Ófeigur Björnsson, gullsmiður, kvaddur

„Í húsi föður míns eru margar vistarverur“ segir Jesús í textanum sem ég las fyrir ykkur úr Jóhannesarguðspjalli. Meistarinn frá Nasaret minnti á að lífið er ekki smátt heldur mikið, ekki lítilmótlegt heldur stórkostlegt. Möguleikarnir eru ekki takmarkaðir heldur margvíslegir og heimurinn er ekki bara gata í bæ heldur stórveröldin, bæði þessa heims og annars. Og samkvæmt Jesúnálguninni er lífið ekki búið þegar hjarta hættir að slá og blóð að renna um æðar – heldur er listaverk Guðs margra heima og vídda.

Ævintýrahús

Hildur sýndi mér hús þeirra Ófeigs í vikunni. Ég hef oft komið í búðina til þeirra á Skólavörðustígnum, keypt marga skartgripi Ófeigs, gert mér ferð á sýningarnar sem þau Hildur hýstu og meira að segja sótt til þeirra skúlptúr Páls í Húsafelli sem vinir okkar hjóna gáfu okkur og þau Ófeigur höfðu geymt í garði sínum. Ég vissi því að hús Ófeigs og Hildar væri smekklegt og áhugavert. En mig óraði ekki fyrir að það væri eins og ævintýrahús í Harry Potter-bók eða mynd. Verkstæðið með vinnuborðunum er fullt af dóti, staður til að tala, skapa, hlægja, gramsa og jafnvel kíta. Efni og gögn eru upp um alla veggi og ekki auðvelt að sjá reiðuna í öllu magninu. En íbúarnir vita nákvæmlega hvar þetta blaðið eða efnisbúturinn væri. Og svo fórum við lengra, í gegnum herbergi, fram hjá dyrum verslunar Ingu Elínar, upp brattan stiga og í íbúð þeirra Ófeigs. Þar eru stofur, eldhús og herbergi, og ekki öll á sama plani eða með sömu lofthæð sem eykur furðuna. Vistarverur eru fullar af kærleika, listmunum, litum og persónuvíddum húsráðenda. Og svo fóru við enn ofar og þá tók við ríki drengjanna, kjólasauma, hattagerðar og gesta, undraheimur í upphæðum með mörgum litum. Og alla leið niður í kjallarann, þennan útgrafna undraheim í hundrað og fjörutíu ára húsi, hvítmáluð vistarvera, svo snyrtileg, með efni skúlptúristans og gullsmiðsins, dyngja listamannsins sem hefur safnað efni sem gæti komið að notum í framtíðinni – eins og ávísun á framlíf, frekari verk og opinn tíma – eða kannski eilífð.

Skólavörðustígur hér og þar

Í húsi föður míns eru margar vistarverur – já í húsi Ófeigs og Hildar eru margar vistarverur – minningarrými. Og hafa skírskotanir til lífs. Heimili þeirra er eins og tákn um þá lífshætti sem þau Ófeigur hafa iðkað og vinir og fjölskylda hafa notið og við flest síðan þau fluttu á Skólavörðustíginn fyrir þremur áratugum. Þá fóru þau að skapa menningu Skólavörðustígsins sem gerði hann að skemmtilegustu götu Reykjavíkur. Ófeigur var ekki bara húsvörður Skólavörðustígsins eða þau Hildur guðfaðir og guðmóðir menningarinnar, heldur voru þau í hópi metnaðarfulls fólks sem byggði upp samfélag skapandi lista. Í húsi Ófeigs eru margar vistarverur, í samfélagi Skólavörðustígsins eru margar víddir, í menningu miðborgarinnar hafa undrin orðið. Nú er Ófeigur að kanna vistarverur eilífðarinnar – og væntanlega aldeilis flottur lagerinn í þeim kjallaranum og þénanlegt borð til að smíða – og Ófeigur loks algerlerga laus við klukku og tíma. Aðstæður til að skapa. Margar vistarverur – þar sem ég er – segir Jesús. Gott að fá að vera í slíkri búð.

Æfiágrip

Ófeigur Björnsson fæddist á Valentínusardeginum 14. febrúar árið 1948 inn í litríkt menningarheimili margra tenginga. Foreldrar hans voru hjónin Björn Ófeigsson og Jensína E. S. Jónsdóttir. Faðirinn var stórkaupmaður og móðirin húsmóðir. Systkini Ófeigs eru Jón Björnsson, arkitekt, Jóhanna Björnsdóttir, nuddfræðingur og fararstjóri, og Anna Lísa Björnsdóttir, flugfreyja. Systurnar lifa bræður sína. Ófeigur naut frelsis, stuðnings, velvilja og fékk að þroskast að eigin vild, gera tilraunir og vaxa upp og þroska gáfur sínar. Alla tíð var Ófeigur sjálfstæður og var fremur upptekinn af því sem honum sýndist mikilvægt en einhverju almenningsáliti.

Áhrifavaldurinn

Í æsku var Ófeigur drifkraftur í Norðurmýrinni þar sem hann ólst upp og síðar í Brekkugerði. Þegar Ófeigur vildi fara út að leika beitti hann ofurflauti sínu, blístraði svo hvellt og skerandi að krakkarnir heyrðu merkið. Og þau streymdu út úr húsunum til leika. Ófeigur kallaði – hann varð sem sé áhrifavaldur þegar í bernsku. Alla tíð var Ófeigur uppátækjasamur og hætti aldrei að bralla í lífinu. Áhrifavaldur í menningu og samfélagi.

Pabbi Ófeigs var einu sinni á gangi á Carnaby Street í upphafi bítlaaldar. Hann gerði sér grein fyrir stílbreytingunum og vissi að Ófeigur væri maður til að ganga í útvíðum buxum og skræpóttum skyrtum. Svo pabbinn keypti flottustu jakkafötinn og unglingurinn varð aðaltöffarinn og tískulaukur hverfisins. Engum kom á óvart þegar Ófeigur birtist skyndilega á fjólubláum buxum sem var nú aðallega föstulitur í kirkjum á þeim árum. Ófeigur fékk í arf og vegna uppeldis vitund um liti, form, fegurð og föt. En svo var hann sjálfur litsækinn og hugaður. Ófeigur hafði alltaf sinn stíl og þorði að blanda litum, formum og furðum þvert á það sem aðrir myndu gera hvort sem það var heima eða á Spánarströnd. Litríkið fylgdi honum alla leið og í kistu líka.

Gullsmíði og skúlptúrar

Eftir skóla lagði Ófeigur stund á gullsmíðanám og lærði hjá Jóhannesi Jóhannessyni á Skólavörðustígnum. Hann útskrifaðist frá Iðnskólanum árið 1969 – var sá fjögur-þúsundasti sem útskrifaðist frá þeim merka skóla hér við hliðina á Hallgrímskirkju. Ákveðin formleit bjó í Ófeigi og hann stundaði nám í skúlptúrdeild Myndlistarskóla Reykjavíkur. Til að sjá sér og fjölskyldunni farborða starfaði Ófeigur sem slökkviliðsmaður á Keflavíkurflugvelli frá 1973 til 1997. Vinnan, félagsskapurinn og vinnuumhverfið hentaði honum vel og lagði grunn að mörgu í lífi hans, fjárhagslega og félagslega.

Hildur og fjölskyldan

Ófeigur var svo heppinn að Hildur varð drottning lífs hans. Tómas Andrés Tómasson dró vin sinn með sér í bæinn og á rúntinn. Þeir Ófeigur enduðu svo í bíó. Þar var Hildur með skólasystur Tomma sem hann heilsaði. Ófeigur fór inn í bíóið á undan vini sínum og settist si svona hjá stelpunum. Tommi kom svo inn og spurði síðar af hverju hann hefði sest hjá þeim. „Nú þú heilsaðir þeim.“ Ófeigur var alltaf kurteisislega slakur. En þegar kom að málum Hildar sótti hann inn í geislann hennar og þar var allt rétt. Hamingjan heilsaði honum og kærleikur þeirra beið aldrei skipbrot. Ófeigur tilkynnti Tomma að Hildur væri hans. Neistinn kveikti bál og suðan þeirra brast aldrei. Þau Ófeigur og Hildur Bolladóttir gengu í hjónaband í maílok árið 1969 og voru því búin að vera lífsfélagar í meira en hálfa öld þegar Ófeigur lést. Hildur er kjóla- og hattameistari – eins og allir vita sem hafa komið á Skólavörðustíginn. Alla tíð dáðist Hildur að manni sínum og hann að henni og þau styrktu hvort annað. „Hún hló alltaf að honum“ sagði sonur þeirra og tjáði um leið ást þeirra sem er best í aðdáun, vináttu og kátínu. Þau voru ólík og byggðu á styrkleikum, voru samhent og ræktuðu virðinguna. Í því eru þau skínandi fyrirmynd okkur hinum.

