Greinasafn fyrir merki: kristni

Bikar blessunarinnar …

Djúp kristninnar eru mörg. Jesús Kristur gerði ekki svimandi víddir að miðju samfélags kristninnar heldur borð og máltíð. Það er einstakt í heimi trúarbragðanna og því eru ölturu í kirkjum og oftast miðjur. Þau jarðtengja allt trúarlíf kristinna manna. Þegar bikar er blessaður og brauð líka eru tengsl mynduð – ekki aðeins við eilífð heldur líka pólitík, menningu, náttúru og deyjandi fólk á Gaza. Við sem einstaklingar megum þiggja veisluboðið til elskuheims Guðs sem hefur undraáhuga á að fuglar nærist vel, lífríkið dafni, mannfélag njóti leiks og hlátra og illskan sé hamin. Bikar blessunar, brauð fyrir veröld og að allt líf nærist. Fyrir 11 árum efndum við til skírdagsmáltíðar í safnaðarheimili Neskirkju og Arnrún og Friðrik V sáu veisluföngin og við Elín Sigrún stýrðum dagskrá. Anna Gyða Gunnlaugsdóttir tók myndir og m.a. þessa látlausu mynd af gömlum bikar kirkjunnar. Það er frábært að skírdagsmáltíðir eru orðnar að föstum lið í Neskirkju og mörgum kirkjum. Og súpueldhús, líknarstarf og þjónusta við hungraðan heim eru liðir guðsveislu í heiminum.

11. september

„Pabbi. Hvar varstu þegar flugvélarnar flugu á tvíburaturnana í New York og Pentagon?“ Sonur minn settist niður með okkur foreldrum til að spyrja um minningar, líðan, stað og túlkun á skelfilegum atburðum sem urðu 11. september 2001. Nú eru liðin tuttugu ár frá flugránunum og voðaverkunum. Staður og stund eru brennd í hugann. Þegar stórviðburðir verða læsast minningar gjarnan í huga – maður man hvar maður var, hvernig litir í umhverfinu voru, hvaða hljóð hljómuðu og hvernig líðanin var. 

Árásin á Bandaríkin

Minningarnar komu með hraði. Við vorum í Rethymno á Krít. Það var ógnvekjandi þegar íslenskur nágranni okkar kom hlaupandi og æpti skelfingu lostinn: „Rússarnir voru að ráðast á Bandaríkin.” Tíðindin voru ótrúleg, ég átti bágt með að trúa að Rússarnir væru dólgarnir en gerði mér grein fyrir að eitthvað hræðilegt hefði orðið. Svo ég settist við sjónvarpið og horfði stjarfur á skjáinn. Eitthvað dó hið innra og annað kom, kjánaöryggið fór og friðarsóknin fæddist. Heimurinn var breyttur. Í fyrsta sinn í marga áratugi hafði vopnum verið snúið gegn Bandaríkjunum með öflugum hætti. Islam var notað sem ástæða árasar, tylliástæða.

Kristni og Islam

Á þessum minningardegi er vert að staldra við. Hver eru tengsl kristni og Islam? Hvernig eigum við fólk af ólíkum toga, uppruna, gildum og trú að búa og lifa saman í framtíðinni? Viljum við að stríðs- og ofbeldissaga eigi sér framhaldslíf? Eða getum við bætt samskipti fólks í framtíð svo atburðir af þessu tagi verði ekki endurteknir og fyrirbyggjandi aðgerðir verði í samskiptum til að betur verið lifað? Er Islam framtíðarógn? 

Árið 1990 sat ég með kunningja mínum á kaffihúsi í Tallinn í Eistlandi. Þá voru Sovétríkin enn til. Kommúnisminn hélt hernámsþjóðum sínum í heljargreipum og ástandið í baltnesku ríkjunum var brothætt. Mikill spenna var milli fólks af rússneskum uppruna og hinna, sem voru af Eistar að uppruna. Rússneskir unglingar, fulltrúar herraþjóðarinnar, fóru um Tallin, með ofbeldi. Löggæslan var í molum og unglingagengið rændi og barði alla sem fyrir urðu, útlendinga sem Eistana. Það var beinlínis hættulegt að fara aleinn um miðborg Tallinn, jafnvel um hábjartan dag. Félagi minn á kaffihúsinu benti á gengið og sagði: „Þau eru bara að nýta sér aðstæður, sem eru að hverfa. Þó mér sé ekki vel við Rússana held ég að þeir verði tannlausir í heimsmálunum. En það eru múslimarnir og Islam sem verða framtíðarógn heimsfriðarins.“ Og bætti hann við „Rússland mun ekki skelfa neinn – Sovétríkin eru að baki og kalda stríðið er að þiðna.“

