Greinasafn fyrir merki: kristni

Klerkaveldi, trú og stjórnmál

Ég var að bíða eftir lyftunni uppi í turni Hallgrímskirkju. Við hlið mér var bandarísk fjölskylda og við ræddum saman á leiðinni niður og kvöddumst svo við kirkjudyr. Svo hélt ég áfram að styttu Leifs heppna. Ameríski pabbinn hljóp á eftir mér og spurði hvort hann mætti trufla mig: „Heyrðu, ertu prestur?“ Ég var hissa og spurði á móti: „Af hverju heldur þú það, sástu geislabauginn?“ Washingtonkarlinn hló og svaraði að bragði og með blik í augum: „Þú varst svo vinsamlegur við okkur áðan í lyftunni!“ Hann bætti við hann langaði til að spyrja mig einnar spurningar. Hann sagðist vera hugsi yfir auknu trúræði í MAGA-hreyfingu Donald Trump og áherslu margra bókstafstrúarmanna vestan hafs, að trú ætti að stjórna meiru í pólitíkinni. Hann langaði því til að spyrja hvaða skoðun ég hefði sem prestur á tengslum trúar og stjórnmála. Ég svaraði honum að ég hefði einfalda afstöðu í þeim efnum. Við ættum að halda trú og stjórnmálum aðgreindum. Ef þeim væri blandað saman myndu annað hvort stjórnmálin eyðileggja trúna eða trúin stjórnmálin. „Takk, fyrir,“ sagði hann. „Við erum algerlega sammála.“

Þetta samtal fléttaðist inn í heimsmálin og ég fann fyrir bombunum sem sprungu í Kiyv, Gaza, Íran, Sýrlandi, Tyrklandi, Ísrael, Grikklandi, Nígeríu og Indlandi. Hvað með klerkastjórnina í Íran? Af hverju er trú svona herfilega misnotuð víða? Af hverju er pólitíkin svona lemstruð af trúræði í hinum íslamska heimi?

Ég lærði hugmyndasögu á sínum tíma og varð aðdáandi upplýsingatímans í Evrópu á 18. og 19. öld. Kant og fleiri skoðuðu mörk þekkingar og þar með trúar og vísinda. Áherslan var á rökræna hugsun og skilgreindar aðferðir vísinda. Hefðir og stofnanir voru gagnrýndar og kirkjustofnanir einnig. Guðfræði á Vesturlöndum breyttist mikið og klerkaveldi var aflétt. Mannréttindi voru skilgreind og trúarstofnanir greindar frá ríkisvaldi. Upplýsingatíminn leiddi líka til tækniþróunar og skilvirkra fræða akademíunnar.

Öflugir hugsuðir upplýsingarinnar eru lán okkar Vesturlandamanna. Þeir þorðu að greina mörk, setja mörk og höfðu mjög víðtæk áhrif á þróun samfélaga, háskóla og menningar samtímans. En slíkt upplýsingarskeið vantar í hinum íslamska heimi. Aðgreiningu átrúnaðar og stjórnmála skortir og þar með djúpskilning á mörkum þekkingar og hlutverki trúar í lífi fólks. Múslimaklerkarnir telja sig því eiga að ráða og seilast til valda. Vissulega urðu til vakningar í löndum og héruðum múslima en þau voru staðbundin og náðu ekki að breyta íslamskri hugsun. 19. aldar vakningin í Egyptalandi og Líbanon var undir frönskum áhrifum og var beint gegn bókstafshyggju, miðaði að aukinni rökvísi og líka auknum kvenréttindum. Á tuttugustu öld var víða reynt að greina milli klerkastjórnar og almennra stjórnmála, t.d. í Tyrklandi Atatürk, Íran fyrir byltinguna 1979, Egyptalandi, Túnis og Indónesíu. En það voru fremur gárur á yfirborði en ekki á dýptina. Nýlenduveldi Evrópu spilltu þróuninni með því að innlima íslamska menningu í ramma eigin framfara. Togstreitan hefur haldist milli bókstafstrúandi rétttrúnaðarsinna og frjálslyndra sjónarmiða. Sums staðar hefur frjálslyndið náð flugi en menning er seig og hefðirnar slíta af sér það sem er utanaðkomandi. Upplýsingin kom ekki innan frá heldur var utanaðkomandi og rann því ekki í merg og bein fólks.