Strákarnir tveir komu í heiminn, Bolli í september 1970 og Björn í janúar 1973. Bolli er gullsmíðameistari og rafvirki. Kona hans Þórunn Margrét Gunnarsdóttir, leikskólakennari. Börn þeirra eru Gunnar, Hildur Margrét og Bára María. Björn er grafískur hönnuður. Kona hans er Aníta Rut Harðardóttir, varðstjóri. Fóstursynir Björns eru Lúðvík Marínó Karlsson og Alexander Emil Beck.

Fyrstu hjúskaparárin bjuggu Ófeigur og Hildur austan við Skólavörðuholtið, við Vífilsgötuna. Svo tóku þau þátt í íslenska draumnum og fóru að byggja. Þau unnu sjálf við bygginguna og þá var heppilegt að Ófeigur var einn og heilan sólarhring í vinnunni suður á Velli og svo kom hann heim og átti tvo sólarhringa hjá fjölskyldunni og í byggingavinnunni upp í Vesturbergi 79. Allt gekk þeim að sólu. Þau fluttu inn á þjóðhátíðardeginum 1976. Meira að segja veðrið var dásamlegt þetta sumar og fór upp í yfir 24 gráður rétt eftir að þau voru flutt í þessar upphæðir Reykjavíkur. Drengirnir höfðu næg verkefni og Ófeigur var þeim natinn pabbi, hafði alltaf gaman af skemmtilegheitum og stýrði m.a. brennugerð fyrir áramótin. Vanur slökkviliðsmaðurinn bjó til kyndla fyrir drengina og var hrókur alls fagnaðar sem brennumaður. Hann hvatti sína menn til afreka, átaka og gleðiefna. Gekk sjálfur á undan með góðu fordæmi í alls konar bralli, átti hlut í bát sem hann sigldi á um sundin, fór á skak eða bara í siglingu í dýrð sumarkvöldsins. Ófeigur treysti sonum sínum furðu ungum til átaka á sjónum. Í Ófeigi bjó hugur og geta til ferða, fjörs og upplifana. Það gaf hann sonum sínum í arf.

Ófleygur

Svo var flugmennskan. Ófeigur var flugmenntaður og sótti upp í himininn. Einu sinni sá hann til manns út á túni að setja saman svifdreka. Ófeigur færði sig nær og tók manninn tali. Sá hafði gaman af handverkinu og samsetningunni en var ekki viss um að hann myndi fljúga græjunni. Það þótti Ófeigi næsta einkennilegt svo hann bauð sig fram sem tilraunaflugmann, fór upp á þúfu og flugið tókst. Svo var næsta tilraun í Úlfarsfelli og tókst mæta vel. Síðan varð Ófeigi ekki aftur snúið. Hann varð einn frumkvöðlum og stofnendum Svifdrekafélags Reykjavíkur og fyrsti formaður. Alltaf komst hann lifandi úr flugleiðöngrum sínum en félagar hans grínuðust með þegar hann lenti hastarlega að hann væri ekki Ófeigur heldur Ófleygur. Ófeigur hafði gaman af.

Gripir Ófeigs

Ófeigur átti listamenn að vinum og naut samvista við skapandi fólk. Gullsmíðin og iðja stéttarinnar höfðaði til hans. Hann hafði næmt auga fyrir formum, áferð og litum. Nálgun hans í listgrein hans var skúlptúristans. Munirnir sem hann smíðaði voru eins og smækkaðir skúlptúrar. Ófeigur var alla tíð sjálfstæður og engum háður. Hann þorði að fara eigin leiðir og smíða það sem djúp sálar hans kallaði á. Skartgripir Ófeigs voru því gjarnan sérstakir, einstakir og með sterkum höfundareinkennum. Það fór ekki milli mála hver hafði gert og því urðu munir hans víða samtalsefni því Ófeigur var frumlegur. Í kjallaranum á húsi þeirra Hildar er enn lager af því sem Ófeigur safnaði sér til að smíða úr.

Listamiðstöð og kraftuppspretta

Já, þau fluttu á Skólavörðustíginn. Bæði áttu fjölskylduupphaf í hverfinu. Ófeigur hafði ekki aðeins lært á þessum slóðum heldur líka verið meðlimur í Gallerí Grjót sem hafði aðsetur neðarlega við Skólavörðustíg á níunda áratugnum. Hildur hafði líka tengsl á torfuna. Og þó þeim liði vel í upphæðum Breiðholts voru þau þó með augun á miðbænum. Svo fann Hildur húsið sem þau síðan keyptu. Það hentaði þeim sem vinnustofa og heimili. Þau fluttu í húsið nr. 5 árið 1991 og eru því búin að búa þar í þrjá áratugi, skapa veröld undra og menningar. Þau settu upp verkstæði og sölubúð og bættu við sýningarsal fyrir ofan verslunarrýmið. Gullsmiðju-og listmuna-hús Ófeigs var stofnað árið 1992. Í sýningarsalnum hefur verið himnaríki listanna. Þar hafa verið haldnar um 360 listsýningar. Það er stórkostlegt. Í bakgarðinum og einnig fyrir búðardyrum fyrir framan verslun Ófeigs og Hildar hafa verði haldnir fjölmargir tónleikar og listviðburðir. Þau Ófeigur og fjölskylda hafa verið frumkvöðlar, hugsjónafólk sem hafa unnið kraftaverk í menningarmálum, beitt sér fyrir götuhátíðum, verið gæðahvatar hverfisins. Þau hafa fagnað nýjum listamönnum og verslunarfólki, borið blóm hamingjunnar til fólks sem var að byrja rekstur, lofsungið þau sem hafa skarað fram úr og gert Skólavörðustíginn og miðbæinn betri. Alltaf hvetjandi, alltaf eflandi. Þau Ófeigur sáu aldrei ógn í öðrum listamönnum, handverksmönnum eða verslunareigendum. Þau litu ekki á aðra sem hættu heldur félaga í að gera gott betra, efla mannlíf og gera góðan stíg að bestu götu borgarinnar. Ófeigur stóð gjarnan utan búðar, átti góð orð fyrir alla sem fóru hjá og hvatninu til nágranna, hugmyndir til eflingar eða nýsköpunar. Ófeigur var ekki aðeins góður gullsmiður heldur smíðaði gull í samskiptum og menningu hverfisins. Hann var ekki aðeins handverksmaður heldur menningarlistamaður, gull af manni sjálfur og þau Hildur guðfeðgin hverfisins. Líf þeirra og störf urðu kraftuppspretta mannlífs og menningar. Það er því við hæfi og eðlilegt að þau hafi fengið ýmsar viðurkenningar fyrir framlag til þróunar miðborgarinnar. Og takk fyrir allar götuhátíðirnar, kjötsúpudaginn, blómadaginn, beikonfestivalið, matarhátíðirnar og blúsfestivalið.

Mannvirðing

Ófeigur var meistari mýktarinnar í samskiptum við fólk. Hann kunni ekki að greina fólk í flokka og fór ekki í manngreinarálit. Hann rabbaði við Madeleine Albright með sama hætti og við Helga úrsmið, Egil Ólafs, Jóa í Ostabúðinni eða afgreiðslufólkið í Tösku- og hanskabúðinni. Það var því ekki aðeins merkilegt að skoða handarverk hans heldur ánægjuleg og skemmtileg reynsla að ræða við hann um þau eða lífið. Ófeigur hafði í sér þessa jákvæðu lífssýn að fólk væri dýrmætt og allir væru mikilvægir. Hann var óbeislaður af tímapressu og var eins og spekingur sem fólk laðaðist að. Og svo fór fólk með gleði og fallega muni heim, ekki bara Clinton, Madeleine Albright og Ringo Starr heldur svo mörg okkar sem hér kveðjum í dag og mannfjöldinn sem hefur farið um Skólavörðustíginn.

Mýkt samskipta

Og hvað var Ófeigur þér? Hvað sagði hann eða gerði sem hefur lifað í þér? Manstu hve næmur hann var á fegurð og hræringar náttúrunnar? Og dró með sér heim tilfinningar sem hann tjáði síðan í verkum sínum. Manstu hve slakur hann var gagnvart framrás tímans? Klukkuverk hans var af öðrum heimi. Það var eins og tíminn væri óháður, hann talaði og var. Fólk leitaði því gjarnan til hans, í hafkyrru jákvæðni Ófeigs. Hann reifaði málin, reifst ekki, skapaði ekki óreiðu eða óvild en gat sagt skoðun sína skýrt og án nokkurrar áreitni. Af því hann dæmdi ekki gátu vinir hans og samferðamenn leitað í visku hans.