Orðin frá Tallinn leituðu á huga minn þegar ég sat við skjáinn og sá seinni vélina fljúga á tvíburaturninn í New York. Það var ekki hægt að kenna Islam um djöfulæði Osama bin Laden eða þeirra, sem drápu flugmenn, farþega, sjálfa sig og fólk í turnum. Mörg hryðjuverk og stríð heimsins tengjast múslimum eða eru rökstudd með vísan í Islam. Allt verður þetta til að grýlugera Islam og efna til óvinagerðar, þ.e. að gera múslima að “hinum” – þessum hættulegu, að óvinum. Og svo kemur jafnan í kjölfarið áróður um að kristin Vesturlönd eigi í stríði við múslimskan hluta heimsins. Þetta eru klisjur til stuðnings hernaði vestrænna þjóða og það er þannig málflutningur sem illmennið notaði til að réttlæta voðaverk sín í Osló og Útey í Noregi. Enginn skyldi hrapa að ályktunum og einfeldningslegum niðurstöðum í svo flóknu máli. En enginn skyldi heldur vera kjáni í trúarefnum heldur.

Stríðandi Islam

Islam er áberandi í heimsfréttunum, en þó eru þau sem teljast til þess átrúnaðar aðeins fimmtungur mannkyns. Talsverður hluti stríða síðustu árin hefur verið í nafni Allah. Er allt fylgjendum spámannsins Múhameðs að kenna? Ef við hugum að nærumhverfi okkar er hlutur múslima íhugunar virði. Af 350 hryðjuverkum í Evrópu hafa þeir vissulega komið við sögu.

3% og alhæfingar

Ég spurði fermingarbörnin eitt sinn hve hátt prósentuhlutfall voðaverka í okkar heimshluta væri hægt að kenna múslimum. Þau giskuðu á múslimar ættu aðild að helmingnum, en staðreyndin er þó, að aðeins 3% hryðjuverka í Evrópu er hægt að kenna fylgjendum Islam. Það eru hins vegar alls konar þjóðernissinnar og fulltrúar menningarkima, sem vinna megnið af ódæðisverkunum. Það merkir, að við eigum að fara okkur hægt í að fella dóma um, að múslimarnir séu vondir. Þeir eru ekki verri en aðrir, ekki verri en við. Það er ekki átrúnaðurinn sem er orsökin heldur átakakúltúrinn sem magnaður er þar sem spenna ríkir milli þjóðarbrota og menningarkima. En trú er af vondum mönnum oft notuð sem áróðurstæki.

Hvaða gildi? 

Kristnin hefur lagt áherslu á manngildið en það gera sanntrúaðir múslimar líka. Friðarsókn og virðing fyrir lífinu er í grunni allra trúarbragða heimsins. Kristnir vilja ekki hryðjuverk og ofbeldi, en það vilja múslimarnir ekki heldur. En það eru hins vegar aðstæður víða í hinu múslimska samfélagi, sem valda óróa og við þeim verður að bregðast. Vestræn ríki hafa margar skyldur í stjórn heimsmála og verða að bregðast við með yfirveguðu viti. Leiðarstjörnur þess vits eru trúarlegar og siðferðilegar. Meðal þeirra eru manngildi og réttur einstaklinganna, sem við Vesturlandamenn ættum að verja, sem og höfuðgildi hinnar kristnu hefðar. En mörg stríð eru háð vegna hagsmuna og fjármuna, en ekki vegna ástar á manngildi og verndun mannréttinda. 

Ræktun friðar

Friður nær fremur að haldast þegar fólk kynnist, deilir kjörum, talar saman og reynir að skilja menningu, þarfir, áherslur, gildi og vonir. Vegna átaka hafa trúarleiðartogar kristinna og múslima reynt að lægja öldur og lina spennu víða um heim. Í krepptum aðstæðum t.d. í Egyptalandi, Nígeríu, Skotlandi og Indónesíu hafa hófsamir reynt að hemja hina herskáu og mynda stuðpúða á milli. Í Noregi stóðu múslimar og kristnir saman að útför eftir drápin í Útey. Í Jerúsalem hafa Gyðingar, kristnir og múslimar bundist samtökum til að létta spennu og plægja friðarakurinn. Heimsráð kirkna, Lútherska heimssambandið og ýmis samtök kristinna kirkna hafa víða um heim beitt sér fyrir samræðu til friðar. Ofbeldið skilar aldrei lausn heldur magnar og skemmir. Þegar fólk deilir kjörum og talar saman fæðist friður. 

