Greinasafn fyrir merki: kristinn siður

Guðlaug

Engin þjóðhátíð, engir sæludagar eða berjadagar þessa helgi. Fával við forsetainnsetningu. Engin altarisganga í messu og engar útihátíðir. Þetta er einkennileg verslunarmannahelgi. Margir hafa líka tjáð sterk vonbrigði með nýjar reglur vegna sóttvarna og tilfinningarnar flæða á samfélagsmiðlunum. Sumt af því sem er látið vaða er talsvert fjarri góðri dómgreind. En það er mikilvægt að staldra við og skoða aðstæður. Við, kristnir menn, megum gjarnan vitja grunngildanna og minna okkur á, að það er meðal hlutverka kristins fólks að standa með lífinu og vernda þau sem þarfnast skjóls. Og við megum sækja í hlið himins og koma til guðsþjónustu. Guð er samur og möguleikarnir á guðsræktinni eru ekki síðri þó samskipti lúti stífari reglum. En samfélagstengslin og reglurnar eru í þágu lífsins.

Þegar hægir á að nýju hefur hugurinn leitað til baka, til vormánaðanna og sumarsins. Og sumt af því, sem við höfum reynt og séð, hefur setið eftir og orðið til íhugunar. Margir landar okkar hafa notað sumarið til ferða um landið. Ég hef fylgst með sumum ykkar og séð myndirnar, sem vinir mínir hafa smellt á facebook. Mínar Íslandsferðir hafa verið gefandi. Ég fór með fjölskyldu og vinum um Suðurland. Ég gekk á nýjar slóðir í Skaftafelli og þaut um áhrifaríkt Fjallsárlón sunnan Vatnajökuls og dáðist að dekurhóteli á Hnappavöllum. Svo fórum við um Snæfellsnes. Þetta voru góðar ferðir og líka ferðirnar, sem við fórum upp á Akranes. Þangað er ég búinn að fara tvisvar og alla leið út að vitunum. Þar eru Skagamenn að skapa dásamlega aðstöðu og ástæða til að hvetja fólk til að fara á Breiðina. En merkilegast fannst mér að fara að Langasandi og í Guðlaugu.

Laugin við Langasand

Hvað er það? Hver er Guðlaug? Það er ný laug, sem búið er að gera í brimgarðinum við Langasand. Glæsilegt mannvirki á þremur pöllum. Fólk kemur um langan veg til að baða sig í þessari dásemdarlaug með himinnafninu.

Guðlaug þessi á sér merkilega sögu, sem hófst í konu sem bjó á Bræðraparti yst á Akranesinunu. Í mörg ár, raunar áratugi, hefur blasað við, að bæta þyrfti aðstöðu og þjónustu við fólk við Langasand. Þessi gullströnd Skagans hefur verið íbúum aðdráttarafl, leiksvæði og útivistarsvæði. Á síðari árum hefur sjósundsfólkið farið þar í sjóinn. Marga hefur því dreymt um, að heitir pottar yrðu settir niður við Langasand. Umræður bárust jafnvel inn í stjórn styrktarsjóðs, sem kona mín stýrði – og til minningar um ömmu hennar og afa. Sjóðsstjórnin ákvað að leggja fé til framkvæmda. Þáverandi bæjarstjóri studdi áætlanir sem og meirihluti bæjarstjórnar Akraness. Frábærir arkitektar voru fengnir til starfa, sem skiluðu frumlegum tillögum að hófstilltri en glæsilegri byggingu. Ferðamálasjóður og Akranesbær lögðu líka til fé til laugarinnar við Langasand.

Bræðrapartshjónin

Styrktarsjóðurinn, sem samþykkti laugarpeningana, var kenndur við hjón sem bjuggu á Bræðraparti nærri vitunum. Þau hétu Guðlaug Gunnlaugsdóttur og Jón Gunnlaugsson. Að þeim látnum var jörð þeirra og eigur gefnar til mikilvægra uppbyggingarmála á Akranesi. Framlag til laugargerðarinnar var það síðasta, sem sjóðsstjórnin greiddi, áður en þessum mikla milljónasjóði var lokað. Minning vitavarðarins og formannsins Jóns Gunnlaugssonar hefur verið vel varðveitt og nýr björgunarbátur slysvarnardeildarinnar ber t.d. nafn hans. En þar sem byggja átti laug fyrir minningarfé úr sjóði um þau hjón lagði ég til að laugin fengi nafn Guðlaugar. Svo varð og allir sem fara í Guðlaugu njóta hennar og þeirra hjóna er minnst.