Ritúal og gjörningar Ófeigs

Ófeigur var ekki allra og bar sjaldan mál sín á torg. Íþyngdi ekki fólkinu sem hann umgekkst og reyndi að leysa úr málum með lausnamiðaðri nálgun. Hann hafði bæði þörf fyrir og lag á að búa til ritúal úr verkefnum sínum eða máltíðum. Þegar hann bjó sig til ferðar var það sem undirbúningur eða skrýðing til trúarlegrar guðsþjónustu. Allt var tilefni til gjörnings og viðburðar. Hann var nægjusamur og gerði jafnan ekki miklar kröfur fyrir sjálfan sig. Hann leyfði öðrum að njóta sín, efldi fólk til lífs og gleði. Svo lyfti hann upp listamönnunum vinum sínum, dáðist að þeim, talaði vel um þá. Ófeigur var manneflandi í samskiptum. Allir urðu meiri í samskiptum við hann því hann var svo stór sjálfur.

Mein

Fyrir áratug fékk Ófeigur mein í háls. Eftir uppskurð vegna flögukrabbameins kom í ljós að taugar höfðu skaddast. Styrkur minnkaði í hægri handlegg hans. Ófeigur varð því gjarnan að hafa höndina í fatla. Þegar handverksmaðurinn hafði ekki lengur handstyrk og stjórn varð minna úr smíðum en hann vildi. Af Ófeigi dró síðustu ár. Hann hætti þó ekki að styðja aðra en varð að viðurkenna eigin mörk. Það varð honum og þeim Hildi happ að Bolli kom til verka á vinnustofu foreldranna. Svo sátu þeir feðgar á verkstæðinu, töluðu, fóru yfir málin, báðir skemmtilegir sagnamenn. Lífið hélt áfram þó flugmaðurinn lenti og handverksmaðurinn stilltist. Kannski vissi Ófeigur að hverju drægi – alla vega vildi hann að þau Hildur færu til Tenerife í haust. Þau fóru jafnan eftir áramót og hittu vini sína úr alþjóðadreifingunni og áttu með þeim góðan tíma. En í þetta skiptið voru þau bara tvö – fóru hinstu ferðina. Ófeigur fór í stóra aðgerð eftir heimkomu – og er eftir hana fór hann inn í listhús eilífðar.

Listsmiðja himinsins

Og þá eru mikil skil. Hann eldar ekki framar sérkennilegt sjávarpasta fyrir drengina sína. Hann fer ekki framar út að borða með Hildi á laugardegi eftir lokun eða til að hitta félagana í Loka. Fallega svuntan hans Ófeigs hangir nú eins og sorgarklæði við kaffimaskínuna á verkstæðinu. Engin hamarshögg framar, engir skúlptúrar – engar búddískar viskuræður við pílagríma heimsins. Engin aðventuasi eða Þorláksmessuþreyta. Hattarnir og kjólarnir hennar Hildar eru til og Bolli heldur áfram að smíða – en Ófeigsgripirnir fæðast ekki framar á Skólavörðustíg. Andinn er farinn – nú er það miðborgin meiri þar sem ekki þarf að lúta neinu valdi nema gæðum – lífsbrallinu – sem er í húsi föður míns – listsmiðju himinsins.

Guð geymi Ófeig og styrki ykkur öll á lífsreisunni. Amen.

Kistulagning 13,30, bænhúsið í Fossvogi, fimmtudaginn 2. des. Hallgrímskirkja: Bálför föstudaginnn, 3. des. Jarðsett í Sólvangi. Engin erfidrykkja var eftir útför vegna sóttvarnasjónarmið ástæðurnar. Vini Ófeigs þótti miður að fjölskylda og félagar gætu ekki hist. Hann hringdi í Hildi og baust til að sjá um veitingar á kirkjutorginu. Hún sagði já takk – Ófeigur var jú lausnamiðaður. Vinurinn var Tómas A. Tómasson, hamborgarakóngur og alþingismaður. Þegar kista Ófeigs hafði verið borin úr kirkju útdeildu vaskir grillarar hamborgurum. Takk Tommi. Steikarlyktin kitlaði nef allra. Einn vina Ófeigs sagði: „Frábær hamborgari. Þetta er algerlega ný tegund af veitingum eftir jarðarför. Og frábær valkostur.“ Kannski að brauðterturnar séu á útleið og hamborgararnir komi í staðinn?

Hlekkur á beint streymi frá útför Ófeigs Björnssonar í Hallgrímskirkju er að baki þessari smellu. 

 

Ert þú jólasveinn?

Er aðventan ónýt? Það sem áður var tími ögunar og eftirvæntingar er orðinn nautnatími. Fólk er ekki eins upptekið undirbúningi jóla heldur að gera vel við sig. Er það ekki í lagi? Það er enginn kristileg eða kirkjuleg nauðsyn að aðventan sé tími föstu og dempaðrar gleði? Tímar breytast og áherslur líka. Aðventan þarf ekki að vera fjólublá og langdregin þjáningartíð. Aðventutíminn má vera tími gleði, til að kveða dýrt, hugsa nýjar hugsanir og teygja sig inn í framtíðina. En þegar menning breytist – og mennirnir þar með – er skynsamlegt og jafnvel lífsnauðsynlegt að henda ekki – tapa ekki mikilvægum sögum, stofnum í menningunni, siðviti eð viskuhefðum.

Í textum dagsins er lögð áhersla á réttlæti. Von um frið er tjáð. Þegar trúmenn tala um vanda er hjálp Guðs einnig færð í tal. Endir heims er endir ófriðar og réttlæti Guðsríkis er í nánd. Um aldir hefur það merkt að við gætum okkar á því sem spillir. Erindið er persónlegt og menningarlegt – að við hjálpum Guði – alla vega leyfum Guði að búa til góðan heim, frið og réttlæti. Og aðventutími Íslendinga hefur um aldir verið tiltektartími í hinu ytra og innra til að taka sem best á móti undri jólanna. Til að þjóna hlutverki tiltektar aðventunnar urðu til sögur, atferli, áherslur og svo hefðir. Í dag skoðum við merkilegan þátt í hefð okkar Íslendinga til að tala um aðventu og dýpri rök hennar og tákn.

Ertu jólasveinn?

Margir hópar koma í kirkjurnar á aðventutímanum. Fyrir nokkrum árum tók ég á móti leikskólabörnum og fór þá í messuskrúða til að fræða börnin um kirkjuliti og hlutverk klæðanna sem prestur skrýðist í helgihaldinu. Lítil stúlka kom til mín þar sem ég stóð í skrúðanum. Hún horfði upp og niður og mældi mig allan út og spurði svo full trúnaðartrausts: „Ert þú jólasveinn?” Hún gerði sér grein fyrir, að jólasveinar gætu verið mismunandi og kannski væri þessi skrýddi karl einn af jólasveinunum. Hún var ekki alveg viss hverju húmn ætti að trúa. Já, aðventutími er líka tími jólasveinanna – og okkar.

Mismunandi jólasveinar

Hefur þú einhvern tíma hugsað um hvaða hlutverki jólasveinar gegna og hvað þeir merkja? Við þekkjum mismunandi tegundir, íslenska og erlenda – þessa mólituðu innlendu og rauðu erlendu. Svo eru til skandinavískir nissar og ýmsar aðrar útgáfur. Þeir eiga sér sína sögur og upphaf. Heilagur Nikulás (sánkti Kláus), upphaflegi jólasveinninn, bjó í Tyrklandi. Svo eru til keltneskir jólasveinar og svo eru rætur sumra hefðanna í vættaátrúnað og fleiri menningardjúpum. En hvaða hlutverki þjóna íslensku jólasveinar? Hver er merking þeirra? Og ekki síst – hver er merkingin sem við hefðum gott af að íhuga og hugsa? Geta jólasveinar orðið okkur til íhugunar og visku á aðventutíð og í aðdraganda jóla? Já og íslensku jólasveinarnir eru áhugaverðari en flestir hinna rauðuklæddu og erlendu – ekki síst vegna þess, að þeir eru eins og kennsludæmi. Þeir eru þegar dýpst er skoðað tákn og dæmi fyrir uppeldi og mótun. Hlutverk þeirra er kannski fyrst og fremst að kenna okkur eitthvað um lífið, ógnir og tækifæri. Þeir eru víti til varnaðar í lífsleiknináminu.

Gefa eða stela?

