Greinasafn fyrir merki: Þingvellir

Sjö eða níu halar – sagan um Skötutjörn

Austan við Þingvallakirkju er falleg tjörn og gjá í henni miðri. Tjörnin heitir Skötutjörn og nafnið verður skiljanlegt ef lögun hennar er skoðuð. Um tjörnina er til saga, sem er úr flokki þjóðsagna. Slíkar sögur miðla ekki aðeins þurrum fræðum, heldur skemmta og miðla oft lífsspeki. Hið yfirborðslega verður tilefni til að tala um hið innra. Hversdagsleg mál eru færð í sögur til lærdóms og góðs lífs. Svo er einnig með söguna um Skötutjörn. 

Sagt var, að eitt sinn hafi Skötugjáin náð undir eldhúsið á Þingvallabænum og fiskur var í gjánni. Matarkistan var betri en nokkur kæliskápur samtíðar því ekki þurfti fiskbirgja og Bónus til að fylla á. Í eldhúsinu var hlemmur, sem rennt var til hliðar þegar fisk vantaði í soðið og færi var rennt þar niður. Ekki mátti þó veiða nema til einnar máltíðar. Allt skyldi gert í hófi og þar með er skiljanleg auðlindasiðfræði sögunnar.

Ágjarn maður settist að á Þingvöllum og sinnti ekki reglunni um að veiða skyldi samkvæmt þörf. Hann veiddi með græðgi og að lokum festi hann öngul sinn í stórskepnu. Dró karl nú ákaft og þegar hann sá skepnuna varð honum ljóst, að hann hafði sett í skötu með sjö eða níu hala. Var þetta jafnvel sá vondi sjálfur? Eftir mokveiðina hefur síðan ekkert veiðst í Skötutjörn. Hún varð fisklaus, blessunin var misnotuð. Gjáin liggur ekki lengur undir eldhús bæjarins og þessi endurnýjanlega matarkista varð ekki til nokkurs magagagns.

Í sögunni er líka tjáður mannskilningur meðalhófs, jafnvægis og ábyrgðar. Sama stefna er túlkuð í trúarhefð þjóðarinnar t.d. Vídalínspostillu og Passíusálmum. Kristnin hefur um aldir innrætt mönnum hófstillingu með litríkum viskusögum. Græðgi skilar aðeins stundarfró en engri varanlegri hamingju. Fiskimaðurinn á Þingvöllum var sjálfhverfur. Hann veiddi án fyrirhyggju, en varð svo fyrir ískyggilegri reynslu í ati græðginnar. Þá fór hann loksins að hugsa. Utan sjálfhverfs æðis mætum við sjálfum okkur og þar með Guði.

 Drögum við að okkur í ágirnd og eignasókn? Erum við fólk græðgi og þar með ófara? Hvenær er mikið nóg? Eða erum við tilbúin að íhuga undrið, lífslánið, sem við njótum á hverjum degi? Hvað eða hver veldur gæsku og elsku? Er græðgi góð? Nei, hún er með sjö eða níu hala ófara. Höldum til veiða og gætum að hófi og stillingu.

Birtist í Vísi. Kennimyndin er af myndskreytingu um Skötutjörn í gestastofu þjóðgarðsins á Þingvöllum við Hakið.

 

Norsku konungshjónin og skemmtilegasta heimsóknin

Ég sá í fréttum að Haraldur 5. konungur var fluttur á spítala í Malasíu. Hjartsláttur kóngs var veikur og nú er hann kominn með gangráð. Norsk herflugvél flutti Harald síðan heim til Noregs. Fréttin rifjaði upp liðlega þrjátíu ára minningu.

Ég hitti Harald og konu hans einu sinni og þá voru þau hjartanlega kát. Konungshjónin heimsóttu Þingvelli 8. september 1992 í opinberri heimsókn. Þá bjó ég og fjölskylda mín í Þingvallabæ og hlutverk okkar var að gera Þingvöllum gott til og þjóna komufólki hvort sem það voru hópar skólabarna, Þingvellingar eða aðrir Íslendingar að vitja helgistaðar þjóðarinnar, erlendir túristar eða gestir Íslands í opinberum heimsóknum.

Veður var bjart þegar Vigdís forseti, Davíð forsætisráðherra, Jón Baldvin utanríkisráðherra og fylgdarlið komu með konungi og drottningu Norðmanna. Kröftugt norðanrok stytti ávarp Hönnu Maríu þjóðgarðsvarðar og stansinn á Hakinu. Veðrið var slíkt að galsi hljóp í mannskapinn á göngunni niður Almannagjá og mjög slaknaði á formlegheitum hinnar opinberu heimsóknar. Davíð var í smitandi stuði. Jóni Baldvini var strítt fyrir brúnar og slitnar flauelsbuxur en hann tók gamninu vel og kenndi um grasekkilsstandi.

