Greinasafn fyrir merki: fótbolti

Er knattspyrna list?

Er fótbolti listgjörningur? Þegar ég spyr áhugafólk um listir hvort fótboltinn sé listgjörningur fussa furðumargir viðmælendur mínir. Og þegar forsendur eða rammaskilgreiningar listar eru greindar og reyndar kemur í ljóst að oft fussar fólk vegna of þröngs listskilnings.

Skilgreiningar listar eru margar og afstaða fólks er mismunandi líka hvað list sé, hvert sé eðli listar eða listaverka. Mér leiðist leiðinlegur fótbolti, t.d. þunglamaleg varnarknattspyrna – þegar rútunni er lagt. En ég er heillaður af skapandi fótbolta sem nýtir og virðir aga og skipulag en gerir líka ráð fyrir róttæku frelsi einstaklinga og frumlegum gjörningum liðs. Þannig fótbolti er listviðburður og bestu leikmennirnir eru með bestu listamönnum samtíðar, á pari við snillinga í tónlist, dansi, arkitektúr, orðlistum og myndlist.

Til skýringar á afstöðu minni og almennum skilningi á list er þetta nálgun mín og skilgreining:

List er frumleg tjáning skynjunar, tilfinninga eða hugmynda og getur verið efnisleg eða leikræn.

Að mínu viti er list skapandi og meðvituð athöfn sem mótar reynslu eða merkingu með formgerð, hreyfingu, tjáningu eða framsetningu. Hún getur birst líkamlega, í tíma og rými og getur verið efnisleg eða óefnisleg, persónuleg eða samfélagsleg. List vekur skynjun og þar með tilfinningar – hún getur opnað víddir og jaðarsvæði þar sem hið venjulega opnast og ný sýn eða sjálfsmynd verður til.

Í toppfótbolta heimsins er fótbolti ekki aðeins formleg athöfn vélmenna heldur frumlegur gjörningur þjálfaðra einstaklinga í hóp. Fótboltinn er gjörningur sem er þrunginn og magnaður af tilfinningum. Knattspyrna er félagslegur gjörningur, eiginlega hópdans byggður á djúpgerð skipulags en líka frumlegum og skapandi nýjungum þegar leikur og rými verða flæði persónulegrar tjáningar á grundvelli skipulags. Þáttakendur og áhorfendur skynja form skipulags, en líka umbreytingu og fegurð frumleikans.

Hvað sýnist þér? Er besti fótboltinn list?

Meðfylgjandi mynd tók ég þegar Portúgalar léku síðast við Íslendinga á Laugardalsvellinum. Það var listgjörningur og Íslendingar spiluðu af list. Karlinn til hægri er einn mesti listamaður knattspyrnunnar, Cristiano Ronaldo, CR7.

Jürgen Klopp – Allt í botn

Hvernig verður þjálfari til? Hver er saga áhugaverðasta knattspyrnuþjálfara heimsins? Ég las bókina um knattspyrnumanninn Klopp. Bókin kom fyrst út á ensku árið 2017, en svo var bætt við efni um tvö síðustu árin, þ.e. til 2019.

Höfundurinn, Rap­hael Honig­stein, flétt­ar sam­an frá­sagn­ir ým­issa aðila, sem hafa kynnst Klopp á ferlinum. Sagt er frá fjöskyldu Jürgens í Þýskalandi. Faðir hans var íþróttafrömuður og fjölskyldulífið gleðiríkt. Klopp var opinskár um upphaf sitt og vinirnir voru örlátir á skemmtilegar frásagnir af bernskubrekum, skólalífi og unglingsárum. Síðan er sagt frá hvar Klopp spilaði, hvaða stöðum hann gengdi, bæði í sókn og vörn, og löngun hans til að verða atvinnumaður og hvernig til tókst. Að lokum varð hann leikmaður knattspyrnuliðsins Mainz og var hávær og glaðvær leiðtogi leikmanna.

Klopp lauk BA námi í íþróttafræðum (skrifaði um göngur!) og aflaði sér dýrmætrar þekkingar á þjálfun, ekki síst liðsheildar- og hápressu-aðferð Franks. Þegar þjálfari Mainz fór skyndilega var Kloppo, bráðungur, kallaður til aukinnar ábyrgðar sem þjálfari. Síðan gekk allt upp á við í Mainz og Klopp stýrði liði sínu til sigurs í næst efstu deild og upp í Bundesliguna. Klopp tók síðar við liði Dormund og gerði að stórliði að nýju. Hann varð svo þjálfari Liverpool 2015 og gerði miðlungslið að Evrópumeisturum og einu besta félagsliði í heimi. Bókin segir þá sögu vel og nákvæmlega. 

