Greinasafn fyrir merki: Sigurður Árni Þórðarson

Litrík ástarsaga

Morgunblaðið birti þessa afmælisfrétt á Þorláksmessu 2023. Pétur Atli Lárusson blaðamaður skrifaði greinina.

Sigurður Árni Þórðarson fæddist 23. desember 1953 í Reykjavík. „Ég ólst upp við ástareld gjafmilds og samheldins fólks sem mat meira andleg, siðleg og félagsleg gæði en efnisleg. Ég fæddist fyrir tímann því móðir mín var vinnuforkur og gekk fram af sér í hreiðurgerðinni og skúringum. Gísli, móðurbróðir minn, vildi að ég yrði nefndur Þorlákur helgi vegna fæðingardagsins á Þorláksmessu. Ég hefði kiknað undan því nafni. En svo voru tveir Lákar fyrir í húsinu og mamma sagði síðar að hún hefði ekki getað hugsað sér að kalla á Þorlák og þrír hefðu komið hlaupandi.

Það var gaman að alast upp í Vesturbænum. Barnafjöldinn var mikill í öllum húsum, mikið fjör á Tómasarhaga og fótbolti iðkaður af kappi. Bjarnastaðavörin var nærri með busli, heillandi fjörulífi og fiskiríi. Ég fékk að vitja um grásleppunet með Birni Guðjónssyni og var sendisveinn fyrir Árna í Árnabúð.

Skólaganga Sigurðar Árna var hefðbundin, Melaskóli, Hagaskóli og Menntaskólinn í Reykjavík. „Á sumrin var ég kaupamaður á Brautarhóli í Svarfaðardal hjá Stefáníu Jónasdóttur og nafna mínum og frænda, Sigurði M. Kristjánssyni sem margir muna sem „stjóra“ héraðsskólans á Laugum í S-Þingeyjarsýslu. Þau treystu mér til allra verka og ég lærði að vinna og axla ábyrgð snemma. Ég hafði alla tíð mikinn áhuga á vatni og stefndi á líffræðinám og helst vatnalíffræði í háskóla. En á krabbameinsspítala í Noregi sneri ég við blaðinu og ákvað að læra guðfræði. Kennarar mínir í guðfræðideild HÍ voru stórkostlegir fræðarar, fyrirmyndir og mentorar.

Sigurður Árni fór vestur um haf til framhaldsnáms í hugmyndasögu og guðfræði og lauk doktorsnámi frá Vanderbilt University í Bandaríkjunum. „Ég skrifaði um myndmál og merkingu íslenskrar trúarhefðar. Lífsafstaða sem blasti við mér í íslensku trúarhefðinni var kraftmikil mannsýn og lífsást manna á mærum. Virðing og auðmýkt gagnvart náttúru og vá í hefð okkar bjó til lífsmátt sem nýtist og birtist í kreppum. Það er þessi menningarplús sem hríslast um allt þjóðlíf og dugar dásamlega þegar rýma þurfti Vestmannaeyjar á einni nóttu eða Grindavík í haust.“

Þegar fyrsta æviskeiði Sigurðar Árna lauk tóku við starfsár og koma börnum til manns. Honum var boðið háskólakennarastarf vestra en vildi frekar fara heim og verða að gagni á Íslandi. „Ástin á landinu, fólkinu, íslenskri kristni og menningu kallaði og ég gegndi því kalli.“ Hann varð prestur Skaftfellinga og síðar S-Þingeyinga og segist hafa verið svo lánsamur að búa og starfa í Skálholti og á Þingvöllum. „Það eru helgistaðir Íslands. Svo flutti ég á mölina, þjónaði biskupum, Nessöfnuði og Hallgrímskirkju í Reykjavík og kenndi við HÍ. Það eru forréttindi að fá að starfa sem prestur og vera með og styrkja fólk á mikilvægustu stundum þess. Ég komst til vitundar á tíma kalda stríðsins og ákvað að eiga engin börn en eignaðist fimm. Guð er meiri húmoristi en við menn.“

Sigurður Árni lauk störfum sem sóknarprestur Hallgrímskirkju í apríl síðastliðnum og hefur hafið þriðja æviskeiðið. Í nóvember var gefin út stórbók með hugleiðingum hans Ástin, trú og tilgangur lífsins. „Barnabörn mín kalla hana ástarbókina. Í ritinu eru 7,8% af hugleiðingum mínum síðustu tuttugu árin. Þegar ég lít til baka finnst mér líf mitt hafa verið litrík ástarsaga. Hvað gerir líf manna þess virði að lifa því? Það er ástin, að elska og vera elskaður. Lífið er ástarferli en það er vissulega val okkar hvernig við lifum og vinnum úr lífsmálum okkar. Sá guð sem ég þekki er elskhugi.

