+ Guðrún Reynisdóttir +

Þegar Guðrún og Halldór fóru í bílferðir var gaman hjá þeim. En þegar sól var lágt á lofti kom fyrir, að sólargeislarnir gerðu bílstjóranum erfitt fyrir og nánast blinduðu hann. Halldóri, sem sat við stýrið, var ekki skemmt, en áður en hann gæti kvartað stórlega var kona hans snögg til og sagði:

Blessuð sólin elskar allt,
allt með kossi vekur,
haginn grænn og hjarnið kalt
hennar ástum tekur.

Og bílstjórinn með sól í augun mat jákvæðni konu sinnar. Hann gerði sér grein fyrir, að geislarnir elska og kyssa. Og í túlkun Guðrúnar urðu geislarnir ástarkossar. Og Guðrúnu lánaðist að gera allt betra. Hennar háttur var að varpa ljósi á lífið, benda til alls þess sem gott er. Jafnvel blindandi geislar voru ástarkossar. Þannig lífsafstaða eflir og bætir og rímar við lífsgleði kristninnar. „Ég er ljós heimsins“ sagði Jesús. Kristnin er átrúnaður lífsmáttarins, sem brýtur á neiðkvæðni, lýsir upp myrkur og leysir fjötra. „Dauðinn dó en lífið lifir“ segir vel í gömlum sálmi. Guðrún var fulltrúi ljóssins og málsvari þess í heiminum. Hún benti bónda sínum til birtunnar og varpaði birtu á líf okkar allra sem kynntust henni. Hún iðkaði kristindóm og er okkur öllum skínandi fyrirmynd. Hún var sínu fólki ásjóna hins guðlega og himneska.

Upphaf og fjölskylda

Guðrún fæddist inn í sumarið. Hún fæddist í Hafnarfirði fimmtudaginn 28. júní árið 1934. Foreldrar hennar voru Reynir Guðmundsson og Margrét Skúladóttir. Hann var Vestfirðingur, fæddist á Geirseyri við Patreksfjörð. En Margrét var frá Ytra-Vatni í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði. Þau eignuðust þrjú börn. Svanhvít var elst. Hún fæddist árið 1930. Sverrir var næstur og fæddist 1932. Þær Svanhvít og Guðrún voru nánar. Svanna lést árið 2016, en Sverrir lést af slysförum árið 1955. Það var reglufesta í barnsfæðingum foreldra Guðrúnar, tvö ár á milli barna og Guðrún var yngst þeirra systkina og fæddist tveimur árum á eftir bróður sínum.

Fjölskyldan bjó við Brekkugötu í Hafnarfirði og þar ólst Guðrún upp. Hún sótti skóla í Firðinum og lauk gagnfræðaprófi frá Flensborg. Guðrún tók þátt í íþróttum og spilaði handbolta. Um tíma vann Guðrún í Kaupfélaginu og seldi meðal annars skó. Hið merka tímarit Samvinnan birti forsíðumynd af Guðrúnu við skósöluna. Guðrún vann svo um tíma á fræðslumálaskrifstofu Hafnarfjarðar eins og eldri systir hennar. Þessi Hafnarfjarðarár voru ekki bara ljúf draumaár í lífi fjölskyldunnar. Guðrún var aðeins 15 ára þegar móðir hennar lést. Guðrún vissi síðan að lífið er ekki sjálfsagt og við eigum ekki kröfu á tíma og gæði. Hún axlaði aukna ábyrgð og skilaði alltaf sínu og umvafði fólkið sitt öryggi. Og nokkrum árum eftir móðurmissinn lést svo bróðir hennar af slysförum og skörðin voru stór í lífi fjölskyldu Guðrúnar.

Ástin og fjölskyldan

Og svo var það Halldór Júlíusson. Guðrún fór á ball í Sjallann við Austurvöll í Reykjavík. Þar var Halldór og hafði augun á hinni syngjandi fegurðardís. Hann fékk svo síðasta dansinn. Og þar á eftir gengu þau saman út nóttina. Guðrún var á leiðinni í Landleiðarútuna til að fara suður í Hafnarfjörð. Halldór gekk með henni að stoppustöðinni. Og hann man enn, öllum þessum árum síðar, að þegar Guðrún settist í rútunni fór hann að glugganum þar sem hún sat, horði á hana og hún gaut augum á hann. Þarna stóð hann svo þar til rútan fór af stað. Hún ók af stað inn í nóttina. Hann stóð eftir með mynd hennar í huga og bæði sáu birtu framtíðar. Svo tóku við hans eigin ferðir suður í Hafnarfjörð. Og þau urðu par og voru síðan samrýmd allt lífið. Þau voru svo samstillt í lífsdansinum að þau áttu meira að segja sama afmælisdag, 28. júní. Þau gengu í hjónaband 18. júní 1955. Halldór starfaði í bankaheiminum. Hann vann hjá Sparisjóði verslunarmanna og varð síðan starfsmaður Verslunarbankans, sem var stofnaður um þennan stærsta lífeyrissjóð síns tíma. Halldór var útibússtjóri hjá bankanum.