Klopp: Allt í botn, hinn eini sanni Jürgen Klopp er ekki æfisaga. Hún segir ekkert um lífsskoðanir hans, hvernig trúmaðurinn Klopp þroskaðist, sem næst ekkert um fjölskyldulíf hans eftir fimm ára aldurinn og ekkert um stjórnmálaskoðanir, áhugamál, sorgir og litríkar víddir persónusögunnar. En bókin segir þeim mun meira um ýmsa kima þýskrar knattspyrnu og helstu þátta enskrar knattspyrnu síðustu árin. Þetta er nördabók, sem telur nákvæmlega upp leiki og úrslit, stöðu og átök í næstefstu deild þýsku knattspyrnunnar og síðan Bundeslígunnar. Einna mikilvægasti þáttur bókarinnar er að saga hápressuleikstíls Klopp er skýrð og hvernig hann hefur þróað þessa öflugu en vandmeðförnu aðferð knattspyrnunnar. Tengslin við knattspyrnuþróun á Ítalíu eru skýrð, þróun í Þýskalandi og hvernig Klopp hefur rutt braut nýjum áherslum í iðkun fótboltans. Eftir lesturinn skil ég betur hvernig aðferðin er hugsuð, útfærð og tilgang hennar. Um hápressustíl er bókin gjafmild.

Lyndiseinkun, tengslahæfni, örlæti, húmor og þróun knattspyrnustjórans er lýst ágætlega í bókinni. Samferðamenn Klopps og leikmenn hafa talað um hann, hvernig hann fer að, hvernig hann hefur orðið leiðtogi, sem dregur menn áfram á erfiðleikastundum, drifið áfram í baráttu og lifir sig með ástríðu í hvern leik sem spilaður er. Ástríðarn og keppnisskapið er alltaf virkt í Klopp, líka í fótbolta í fríum og með áhugamönnum. Klopp er allur þar sem hann er af lífsgleði og ástríðu. Og mér þótti merkilegt að lesa hvernig hann höndlar mótlæti og dregur sinn flokk áfram og upp úr vonbrigðapollum. 

Bókin er ljómandi yfirlitsrit um knattspyrnuferil Jürgen Klopp og um þróun þjálfarans, en varla um nokkuð annað. Bókin er einkum skrifuð fyrir þýskan markað og ég lærði því heilmikið um þýska knattspyrnu, en eiginlega ekkert um enska. Stóru spurningum mínum um lífsskoðanir Klopps, sem ég hef áhuga á, er enn ósvarað. En maður lifandi, sjarmerandi er hann Kloppo, klókur, útsjórnarsamur, heillyndur og merkilegur hugsuður á sínu sviði. Ljómandi vel þýdd bók, sem fær þrjár stjörnur af fimm.

Bókaútgáfan Krummi, 2019. Þýðing Ingunn Snædal. 

Hvar áttu heima?

Fyrir nokkrum dögum síðan talaði ég við skemmtilegan mann í Gautaborg. Hann vakti athygli þar sem hann fór því hann var kátur en líka einstakur vegna áberandi brunasára og fingralausra handa. Andlitið var flekkótt, útlimirnir voru skellóttir og augun höfðu skaddast. Við fórum að tala saman og maðurinn sagði mér, að hann hefði fæðst í Íran en flust til Svíþjóðar þegar hann var barn. Svo hafði hann lent í hræðilegum og alræmdum bruna í Gautaborg, en hafði lifað af, reyndar mjög illa farinn. „Þess vegna er ég svona“ sagði hann. Þegar hann var búinn að segja mér sögu sína spurði ég. „En hvar áttu heima? Hvar er tilfinningalegt heimili þitt? Er það í Íran, Gautaborg eða annars staðar?“ Maðurinn horfði á mig með öðru auganu og hitt leitaði eitthvað annað og sagði: „Mitt heimili er jörðin. Ég á ekki heima í Íran eða Svíþjóð eða neinum einum stað. Ég er jarðarbúi.“ Þetta stóra svar mannsins hefur lifað með mér síðan. Hvar er heima og hvað merkir það?