Okkur í hinum vestræna heimi er mikilvægt að skilja mun menningar austurs og vesturs, hins kristna heims vestursins og Islam. Til að menning breytist þarf að rýna í dýptir. Gamaldags réttrúnaður hefðanna hefur ekki enn fengið eldskírn gagnrýnandi greiningar. Þekkingu hafa ekki verið sett þau mörk sem nauðsynleg er til að venjulegt fólk, konur, karlar og börn, sé frjálst að hugsa upphátt við eldhúsborðið heima og ræða svo mál fjölskyldusamtalsins á torgum og í deiglu samfélagsins. Því skiptir ekki öllu máli í Íran hvort Khameni verði settur af eða klerkastjórn verði velt úr sessi. Íslamska upplýsingu vantar í Íran. Svo þyrftum við í vestrinu að virða og skilja menningarmuninum. Við sprengjum hann ekki burt með stórum bombum.

Niðurstaða mín er einföld. Trú og stjórnmálum á ekki að blanda saman – hvort sem það er í klerkaveldi meðal þjóða múslima eða í trumphægrinu í Ameríku. Trú og stjórnmál lifa best og þjóna fólki best í gagnvirku gagnrýnissamtali. Viskuarfur upplýsingatímans bannar okkur að blanda saman trú og pólitík og hvetur til að þessar mikilvægu víddir og stofnanir lifi saman í heilsusamlegri spennu og gagnrýni.

Birtist sem skoðun – grein á visir.is 24. júní 2025 og er hægt að nálgast að baki þessari smellu. Meðfylgjandi mynd tók ég í Jerúsalem, 21. maí 2023. Moskan á musterishæðinni. 

Kristni, islam og gyðingdómur

Þetta ryðgaða fat sá ég á vegg í hinni gömlu borg Akko, sunnan landamæra Líbanon og Ísraels. Enginn friður verður – hvorki í landinu helga, Úkraínu eða öðrum sýslum, nema fólk af ólíkri menningu virði hvert annað og hefðir hvers annars. Kristni, islam og gyðingdómur geta lifað saman – en ekki þegar bókstafshyggja fer offari. Fundamentalisma kallaði dr. Einar Sigurbjörnsson hnyttilega grunnhyggju. Grunnhyggjan er grunnhyggin, sér ekki vel, hugsar skammt, slítur upp litríkan og fjölbreytilegan blómgróður mannlífsins, ryður frá sér öllum sem eru í vegi og traðkar niður þau sem hugsa og lifa öðru vísi. Kristinn síonismi kann ekki góðri lukku að stýra, frekar en íslömsk eða gyðingleg grunnhyggja. Friður sé með okkur.

Bikar blessunarinnar …

Djúp kristninnar eru mörg. Jesús Kristur gerði ekki svimandi víddir að miðju samfélags kristninnar heldur borð og máltíð. Það er einstakt í heimi trúarbragðanna og því eru ölturu í kirkjum og oftast miðjur. Þau jarðtengja allt trúarlíf kristinna manna. Þegar bikar er blessaður og brauð líka eru tengsl mynduð – ekki aðeins við eilífð heldur líka pólitík, menningu, náttúru og deyjandi fólk á Gaza. Við sem einstaklingar megum þiggja veisluboðið til elskuheims Guðs sem hefur undraáhuga á að fuglar nærist vel, lífríkið dafni, mannfélag njóti leiks og hlátra og illskan sé hamin. Bikar blessunar, brauð fyrir veröld og að allt líf nærist. Fyrir 11 árum efndum við til skírdagsmáltíðar í safnaðarheimili Neskirkju og Arnrún og Friðrik V sáu veisluföngin og við Elín Sigrún stýrðum dagskrá. Anna Gyða Gunnlaugsdóttir tók myndir og m.a. þessa látlausu mynd af gömlum bikar kirkjunnar. Það er frábært að skírdagsmáltíðir eru orðnar að föstum lið í Neskirkju og mörgum kirkjum. Og súpueldhús, líknarstarf og þjónusta við hungraðan heim eru liðir guðsveislu í heiminum.