Fyrsta heimili þeirra Guðrúnar og Halldórs var á Ægisíðu 101, í skjóli og nábýli við foreldra hans. Margrét fæddist árið 1956. Hennar maður er Árni Guðmundsson. Börn þeirra eru Halldór, Elín og Guðmundur Örn. Og til að búa fjölskyldunni góðar aðstæður keytu þau Guðrún og Halldór íbúð á Lynghaga 24. Þangað fluttu þau og Ingibjörg kom í heiminn árið 1959. Börn hennar og Sveins Ásgeirssonar eru tvíburarnir Ásgeir Arnar og María Rún. Og svo fæddist Reynir árið 1963. Dóttir hans og Önnu Sigríðar Guðmundsdóttur er Guðrún Edda. 

Barnalánið kallaði á stærra húsnæði. Þau Guðrún og Halldór keyptu íbúð á Hjarðarhaga 44. Þar var rúmbýlt og þau voru hátt uppi, á efstu hæð og nutu frábærs útsýnis. Allir fjölskyldumeðlimirnir urðu liprir á fæti og úthaldsgóðir við öll stigahlaupin. Guðrún var alla tíð létt á sér og mér þótti alltaf gaman að hve kvik og snör í snúningum hún var á efri árum – sem unglingur væri.

Og hún var besta mamma í heimi, sagði sonur hennar, natin, ákveðin, lagin í samskiptum og lagði börnum sínum til lífssýn og lífsleikni. Guðrún helgaði manni sínum, börnum, ástvinum og afkomendum krafta sína og hæfileika. Hún hafði snemma gert sér grein fyrir mikilvægi öryggis, heimilisgæða og samheldni og lagði allan sinn mátt, hæfni og gæði til eflingar sínu fólki. Og börnin hennar og barnabörnin vitna um ómælda umhyggju og natni. Og þau Halldór og Guðrún voru samstiga í lífinu og Guðrún sá alltaf björtu hliðarnar. Blessuð sólin elskar allt – líka hjúskap og heimilislíf þeirra hjóna, barna og afkomenda þeirra. Í nokkur ár bjuggu þau Halldór í Garðabæ og svo undir lokin í Mörk þar sem þau eignuðust fallegt heimili.

Söngurinn

Guðrún ólst upp við tónlist og hún söng. Hún var afar músíkölsk og hafði fallega rödd. Hún söng í uppvextinum í Hafnarfirði. Hún var í kvintett og tróð upp opinberlega með vinkonum sínum og tók einnig þátt í leiksýningum leikfélagsins. Þegar Guðrún flutti í Vesturbæinn söng hún í kirkjukór Neskirkju og þjónaði þessari kirkju og söfnuði í áratugi. Hún lærði söng hjá Guðmundi Jónssyni, óperusöngvara. Síðustu söngárin var hún svo í Hljómi, kór eldri borgara hér í Neskirkju. Meðal stjórnenda þess kórs var Inga J. Backman, sem hefur beðið fyrir kveðjur til ykkar allra. Hún harmar að geta ekki verið við þessa útfararathöfn en biður fyrir þakkir fyrir öll söngárin með Guðrúnu, sjarma hennar og vinsemd. Það var elskulegt að hlusta á Ingu lýsa hve góður félagi og umhyggjusöm Guðrún var alla tíð, öflugur söngvari og traustur vinur. Guðrún var líka um árabil í söngsveitinni Fílharmóníu sem var frábær kór sem hækkaði standard íslenskrar söngmenntar. Guðrún var með í þeirri tónaför og menningarauka. Tónlist og gæði voru hennar mál.

Hlýjan – umhyggjan

Við, sem vorum svo lánsöm að kynnast Guðrúnu, mátum mikils hlýjuna og vinsemdina, sem hún auðsýndi okkur. Birtan í augum varpaði ljóma á umhverfið og alltaf bætti Guðrún félagsandann. Guðrún var afar umtalsfróm og færði allt til betri vegar. Hún var fagurkeri sem vildi hafa allt fallegt á heimili og í samfélagi.