Heimilislíf okkar fjölskyldunnar er litríkt og skemmtilegt. Mér þykir afar nærandi að 18 ára synir mínir búa heima og eru nánir okkur foreldrunum. Það er mikið lán. Mér líður vel í kokkhúsinu og við að metta svanga. Ég elda æ meira gyðinglegan og palestínskan mat. Ottolenghi er minn maður. Ég hef áhuga á ljósmyndun og um 1,4 milljónir hafa skoðað myndir mínar á ljósmyndavef. En ég vil verða betri ljósmyndari og læra meira. Heimasíðan mín www.sigurdurarni.is er fjölsótt og margir hafa gaman af mataruppskriftum og sálaruppskriftum í hugleiðingum. Þegar ég hef vitjað fólks sem prestur segir það mér oft að það noti uppskriftirnar mínar.

Ég er náttúruverndarsinni og er með augun á vatni. Ekkert líf er án vatns og vatnið sullar bæði í Biblíunni, náttúrunni og þar með okkur sjálfum. Elín mín heldur mér að gleðiefnum lífsins og saman stundum við skemmtilegt og hagnýtt lífsleikninám í HR. Svo er ég að taka fram hina hagnýtu doktorsritgerð mína sem fjallaði um mæramenningu Íslendinga, siðferði og aðferðir við að bregðast við vá. Afstaða Íslendinga er hagnýt ástarhefð fyrir veröld á heljarþröm. Þá hefð þarf að endurnýta. Ég sinni svo heilsuræktinni því ég vil stuðla að því að heilsuárin verði jafn mörg og æviárin.“

Fjölskylda

Eiginkona Sigurðar Árna er Elín Sigrún Jónsdóttir, f. 22.4. 1960, lögmaður. Hún á og rekur lögfræðistofuna Búum vel og þjónar fólki á þriðja æviskeiðinu með ráðgjöf og skjalagerð við sölu og kaup fasteigna, kaupmála, erfðaskrár og uppgjör dánarbúa. Synir þeirra Sigurðar Árna eru tvíburarnir Jón Kristján og Ísak, f. 26.9. 2005, nemar í Kvennaskólanum í Reykjavík. Foreldrar Elínar Sigrúnar: Hjónin Magnea Dóra Magnúsdóttir, húsmóðir, f. 25.11. 1920, d. 31.12. 2003, og Jón Kr. Jónsson, útgerðarstjóri Miðness í Sandgerði, f. 6.5. 1920, d. 26.9. 1990.

Börn Sigurðar Árna og Hönnu Maríu Pétursdóttur, f. 22.4. 1954, prests og kennara, eru: 1) Katla, f. 15.9. 1984, arkitekt. Maki: Tryggvi Stefánsson og börn þeirra eru Bergur, f. 16.2. 2017 og Jökla, f. 9.8. 2019; 2) Saga, f. 10.10. 1986, ljósmyndari. Maki: Vilhelm Anton Jónsson. Sonur þeirra er Hringur Kári, f. 10.3. 2023. Synir Vilhelms eru einnig Illugi, f. 12.11. 2007 og Ríkarður Björgvin, f. 18.11. 2014; 3) Þórður, f. 16.1. 1990, organisti á Dalvík. Maki: Dominique Gyða Sigrúnardóttir. Börn þeirra eru Högni Manuel, f. 9.6. 2019 og Hugrún Mariella, f. 7.11. 2022.

Systir Sigurðar Árna er Kristín Þórðardóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir, f. 6.7. 1952, búsett í Hønefoss í Noregi. Maki Öyvind Kjelsvik, læknir, f. 20.09. 1960. Sonur þeirra er Baldur, sálfræðingur, f. 25.4. 1994.

