Greinasafn fyrir merki: Þingvallabær

Árni Johnsen – in memoriam

Þegar Árni Johnsen er horfinn sjónum okkar þyrlast upp minningamyndir af honum. Þegar ég sá hann í fyrsta sinn festist sú mynd í huga minn. Árni stóð á gangstéttinni Miðbæjarskólamegin við Laufásveginn, skammt frá Þrúðvangi. Hann stóð þarna í ljósum fötum og í furðulega háum leðurstígvélum. Ekki bara töffari heldur eiginlega sem grískur guð. Myndin af Árna brenndist í huga minn. Nærri hálfri öld síðar finn ég enn miðbæjarlyktina, man veðrið, þessi stórkostlegu stígvél – og Árna.

Svo kynntumst við síðar. Árni hafði gaman af forvera mínum sr. Valgeiri í Ásum og skrifaði um hann mikla grein í Moggann í febrúar árið 1982. Sumir sóknarmenn í Ásaprestakalli tóku upp þykkjuna fyrir prest sinn og töldu að Árni hefði ekki átt að skrifa allt sem kom fram í greininni. Skaftfellingar skrafa heima en bera ekki sögur á torg og alls ekki út fyrir sýslumörk og töldu að greinin hefði átt að vera með skaftfellska laginu. Þegar ég sagði Árna það síðar hló hann og viðurkenndi að hans stíll væri annar en austan sands. 

Ég hitti Árna oft í Skálholti og alltaf var hann auðfúsugestur. Svo þegar ég og mitt fólk fluttum í Þingvallabæ hafði Árni samband og vildi halda fund í stofu þjóðgarðsvarðar. Árni var þá í fundaham og hélt tuttugu fundi á Suðurlandi. Þar sem Þingvallabærinn var eins konar félagsheimili sveitunganna varð niðurstaðan að opna Árna bæinn. En hvellur varð á Alþingi vegna áforma Árna um fundaherðferðina og ekki síst að hann ætlaði að funda í Þingvallabæ. En Árni vissi hvað hann var að gera og mótmælin á Alþingi urðu til að mun fleiri sóttu fundina en annars hefði orðið. Svo var hátíðarfundur um efnið hagræðingu og bjartsýni í stofunni okkar þann 1. desember 1993. Þingforsetinn Salóme Þorkelsdóttir og Björn Bjarnason, þá alþingismaður, héldu góðar tölur auk Árna. Bekkurinn var þröngt setinn en fundurinn var bæði eftirminnilegur, efnislega ríkulegur og ákaflega skemmtilegur. Sigurður Jónsson fréttaritari Mbl. sagði frá í sínu blaði og tók meðfylgjandi mynd utan við Þingvallabæ í fundarlok.

Ég mat mjög dugnað Árn Johnsen, frumkvæði, eljusemi, áræðni og glaðværð. Hann var Eyjum og Suðurlandi dugmikill þingmaður. Svo var alltaf skemmtilegt að vera þar sem Árni var og söngur. Við gerðum okkur flest grein fyrir að hann fór stundum fram úr sér og reisti sér hurðarás um öxl sem var vont. En hrífandi og frumlegur var hann. Síðast hitti ég hann þegar ég skírði dótturdóttur hans. Þá var hann kyrr, íhugull og þakklátur fyrir ungviðið og afkomendur sína. Þar var hamingjumaðurinn.   

Þjóðhátíðin í Eyjum er aðeins sem sýnishorn og dauft dæmi himingleðinnar. Það sefar að vita af Árna í söngdýrðinni hið efra – og mér finnst eins og hann sé kominn í ljósu og háu leðurstígvélin. Þannig sé ég hann í birtunni.

Guð geymi Árna og styrki Helgu Brá og Þórunni Dögg, dætur hans, Halldóru eiginkonu Árna, ástvini og afkomendur. 

Mynd Sigurðar Jónssonar sem varðveitt er af Héraðsskjalasafni Árnesinga sýnir nokkra Þingvellinga sem sóttu fundinn 1. des 93. Nokkur eru látin – Guð geymi þau og líkni okkur sem lifum.