Heima

Heimsmálin eru eitt og viðbrögð okkar á heimaslóð eru annað. Íslendingar eiga að láta kristin og mikilvæg vestræn gildi stýra för. Við höfnum og eigum að hafna kúgun kvenna, sem meðal annars hefur birst í hryllilegum heiðursmorðunum. Við eigum að bregðast hart við öllum ofbeldisseggjum og koma þeim undir manna hendur. Við þörfnumst fræðslu um grunngildi samfélags og trúar og ræða þau sem víðast. Við eigum að veita innflytjendum möguleika á að bera saman gildin í gamla landinu og hinu nýja og læra að skilja hvað er rétt og hvað ekki, hvað er leyfilegt og hvað ekki. Orð eru til alls fyrst. Samtöl og samskipti tengja.

Yfirborðslegt frjálslyndi er ekki gæfulegt í samskiptum fólks með ólíkan bakgrunn. Við þurfum að stuðla að sem flestir kynnist menningu innflytjenda, siðum og trú – og öfugt. Og skólarnir eiga að vakna til vitundar um skyldu sína í þeim efnum. Skólayfirvöld og opinberir aðilar verða að gera sér grein fyrir að við þurfum jákvætt trúfrelsi í landinu en ekki neikvæðni sem elur af sér ótta og tortryggni. Jákvætt trúfrelsi hvetur til að fólk læri að meta fjölbreytileika og hræðast ekki átrúnað og menningu annars fólks. Neikvætt trúfrelsi er það þegar reynt er að banna trúartákn og trúariðkun í almannarýminu, banna búrkur og krossa og trúariðkun á opinberum vettvangi. Neikvætt trúfrelsi skddar samféag manna, samskipti og eðlilegan fjölbreytileika. En jákvætt trúfrelsi elur á umburðarlyndi og gleði yfir að lífið er litríkt. 

Ógnin og ábyrgðin 

Það kom í ljós að spádómsorð vinar míns í Tallin rættust um Islam og múslímsk áhrif. Flogið var á tvíburaturnana. Árásin varðaði ekki bara Bandaríkjamenn heldur allan heiminn. Fólkið sem dó, um þrjú þúsund manns, var frá um níutíu þjóðlöndum. Árásin varðar heimsbyggðina og líf okkar allra. Raunar flugu þessar flugvélar ekki aðeins inn í turnana heldur inn í okkur börn jarðar. Bláeygri tíð lauk og við erum kölluð til að horfa opineyg og raunsæ á aðstæður erlendis og heima. Forðumst einfeldningslega túlkun af því tagi sem gerir fólk af annarri trú að hinum, að vondu fólki, óvinum. Temjum okkur þá almennu nálgun að fólk sem er “öðru vísi” hefur sama rétt og auðvitað sömu skyldur og við. Viðurkennum því að múslimar eru manneskjur með líka getu og sömu þrá og við hin. Verum umhyggjusöm, höfnum vitleysunni, hryllingnum og ofbeldi. Iðkum kærleika, leggjum okkar lóð á vogarskálar og gerum það með óttaleysi og umhyggju fyrir fólki. Leyfum flaugum elskunnar að fljúga um heiminn. Þannig verkar Guð.

(byggt á hugleiðingu í Neskirkju 11. september 2011)

Sísiðbót – þ.e. síbót

Bergmál hamarshögganna berst til okkar á þessum degi. Í dag, 31. október – á siðbótardegi, eru liðin 503 ár frá því að munkurinn og háskólakennarinn Marteinn Lúther við negldi á dyr hallarkirkjunnar í Wittenberg 95 tesur sínar. Og þessar tesur Lúthers voru um miðlæg efni í kristinni trú. Tesa er setning eða setningar með einni meginhugsun. Og af hverju negldi hann trúarhugmyndir sínar á dyrnar. Kirkjuhurðin var við aðalgötuna í bænum þar sem allir áttu leið um. Kirkjuhurðin var auglýsingaskilti eða heimasíða þess tíma. 