Foreldrar Sigurðar Árna voru hjónin Þórður Halldórsson, f. 31.10. 1905, d. 22.5. 1977, múrarameistari, og Svanfríður Guðný Kristjánsdóttir, f. 22.3. 1910, d. 7.2. 2004, húsmóðir. Þórður var fæddur í Litlabæ á Grímsstaðaholti og Svanfríður var frá Brautarhóli í Svarfaðardal.

​Kennimyndin: Sigurður Árni á leið til skírnar við Ægisíðu í haust. Hin myndin er frá áramótum 2014. Katla, Saga, Sigurður Árni, Elín, Jón Kristján, Þórður og Ísak. Myndin af SÁÞ og Elínu tekin í höfninni við Palma 2023. Svo er hér að neðan skjáskot úr Íslendingabók. 

 

 

Neskirkja, sókn, bygging og líf

Kona, sem kom í Neskirkju, leit í kringum sig og sagði: „Þetta er falleg kirkja. Hún er svo stílhrein, ekkert auka sem flækir.“ Ungur drengur stóð við kórtröppurnar skömmu síðar og sagði hugsi: „Þessi kirkja er ekki eins og kirkja á að vera.“ Og af því honum þótti kirkjan ekki nægilega kirkjuleg væri hún þar með ekki heldur falleg. Hvenær er kirkja fögur? Smekkur fólks er mismunandi og því er afstaða þess til fegurðar kirkju með ýmsu og ólíku móti. Um húsgæði má deila og líka hafa á þeim mismunandi skoðanir. En kirkjuleg fegurð varðar ekki aðeins útlit, efni, liti eða form, heldur fremur að kirkja er hús Guðs. Það er aðalatriði og kirkjulegt skilgreiningaratriði handan smekks einstaklinga. Kirkja er hús fyrir samfélag, fyrir mikilvægustu söngva lífsins og bestu orð veraldar. Kirkja er veruleiki og samhengi þess að himin og jörð kyssast. Fegurð kirkju er frá Guði. Neskirkja er því fallegt hús því hún er hús Guðs. En að auki er kirkjuhúsið einnig merkilegt byggingar- og menningar-sögulegt djásn. 

Sérstæð en hentug kirkja

Neskirkja hefur gjarnan verið nefnd fyrsta nútímakirkjan á Íslandi. Á byggingartíma og fyrstu árum þótti hún framúrstefnuleg og ókirkjuleg. En þeim, sem sækja helgihald Neskirkju og kynnast henni, ber saman um að hún er meira en tískubóla og þolir vel harða smekkdóma tíðanna.

Kirkjan er nú friðlýst hið ytra, enda þykir bygging hennar marka tímamót í íslenskri byggingarsögu. Efnt var til samkeppni um teikningu kirkjunnar árið 1944 og hlaut Ágúst Pálsson, húsameistari, fyrstu verðlaun. Ekki var þó byggt eftir frumtillögunni því margir óttuðust, að söfnuðurinn myndi ekki geta staðið straum af kostnaðinum við stora byggingu. Ágúst var því beðinn að minnka breyta upprunalegri tillögu og minnka bygginguna. Hann varð við beiðninni og byggingaframkvæmdir hófust árið 1952 og stóðu í fimm ár. Neskirkja var vígð á pálmasunnudegi 1957 og pálmasunnudagur þar með kirkjudagur hennar.

Mörgum þótti tillaga Ágústs sérstæð, enda er kirkjan ósamhvef, asymmetrísk. Aðalinngangur kirkjunnar er frá norðri en ekki vestri eins og í flestum kirkjum á Íslandi. Blaðadeilur urðu um byggingarskipulagið. Fullbyggt þótti flestum kirkjuhúsið nýstárlegt, rúmgott og húsgerðin hentug fjölbreytilegu safnaðarstarfi. Ágúst var harmónikuleikari og má jafnvel sjá í Neskirkju stíliseraða harmóníku, hugvitsamlegan spuna með form dragspilsins. Suðurglugginn er sem bassablokkin, kirkjuskip sem belgur og forkirkja eins og hljómborðið. Ef svo er túlkað má sjá í innkomu fólks í forkirkju hjómupphaf, síðan verður tónlist þegar menn eru í kirkju og í samverkan við Heilagan anda. Neskirkja er því n.k. hljóðfæri til andlegra tónsmíða. Það var því ekki undarlegt, að Ágúst skyldi leggja mikla áherslu á Neskirkju hefði góðan hljóm.