Hið fyrsta sem við megum taka efir er að hinn hvítskeggjaði og rauðklæddi Coca-Cola-Kláus er gjafmildur, gefur gjafir. En gáfu íslenskir jólasveinar í gamla daga eitthvað? Nei, þeir gáfu ekki heldur stálu. Þeir færðu aldrei gæsku og velferð í bæinn. Það er kannski skuggsækni sem gerir þá svo merkilegt og spennandi íhugunarefni til að hjálpa okkur að hugsa á aðventu.

Afætur og óheillakarlar

Jóhannes úr Kötlum gerði ráð fyrir, að jólasveinarnir hafi verið þrettán, en ekki “einn og átta.” Talan þrettán var ekki tilviljun, heldur óhappatala um langan aldur. Sveinarnir komu einn og einn til byggða, sem var ógæfulegt og tákn hins afbrigðilega. Jesús sendi t.d. lærisveina sína tvo og tvo saman í ferðir. Það er hið eðlilega. En jólasveinarnir eru ekki í erindagerðum fagnaðarerindisins. Þeir komu í mannheim til að spilla, skemma og valda óskunda. Þeir voru afætur og óheillakarlar sem þjónuðu sundrungu – syndinni.

Hverjir voru fyrstir? Það voru Stekkjarstaur og Giljagaur. Og hvað gerðu þeir? Þeir réðust að skepnunum, en þær voru lífsgrundvöllur fólks, undirstaða atvinnulífsins. Stekkjarstaur hrelldi kindur og hinn síðari fór í fjósið og gerði skepnum og vinnufólki illt. Þegar sveinarnir höfðu ráðist að útvörðum heimilisins, skepnunum, fóru þeir að sækja að heimilinu sjálfu. Stúfur, Þvörusleikir og bræður þeirra stálu öllu matarkyns í húsum. Börn og fullorðnir urðu fyrir aðkasti. Jafnvel heimilisdýrin urðu fyrir vonskunni, því Askasleikir stal innansleikjum sem dýrum voru ætlaðar. Mannfólkið varð fyrir beinum árásum: Hurðarskellir hindraði svefn vinnulúinna manna.

Síðasti jólasveinninn, Kertasníkir, gerði hinstu atlögu að jólakomunni. Þegar ljóshátíðin mikla var að ganga í garð, reyndi þessi fulltrúi myrkursins að stela kertum úr bænum. Kertastuldurinn varðar hvorki meira né minna en tilraun til að hindra komu jólanna. Kertin og jólaljósin voru og eru tákn um, að heimurinn er ekki lengur myrkraveröld, táradalur, heldur staður vona, vegna þess að Guð kemur í heiminn og heldur vörð um lífið. Á jólanótt voru jólasveinarnir aðgerðalausir, útslegnir í ljósaflóði guðskomunnar, en síðan fóru þeir að drattast á brott.

Lífsbarátta og ábyrgð

Hinn gamli heimur ljóslítilla torfbæja er vissulega að baki. Sú veröld, sem speglast í þjóðsögum okkar, ljóðum og trúarlífi var veröld óvissu. Aðsteðjandi öfl sóttu í mat og mátt. Líf fólks var ótryggt og þarfnaðist sífelldrar baráttu og aðgæslu til að öryggi yrði tryggt. Með það í huga megum við skoða og skilja sögu jólasveinanna. Þeir sóttu að undirstöðum – í skepnuhjörðina, í mat og lífsbjörg fólks. Jólasveinarnir eru því eiginlegar ímyndir lífsbaráttu og glímu við að láta ekki myrkrið ná völdum. Sagan um þá er áminning um, að huga þurfi vel að dýrum, passa þurfi mat og alla umgjörð mannlífs. Allir skyldu leggjast á eitt til að tryggja að myrkrið næði ekki að ráða og kyrkja. Ljósið skyldi fá að koma í heiminn. Eru þetta ekki allt sístæð viðfangsefni, vernda dýr gegn dýraníðingum, tryggja mat, velferð fólks og gæta að ofbeldisseggjum og siðblekktu eða siðskertu fólki? Hvað er raunverulega til að bæta samfélag og efla hamingju einstaklinganna?

Trúði fólk tilveru jólasveinanna? Tók fólk þessar sögur bókstaflega? Voru afar okkar og ömmur – gengnar kynslóðir – voru þau kjánar? Nei, engu meiri kjánar en við. Þau vissu vel, að sögurnar um skrítnu sveinana voru ekki sögur um raunverulegar verur, heldur sögur um dýpri gildi. Þau notuðu sögurnar til uppeldis og þetta fólk var vant að vinna úr táknmáli. Þau vissu og skildu að þetta voru kennslusögur, áminningar um aðgæslu í lífinu, bæði í hinu innra sem hinu ytra. Það tók ekki sögurnar um jólasveina bókstaflega heldur fremur alvarlega. Eins og við ættum að temja okkur gagnvart öllum klassísku stórsögum heimsins – ekki bókstaflega heldur skoða á dýptina.

Er jólasveinn í þér?

Aðventan er ekki ónýt þó breytt sé. Verkefni allra að mannast er sístætt þó rammi sé nýr og aðstæður séu aðrar en áður. Hvernig reynist fólk sem á að gæta samfélagsins og á að gæta þinna hagsmuna? Hvernig stjórna þau, sem eiga fyrir fólki og fjármunum að sjá? Eru engir jólasveinar á ferð? Er einhver, sem reynir að plata þig á þessum sölutíma í aðdraganda jóla? Hverjir eru jólasveinarnir? En spurðu þig líka þeirrar spurningar, hvort jólasveinn sé jafnvel innan í þér? Ert þú jólasveinn?

Við, Íslendingar, eigum merkilega spekisögu fyrir undirbúninginn – fyrir andlega vinnu aðventunnar. Okkur sést jafnvel yfir raunsæi þessara sagna í hraða og erli aðventudaganna. Sannleikur um lífið verður ekki pakkaður inn. Reyndu að sjá hver er Giljagaur, Þvörusleikir og Kertasníkir samtíðar. Hverjir reyna að eyðileggja afkomu fjölskyldu þinnar, ná fjármunum, hamingju, heilsu og svifta þig og þína gleði?

Aðventa – tími væntingar. Aðventan er til undirbúnings jólanna. Við megum gjarnan fara að baki ati og ásýnd og tala um hið djúpa og mikilvæga. Við getum notað tímann til að greina vonda jólasveina hið ytra sem innra. Jólahaldi tengist fleira en gjafir. Jólasveinarnir eru tákn um að hætt er við þjófnaði – að margir reyna að stela tíma þínum, rósemd, gleði, friði, lífshamingju þinni. Þá gildir að velja vel og rétt.

Hvað gerir þú á jólum? Hverjum tekur þú á móti? Jólasveinunum, sem taka frá þér ljósið eða sveini jólanna sem gefur þér lífsljós? Sem trúmaður hefur þú frelsi til að velja. Í því er ríkidæmi þessa lífs og ábyrgðarmál okkar manna fólgið. Guð gefi þér og þínum gæfu til visku á aðventu og síðan gleðileg jól – að Jesúbarnið komi til þín, gefi þér ljós og verði þér leiðarljós í lífi og dauða.

Hugleiðing 5. desember 2021. Annar sunnudagur í aðventu.

Meðylgjandi mynd tók ég af flugveifu á Reykjavíkurflugvelli í blíðviðrinu 4. des. 2021. Jólasveinsmyndina tók Árni Svanur Daníelsson og myndina fékk ég af myndasíðu þjóðkirkjunnar á Flickr.

Heimir Steinsson

„Hér munu íslensk lög ráða,“ sagði Heimir með áherslu. Fyrir mörgum árum voru nokkrir landar í Danmörk að erinda fyrir Skálholtsskóla. Heimir og Dóra höfðu útvegað bíl til að skoða borgina Århus. Eftir tilhlýðilega heimsókn á háskólabókasafnið settist Heimir undir stýri og ók út af bílastæðinu. Áttu ekki að beygja í hina áttina? spurðum við í kór. Hin íslenska lögverndaða leið varð afar stutt. Á móti okkur brunaði her af ógnvænlegum flutningabílum og nálgaðist óðum. Góð ráð voru engin önnur en að geysast upp á umferðareyju. Þar hló ökumaðurinn hjartanlega og við með honum. Þannig var Heimir. Hann fór sína leið, oft gegn straumi, en vissi hvenær bar að víkja. Hann sá alltaf hið skoplega, jafnvel í hinum krepptustu aðstæðum. Stundirnar með honum voru alltaf skemmtilegar, eftirminnilegar og jafnvel kostulegar.