95 tesur Lúthers höfðu gríðarleg áhrif því að hann fjallaði um viðkvæm málefni sem deildar meiningar voru um. Dugmiklir fjárplógsmenn fóru um héruð og seldu grandalausum kvittanir fyrir syndaaflausn. Þetta voru svonefnd aflátsbréf og hluti ágóðans af sölunni átti að fara til að byggja Péturskirkjuna í Róm. Þessi útsmogna fjárföfnunaraðferð kom við Lúther, sem hafði komist að þeirri niðurstöðu að enginn páfi eða mannlegur máttur gæti opnað dyr himinsins. Aðeins Jesús Kristur væri megnuður þess. Verðbréf manna væru einskis virði og það væri ekki hægt að múta Guði. Þess vegna hefði Jesús komið, dáið, brotið múra dauða, sektar og opnað nýjar dyr himins, búið til nýjan gjaldeyri og kúrs fyrir mannkyn. Þessi guðfræði, sem Páll postuli kenndi t.d. í Rómverjabréfinu, Ágústínus kirkjufaðir og ýmsir fornkirkjuvitringar skrifuðu um og prédikuðu líka, hafði fallið í skuggann í puði og stofnanavæðingu og valdasókn kirkjunnar.  

Þegar aflátssali seldi góðhjartaðri skósmiðskonu bréf upp á að hún fengi örugga hraðferð inn í himininn var Marteinn Lúther löngu búin að móta sér skoðun um trú, eðli hennar og fagnaðarerindi. Honum var nóg boðið og ætlaði ekki að láta fjárplóga rugla saklaust sóknarfólk hans. Það var því ekki aðeins guðfræðingurinn heldur einnig presturinn og sálusorgarinn Lúther sem mótmælti óprúttinni sölu á bréfum að lyftunni alla leið inn í Paradís. Lúther vissi að athæfið og réttlætingarnar áttu sér ekki stoð í Biblíunni. Hann sýndi líka að Biblíutúlkun kirkjunnar væri á villigötum. Hann vænti þess að hreinlynt og skynsamt kirkjufólk myndi viðurkenna hið augljósa. Þetta var baksvið og samhengi tesanna 95 á hallarkirkjuhurðinni.

Páfavaldið brást hart við Lúther og útskúfaði honum. Valdafólk gefur jú aldrei eftir vald sitt og stöðu fyrr en í fulla hnefa. Slagurinn varð harður og blóðugur og varð til að íbúar norðurhluta Evrópu urðu það sem kallað hefur verið mótmælendur, sem og meirihluti íbúa Norður Ameríku. Kirkjudeildir um allan heim, hvort sem þær eru lútherskar eða eiga sér aðra sögu, rekja upphaf til munksins sem negldi bréf á kirkjudyr í Wittenberg. Hamarshöggin bergmála í menningu heimsins æ síðan. Að vera kristin kirkja er stunda siðbót. Verkefnið er sístætt. Og siðbót er sísiðbót, síbót.

Myndina af Lúther tók ég í safni Wittenberg. 

Paradísarmissir – Paradísarheimt

Heimur Biblíunnar er dramatískur og litað er með sterku litunum um stærstu mál mannkyns og heims. Á síðari árum hefur mér þótt mengunarmál heimsins væru orðin svo dramatísk að þau væru orðin á biblíuskala. Margt sem skrifað hefur verið um þau efni hefur minnt á heimsendalýsingar Biblíunnar. Biblíutenging kom enn og aftur upp í hugann við bóklestur liðinnar viku. Ég lauk að lesa nýju bók Andra Snæs Magnasonar, Um tímann og vatnið. Það er áleitið rit um stóru málin, um náttúruna, meðferð okkar og ábyrgð á stórheimili okkar, jarðarkringlunni. Andri Snær skrifar ekki aðeins eins raunvísindamaður heldur segir persónulegar og blóðríkar sögur og opnar fyrir lífsviskuna, sem varðveitt er í trúarritum og helgidómum heimsins.

Missir og heimt

Í fyrstu bók Biblíunnar er lýst, að heimurinn var skapaður sem hamingjureitur. Heimurinn var Paradís. Síðan er harmsagan um hvernig menn spilltu heilagleika náttúrunnar og klúðruðu stöðu sinni. Og þessi lýsing er ekki náttúrufræði heldur listræn tjáning, erkiljóð, sem miðlar sársauka mannkyns yfir að hafa ekki staðið sig og skemmt það sem var gott. Sem sé paradísarmissir. Biblían tjáir, að menn hafi æ síðan leitað að paradís. Svo lýsir Biblían líka hamingjutímabilum þegar mannlíf var í jafnvægi, heilbrigði ríkti, allir höfðu í sig og á og friður ríkti.

