Greinasafn fyrir merki: bráðnun jökla

Perlufesti heimsins

Jöklarannsóknarmenn komu í Svarfaðardal bernsku minnar á hverju sumri. Þeir leigðu ekki farartæki sín innanlands heldur komu með bílana sjóleiðina. Grænbrúnir Landroverar voru öðru vísi en bændabílarnir og vöktu athygli heimamanna. Bílalestin fór hægt fyrstu ferðina fram Austurkjálkann. Sigurður Kristjánsson, nafni minn og frændi, upplýsti smásveininn að þetta væru breskir jöklarannsóknarmenn sem skoðuðu jöklana á svæðinu og sérstaklega Gljúfurárjökul. „Þessa perlu þarna“ sagði hann og benti á eitt af djásnum Skíðadals. Hópurinn þurfti vistir og varning því oft fóru Bretabílarnir hjá. Við sem vorum við veginn veifuðum og fengum vink til baka. Í hópnum voru nokkrir skeggjaðir karlar, væntanlega lærifeðurnir. En nemendahópurinn var af báðum kynjum og viskan settist að í huga mér að jarðvísindi væru mál beggja kynja.

Oft hugsaði ég á þessum árum hverjar væru niðurstöður mælinganna í Gljúfurárdal. En skýrslurnar bárust ekki í eldhúsin í dalnum. Þegar ég spurði hvort einhverjir hefðu séð eða heyrt um útkomu jöklamælinga svaraði Frændi nei. Hann bætti reyndar við að rannsókn hvilftar-fanna og jöklanna væri mikilvæg fyrir langtímasamanburð. Margt væri hægt að lesa úr tölunum þróun og heilsufar jöklanna, þ.e. ákomu, hitastig og bráðnun. En hvorki frænda né mér datt í hug að mælingar í hálfa öld sýndu byltingarkenndar breytingar í jöklabúskap heimsins eða að mælingar við Gljúfurárjökul gætu orðið öllu mannkyni til gagns varðandi þekkingu á vatni og veðurfarsbreytingum.

Nú eru jöklafræðingar og jarðvísindamenn heimsins búnir að tengja og reikna saman mælingar og rannsóknir á fönnum, jöklum og íshellum veraldar. Háskólar í Leeds, Edinborg og London hafa borið saman rannsóknarmælingar frá öllum heimshornum. Heildarniðurstöðurnar eru sláandi. Á aðeins þrjátíu árum hafa 28 billjónir tonna af jökulís bráðnað. Sá freri hefði nægt til að þekja megnið af Bretlandseyjum með hundrað metra þykkum ís. Með áframhaldi bráðnun og á svipuðum hraða mun sjávaryfirborð hækka um allt að einum metra fyrir aldarlok. Vegna búsetu fólks við sjó um allan heim hefur lítil breyting á sjávarstöðu mikil áhrif. Við hvern sentimeter sem sjór hækkar má búast við að ein milljón manns missi heimili sín. Ígildi þriggja íslenskra þjóða heimilislaus og á flótta – og það á hverju ári. Bráðnun íshellu og fanna minnkar endurkast sólargeislunar og því vex hiti sjávar og þurrlendis. Hækkandi sjávarhiti eykur rúmál hafsins. Breytingar verða á lífríki sjávar, líka nærri pólum. Vatnsbúskapur nærri fönnum og jöklum breytist og vatnsöryggi minnkar þar með. En það er ekki aðeins strandfólkið sem missir heimili sín. Hitabreytingar reka hundruð milljóna manna sem búa á þurrum landsvæðum á flótta undan vatnsstreitunni. Samfélagsbreytingarnar verða miklar og mörgum skelfilegar.

OK er farið og Gljúfurárjökull hefur minnkað mikið. Jöklar um allan heim eru að hverfa. Perlur heimsins bráðna. Hálfri öld eftir mælingarnar nyrðra veit ég nú um niðurstöður varðandi heimsþróunina. Ég veit að breytingar eru ekki lengur skýrslumál í fagtímaritum eða til skemmtunar í eldhúsum í snjóakistu á Tröllaskaga. Bráðnun jökla heimsins er mál allra, alls fólks, á öllum aldri og alls staðar. Þekking í fræðunum þarf að renna inn í vitund og ákvarðanir okkar allra. Bændur, jarðvísindamenn, við öll berum sameiginlega ábyrgð á lífríki heimsins. „Við eigum að skila betur af okkur en við tókum við“ sagði Sigurður frændi. Það varðar líka perlurnar í hlákunni. 

23. ágúst 2020.

Heildir á netinu eru ríkulegar, t.d.:

https://www.theguardian.com/environment/2020/aug/23/earth-lost-28-trillion-tonnes-ice-30-years-global-warming

https://www.climate.gov/news-features/understanding-climate/climate-change-global-sea-level

Myndina tók ég fyrir nokkrum árum og var þá á leið upp á Reykjaheiði, sem er skemmtileg gönguleið milli Ólafsfjarðar og Svarfaðardals. Gljúfárjökull er lengst til vinstri á myndinni. Fyrir miðjum jöklinum er klettahnjúkurinn Blekkill sem er um 1240 m hár.