Útilega með mömmu

Mamma og pabbi höfðu gaman af tjaldferðum. Pabbi var fjallamaður og ferðakarl og var alla tíð Ferðafélagsmaður. Hann vildi skoða landið, sjá sem mest og skilja sem flest. Mamma hafði sértækari og ákveðnari tjaldbúðamarkmið. Hennar tjaldlíf var gjarnan undir merki kristninnar. Þau, foreldrar mínir, fóru reglulega í Vatnaskóg á almenn mót kristniboðssambandsins, sem haldin voru í júnílok. Ég fór gjarnan í sveit fyrir norðan. En ég fór tvisvar með þeim í Skóginn. Þau vildu helst vera á sama staðnum, í sama rjóðrinu ofan við lindina og styttuna af sr. Friðrik. Það var reyndar afar hagnýtt því samkomutjaldið stóra var nærri, vestur á flötinni.

Foreldrar mínir sóttu samkomurnar og höfðu gagn og gaman af. Ég naut hins vegar frjálsræðis og var á hlaupum í skóginum eða á bát úti á vatni. Þá var aðstaðan til smíða og dundurs ljómandi í bátaskýlinu. Ég bjó mér meira segja til spún til veiða, úr blikki úr niðursuðudós og með fínlegan nagla sem ég beygði til að eitthvað væri á veiðarfærinu sem fiskur gæti festst við. Svo hélt ég til veiðanna, en agnhaldið var lélegt og enginn var aflinn þó margir gripu í spúninn. Mamma fylgdist með þessum leikjum og hafði gaman af.

Þegar mótinu var lokið var veðurspáin góð. Það var úr að pabbi héldi í bæinn til vinnu sinnar, en ég héldi tjaldbúðalífinu áfram með mömmu. Það var spennandi og óvænt uppákoma. Spáin gekk eftir og veðrið var dásamlegt. Við elduðum saman, bröltum um hlíð og skóg, klifum kletta og fórum í langar rannsóknarferðir, lengri en ég hafði leyft mér meðan ég var einn á för. Þessar stundir notaði mamma til fræðslu. Ég lærði hvernig lyfjagras leit út, geldingahnappur og hófsóley. Hljóðdífur hrossagauksins talaði hún um og skýrði út hvernig vængfjaðrirnar mynduðu þessa skemmtilegu músík. Hún benti á sólstafina og skýrði þá út. Fjallahringinn talaði hún um og hvernig sjá mætti Skarðsheiðina úr Reykjavík.

Eitt kvöldið klifum við á öxlina sunnan við skóginn, upp í kvölskinið. Nóttinn læddist að, sumarnóttin með unað og kyrrð. Einstaka lóa söng um dýrð himins og jarðar, hrossagaukur söng með vængjunum um ástina, sólin skein á eggjar og inn í sálina. Mamma talaði um sólina og hvernig sólin væri tákn um Guð. Allt sem við nytum væri gæði, sem við mættum gleðjast yfir og njóta. En einn væri skaparinn, Skógurinn tæki hans, við mennirnir værum með erindi í heiminum. Mamma var góð að taka frá tíma, sem er helgur í huganum, tíma til að kenna, miðla og eiga stund með drengnum sínum. Minningin um tjaldbúðalífið er yfirskyggð af túlkun um að það var allt gott og rétt. Vatnaskógur varð í huga mér heilagur staður og mamma var eins og prestur við fræðslu.

Myndin hér að ofan er tekin á Brautarhóli nokkrum árum áður en við vorum í Skóginum. Ég hef líklega verið fjögurra ára. Við Kristín, systir, erum þarna á milli mömmu og ömmu Kristínar.

Þriggja blýanta stríð

Skólabjalla Melaskóla hljómar enn, svolítið fölsk, en dugar vel til síns brúks. Hvað er kennt í skólanum og hvaða blýantastefnu skyldu kennarar Melaskóla hafa? Gamalt stríð, sem háð var af einurð, kemur í hugann. Ég lenti í skotlínu á milli kennara og mömmu. Bæði voru ákveðin.

Jón Þorsteinsson, minn frábæri kennari í Melaskóla, setti ýmsar reglur og ein var ófrávíkjanleg. Nemendur í bekknum hans skyldu hefja skólagöngu með því að koma með þrjá nýja, vel yddaða blýanta. Styrjöld var háð vegna þessarar reglu.