Í langri sögu hebrea varð Jerúsalem miðja paradísar. Hún var tákn um að allt væri gott og rétt. Stórþjóðir tímanna réðust á smáþjóðina, sem hafði Jerúsalem að höfðuvígi. Saga hennar varð saga paradísarmissis eða paradísarheimtar. Sögurit Gamla testamentsins rekja paradísarleitina, spámannaritin spegla hana og í Sálmunum eru mikil ljóð sem tjá paradísarmissi en líka von. Á tímum herleiðingar og ofbeldis fæddist þráin eftir lausn. Messíasarvonir vöknuðu þegar kaghýddir hebrear þræluðu í hlekkjum. Það er á spennusvæðinu milli paradísarmissis og paradísarheimtar, sem Jesús Kristur kom í heiminn til að leysa úr fjötrum. Guðspjöllin eru um opnun paradísar, öll rit Nýja testamentisins sem og síðan öll helg saga síðan. En mennirnir eru samir við sig. Allir einstaklingar endurtaka frumklúðrið í sköpunarsögunni, allir síðan, í öllum samfélögum og þjóðum allra alda. Við erum börn, sem líðum fyrir missi paradísar en leitum að paradís.

Í Biblíunni er Jerúsalem paradís, ef ekki í raun þá sem táknveruleiki. Og um borgina er skáldlega talað og grafískt um að sjúga af huggunarbrjósti hennar og njóta nægta. Guð veitir Jerúsalem velsæld og færir henni ríkidæmi. Allir njóta, börnin líka. Jerúsalem biblíunar er nothæft tákn um náttúru í samtíð okkar.

Um tímann og vatnið

Bók Andra Snæs Magnasonar er bók um paradísarmissi, en líka um hvað við getum gert til bjargar. Hún er glæsilega skrifuð en líka óumræðilega þungbær. Ég varð að taka mér nokkurra daga hlé á lestrinum því illvirki manna gagnvart jarðarkúlunni eru opinberuð með svo lamandi hætti, að mér varð illt. Sókn okkar manna í gæði hefur skuggahliðar. Neysla, iðnvæðing, landbúnaðarbreytingar, orkunoktun og lífsháttabreytingar hafa breytt paradís jarðarkúlunnar í sjúka lífveru með ofurhita, sjúkling með dauðann í augum og æðum. Loftslagsvá ógnar lífi stórs hluta mannkyns. Risastór gróðursvæði hafa skaddast eða eyðst, vatni hefur verið og er áfram spillt um allan heim. Vegna athafna manna hafa dýrategundir dáið eða eru í hættu og lífríki riða til falls. Fíngert jafvægi hefur brenglast. Hópar og þjóðir fara á vergang, friður spillist, lífið veiklast. Paradísarmissir. Og ef við notum stóru stef Biblíunnar getum við dregið saman allt það, sem Andri Snær útlistar að Jerúsalem sé herleidd og flekkuð og deyji ef ekkert verður að gert.

Erindi kristni og mengun

Hin miklu klassísku rit Biblíunnar, trúarbragðanna og klassíkra bókmennta mannkyns draga upp stórar myndir um merkingu þess að lifa sem manneskja í samfélagi og fangi jarðar. Við kristnir menn höfum endurtúlkað allt sem varðar það líf. Guð er ekki lítill smáguð þjóðar í fjarlægu landi, heldur Guð sem skapaði þessa jarðarkúlu og alla heima geimsins, elskar lífið sem af Guði er komið, liðsinnir og hjálpar. Paradísarmissir og paradísarheimt varða sögu Guðs og er raunar saga Guðs. Nú er svo komið, að kristið fólk veit og skilur, að Jesús Kristur kom ekki aðeins til að frelsa Jóna og Gunnur, þ.e. mannkyn, heldur líka krókódíla, kríur og hvali, vatnsæðar heimsins og himinhvolfið einnig. Við menn – í græðgi okkar og skeytingarleysi – erum dugleg við að skemma lífvefnað jarðarkúlunnar. Nú þurfum við að stoppa, hugsa, dýpka skilning okkar og þora að breyta um kúrs. Við jarðarbúar, við Íslendingar líka, höfum seilst í alla ávexti aldingarðsins, höfum breytt skipulaginu og klúðrað málum svo harkalega, að við höfum tapað paradís.