Guðrún fór yfirleitt í sund á morgnana ef hún gat. Hún synti ekki aðeins metrana sína heldur var hún umhyggjusöm amma öllum stúlkunum í baðklefanum, stillti hitann á öllum sturtunum og gætti að því að litlir kroppar brynnu hvorki né kulnuðu. Svo þegar hún var búin að gera þessi góðverk hjólaði hún heim til að tryggja að bóndi hennar og börn, eða barnabörn, fengju örugglega nóg og gott að borða.

Það var eftirminnilegt að verða vitni, að barnagleði Guðrúnar og afstöðu hennar til barna. Ég minnist hve lifnaði yfir henni þegar hún sá ungabörn og á mínar minningar um hve hún fagnaði mínum sonum ungum. Engu breytti þó minni hennar væri byrjað að fara inn í himininn. Ungabörn glöddu hana hjartanlega. Hún var barngóð og umhyggjusöm og þegar barnabörn hennar komu í jólagraut sá hún jafnvel til að mandla væri í öllum diskum og allir fengju gjöf líka! Ekki gert upp á milli, allir skyldu gleðjast og vinna.

Skilin og birtan

En nú eru orðin skil. Hin umhyggjusama og elskuríka Guðrún Reynisdóttir er horfin inn í birtu himsins. Hún stendur aldrei framar við gluggann og veifar þar til þú ert komin/n í hvarf. Hún á ekki framar paprikustjörnusnakk og nammi með til að gleðja ungviðið. Hún syngur ekki framar sálma, hlustar ekki á tenóra og sóprana þenja sig, gleðst ekki yfir kirkjulegum kórverkum eða laumar að þér grænum forstpinna. Hún tekur ekki framar upp barnaefni á spólur til að sýna ungviðinu. Og hún hlær ekki framar að barnabörnum sem komust í fataskápinn hennar eða skartgripaskrín hennar. Hún dregur ekki framar upp úr tösku sinni blátt ópal eða mentos til að gleðja vini sína. Hún er hinum megin við tímaglerið. Og Halldór veifar, við líka og þökkum fyrir lífssöngva og dansa kærleikans.

Guðrún hlakkaði til að hitta sitt fólk á himnum, mömmu, bróður og ástvini. Það er gott þegar tími og eilífð kyssast og jörð og himinn faðmast. Í Guðrúnu urðum við vitni að þeirri dásemd. Hún er í söng eilífðar og ljósin. Já, blessuð sólin elskar allt, en seinna erindið í ljóði Hannesar Hafstein tjáir líf Guðrúnar Reynisdóttur.

Geislar hennar út um allt,
eitt og sama skrifa,
á hagan grænan, hjarnið kalt:
Himneskt er að lifa!

Já, það er himneskt að lifa á jörðinni og hin jarðneska dásemd er upphafin í birtu eilífðar. Guð geymi Guðrúnu og varðveiti hana í birtunni. Guð blessi þig.

Amen.

Kistulagning 11. júlí, útförí Neskirkju 12. júlí kl. 13. Bálför. Erfidrykkja í Neskirkju. Jarðsett í Sóllandi. Myndin hér að neðan er af Guðrúnu og Halldóri í safnaðarferð að Fitjum í Skorradal 18. september,  2013. 

 

Er þessi pabbi í lagi?

Hvernig hefur fjölskylda þín mótað þig? Ekki aðeins erfðavísarnir heldur samskipti, uppeldi og áföll. Við erum öll hluti fjölskyldu og fjölskyldusögur eru alls konar. Við mótumst af fjölskyldu okkar og sögu hennar. Í Biblíunni er fjöldi fjölskyldusagna, sem eru erkisögur, lærdómssögur og viðmið en líka víti til varnaðar. Jesús var meðvitaður um gildi, vegsemd og vanda fjölskyldna. Hann sagði litríkar sögur um fjölskyldur. Íhugunarefni dagsins er ein af þeim merkilegu sögum.

Saga guðspjallsins er um ungan mann í útrás og viðbrögð fjölskyldu hans. Þessi saga um týnda soninn, eyðslusegginn, er í guðspjallinu síðasta sagan um missi og endurheimt. Og ungi maðurinn sem drífur áfram framvindu sögunnar var með huga við peninga. Hann kreisti út arf sinn fyrirfram, sóaði öllu með miklum látum og klúðraði fjármálum sínum herfilega. Hann eignaðist að sjálfsögðu viðhlægjendur meðan hann átti aur. En svo var auðurinn búinn og hryllilegur raunveruleikinn blasti við. Þegar maðurinn var meðal svínanna varð hann að horfast í augu við stöðu sína. Hann hafði náð botninum og viðurkenndi þá, að hann hafði verið týndur. Þá byrjaði hann að sjá að sér, iðrast, – koma til sjálfs sín eins og sagt er svo fallega.