Ég var sendur í skóla með þrjá blýanta og þeir voru vel yddaðir. En þeir voru ekki nýir og ekki allir jafn langir. Þegar Jón, kennari, sá skriffærin hóf hann þunga sókn. Hin eiginlega bakvörn var mamma, sem réði því sem hún vildi í skólamálum mínum. Henni þóttu blýantarnir mínir góðir og fullboðlegir . Með það mat fór blýantaberinn í skóla að nýju. Jón þykktist við og setti í brýrnar. Þá var mér ljóst að ég væri peð á milli stórvelda. Stríð var hafið og ég undi stöðu minni illa.

Ekkert skólasystkina minna dirfðist að gera uppreisn gegn reglum hins ákveðna skólamanns, sem hafði fullkomið vald í skólastofunni. Hann var dagfarsprúður, öflugur skólamaður, fastur fyrir, hafði gott lag í sinni stofu og á sínu fólki. Og öllum kom hann til náms og nokkurs þroska. Ég hafði enga trú á að nokkuð gæti brotið þennan öfluga skólamann og helsta kraftajötun íslensks skólakerfis.

Þegar blýantadrottinn Melaskóla hafði gert sér grein fyrir að Sigurður Árni væri ekki annað en málaliði í umboði Svanfríðar sendi hann móður minni beiðni um að finna sig. Ég kveið þeim fundi og var viss um að nú mundi móðir mín lenda í mannraunum. Ég fylgist með því þegar hún fór róleg en ákveðin. Hún kom heim klukkutíma seinna og var þá rjóð í kinnum og með glampa í augum. „Þú ferð með blýantana þína í skólann eins og ég hef áður sagt þér. Kennarinn þinn, hann Jón, mun ekki hrella þig framar,“ sagði hún. Þetta voru mikil tíðindi af vesturvígstöðvum Reykjavíkur.

Síðar sagði hún mér, að þau hefðu tekist á. Jón hafði gert henni grein fyrir, að það væri ekki hennar að ákveða skólastefnu hvorki í hans bekk né Melaskóla. Móðir mín hafði hins vegar gert honum jafn skýra grein fyrir eðli foreldraréttarins og að hún hefði skýra uppeldisstefnu gagnvart drengnum sínum. Hún hefði ekki hugsað sér að kenna honum að sóa verðmætum, heldur að nota bæði blýanta og annað sem til væri með ábyrgð og nýtni að leiðarljósi. Hún gerði honum grein fyrir gildum, siðferði og stefnu ábyrgðarinnar. Jón náði engum tökum á móður minni enda deildi hann sömu gildum. Í þessari baráttu var mamma sigurvegarinn og Jón var alla tíð sanngjarn. 

Eftir orustuna umgekkst Jón Þorsteinsson drenginn hennar Svanfríðar með nokkurri varfærni, ekki síst þegar kom að útbúnaði í skólatöskunni. Hann hafði uppgötvað, að hann hafði tapað þriggja blýanta stríðinu gegn Svanfríði. Það var ljóst að hann bar virðingu fyrir svo ákveðnum uppalanda. Ég uppgötvaði að mamma var miklu öflugri en menntunarhetjur Melaskóla.  Síðar á ævinni uppgötvaði ég að ég hef aldrei átt í neinum erfiðleikum með öflugar konur. Þær hafa aldrei skapað með mér ónotatilfinningu. Þar nýt ég uppeldis og mótunar í foreldrahúsum sem ég þakka. Mamma var hugrökk, forðaðist stríð en flýði aldrei. Hún var mikil af sjálfri sér. Hún var stórveldi.

Krísa – kreppa

Á þessum plágutíma fór ég að hugsa um merkingu kreppu. Gríska orðið Κρίση (frb. kríse) er merkilegt. Það er orðið sem er að baki krísu í slangurmáli okkar. Á enskunni varð það að crisis og síðan Krisis á þýskunni og með ýmsum hliðstæðum á mörgum málum. Gríska orðið er notað í Nt og getur þýtt kreppa. En svo er hin merkingin. Orðið þýðir líka dómur, það að greina rétt á milli, þ.e. rétt greind. Orðið hefur því áhugaverða málvídd.

Hvað gerist í krísu? Jú, þá eru felldir dómar. Viðbrögð í aðkrepptum aðstæðum geta verið ofsafengin. Þegar við erum í uppnámi, í krísu, segjum við margt og gerum við margt sem ekki sýnir mikið vit eða yfirvegun. Við viljum helst ekki taka of afdrifaríkar ákvarðanir í uppnámsaðstæðum. Hið sama gildir í alþjóðlegum krísum – þá er ekki ráð að hrapa að niðurstöðum eða fara á alþjóðlegum taugum. En þegar að kreppir og krísan hrín yfir er mikilvægt að fella rétta dóma og iðka góða dómgreind. Dómar geta verið felldir án mikillar greindar en það þarf rétta og yfirvegaða greind í dómum til að dómarnir verði réttir. Íslenska orðið dómgreind ber vitni um orðsnilld og góða málgreind. Í lífinu eru krísur og í krísum þarf góða dómgreind.  

