Hvar áttu heima?

Fyrir nokkrum dögum síðan talaði ég við skemmtilegan mann í Gautaborg. Hann vakti athygli þar sem hann fór því hann var kátur en líka einstakur vegna áberandi brunasára og fingralausra handa. Andlitið var flekkótt, útlimirnir voru skellóttir og augun höfðu skaddast. Við fórum að tala saman og maðurinn sagði mér, að hann hefði fæðst í Íran en flust til Svíþjóðar þegar hann var barn. Svo hafði hann lent í hræðilegum og alræmdum bruna í Gautaborg, en hafði lifað af, reyndar mjög illa farinn. „Þess vegna er ég svona“ sagði hann. Þegar hann var búinn að segja mér sögu sína spurði ég. „En hvar áttu heima? Hvar er tilfinningalegt heimili þitt? Er það í Íran, Gautaborg eða annars staðar?“ Maðurinn horfði á mig með öðru auganu og hitt leitaði eitthvað annað og sagði: „Mitt heimili er jörðin. Ég á ekki heima í Íran eða Svíþjóð eða neinum einum stað. Ég er jarðarbúi.“ Þetta stóra svar mannsins hefur lifað með mér síðan. Hvar er heima og hvað merkir það?

Gothia 2019

Ég fór til Gautaborgar með drengjum mínum og stórum KR-hópi á Gothia Cup – sem er vikulöng fótboltaveisla. Með í för voru þrír þjálfarar, fararstjórar, foreldrar sem sáu um að unglingarnir fengju svefn, næringu og öryggi. Og þeir voru með töfra í tám og fótum og spiluðu góðan fótbolta. En það voru ekki aðeins lið úr Vesturbænum sem voru í borginni þessa daga heldur 32 íslensk lið auk hinna erlendu, bæði karlalið en líka kvennalið. 1686 lið tóku þátt í mótinu og frá 177 þjóðlöndum.

Ég ætlaði varla að nenna á setningarhátíðina, sem átti að halda á Nyja Ullevi-leikvanginum í miðborg Gautaborgar. En við fórum samt og ég sá ekki eftir að fara því hátíðin var áhrifarík. Mannhaf fyllti leikvanginn. Fjörið var mikið, fánar heimsins brostu í kvöldsólinni og það dagaði á mig undir dillandi tónlist, stórbrotnum danssýningum og söng, sem tugir þúsunda tóku þátt í, að þessi knattspyrnuveisla væri heimsbikar unglinganna í knattspyrnu. Allir voru komnir til að gera sitt besta, gleðjast, tengjast, segja sögur, hlægja og spila fótbolta. Lífið alls konar og fjölbreytilegt. Stóri heimurinn skrapp saman og hið nálæga varð stórt. Sú tilfinning helltist yfir mig, að þessi litríki hópur væri ein hjörð. Þetta væri einn heimur, sem við byggjum í. Litarháttur fólksins var mismunandi en gleðin var lík, söngurinn sameinaði og boltagleðin kallaði fram samsemd. Og því var niðurstaða viðmælanda míns svo áhrifarík: „Mitt heimili er jörðin. Ég er jarðarbúi.“

Gildi, djúptengsl – heima

Hvar áttu heima? Og staldraðu við – hvar er festa þín? Hvað skiptir þig máli og hvar ertu sönn eða sannur? Við mennirnir erum ekki eins, en þurfum þó að vera eitt. Við eigum þessa jörð sameiginlega. Við erum afkomendur jarðarinnar og berum ábyrgð á henni. Á minningardögum sem eru haldnir þessa dagana um tunglferðir hafa verið dregnar fram myndir úr ferðunum. Og áhrifaríkastar eru jarðarmyndirnar, af bláu, dásamlega fallegu kúlunni. Hún er heimili okkar. Ef höfin mengast meira og hiti hækkar enn frekar þá förum við ekki eitthvað annað, á hitt heimili okkar. Við getum ekki flúið burt. Við erum heima, á jörðinni. Það er ekkert plan B.

Lífið

Textar dagsins fjalla um líf. Lexían dregur upp stórkostlega mynd af listrænum skapara, sem býr til flotta veröld og dregur upp tjöld himins. Svo er í pistlinum fjallað um hið góða líf, sem okkur er boðið að lifa, heimsskipan sem tengir allt og alla og skapar lífgefandi jafnvægi. Og svo er guðspjallð úr frægustu ræðu heimsins, fjallræðu Jesú í Matteusarguðspjalli. Þar setur Jesús veröld, himinn og jörð í samhengi. Og þar er ekki uppgjöf, mengun, dauði, hræðsla, heldur þvert á móti von, lífsgæði og dásamleg skipan alls sem er. Af því Guð er og elskar er ekki bara sorg og líf til dauða. Lífið lifir. Lífið er sterkara en allt sem ógnar. Lífið er meira en efnislífið því Guð er og elskar.

Vonleysi eða von

En svo er allt hið neikvæða. Miðlar heimsins hafa tekið að sér að boða vond tíðindi og alls konar dómsdaga. Boðskapur illfara og dauða, mengunar, stríða og ógna dynja á okkur alla daga. Svo eru allt of margir stjórnmálamenn sem magna ófrið, bera fram kreddur sínar um aðskilnað hópa og þjóða. Það eru þeir, sem vilja loka löndum gegn þeim sem eru á flótta. Við eigum að staldra við og horfa með gagnrýni. Ríki hluti heimsins horfist ekki í augu við, að það erum við sem lifum umfram efni og getu veraldar til að fæða og næra. Neysluspor okkar eru langt umfram hið eðlilega. Í stað þess að bregðast við með auðmýkt, mannúð og kærleika er alið á ótta, andstöðu, aðgreiningum. Stjórnmál Bandaríkjanna eru að rotna innan frá með ótta- ógnar- og hatursboðskap. Traustið rofnar. Í menningu Evrópu og Bandaríkjanna takast á grunngildi mannúðar og kærleika annars vegar og sérhyggju og andúðar hins vegar. Og útgönguhasar Bretlands úr Evrópusambandinu magnar líka hópa-aðgreiningar og tortryggni.