Þrír karlar

Heima var týnda syninum fagnað með grillveislu og dansi. Eldri bróðirinn hafði aldrei verið til vandræða. Hann bara var heima og kom svo einn daginn úr vinnunni og horfði forviða á rjóðar, dansandi konur, syngjandi sveina og viðbjóðslegan bróður, sem hafði komið í tötrum en hafði verið færður í glansandi veisluklæði. Þegar sukkarinn kom var dekrað við hann.

Því lengur sem ég íhuga þessa sögu vex samúð mín með eldri bróðurnum. Var þessi veisla fyrir ruglukollinn nokkuð annað en meðvirkni? Í flestum fjölskyldum heimsins eru til sukkarar, sem týnast af einhverjum ástæðum. Og það er alltaf átakanlegt. Svo eru hin, sem eru ábyrg og standa við sitt og sinna sínum hlutverku en geta þó átt í miklum vanda. Eldri sonurinn í líkingasögu Jesú var ekki fullkominn. Hann var ekki týndur í útlöndum en var þó týndur heima, dugnaðarmaður en tepptur hið innra. Hann var sjálfmiðaður í gæðasókn sinni en hafði tapað tengslum við ástvini sína. Fólkið í fjölskyldu karlanna var týnt hverju öðru og úr varð misskilningur. Allir rugluðust – allir voru týndir?

Meginstefið og yfirdrifnar sögur Jesú

Þekkir þú svona fjölskyldulíf? Til hvers sagði Jesús þessa sögu? Var það til að benda á að brotnar fjölskyldur ættu að halda partí hvenær sem fíkillinn kæmi úr meðferð – hvenær sem einhver flakkarinn kæmi heim frá útlöndum? Nei.

Hver er aðalpersóna sögunnar? Er það sukkarinn eða kannski heimalningurinn, bróðir hans? Eða getur verið að hvorugur sé lykilpersónan?

Sögur Jesú Krists eru merkilegar. Hann var slyngur sögumaður, kunáttusamur um byggingu, flækju og merkingarburð sögu. Sögur Jesú eru gjarnan með andstæðupari og í þessari sögu eru bræðurnir pólarnir. En svo sprengir Jesús venjulegar aðstæður og almenna úrvinnslu í mannheimum með óvæntri framvindu og furðulegum úrslitum. Sögur hans enda oftast með yfirdrifnum viðbrögðum og óvæntum niðurstöðum. Af hverju?

Jesús reyndi með sögum sínum að kalla tilheyrendur sína til vits. Faðirinn, viðbrögð hans og örlæti eru á skjön við það, sem við myndum gera og andstæð því sem fólk í öllum heimshornum myndi gera í hliðstæðum aðstæðum þegar barnið kemur loks heim. Flest viljum við taka á móti iðrandi börnum okkar en þó ekki að umbuna fyrir vitleysuna.

Já, bræðurnir eru mikilvægar persónur í dramanu en miðjan í sögunni er þó faðirinn, viðbrögð hans og verk. En föðurmyndin sem Jesús dregur upp sprengir alla ramma hins venjulega fjölskyldulíf, sprengir allt faðerni og móðerni þessar veraldar. Það er ekki faðir af þessum heimi, sem sprettur fram í sögunni heldur hinn himneski FAÐIR. Afstaða þess föður einkennist af yfirfljótandi og markalausri ást, sem umvefur allt og alla.

Iðrun og sátt.

Jesús sagði þessa líkingasögu til að vekja tilheyrendur til íhugunar um guðsafstöðu. Tveir synir. Var annar týndur en hinn bara vís heima? Eða báðir í ruglinu? Týndi sonurinn – hver er hann? Jesús segir okkur sögu um alla, líka okkur, bendir á að við séum öll eins, týnd í einum eða öðrum skilningi. Vinna, eignir og athæfi greina okkur bara að í hinu ytra. Hið innra eru við að leita, reynum að tengja og gleðjast. Hvað skiptir mestu máli í lífinu? Þegar þú ert búinn að tæma alla gleðibikara lífsins getur þú komið til sjálfs þín og séð að allt voru þetta mistök. En Guð sér þig á veginum til lífs og tekur á móti þér. Ekki af því að þú sért búinn að vinna þér inn höfuðstól, heldur af því að Guð elskar þrátt fyrir vitleysur þínar. Guð opnar líka fyrir hinum sem alltaf voru heima – ekki vegna þess hver þú ert, hvað þú átt eða hefur gert, heldur af því að þannig er flóð eða hömluleysi guðlegrar ástar.