Gothia 2019

Ég fór til Gautaborgar með drengjum mínum og stórum KR-hópi á Gothia Cup – sem er vikulöng fótboltaveisla. Með í för voru þrír þjálfarar, fararstjórar, foreldrar sem sáu um að unglingarnir fengju svefn, næringu og öryggi. Og þeir voru með töfra í tám og fótum og spiluðu góðan fótbolta. En það voru ekki aðeins lið úr Vesturbænum sem voru í borginni þessa daga heldur 32 íslensk lið auk hinna erlendu, bæði karlalið en líka kvennalið. 1686 lið tóku þátt í mótinu og frá 177 þjóðlöndum.

Ég ætlaði varla að nenna á setningarhátíðina, sem átti að halda á Nyja Ullevi-leikvanginum í miðborg Gautaborgar. En við fórum samt og ég sá ekki eftir að fara því hátíðin var áhrifarík. Mannhaf fyllti leikvanginn. Fjörið var mikið, fánar heimsins brostu í kvöldsólinni og það dagaði á mig undir dillandi tónlist, stórbrotnum danssýningum og söng, sem tugir þúsunda tóku þátt í, að þessi knattspyrnuveisla væri heimsbikar unglinganna í knattspyrnu. Allir voru komnir til að gera sitt besta, gleðjast, tengjast, segja sögur, hlægja og spila fótbolta. Lífið alls konar og fjölbreytilegt. Stóri heimurinn skrapp saman og hið nálæga varð stórt. Sú tilfinning helltist yfir mig, að þessi litríki hópur væri ein hjörð. Þetta væri einn heimur, sem við byggjum í. Litarháttur fólksins var mismunandi en gleðin var lík, söngurinn sameinaði og boltagleðin kallaði fram samsemd. Og því var niðurstaða viðmælanda míns svo áhrifarík: „Mitt heimili er jörðin. Ég er jarðarbúi.“

Gildi, djúptengsl – heima

Hvar áttu heima? Og staldraðu við – hvar er festa þín? Hvað skiptir þig máli og hvar ertu sönn eða sannur? Við mennirnir erum ekki eins, en þurfum þó að vera eitt. Við eigum þessa jörð sameiginlega. Við erum afkomendur jarðarinnar og berum ábyrgð á henni. Á minningardögum sem eru haldnir þessa dagana um tunglferðir hafa verið dregnar fram myndir úr ferðunum. Og áhrifaríkastar eru jarðarmyndirnar, af bláu, dásamlega fallegu kúlunni. Hún er heimili okkar. Ef höfin mengast meira og hiti hækkar enn frekar þá förum við ekki eitthvað annað, á hitt heimili okkar. Við getum ekki flúið burt. Við erum heima, á jörðinni. Það er ekkert plan B.

Lífið

Textar dagsins fjalla um líf. Lexían dregur upp stórkostlega mynd af listrænum skapara, sem býr til flotta veröld og dregur upp tjöld himins. Svo er í pistlinum fjallað um hið góða líf, sem okkur er boðið að lifa, heimsskipan sem tengir allt og alla og skapar lífgefandi jafnvægi. Og svo er guðspjallð úr frægustu ræðu heimsins, fjallræðu Jesú í Matteusarguðspjalli. Þar setur Jesús veröld, himinn og jörð í samhengi. Og þar er ekki uppgjöf, mengun, dauði, hræðsla, heldur þvert á móti von, lífsgæði og dásamleg skipan alls sem er. Af því Guð er og elskar er ekki bara sorg og líf til dauða. Lífið lifir. Lífið er sterkara en allt sem ógnar. Lífið er meira en efnislífið því Guð er og elskar.

