Greinasafn fyrir merki: siðferði

Jón Vídalín +300

Vídalínspostilla er höfuðrit íslenskrar kristni síðari alda við hlið Passíusálma Hallgríms Péturssonar. Passíusálmarnir eru enn lesnir og reglulega endurútgefnir. Vídalínspostilla var mikið lesin í nær tvær aldir. En postillan hefur í seinni tíð ekki notið sömu vinsælda og áður. Er Vídalínspostilla aðeins vitnisburður um liðinn tíma eða hefur hún enn eitthvað gildi? Þó viðmið fólks hafi breyst og málfar okkar sé annað er bókin klassík.

Þrjú hundruð ár eru liðin frá dauða Jóns Vídalíns sem samdi postilluna. Hann lést 30. ágúst árið 1720. Æfi Jóns Vídalíns var litrík. Þegar hann lauk námi frá Skálholtsskóla var um hann sagt að hann væri borinn til stórvirkja. Jón var stefnufastur maður mikilla hæfileika og varð einn mesti ræðusnillingur Íslendinga. Hann fæddist á Görðum á Álftanesi, naut góðrar bernsku en missti föður sinn aðeins ellefu ára. Þá tóku við þeytings- og mótunarár. Hann var sendur víða, austur á Fáskrúðsfjörð, undir Eyjafjöll, að Þingvöllum, vestur í Selárdal og út í Vestannaeyjar. Jón mannaðist og menntaðist og fór til náms í Kaupmannahöfn. Eftir að hafa flækst í hermennsku kom hann út til Íslands til prestsþjónustu og varð einn yngsti biskup Íslendinga. Postilluna gaf hann út og af miklum metnaði á árunum 1718-20. Ræðustef postillunnar tengjast reynslu höfundarins. Sjúkdómar herjuðu á landsmennn og stjórnvöld brugðust í mörgu. Jón sá á eftir báðum börnum sínum í dauðann. Vídalínspostilla speglar lífsreynslu hans, háska fólks og þjóðaraðstæður en líka þroskaðan mann sem hafði unnið heimavinnuna sína.

Og hvert er svo gildi Vídalínspostillu? Málfar hennar er safaríkt og inntakið lífshvetjandi. Jón Vídalín hafði gaman af stóryrðum og yddaði til að ná eyrum fólks. Orðfæri postillunnar hafði áhrif á málnotkun tilheyrenda og lifði meðal þjóðarinnar. Ræðurnar eru kraftmiklar, snjallar, vekjandi og skemmtilegar aflestar. Postillan gefur góða innsýn í hvernig klassísk fræði, guðfræði og heimspeki voru nýtt til fræðslu og mannræktar. Hún var því fræðandi og menntandi.

Jón Vídalín talaði ákveðið inn í aðstæður samtíðar sinnar. Hann lifði á upphafstíð einfaldskonungs og notaði konungshugmyndir til að túlka eðli og eigindir Guðs, heims og manna. Í postillunni er skýr siðfræði og hvernig siðferði menn eigi að temja sér. Jón Vídalín dró ekki af sér þegar hann benti á ábyrgð fólks gagnvart öðrum og samfélagi manna. Í postillunni er djúp samfélagsspeki, gagnrýni á vond stjórnvöld og Jesústefna um vernd hinna máttlitlu. Í prédikunum er talað með visku um lífshugmyndir manna. Jón Vídalín skipaði ekki fólki fyrir um trú þess eða afstöðu en hvatti til skynsamlegrar og einlægrar skoðunar fólks á stóru og smáu málunum. Postillan var hvetjandi og eflandi fremur en letjandi eða slævandi. Mannlýsingar Jóns Vídalíns eru litríkar og áhugaverðar. Jón Vídalín lýsti mönnum sjálfselskunnar með sjokkerandi nákvæmni. Hann hafði mikil áhrif á hvernig fólk hugsaði um sjálft sig og varnaði markalausri einstaklingshyggju.  

Gildi Vídalínspostillu? Klassísk verk hafa að geyma plús eða merkingarbónus sem er óháður tíma. Vídalínspostilla varpar upp möguleikum á góðu mannlífi og heilbrigðum sjálfsskilningi sem kallar einstaklinga og samfélag til ábyrgðar. Jón Vídalín lagði siðfræðilegan grunn að samúðarþjóðfélagi okkar Íslendinga. Lof sé honum og lesum postilluna.

Greinin birtist í Morgunblaðinu, 29. ágúst 2020, bls. 29.