Heim

Allir þrá hamingju og að lifa vel, falla í fang elskunnar. En bræður, systur, systkin og fjölskyldur klúðra lífi sínu. En þá er komið að undri hins guðlega. Lífið er ekki búið heldur sprettur líf fram úr dauða. Boðskapur Jesú er fagnaðarerindi og það merkir að nýir möguleikar opnast, öllum er boðið til veislu himins. Guð er ekki lítill, smár, reiður og refsandi dómari heldur elskulind, sem veitir nýtt upphaf. Þegar við erum búin að týna öllu og erum komin á botninn megum við halda heim. Nýr möguleiki. Það er einkenni elskunets Guðs að við þér er tekið. Guð sér þig, finnur þig þegar þú heldur heim til sjálfs þín. „En nú varð að halda hátíð og fagna, því hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn.“

Í Jesú nafni – amen

2019 3sdeftirþrenn B 7. júlí

Myndin sem fylgir þessari íhugun er eftir Oleg Korolev. 

A few words on the text of the day. It is Jesus‘ story about the lost son, the prodigal son. He tricked out his inheritance and went abroad for an expensive life ending in absolute disaster. So when – without money or food – the man realized and admited his awful situation. He decided to return. But he knew that he had lost his former status. The father welcomed him with a feast. But the older son was astonished that the scoundrel, who had been such a pain in the family, was rewarded and redeemed. So what to do with the story? All families have a prodigal son or a daughter, father or mother. All families struggle with how to cope with some loss og disaster. Jesus marvellous story relates to all families of the world. The two guys, the brothers, are important in the drama. The yonger son was a misfit but he decided to depart from his wrongdoing. The older son, with a completely different view, was a lost son too. While just doing right he forgot seeing the possibilites and richness of life. And of cource he is the representative of legalistic way of living, that was the political-cultural message of Jesus. But the message – the sense – of his story concerns the abundance excemplified by the Father. He is greater than all fatherhood in the world. The father in the story is an icon, image of the divine, excuberant, more loving than the sons deserve. Applied to you: However, you spend your wealth or how you have lived your life there is a possibility, an openness. However you have disrespected the depth in your soul, or that which is divine, you are welcome nevertheless. God is not a resenting, grumpy old guy – but overflowing love. When you are lost you are nevertheless seen and cherished.

Lexía: Slm 145.8-13
Náðugur og miskunnsamur er Drottinn,
þolinmóður og mjög gæskuríkur.
Drottinn er öllum góður
og miskunn hans hvílir yfir allri sköpun hans.
Öll verk þín lofa þig, Drottinn,
og dýrkendur þínir vegsama þig.
Þeir segja frá dýrð ríkis þíns
og tala um mátt þinn
til að boða mönnum veldi þitt,
hina dýrlegu hátign konungdæmis þíns.
Konungdæmi þitt varir um allar aldir
og vald þitt stendur frá kyni til kyns.

Pistill: 1Tím 1.15-17
Það orð er satt, og í alla staði þess vert að við því sé tekið, að Kristur Jesús kom í heiminn til að frelsa synduga menn og er ég þar fremstur í flokki. En Guð miskunnaði mér til þess að ég yrði fyrstur þeirra sem Kristur Jesús sýnir allt sitt mikla langlyndi og þar með yrði ég dæmi handa þeim sem á hann munu trúa til eilífs lífs. Konungi eilífðar, ódauðlegum, ósýnilegum, einum Guði sé heiður og dýrð um aldir alda. Amen.

Guðspjall: Lúk 15.11-32
Enn sagði Jesús: „Maður nokkur átti tvo sonu. Sá yngri þeirra sagði við föður sinn: Faðir, lát mig fá þann hluta eignanna sem mér ber. Og faðirinn skipti með þeim eigum sínum. Fáum dögum síðar kom yngri sonurinn eigum sínum í verð og fór burt í fjarlægt land. Þar sóaði hann fé sínu í óhófsömum lifnaði. En er hann hafði öllu eytt varð mikið hungur í því landi og hann tók að líða skort. Fór hann þá og settist upp hjá manni einum í því landi. Sá sendi hann út á lendur sínar að gæta svína og hefði hann feginn viljað seðja sig á drafinu er svínin átu en enginn gaf honum. En nú kom hann til sjálfs sín og sagði: Hve margir eru daglaunamenn föður míns og hafa gnægð matar en ég ferst hér úr hungri! Nú tek ég mig upp, fer til föður míns og segi við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Lát mig vera sem einn af daglaunamönnum þínum. Og hann tók sig upp og fór til föður síns. En er hann var enn langt í burtu sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann. En sonurinn sagði við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Þá sagði faðir hans við þjóna sína: Komið fljótt með hina bestu skikkju og færið hann í, dragið hring á hönd hans og skó á fætur honum. Sækið og alikálfinn og slátrið, við skulum eta og gera okkur glaðan dag. Því að þessi sonur minn var dauður og er lifnaður aftur. Hann var týndur og er fundinn. Tóku menn nú að gera sér glaðan dag. En eldri sonur hans var á akri. Þegar hann kom og nálgaðist húsið heyrði hann hljóðfæraslátt og dans. Hann kallaði á einn piltanna og spurði hvað um væri að vera. Hann svaraði: Bróðir þinn er kominn og faðir þinn hefur slátrað alikálfinum af því að hann heimti hann heilan heim. Þá reiddist eldri bróðirinn og vildi ekki fara inn. En faðir hans fór út og bað hann koma. En hann svaraði föður sínum: Nú er ég búinn að þjóna þér öll þessi ár og hef aldrei breytt út af boðum þínum og mér hefur þú aldrei gefið kiðling að ég gæti glatt mig með vinum mínum. En þegar hann kemur, þessi sonur þinn sem hefur sóað eigum þínum með skækjum, þá slátrar þú alikálfinum fyrir hann. Faðirinn sagði þá við hann: Barnið mitt, þú ert alltaf hjá mér og allt mitt er þitt. En nú varð að halda hátíð og fagna því að hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn.“