Vonleysi eða von

En svo er allt hið neikvæða. Miðlar heimsins hafa tekið að sér að boða vond tíðindi og alls konar dómsdaga. Boðskapur illfara og dauða, mengunar, stríða og ógna dynja á okkur alla daga. Svo eru allt of margir stjórnmálamenn sem magna ófrið, bera fram kreddur sínar um aðskilnað hópa og þjóða. Það eru þeir, sem vilja loka löndum gegn þeim sem eru á flótta. Við eigum að staldra við og horfa með gagnrýni. Ríki hluti heimsins horfist ekki í augu við, að það erum við sem lifum umfram efni og getu veraldar til að fæða og næra. Neysluspor okkar eru langt umfram hið eðlilega. Í stað þess að bregðast við með auðmýkt, mannúð og kærleika er alið á ótta, andstöðu, aðgreiningum. Stjórnmál Bandaríkjanna eru að rotna innan frá með ótta- ógnar- og hatursboðskap. Traustið rofnar. Í menningu Evrópu og Bandaríkjanna takast á grunngildi mannúðar og kærleika annars vegar og sérhyggju og andúðar hins vegar. Og útgönguhasar Bretlands úr Evrópusambandinu magnar líka hópa-aðgreiningar og tortryggni.

Aðgreiningarhyggjan, sem myndar veggi og múra, fjandskapast við dansandi fólk á fótboltamóti í Gautaborg. Hatursboðskapur er í andstöðu við kristna réttlætis-friðar- og siðferðishefð. Hrætt fólk leggur áherslu á aukna aðgreiningu en ekki aukna samvinnu. Hvar áttu heima? Og ekki spurt hvort þú eigir heima í Reykjavík, Garðabæ eða einhverju öðru sveitarfélagi hér á landi eða erlendis. Spurningin varðar hver gildi þín eru, heildindi og hagsmunir. Áttu heima jörðinni, ertu jarðlingur – eða sérréttindasinni? Áttu heima í sérstækum forréttindakima?

Guð hefur áhuga á lífi fólks og velferð heimsins

Skiptir aðgreiningarhyggjan og menningarleg átakamál kristindóminn máli? Já, hlutverk kirkju Krists er alltaf að standa með lífi, réttlæti, friði og kærleika. Jesús Kristur er ekki pólitískur leiðtogi heldur frelsari heimsins, sem frelsar fólk frá synd fangelsum illra tilfinninga og óréttlæti. Við fulltrúar hans í heiminum erum ekki flokkspólitísk fyrst og fremst – heldur pólitísk vegna trúar okkar. Málflutningur okkar er hinn guðlega elska sem alltaf er í þágu lífins. Því spyrjum við okkur sjálf, fólkið okkar, samfélag okkar og stofnanir, stjórnmálamenn og uppalendur um gildi, hvaða gildi liggi til grundvallar. Þegar stjórnmálaflokkar reyna að tryggja hag hóps fólks á kostnað annarra ber að bregðast við. Þau sem eiga sér ekki málsvara eiga hann alltaf í Jesú Kristi.

Kristinn siður og siðferði

Hinn kristni siður hefur trosnað í vef þjóðfélaga hins ríka hluta heimsins. Þar með hefur bilað mikilvæg kjölfesta menningarinnar. Það er gott, að forréttindi kirkjustofnana eru að hverfa, en það er hins vegar stórkostlega alvarlegt að siðferðileg festa riðlast, siðvitið veiklast og flestir hugsa aðeins um eigin hag. Það er háskalegt þegar fólk gleymir, að við erum öll meðlimir hins stóra samfélags mannkyns. Þurrkar í Afríku eða stríð í Asíu eru ekki aðeins vandamál í Afríku eða Asíu. Það eru okkar mál líka. Þegar stórviðburðir verða flýr fólk voðann og flæðir yfir löndin. Við erum ein stórfjölskylda á sameiginlegu heimili. Við erum öll ábyrg og kölluð til að vera eitt í þessum heimi. Við eigum að vera ábyrg í pólitík okkar, neyslu, matarnotkun og tengslum. Og við eigum að fara vel með jörðina okkar og gæta hennar. Það er köllun, sem Guð hefur úthlutað.

Það er búið að flauta. Leikurinn er hafinn, boltinn rúllar og allir menn eru með. Líka hin brenndu. Hinum sjálfhverfu eiginhagsmunaseggjum er boðið að vera með því við eigum að vera jarðarbúar. Hvernig viltu að heimili þitt sé? Guð hefur mjög sterkar skoðanir á því máli, hefur bæði slökkt elda og læknað sár og vill að við gerum hið sama.

Velkomin heim.

Amen.  

Hugleiðing 28. Júlí, 2019. Hallgrímskirkja. 6. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Myndirnar: Broskarlinn var við fætur okkar samtalsaðilanna, er á skólalóð Lerlycke-skólans i Hisingen, Gautaborg. Hin myndin er lánuð frá Sony Bravia. 

