La Vita é bella – lífið er dásamlegt

Ástin og líf á stríðstíma. Það er meginstef kvikmyndarinnar La Vita é Bella. Guido, ungur gyðingur heillast kennslukonuni Dóru í ítölsku þorpi. Hún er af öðrum menningarhópi en hann og flest verður til að hindra samskipti og tilhugalíf þeirra. En með hugviti og uppátækjum tekst söguhetjunni að bræða hjarta konunnar og leysa þau félagslegu höft sem meina þeim að eigast. Tilhugalífið er efni fyrri hluta myndarinnar og einkennist af farsakenndri og nánast súrrealískri atburðarás. Síðan er skipt um gír og ný saga hefst. Guido og Jósúa, fimm ára afkvæmi ástarinnar, eru sendir í fangabúðir nazista. Dóra heimtar að fara með þeim. Þar reynir faðirinn að fela drenginn svo honum verði ekki fargað. Pabbinn gerir sitt besta til að breyta hryllingsaðstæðum í leik svo veran verði þeim feðgum bærilegri. Guido lýgur til lífs, jafnvel á leið til eigin aftöku skemmtir hann syninum. Móðir og sonur komast af úr hildarleiknum.

Trotsky á að hafa sagt, þegar hann beið eftir aftökusveitinni, að lífið væri samt dásamlegt. Þaðan kemur heiti myndarinnar. Í samræmi við það er boðskapur myndarinnar, að gáskinn sé sterkari en drunginn, lífið sterkara en dauðinn og vonin máttugri en svartnættið. Hið persónulega í myndinni er ávirkt og hvíslar að áhorfendum boðskapnum að hamingjan sé heimafengin hvernig sem aðstæður fólks séu.

Guido í myndinni er Jesúgervingur. Lokaorð drengsins í myndinni vísa til fórnar föður hans svo hann mætti lifa. Þar með er ákveðin túlkun gefin um að sagan sé saga um fórn. En faðirinn dó ekki fyrir syndir annarra eða í stað annarra. Guido er fyrst og fremst lausnari í því að vera farvegur lífs, gáska, gleði og hamingju. Alls staðar þar sem Guido fer er líf og fjör. Hann er samkvæmur sjálfum sér og tekur ekki þátt í þrönghyggju dauðans, stjórnmálum húmorslausra fasista. Aldrei tekst honum betur upp en þegar þeir og þeirra nótar eru viðfangið. Hann er farvegur viskunnar, líka í samskiptum við lækninn Leibnitz, sem er blanda af formhyggju og flótta frá lífinu (Silenzio). Í myndinni er lögð áhersla á að Guð þjóni mönnum en sé ekki þræll þeirra. Góður þjónn eigi að vera sjálf sín en ekki senditík manna. Þjónsboðskapur myndarinnar vísar í þjónsmynd spádómsbókar Jesaja.

Í kvikmyndinni er líka vísað til Exodusstefja þó þau séu ekki unnin ítarlega. Sonurinn ber nafnið Jósúa sem var nafn leiðtoga Ísraelsþjóðarinnar á leið til landsins fyrirheitna. Móse leiddi hina fornu hebrea út af þrælahúsi Egypta og að landmærum Palestínu en hann dó áður en hann komst alla leið (lokakaflar 5. Mósebókar og Jósúabók). Guido er að sínu leyti í hlutverki Móse en sonurinn kemst alla leið, sbr. síðustu myndskeið myndarinnar. Starfi Guido er þá í anda lögmáls gleðinnar og skapandi elsku. Nafn söguhetjunnar gæti verið túlkun á guðsheitinu (sbr. Godot hjá Beckett).

Vegna bjartsýni og gleðisóknar eru upprisutákn skýr í myndinni. Þrátt fyrir ferð um dal dauðans í útrýmingarbúðunum komast drengurinn og móðir hans af. Drengurinn bíður þess í ruslatunnu að hörmungar gangi yfir. Hermenn með hund rétt við tunnuna minna á hermenn við gröf Jesú. Svo þegar þeir voru flúnir kom litli maðurinn fram úr gröf sinni, upprisinn þvert á allar aðstæður. Og hann hlaut sigurlaun sín í samræmi við orð föðurins. Hann náði hann öllum 1000 stigum sem kallast á við 1000 ára ríki Hitlers. Mórallinn eða boðskapurinn er einfaldur. Lífið býður upp á mun stórkostlegri kraftaverk og undur en hinir lítilþægu gera sér grein fyrir.

