Greinasafn fyrir merki: Bernharður Guðmundsson

+ Bernharður Guðmundsson +

Bernharður Guðmundsson var gjafmildur maður – einn sá örlátasti sem ég hef kynnst. Einu sinni kom hann með koptískan kross frá Eþíópíu, í annað skipti helgimynd og svo seinna litríkan kross frá Suður-Ameríku. Ef ekkert var í höndum hans breytti hann samfundi í eftirminnilegan og oftast kátlegan viðburð. Hann var örlátur á tíma, hafði skarpa vitund og frjóan huga. Hann spurði, færði óhikað rök, greindi snarlega styrkleika og veikleika fólks og nálgaðist það með umhyggju og kærleika. Hann nöldraði ekki heldur rýndi til gagns, eflingar og góðs. Hann gerði sér engan mannamun og sá gull í öllu fólki. Það var einstök og dásamleg nálgun og Jesúleg.

Ég man eftir Benna fyrst á Tómasarhaganum. Hann bjó með Rannveigu sinni í skjóli Magneu og Sigurbjarnar í biskupshúsinu, Tómasarhaga 15. Ég bjó hinum megin götunnar og hitti hann því og sá til hans. Mér fannst hann alltaf kátur og skemmtandi. Ég fylgdist með prestsþjónustu Benna úr fjarlægð og heyrði að nágrannaprestum hefði þótt hann of vinsæll. En ég sannfærðist um snilld hans þegar hann stýrði risasamkomu í Laugardalshöllinni. Þar var mikill fjöldi gagnrýnna unglinga sem ætluðu sér ekki að láta prest fara neitt með sig. En Benni var aldrei öflugri en þegar á reyndi. Hann heillaði söfnuðinn. 

Á æskulýðsdeginum 1973 var ég Benna til aðstoðar. Rétt fyrir fjölsótta kvöldsamkomu í Dómkirkjunni kom í ljós að hljóðnemarnir voru í ólagi. Ég hringdi í poppara sem ég þekkti og hentist upp í Þingholt og náði í mækana. Við smelltum þeim í samband þegar Benni var að fara að setja samkomuna. Hann kunni að meta viðbragðsflýtinn. Nokkrum dögum síðar var flugvél á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar send til til gjósandi Heimaeyjar. Til að verðlauna unglinginn vildi Benni að ég fengi að fara með til Eyja. Benni sá alltaf möguleika þar sem glufur voru, lagði gott til, efldi fólk og lyfti. Hann var kallaður Benni en líka oft og með sanni Benni Gúddman.

Þau Rannveig fóru um heiminn og eignuðust heillandi börn sem urðu leifrandi heimsborgarar. Benni skrifaði hnyttna pistla í Moggann sem margir lásu. Svo komu þau heim til Íslands og Benni varð biskupsþjónn. Hann var alla tíð frumlegur, hugsaði í lausnum og möguleikum, hvatti og lyfti upp því sem var hagnýtt og merkilegt. Hann var fjölgáfaður og vel heima á mörgum sviðum og listrænn smekkmaður.  Hann horfði alltaf fram á veginn og beitti sér fyrir bótum og leiðréttingum og nýjungum. Benni var í áratugi frumkvöðull þjóðkirkjunnar. 

Benni færði alltaf fögnuð í hús gleðinnar þegar hann kom í messu. Hann kom oft í Neskirkju þegar ég var þar prestur. Hann var óspar á lof ef sá gállinn var á honum og einu sinni klappaði hann eftir messu. Svo sóttu Rannveig og Benni einnig kirkju í Hallgrímskirkju og hann kom alltaf eftir messu til að veita umsögn – og alltaf til gagns. Örlátur öðlingur. Okkur mörgum engill. Nú er Benni farinn inn í himininn og þar er samfélag örlætisins og gaman.

Guð geymi Bernharð Guðmundsson, styrki Rannveigu, Svövu, Magnús Þorkel, Sigurbjörn og alla ástvini.

Takk fyrir örlætið.

Myndirnar tók ég í Skálholti í febrúar 2010. Bernharður fór á kostum er hann stýrði miðaldakvöldverði fyrir evrópska fulltrúa Porvoo-kirknasambandsins. Svo hélt hann fyrirlestur við minnisvarða Jóns Arasonar daginn eftir. Frábær gestgjafi.