Í Neskirkju var safnaðarheimili tengt kirkjubygginguni sjálfri í fyrsta skipti hérlendis. Á upphaflegu teikninguni var gert ráð fyrir mun stærri sal en gerður var. Val á efni var í samræmi við tímann, t.d. timburplötur á veggjum, tex í lofti, flúrperur fyrir hina óbeinu lýsingu kirkjunnar og linoleumdúkur á gólfum. Vandað var til búnaðar. Auk kirkjubekkjanna voru stólar Arne Jacobsen, ”Sjöan,” keyptir, en höfðu þá ekki hlotið lof og frægð, sem síðar varð. Kirkjan á enn megnið af þeim stólum, sem nú hafa þjónað fólki vel. Þeir eru nú eiginlega antíkmunir og minna á natni og listræna alúð þeirra, sem ákvörðuðu búnað við upphaf. Skoðanir á kirkjubekkjunum voru frá upphafi ólíkar. Einhverjum þóttu sætin líkjast um of sætum í kvikmyndahúsum og þau jafnvel vera óeðlilega þægileg!  Slíkar gagnrýnisraddir eru nú alveg hljóðnaðar.

Söngloftið, sem nú er horfið, var í kór kirkjunnar og setti svip á kirkjuskipið. Kirkjuloftið hækkar frá vestri til austurs en kyssir ekki hinn háa kórvegg. Yfir altarinu er loft mun hærra en yfir öðrum hluta kirkjuskipsins og miðlar með hljóðlátu táknmáli sínu hvað er æðst og hæst.

Við hönnun kirkjunnar hugði Ágúst Pálsson mjög að birtuflæði kirkjunnar og þar með gluggaskipan. Allir gluggar kirkjuskipsins, 40 smágluggar og 1 stórgluggi, vísa að kór hennar. Nærri altari er hinn mikli suðurgluggi, sem varpaði ljóshafi yfir kórinn. Í sólskini varð oft heitt í kórnum á messutíma og brann á prestum og söngfólki og perlaði á ennum! Þegar steindur gluggi Gerðar Helgadóttur var settur upp í þennan glugga árið 1990 var girt fyrir hitasviftingar en einnig óheft ljósflæði. Kirkjan varð ekki eins ljósrík og hún var fyrstu áratugina, en litaflóðið varð oft stórkostlegt um og eftir hádegið á sólardögum. Það var bónus breytingarinnar. Taka varð Gerðargluggann niður vegna viðgerða og hefur hann ekki verið settur upp aftur. Þegar dökkt gler gluggans hindraði ekki lengur ljósflæðið heillaði marga hve birti í kirkjunni. Því hefur ekki verið eining um hvort setja eigi gluggann upp að nýju. 

Úti og inni

Hússtærðin var minnkuð frá upphafstillögu. Við það breyttust form kirkjunnar og jafnvel sködduðust. Á norðurhlið hússins gætir t.d. nokkurs ósamræmis, einkum í hlutföllum safnaðarheimilishlutans og tengingu hans við kirkjuskipið sjálft. Kirkjuskipið var stytt og lækkað og raskaði sú minnkun nokkuð jafnvægi hússins miðað við upphafstillögur.[i]

Safnaðarheimili var byggt á árunum 2002-04. Gerð og lögun þess hefur bætt fyrir smækkun kirkjunnar. Kirkjan nýtur viðbótar safnaðarheimilins og saman mynda húsin samstæða heild. Hönnuðir safnaðarheimilis voru VA-arkitektar og höfð þeir hugmyndina um þorpið að leiðarljósi. Kirkjan er sem þorpskirkja sem stendur við torgið. Milli kirkju og safnaðarheimilis er brú eins og lækur lífsvatnsins liðaðist um grænar grundir kirkjulóðarinnar. Frá torginu liggur síðan gata með vinnustöðum, misstórum og sveigjanlegum vinnurýmum, á báðar hendur. Safnaðarheimilið er afar bjart og rímar vel við kirkjurökkrið.

Nokkrar breytingar hafa verði gerðar á kirkjunni. Árið 1990 var lokið við endurbætur utan sem innan. Kross á turni var þá endurnýjaður og turninn styttur. Krossinn varð tvíarma, en var áður fjórarma. Breytingin var ekki til bóta og vert að færa til upphafsskipunar að nýju. Innanstokks hafa einnig orðið nokkrar breytingar. Fyrst voru söngsvalir kirkjunnar stækkaðar svo rýmra yrði um kórinn. Altari kirkjunnar var einnig fært frá vegg.

