Greinasafn fyrir merki: KR

Gothia Cup 2019

Við feðgarnir, Ísak og Jón Kristján, fórum á fótboltamót í Gautaborg 14.-21 júlí. Svo skaust mamman, Elín Sigrún Jónsdóttir, til okkar í þrjá daga. 39 strákar frá KR, fæddir 2005 og 2006 tóku þátt í knattspyrnuveislunni. KR-liðin voru þrjú og ég var meðábyrgur fyrir einum hóp. Og það voru ekki aðeins lið frá Svíþjóð og Íslandi sem tóku þátt heldur 1686 lið frá 75 þjóðlöndum! Leiknir voru á fimmta þúsund leikir áður en yfir lauk. Þetta var eins og heimsbikar unglinganna í knattspyrnu. Alvöru dæmi.

Félagsleg veisla

Já, þetta var fótboltaferð en var svo meira en bara hlaup á eftir bolta og öskur við hliðarlínu. Gothia er félagslegur viðburður fyrir lífið. Liðsfélagar sváfu saman í skólastofu í Lerlycke-skólanum í einni hverfismiðjunni í Hisingen. Mötuneytið í Tolered-skólanum þar nærri og var matstaðurinn. Hverfisskipulagið minnti á Haga og Mela, með leikskólla, kirkju og grunnskóla í miðjunni, eins og við Hagatorgið. Við yfirtókum forskólann. Í öllum skólabyggingunum voru lið hingað og þaðan að úr veröldinni. Og af því veðrið laðaði út á skólalóð hittust krakkarnir úti, töluðu saman, spiluðu fótbolta, körfu eða pókó. Norræn og alþjóðleg og félagsleg samskipti og öll á góðu nótunum. Karlalið og kvennalið spiluðu og ég saknaði að engin kvennalið fóru frá KR. En ég sá mörg kvennalið spila og heillaðist af einu Breiðabliksliðinu og uppgötvaði svo í lok leiks þeirra, að ég hafði skírt Sylvíu Eik, eina stúlkuna í liðinu. Lið Stjörnunnar vann fimmtán ára aldursflokk, sem er stóafrek því liðin voru 222 í þeim flokki. 

Allir sem einn

KR-liðin stóðu sig frábærlega í fótboltanum, unnu góða sigra, gerðu baráttujafntefli en töpuðu líka. Gaman að sigra, stundum eftir viðsnúning, en sárt að tapa, en þó aldrei nema eftir gríðarlega baráttu. Merkilegt að aldrei gáfust jaxlarnir upp og fögnuðu sameiginlega góðum árangri. Strákarnir studdu hvern annan, voru jákvæðir og eflandi og fóru á leiki hinna KR-liðanna ef þeir gátu. Mér kom á óvart að það voru engir raunverulegir hælbítar í hópnum, engir nöldrarar sem drógu niður. Það var líka áhugavert hve andinn í liðunum var jákvæður. Þessir ungu spilarar hafa lært að liðsandi er afar mikilvægur í fótbolta. Engin lið lifa af ef ekki er unnið með hið andlega og félagslega. Andlega víddin, félagsvíddin, sálarnæring eru að verða mikilvægir aðalþættir í árangri nútímafótbolta. Töfrar í tánum er ekki nóg heldur ekki síður töfrar í samskiptum og liðsfærni. Fótboltiðkun verður þjálfun í lífsleikni.

 

 

 

 

Eldra settið

Síðan var þáttur eldra fólksins sem þjónaði ungliðunum á Gothia. Rósa Hrönn Árnadóttiur var búin að leggja í mikla vinnu að undirbúa ferðina, panta ferðir, bregðast við breytingum í flugrekstri þjóðarinnar og svara með skilningi og elskulegri færni nær endalausum fyrirspurnum okkar foreldra um ólíklegustu mál. Svo voru þær Helga Ösp Jóhannsdóttir að merkja alla boli rétt fyrir ferð. Rósa fylgdi svo öllu eftir, vaktaði mismunandi þarfir drengjanna, heilsufarsþætti og hver væri að fara hvert eftir mót. Flott teymi Rósa og Helga – takk fyrir alla vinnuna.