Nánar um Jón Vídalíns og guðfræði Vídalínspostillu sjá: 

Majesty of God and the Limitation of the World – Vídalínspostilla

Perlufesti heimsins

Jöklarannsóknarmenn komu í Svarfaðardal bernsku minnar á hverju sumri. Þeir leigðu ekki farartæki sín innanlands heldur komu með bílana sjóleiðina. Grænbrúnir Landroverar voru öðru vísi en bændabílarnir og vöktu athygli heimamanna. Bílalestin fór hægt fyrstu ferðina fram Austurkjálkann. Sigurður Kristjánsson, nafni minn og frændi, upplýsti smásveininn að þetta væru breskir jöklarannsóknarmenn sem skoðuðu jöklana á svæðinu og sérstaklega Gljúfurárjökul. „Þessa perlu þarna“ sagði hann og benti á eitt af djásnum Skíðadals. Hópurinn þurfti vistir og varning því oft fóru Bretabílarnir hjá. Við sem vorum við veginn veifuðum og fengum vink til baka. Í hópnum voru nokkrir skeggjaðir karlar, væntanlega lærifeðurnir. En nemendahópurinn var af báðum kynjum og viskan settist að í huga mér að jarðvísindi væru mál beggja kynja.

Oft hugsaði ég á þessum árum hverjar væru niðurstöður mælinganna í Gljúfurárdal. En skýrslurnar bárust ekki í eldhúsin í dalnum. Þegar ég spurði hvort einhverjir hefðu séð eða heyrt um útkomu jöklamælinga svaraði Frændi nei. Hann bætti reyndar við að rannsókn hvilftar-fanna og jöklanna væri mikilvæg fyrir langtímasamanburð. Margt væri hægt að lesa úr tölunum þróun og heilsufar jöklanna, þ.e. ákomu, hitastig og bráðnun. En hvorki frænda né mér datt í hug að mælingar í hálfa öld sýndu byltingarkenndar breytingar í jöklabúskap heimsins eða að mælingar við Gljúfurárjökul gætu orðið öllu mannkyni til gagns varðandi þekkingu á vatni og veðurfarsbreytingum.

Nú eru jöklafræðingar og jarðvísindamenn heimsins búnir að tengja og reikna saman mælingar og rannsóknir á fönnum, jöklum og íshellum veraldar. Háskólar í Leeds, Edinborg og London hafa borið saman rannsóknarmælingar frá öllum heimshornum. Heildarniðurstöðurnar eru sláandi. Á aðeins þrjátíu árum hafa 28 billjónir tonna af jökulís bráðnað. Sá freri hefði nægt til að þekja megnið af Bretlandseyjum með hundrað metra þykkum ís. Með áframhaldi bráðnun og á svipuðum hraða mun sjávaryfirborð hækka um allt að einum metra fyrir aldarlok. Vegna búsetu fólks við sjó um allan heim hefur lítil breyting á sjávarstöðu mikil áhrif. Við hvern sentimeter sem sjór hækkar má búast við að ein milljón manns missi heimili sín. Ígildi þriggja íslenskra þjóða heimilislaus og á flótta – og það á hverju ári. Bráðnun íshellu og fanna minnkar endurkast sólargeislunar og því vex hiti sjávar og þurrlendis. Hækkandi sjávarhiti eykur rúmál hafsins. Breytingar verða á lífríki sjávar, líka nærri pólum. Vatnsbúskapur nærri fönnum og jöklum breytist og vatnsöryggi minnkar þar með. En það er ekki aðeins strandfólkið sem missir heimili sín. Hitabreytingar reka hundruð milljóna manna sem búa á þurrum landsvæðum á flótta undan vatnsstreitunni. Samfélagsbreytingarnar verða miklar og mörgum skelfilegar.

OK er farið og Gljúfurárjökull hefur minnkað mikið. Jöklar um allan heim eru að hverfa. Perlur heimsins bráðna. Hálfri öld eftir mælingarnar nyrðra veit ég nú um niðurstöður varðandi heimsþróunina. Ég veit að breytingar eru ekki lengur skýrslumál í fagtímaritum eða til skemmtunar í eldhúsum í snjóakistu á Tröllaskaga. Bráðnun jökla heimsins er mál allra, alls fólks, á öllum aldri og alls staðar. Þekking í fræðunum þarf að renna inn í vitund og ákvarðanir okkar allra. Bændur, jarðvísindamenn, við öll berum sameiginlega ábyrgð á lífríki heimsins. „Við eigum að skila betur af okkur en við tókum við“ sagði Sigurður frændi. Það varðar líka perlurnar í hlákunni. 

23. ágúst 2020.