Konungshjónin spurðu um náttúru Þingvalla, þinghald, tengslin við norska löggjöf og framvindu sögunnar. Í Þingvallakirkju var hlé fyrir rokinu og hópurinn gekk í kirkju. „Ertu norskur eða af norskum ættum?“ spurði kóngur mig í ræðulok því hann undraðist norskan framburðinn. Ég upplýsti hann ég hefði verið við nám í Noregi í tæplega eitt ár og hefði átt heima steinsnar frá Slottet í miðborg Osló. „Það er skýringin“ sagði hann brosandi. 

Svo var haldið í Þingvallabæ. Í frétt Moggans daginn eftir var ranglega hermt að farið hafi verið í ráðherrabústaðinn sem þá voru tvær syðstu burstir bæjarins. Stofa forsætisráðherrans var of lítil svo hádegisverðurinn var í stofunni okkar megin í þessu parhúsi þess tíma. Og það var gaman. Maturinn var góður og allir lögðu til samtals. Konungshjónin skildu að íslensk gleðisókn hefði vikið formlegheitum til hliðar og þau tóku þátt í gamninu. Ég dáðist að því hve Vigdís hélt snilldarvel saman öllum þráðum. Hún tilkynnti að vegna roks yrði að fella niður heimsókn í Reykholt. Haraldur hafði hlakkað til en skildi máltækið að þó kóngur vildi sigla myndi byr ráða. Veðurhamurinn lengdi því hádegisverðinn í stofunni heima. 

Haraldur gekk úr Þingvallabæ hlægjandi og Sonja drottning laut að mér og sagði: „Þetta er skemmtilegasta opinbera heimsóknin sem við höfum nokkurn tíma notið. Takk fyrir.“ Já, slíkt var gamanið. Ég lærði þennan dag að veður skiptir minnstu máli fyrir hve vel heppnaðar ferðir eru. Aðalmálið er hvernig unnið er úr og hvernig áhöfnin bregst við. Það var skemmtilegt að taka á móti norsku konungshjónunum. Ég vona að hjartsláttur Haraldar 5. verði sem jafnastur og bestur og hann megi hlægja sem mest. Konungshjónin lærðu þennan septemberdag að á Íslandi er oftast gaman í vondu veðri. Þá falla álög mannamunarins af fólki. 

Meðfylgjandi hér fyrir neðan er skjáskot af fréttum Mbl af opinberri heimsókn norsku konungshjónanna.  Myndin hér að ofan er af Sögu, Þórði og Kötlu, börnum mínum í þjóðlegum búningnum, þegar forseti Þýskalands kom í heimsókn. 

101 Öxará

Hvað tekur þú með þér inn í haust, myrkur og vetur? Hvaða liti, hljóð, sögur, orð og upplifanir eru þitt vetrarnesti? Ég nýt þeirrar blessunar með konu minni að horfa líka á veröldina með ungum drengjum okkar. Við reynum að miðla þeim visku og vitum að á þessum árstíma eru Þingvellir aðalstaðurinn til upplifana. Við notuðum því laugardaginn til pílagrímsferðar inn í ríki blámans, langsýna og skýrleika. Gjárnar seiddu, hægur Silfrustraumur heillaði og haustlitir glöddu. Við skokkuðum upp hleðslugötuna upp Hallann og í Stekkjargjá og síðan að úðandi Öxarárfossi.

Eftir gleðihopp í gjánni héldum við svo niður að breiðunni við Neðrifoss. „Nú ætla ég að sýna ykkur undur lífsins” sagði ég við karlana mína. Við læddumst öll að ánni og viti menn. Þarna var stór urriði, sem rauk af stað og sprettbunga myndaðst á grunnsævinu. „Vá” hann er stór. „Þeir eru fleiri hér einhvers staðar,” sagði pabbinn, „það glittir í eitthvað þarna við flúðina.” Við fórum upp á brúna við Drekkingarhyl og undrið blasti við. Stór torfa fiska brosti þarna í glitrandi vatninu, kviðmiklir og bolþykkir. Sporðarnir voru sem skóflur. Ég taldi 101 stykki, kannski voru sumir þessara risafiska nærri tuttugu pund?

Ég hef fylgst vel með Öxará í tvo áratugi og ástalífið þar fer batnandi. Mikilvægar riðstöðvar við útfall Sogsins við Kaldárhöfða voru eyðilagðar við gerð Steingrímsstöðvar fyrir hálfri öld. Hinn stórvaxni urriðastofn vatnsins hrundi, en hefur braggast síðustu ár með hjálp manna. Fyrir tuttugu árum voru aðeins nokkrir fiskar sem komu í Öxará til að efla lífið, en nú má vænta tvö til fjögur hundruð ofurfiska í ána hvert haust. Það er því sjón að sjá boltana. Nú er ástalífið í gerðinni í Öxará og lífsgleðin magnast.

