Greinasafn fyrir merki: Mainz

Jürgen Klopp – Allt í botn

Hvernig verður þjálfari til? Hver er saga áhugaverðasta knattspyrnuþjálfara heimsins? Ég las bókina um knattspyrnumanninn Klopp. Bókin kom fyrst út á ensku árið 2017, en svo var bætt við efni um tvö síðustu árin, þ.e. til 2019.

Höfundurinn, Rap­hael Honig­stein, flétt­ar sam­an frá­sagn­ir ým­issa aðila, sem hafa kynnst Klopp á ferlinum. Sagt er frá fjöskyldu Jürgens í Þýskalandi. Faðir hans var íþróttafrömuður og fjölskyldulífið gleðiríkt. Klopp var opinskár um upphaf sitt og vinirnir voru örlátir á skemmtilegar frásagnir af bernskubrekum, skólalífi og unglingsárum. Síðan er sagt frá hvar Klopp spilaði, hvaða stöðum hann gengdi, bæði í sókn og vörn, og löngun hans til að verða atvinnumaður og hvernig til tókst. Að lokum varð hann leikmaður knattspyrnuliðsins Mainz og var hávær og glaðvær leiðtogi leikmanna.

Klopp lauk BA námi í íþróttafræðum (skrifaði um göngur!) og aflaði sér dýrmætrar þekkingar á þjálfun, ekki síst liðsheildar- og hápressu-aðferð Franks. Þegar þjálfari Mainz fór skyndilega var Kloppo, bráðungur, kallaður til aukinnar ábyrgðar sem þjálfari. Síðan gekk allt upp á við í Mainz og Klopp stýrði liði sínu til sigurs í næst efstu deild og upp í Bundesliguna. Klopp tók síðar við liði Dormund og gerði að stórliði að nýju. Hann varð svo þjálfari Liverpool 2015 og gerði miðlungslið að Evrópumeisturum og einu besta félagsliði í heimi. Bókin segir þá sögu vel og nákvæmlega. 

Klopp: Allt í botn, hinn eini sanni Jürgen Klopp er ekki æfisaga. Hún segir ekkert um lífsskoðanir hans, hvernig trúmaðurinn Klopp þroskaðist, sem næst ekkert um fjölskyldulíf hans eftir fimm ára aldurinn og ekkert um stjórnmálaskoðanir, áhugamál, sorgir og litríkar víddir persónusögunnar. En bókin segir þeim mun meira um ýmsa kima þýskrar knattspyrnu og helstu þátta enskrar knattspyrnu síðustu árin. Þetta er nördabók, sem telur nákvæmlega upp leiki og úrslit, stöðu og átök í næstefstu deild þýsku knattspyrnunnar og síðan Bundeslígunnar. Einna mikilvægasti þáttur bókarinnar er að saga hápressuleikstíls Klopp er skýrð og hvernig hann hefur þróað þessa öflugu en vandmeðförnu aðferð knattspyrnunnar. Tengslin við knattspyrnuþróun á Ítalíu eru skýrð, þróun í Þýskalandi og hvernig Klopp hefur rutt braut nýjum áherslum í iðkun fótboltans. Eftir lesturinn skil ég betur hvernig aðferðin er hugsuð, útfærð og tilgang hennar. Um hápressustíl er bókin gjafmild.

Lyndiseinkun, tengslahæfni, örlæti, húmor og þróun knattspyrnustjórans er lýst ágætlega í bókinni. Samferðamenn Klopps og leikmenn hafa talað um hann, hvernig hann fer að, hvernig hann hefur orðið leiðtogi, sem dregur menn áfram á erfiðleikastundum, drifið áfram í baráttu og lifir sig með ástríðu í hvern leik sem spilaður er. Ástríðarn og keppnisskapið er alltaf virkt í Klopp, líka í fótbolta í fríum og með áhugamönnum. Klopp er allur þar sem hann er af lífsgleði og ástríðu. Og mér þótti merkilegt að lesa hvernig hann höndlar mótlæti og dregur sinn flokk áfram og upp úr vonbrigðapollum. 

Bókin er ljómandi yfirlitsrit um knattspyrnuferil Jürgen Klopp og um þróun þjálfarans, en varla um nokkuð annað. Bókin er einkum skrifuð fyrir þýskan markað og ég lærði því heilmikið um þýska knattspyrnu, en eiginlega ekkert um enska. Stóru spurningum mínum um lífsskoðanir Klopps, sem ég hef áhuga á, er enn ósvarað. En maður lifandi, sjarmerandi er hann Kloppo, klókur, útsjórnarsamur, heillyndur og merkilegur hugsuður á sínu sviði. Ljómandi vel þýdd bók, sem fær þrjár stjörnur af fimm.

Bókaútgáfan Krummi, 2019. Þýðing Ingunn Snædal.