Orgel

Í kirkjuna nýbyggða var keypt þýskt, tuttugu og einnar raddar orgel. Þegar það var sett upp kom í ljós, að það var síðra en stefnt hafði verið að. Áttu organistar oft í vandræðum með orgelið, þrátt fyrir að vel væri jafnan hugsað um það. Var talað um, að orgelið væri orðið svo dintótt að organisti kirkjunnar, Reynir Jónasson, væri sá einni sem kynni á kúnstir þess.

Ákveðið var árið 1999 að kaupa til kirkjunnar nýtt orgel af þýsk-bandaríska orgelsmiðnum Fritz Noack í Boston. Orgelið er 31 radda, rómantískt orgel. Orgelsmiðurinn fylgdi smíðinni eftir með greinargerð: „Það var fljótlega ákveðið að orgelið fyrir Neskirkju yrði að henta fyrir breitt svið orgeltónlistar, fyrir guðsþjónustur, undir kórsöng og fyrir tónleika góðra orgelverka. Spilaborð orgelsins er skilið frá til þess að organistinn geti stjórnað kórnum en tengingar eru undir kórgólfinu. „Registur“ orgelsins eru rafstýrð. Neskirkjuorgelið er sambland af klassísku, evrópsku orgeli og amerísku 19. aldar orgeli, en útkoman er nútímaorgel…”

Með tilkomu nýs orgels voru gerðar breytingar í kirkjuskipi. Söngsvalinar voru fjarlægðar og stað teppis á gólfi kórsins komu steinflísar. Spónpanill á  kórvegnum var einnig fjarlægður og veggurinn sléttaður og hvítmálaður. Í kirkjunni hefur aldrei verið altaristafla heldur einfaldur kross á kórvegg. Ástæðan er áhrif frá kirkjuarkitektúr látleysis.

Gluggar

Í kirkjunni hafa verið tveir steindir gluggar Gerðar Helgadóttur. Eldri glugginn er í forkirkjunni og var fullgerður árið 1967. Glugginn var gjöf Kvenfélags Neskirkju til að minnast 25 ára afmælis safnaðarins. Þóra Kristjánsdóttir segir svo um gluggan: “Í höndum Gerðar varð glugginn eins konar gátt út í hina stóru veröld fyrir utan. Í stað þess að sjá út á Melana og ys og þys hins daglega lífs, er sjónum manna beint að æðri vídd.  Glugginn er alsettur þykku handskornu gleri sem er fest saman með blýi og hefur Gerður málað í glerið með svörtu á stöku stað til frekari áherslu. Neðst er rönd í jarðarlitum, – brúnum, gulum, og grænum. Þá taka blárri fletir við í ótal litbrigðum, svo og hvítir og einstaka rauðir. Sumir hafa séð í þessum litbrigðum heilagt fjall og vatn, – aðrir fiska, það er að segja tákn Krists, allt eftir næmi og innsæi hvers og eins. Þannig vildi Gerður hafa þessa gátt, að hver skoði hana út frá sinni sál og trúarþörf.”[ii]

Fljótlega var hugað að framhaldi að samvinnu við Gerði og gerði hún að minnsta kosti þrjár tilögur um steindan glugga inni í kórnum. Glugginn er 12 metra hár og liðlega þrír og hálfur á breidd og því yfir fjörutíu fermetrar. Gerður lést áður en hún gat fylgt hugverki sínu úr hlaði. Þegar til átti að taka fannst aðeins ein tillaga í safni hennar og var hún notuð. Glugginn var helgaður í október 1990. Þóra segir um þennan glugga:  ”Tillaga Gerðar um himinbláan glugga, í himinsins ótal litbrigðum, var sjálfgefin. Þessi gluggi er einnig gátt, en nú býður listakonan ekki upp á neitt val. Hér sjá menn ljós í myrkrinu, kross hátt á himninum, ljós eftir myrkur.”[iii]

Grænir litir og blá litbrigði og skipan gluggans má túlka sem vísun í byggð Haga og Mela á landrönd nessins í víðáttum hafs og himins. Gluggin er sem vottur um líf og lífsþrá í faðmi hafs og himinbláma. Glugginn er tvískiptur. Í miðju hans er lína, n.k. sjóndeildarhringur. Neðan hans má sjá veröld og umhverfi safnaðar kirkjunnar. Ofan hans er himinhvelfing, dýrðarveröld, heimur Guðs, sem umfaðmar veröld og menn. Rauðu og gulu litirnir laða, vekja íhugun um sálir og eilífð, ljós og líf.