11. september

„Pabbi. Hvar varstu þegar flugvélarnar flugu á tvíburaturnana í New York og Pentagon?“ Sonur minn settist niður með okkur foreldrum til að spyrja um minningar, líðan, stað og túlkun á skelfilegum atburðum sem urðu 11. september 2001. Nú eru liðin tuttugu ár frá flugránunum og voðaverkunum. Staður og stund eru brennd í hugann. Þegar stórviðburðir verða læsast minningar gjarnan í huga – maður man hvar maður var, hvernig litir í umhverfinu voru, hvaða hljóð hljómuðu og hvernig líðanin var. 

Árásin á Bandaríkin

Minningarnar komu með hraði. Við vorum í Rethymno á Krít. Það var ógnvekjandi þegar íslenskur nágranni okkar kom hlaupandi og æpti skelfingu lostinn: „Rússarnir voru að ráðast á Bandaríkin.” Tíðindin voru ótrúleg, ég átti bágt með að trúa að Rússarnir væru dólgarnir en gerði mér grein fyrir að eitthvað hræðilegt hefði orðið. Svo ég settist við sjónvarpið og horfði stjarfur á skjáinn. Eitthvað dó hið innra og annað kom, kjánaöryggið fór og friðarsóknin fæddist. Heimurinn var breyttur. Í fyrsta sinn í marga áratugi hafði vopnum verið snúið gegn Bandaríkjunum með öflugum hætti. Islam var notað sem ástæða árasar, tylliástæða.

Kristni og Islam

Á þessum minningardegi er vert að staldra við. Hver eru tengsl kristni og Islam? Hvernig eigum við fólk af ólíkum toga, uppruna, gildum og trú að búa og lifa saman í framtíðinni? Viljum við að stríðs- og ofbeldissaga eigi sér framhaldslíf? Eða getum við bætt samskipti fólks í framtíð svo atburðir af þessu tagi verði ekki endurteknir og fyrirbyggjandi aðgerðir verði í samskiptum til að betur verið lifað? Er Islam framtíðarógn? 

Árið 1990 sat ég með kunningja mínum á kaffihúsi í Tallinn í Eistlandi. Þá voru Sovétríkin enn til. Kommúnisminn hélt hernámsþjóðum sínum í heljargreipum og ástandið í baltnesku ríkjunum var brothætt. Mikill spenna var milli fólks af rússneskum uppruna og hinna, sem voru af Eistar að uppruna. Rússneskir unglingar, fulltrúar herraþjóðarinnar, fóru um Tallin, með ofbeldi. Löggæslan var í molum og unglingagengið rændi og barði alla sem fyrir urðu, útlendinga sem Eistana. Það var beinlínis hættulegt að fara aleinn um miðborg Tallinn, jafnvel um hábjartan dag. Félagi minn á kaffihúsinu benti á gengið og sagði: „Þau eru bara að nýta sér aðstæður, sem eru að hverfa. Þó mér sé ekki vel við Rússana held ég að þeir verði tannlausir í heimsmálunum. En það eru múslimarnir og Islam sem verða framtíðarógn heimsfriðarins.“ Og bætti hann við „Rússland mun ekki skelfa neinn – Sovétríkin eru að baki og kalda stríðið er að þiðna.“