Vegir, götur og leiðir eru mikilvæg tákn í myndinni um mannlíf og hvernig manneskjan þeytist áfram og verður fyrir óvæntum viðburðum. Hið grínaktuga myndmál myndarinnar varpar spurningum til áhorfenda á hvað leið þeir séu. Allir fara eitthvað og orð Jesú koma í huga sem djúpstef myndarinnar: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.“

Myndin byrjar á bílferð tveggja félaga um unaðslega sveit í Toscana. Bremsurnar bila og þeir félagar geisast stjórnlaust niður krókótta brekkuvegi og hendast inn í bílalest höfðingja í opinberri heimsókn. Benigni í hlutverki Guido hamast við að benda fólki að víkja frá. Það misskilur og heldur að hann sé að veifa þeim og fólkið fagnar. Atriðið vísar í Einræðisherrann, kvikmynd Chaplins. Skömmu síðar er Guido svo á fleygiferð á hjólinu sínu og lendir á draumadís hans á þorpstorginu. Hjólreiðar á formúluhraða eru algengar og lyktar jafnan í upphöfnu sprelli. Lestin liggur til dauðans og síðasta ferðin var með skriðdreka.

Gluggar og rýmisop þjóna lykilhlutverkum í myndinni og eru tákn breytinga. Dóra kom fljúgandi út um guggaop á hlöðu í myndarbyrjun. Lykill Maríu flýgur alla myndina úr gluggum. Guido flúði skelfilegan sendiboða um skólaglugga eftir að hafa dansað borðfyrirlestur fyrir skólakrakka. Gluggi heimilis hjónanna spannar tímabreytingu fimm ára. Gluggi tónlistar er opnaður í fangabúðum til að miðla vitnisburði um lífið. Hetja er nöppuð við glugga og aflífuð í kjölfarið. Drengurinn horfir á föður sinn um ruslatunnuop stíga gæsagang á leið til aftöku. Gluggarnir eru gjarnan uppmúraðir í fangabúðunum. En gluggar eru einnig leið fyrir ljós og að það sem mönnum virðist ekki hægt að komast í gegnum er oft lítið annað en skilrúm sem má ryðja burt. Möguleikarnir eru oft fleiri en fólk vill skilja. Borðhald er mikilvægt í myndinni og vísar í borðhald Biblíunnar, bæði í túlkun Gt og Nt. Tónlist Piovani er ekki flókin en afar vel útsett og með kostulegum blæ. Offenbach stendur alltaf fyrir sínu.

Þetta er góð mynd, fyrir þau sem hafa gaman af meðvituðu sprelli og löngun til að elska lífið.

Ofngrillaður þorskhnakki með ansjósu, capers og ólífusmjöri

Ofurgóður þorskhnakki fyrir sælkera. F. 4.
100 gr smjör
50 gr. jómfrúarolía
6 ansjósuflök
2 msk capers
15 kalamata-ólífur
1/2 chilli-pipar
1 kg þorskhnakki
salt og pipar.
Setjið olíu og smjör í pott og bræðið smjör, lækið hitann og setjið söxuð ansjósflökin út í og látið malla við vægan hita í fimm til sjö mínútur þangað til ansjósurnar hafa bráðnað saman við smörið.
Bætið við kapers, smátt söxuðum chilli-pipar og ólífum eldið í áfram í 10 mínútur.
Skerið þorskahnakka í skammtastærðir og penslið með smjöri, salt og pipra. Grilla hnakkana undir ofngrilli – fiskurinn á að vera rétt ofan við miðjan ofn. Tilbúinn etir sjö-tíu mín. Raða á disk og hella smjöri yfir fiskinn. Berist fram með kartöflum – + grænmeti.
Þessi uppskrift er til í ýmsum útgáfum og með tilbrigðum – mig minnir að ég hafi fengið hana frá lækninum í eldhúsinu. 

Sóvetríkin og Bjarmalandsferð pabba

Veistu um heimildir um ferð verkalýðshóps til Sóvét árið 1952? Gerðu svo vel að hafa samband. Tilefni spurningarinnar er að Þórður, faðir mínn, fór sína Bjarmalandsferð í apríl og maí 1952. Hópurinn sem hann var með flaug til Kaupmannahafnar, síðan til Stokkhólms og þaðan var farið til Helsinki. Síðan hófst hin eiginlega Sóvétferð – lestarferð til Leningrad og síðan til Moskvu. Flogið var þar á eftir í blíðuna í Kiev og síðan farið til Krímskaga, skoðaðar verksmiðjur, víngerðir og hafnarborgin Sevastopol sem komið hefur mjög við sögu í árásarstríði Rússa í Úkraínu.