Þegar Jerúsalem féll í fornöld, sem var reyndar nokkuð reglulega, komu fram spámenn til að vara við, setja í samhengi, vekja til samvisku, hvöttu til að snúa við, taka sinnaskiptum, iðrast. Alltaf var Guð með í för þegar rætt var um lífið. Bók Andra Snæs er ekki klassískt spámannsrit heldur nútímalegt, eftir-biblíulegt viskurit um, að mengun er mál okkar allra. Við erum kölluð til verka. Við höfum ekki lengur þann kost að búa um okkur innan múra afneitunar. Við getum í afneitun varið okkur sem erum komin á eldri ár en við megum ekki og eigum ekki að taka þátt í að eitra fyrir börn okkar og afkomendur. Vandinn er svo stór, að börnum okkar er ógnað. Við getum vissulega ekki bjargað heiminum ein en við getum öll gert margt smátt. Paradísarmissir er ekki eitthvað sem varðar hina – en ekki okkur. Missirinn er okkar allra. Við erum heimsborgarar og hlutverk okkar er paradísarheimt.

Framtíðin kallar. Ungt fólk um allan heim gegnir kallinu og stendur vörð um líf, heilbrigði og ábyrgð. Það eru ekki aðeins Greta Thunberg sem beitir sér, heldur milljónir ungs fólks um allan heim, líka Íslendingar. Í þessari viku verður æskuþing haldið um aðalmál íslenskra unglinga. Og miðað við viðtöl liðinna daga við unglingana munu þau ræða um hvernig megi bregaðst við mengunarmálum. Ég er djúpt snortinn af elsku og heilindum framtíðarfólksins. Í boðskap þeirra – og Andra Snæs einnig – heyri ég vonarboskap sem varðar lífið. Guð kallar til starfa að við njótum og verndum Jerúsalem náttúrunnar – verndum lífmóður okkar. Jesús býður ekki aðeins okkur að koma til sín heldur kemur til okkar og er með okkur. Guð stendur með lífinu og erindi kristninnar er paradísarheimt.

Ógnar pólitísk rétthugsun jólum?

img_1621

Er það hlutverk sveitarstjórna, skólastjóra, kennara, stjórnmálamanna og fyrirtækja aðbreyta ferlum og mannfundum til að móðga ekki einhverja, sem eru ekki hrifnir af kristnum siðum og venjum? Á Bretlandseyjum hefur ekki lánast að byggja menningarbrýr sem hafa þjónað fjölbreytnisamfélaginu. Það var niðurstaða nefndar á vegum enskra stjórnvalda og var birt í The Sunday Telegraph og fleiri miðlum. Að skera kristin gildi, heiti, venjur og hefðir út úr opinberu menningarlífi, t.d. jólahaldi, hefur ekki orðið til að skapa opið samstöðu-samfélag sem hinir pólitískt rétttrúðu væntu. Af ótta við að særa brugðust yfirvöld og vel meint kurteisin var kjánaleg í ýmsum tilvikum. Lög voru jafnvel ekki virt. Í sumum innflytjenda-gettóum var ekki tekið á ofbeldi, s.s. misnotkun barna og kynferðisglæpum gegn konum. Spennan vex í bresku samfélagi og Brexit er m.a. niðurstaðan af vaxandi pirringi.

Boðskapur skýrsluhöfunda á vegum Cameron og May er að nú sé komið að menningarlegum viðsnúningi. Jólatrén á ekki lengur að kalla “hátíðartré” heldur Christmas tree. Skólayfirvöld, sveitarstjórnir, ráð samfélags og viðskiptalífs eiga að virða að samfélög hafa gildi, hefðir og venjur sem þarf að viðhalda og rækta. Verja þarf fólk gegn hvers konar ofbeldi.

Niðurstaða ensku skýrslunnar er að mestu mistökin hafi verið að halda ekki í grunngildi, grunnlög og grunnhefðir til að þau sem fluttu inn gætu aðlagast bresku samfélagi. Til að samfélag sé opið og vel virkt þarf að gæta inntaks menningar. Trú og hefðir eru veigamiklir þættir heilbrigðs siðar en einfeldningsleg pólitík er engum til gagns.

Við Íslendingar megum gjarnan læra af mistökum granna okkar. Miklu skiptir að halda vörð um gildi og siði sem þjóna fólki, gefa samhengi, tjá menningu, styrkja samfélag og auðga andlegt líf fólks. Kristnir menn eiga alltaf að styðja það sem eflir andlegt heilbrigði. Trú, gildi og gefandi hefðir lífga og efla. Ræktum hið góða á aðventu og Guð gefi ykkur öllum gleðileg jól.

Fréttablaðið 19. desember, 2016.