Við leiðarlok þyrlast minningar upp. Fyrsta samræðustund okkar sækir í huga. Heimir sat rektorssætinu “sínu” í matsal Skálholtsskóla. Pípan var í munnviki og glampi í augum. Viðmælendur sátu við borðið. Allt var eins og hann kaus sér helst. Einhver í hópnum hélt fram að gerlegt væri að vera fordómalaus og algerlega opinn. Glampinn varð að glettni og hann sagði einnig með áherslu: “Praejudicium” og bætti við spurningunni: „Er fordómleysi mögulegt?“ Honum var svarað að það væri versti fordómurinn að halda að maður væri fordómlaus. Hláturinn byrjaði í maganum, gusaðist síðan upp og höndin sló á lærið. Honum þótti snörp umræða skemmtileg. Það var gaman að rökræða og jafnvel skylmast við hann um guðfræði, pólítík, kirkju eða eitthvert mannlífsefni. Hugmyndir flugu og latína hans gerði okkur fákunnandi óörugg. Heimir var ósínkur á þekkingarmola og yddaðar setningar. Hljómfall raddar hans var ákveðið og með svo sérstæðu móti að vinir hans hermdu eftir ef vitnað var beint í hann eða haft eftir honum. Orðalagið var janfnan fyrnskuskotið og stundum barrokað. Hann var mikill íslenskumaður og lék sér á engi tungunnar.

Heimir setti svip á skólasögu áttunda áratugarins og ekki aðeins með stofnun og stjórn Skálholtsskóla. Hann skrifaði blaðagreinar og flutti eftirminnilega fyrirlestra í útvarpi um lýðháskóla og arf Grundtvigs. Heimir fór eigin leið í kynningum á helgistað þjóðarinnar þegar hann tók við störfum á Þingvöllum. Um margt var hann Skálhyltingur og Þingvellingur þegar hann varð útvarpsstjóri. Hann sá í RÚV klukku Íslands. En sú klukka varð orðið flókið tæknispilverk með óljósan hljóm og hentaði honum ekki. Í kirkjulífi var Heimir fyrirferðarmikill. Greinar hans um spíritisma 1975 vöktu athygli margra. Upphafið var grein í Kirkjuritinu “Tilvera til dauða – trúin hrein.” Þessi stutta en ágenga grein var blanda tilvistarspeki og andófs gegn spíritisma. Þetta var á þeim tíma nýr kokteill og olli uppnámi. Höfundurinn uppskar drífu af greinum bæði í Kirkjuriti og Morgunblaðinu. Þá kom í ljós hversu snöggur Heimir var að semja og hversu snjall stílisti hann var. Morgunblaðið birti hverja breiðsíðuna á fætur annarri, nánast daglega. Þær skemmtu þeim sem unnu trúfræðilegum burtreiðum. Margir töldu að Heimir væri kjörinn til biskups.

Heimir var flókin maður og margræður. Flestir kynntust honum í einhverju hlutverki og þekktu ekki manninn að baki grímu. Heimir gengdi mörgum störfum: Hann var rektor, þjóðgarðsvörður, rithöfundur, útvarpsstjóri  og prestur. Hann tók þessi hlutverk sín alvarlega og gekkst upp í þeim, hafði stundum á orði: „The show must go on.“ Hann var í þjónustu málefnis eða stofnunar og þá gerði hann eins vel og hann gat.  Störf Heimis voru gjarnan í margmenni, en líklega leið honum best í fámenni og samræðu. Hann var maður hinna mörgu orða og lýsinga, en leitaði kyrru og dýptar. Hann lenti í miðri röst nútíma og miðlunar en leitaði sögu. Hann sviftist til í flengingi óstýriláts tíma en leitaði hins stöðuga. Í störfum varð hann að opna sálargáttir móti poppmenningu og tæknivæðingu en mat mest forn fræði. Hann vildi fá að stjórna en leitaði sjálfur skýrrar leiðsagnar. Hann var mikill Danavinur en ræddi helst ekki um danska sögu á Þingvöllum. Hann var fræðimaður og skáld að áhuga en lengstum embættismaður að starfi. Hann var námshestur og unni háskólalífi en dró umsókn um kennarastöðu í akademíunni til baka. Hann var mikill tilfinningamaður og tók nærri sér lifun sína og bar ekki á torg. Hann mat mikils náttúru og menn en þó mest Guð. Heimir var bæði-og-maður með tilbrigðum. Hann gerði sér vel grein fyrir sálarþráðum sínum og óf með árunum æ betur úr þeim, sér og öðrum til gagns og gleði. Þegar Heimir féll frá sýnist mér sem hann hafi þrætt flest það sem laust hafði legið í lífinu fyrr.

Hann hafði snúið til baka, tekið til við fyrri störf. Hann hafði hafið nýtt líf á svo margvíslegan máta. Og það var hin íslenska leið. Enn kom Heimir á óvart. Við sem eftir sitjum erum enn að jafna okkur eftir óvænt dauðsfall. Við biðjum góðan Guð að geyma hann og líkna Dóru, börnum þeirra og ástvinum. Ég þakka allar gjafir Heimis fyrr og síðar í minn garð og minna. Dýpst er þakklætið fyrir grímulausar samræður. Við skiljum ekki þessa sóun, að hann skuli deyja svo ungur og með svo margt óunnið. En Heimir hafði lifað mikið, stundum hratt en oftast vel. Hann þekkti þessa leið sem hann fór nú. Það var hvorki íslensk eða dönsk leið eða einhver malbikuð gata. Það var leiðin heim.

Heimir lést 15. maí 2000. Þessi minningarorð birtust í Morgunblaðinu 24. maí. Myndir. Einkennismynd er af okkur Heimi syngja fimmundarsöng á fundi norrænna lýðháskólasambandsins. Mér sýnist á látbragðinu að það hafi verið Ó, mín flaskan fríða! Hin myndin er af Heimi í kennslustund í Skálholtsskóla og myndin er af vef Skjalasafns Árnessýslu. 

Guðrún Guðlaugsdóttur – minningarorð

Í Guðrúnu Guðlaugsdóttur bjó list, fegurð, næmleiki og elska. Hvernig móta upphafsárin líf fólks? Hvaða áhrif hefur það á stúlkubarn að vera uppalið í hópi kvenna? Þegar hún var barnung veiktist móðir Guðrúnar veik, dvaldi árum saman sjúkrahúsi og dó þegar hún enn var barn. Það var ekki sjálfgefið hver yrði hennar skjólgarður í þeim aðstæðum. En móðursystur og amma tóku Guðrúnu til sín og að sér, ólu hana upp og komu henni til þroska.

Hvernig verðum við til sem manneskjur? Guðrún var lánssöm, hún átti góða að, naut ástúðar í uppeldi og margra kvenna sem báru hana á örmum, hvöttu og styrktu. Saga Guðrúnar Guðlaugsdóttir er heillandi og bernskusaga hennar vekur margar spurningar um tilfinningar og þroska einstaklings í litríku mannlífi á Íslandi milli heimsstyrjalda þegar Guðrún varð til og mótaðist.

Guðrún Guðlaugsdóttir var Árnesingur að uppruna. Hún fæddist á bænum Gegnishólaparti í Gaulverjabæjarhreppi 15. ágúst árið 1924. Foreldrar hennar voru Guðbjörg Friðfinnsdóttir og Guðlaugur Pálsson. Guðbjörg kynntist barnsföður sínum þegar hún vann í Húsinu á Eyrarbakka og hún fór oft í búðina til Guðlaugs. Þau Guðbjörg bjuggu ekki saman en milli fjölskyldna þeirra var samgangur og vinsemd. Guðrún flutti frá Eyrarbakka til Reykjavíkur tveggja ára gömul. Móðir hennar fékk berkla og var því tíðum fjarri heimili og dvaldilangdvölum á Vífilstaðaspítala. Þar lést hún árið 1930 þegar Guðrún var aðeins sex ára gömul. Hún ólst því upp hjá móðurömmu sinni, Guðrúnu Jóhannesdóttur, og móðursystrum hennar, Guðrúnu og Pálínu Friðfinnsdætrum. Sú þrenning var Guðrúnu Guðlaugsdóttur kærleiksríkur skjólgarður.

Guðlaugur eignaðist síðar aðra konu, Ingibjörgu. Hún reyndist Guðrúnu, sem var elsta barn Guðlaugs, hið besta. Börn Ingibjargar og samfeðra hálfssystkin Guðrúnar voru: Ingveldur, Jónas, Haukur, Páll, Steinunn og Guðleif. Ingibjörgu var umhugað um að rækta tengslin milli Guðrúnar og yngri hálfssystkina hennar og sagði gjarnan við börn sín. „Þið eigið systur í Reykjavík og þið eigð að heimsækja hana.“ Ingibjörg var enn ein konan sem gerði Guðrúnu gott. Þökk sé henni og þökk sé hálfsystkinunum sem umvöfðu systur sína og voru henni styrkur og gleðigjafar. Þau hafa alla tíð vitjað eða heimsótt systur sína.