Einu sinni var í austri

Hvernig var að alast upp í Kína eftir að Maó komst til valda? Hvernig var líf venjulegs fólks? Hvað gerðist í þorpunum? Hvernig var skipulag aldanna endurstokkað og siðum riðlað með stjórnmálalegum breytingum? Hvað gerði fólk við trú sína? Hversu djúpt ristu breytingarnar út í héruðunum? Hvernig voru fulltrúar kommúnismans og hvernig var tekið á skoðunum fólks sem voru alls konar? 

Uppvaxtarsaga Xiaolu Guo, Einu sinni var í austri, er eiginlega saga Kína síðustu áratugina. Xiaolu fæddist árið 1973. Mamman var í baráttusveit kommúnismans og pabbinn listamaður. Og þar sem Xiaolu var óvelkomið annað barn var hún gefin til fátækra barnlausra bændahjóna. En lífsbarátta þeirra var það hörð að þau gátu ekki séð sér farborða. Í stað þess að bera stúlkuna út fóru þau með hana til föðurforeldra Xiaolu. Afinn og amman bjuggu í sjávarþorpi og þar ólst hún upp fyrstu árin. Afinn drakk, barði ömmuna og var á skjön við samfélagið og tímann. Amman grét, eldaði, fór með sútrurnar sínar og reyndi að verja barnið í hörðum heimi.

Bókin lýsir vel litríkum en erfiðum uppvaxtaraðstæðum. Xiaolu gekk ekki í skóla, en varð snjöll í skóla lífsins þar sem þau náðu lengst sem voru útsjónarsömust. Afinn gafst upp og fargaði sér með því að hella skordýraeitri í búsið sitt. Og þá var komið að því að taka ákvörðun um framtíð stúlkubarnsins. Blóðforeldrarnir komu og náðu í dóttur sína. En þær náðu aldrei neinum tilfinningatakti blóðmóðirin og dóttirin. Meir pabbinn, þó fjarlægur væri flestum, var nær dóttur sinni. Við tók líf í bæ, sem var að breytast úr landbúnaðarþorpi í iðnaðarstórborg.

Xiaolu lifði af í menningarflaumi, námi, kynferðisofbeldi, heimiliskulda, fóstureyðingu, einsemd og eftirsjá. Hún átti í sér persónukjölfestu og einurð, sem fleytti henni alltaf áfram. Svo tók hún ákvörðun um að læra kvikmyndagerð. Og keppti við þúsundir um örfáar námsstöður í kvikmyndaskóla ríkisins. Eftir mikla dramatík komst hún inn og þá lauk bernskunni. Nýtt skeið í lífi Xiaolu Guo hófst í fjölbreytni menningarlífs borgarinnar og áhrifin að vestan heilluðu. Þar á eftir voru svo starfsár hennar í Kína og Englandi, sem er seinni hluti bókarinnar. Sú blóðríka saga verður ekki rakin hér. Það er sagan um austrið í vestrinu.