Guðlaug var tekin í notkun í desmeber 2018 og hefur síðan glatt marga, ekki bara kroppa baðgesta heldur hrífur líka fyrir fegurð og góðan arkitektúr. Guðlaugin byggir á sögu en líka formum, litum, hreyfingu sjávar, grjóts og sands strandarinnar nærri.

Þegar ég kom að Guðlaugu í sumar voru margir á ferð og fjöldi í lauginni. Guðlaug hefur komið Akranesi á kort ferðamennskunnar og orðið sem nýtt og opið hlið að sögu Akraness en líka Skaga nútímans. Fólk nýtur blessunar, líkamlega, félagslega, listrænt og þar með andlega. Þessi laug hefur táknvíddir, sem spanna ekki aðeins steinsteypu og hreinsun, heldur svo margt fleira.

Hið sanna

Þetta er inngangur að texta dagsins og útleggingu. Áhersla guðspjallsins er á sannleika og heilt og gott líf. Silli og Valdi gerðu eitt af versum dagsins úr Fjallræðunni að slagorði. Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá. Og það hefur nú löngum verið kennimark góðrar matvöruverslunar að ávextir séu góðir og grænmetið gott. Svo er líka minnt á, að líferni og gerðir mannanna séu birtingarmynd um hið rétta, góða og gefandi. Á þessum álagstíma COVID-19 blasir við í pólitík heimsins að sannleikurinn er ekki við stjórnvöl alls staðar. Sjálfhverfir lukkuriddarar vekja á sér athygli til að ná sem lengst. Sagt hefur verið að narcisistar leiti inn í stofnanir og kerfi þar sem völd eru og peningar. Í Noregi er reiknað með að narcisistar séu nærri 3% innan stjórnsýslunnar og 4% þeirra sem eru í valdastöðum. Og sjálfhverfungar reyna alltaf að ná völdum, peningum, lofi og dýrð. Þeir hika ekki við, að sveigja sannleikann til að kýla andstæðinga sína niður, koma sjálfum sér á framfæri, hrifsa til sín gæði heimsins – sem er alltaf á kostnað annarra. Falsfréttir eru tæki sannleiksglæpamanna. Í heimsfréttum þennan morguninn er sagt frá falsfréttaveitum sem valdamenn í Brasilíu halda úti. Hæstiréttur landsins varð að beita sér því þetta eru hópar sem vilja valdarán og skert tjáningarfrelsi. En slíkir hópar eru um allan heim, hópar sem halda úti lygafréttum til að seilast eftir völdum og halda þeim.

Hér á Íslandi er þessa mánuðina sérstakt verkefni íslensku fjölmiðlanefndarinnar, að vekja athygli fólks á því að við þurfum að vera á varðbergi, trúa ekki athugunarlaust því sem sagt er á vefmiðlum eða miðlað á netinu, ekki heldur í stóru fjölmiðlunum, því sannleiksspellvirkjarnir reyna alltaf að búa til nýja veruleika – til hliðar við sannleika og gildi – og skapa sér stöðu í stríðinu um áhrif. Þeir eru ekki aðeins úlfar í sauðargæru heldur fótósjoppaðar grímur. Oscar Wilde skrifaði læsilega bók um slíka í ritinu Myndin af Dorian Grey. Fallegir að utan en hroðalegir að innan. Stoppa, hugsa, athuga. Það er nafnið á átaki Fjölmiðlanefndar sem er ætlað að efla almenning til þess að greina falsfréttir frá öðrum.

Guðlaug á Akranesi varð í sumar fyrir mér tákn um andstæðu vitleysu, blekkingar og sannleiksflótta samtíðar. Konan Guðlaug Gunnlaugsdóttir á Bræðraparti var hæfileikakona, mikilvirk í störfum sínum, öflug móðir, sem hvíslaði ekki aðeins ástarorð í eyru barna og bónda, heldur beitti sér fyrir menntun síns fólks og ábyrgð í vinnu og lífi. Hún ól upp barnahópinn sinn vel. Þau urðu til mikils hags og gagns í menntunarmálum og útgerð og lögðu margt til mannlífs á Skaganum og víðar. Guðlaug var engin blekkingarkona, heldur beitti sér gegn vitleysum, lagði gildi í líf ástvina sinna og samfélags. Hún kunni að tala við mannfólk en líka við Guð. Guðlaug var sjálf lauguð guðsástinni og lifði í ljósi trúar sinnar og himintengsla.