I did tell about my encounter with a man in Gothenburg some days ago. I was there as a father of two soccer-boys who – among thousands of young footballers – were feasting for a week. I met the man where the Icelandic teams were sleeping. He told me he was Iranian by birth but he had lived in Sweden since his childhood. And I asked him about his emtional home. Are you at home in Iran or Sweden? He watched me and told me: „I am at home on Earth. I am an Earthling but not Swedish or Iranian. A passport does not define you.“ We then had a fruitful and thoughtful conversation on the ethics of that approach. Then I went to the inauguration ceremony of the Gothia Cup. Flags of 177 nations were flying high. People of all colors were feasting, singing and dancing. And the ceremony brought again back to me that we are one humanity, one family in a single home – the Earth.

The biblical texts for this day single out that God has created life and our habitat. We are God‘s people. Jesus Christ has come to save the world. And that entails that we – as followers of Jesus Christ – are called to serve life, serve people and serve nature. Jesus Christ – as the savior of the world – is not specializing in „out of the world issues,“ but issues of politics, „down to earth issues,“ and real issues of struggle of human beings. One world, one family One Lord. How many of you are non-Icelandic in church today? Welcome home. You are an Earthling with the role of working for the common good of all of humanity and Nature. Welcome home.

 

Gothia Cup 2019

Við feðgarnir, Ísak og Jón Kristján, fórum á fótboltamót í Gautaborg 14.-21 júlí. Svo skaust mamman, Elín Sigrún Jónsdóttir, til okkar í þrjá daga. 39 strákar frá KR, fæddir 2005 og 2006 tóku þátt í knattspyrnuveislunni. KR-liðin voru þrjú og ég var meðábyrgur fyrir einum hóp. Og það voru ekki aðeins lið frá Svíþjóð og Íslandi sem tóku þátt heldur 1686 lið frá 75 þjóðlöndum! Leiknir voru á fimmta þúsund leikir áður en yfir lauk. Þetta var eins og heimsbikar unglinganna í knattspyrnu. Alvöru dæmi.

Félagsleg veisla

Já, þetta var fótboltaferð en var svo meira en bara hlaup á eftir bolta og öskur við hliðarlínu. Gothia er félagslegur viðburður fyrir lífið. Liðsfélagar sváfu saman í skólastofu í Lerlycke-skólanum í einni hverfismiðjunni í Hisingen. Mötuneytið í Tolered-skólanum þar nærri og var matstaðurinn. Hverfisskipulagið minnti á Haga og Mela, með leikskólla, kirkju og grunnskóla í miðjunni, eins og við Hagatorgið. Við yfirtókum forskólann. Í öllum skólabyggingunum voru lið hingað og þaðan að úr veröldinni. Og af því veðrið laðaði út á skólalóð hittust krakkarnir úti, töluðu saman, spiluðu fótbolta, körfu eða pókó. Norræn og alþjóðleg og félagsleg samskipti og öll á góðu nótunum. Karlalið og kvennalið spiluðu og ég saknaði að engin kvennalið fóru frá KR. En ég sá mörg kvennalið spila og heillaðist af einu Breiðabliksliðinu og uppgötvaði svo í lok leiks þeirra, að ég hafði skírt Sylvíu Eik, eina stúlkuna í liðinu. Lið Stjörnunnar vann fimmtán ára aldursflokk, sem er stóafrek því liðin voru 222 í þeim flokki. 

Allir sem einn

KR-liðin stóðu sig frábærlega í fótboltanum, unnu góða sigra, gerðu baráttujafntefli en töpuðu líka. Gaman að sigra, stundum eftir viðsnúning, en sárt að tapa, en þó aldrei nema eftir gríðarlega baráttu. Merkilegt að aldrei gáfust jaxlarnir upp og fögnuðu sameiginlega góðum árangri. Strákarnir studdu hvern annan, voru jákvæðir og eflandi og fóru á leiki hinna KR-liðanna ef þeir gátu. Mér kom á óvart að það voru engir raunverulegir hælbítar í hópnum, engir nöldrarar sem drógu niður. Það var líka áhugavert hve andinn í liðunum var jákvæður. Þessir ungu spilarar hafa lært að liðsandi er afar mikilvægur í fótbolta. Engin lið lifa af ef ekki er unnið með hið andlega og félagslega. Andlega víddin, félagsvíddin, sálarnæring eru að verða mikilvægir aðalþættir í árangri nútímafótbolta. Töfrar í tánum er ekki nóg heldur ekki síður töfrar í samskiptum og liðsfærni. Fótboltiðkun verður þjálfun í lífsleikni.