Einu sinni var í austri er listilega vel skrifuð bók. Hún er laðandi lestrargripur. Bókin gefur innsýn í menningarbreytingar í Kína, veitir skilning á fjölbreytileika mannlífsins, mismunandi þörfum mismunandi héraða, kjörum og kjarabreytingum, áhrifum að utan á kínverska menningu og hópa, vinnubreytingar og baráttu einstaklinganna innan sinna menningarkima. Þessi persónusaga gefur fréttum um Kína mennska ásjónu. Og það er kona sem segir þessa sögu Kína, gefur innsýn í kjör og aðstæður kvenna sem karla, baráttu þeirra, tilfinningar og aðstæður sem voru alls konar. Þessi kvennavinkill gefur sjónarhól að lífi fólks og kjörum þess. Saga um  ást og ástleysi, frelsi og ófrelsi, samskipti og einsemd, áföll, von og sigra. Sagan er sögð af djúpum heilindum og einurð, ást og hugrekki sem ekki hvikar þrátt fyrir sviftingar og ægileg áföll.

Frábær, læsileg og hrífandi bók um lífsbaráttu í Kína á hraðbraut breytinganna. Og bók um að allt er fólki fært, sem tekur stefnu. Jafnvel stórveldið Kína kremur ekki vilja til lífs og frelsis. Fjórar og hálf stjarna af fimm.

Ingunn Snædal þýddi og gerði afar vel. Ég rakst aðeins á tvo frágangshnökra í allri bókinni. Bókaútgáfan Angústúra gefur út. Lof sé útgáfunni, sem hefur metnað að gefa út frábærar bækur um efni utan vestræns samhengis. Angústúra er að verða nútímaútgáfa menningarsjóðs, færir okkur heimsbókmenntirnar heim í hlað. Fimm stjörnur til Angústúru. Og dásamlegt er að njóta sumarfrís líka með því að lesa miklar bækur.

Flýja eða mæta – Trevor Noah og frelsið

Hvað gerum við þegar við verðum fyrir áfalli? Kostirnir eru oftast tveir og báðir erfiðir: Að fara eða vera. Við annað hvort flýjum eða mætum áfallinu. Þegar við flýjum reynum við að losna undan afleiðingunum, tilfinningum, sorg, missi, því sem ekki varð eða rættist, öllu þessu skelfilega eða óþægilega, sem áfallið olli eða opinberaði. En ef við mætum skelfingunni erum við færari um að vinna úr, eflast af eða styrkjast – af því að glímt er við meinið, talað um það, rætt um það og reynt að greina hvað er hægt að læra af því. Við erum aldrei algerlega strand í grískum harmleik. Áfalli getum við mætt í frelsi. 

Í liðinni viku sat ég á grískri strönd. Kliðmjúkur söngur smáöldunnar leið í eyru, birta sótti í sál og ég las bók í skugga ólífutrjánna á ströndinni. Forlagið Angústúra gefur út þrungnar bækur í nýrri ritröð og Elín mín hafði tekið með tvær úr röðinni. Ég fór að lesa uppvaxtarbók Trevor Noah, Glæpur við fæðingu, sem ég vissi ekkert um áður. Bókin er grípandi. Höfundur teiknar vel aðskilnaðarstefnu S-Afríku í framkvæmd. Hann er sonur s-afrískrar, þeldökkrar konu og hvíts, svissnesks föður. Og slíkur blendingur var brot á lögum og drengurinn lenti utan hópa, kerfa og menningarkima og fór líka á mis við nánd föðurins. Og þvílíkur rússíbani stórmála, áfalla og tilfinninga. Höfundur miðlar okkur sýn til fólks og lífsbaráttu þess á breytingartíma í S-Afríku. Honum tekst líka að miðla okkur lokunum, heftingum, tabúum, niðurþrykkingum og fjölda glerþaka. Hvað er til ráða? Og þar er komið að viskunni í þessari fjörmiklu lífsleiknibók.

Trevor Noah lenti í rosalegum málum, en hann var elskaður og það er besta vegarnestið. Hann átti lífsviljandi móður, sem var honum fyrirmynd um frelsi, sjálfstæði, hugrekki, einbeitni og húmor líka. Og Trevor Noah lærði, að maður þarf ekki að draga áföll á eftir sér, er ekki skuldbundinn til að láta sektarkennd og eftirsjá eða afbrot annarra verða aðalmál eigin framtíðar. Hlutverk okkar er að vinna úr áföllum okkar og lifa í frelsi.

Áfallaflóttin býr bara til vælupúka, fórnlömb. En þegar fólk mætir og glímir við er hægt að taka ákvörðun um að sleppa. Það er alltaf val þeirra, sem lenda í áfalli, að sleppa reiðinni gagnvart þeim sem brjóta á manni, hafa skaðað eða kerfum og hópum sem níðast á öðrum. Það er líka hægt að fyrirgefa gungunum sem ekki þora að standa með sannleika eða réttlæti og hlaupa í burtu frá líðendum og þolendum til að bjarga eigin skinni. Frelsi eða fangelsi, skilyrðingar eða opnun.