Pabbi skrifaði mjög ítarlega dagbók um ferðina, móttökur og ævintýri. Þessa bók erum við Jón Kristján, sonur minn, að pikka á tölvuna og vinnum síðan ítarefni um alla þá staði sem lýst er í dabókinni. Þegar Pútin verður farinn til hinna eilífu stríðslanda förum við í fótspor pabba, en við munum væntanlega ekki fljúga frá Moskvu til Kiev eins og hann – alla vega ekki á næstu mánuðum.

Nýi tíminn fjallaði um ferðina og ferðalangana í grein 29. maí 1952. Þjóðviljinn sagði frá ferðinni 27. apríl, daginn eftir að hópurinn flaug af stað með Gullfaxa. Þar er tilgreint hverjir voru með í för: „Þórður Halldórsson múrari frá Sveinasambandi byggingamanna, Ragnar Þorsteinsson ritari Verkalýðs- og sjómannafélags Ólafsfjarðar, Ólafur Jónsson formaður Hlífar Hafnarfirði, Björn Jónsson formaður verkamannafélags Akureyrarkaupstaðar, Árni Guðmundsson bílstjóri frá Dagsbrún, Guðríður Guðmundsdóttir formaður verkakvennafélagsins Snót í Vestmannaetyjum, Sigurður Guðnason formaður Dagsbrúnar, Þuríður Friðriksdóttir formaður Freyju og Guðlaug Vilhjálmsdóttir Iðju. Fararstjóri Þorvaldur Þórarinsson, lögfræðingur.“

Ef þú veist um heimildir væru upplýsingar vel þegnar. Pabbi varðveitti mikið af skemmtilegum gögnum um ferðina og m.a. er þessi mynd frá verksmiðju í Moskvu. Pabbi er þessi hávaxni með gleraugun og fylgist grannt með. Björn Jónsson er fremst á myndinni.

Tíu rúblu seðill sem var í minjaumslagi pabba – hann hefur ekki náð að eyða þeim – sem var jafngildi 7 mánaða húsaleigu í Moskvu á þeim tíma!

Verði ljós og tangó skýjanna

Bláfjöllin og sólin brostu við veröldinni og þar með okkur sem áttum leið austur fyrir fjall 26. nóvember. Ég var á leið í Alviðru á fund og sá útundan mér ljósaævintýri suður af Sandskeiði. Það var sem skýin dönsuðu tangó við taktinn í ljósmúsíkinni. Þrátt fyrir nauman tíma stoppaði ég bílinn við vegarútskot, renndi niður rúðu og tók mynd beint úr ökumannssætinu. Móðurlegur ljósengill breiddi út faðminn og blessaði dansinn. Tólf metra hár ljósviti listamannsins Claudio Parmiggiani var sem biðjandi og þiggjandi dvergur í ljósagnótt nágrannanna. Verði ljós þessari veröld, meira líf og kröftugri dans. Guði sé lof fyrir ljósið.

Hlaupavargur

„Þá kom hann út. Svo eðlilega eins og ekkert væri sjálfsagðara; þessi veröld var hans. Hann kom út úr skóginum aðeins lengra frá en þar sem slóðin eftir skíðin mín var. Hann staldraði aðeins á milli einirunna og lágvaxinnar furu og horfði gaumgæfilega yfir snjóhvíta og frekar takmarkaða víðáttu mýrarinnar. Hann sneri höfðinu þannig að ég gat séð á vangann og íðilfagurt trýnið, bratt ennið og upprétt eyrun.“

Ulf Norrstig lærði snemma af pabba og afa að veiða dýr og fiska. Frá bernsku færði hann veiðidagbók og skráði feng sinn, hvernig veðrið var, færð og annað sem tengdist veiðinni. Hann lærði svo skógfræði og gerðist svo kontóristi hjá sænsku skógræktinni. Í starfi naut hann þekkingar sinnar úr uppvextinum en varð líka að beygja sig undir einsleitandi gróðaþarfir skógareigenda sem voru á kostnað fjölbreytileika skóganna. Bókin Hlaupavargur hefst þegar Ulf hafði látið af störfum og þau Inga kona hans fluttu úr þéttbýlinu og norður í skógarveröld Helsingjalands. Honum fannst ekki sjáfgefið að Inga vildi verja þriðja æviskeiðinu á bernskuslóðum hans svo hann gæti veitt til matar og þau farið um skógana hans, tínt ber og notið náttúrugæðanna eins og fyrri kynslóðir höfðu gert.  

