Greinasafn fyrir merki: Jón Baldvin Hannibalsson

Norsku konungshjónin og skemmtilegasta heimsóknin

Ég sá í fréttum að Haraldur 5. konungur var fluttur á spítala í Malasíu. Hjartsláttur kóngs var veikur og nú er hann kominn með gangráð. Norsk herflugvél flutti Harald síðan heim til Noregs. Fréttin rifjaði upp liðlega þrjátíu ára minningu.

Ég hitti Harald og konu hans einu sinni og þá voru þau hjartanlega kát. Konungshjónin heimsóttu Þingvelli 8. september 1992 í opinberri heimsókn. Þá bjó ég og fjölskylda mín í Þingvallabæ og hlutverk okkar var að gera Þingvöllum gott til og þjóna komufólki hvort sem það voru hópar skólabarna, Þingvellingar eða aðrir Íslendingar að vitja helgistaðar þjóðarinnar, erlendir túristar eða gestir Íslands í opinberum heimsóknum.

Veður var bjart þegar Vigdís forseti, Davíð forsætisráðherra, Jón Baldvin utanríkisráðherra og fylgdarlið komu með konungi og drottningu Norðmanna. Kröftugt norðanrok stytti ávarp Hönnu Maríu þjóðgarðsvarðar og stansinn á Hakinu. Veðrið var slíkt að galsi hljóp í mannskapinn á göngunni niður Almannagjá og mjög slaknaði á formlegheitum hinnar opinberu heimsóknar. Davíð var í smitandi stuði. Jóni Baldvini var strítt fyrir brúnar og slitnar flauelsbuxur en hann tók gamninu vel og kenndi um grasekkilsstandi.

Konungshjónin spurðu um náttúru Þingvalla, þinghald, tengslin við norska löggjöf og framvindu sögunnar. Í Þingvallakirkju var hlé fyrir rokinu og hópurinn gekk í kirkju. „Ertu norskur eða af norskum ættum?“ spurði kóngur mig í ræðulok því hann undraðist norskan framburðinn. Ég upplýsti hann ég hefði verið við nám í Noregi í tæplega eitt ár og hefði átt heima steinsnar frá Slottet í miðborg Osló. „Það er skýringin“ sagði hann brosandi. 

Svo var haldið í Þingvallabæ. Í frétt Moggans daginn eftir var ranglega hermt að farið hafi verið í ráðherrabústaðinn sem þá voru tvær syðstu burstir bæjarins. Stofa forsætisráðherrans var of lítil svo hádegisverðurinn var í stofunni okkar megin í þessu parhúsi þess tíma. Og það var gaman. Maturinn var góður og allir lögðu til samtals. Konungshjónin skildu að íslensk gleðisókn hefði vikið formlegheitum til hliðar og þau tóku þátt í gamninu. Ég dáðist að því hve Vigdís hélt snilldarvel saman öllum þráðum. Hún tilkynnti að vegna roks yrði að fella niður heimsókn í Reykholt. Haraldur hafði hlakkað til en skildi máltækið að þó kóngur vildi sigla myndi byr ráða. Veðurhamurinn lengdi því hádegisverðinn í stofunni heima. 

Haraldur gekk úr Þingvallabæ hlægjandi og Sonja drottning laut að mér og sagði: „„Þið eruð svo fullkomlega afslöppuð í kátínu ykkar. Þetta er skemmtilegasta opinbera heimsóknin sem við höfum nokkurn tíma notið. Takk fyrir.“ Já, slíkt var gamanið. Ég lærði þennan dag að veður skiptir minnstu máli fyrir hve vel heppnaðar ferðir eru. Aðalmálið er hvernig unnið er úr og hvernig áhöfnin bregst við. Það var skemmtilegt að taka á móti norsku konungshjónunum. Ég vona að hjartsláttur Haraldar 5. verði sem jafnastur og bestur og hann megi hlægja sem mest. Konungshjónin lærðu þennan septemberdag að á Íslandi er oftast gaman í vondu veðri. Þá falla álög mannamunarins af fólki. 

Meðfylgjandi hér fyrir neðan er skjáskot af fréttum Mbl af opinberri heimsókn norsku konungshjónanna.  Myndin hér að ofan er af Sögu, Þórði og Kötlu, börnum mínum í þjóðlegum búningnum, þegar forseti Þýskalands kom í heimsókn.