Aðgreiningarhyggjan, sem myndar veggi og múra, fjandskapast við dansandi fólk á fótboltamóti í Gautaborg. Hatursboðskapur er í andstöðu við kristna réttlætis-friðar- og siðferðishefð. Hrætt fólk leggur áherslu á aukna aðgreiningu en ekki aukna samvinnu. Hvar áttu heima? Og ekki spurt hvort þú eigir heima í Reykjavík, Garðabæ eða einhverju öðru sveitarfélagi hér á landi eða erlendis. Spurningin varðar hver gildi þín eru, heildindi og hagsmunir. Áttu heima jörðinni, ertu jarðlingur – eða sérréttindasinni? Áttu heima í sérstækum forréttindakima?

Guð hefur áhuga á lífi fólks og velferð heimsins

Skiptir aðgreiningarhyggjan og menningarleg átakamál kristindóminn máli? Já, hlutverk kirkju Krists er alltaf að standa með lífi, réttlæti, friði og kærleika. Jesús Kristur er ekki pólitískur leiðtogi heldur frelsari heimsins, sem frelsar fólk frá synd fangelsum illra tilfinninga og óréttlæti. Við fulltrúar hans í heiminum erum ekki flokkspólitísk fyrst og fremst – heldur pólitísk vegna trúar okkar. Málflutningur okkar er hinn guðlega elska sem alltaf er í þágu lífins. Því spyrjum við okkur sjálf, fólkið okkar, samfélag okkar og stofnanir, stjórnmálamenn og uppalendur um gildi, hvaða gildi liggi til grundvallar. Þegar stjórnmálaflokkar reyna að tryggja hag hóps fólks á kostnað annarra ber að bregðast við. Þau sem eiga sér ekki málsvara eiga hann alltaf í Jesú Kristi.

Kristinn siður og siðferði

Hinn kristni siður hefur trosnað í vef þjóðfélaga hins ríka hluta heimsins. Þar með hefur bilað mikilvæg kjölfesta menningarinnar. Það er gott, að forréttindi kirkjustofnana eru að hverfa, en það er hins vegar stórkostlega alvarlegt að siðferðileg festa riðlast, siðvitið veiklast og flestir hugsa aðeins um eigin hag. Það er háskalegt þegar fólk gleymir, að við erum öll meðlimir hins stóra samfélags mannkyns. Þurrkar í Afríku eða stríð í Asíu eru ekki aðeins vandamál í Afríku eða Asíu. Það eru okkar mál líka. Þegar stórviðburðir verða flýr fólk voðann og flæðir yfir löndin. Við erum ein stórfjölskylda á sameiginlegu heimili. Við erum öll ábyrg og kölluð til að vera eitt í þessum heimi. Við eigum að vera ábyrg í pólitík okkar, neyslu, matarnotkun og tengslum. Og við eigum að fara vel með jörðina okkar og gæta hennar. Það er köllun, sem Guð hefur úthlutað.

Það er búið að flauta. Leikurinn er hafinn, boltinn rúllar og allir menn eru með. Líka hin brenndu. Hinum sjálfhverfu eiginhagsmunaseggjum er boðið að vera með því við eigum að vera jarðarbúar. Hvernig viltu að heimili þitt sé? Guð hefur mjög sterkar skoðanir á því máli, hefur bæði slökkt elda og læknað sár og vill að við gerum hið sama.

Velkomin heim.

Amen.  

Hugleiðing 28. Júlí, 2019. Hallgrímskirkja. 6. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Myndirnar: Broskarlinn var við fætur okkar samtalsaðilanna, er á skólalóð Lerlycke-skólans i Hisingen, Gautaborg. Hin myndin er lánuð frá Sony Bravia. 

I did tell about my encounter with a man in Gothenburg some days ago. I was there as a father of two soccer-boys who – among thousands of young footballers – were feasting for a week. I met the man where the Icelandic teams were sleeping. He told me he was Iranian by birth but he had lived in Sweden since his childhood. And I asked him about his emtional home. Are you at home in Iran or Sweden? He watched me and told me: „I am at home on Earth. I am an Earthling but not Swedish or Iranian. A passport does not define you.“ We then had a fruitful and thoughtful conversation on the ethics of that approach. Then I went to the inauguration ceremony of the Gothia Cup. Flags of 177 nations were flying high. People of all colors were feasting, singing and dancing. And the ceremony brought again back to me that we are one humanity, one family in a single home – the Earth.

The biblical texts for this day single out that God has created life and our habitat. We are God‘s people. Jesus Christ has come to save the world. And that entails that we – as followers of Jesus Christ – are called to serve life, serve people and serve nature. Jesus Christ – as the savior of the world – is not specializing in „out of the world issues,“ but issues of politics, „down to earth issues,“ and real issues of struggle of human beings. One world, one family One Lord. How many of you are non-Icelandic in church today? Welcome home. You are an Earthling with the role of working for the common good of all of humanity and Nature. Welcome home.