Ulf kom gömlum húsvagni fyrir upp í hæðum til að fylgjast með dýraferðum. Þar andaði hann að sér dásemdarunaði jarðargróðans og hlustaði eftir hljóðum lífsins og horfði með skerptri athygli veiðimannsins. Við kynnumst smátt og smátt manni sem lifir í sátt við lífríkið. En í hjarta og æðakerfi Ulfs voru mein og breytingar urðu hið innra. Veiðilöngun hans daprast. Náttúrutengingin stríkkar, snýst og opnar honum nýja skynjun og sálarvíddir. Á nýjársdegi fóru Ulf og hvutti hans í kofann til að kíkja á umferð dýranna. Þá sá sá gamli allt í einu háfættan, stóran úlf sem kom í jaðar skógarins. Hann stóð grafkyrr, glæsilegur prins lífsins og konungur skógarins. Ulf heillaðist af þessum nafna sínum og nýr kafli hófst í lífinu. Hann megnaði ekki segja konu sinni frá þessari sjón, merking hennar dagaði hægt á hann. Smátt og smátt skildi hann og lesendur líka að úlfurinn varð táknmynd um manninn sjálfan. Hann notaði úlfinn til að túlka eigið líf, minningar, lífsátök og afstöðu annarra. Svo sá hann í úlfinum lífsháska líka. Lífi beggja var ógnað. Á veiðitímanum sem fór í hönd næstu ár óttaðist hann að veiðifélagar hans dræpu úlfinn. Hinn mennski Úlfur varð veikur og lagður inn á sjúkrahús en hinn dýrslegi fór frjáls um fjöllin. Síðan er unnið úr stefjum bókarinnar með spennuparið úlf-Úlf sem meginstef. Gert er upp við alls konar tengsl veiðifélaga, hjúskaparvíddir þeirra Ingu, fortíðarlíf byggðanna í dreifingu Svíþjóðar og samfélagsdeiglu nútímasamfélags. Nýting nátturu kemur við sögu, átök um stefnu í náttúrunýtingarmálum, breytingar á veðurfari fléttaðar í söguþráðinn, ást á dýrum og ábyrgð eða ábyrgðarleysi á húsdýrum líka.

Bókin byrjar rólega en svo er hert á og mestur hraði, spenna og óvænt úrvinnsla í lokin kemur á óvart. Við fylgjumst með framvindunni frá sjónarhóli Ulf. Samfélagi, tengslum og hugsun veiðimanna er lýst með nærfærnum hætti í bókinni. Náttúrulýsingar eru heillandi og veiðimenn allra landa þekkja náttúrulestur, gerhyglina sem fylgir veiðum, virðingu fyrir bráð og lotningu fyrir gangverki náttúrunnar. Lýsingar á gróðri eru fíngerðar, veðri er lýst af næmni, mynstrum íss, lykt við hreiður, óveðri og snjókomu. Manngerðum veiðimanna er lýst og þeim flóknu tilfinningum sem bærast í veiðiferðum, átökum og hvernig reglur þarf að setja til að tryggja öryggi manna og dýra og líka að farið sé að lögum. Ulf hinn mennski gerir upp líf sitt og hann þorir að breytast og skipta um skoðun. Hann þorir að þjóna lífinu í frelsi.

Hlaupavargur er vissulega bók um undur náttúrunnar. En hún er ekki síður um víddir þess að eldast. Afbragðs vel fléttuð og skrifuð bók um náttúrutengsl, að gera upp líf og að lifa af krafti, ábyrgð og í róttæku frelsi þrátt fyrir hrörnun. Fjögurra stjörnu bók.

 Hlaupavargur kom út árið 2021. Fyrir hana var Kerstin Ekman tilnefnd til sænsku útvarpsverðlaunanna árið 2022 og til norrænu bókmennaverðlaunanna sama ár. Skúli Thoroddsen þýddi bókina og gerði vel. Aðalsteinn Svanur Sigfússon, sá mikli meistari, vann bókina til prentunar. 224 bls. Ugla gaf út 2024.

Um höfundinn: Kerstin Ekman (f. 1933) hefur hlotið bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs og tvívegis August-verðlaunin í Svíþjóð. Hlaupavargur er fjórða bók hennar sem kemur út á íslensku. Hinar eru Atburðir við vatn, Miskunnsemi guðs, báðar í þýðingu Sverris Hólmarssonar, og Gáruð vötn í þýðingu Höllu Sverrisdóttur.