Persónan Guðlaug er því til fyrirmyndar. En svo er mannvirkið sem nýtur nafns hennar og gjafa hennar svo vel hannað að það er þrenna og minnir á þrenninguna efra. Vatnið í lauginni tengir við vatnið í skírnarfontum kirknanna. Baðferð í Guðlaugu verður flestum inntaksrík því laugin er svo marglaga listaverk og táknverk. Einföld hressingarstund kallar til dýpta og þess sem er æðra. Svo er ljómandi að baðferðin kostar ekkert, hún er gratís eins og allt það besta í lífinu. Eins og fagnaðarerindið

Samfélag okkar er á ferð. Gildi trosna, siðurinn er sprunginn í lífi margra. Við það rofnar siðferði og lífsstefna margra einstaklinga. Þegar gildin fletjast út heldur merkingar- og menningarvefur samfélagsins ekki. Lukkuriddarar hlaupa af stað og reyna að sannfæra okkur um hliðræna veruleika, nýtt gildismat, ný tilbeiðslugoð í pólitík, lífi og menningu. En hvað svo sem okkur finnst um kirkju eða átrúnað er málefni kristninnar hið slitsterka og mikilvæga í samfélagi okkar. Kristinn siður er til verndar lífi, fólki og sköpunarverki. Við þurfum ekki lukkuriddara sem eru sérfræðingar í spuna hliðrænna veralda heldur gildi og ábyrgð gagnvart lífi, samfélagi, náttúru sem Guð gerði svo góða.

Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá. Hverjir eru þínir ávextir? Hver eru þín hlutverk? Hvað viltu? Og hvað skiptir mestu máli og er kjarni siðarins? Guðlaug minnti mig á grunngildin. Okkar verkefni er að skola vitleysunni burt og verða samfélagi til heilla í lífinu. Stoppa, hugsa, athuga. Guðlaug skolar af okkur og setur okkur í samband. Kristinn siður setur okkur í samhengi lífsins. Ekkert fals, heldur sannleikur í þágu lífsins, sem Guð kallar okkur til.

Í lífsins tæru lindum 

þú laugar mig af syndum 

og nærir sál og sinni

með sælli návist þinni.

(SE sálmur 701 í sálmabók þjóðkirkjunnar)

Amen

2020 Íhugun í Hallgrímskirkju 2. ágúst, 2020.  8 sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Verslunarmannahelgi. Sóttvarreglur voru mjög hertar föstudaginn 31. júlí. 

Um laugina, gerð Guðlaugar og verðlaun eru ýmsar heimilidir á vefnum og hvernig hún hefur opnað Akranes fyrir mörgum. 

https://www.akranes.is/is/frettir/gudlaug-a-langasandi-formlega-opnud-almenningi

Guðlaug fékk umhverfisverðlaun Ferðamálastofu í desember 2019. Sjá grein í Skessuhorni:

https://skessuhorn.is/2019/12/18/gudlaug-saemd-umhverfisverdlaunum-ferdamalastofu/

Minningargrein Péturs Ottesen um Guðlaugu Gunnlaugsdóttur: https://timarit.is/page/1334124#page/n16/mode/2up

Á annað hundrað milljónum veitt til samfélagsmála á Akranesi. Um framlög úr minningarsjóði Guðlaugar og Jóns: http://skessuhorn.rat.nepal.is/frettir/nr/184945/

Björn Ingi Hrafnsson skrifaði um hvernig Guðlaug hefur komið Skaganum á kortið að nýju í grein í Viljanum: https://viljinn.is/dagbok-ritstjora/af-hverju-er-akranes-komid-aftur-i-alfaraleid/

Best geymda leyndarmál Akraness:

https://www.mbl.is/ferdalog/utivist/2020/02/10/best_geymda_leyndarmal_akraness/

Um árvekniátak Fjölmiðlanefndar er hægt að fræðast á slóðinni: https://fjolmidlanefnd.is/stoppa-hugsa-athuga/

Myndirnar af laugarfólki í frumbaðinu í Guðlaugu tók ég á opnunardegi sem og myndina af undirbúningshópnum. Kennimyndin, þ.e. stóra myndin sem og drónamyndin eru af facebookvef Guðlaugar. Kristjana Jónsdóttir fann til mynd af Guðlaugu. Myndina af Bræðrapartshjónunum fékk ég af þeirri stórmerku síðu haraldarhus.is Takk Haraldur Sturlaugsson.