Heildir á netinu eru ríkulegar, t.d.:

https://www.theguardian.com/environment/2020/aug/23/earth-lost-28-trillion-tonnes-ice-30-years-global-warming

https://www.climate.gov/news-features/understanding-climate/climate-change-global-sea-level

Myndina tók ég fyrir nokkrum árum og var þá á leið upp á Reykjaheiði, sem er skemmtileg gönguleið milli Ólafsfjarðar og Svarfaðardals. Gljúfárjökull er lengst til vinstri á myndinni. Fyrir miðjum jöklinum er klettahnjúkurinn Blekkill sem er um 1240 m hár. 

Guðlaug

Engin þjóðhátíð, engir sæludagar eða berjadagar þessa helgi. Fával við forsetainnsetningu. Engin altarisganga í messu og engar útihátíðir. Þetta er einkennileg verslunarmannahelgi. Margir hafa líka tjáð sterk vonbrigði með nýjar reglur vegna sóttvarna og tilfinningarnar flæða á samfélagsmiðlunum. Sumt af því sem er látið vaða er talsvert fjarri góðri dómgreind. En það er mikilvægt að staldra við og skoða aðstæður. Við, kristnir menn, megum gjarnan vitja grunngildanna og minna okkur á, að það er meðal hlutverka kristins fólks að standa með lífinu og vernda þau sem þarfnast skjóls. Og við megum sækja í hlið himins og koma til guðsþjónustu. Guð er samur og möguleikarnir á guðsræktinni eru ekki síðri þó samskipti lúti stífari reglum. En samfélagstengslin og reglurnar eru í þágu lífsins.

Þegar hægir á að nýju hefur hugurinn leitað til baka, til vormánaðanna og sumarsins. Og sumt af því, sem við höfum reynt og séð, hefur setið eftir og orðið til íhugunar. Margir landar okkar hafa notað sumarið til ferða um landið. Ég hef fylgst með sumum ykkar og séð myndirnar, sem vinir mínir hafa smellt á facebook. Mínar Íslandsferðir hafa verið gefandi. Ég fór með fjölskyldu og vinum um Suðurland. Ég gekk á nýjar slóðir í Skaftafelli og þaut um áhrifaríkt Fjallsárlón sunnan Vatnajökuls og dáðist að dekurhóteli á Hnappavöllum. Svo fórum við um Snæfellsnes. Þetta voru góðar ferðir og líka ferðirnar, sem við fórum upp á Akranes. Þangað er ég búinn að fara tvisvar og alla leið út að vitunum. Þar eru Skagamenn að skapa dásamlega aðstöðu og ástæða til að hvetja fólk til að fara á Breiðina. En merkilegast fannst mér að fara að Langasandi og í Guðlaugu.

Laugin við Langasand

Hvað er það? Hver er Guðlaug? Það er ný laug, sem búið er að gera í brimgarðinum við Langasand. Glæsilegt mannvirki á þremur pöllum. Fólk kemur um langan veg til að baða sig í þessari dásemdarlaug með himinnafninu.

Guðlaug þessi á sér merkilega sögu, sem hófst í konu sem bjó á Bræðraparti yst á Akranesinunu. Í mörg ár, raunar áratugi, hefur blasað við, að bæta þyrfti aðstöðu og þjónustu við fólk við Langasand. Þessi gullströnd Skagans hefur verið íbúum aðdráttarafl, leiksvæði og útivistarsvæði. Á síðari árum hefur sjósundsfólkið farið þar í sjóinn. Marga hefur því dreymt um, að heitir pottar yrðu settir niður við Langasand. Umræður bárust jafnvel inn í stjórn styrktarsjóðs, sem kona mín stýrði – og til minningar um ömmu hennar og afa. Sjóðsstjórnin ákvað að leggja fé til framkvæmda. Þáverandi bæjarstjóri studdi áætlanir sem og meirihluti bæjarstjórnar Akraness. Frábærir arkitektar voru fengnir til starfa, sem skiluðu frumlegum tillögum að hófstilltri en glæsilegri byggingu. Ferðamálasjóður og Akranesbær lögðu líka til fé til laugarinnar við Langasand.

Bræðrapartshjónin

Styrktarsjóðurinn, sem samþykkti laugarpeningana, var kenndur við hjón sem bjuggu á Bræðraparti nærri vitunum. Þau hétu Guðlaug Gunnlaugsdóttur og Jón Gunnlaugsson. Að þeim látnum var jörð þeirra og eigur gefnar til mikilvægra uppbyggingarmála á Akranesi. Framlag til laugargerðarinnar var það síðasta, sem sjóðsstjórnin greiddi, áður en þessum mikla milljónasjóði var lokað. Minning vitavarðarins og formannsins Jóns Gunnlaugssonar hefur verið vel varðveitt og nýr björgunarbátur slysvarnardeildarinnar ber t.d. nafn hans. En þar sem byggja átti laug fyrir minningarfé úr sjóði um þau hjón lagði ég til að laugin fengi nafn Guðlaugar. Svo varð og allir sem fara í Guðlaugu njóta hennar og þeirra hjóna er minnst.