Guðrún þótti afar skýrt barn. Hún söng mikið og þótti efnisstúlka um allt. Skólarnir sem hún gekk í voru til fyrirmyndar og mikilvægir í skólasögu Íslands. Húsakynni þeirra voru og eru einnig tákn í Íslandsmenningunni. Guðrún hóf skólagönguna í Miðbæjarskólanum við Tjörnina. Hún var dugmikil í námi. Vegna færni og iðni var hún í góðum bekk. Margir af  bekkjarfélögunum urðu síðar landsþekktir. Síðar sótti Guðrún hinn merka Ingimarsskóla við Lindargötu og þaðan tók hún gagnfræðapróf. Svo fór hún í Húsmæðraskóla Reykjavíkur á Sólvallagötu 12. Þar var Guðrún einn vetur. Hún var Reykjavíkurdama og var svo lánsöm að njóta góðrar menntunar og gæða vaxandi bæjar. Góður námsferill og öflug ung kona á leiðinni út í líf og störf.

Guðrún fór snemma að vinna fyrir sér. Hún var vandvirk, nákvæm og skipulögð og fékk starf í bókbandi hjá menningarvitanum Ragnari í Smára og handlék bækur meistaranna og bjó í hendur lesenda þjóðarinnar. Úr bókbandinu fór hún í bókhald og skrifstofustörf hjá Smjörlíki hf. Þar vann hún til 67 ára aldurs eða í samtals 34 ár. Guðrún naut trausts á vinnstöðum sínum, var metin að verðleikum og falin vandasöm störf.

Guðrún var tvígift. Fyrri maður hennar var Guðjón Gunnarsson, vélvirki. Þau gengu í hjónaband árið 1947 en nutu aðeins samvista í þrjú ár saman. Guðjón lést úr heilahimnubólgu árið 1950. Eftir fráfall Guðjóns naut Guðrún góðra tengsla við fólkið hans og allt til enda.

Seinni maður Guðrúnar var Magnús Vilhjálmsson húsa- og skipa-smiður. Foreldrar hans voru Bergsteinunn Bergsteinsdóttir og Vilhjálmur Guðmundsson. Það var milli jóla og nýárs árið 1951, sem þau Magnús og Guðrún Guðlaugsdóttir sáu hvort annað í Breiðfirðingabúð – og hrifust. En það skal vanda sem lengi skal standa. Þau flýttu sér ekki heldur kynntust vel áður en þau hófu hjúskap og giftu sig árið 1956. Þau bjuggu fjölskyldu sinni gott heimili og smiðurinn Magnús smíðaði það sem þurfti, hvort sem voru innréttingar, skápar eða húsmunir. Þau Guðrún voru samstillt, fyrirhyggjusöm og dugmikil.

Guðrún og Magnús bjuggu lengstum í vesturhluta Reykjavíkur, byrjuðu búskap á Nýlendugötu og fóru síðan inn á Háaleitisbraut og bjuggu þar í ellefu ár. Síðan fluttu þau á Túngötu og Vesturvallagötu og fóru þaðan vestur í stórhýsið á Grandavegi 47. Guðrún og Magnús voru samhent, unnu saman við nýbyggingar sínar, ferðuðust víða og ekki síst þótti þeim gott að fara til Kanarí eftir áramót.

Guðrún og Magnús eignuðust dótturina Guðbjörgu í september árið 1957. Hún er kennari að mennt og starfar við Landakotsskóla. Foreldrarnir bjuggu dóttur sinni góða og áhyggjulausa æsku. Pabbinn smíðaði fyrir hana húsgögn, dúkkuhús og leikföng sem hún þurfti og langaði í – meira segja straujárn úr tré – sem daman var sátt við og þjónaði ágætlega sínu hlutverki. Maður Guðbjargar er Árni Larsson, rithöfundur.

Hvernig manstu Guðrúnu? Já, hún var bókakona og las mikið. Ekki aðeins íslenskar bækur heldur líka erlendar skáldsögur, þýskar og danskar, breskar og bandarískar. Og hún las líka bækur höfunda frá Kóreu, Pakistan og Nígeru svo hún varð vel heima í bókmenntum heimsins. Hún las af einbeittni og ákefð en tengdasonur hennar sagði með blik í auga að henni hefði ekki líkað við frönskuskotna enskuna í bók frá Haiti. Hún hefði skilað henni.

Það er sístætt umræðuefni hvort kvikmyndir sem gerðar eru eftir skáldsögum séu betri eða verri en originallinn – frumsagan. Sumar af sögunum sem Guðrún las sá hún síðar í kvikmyndaformi. Guðrún las skáldsögur af „skammlistum“ stóru útgáfufyrirtækjanna.

Guðrún hafði áhuga á kvikmyndum – einkum þeim „listrænu“ – og var ekki verra ef þær voru um kóngafólk. Elísabet 2. Englandsdrotting var sem næst jafnaldra Guðrúnar og henni þótti gaman að horfa á  Netflix-seríuna Crown og þótti gott að dóttir hennar hafði gaman af líka. Á fyrri árum sá Guðrún gjarnan mánudagsmyndirnar í Háskólabíó.

Guðrún var alla tíð námfús og fylgdist vel með hræringum menningar og samfélags. Hún hélt áfram að bæta við sig og menntast. Um fimmtugt var hún t.d. að læra þýsku.

Guðrún var músíkölsk eins og margt hennar fólk og hafði einkum áhuga á klassískri tónlist. Bróðir Guðrúnar, Haukur, er einn af helstu tónlistarfrömuðum Íslendinga síðustu hálfa öld. Hún fylgdist með afrekum hans og hvernig hann byggði upp kóra- og orgelmenningu þjóðarinnar. Hún hlustaði gjarnan á diskana hans. Og það er nemandi Hauks sem spilar við þessa athöfn. Í lokin munum við svo hlusta á upptöku Hauks af orgeldidiski hans.

Guðrún var næm og hafði góða frásagnargetu. Hún lýsti vel í síma útsýni, blæbrigðum ljóss yfir Faxaflóa, veðurmálum, snjókomu, fólkinu sem gekk með sjónum við Grandaveginn, leik birtunnar á Snæfellsjökli.

Manstu skopskyn Guðrúnar? Hún hafði það sem tengdasonur hennar kallaði japanska kímnigáfu, gat vel gert grín að sjálfri sér og hló hjartanlega að kátlegum málum.

Svo var hún smekkleg. Guðrún þorði að velja sér áberandi föt. Hún bar stundum stóra skartgripi eða var í fötum með tígrismynstri og fór í glæsilegan pels. Henni var annt um fegurð heimilins. Magnús smíðaði innréttingarnar og það sem kaupa þurfti valdi hún – og þau hjón – af smekkvísi. Þau vildu gjarnan styðja íslenska hönnun og áttu m.a. sófa sem Gunnar Magnússon hafði teiknað.

Nú er Guðrún farin inn í eilífðina. Hún fer ekki lengur í kaffivagninn eða lýsir undrum heims og menningar. Hún lifir nú í minni ykkar og í ljósríki eilífðar, með mömmu og pabba, Guðrúnum himinsins, ættboganum, stórfjölskyldunni. Guð geymi hana og Guð geymi þig. Amen.

Minningarorð SÁÞ. Kistulagning og útför: Kapellan í Fossvogi 15. nóvember, 2021. Kistulagning kl. 13,30. Haukur Guðlaugsson leikur á orgel í kistulagningu. Útför kl. 15. BSS og kvartet félaga úr Schola Cantorum. Erfi: Hótel Natura.

Smári Guðlaugsson – minningarorð

„Að hlæja hefir sinn tíma, að harma hefir sinn tíma og að dansa hefir sinn tíma… “ segir Prédikarinn sem er viskubók í Gamla testamentinu og bætir við: „Að fæðast hefur sinn tíma og að deyja hefur sinn tíma, að gróðursetja hefur sinn tíma og að rífa upp hið gróðursetta hefur sinn tíma.“ Já, við erum samverkamenn skaparans í gerningum lífsins. Trú í Biblíunni er nátengd lífi og því sem eflir. Helgirit Biblíunnar eru mettuð áherslu á fögnuð. Verið glöð er hvatning í bréfi gleðinnar, Fiippíbréfinu. „Ég segi aftur: Verið glöð. Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. … Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.“

Smári Guðlaugsson er kvaddur í dag. Hann var fjölhæfur hæfileikamaður sem var afar margt gefið til orðs og æðis, anda og handa. Hann notaði hæfni sína og gáfur í þágu fólksins síns, fjölskyldu og samfélags. Lof sé honum og þökk.