Að læra að lesa – aftur

Í erli daganna, mikilli vinnu og hasar kunni ég ekki lengur að lesa. Stafirnir hurfu mér ekki og heilastöðvar mínar voru ekki hættar að virka, heldur að ég hafði ekki í nokkur ár haft stundir, næði, aðstöðu, tíma til að lesa reglulega, mikið, langdvölum, samfellt og ríkulega. En mér hefur alltaf þótt gaman að lesa, liðið vel þegar ég hef lesið mikið og þurft að lesa mikið. En þegar álag, áreiti og verkefni eru svo ágeng, að maður ræður ekki sjálfur ati daganna þá hætti ég að kunna að lesa. Og svo allt í einu fékk ég næði í námsleyfi. Ég sat við frá morgni og fram eftir degi við það eitt að lesa. Ég lærði á nýtt bókasafn, rölti um risastórar bókahvelfingar, lyktaði af bókum og fann til gamalkunnugrar tilfinningar í lífhvelfingum bókanna. Ég veiddi bækur úr stórum rekkum, bara þær bækur sem ég var búinn að ætla að skoða. Kíkti í þær til að meta hvort þær væru áhugaverðar, skráði þær bestu út, bar heim, settist síðan niður og las og las áfram. Og ég fann til djúprar gleði yfir að mega lesa, geta enn greint hugmyndir, finna til viðjóðs eða djúprar hrifningar, að puða í gegnum flóknar rökfærslur og komast svo að því að það sem ég áleit vera öfluga hugsun var kannski ekkert nema hjómið eða það sem ég hélt að væri hálmstrá væri bara snotur kenning, jafnvel fögur og eflandi. Svo þorði ég að halda á djúpið og hætti mér út á ókunnugt svæði, fann fyrir svima og furðu yfir að það skyldi þá vera svona en ekki hinsegin. Að lesa opnar heima, lönd, tíma og möguleika. Að lesa varð mér eins og draga djúpt andann eftir andnauð.

 

 

 

Plágan 1 – Álög

Álög hafa verið lögð á mannheima. Smælkið velti stórkerfum mannkynsins. Og samkomubann var sett á Íslandi. Allt í einu var skylda að virða að tveggja metra bil milli fólks. Þegar ég vaknaði á mánudagsmorgni helltust yfir mig sterk tilfinning fyrir að allt væri skakkt. Tilfinning fyrir óraunveruleika. Og mörgum finnast þessi álög vera vefur skrítileikans, þess sem ætti ekki að vera. Álög.

Mánudagsmorgunn 16. mars var ekki venjulegur. Drengirnir fóru ekki í skólann eins og venjulega því starfsfólk Hagaskóla var að ráða ráðum sínum. Mánudagar, frídagur prestsins, en ég fór strax að vinna að málum sem varða starf mitt í Hallgrímskirkju. Ræddi við rafvirkjana sem voru komnir til að laga ljós á baðinu heima. Þeir voru skemmtilegir og snöggir í störfum.

Fór svo yfir íhugun sunnudagsguðsþjónustunnar og hún fór á netið. Fundaði með kollega mínum Irmu Sjöfn. Við ræddum ýmsa þætti samkomubannsins og hvernig við getum stutt fólkið okkar sem sækir samkomur og helgihald í kirkjunni. Við fórum við yfir streymismál, upptökumál og miðlun á vefnum. Svo hittum við framkvæmdastjóra Hallgrímskirkj og annað starfsfólk. Eftir hádegið settist ég svo við að snara upplýsingaefni á ensku og setti inn á heimasíðuna, einkum þá ensku.

Dagurinn var á eyrunum. Mörg samtöl við marga, samstarfsfólk, vini og fjölskyldu um stöðu mála, horfur og verkefni. 

Under kvöld skoðaði ég komur og brottfarir Ísavía. Og brá þegar ég sá hve mörgum flugum hafði verið aflýst. Innilokurnartilfinning laumaðist inn í tilfinningu fyrir óraunveruleika – álögin margþætt.

Eftir daginn situr ágeng tilfinning fyrir að allt þetta venjulega og hversdagslega er breytt. Kvíði, ótti við breytingarnar, hræðsla við smáveiru sem hefur breytt heiminum. Eftir því sem á leið daginn varð álagatilfinningin æ sterkari. Ég sofnaði þó ekki út frá álögum heldur meðvitaður um breytingar. Guð kemur úr framtíð og kristnir menn sökkva aldrei í tómi tímans. Draumarnir voru blessunarlega litríkir.