Guðlaug var tekin í notkun í desmeber 2018 og hefur síðan glatt marga, ekki bara kroppa baðgesta heldur hrífur líka fyrir fegurð og góðan arkitektúr. Guðlaugin byggir á sögu en líka formum, litum, hreyfingu sjávar, grjóts og sands strandarinnar nærri.

Þegar ég kom að Guðlaugu í sumar voru margir á ferð og fjöldi í lauginni. Guðlaug hefur komið Akranesi á kort ferðamennskunnar og orðið sem nýtt og opið hlið að sögu Akraness en líka Skaga nútímans. Fólk nýtur blessunar, líkamlega, félagslega, listrænt og þar með andlega. Þessi laug hefur táknvíddir, sem spanna ekki aðeins steinsteypu og hreinsun, heldur svo margt fleira.

Hið sanna

Þetta er inngangur að texta dagsins og útleggingu. Áhersla guðspjallsins er á sannleika og heilt og gott líf. Silli og Valdi gerðu eitt af versum dagsins úr Fjallræðunni að slagorði. Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá. Og það hefur nú löngum verið kennimark góðrar matvöruverslunar að ávextir séu góðir og grænmetið gott. Svo er líka minnt á, að líferni og gerðir mannanna séu birtingarmynd um hið rétta, góða og gefandi. Á þessum álagstíma COVID-19 blasir við í pólitík heimsins að sannleikurinn er ekki við stjórnvöl alls staðar. Sjálfhverfir lukkuriddarar vekja á sér athygli til að ná sem lengst. Sagt hefur verið að narcisistar leiti inn í stofnanir og kerfi þar sem völd eru og peningar. Í Noregi er reiknað með að narcisistar séu nærri 3% innan stjórnsýslunnar og 4% þeirra sem eru í valdastöðum. Og sjálfhverfungar reyna alltaf að ná völdum, peningum, lofi og dýrð. Þeir hika ekki við, að sveigja sannleikann til að kýla andstæðinga sína niður, koma sjálfum sér á framfæri, hrifsa til sín gæði heimsins – sem er alltaf á kostnað annarra. Falsfréttir eru tæki sannleiksglæpamanna. Í heimsfréttum þennan morguninn er sagt frá falsfréttaveitum sem valdamenn í Brasilíu halda úti. Hæstiréttur landsins varð að beita sér því þetta eru hópar sem vilja valdarán og skert tjáningarfrelsi. En slíkir hópar eru um allan heim, hópar sem halda úti lygafréttum til að seilast eftir völdum og halda þeim.

Hér á Íslandi er þessa mánuðina sérstakt verkefni íslensku fjölmiðlanefndarinnar, að vekja athygli fólks á því að við þurfum að vera á varðbergi, trúa ekki athugunarlaust því sem sagt er á vefmiðlum eða miðlað á netinu, ekki heldur í stóru fjölmiðlunum, því sannleiksspellvirkjarnir reyna alltaf að búa til nýja veruleika – til hliðar við sannleika og gildi – og skapa sér stöðu í stríðinu um áhrif. Þeir eru ekki aðeins úlfar í sauðargæru heldur fótósjoppaðar grímur. Oscar Wilde skrifaði læsilega bók um slíka í ritinu Myndin af Dorian Grey. Fallegir að utan en hroðalegir að innan. Stoppa, hugsa, athuga. Það er nafnið á átaki Fjölmiðlanefndar sem er ætlað að efla almenning til þess að greina falsfréttir frá öðrum.

Guðlaug á Akranesi varð í sumar fyrir mér tákn um andstæðu vitleysu, blekkingar og sannleiksflótta samtíðar. Konan Guðlaug Gunnlaugsdóttir á Bræðraparti var hæfileikakona, mikilvirk í störfum sínum, öflug móðir, sem hvíslaði ekki aðeins ástarorð í eyru barna og bónda, heldur beitti sér fyrir menntun síns fólks og ábyrgð í vinnu og lífi. Hún ól upp barnahópinn sinn vel. Þau urðu til mikils hags og gagns í menntunarmálum og útgerð og lögðu margt til mannlífs á Skaganum og víðar. Guðlaug var engin blekkingarkona, heldur beitti sér gegn vitleysum, lagði gildi í líf ástvina sinna og samfélags. Hún kunni að tala við mannfólk en líka við Guð. Guðlaug var sjálf lauguð guðsástinni og lifði í ljósi trúar sinnar og himintengsla.