Orðin frá Tallinn leituðu á huga minn þegar ég sat við skjáinn og sá seinni vélina fljúga á tvíburaturninn í New York. Það var ekki hægt að kenna Islam um djöfulæði Osama bin Laden eða þeirra, sem drápu flugmenn, farþega, sjálfa sig og fólk í turnum. Mörg hryðjuverk og stríð heimsins tengjast múslimum eða eru rökstudd með vísan í Islam. Allt verður þetta til að grýlugera Islam og efna til óvinagerðar, þ.e. að gera múslima að “hinum” – þessum hættulegu, að óvinum. Og svo kemur jafnan í kjölfarið áróður um að kristin Vesturlönd eigi í stríði við múslimskan hluta heimsins. Þetta eru klisjur til stuðnings hernaði vestrænna þjóða og það er þannig málflutningur sem illmennið notaði til að réttlæta voðaverk sín í Osló og Útey í Noregi. Enginn skyldi hrapa að ályktunum og einfeldningslegum niðurstöðum í svo flóknu máli. En enginn skyldi heldur vera kjáni í trúarefnum heldur.

Stríðandi Islam

Islam er áberandi í heimsfréttunum, en þó eru þau sem teljast til þess átrúnaðar aðeins fimmtungur mannkyns. Talsverður hluti stríða síðustu árin hefur verið í nafni Allah. Er allt fylgjendum spámannsins Múhameðs að kenna? Ef við hugum að nærumhverfi okkar er hlutur múslima íhugunar virði. Af 350 hryðjuverkum í Evrópu hafa þeir vissulega komið við sögu.

3% og alhæfingar

Ég spurði fermingarbörnin eitt sinn hve hátt prósentuhlutfall voðaverka í okkar heimshluta væri hægt að kenna múslimum. Þau giskuðu á múslimar ættu aðild að helmingnum, en staðreyndin er þó, að aðeins 3% hryðjuverka í Evrópu er hægt að kenna fylgjendum Islam. Það eru hins vegar alls konar þjóðernissinnar og fulltrúar menningarkima, sem vinna megnið af ódæðisverkunum. Það merkir, að við eigum að fara okkur hægt í að fella dóma um, að múslimarnir séu vondir. Þeir eru ekki verri en aðrir, ekki verri en við. Það er ekki átrúnaðurinn sem er orsökin heldur átakakúltúrinn sem magnaður er þar sem spenna ríkir milli þjóðarbrota og menningarkima. En trú er af vondum mönnum oft notuð sem áróðurstæki.

Hvaða gildi? 

Kristnin hefur lagt áherslu á manngildið en það gera sanntrúaðir múslimar líka. Friðarsókn og virðing fyrir lífinu er í grunni allra trúarbragða heimsins. Kristnir vilja ekki hryðjuverk og ofbeldi, en það vilja múslimarnir ekki heldur. En það eru hins vegar aðstæður víða í hinu múslimska samfélagi, sem valda óróa og við þeim verður að bregðast. Vestræn ríki hafa margar skyldur í stjórn heimsmála og verða að bregðast við með yfirveguðu viti. Leiðarstjörnur þess vits eru trúarlegar og siðferðilegar. Meðal þeirra eru manngildi og réttur einstaklinganna, sem við Vesturlandamenn ættum að verja, sem og höfuðgildi hinnar kristnu hefðar. En mörg stríð eru háð vegna hagsmuna og fjármuna, en ekki vegna ástar á manngildi og verndun mannréttinda. 