Fyrst er að kenna drengjum á undur lífsins, að við megum njóta og taka með okkur svona upplifun inn í okkur og veturinn. Svo þurfum við líka að vita að menn geta skemmt eða verndað. Ég sagði þeim ekkert um Drekkingarhyl í þessari ferð, en naut þess fremur að tala og hugsa um þessa lífiðju, gleði og vonir neðan við fossinn hjá hyl grimmdarinnar. Töfrar lífsins þrátt fyrir dauða. Í nánd við Drekkingarhyl spírar lífið í þessari Lífbreiðu. Neðan við Drekkingarhyl eru stangveiðar bannaðar en upplifanir leyfðar. Dauðinn dó en lífið lifir – góð viska fyrir veturinn og allt líf mannabarna.

 Þessi pistill birtist upprunalega í Vísi 5. október 2010. 

Árni Johnsen – in memoriam

Þegar Árni Johnsen er horfinn sjónum okkar þyrlast upp minningamyndir af honum. Þegar ég sá hann í fyrsta sinn festist sú mynd í huga minn. Árni stóð á gangstéttinni Miðbæjarskólamegin við Laufásveginn, skammt frá Þrúðvangi. Hann stóð þarna í ljósum fötum og í furðulega háum leðurstígvélum. Ekki bara töffari heldur eiginlega sem grískur guð. Myndin af Árna brenndist í huga minn. Nærri hálfri öld síðar finn ég enn miðbæjarlyktina, man veðrið, þessi stórkostlegu stígvél – og Árna.

Svo kynntumst við síðar. Árni hafði gaman af forvera mínum sr. Valgeiri í Ásum og skrifaði um hann mikla grein í Moggann í febrúar árið 1982. Sumir sóknarmenn í Ásaprestakalli tóku upp þykkjuna fyrir prest sinn og töldu að Árni hefði ekki átt að skrifa allt sem kom fram í greininni. Skaftfellingar skrafa heima en bera ekki sögur á torg og alls ekki út fyrir sýslumörk og töldu að greinin hefði átt að vera með skaftfellska laginu. Þegar ég sagði Árna það síðar hló hann og viðurkenndi að hans stíll væri annar en austan sands. 

Ég hitti Árna oft í Skálholti og alltaf var hann auðfúsugestur. Svo þegar ég og mitt fólk fluttum í Þingvallabæ hafði Árni samband og vildi halda fund í stofu þjóðgarðsvarðar. Árni var þá í fundaham og hélt tuttugu fundi á Suðurlandi. Þar sem Þingvallabærinn var eins konar félagsheimili sveitunganna varð niðurstaðan að opna Árna bæinn. En hvellur varð á Alþingi vegna áforma Árna um fundaherðferðina og ekki síst að hann ætlaði að funda í Þingvallabæ. En Árni vissi hvað hann var að gera og mótmælin á Alþingi urðu til að mun fleiri sóttu fundina en annars hefði orðið. Svo var hátíðarfundur um efnið hagræðingu og bjartsýni í stofunni okkar þann 1. desember 1993. Þingforsetinn Salóme Þorkelsdóttir og Björn Bjarnason, þá alþingismaður, héldu góðar tölur auk Árna. Bekkurinn var þröngt setinn en fundurinn var bæði eftirminnilegur, efnislega ríkulegur og ákaflega skemmtilegur. Sigurður Jónsson fréttaritari Mbl. sagði frá í sínu blaði og tók meðfylgjandi mynd utan við Þingvallabæ í fundarlok.

Ég mat mjög dugnað Árn Johnsen, frumkvæði, eljusemi, áræðni og glaðværð. Hann var Eyjum og Suðurlandi dugmikill þingmaður. Svo var alltaf skemmtilegt að vera þar sem Árni var og söngur. Við gerðum okkur flest grein fyrir að hann fór stundum fram úr sér og reisti sér hurðarás um öxl sem var vont. En hrífandi og frumlegur var hann. Síðast hitti ég hann þegar ég skírði dótturdóttur hans. Þá var hann kyrr, íhugull og þakklátur fyrir ungviðið og afkomendur sína. Þar var hamingjumaðurinn.   

Þjóðhátíðin í Eyjum er aðeins sem sýnishorn og dauft dæmi himingleðinnar. Það sefar að vita af Árna í söngdýrðinni hið efra – og mér finnst eins og hann sé kominn í ljósu og háu leðurstígvélin. Þannig sé ég hann í birtunni.