„Ég hef hlustað á þennan gaur,“ sagði annar sonur minn. „Hann er stjarna í Ameríku og á Youtube.“ Og þá komst ég að því að Trevor Noah hafði ekki bara lifað af og iðkað lífsleikni, heldur líka slegið í gegn sem uppistandari og þáttastjóri. Svo unglingurinn fór að lesa bókina – bókin er alltaf betri!

Mér þótti efnið kjarnmikið veganesti fyrir okkur öll því ekkert okkar sleppur. Við lendum öll í stórum og smáum áföllum. Við líðum margt og mikið en við erum þó aldrei fórnarlömb nema við ákveðum það sjálf. Annað hvort flýjum við eða mætum áfallinu. Við þurfum að viðurkenna og tala um sorgarefni okkar. Trevor Noah og mamma hans sýna, að enginn neyðir okkur til að leika hlutverk fórnarlambsins. Við erum frjáls – jafnvel í ómögulegum aðstæðum og fangelsum anda, menningar og líkama. 

Takk Angústúra fyrir að koma þessari bók út.

Þýðing Helgu Soffíu er góð og ég hikstaði sjaldan í hraðlestrinum. Kynning forlagsins á bók Trevor Noah er á þessari slóð:

https://www.angustura.is/glaepur-vid-faedingu

Glæpur við fæðingu

Stórmerkileg saga uppistandarans og stjórnmálaskýrandans Trevor Noah sem ólst upp í skugga aðskilnaðarstefunnar í Suður-Afríku: Sjálf tilvist hans var glæpur, því samband móður hans og föður af ólíkum hörundslit var refsivert á þeim tíma. Trevor segir á heillandi hátt frá æsku sinni og unglingsárum í samfélagi sem enn er í sárum, fyrstu skrefunum í skemmtanabransanum og trúrækinni móður sem opnaði fyrir honum heiminn.

Trevor Noah (f. 1984) hefur vakið mikla athygli fyrir hárbeitta þjóðfélagsrýni í þættinum The Daily Show í Bandaríkjunum sem hann hefur stýrt frá árinu 2015. Hann er vinsæll uppistandari og má nálgast heimildarmyndir um hann á Netflix. Glæpur við fæðingu var valin ein besta bók ársins af helstu fréttamiðlum Bandaríkjanna þegar hún kom út. Kvikmynd er í bígerð.

„Ástarbréf til einstakrar móður höfundarins.“ – The New York Times

„Lykilrit… því það afhjúpar aðskilnaðarstefnuna… fremur en aðrir nýlegir fræðitextar.“ – The Guardian 

Trevor NoahHelga Soffía Einarsdóttir þýddi

Saumuð kilja 110 x 180 mm 368 blaðsíður.

Besta baðströnd í heimi?

Hver er besta baðströnd í heimi? Ég hef sótt í sjóinn víða. Synt í Kyrrahafinu, Dauðahafinu, víða í Miðjarðarhafi, Eystrasalti og Atlantshafi. Og hef hrifist af góðum ströndum og góðri baðaðstöðu. En tvær strendur eru í uppáhaldi. Í dag kom ég og mitt fólk á baðströnd sem er kannski ein sú besta í heimi. Hún er nærri Sidari á Corfu.

Grísku eyjarnar eru flestar dásamlegar og tvisvar hef ég verið á Krít, sem ég er hrifinn af. En Corfu er græn, líklega grænust grísku eyjanna. Og margar strendur eyjarinnar eru heillandi. Baðströndin við Daphnilla-flóa er afar fjölskylduvæn, hættulaus, hvít og sjaldan nokkur alda, enda sundið milli eyjarinnar og Albaníu fremur þröngt. En Aþena, ráðgjafinn okkar á hótelinu, sagði að ef við færum í ökuferð um norðurhluta Corfu væri eiginlega skylda að fara á sólarlagsströndina við 7th. Heaven Café. Og þangað fórum við m.a. í dag. Dásamlegt veður, stillt, hlýtt, sjórinn tær og heitur, fáir ferðamenn og kyrrð og ró yfir öllu. Gróðurinn fagur, kalk- og sandsteinsklettarnir glæsilegir, svölurnar heilluðu, bátar liðu hjá eins og í draumhemi og mitt fólk lék sér í tæru vatninu. Og við vorum mun lengur en við höfðum skipulagt. Niðurstaðan var: Þetta er besta baðströnd í heimi!

Ef þú ferð með fólkið þitt um Corfu er ráð að fara til Sidari og alla leið út á strönd, taka baðfötin með, fara í sjóinn, njóta og heimsækja svo kokkana í kaffihúsinu sem kennt er við sjöunda himin. Og ströndin var áttundi himininn.