Persónan Guðlaug er því til fyrirmyndar. En svo er mannvirkið sem nýtur nafns hennar og gjafa hennar svo vel hannað að það er þrenna og minnir á þrenninguna efra. Vatnið í lauginni tengir við vatnið í skírnarfontum kirknanna. Baðferð í Guðlaugu verður flestum inntaksrík því laugin er svo marglaga listaverk og táknverk. Einföld hressingarstund kallar til dýpta og þess sem er æðra. Svo er ljómandi að baðferðin kostar ekkert, hún er gratís eins og allt það besta í lífinu. Eins og fagnaðarerindið

Samfélag okkar er á ferð. Gildi trosna, siðurinn er sprunginn í lífi margra. Við það rofnar siðferði og lífsstefna margra einstaklinga. Þegar gildin fletjast út heldur merkingar- og menningarvefur samfélagsins ekki. Lukkuriddarar hlaupa af stað og reyna að sannfæra okkur um hliðræna veruleika, nýtt gildismat, ný tilbeiðslugoð í pólitík, lífi og menningu. En hvað svo sem okkur finnst um kirkju eða átrúnað er málefni kristninnar hið slitsterka og mikilvæga í samfélagi okkar. Kristinn siður er til verndar lífi, fólki og sköpunarverki. Við þurfum ekki lukkuriddara sem eru sérfræðingar í spuna hliðrænna veralda heldur gildi og ábyrgð gagnvart lífi, samfélagi, náttúru sem Guð gerði svo góða.

Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá. Hverjir eru þínir ávextir? Hver eru þín hlutverk? Hvað viltu? Og hvað skiptir mestu máli og er kjarni siðarins? Guðlaug minnti mig á grunngildin. Okkar verkefni er að skola vitleysunni burt og verða samfélagi til heilla í lífinu. Stoppa, hugsa, athuga. Guðlaug skolar af okkur og setur okkur í samband. Kristinn siður setur okkur í samhengi lífsins. Ekkert fals, heldur sannleikur í þágu lífsins, sem Guð kallar okkur til.

Í lífsins tæru lindum 

þú laugar mig af syndum 

og nærir sál og sinni

með sælli návist þinni.

(SE sálmur 701 í sálmabók þjóðkirkjunnar)

Amen

2020 Íhugun í Hallgrímskirkju 2. ágúst, 2020.  8 sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Verslunarmannahelgi. Sóttvarreglur voru mjög hertar föstudaginn 31. júlí. 

Um laugina, gerð Guðlaugar og verðlaun eru ýmsar heimilidir á vefnum og hvernig hún hefur opnað Akranes fyrir mörgum. 

https://www.akranes.is/is/frettir/gudlaug-a-langasandi-formlega-opnud-almenningi

Guðlaug fékk umhverfisverðlaun Ferðamálastofu í desember 2019. Sjá grein í Skessuhorni:

https://skessuhorn.is/2019/12/18/gudlaug-saemd-umhverfisverdlaunum-ferdamalastofu/

Minningargrein Péturs Ottesen um Guðlaugu Gunnlaugsdóttur: https://timarit.is/page/1334124#page/n16/mode/2up

Á annað hundrað milljónum veitt til samfélagsmála á Akranesi. Um framlög úr minningarsjóði Guðlaugar og Jóns: http://skessuhorn.rat.nepal.is/frettir/nr/184945/

Björn Ingi Hrafnsson skrifaði um hvernig Guðlaug hefur komið Skaganum á kortið að nýju í grein í Viljanum: https://viljinn.is/dagbok-ritstjora/af-hverju-er-akranes-komid-aftur-i-alfaraleid/

Best geymda leyndarmál Akraness:

https://www.mbl.is/ferdalog/utivist/2020/02/10/best_geymda_leyndarmal_akraness/

Um árvekniátak Fjölmiðlanefndar er hægt að fræðast á slóðinni: https://fjolmidlanefnd.is/stoppa-hugsa-athuga/

Myndirnar af laugarfólki í frumbaðinu í Guðlaugu tók ég á opnunardegi sem og myndina af undirbúningshópnum. Kennimyndin, þ.e. stóra myndin sem og drónamyndin eru af facebookvef Guðlaugar. Kristjana Jónsdóttir fann til mynd af Guðlaugu. Myndina af Bræðrapartshjónunum fékk ég af þeirri stórmerku síðu haraldarhus.is Takk Haraldur Sturlaugsson. 