Ræktun friðar

Friður nær fremur að haldast þegar fólk kynnist, deilir kjörum, talar saman og reynir að skilja menningu, þarfir, áherslur, gildi og vonir. Vegna átaka hafa trúarleiðartogar kristinna og múslima reynt að lægja öldur og lina spennu víða um heim. Í krepptum aðstæðum t.d. í Egyptalandi, Nígeríu, Skotlandi og Indónesíu hafa hófsamir reynt að hemja hina herskáu og mynda stuðpúða á milli. Í Noregi stóðu múslimar og kristnir saman að útför eftir drápin í Útey. Í Jerúsalem hafa Gyðingar, kristnir og múslimar bundist samtökum til að létta spennu og plægja friðarakurinn. Heimsráð kirkna, Lútherska heimssambandið og ýmis samtök kristinna kirkna hafa víða um heim beitt sér fyrir samræðu til friðar. Ofbeldið skilar aldrei lausn heldur magnar og skemmir. Þegar fólk deilir kjörum og talar saman fæðist friður. 

Heima

Heimsmálin eru eitt og viðbrögð okkar á heimaslóð eru annað. Íslendingar eiga að láta kristin og mikilvæg vestræn gildi stýra för. Við höfnum og eigum að hafna kúgun kvenna, sem meðal annars hefur birst í hryllilegum heiðursmorðunum. Við eigum að bregðast hart við öllum ofbeldisseggjum og koma þeim undir manna hendur. Við þörfnumst fræðslu um grunngildi samfélags og trúar og ræða þau sem víðast. Við eigum að veita innflytjendum möguleika á að bera saman gildin í gamla landinu og hinu nýja og læra að skilja hvað er rétt og hvað ekki, hvað er leyfilegt og hvað ekki. Orð eru til alls fyrst. Samtöl og samskipti tengja.

Yfirborðslegt frjálslyndi er ekki gæfulegt í samskiptum fólks með ólíkan bakgrunn. Við þurfum að stuðla að sem flestir kynnist menningu innflytjenda, siðum og trú – og öfugt. Og skólarnir eiga að vakna til vitundar um skyldu sína í þeim efnum. Skólayfirvöld og opinberir aðilar verða að gera sér grein fyrir að við þurfum jákvætt trúfrelsi í landinu en ekki neikvæðni sem elur af sér ótta og tortryggni. Jákvætt trúfrelsi hvetur til að fólk læri að meta fjölbreytileika og hræðast ekki átrúnað og menningu annars fólks. Neikvætt trúfrelsi er það þegar reynt er að banna trúartákn og trúariðkun í almannarýminu, banna búrkur og krossa og trúariðkun á opinberum vettvangi. Neikvætt trúfrelsi skddar samféag manna, samskipti og eðlilegan fjölbreytileika. En jákvætt trúfrelsi elur á umburðarlyndi og gleði yfir að lífið er litríkt. 

Ógnin og ábyrgðin 

Það kom í ljós að spádómsorð vinar míns í Tallin rættust um Islam og múslímsk áhrif. Flogið var á tvíburaturnana. Árásin varðaði ekki bara Bandaríkjamenn heldur allan heiminn. Fólkið sem dó, um þrjú þúsund manns, var frá um níutíu þjóðlöndum. Árásin varðar heimsbyggðina og líf okkar allra. Raunar flugu þessar flugvélar ekki aðeins inn í turnana heldur inn í okkur börn jarðar. Bláeygri tíð lauk og við erum kölluð til að horfa opineyg og raunsæ á aðstæður erlendis og heima. Forðumst einfeldningslega túlkun af því tagi sem gerir fólk af annarri trú að hinum, að vondu fólki, óvinum. Temjum okkur þá almennu nálgun að fólk sem er “öðru vísi” hefur sama rétt og auðvitað sömu skyldur og við. Viðurkennum því að múslimar eru manneskjur með líka getu og sömu þrá og við hin. Verum umhyggjusöm, höfnum vitleysunni, hryllingnum og ofbeldi. Iðkum kærleika, leggjum okkar lóð á vogarskálar og gerum það með óttaleysi og umhyggju fyrir fólki. Leyfum flaugum elskunnar að fljúga um heiminn. Þannig verkar Guð.

