Greinasafn fyrir merki: afmæli

Litrík ástarsaga

Morgunblaðið birti þessa afmælisfrétt á Þorláksmessu 2023. Pétur Atli Lárusson blaðamaður skrifaði greinina.

Sigurður Árni Þórðarson fæddist 23. desember 1953 í Reykjavík. „Ég ólst upp við ástareld gjafmilds og samheldins fólks sem mat meira andleg, siðleg og félagsleg gæði en efnisleg. Ég fæddist fyrir tímann því móðir mín var vinnuforkur og gekk fram af sér í hreiðurgerðinni og skúringum. Gísli, móðurbróðir minn, vildi að ég yrði nefndur Þorlákur helgi vegna fæðingardagsins á Þorláksmessu. Ég hefði kiknað undan því nafni. En svo voru tveir Lákar fyrir í húsinu og mamma sagði síðar að hún hefði ekki getað hugsað sér að kalla á Þorlák og þrír hefðu komið hlaupandi.

Það var gaman að alast upp í Vesturbænum. Barnafjöldinn var mikill í öllum húsum, mikið fjör á Tómasarhaga og fótbolti iðkaður af kappi. Bjarnastaðavörin var nærri með busli, heillandi fjörulífi og fiskiríi. Ég fékk að vitja um grásleppunet með Birni Guðjónssyni og var sendisveinn fyrir Árna í Árnabúð.

Skólaganga Sigurðar Árna var hefðbundin, Melaskóli, Hagaskóli og Menntaskólinn í Reykjavík. „Á sumrin var ég kaupamaður á Brautarhóli í Svarfaðardal hjá Stefáníu Jónasdóttur og nafna mínum og frænda, Sigurði M. Kristjánssyni sem margir muna sem „stjóra“ héraðsskólans á Laugum í S-Þingeyjarsýslu. Þau treystu mér til allra verka og ég lærði að vinna og axla ábyrgð snemma. Ég hafði alla tíð mikinn áhuga á vatni og stefndi á líffræðinám og helst vatnalíffræði í háskóla. En á krabbameinsspítala í Noregi sneri ég við blaðinu og ákvað að læra guðfræði. Kennarar mínir í guðfræðideild HÍ voru stórkostlegir fræðarar, fyrirmyndir og mentorar.

Sigurður Árni fór vestur um haf til framhaldsnáms í hugmyndasögu og guðfræði og lauk doktorsnámi frá Vanderbilt University í Bandaríkjunum. „Ég skrifaði um myndmál og merkingu íslenskrar trúarhefðar. Lífsafstaða sem blasti við mér í íslensku trúarhefðinni var kraftmikil mannsýn og lífsást manna á mærum. Virðing og auðmýkt gagnvart náttúru og vá í hefð okkar bjó til lífsmátt sem nýtist og birtist í kreppum. Það er þessi menningarplús sem hríslast um allt þjóðlíf og dugar dásamlega þegar rýma þurfti Vestmannaeyjar á einni nóttu eða Grindavík í haust.“

Þegar fyrsta æviskeiði Sigurðar Árna lauk tóku við starfsár og koma börnum til manns. Honum var boðið háskólakennarastarf vestra en vildi frekar fara heim og verða að gagni á Íslandi. „Ástin á landinu, fólkinu, íslenskri kristni og menningu kallaði og ég gegndi því kalli.“ Hann varð prestur Skaftfellinga og síðar S-Þingeyinga og segist hafa verið svo lánsamur að búa og starfa í Skálholti og á Þingvöllum. „Það eru helgistaðir Íslands. Svo flutti ég á mölina, þjónaði biskupum, Nessöfnuði og Hallgrímskirkju í Reykjavík og kenndi við HÍ. Það eru forréttindi að fá að starfa sem prestur og vera með og styrkja fólk á mikilvægustu stundum þess. Ég komst til vitundar á tíma kalda stríðsins og ákvað að eiga engin börn en eignaðist fimm. Guð er meiri húmoristi en við menn.“

Sigurður Árni lauk störfum sem sóknarprestur Hallgrímskirkju í apríl síðastliðnum og hefur hafið þriðja æviskeiðið. Í nóvember var gefin út stórbók með hugleiðingum hans Ástin, trú og tilgangur lífsins. „Barnabörn mín kalla hana ástarbókina. Í ritinu eru 7,8% af hugleiðingum mínum síðustu tuttugu árin. Þegar ég lít til baka finnst mér líf mitt hafa verið litrík ástarsaga. Hvað gerir líf manna þess virði að lifa því? Það er ástin, að elska og vera elskaður. Lífið er ástarferli en það er vissulega val okkar hvernig við lifum og vinnum úr lífsmálum okkar. Sá guð sem ég þekki er elskhugi.