 

 

 

 

Eldra settið

Síðan var þáttur eldra fólksins sem þjónaði ungliðunum á Gothia. Rósa Hrönn Árnadóttiur var búin að leggja í mikla vinnu að undirbúa ferðina, panta ferðir, bregðast við breytingum í flugrekstri þjóðarinnar og svara með skilningi og elskulegri færni nær endalausum fyrirspurnum okkar foreldra um ólíklegustu mál. Svo voru þær Helga Ösp Jóhannsdóttir að merkja alla boli rétt fyrir ferð. Rósa fylgdi svo öllu eftir, vaktaði mismunandi þarfir drengjanna, heilsufarsþætti og hver væri að fara hvert eftir mót. Flott teymi Rósa og Helga – takk fyrir alla vinnuna.

Þjálfaraþrennan

Það verður ekkert vit í svona ferðum ef ekki væru þjálfarar. Garðar Ingi Leifsson, Auðunn Örn Gylfason og Anton Leifsson undirbjuggu leiki, settu upp leikskipulag, lögðu upp ferlið og stýrðu liðum sínum af festu, færni og öryggi. Og þeir áttu í viðbót við fótboltavitið hlýju og næmni til að efla og styrkja þegar þurfti og ákveðni þegar sækja þurfti. Lof sé þeim.

Pabbar og mömmur

Fjöldi foreldra kom svo til Gautaborgar og kom á leiki drengjanna sinna. Það er mikilvægt að þeir hafi sitt fólk innan seilingar, í gleði og sorg. Andlega, félagslega víddin er rótfest í lífi fjölskyldnanna. En svo var hópur foreldra sem tók að sér hópstjórn og þjónustu við liðin. Þetta er stór hópur og þetta fólk hefur lagt af tíma sínum, umhyggju, elskusemi marga daga og flestir 24 tíma þjónustu í heila viku í þágu drengjanna. Og það var í mörg horn að líta. Sinna þurfti hagnýtum málum eins og teipa legghlífar, hreinsa sár, lána hleðslutæki, sjá til þess að allir fengju svefn, næringu og hvíld, allir væru vel stemmdir og sáttir við sjálfa sig, skipulagið og liðsfélaga. Svo þurfti að tryggja að frítíminn væri gefandi og jafnvel hvetja stóran hóp að synda yfir, þvera, sænskt stöðuvatn! Og við sem tókum með okkur bækur af því að það yrði svo góður tími milli verkefna komumst að því að tíminn var fylltur, engar tómar stundir. Ég notaði því ferðir í lestum og flugi til að lesa – og skrifa þennan pistil.

Þetta eru hetjurnar sem við foreldrar megum þakka auk fararstjóra og þjálfara: Þorbjörn Geir Ólafsson, Þröstur Hallgrímsson, Agnar Þór Guðmundsson, Sigrún Elva Einarsdóttir, Ragnar Ragnarsson, Ari P. Wendel og Ágúst Freyr Takacs Ingason. Svo voru Styrmir Óskarsson, Þórólfur Jónsson, Oddsteinn Gíslason, Bjarni Jónsson, Ingvi Snær Einarsson og fleiri sem studdu vel og smituðu gleði í hópana.

Göteborg er bäst og KR líka

Ég hef komið til Gautaborgar áður en heillaðist af borginni nú. Hún er fjölbreytileg og ferðirnar um hverfin gáfu okkur innsýn og yfirsýn. Almenningssamgöngurnar eru frábærar. Aðstæður eru góðar fyrir svona alþjóðlegt mót og svo er Liseberg alltaf öruggur staður fyrir adrenalínflæði.