Þjálfaraþrennan

Það verður ekkert vit í svona ferðum ef ekki væru þjálfarar. Garðar Ingi Leifsson, Auðunn Örn Gylfason og Anton Leifsson undirbjuggu leiki, settu upp leikskipulag, lögðu upp ferlið og stýrðu liðum sínum af festu, færni og öryggi. Og þeir áttu í viðbót við fótboltavitið hlýju og næmni til að efla og styrkja þegar þurfti og ákveðni þegar sækja þurfti. Lof sé þeim.

Pabbar og mömmur

Fjöldi foreldra kom svo til Gautaborgar og kom á leiki drengjanna sinna. Það er mikilvægt að þeir hafi sitt fólk innan seilingar, í gleði og sorg. Andlega, félagslega víddin er rótfest í lífi fjölskyldnanna. En svo var hópur foreldra sem tók að sér hópstjórn og þjónustu við liðin. Þetta er stór hópur og þetta fólk hefur lagt af tíma sínum, umhyggju, elskusemi marga daga og flestir 24 tíma þjónustu í heila viku í þágu drengjanna. Og það var í mörg horn að líta. Sinna þurfti hagnýtum málum eins og teipa legghlífar, hreinsa sár, lána hleðslutæki, sjá til þess að allir fengju svefn, næringu og hvíld, allir væru vel stemmdir og sáttir við sjálfa sig, skipulagið og liðsfélaga. Svo þurfti að tryggja að frítíminn væri gefandi og jafnvel hvetja stóran hóp að synda yfir, þvera, sænskt stöðuvatn! Og við sem tókum með okkur bækur af því að það yrði svo góður tími milli verkefna komumst að því að tíminn var fylltur, engar tómar stundir. Ég notaði því ferðir í lestum og flugi til að lesa – og skrifa þennan pistil.

Þetta eru hetjurnar sem við foreldrar megum þakka auk fararstjóra og þjálfara: Þorbjörn Geir Ólafsson, Þröstur Hallgrímsson, Agnar Þór Guðmundsson, Sigrún Elva Einarsdóttir, Ragnar Ragnarsson, Ari P. Wendel og Ágúst Freyr Takacs Ingason. Svo voru Styrmir Óskarsson, Þórólfur Jónsson, Oddsteinn Gíslason, Bjarni Jónsson, Ingvi Snær Einarsson og fleiri sem studdu vel og smituðu gleði í hópana.

Göteborg er bäst og KR líka

Ég hef komið til Gautaborgar áður en heillaðist af borginni nú. Hún er fjölbreytileg og ferðirnar um hverfin gáfu okkur innsýn og yfirsýn. Almenningssamgöngurnar eru frábærar. Aðstæður eru góðar fyrir svona alþjóðlegt mót og svo er Liseberg alltaf öruggur staður fyrir adrenalínflæði.

Tómas Magnus, Hjörleifur, Jón Bersi og Jón Kristján

Mér kom á óvart hve strákarnir sóttu í mollin til að versla og þeir reiknuðu út hvernig fjármál þeirr væru og svo var hringt í pabba eða mömmu þegar fjárþurrð varð. Ég var farinn að svara: „Íslandsbanki góðan dag.“ Þá kom hlátur hinum megin. Miðborg Gautaborgar er svo miklu meira en bara Umferðarmiðstöðin – Centralstasjon. En vegaframkvæmdirnar í miðborginni voru okkur bílkeyrandi nokkur amaauki því leiðsögukerfin þekktu ekki götulokanir og götubreytingar.

Gothia var frábært mót, KR-drengirnir stóðu sig vel, þjálfararnir eiga virðingu mína og  foreldrahópurinn er á heimsklassa. Mæli með Gothia 20 og áfram – og svo verður Gautaborg 400 ára eftir tvö ár. Og þá verður örugglega ofurhátíð. Takk fyrir mig – heyr mína bæn – allir sem einn. Áfram KR.