Heimilislíf okkar fjölskyldunnar er litríkt og skemmtilegt. Mér þykir afar nærandi að 18 ára synir mínir búa heima og eru nánir okkur foreldrunum. Það er mikið lán. Mér líður vel í kokkhúsinu og við að metta svanga. Ég elda æ meira gyðinglegan og palestínskan mat. Ottolenghi er minn maður. Ég hef áhuga á ljósmyndun og um 1,4 milljónir hafa skoðað myndir mínar á ljósmyndavef. En ég vil verða betri ljósmyndari og læra meira. Heimasíðan mín www.sigurdurarni.is er fjölsótt og margir hafa gaman af mataruppskriftum og sálaruppskriftum í hugleiðingum. Þegar ég hef vitjað fólks sem prestur segir það mér oft að það noti uppskriftirnar mínar.

Ég er náttúruverndarsinni og er með augun á vatni. Ekkert líf er án vatns og vatnið sullar bæði í Biblíunni, náttúrunni og þar með okkur sjálfum. Elín mín heldur mér að gleðiefnum lífsins og saman stundum við skemmtilegt og hagnýtt lífsleikninám í HR. Svo er ég að taka fram hina hagnýtu doktorsritgerð mína sem fjallaði um mæramenningu Íslendinga, siðferði og aðferðir við að bregðast við vá. Afstaða Íslendinga er hagnýt ástarhefð fyrir veröld á heljarþröm. Þá hefð þarf að endurnýta. Ég sinni svo heilsuræktinni því ég vil stuðla að því að heilsuárin verði jafn mörg og æviárin.“

Fjölskylda

Eiginkona Sigurðar Árna er Elín Sigrún Jónsdóttir, f. 22.4. 1960, lögmaður. Hún á og rekur lögfræðistofuna Búum vel og þjónar fólki á þriðja æviskeiðinu með ráðgjöf og skjalagerð við sölu og kaup fasteigna, kaupmála, erfðaskrár og uppgjör dánarbúa. Synir þeirra Sigurðar Árna eru tvíburarnir Jón Kristján og Ísak, f. 26.9. 2005, nemar í Kvennaskólanum í Reykjavík. Foreldrar Elínar Sigrúnar: Hjónin Magnea Dóra Magnúsdóttir, húsmóðir, f. 25.11. 1920, d. 31.12. 2003, og Jón Kr. Jónsson, útgerðarstjóri Miðness í Sandgerði, f. 6.5. 1920, d. 26.9. 1990.

Börn Sigurðar Árna og Hönnu Maríu Pétursdóttur, f. 22.4. 1954, prests og kennara, eru: 1) Katla, f. 15.9. 1984, arkitekt. Maki: Tryggvi Stefánsson og börn þeirra eru Bergur, f. 16.2. 2017 og Jökla, f. 9.8. 2019; 2) Saga, f. 10.10. 1986, ljósmyndari. Maki: Vilhelm Anton Jónsson. Sonur þeirra er Hringur Kári, f. 10.3. 2023. Synir Vilhelms eru einnig Illugi, f. 12.11. 2007 og Ríkarður Björgvin, f. 18.11. 2014; 3) Þórður, f. 16.1. 1990, organisti á Dalvík. Maki: Dominique Gyða Sigrúnardóttir. Börn þeirra eru Högni Manuel, f. 9.6. 2019 og Hugrún Mariella, f. 7.11. 2022.

Systir Sigurðar Árna er Kristín Þórðardóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir, f. 6.7. 1952, búsett í Hønefoss í Noregi. Maki Öyvind Kjelsvik, læknir, f. 20.09. 1960. Sonur þeirra er Baldur, sálfræðingur, f. 25.4. 1994.

Foreldrar Sigurðar Árna voru hjónin Þórður Halldórsson, f. 31.10. 1905, d. 22.5. 1977, múrarameistari, og Svanfríður Guðný Kristjánsdóttir, f. 22.3. 1910, d. 7.2. 2004, húsmóðir. Þórður var fæddur í Litlabæ á Grímsstaðaholti og Svanfríður var frá Brautarhóli í Svarfaðardal.

​Kennimyndin: Sigurður Árni á leið til skírnar við Ægisíðu í haust. Hin myndin er frá áramótum 2014. Katla, Saga, Sigurður Árni, Elín, Jón Kristján, Þórður og Ísak. Myndin af SÁÞ og Elínu tekin í höfninni við Palma 2023. Svo er hér að neðan skjáskot úr Íslendingabók.