Þriggja blýanta stríð

Skólabjalla Melaskóla hljómar enn falskt en dugar til síns brúks. Hvað er kennt í skólanum og hvaða blýantastefnu skyldu kennarar Melaskóla hafa? Gamalt stríð sem háð var af einurð kemur í hugann. Ég lenti í skotlínu á milli kennara og mömmu. Bæði voru ákveðin. Jón Þorsteinsson, minn frábæri kennari í Melaskóla, setti ýmsar reglur og ein var ófrávíkjanleg. Nemendur í bekknum hans skyldu hefja skólagöngu með því að koma með þrjá nýja og vel yddaða blýanta. Styrjöld var háð vegna þessarar reglu.

Ég var sendur í skóla með þrjá blýanta og þeir voru vel yddaðir. En þeir voru ekki nýir og ekki allir jafn langir. Þegar Jón kennari sá skriffærin hóf hann þunga sókn. Hin eiginlega bakvörn var mamma sem réði því sem hún vildi í skólamálum mínum. Henni þóttu blýantarnir mínir góðir og fullboðlegir. Með það mat fór blýantaberinn í skóla að nýju. Jón þykktist við og setti í brýrnar. Þá var mér ljóst að ég væri peð á milli stórvelda. Stríð var hafið og ég undi stöðu minni illa.

Ekkert skólasystkina minna dirfðist að gera uppreisn gegn reglum hins ákveðna skólamanns sem hafði fullkomið vald í skólastofunni. Hann var dagfarsprúður og öflugur kennari og hafði gott lag í sinni stofu og á sínu fólki. Öllum kom hann til náms og nokkurs þroska. Ég hafði enga trú á að nokkuð gæti brotið þennan helsta kraftajötun íslensks skólakerfis. Þegar Jón hafði gert sér grein fyrir að Sigurður Árni væri ekki annað en málaliði í umboði Svanfríðar sendi hann móður minni beiðni um að finna sig. Ég kveið þeim fundi og var viss um að nú mundi móðir mín lenda í mannraunum. Ég fylgist með því þegar hún fór róleg en ákveðin. Hún kom heim klukkutíma seinna og var þá rjóð í kinnum og með glampa í augum. „Þú ferð með blýantana þína í skólann eins og ég hef áður sagt þér. Kennarinn þinn mun ekki gera fleiri athugasemdir,“ sagði hún. Þetta voru mikil tíðindi af vesturvígstöðvum Reykjavíkur.

Síðar sagði hún mér að þau hefðu tekist á. Jón hafði gert henni grein fyrir að það væri ekki hennar að ákveða skólastefnu hvorki í hans bekk né Melaskóla. Móðir mín hafði hins vegar gert honum jafn skýra grein fyrir eðli foreldraréttarins og að hún hefði skýra uppeldisstefnu gagnvart drengnum sínum. Hún hefði ekki hugsað sér að kenna honum að sóa verðmætum heldur að nota bæði blýanta og annað sem til væri með ábyrgð og nýtni að leiðarljósi. Hún gerði honum grein fyrir gildum, siðferði og stefnu ábyrgðarinnar. Jón náði engum tökum á móður minni enda deildi hann sömu gildum. Í þessari baráttu var mamma sigurvegarinn. Jón var sanngjarn og skildi viðmið mömmu

Eftir orustuna umgekkst Jón Þorsteinsson drenginn hennar Svanfríðar með nokkurri varfærni ekki síst þegar kom að útbúnaði í skólatöskunni. Hann hafði uppgötvað að hann hafði tapað þriggja blýanta stríðinu gegn Svanfríði. Það var ljóst að hann bar virðingu fyrir svo ákveðnum uppalanda. Ég uppgötvaði að mamma var jafnvel öflugri en menntunarhetjur Melaskóla. Síðar á ævinni uppgötvaði ég að ég hef aldrei átt í neinum erfiðleikum með öflugar konur. Þær hafa aldrei skapað með mér ónotatilfinningu. Þar nýt ég uppeldis og mótunar í foreldrahúsum sem ég þakka. Mamma var hugrökk og forðaðist stríð en flýði aldrei. Hún var mikil af sjálfri sér. Hún var stórveldi ástar og umhyggju. 

Íslandskirkja

Hvað er kirkja? Hvernig er hún og til hvers? Og hvaða stefnu hefur trúmaður í lífinu?