Guð geymi Árna og styrki Helgu Brá og Þórunni Dögg, dætur hans, Halldóru eiginkonu Árna, ástvini og afkomendur. 

Mynd Sigurðar Jónssonar sem varðveitt er af Héraðsskjalasafni Árnesinga sýnir nokkra Þingvellinga sem sóttu fundinn 1. des 93. Nokkur eru látin – Guð geymi þau og líkni okkur sem lifum.

 

Rúnar Reynisson

Getur það verið? Er Rúnar Reynisson raunverulega sextugur? Það getur varla verið. Hann sem er eins og unglingur! Jú, mikið rétt hann fæddist á árinu 1962. Sextugur og sívökull öðlingur.

Ég vissi af Rúnari frá unglingsaldri en kynntist honum fyrst vel þegar við vorum báðir starfsmenn þjóðgarðins á Þingvöllum. Hann var landvörður, gekk í öll verk og var alltaf jafn brattur og ötull. Honum mátti treysta til smárra verka sem stórvirkja. Ég minnist næturvaktar fyrstu helgar í júlí þegar unglingarnir í Reykjavík fengu fyrstu útborgun sumarsins og ákváðu að breyta þjóðgarðinum í útihátíð. Þá var gott að njóta ráðsnilldar Rúnars. Hann horfði óhræddur í augu drukkinna unglinga og hjálpaði þeim að finna svefnpokana sína. Hann bognaði ekki undan hrópum dekraðs stráks úr bænum sem hótaði okkur að pabbi hans myndi reka okkur úr starfi á Þingvöllum. Pabbinn alvaldi kom og sótti son sinn og bað okkur margfaldlega afsökunar á látunum í syninum. Rúnar hélt húmornum í stórræðunum, lægði öldur, kom fólki til hjálpar og leysti alla hnúta greiðlega og farsællega. Á Þingvöllum varð Rúnar meira en landvörður, nánast landvættur. Þaðan í frá vissi ég að Rúnar væri lífslistamaður.

Það kom mér ekki á óvart að Rúnar varð skapandi kirkjumaður. Guðfræðinámið kom honum að gagni í fræðslustarfi kirkjunnar. Hann þorði að hugsa og spyrja nýrra spurninga um starfshætti kirkjunnar og guðfræði. Hann var í framvarðasveit þeirra sem efldu fjölskyldustarf þjóðkirkjunnar á níunda áratug síðustu aldar og síðan. Það var Nessöfnuði mikið happ að Rúnar kom til starfa í Neskirkju. Hann var og hefur verið burðarás í kirkjustarfi í Vesturbænum. Þegar sóknarnefnd og prestum Neskirkju varð ljóst hve fjölhæfur Rúnar var breyttist starf hans. Auk fjölskyldustarfsins var honum falið að stýra skrifstofu kirkjunnar. Skrifstofustjórinn Rúnar hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Neskirkju á þriðja áratug.

Ég var svo lánssamur að starfa með Rúnari í Neskirkju í áratug. Ég dáðist að geðprýði hans í miklum önnum, fjölþættum gáfum hans, óbrigðulum húmor, æðruleysi gagnvart kjánaskap samferðafólks eða sprikli okkar félaga hans, sköpunarkrafti og einbeittum metnaði hans fyrir hönd starfa sinna og safnaðar og heilindum og helgun í starfi.

Rúnar hefur alla tíð kunnað að tjá sig. Af því hann var frjór og íhugull greinandi hafa margar hugmyndir hans ratað í hugleiðingar og prédikanir presta Neskirkju. Margt af því sem Rúnar lagði til í fermingarfræðslu og öðru fræðslustarfi varð að veruleika af því hann gat útfært og sá leiðir.

Á seinni árum hefur Rúnar haft möguleika á að vinna að listsköpun. Tvær myndlistarsýningar hans í Neskirkju, eins og ólíkar og þær eru, hafa opinberað þroskaðan listamann.

Vegna þess hve náið við unnum saman í áratug fylgdist ég með fjölskyldumanninum Rúnari. Honum hefur alla tíð verið umhugað um að þjóna fólkinu sínu og gert með elskusemi og hlýju. Nú hefur hann komið börnum sínum til manns og manndóms. Ástin á heima hjá Rúnari.

Við sem höfum notið Rúnars Reynissonar eigum honum mikið að þakka – ekki aðeins samverkafólk í Neskirkju heldur söfnuður hennar, vesturbæingar og þjóðkirkjan. Fyrir hönd okkar Elínar Sigrúnar og fjölskyldu segi ég: Takk Rúnar Reynisson fyrir gjöfula samfylgd. Guð laun.

18. nóvember, 2022. Myndir sáþ.