(byggt á hugleiðingu í Neskirkju 11. september 2011)

Síbót

Bergmál hamarshögganna berst til okkar á þessum degi. Í dag, 31. október, á svonefndum siðbótardegi, eru liðin meira en fimm hundruð ár frá því að munkurinn og háskólakennarinn Marteinn Lúther við negldi á dyr hallarkirkjunnar í Wittenberg 95 tesur sínar. Og þessar tesur Lúthers voru um miðlæg efni í kristinni trú. Tesa er setning eða setningar með einni meginhugsun. Og af hverju negldi hann trúarhugmyndir sínar á dyrnar. Kirkjuhurðin var við aðalgötuna í bænum þar sem allir áttu leið um. Kirkjuhurðin var auglýsingaskilti eða heimasíða þess tíma. 

95 tesur Lúthers höfðu gríðarleg áhrif því að hann fjallaði um viðkvæm málefni sem deildar meiningar voru um. Dugmiklir fjárplógsmenn fóru um héruð og seldu grandalausum kvittanir fyrir syndaaflausn. Þetta voru svonefnd aflátsbréf og hluti ágóðans af sölunni átti að fara til að byggja Péturskirkjuna í Róm. Þessi útsmogna fjárföfnunaraðferð kom við Lúther, sem hafði komist að þeirri niðurstöðu að enginn páfi eða mannlegur máttur gæti opnað dyr himinsins. Aðeins Guð væri megnuður þess. Verðbréf manna væru einskis virði og það væri ekki hægt að múta Guði. Þess vegna hefði Jesús Kristur komið, dáið, brotið múra dauða, sektar og opnað nýjar dyr himins, búið til nýjan gjaldeyri og kúrs fyrir mannkyn. Þessi guðfræði, sem Páll postuli kenndi t.d. í Rómverjabréfinu, Ágústínus kirkjufaðir og ýmsir fornkirkjuvitringar skrifuðu um og prédikuðu líka, hafði fallið í skuggann í puði og stofnanavæðingu og valdasókn kirkjunnar.  

Þegar aflátssali seldi góðhjartaðri skósmiðskonu bréf upp á að hún fengi örugga hraðferð inn í himininn var Marteinn Lúther löngu búin að móta sér skoðun um trú, eðli hennar og fagnaðarerindi. Honum var nóg boðið og ætlaði ekki að láta fjárplóga rugla saklaust sóknarfólk hans. Það var því ekki aðeins guðfræðingurinn heldur einnig presturinn og sálusorgarinn Lúther sem mótmælti óprúttinni sölu á bréfum að lyftunni alla leið inn í Paradís. Lúther vissi að athæfið og réttlætingarnar áttu sér ekki stoð í Biblíunni. Hann sýndi líka að Biblíutúlkun kirkjunnar væri á villigötum. Hann vænti þess að hreinlynt og skynsamt kirkjufólk myndi viðurkenna hið augljósa. Þetta var baksvið og samhengi tesanna 95 á hallarkirkjuhurðinni.

Páfavaldið brást hart við Lúther og útskúfaði honum. Valdafólk gefur jú aldrei eftir vald sitt og stöðu fyrr en í fulla hnefa. Slagurinn varð harður og blóðugur og varð til að íbúar norðurhluta Evrópu urðu það sem kallað hefur verið mótmælendur, sem og meirihluti íbúa Norður Ameríku. Kirkjudeildir um allan heim, hvort sem þær eru lútherskar eða eiga sér aðra sögu, rekja upphaf til munksins sem negldi bréf á kirkjudyr í Wittenberg. Hamarshöggin bergmála í menningu heimsins æ síðan. Að vera kristin kirkja er að stunda siðbót. og það verkefni er sístætt. Og erindi siðbótar, kristninnar, er stöðug verðandi, vernda og bæta, ekki aðeins siðinn heldur þjóðfélag, kirkju, lífshætti  = síbót. 

Myndina af Lúther tók ég í safni í Wittenberg.