. Heima fékk hún þó engar þakkir en síðar kom svo hellisbúinn til að sækja Helgu og gera hana að drottningu í ríki sínu. Hann var – eins og vera ber í góðu ævintýri – prins í álögum.

Hvað merkir svona saga? Til hvers að endursegja hana í kirkju við áramót? Líf okkar allra, hópa og samfélaga er samfelld leit að hamingju, velsæld, góðu mannlífi, lífsgildum, visku – já, öllu því sem getur gert okkur og fólkinu okkar gott. Starf og vinna okkar allra er sókn til frumgæða. Við leitum gleði og lífsfyllingar. Líf okkar er eldsókn. En hvað um annað fólk og lífríki jarðarkringlunnar? Eru þau markmið eða bara tól sem við megum fara vel eða illa með?

Viska aldanna er að við lifum í brothættu samfélagi og hlutverk okkar er ekki aðeins að uppfylla eigin þarfir eða fýsnir heldur þjóna líka öðrum. Djásn og dýrmæti eru vandmeðfarin og geta orðið til mikillar ógæfu ef við virðum ekki aðra, þarfir þeirra og gildi. Hamingja er ekki einkamál heldur samstarfsmál. Stundum breytumst við sjálf í tröll þegar við virðum ekki gerð okkar og vinnum með sjálf okkur. Við verðum að gæta að því að vera ekki dólgar í samskiptum. Foreldrar stúlknanna áttu – ef við færum til nútímans – hús, bíl, höfðu vinnu og allt þetta venjulega til að uppfylla grunnþarfir. En samt var allt í rugli og skralli. Heimilislífið var í upplausn og lífi fólksins var ógnað. Tvær systur af þremur voru hrokafullar. Ása og Signý voru dólgarnir en ekki sá sem virtist hættulegur.

Á vit hins djúpa – trúarlega

Systurnar í sögunni fóru ekki til nágrannana til að sækja eld, heldur á vit frumkraftanna og þar með á vit hins trúarlega. En þær brugðust ólíkt við. Þær eldri voru kjánar, voru sjálfhverfar og skeyttu ekki um lífsreglur. Þær misstu því hönd og nef. Þær náðu ekki markmiði sínu vegna frekju og höfðu að auki varanlegan skaða af. Helga fór leið hinnar markvissu og ábyrgu sóknar. Hún virti frumreglurnar, lét gott af sér leiða, missti ekkert og ávann allt. Þannig lifir gott fólk, þroskað og gott samfélag.

Eldsókn mannkyns er leit að því sem er rétt, til eflingar, menningarauka, réttlætis, friðar og mannbóta. Það sem menn öðlast til gagns er hið torsótta sem gefið er utan hins venjulega í einhverjum helli lífsreynslu eða stórviðburða. Það er mikilvægt fyrir þig að muna að í mestu erfiðleikum, sorg og lífsháska ertu á ferð til að sækja eld. Erfiðustu atburðir lífs þíns eru þínar eldgöngur.

Ég vil gjarnan eiga þig að

Hrifsar þú til þín og átt þar með á hættu að missa nef eða hendi? Iðkar þú hófstillingu í lífinu? Þarftu að breyta? Hvað viltu á nýju ári? Hvaða lífsreglur viltu virða og styðja í samfélagi þínu á nýjum tíma? Á þessu kvöldi og á nýjum degi nýs tíma berast okkur orðin: „Viltu eiga mig að?“ Það er rödd gildanna, djúpsins, himinsins. Hverju svörum við: Svörum við með skeytingarleysi, ofbeldi og hroka? Eða svörum við með: „Ég vil gjarnan eiga þig að.“„Viltu eiga mig að?“ spyr Guð.

Árið er farið, nýtt ár er að fæðast. Eldurinn slokknar reglulega, dólgarnir hamast og myrkrið sækir að. Okkar verkefni er sístætt að fara vel og með ábyrgð og bera ávexti í lífinu. Stefna og kenning kristninnar er skýr: Dauðinn dó en lífið lifir. Okkur opnast nýr tími – nýtt ár – til að nýta það sem okkur er gefið til lífsgleði en einnig í þágu annarra. Þannig er lífsstefna Guðs, sem er frumeldurinn sjálfur.

——

Við áraslit langar mig að þakka samskiptin við það fólk sem hefur komið á Skólavörðuholt og í kirkjuna á árinu sem er að líða. Yfir eitt þúsund skólabörn komu í Hallgrímskirkju á aðventunni. Mikill fjöldi hefur sótt helgihald og tónleika og ferðamannafjöldinn er mikill. Við, prestar, stjórn og starfsfólk Hallgrímskirkju þökkum samskipti og hlýju í okkar garð og biðjum ykkur öllum blessunar á nýju ári. Fegin viljum við eiga ykkur að og verið velkomin í kirkjuna á nýju ári. Við eigum öll þennan helgidóm og hann er hlið himins. Gleðilegt ár í Jesú nafni: Amen.

Hugvekja – gamlárskvöld, Hallgrímskirkju, 31. desember.

Meðfylgjandi myndir tók ég frá Öskjuhlíð á menningarnótt 2022.