Ólafur Elíasson er orðinn einn frægasti myndlistarmaður heims. Verk hans vekja mikla athygli. Ólafur kom til Íslands í síðustu viku. Tilgangurinn var að opna sýningu í Listasafni Reykjavíkur. Á sýningunni eru jöklaljósmyndir sem sýna dramatískt hop jöklanna á tuttugu árum. Landið, sem kennt er við ís, er að tapa jöklum sínum! Skiptir það einhverju máli? Kemur það Jesú Kristi við? Hefur það eitthvað með trú að gera?

Spurningin varðar tilgang og erindi kirkju í heiminum. Kirkjur eru ekki aðeins athvarf fyrir lífsflóttamenn heldur fremur faðmar fyrir líf. Og Hallgrímskirkja, sem er orðin pílagrímastaður alls heimsins, er nothæf til íhugunar á nútímahlutverki trúmanna. Skipulag guðshússins er merkilegt. Altari í kirkju er staðsett á áhrifaríkasta bletti rýmisins. Þegar fólk kemur að altarinu finnur fólk, að það er statt á „heitum“ reit, sem trúmaðurinn kallar heilagan stað.

Sjónarhornið

Sjónarhorn skipta alltaf máli, alla menn í öllum efnum, líka í kirkjulífi, listum og trú. Hvað sérðu þegar þú situr á kirkjubekknum og horfir inn í kórinn? Þú sérð ekki bíla, hús eða mannlíf heldur himinn, skýjafar og leik ljóssins í skýjabólstrum. Fuglar fljúga stundum fyrir glugga og flugvélar líka. Á sólardögum skín sólin inn um kórgluggana og jafnvel blindar söfnuðinn. Það er eins og að fara inn í ljósríki að ganga að altarinu. Kórinn verður sem upphafinn ljósveröld. Kirkjan er jú forskáli himinsins. Augun leita fram og upp og hlið himins opnast.

En hvað sér maður í kórnum? Sjá þau, sem ganga upp tröppurnar og að altarinu, eitthvað annað en það sem þið sjáið í kirkjunni? Í hvert einasta sinn sem ég fer upp í kórinn og til þjónustunnar undrast ég því útsýn breytist algerlega. Sjónarhornið er allt annað í kórnum en frá bekkjunum. Sjónsvið prestsins er allt annað en sýn safnaðarins. Við altarið leita augun ekki lengur upp í himininn, til skýja, fugla eða himinljósa. Augun leita þvert á móti niður! Upp við altarið sér maður beint út um lága gluggana í bogahring kórsins og niður. Frá altarinu blasa við hús, og allt það sem tilheyrir mannlífinu. Þessa borgarsýn hefur söfnuðurinn ekki og fjöllin eru í fjarska sem sjónarrönd.

Þetta er raunar makalaus áminning fyrir öll, sem eiga erindi í kór og að altari. Þegar komið er í hið allra heilagasta breytist sjónsviðið. Fyrir augliti Guðs sér maður menn og náttúru! Þetta skipulag kirkjunnar má verða okkur öllum til íhugunar hvernig skilja má og túlka Guð, náttúruna, sköpunarverkið, mennina, jökla, dýr og þar með líka kirkju. Þegar við komum næst Guði förum við að sjá með nýjum hætti. Við lærum að sjá með augum Guðs sem er ekki upptekinn af eigin upphöfnu dýrð, heldur tengslum við veröldina og þig.

Þegar menn leita Guðs sem ákafast þá opnar Guð mönnum sýn – ekki inn í himinn og eilífð heldur beint inn í heim tímans, til mannfólks og náttúru. Þegar við sjáum Guð beinir Guð sjónum okkar að veröldinni, sem þarfnast okkar og verka okkar. Við menn erum kölluð til að elska – ekki aðeins að elska Guð – heldur fólk, jökla, lífið – líka Karlakór Reykjavíkur, messuþjónana, Björn Steinar, sem situr við orgelið, og allt fólkið sem er hér í kirkunni.

Nálægur Guð

Textar dagsins beina augum okkar upp en líka niður, að eilífð en líka í tíma. Lexían í Jesajabókinni er upphafið friðarljóð – eða friðarsálmur. Þar er lýst jafnvægi mannlífs og dýra. Þetta er stílfærð vonarveröld þar sem pardus, ljón, kýr, kálfar, nöðrur og börn eru öll vinir. Þegar við tengjum þessa markmiðssýn við raunaðstæður mengunar lífheimsins verður hún enn ágengari. Þetta er sýn Guðs fyrir veröldina. Okkar er að gera allt, sem við getum, til að tryggja heilbrigði umhverfisins. Textar dagsins minna okkur á samhengið. Guð talar við okkur í náttúru, í samfélagi og okkar er að axla ábyrgð og gegna kalli Guðs. Við eigum ekki að þjóna bara sjálfum okkur heldur lífinu.