Upphaf og uppvöxtur

Smári var svo sannarlega Rangæingur en fæddist samt í Reykjavík. Hann var vormaður, fæddist bjartan júnídag – 8. júní – árið 1925 í þakherbergi í húsinu við Hverfisgötu 80. Foreldrarnir voru hjónin Guðlaugur Bjarnason (1889-1984) og Láretta Sigríður Sigurjónsdóttir (1894-1978).

Bernskuhús fjölskyldu Smára við Hverfisgötuna sneri að Vitatorgi og fjölskyldan bjó á efstu hæðinni. Í húsinu var margmenni og líklega var Karl O. Runólfsson, tónskáld og tónlistarfrömuður, sá kunnasti. En húsið er farið í hít tímans, það brann aldarfjórðungi eftir fæðingu Smára. Á lóðinni er síðan bílastæði og hægt að ganga frá Hverfisgötu inn í Kjörgarð og til Kormáks og Skjaldar.

Tveimur árum eftir að Smári kom í heiminn, árið 1927, flutti fjölskyldan austur í Hvolhrepp og að Giljum. Þar ráku þau, Guðlaugur og Lára og með börnum sínum, bú í liðlega hálfa öld. Samhliða búrekstri þjónaði heimilisfaðirinn fólki sem póstur í héraði. Hann fór í upphafi um á hestum en varð síðar bílstjóri. Guðlaugur var á ferð og flugi, sagði fréttir, flutti tíðindi og Giljaheimilið var sem í þjóðbraut. Þetta var samhengi og menningarstaða Smára.

Giljaheimilið var fjörmikið og fjölmennt. Smári var þriðji í röð átta systkina. Sigmar var elstur og fæddist 1922 (d. 1990). Þá kom Björgvin ári síðar þ.e. árið 1923 (d. 1998) og Bjarni 1926  (d. 2016) svo skammt var á milli. Á eftir Bjarna fæddust tveir drengir sitt hvort árið 1927 og 1928. En báðir dóu þeir samdægurs. Ég staldra alltaf við  fjölskylduyfirlit með láti ungbarna. Dauðsföll barna á fyrri tíð voru jafn mikið sorgarefni og lát ungbarna í dag. Hvernig og hvaða skuggar lögðust yfir heimilið þessa sorgardaga vitum við ekki en lífið hélt áfram. Svo kom Guðrún Fjóla í heiminn á Alþingisárinu 1930 (d. 2020). Síðastur var Guðmundur Kristvin og fæddist 1933. Nú er allur þessi fríði hópur kominn á lendur Gilna himinsins.

Smári var dugmikill, námfús og mikill efnismaður. Hann sótti skóla í heimabyggð og var hæstur. Hann var góður námsmaður, snöggur, skilvirkur og skynugur í námi sem öllu öðru.

Anna og Smári

Af myndum að dæma hefur Smári verið í útliti eins og Hollywood-stjarna. Anna Þorsteinsdóttir í Götu í Ásahreppi sá sjarmörinn, gæfumanninn, og heillaðist. Smári var líka búinn taka eftir Önnu. Þau höfðu jú hist í Reykjavík. Svo tóku sveitungarnir í Ásahreppi eftir að vegirnir í hreppnum voru að batna, voru afar vel heflaðir enda var Smári á vegheflinum. Hann gerði sér ferðir um Ásahreppsvegina til að fara til fundar heimasætunnar í Götu og gleðja hana. Það tókst og sveitungarnir þökkuðu fyrir tækin á vegum ástarinnar. Fyrir okkur sem munum vegheflana gömlu er það dásamlegt og kætandi að hugsa um þennan Clark Gable Vegagerðarinnar fara heflandi á stefnumót við Önnu í Götu. Mér finnst það rómantískt. Alla tíð síðan kunnu þau að hefla niður ágreining og slétta úr misfellum lífsins, leyfa ástinni að dafna og kyssast hrifin hvort af öðru.

Barnalán og fjölskyldan

Ástríkið bar ávexti. Þegar fyrsta barnið þeirra Önnu og Smára var komið í heiminn fóru foreldrarnir að huga að nafngjöf og skírn. Þau höfðu sam band við prestinn, sr. Arngrím Jónsson, sem þá var í Odda. Hann benti á og sannfærði þau um að best væri að þau byrjuðu á að ganga í hjónaband og skírðu svo – og það væri hægt að gera í sömu ferðinni. Smári fékk lánaðan nýlegan Willis jeppa (1946) föður síns fyrir ferðina til Odda.  Þau gengu í hjónaband þann 14. október 1950 og drengurinn var svo eftir að hafa sagt tvöfalt já við spurningum prests. Ómar Bjarki er því skilgetinn í kirkjubókinni – eins og klerkur vildi að hann yrði.

Börn Önnu og Smára eru þrjú. Auk Ómars Bjarka áttu þau Eddu Sjöfn árið 1955 og Guðrúnu Hrönn árið 1961. Fyrir átti Smári Rúnar árið 1947 með Helgu Runólfsdóttur, sem hann trúlofaðist árið 1946. Rúnar lést árið 2012.

Ómar Bjarki er jarðfræðingur og rekur eigið ráðgjafafyrirtæki. Kona hans er Katrina Downs-Rose (1958). Börn þeirra eru Anna Veronika (1986), sambýlismaður Patrik McKiernan (1983), Elvar Karl (1988), maki Natsha Bo Nandabhiwat (1986)  og Bríet Dögg (1992) unnusti Sigurgeir Ólafsson (1993).

Edda Sjöfn er sjúkraliði að mennt. Maður hennar er Erlendur Árni Hjálmarsson. Börn þeirra eru Björk (1974), Atli (1981) og Elfa (1992).

Guðrún Hrönn er menntaður leikskólakennari. Maður hennar var Hörður Þór Harðarson en hann lést árið 2018. Börn þeirra eru Andri, Sigrún Sif og Ívar.

Börn Rúnars eru: Marta Sigurlilja (1969), Einar Geir (1973) og Eygló (1987).

Barnabörnum Smára fjölgar mjög þessi árin og ættboginn stækkar ört. Barnabörnin eru 12 og barnabarnabörnin 8. Börn Bjarkar og Karls Hólm (1968) eru Agnes Lára (1995) og Daníel Freyr  (1998) – og Atla og Evu Rósar (1984) eru Arnar Kári (2008), Sóley Kría (2010) og Vaka Rut (2016). Yngsti fjölskyldumeðlimurinn er svo Eydís Þula (2021) sem fæddist þeim Elfu og Ólafi Hersi (1990) um miðjan október. Marta og Úlfur Ingi Jónsson (1969) eiga Ragnhildi Mörtu Lólítu (2010) og Einar Geir og Marzena Burkot eiga soninn Emil (2018).

Hjúskapurinn og fjölskyldumaðurinn

Hjúskapur Önnu og Smára varð liðlega sjö áratugir. Þau hófu búskap hjá systur og mági Smára á Hvolsvelli. Þegar þau höfðu byggt með miklum dugnaði húsið að Hvolsvegi 12 fluttu þau í það rétt fyrir jól árið 1953 – eða 20. desember. Þau jólin hafa verið gleðileg – á nýjum stað. Smári og Anna voru meðal frumbýlinga á Hvolsvelli. Aldarfjórðungi síðar, árið 1978, fluttu þau í Öldugerði 10. Þar bjuggu þau er þau fluttu fyrir ellefu árum í glænýja Mörkina, Suðurlandsbraut 58 í Reykjavík.

Ævivegur þeirra Önnu og Smára var góður. Anna var drottningin á heimilinu og þau Smári voru samhent. Smári sinnti sínum málum í bílskúrnum og svo fékk hann áhuga á trjárækt í garðinum en Anna sá um blómin og bæði um garðræktina. Það er vermandi að í kransinum á kistunni hans Smára er teinungur sem er kominn frá ösp sem Smári bjó líf á sínum tíma – reyndar afleggjari sem var kominn í Grafarvoginn. Það er fagurt að vefa þá grein í minningakransinn.

Smári var tilfinningamaður og viðkvæmur en bar ekki tilfinningar sínar á torg. Á síðari árum opnaði hann þó ýmsa glugga og börnin hans náðu að skyggnast lengra en áður og skilja föður sinn betur. Það er þakkarvert þegar svo fer. Smári var af gamla skólanum og hrósaði ekki óhóflega en á síðari árum tjáði hann skýrar hrifningu sína á börnum sínum, hve fjölskyldan væri honum dýrmæt og hve stoltur hann væri af þeim öllum. Smári var natinn við ungviðið, skemmti barnabörnunum og afkomendum, bygði með þeim snjóhús og kofa, kenndi þeim garðyrkju og hafði traktor til leikja í bílskúrnum. Smári vildi allt fyrir sitt fólk gera.

