Ísland, Þorleifur jarlaskáld og stóru draumarnir

Þorleifur hét maður, hann var vígamaður og skáld og lifði fyrir  meira en 1000 árum. Um hann var fléttaður skemmtilegur þáttur, Þorleifsþáttur jarlaskálds, sem er í safni Íslendingaþátta. Þorleifur var fæddur á Íslandi og leitaði sér frama erlendis. Honum varð vel ágengt í þeim efnum. Hann var mikill fyrir sér en ekki allra, átti í útistöðum við jarl í Noregi og konung í Danmörk og notaði skáldagáfuna til áhrifa. Hann var raunar svo mikið kraftaskáld hann gat orkt kláða og óværu yfir menn og óvinir hans eða mótstöðumenn misstu jafnvel hár og skegg af hans völdum og með fulltingi skáldskaparins. Þorleifur bakaði sér óvild og óvinur hans sendi leigumorðingja til Íslands til að myrða hann. Þorleifur var veginn á Þingvöllum og var þar heygður. Haugur hans var þekktur sem örnefni og er nærri þar sem nú er vegurinn heim á Þingvallastað. 

Hallbjörn smala dreymir skáld

Víkur þá sögunni að smalanum Hallbirni á Þingvöllum. Honum var oft hugsað til mikilmennisins og hélt sig oft nærri haugnum og svaf jafnvel á honum um nætur. Kom Hallbirni í hug að lofa haugbúann með dýru kvæði. En smalinn var ekki skáld og átti því erfitt með að semja til heiðurs skáldinu svo sómi væri að. En hann náði þó að semja fyrstu línu af kvæði sínu, fyrsta vísuorðið, sem hann flutti haugbúanum aftur og aftur. Það hljóðar svona: „Hér liggur skáld.” En meira megnaði hann ekki og hélt þó skáldskapariðju sinni áfram og langaði til að bæta meiru við þetta eina: „Hér liggur skáld.”

Þorleifur jarlaskáld var enginn gunga í lífinu og það er sem haugbúanum hafi leiðst andleg teppa smalans. Nótt eina sofnaði smalinn og dreymdi að haugurinn opnaðist og glæsilegur maður kæmi út og talaði til hans á þessa leið: „Hér liggur þú og vildir kveða lof um mig, sem þér er ekki gefið. Nú er annað hvort að þú munt verða skáld, en hætta ella þessum tilraunum. Ég mun kveða vísu. Ef þú manst hana þegar þú vaknar muntu verða þjóðskáld og yrkja lof um höfðingja.“ Síðan fannst smalanum að haugbúinn bæði togaði í tungu hans og flytti honum gott kvæði. Smalinn vaknaði, mundi kvæðið, fór heim í bæ og sagði frá. Allt gekk eftir og smalinn hlaut lof, heima og erlendis. Og gott orð þjóðskáld!

Haugbúinn og smalinn

Þátturinn um Þorleif jarlaskáld er ritaður af kristnum manni – það sést af orðfæri og siðaboðskap þáttarins. Þetta er ævintýri og væntanlega setta saman sem skýring á örnefni á Þingvöllum (etiólogísk saga). Nokkur grunnstef hafði skrifarinn, sem hann gerði úr skemmtilega flækju. Upp af merkingarhafi þáttarins rísa þeir svo tveir haugbúinn og smalinn. Annars vegar fjármaðurinn, sem við yfirsetu dreymdi stóra drauma. Staða hans var slík, að honum voru allar bjargir bannaðar nema að dreyma. Svo leitaði hann athvarfs hjá haugbúanum. Og svo kom þrástefið og draumastef hans:„Hér liggur skáld.“ Svo má æfa að auminginn verði öflugur. Undrið varð. Skáldið rauf þögn og friðarhöfn sína, dró úr stráknum tunguna og dengdi yfir hann kvæði. Þar með var honum gefinn skáldskapur, sem var og er lykill að öllum veröldum. Saga smalans var saga um draum Íslendinga í ellefu hundruð ár, stílfærð saga, en þó táknsaga um draum aðkrepptrar þjóðar. Þetta er saga til íhugunar og brýningar.

Við vorum

Menningarstíll þessarar þjóðar var löngum að liggja á haug fortíðar, mæra gullöld, leita fyrirmynda í þátíð – helst löngu liðinni fortíð. Og þó fjárástin hafi búið í mörgum dreymdi líklega marga smalana um að siga fé út í buskann í síðasta sinn, hleypa heimdraga, vinna lönd og afla sér virðingar. Þjóð okkar Íslendinga var sem sveinninn í margar aldir og stamaði sama stefið: Við vorum þjóð, við vorum menn, við vorum skáld. En ekkert gerðist, draumurinn um ljóðið lifði, um glæsileika, auð og frægð. Það er draumurinn um manndóm, um skapandi sjálfstæði, um kyngi orðs, að lífið er meira en brauðstrit og hlaup á eftir rollum. Hér liggur skáld, hér liggur þjóð. Undrið varð. Íslensk þjóð varð sjálfstæð og stofnaði eigið lýðveldi. Síðan hefur verið togað í tungu á fólki, æfingar í sjálfstæðistilburðum hafa skilað skoplegum furðugjörningum á ýmsum haugum, sigrum í sumu – en líka óskáldlegum ósigrum. Það tekur langan tíma fyrir þjóð að æfa sig í sjálfsögðum málum frelsisins, í sjálfstæði – að vera þjóð. 

Verkefni þjóðar

Ekkert ríki lifir án gilda. Engin menning þroskast án merkingarvefs og engin mannvera getur orðið mennsk án þess að klæðast því sem menning gefur. Hvað er menning okkar og hvað verður okkur til hjálpar? Hvernig reiðir trú af og þeim gildum sem kristnin hefur nært þjóð okkar með í á annað þúsund ár. Framundan er meiri fjölbreytni í trúarefnum á Íslandi en verið hefur. Ég hef ekki áhyggjur af fólki, sem aðhyllist aðrar trúarhugmyndir en hefðbundnar kristnar. En ég óttast skeytingarleysi gagnvart trú og gildum og fólki sem fellir groddadóma um trúarleg efni, heldur fram kjánafullyrðingum þvert á raunveruleika og grefur undan virðingu fyrir gildum. Virðum aukna fjölbreytni, en látum ekki ruglast af groddatúlkun á trú og siðum, gildum og gæðum. Verum raunsæ og látum ekki blekkjast af andróðri gegn kristinni trú, kristnum siðalærdómi, kristinni mannvirðingu og kristnu raunsæi. Íslensk þjóð hefur þörf fyrir þann boðskap til lífs.

Fortíðin er liðin, skáld fortíðar liggja í haugum sínum og gröfum. Börn samtíðar dreymir nýja drauma og vilja gjarnan yrkja nýjan tíma með gjörðum sínum. Smalarnir eru margir, sem vilja búa til framtíð úr eigin smæð og smekk. En við megum aldrei tapa sambandinu við gildi fortíðar, annars fer illa. Við eigum ekki gefa eftir hina kristnu mannsýn og jákvæðu heimssýn, hið kristna líf – þá fer hörmulega. En ef við hins vegar munum ljóð fortíðar, ljóð landsins, munum og iðkum lífsvisku Jesú Krists í vöku okkar og verkum þá mun farnast vel. Þá verðum við skáld, þá verðum við fullveðja, þá náum við eðlilegum þroska sem mun skila okkur því sem við viljum vera og lifa vel.