Að trúa er ekki að fara úr þessum heimi og vakna til annars, heldur er trú tengsl og hefur siðlega vídd, að vera til taks fyrir fólk og veröld. Trú er ekki að skutlast frá jarðlífi til einhverrar geimstöðvar eilífðar. Í öllum bókum Biblíunnar er dregin upp sú mynd af nálægum Guði, að Guð er ástríðuvera sem elskar, grætur, faðmar, syrgir og gleðst. Guð kemur og skapar fólk til frelsis og yfirgefur menn aldrei. Fagnaðarerindi merkir, að lífið er góður gerningur Guðs, Guð leysir, frelsar, hjálpar. Guð elskar og við erum samverkafólk ástariðju Guðs.

Niður er leiðin upp!

Kirkjugangurinn og leiðin að altarinu er til íhugunar. Leiðin fram og upp er jafnframt niður. Leiðin til jóla og leiðin upp í himininn er alltaf í gegnum mannheim. Leið elskunnar til Guðs er vegleysa nema um raunheim mennskunnar. Trú, sem ætlar sér bara að veita mönnum gott símasamband við Guð í hæðum – en tengir fram hjá fólki í vandræðum – er guðlaus og þar með trúleysa.

Guð elskar og kallar okkur til að elska líka. Elska varðar það hugrekki að segja nei við öllu því, sem hemur og kúgar fólk. Við erum kölluð til að elska – jafnvel það, sem okkur hugnast ekki. Þegar þú gengur inn í Hallgrímskirkju horfir þú til himins og þegar þú ferð alla leið að altarinu sérðu veröldina. Að horfa upp til Guðs leiðir til að þú ferð að horfa á veröldina með augum Guðs og með elsku Guðs. Guðsnánd felur í sér mannnánd og náttúrunánd.

Aðventa

Þegar Ólafur Elíasson kom í Hallgrímskirkju fór hann upp í turn til að skoða sig um. Hann fór svo og opnaði sýninguna í Listasafni Reykjavíkur. Myndirnar sýna jöklana að ofan, frá sjónahorni Guðs. Það er trúarlegur blær á þessari myndaröð og þær hvísla til okkar rödd að ofan og handan. Það horft með elskuaugum á þessa hopandi jökla frá sjónarhóli Guðs.

Þeir Andri Snær Magnason Ólafur ræddu saman við sýningaropnunina um náttúru, list og ábyrgð manna. Ólafur sagði í samtalinu, sem er aðgengilegt á vefnum, frá heimsókn sinni í kirkjuna. Hann sagðist hafa verið að þvælast upp í kirkjuturni með Sigga presti! Hann sagði svo, að kirkja væri vettvangur fyrir lífið, opinn staður fyrir fólk til að fjalla um það sem mestu máli skiptir. Við Ólafur erum sammála um hlutverk okkar manna varðandi vernd lífs og þjónustu við umhverfi og fólk. Kristin kirkja beinir ekki sjónum okkar bara til himins heldur til manna. Leiðin upp er leiðin niður í dali manna og ríki lífs.

Af hverju heldur þú að Jesús hafi komið í þennan heim? Af því Guð horfir á heiminn og lætur sig þig varða. Að elska Guð er jafnframt að elska menn – og elska þessa veröld. Hlutverk okkar er að vera augu, hendur og faðmur Guðs í heimi. Gakktu fram til Guðs og þá sérðu heiminn.

Í Jesú nafni – Amen.

For those of you not understanding Icelandic. The biblical texts of the day are striking. The first one depicts a world of global peace. The poetic text celebrates a good and just world. The other texts contextualize the peace. It is God´s peace. God actualizes that which God aims for the world. And it is ours to work with God for the good. I did also tell about Ólafur Elíasson who is one of the outstanding visual artists of the world. He shows his works all over the world and also in Reykjavik. Last week he visited Hallgrimskirkja. At the opening of his exhibition in the Reykjavik Art museum he did tell the audience that he had been hanging around with the priest in the tower of Hallgrimskirkja. Then, with deep apreciation, he talked about the role of the Christian church to make space for people in working for the benefit of the world. That, I think, is a deep understanding of healthy Christianity. Faith is never a jump out of time and life into a heaven of eternal bliss. The road to God and with God is always through a world in time, dealing with people, tasks, responsibility, indeed all the tasks of life. The texts of Bible, the show of Ólafur Elíasson and the structure of this church direct us to face our role as responsible people in our life.

Ljósmynd með þessari íhugun  er tekin af Ólafi Elíassyni.