Dugmikill völundur

Vinnusaga Smára var litrík. Á unglingsárum vann Smári almenn sveitastörf og m.a. heima á Giljum að byggingu útihúsa. Hann var handlaginn, hafði verksvit og gekk í öll störf. Smári fékk svo starf í alls konar vegavinnu, m.a. við mokstur í vegagerð og snjómokstur með skóflu að vetri og jafnvel eldamennsku þegar ráðskonan forfallaðist! Hann fékk svo vinnu við smíðar hjá Ísleifi Sveinssyni. Svo fór hann útúr og til Reykjavíkur og var þrjú mikilvæg mótunarár að störfum hjá Ræsi við Skúlagötuna í Reykjavík, kynntist H. Ben.-fjölskyldunni og vann á verkstæðinu við réttingar og bílamálun. Smári varð þátttakandi í bíla-og vélavæðingu Íslands. Hann fór svo austur með mikilvæga þekkingu og reynslu. Hann orðaði það síðar að hann hefði séð hvernig verkin voru unnin við bílana og því vafðist aldrei fyrir honum síðar að taka vélar úr bílum, gera við þær og koma þeim fyrir að nýju. Fyrir austan starfaði Smári á bílaverkstæði Kaupfélags Rangæinga og síðar á varahlutalagernum. Þar var hann aðalmaðurinn lengi, alltaf á vaktinni og einu gilti hvort það var að nóttu eða degi, á venjulegum dögum eða frídögum. Smári var bóngóður, fór og fann til varahluti og bjargaði mörgum bændunum sem voru með biluð tól og tæki sem þurfti að laga strax. Svo var hann umhyggjusamur og þolinmóður yfirmaður og var því mikils metin af samverkamönnum og undirmönnum.

Bíla- og ferðamaðurinn

Hvernig manstu Smára? Manstu kátínu hans? Manstu hvað hann sagði og hve hæfur hann var að gleðja fólk með jákvæðni og gleðimálum? Manstu alla bílana hans sem hann ók? Hann fékk auðvitað að keyra bílana sem faðir hans réð yfir og notaði. Svo var hann svo klókur að gera samning við Guðmund Pálsson, eiganda Moskovits 1956, sem hann fékk að nota en gerði við í staðinn. En Smári gerði sér grein fyrir að það væri betra að kaupa bílskrjóð en gera gera við mót láni. Hann eignaðist á æfinni marga bíla, framan af Willysa, bæði stutta og station, og svo Bronco, tvær Cortinur, Volvo, Subaru og að síðustu Pajero sem hann ók liðlega 100.000 km á 20 árum. Hér hafa verið taldir upp þeir bílar sem talist gátu „heimilisbílar“, en þá eru ótaldir Dodge Weapon hertrukkar sem Smári keypti á uppboði hjá Sölunefnd Varnarliðseigna en á tímabili voru þrír slíkir á lóðinni við Hvolsveg 12. Þar tók sér bólfestu læða sem fannst einn daginn með þrjá dásamlega og vel olíusmurða kettlinga sem dvöldu á heimilinu í nokkrar vikur – öllum til mikillar ánægju. Þeirra var sárt saknað þegar þeir voru gefnir öðrum.

Smári tók þá ákvörðun í upphafi þessa árs að endurnýja ekki ökuskírteinið, en þegar líða tók á árið saknaði hann þess að hafa ekki lengur bílpróf.

Smári og Anna voru dugmiklir ferðamenn, fóru með börnin víða um land og Smári var kunnáttusamur vatnamaður, fór í bússurnar og óð svo vöðin með staf eða járnkarl og vissi svo hvernig mátti keyra. Það voru mörg vötnin sem hann krossaði og sum illfær. En Smári vissi hvaða vegi og leiðir hann gat farið.

Jafnvel mjólkin pólitísk

Í viðtali við Sunnlenska fréttablaðið sagði Smári að pólitíkin hefði náð inn í fjósin í sýslunni. Eins og í nágrannasýslunum var hart barist um hylli kjósenda, stefnu og atvinnumál. Um tíma var mjólkin jafnvel orðin pólitískt lituð. Sjálfstæðismenn sendu sína mjólk alla leið út í Hveragerði en framsóknarmennirnir út á Selfoss. Smári varð vitni að þessum stjórnmálalegu þrengingum og leið fyrir eins og aðrir. Hann þorði að hugsa gagnrýnið og forðaðist pólitíska nærsýni. Hann sýndi launafólki samstöðu og vildi hag allra sem bestan. Í Smára sáu sumir samferðamenn hans verkalýðsleiðtoga því hann benti á hið mikilvæga og réttláta –  „að verður er verkamaðurinn launa sinna“. Hann þorði að skoða málin og taldi sig ekki bundinn af óskrifuðum reglum eða pólitískum línum samfélagsins. Hann hafði jafnvel gaman af þegar barst út að hann ásamt „rafvirkjanum“ keypti Þjóðviljann sem þótti nánast guðlast í pólitískum búblum Hvolhrepps. En tilveran var Smára stærri en þröngir hagsmunir og hann stóð með réttlætinu.

Fróðleiksbrunnur og sagnamaðurinn

Smári fylgdist vel með þjóðmálum og aflaði sér margvíslegs fróðleiks. Hann varð því sagnabrunnur og mikilvægur heimildamaður um þróun byggða og sögu. Smári var öflugur ferðamaður og þekkti landið vel, örnefni, sögu byggðanna á Suðurlandi, tengsl fólks, hver var hvurs og hvað væri í frásögur færandi. Smári hafði auga fyrir hinu kímilega. Sérstakt áhugamál hans var rannsókn hálendisins. Hann fór með fjölskyldu sína og stundum með vöskum fjallamönnum í skoðunar- og rannsóknarferðir. Árbækur Ferðafélagsins og svo héraðsritið Goðasteinn skipuðu heiðurssess á heimili þeirra Smára og Önnu. Og svo má ekki gleyma að minna á að Smári var slyngur veiðimaður og dró björg í bú úr ám landsins, þó einkum Rangá og Fiská. Hafði sérstakt dálæti á þeirri síðarnefndu þar sem læðast þurfti þar að fiskum í hyljunum.

Mörkin – samhengi og lok

Vegir lífsins eru oft hringleiðir. Smári hóf upphaf sitt á Hverfisgötunni og hann lauk æfi sinni í Reykjavík. Þau Anna fluttu suður 2010 og í Mörk við Suðurlandsbraut. Þau höfðu alla búskapartíð unnað Mörkinni – Þórsmörk. En Mörkin syðra var þeim mikilvæg og góð um svo margt. Þar nutu þau nándar við börn og stórfjölskyldu og góðs stuðnings þeirra. Starfsfólki Markar er þakkað fyrir þeirra störf, einnig fjölþjóðlegu starfsfólki Vífilsstaða þar sem hann dvaldi um fimm mánaða skeið í bið eftir Mörkinni. Smári tiltók sérstaklega tvo „Rússa“ sem honum lynnti vel við. Og tungumál vöfðust aldrei fyrir Smára, því þó hann lærði ekki nema undirstöðu í dönsku og ensku í skóla, þá hafði hann einstakt lag á að gera sig skiljanlegan og skilja aðra, hvaða tunga sem töluð var. Smári hafði gaman af fjölmenninu, naut sín í samskiptum, var fljótur að tengja við fólk og var sem höfðingi í stórum hópi heimilisfólks. Smári lést 28. október síðastliðinn.

Inn í ljósheiminn

Og nú er hann farinn inn í Giljur eilífðar. Hann heflar ekki lengur vegi ástarinnar eða dregur út bökunarplöturnar úr ofninum fyrir Önnu sína. Hann reddar ekki neinum varahlut lengur eða laumar skemmtisögu að grönnum sínum. Hann syngur ekki Blueberry Hill eða Tondeleyó af innlifun framar, eða kennir barnabörnum sínum Þórsmerkurljóð eða les á mæla Vegagerðarinnar. Gleðilegar minningar lifa og gleðin lifir í tímalausum eilífðarfögnuði og söng. Guð geymi Smára og Guð efli ykkur á vegum lífsástarinnar. Nú er vormaðurinn horfinn inn í birtuna. Og hann er kominn til hennar Önnu sinnar, eins og hann lofaði henni látinni að myndi gera fljótlega, enda orðheldinn alla tíð!

Útför frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði 18. nóv. Kl. 14. Undirleikari Antonía Hevesi. Söngur Guðmundur Karl Eiríksson og Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir. Einkennismyndin er af Smára við veghefilinn góða sem búið er að gera upp.