Glugginn er yfirgnæfandi og fjölbreytilega blár. Bláir litir hafa í kirkjulistinni gjarnan verið tengdir aðventunni, hinnar bíðandi veraldar og Maríu, móður Jesú. Í ljósi blámans má túlka gluggan sem glugga aðventu en líka jóla. Á efri hluta gluggans er ljóskross, sem beinir huga til kross Jesú Krists. En vegna tengingar bláu litanna við aðventu má túlka ljóskrossinn líka sem stjörnu jólanna, Betlehemsstjörnuna, sem skín myrkri og þurfandi heimsbyggð á hinni helgu nótt.

Báðir gluggarnir, þ.e. í kór og forkirkju, voru unnir á verkstæði Oidtmann í Linnich[1] í Þýskalandi. Stóri glugginn er enn í viðgerð eða hefur ekki verið settur upp vegna þess hve glugginn myrkvar kirkjuskipið. 

Kristur og bænir

Í andyri kirkjunnar er Kristslíkneski úr tré sem Ágúst Sigmundsson skar. Myndin sýnir Jesú sem breiðir út faðm sinn mót þeim sem gengur í guðshúsið. Á síðari árum hafa bænaskálar verið settar á steinaltarið frammi fyrir líkneskinu. Æ fleiri koma fyrir kertum, kveikja og gera þar bæn sína. Hin rúma forkirkja hefur því á síðari árum orðið staður tilbeiðslu fremur en fatahengi.

Samhengi sögunnar

Nessöfnuður er eldri kirkjuhúsinu og munar 17 árum. Dómkirkjusöfnuðinum var skipt upp og í fjóra hluta árið 1940.[iv] Þá var Nesprestakall stofnað. Kirkjan átti að þjóna Melum, Högum og líka öllu Seltjarnarnesi og fékk þaðan nafn sitt. Upphaflega var Nessókn allt svæðið vestan og sunnan Hringbrautar og Miklubrautar. Seltjarnarnes varð sjálfstæð sókn árið 1974. Nú eru innan sóknarmarka byggðin sunnan og vestan Hringbrautar og flugvallarins ásamt Skerjafirði og að bæjarmörkum Seltjarnarness. Dómkirkjusókn teygir anga suður fyrir Hringbrautina á einum stað. Aðalbygging Háskólans og Þjóðminnjasafnið ”tilheyra” Dómkirkjusvæðinu, en engir eiga lengur lögheimili í þeim byggingum svo tota Dómkirkjunnar er táknræn en íbúalaus.

Prestar, organistar, djákni og helgihald

Í liðlega tvo áratugi þjónaði aðeins einn prestur sístækkandi Nessöfnuði. Annað prestsembætti var stofnað og lagt til safnaðarins árið 1963 og prestakallið varð þar með tvímenningsprestakall. Þegar sókn var stofnuð á Seltjarnarnesi 1974 þjónuðu Nesklerkar þeim áfram eða til ársins 1988, en þá fengu Seltirningar sinn prest er Seltjarnarnesprestakall var stofnað.

Fyrstu sautján árin var Nessöfnuður án kirkju. Háskólakapellan, sem vígð var á stofnári safnaðarins árið 1940, og skólinn á Seltjarnarnesi voru guðsþjónusturými safnaðarins og nýtt fyrir giftingar, skírnir og greftranir. Þá var heimili prestsins mikið notað til athafna, eins og algengt var á Íslandi á þessum árum.