Tómas Magnus, Hjörleifur, Jón Bersi og Jón Kristján

Mér kom á óvart hve strákarnir sóttu í mollin til að versla og þeir reiknuðu út hvernig fjármál þeirr væru og svo var hringt í pabba eða mömmu þegar fjárþurrð varð. Ég var farinn að svara: „Íslandsbanki góðan dag.“ Þá kom hlátur hinum megin. Miðborg Gautaborgar er svo miklu meira en bara Umferðarmiðstöðin – Centralstasjon. En vegaframkvæmdirnar í miðborginni voru okkur bílkeyrandi nokkur amaauki því leiðsögukerfin þekktu ekki götulokanir og götubreytingar.

Gothia var frábært mót, KR-drengirnir stóðu sig vel, þjálfararnir eiga virðingu mína og  foreldrahópurinn er á heimsklassa. Mæli með Gothia 20 og áfram – og svo verður Gautaborg 400 ára eftir tvö ár. Og þá verður örugglega ofurhátíð. Takk fyrir mig – heyr mína bæn – allir sem einn. Áfram KR.

Liðsheildin á HM í Rússlandi

Þátttaka Íslands á HM 2018 var hrífandi. Liðið tryggði þátttökuna með glæsibrag. Það var ekkert gefið í undankeppninni og enginn veitti smáþjóðinni afslátt. Mörg okkar fylgdumst með undirbúningnum og svo hófst keppnin í Rússlandi. Jafnteflið við Argentínu í fyrsta leiknum var stórkostlegur árangur. Eftir tapið á móti spræku liði Nígeríu var allt lagt undir í lokaleiknum gegn Krótaíu. Leikur Íslendingana var í raun sigur. Liðið spilaði glæsilegan fótbolta og var óheppið að sigra ekki þann leik. Það vantaði aðeins herslumuninn að komast upp úr riðlinum. En það er ekki hægt að kvarta. Íslendingar eru í góðum hóp, sem er á heimleið, með Pólverjum og heimsmeisturum Þjóðverja ofl. Þetta heimsmeistaramót sýnir breiddina og dýptina á heimsfótboltanum. Engar þjóðir eiga neitt öruggt lengur. Fótboltinn hefur þróast svo að engar þjóðir eiga áskrift að árangri, sætum eða bikurum. Flestir leikir eru orðnir eru eins og úrslitaleikir, slík eru gæðin. Öll lið á HM eru frábær, líka okkar. Nútímafótbolti bestu liðanna er skapandi listgjörningur, eiginlega listsýningar.

Ég vek athygli á að það er fleira dásamlegt á þessu móti en töfrar í tám leikmanna. Það sem hefur hrifið mig mest við íslenska liðið er samheldni, virðingin í hópnum og samvinna. Stjörnustælarnir eru ekki sýnilegir í liðinu. Allir virðast vinna saman. Leikmennirnir vita, að þeir eru kannski ekki mestu listamenn fótboltans, en þeir eru hins vegar sannfærðir um að þeir geta flest, ef ekki allt, sem hópur. Samvinna, hópvinnan, hefur komið þeim á heimsmeistaramót sem milljónaþjóðum hefur ekki lánast. Þeir tala fallega hver um annan, rækta gleðina, grínast, hlægja, rækta félagsskapinn, tala liðið upp en ekki niður. Þeir brjóta ekki á liðsstjórninni heldur styðja ákvarðanir sem vissulega má deila um (sbr. leikskipulag Nígeríuleiksins).

Snilld íslenska fótboltalandsliðins er liðsheildin. Hún er til fyrirmyndar og eftir er tekið. Leikmennirnir hafa þegar unnið með efasemdir, tilfinningalega þröskulda og stefnumál. Þeir efast ekki um að þeir geti á góðum dögum unnið alla leiki. Þeir ætla sér alltaf langt. Enginn í liðinu ætlar sér eða reynir að lyfta sjálfum sér á kostnað annarra. Þeir gera þetta saman. Og ef hallað er á einhvern í liðinu er öllu liðinu að mæta. Enginn er gerður að blórabögli. Þeir eru samábyrgir.

Við getum lært margt af íslenska landsliðinu. Ekki aðeins fótbolta heldur hvernig má ná árangri. Vinnustaðir, félög, samfélög, söfnuðir, skólar, íslenskt samfélag – já heimsbyggðin – getur lært mikið af okkar landsliðum í fótbolota. Liðsheild verður ekki sterkari en veikasti hlekkurinn. En lið geta orðið ógnarsterk ef unnið er með veikleikana, ef allir eru með og styrkleikar allra nýtast. Áfram Ísland og takk.