Fyrsti prestur kirkjunnar var Jón Thorarensen og þjónaði hann söfnuðinum frá 1940 allt til 1972 eða í 32 ár. Frank M. Halldórsson var kosinn árið 1963 sem sóknarprestur þegar sóknin var gert að tvímenningsprestakalli og þjónaði til 2004 og því allra Neskirkjupresta lengst. Árið 1972 tók Jóhann S. Hlíðar við embætti af sr. Jóni og þjónaði hann til ársins 1975. Þá tók við Guðmundur Óskar Ólafsson og naut söfnuðurinn starfa hans í nítján ár eða allt til ársins 1994. Halldór Reynisson kom til starfa árið 1994 og þjónaði með hléum til ársins 2001. Örn Bárður Jónsson hóf störf í söfnuðinum í fjarveru sr. Halldórs árið 1998, var valinn prestur 2001 og sóknarprestur árið 2004 og fékk lausn frá embætti 2016. Árið 2004 var Sigurður Árni Þórðarson kjörinn prestur safnaðarins og þjónaði til ársloka 2014. Skúli Sigurður Ólafsson var valinn sóknarprestur og kom til starfa í Neskirkju í febrúarbyrjun 2016. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir var valinn prestur í maí sama ár, þ.e. 2016. 

Neskirkju hefur haldist vel á klerkum sínum aðeins níu prestar hafa verið skipaðir til þjónustu í söfnuðinum frá upphafi. Margir aðrir prestar hafa þjónað í afleysingum. Þá hefur Neskirkja orðið mikilvæg uppeldismiðstöð þjóðkirkjunnar, því margir guðfræðingar hafa fengið þjálfun í starfi kirkjunnar og notið hennar í prestsþjónustu síðar. Sigurvin Jónsson, þá æskulýðsprestur, var vígður árið 2011 og þjónaði söfnuðinum sem æskulýðsprestur þar til hann fór utan til doktorsnáms en kom síðar til prestsstarfa og kennslu á Íslandi. 

Kristín Bögeskov var vígð árið 1995 til djáknaþjónustu í Neskirkju og starfaði einkum við heimaþjónustu á vegum safnaðarins.

Rúnar Reynisson hóf störf við Neskirkju fyrir þremur áratugum sem æskulýðsfulltrúi. Síðari ár hefur hann verið skrifstofustjóri og framkvæmdastjóri kirkjunnar. 

Við kirkjunna hafa aðeins þrír organistar starfað frá upphafi eða yfir fimmtíu ár. Þeir eru Jón Ísleifsson frá 1940 til 1973, Reynir Jónasson frá 1973 til 2002 og Steingrímur Þórhallsson frá 2002.

Lífslán Neskirkju

Neskirkja hefur búið við prestalán og notið góðra starsmanna. En veraldlegt aðallán hennar er fólkið sem sækir kirkju sína, vitjar hennar og notar, hvunndags, á hátíðum, gleðistundum og dögum sorgar. Neskirkja er í miðju sóknarinnar ásamt með öðrum mikilvægum stofnunum hverfisins. En hún er líka í miðju vitundar meiri hluta fólks í hverfinu og hefur jafnan notið velvilja. Afar stór hópur þjónar kirkjulífinu. Hin síðari ár eru á annað hundrað manns árlega sem gefur af tíma sínum til að vinna að einhverjum þætti safnaðarstarfsins. Allt leggst þetta saman í andlegt kirkjuhús sem fólk, söfnuður, prestar og hús þjóna. Og það er fallegt því það er ríki Guðs.

Texti og myndir: Sigurður Árni Þórðarson. Þetta var skrifað fyrir nokkrum árum og ég bætti aðeins við upplýsingum um nýja presta Neskirkju. 

[1] http://www.glasmalerei-oidtmann.de/

[i] Hörður Ágústsson,  “Neskirkja,” Nessókn – Afmælisrit 50 ára, Reykjavík: Neskirkja, 1990, s. 14.

[ii] “Ljósið í myrkrinu: Um steinda glugga Gerðar Helgadóttur í Neskirkju,” Nessókn – Afmælisrit 50 ára, Reykjavík: Neskirkja, 1990, s. 15.

[iii] Sama rit, s. 15.

[iv] Reykjavíkurprestakalli, þ.e. dómkirkjusókn, var skipt í fjögur prestaköll með lögum frá 7. maí 1940. Hallgrímsprestakall varð tvímenningsprestakall en Laugarnes- og Nesprestakall urðu einmenningsprestaköll. Prestskostningar í öllum sóknunum voru 15. desember sama ár er sr. Jón Thorarensen varð efstur í kosningu til embættis prests Neskirkju.