Greinasafn fyrir merki: Bandaríkjamenn

Miðausturlönd 5 *****

Við feðgar fórum á bókamarkað og keyptum fjölda bóka og þær voru alls konar. Ég rakst á bók Magnúsar Þorkels Bernharðssonar Miðausturlönd – fortíð, nútíð og framtíð. Ég met höfundinn mikils og hlusta grannt eða les þegar tekin eru viðtöl við hann í fjölmiðlum. Ég vissi af bókinni en hafði hvorki eignast hana né skoðað. Svo var hún þarna í bókaflóði markaðarins undir stúku Laugardalshallar – á spottprís. Hún var með í staflanum sem við roguðumst með út í bíl. Heima fór ég svo að lesa. Fólkið mitt stríddi mér á því að eftir þrjátíu blaðsíður lýsti ég yfir og af sannfæringarkrafti að bókin væri frábær. Þau minntu mig á að ég væri nú bara nýbyrjaður og fannst gassagangurinn hæfa mér illa. En nú er ég búinn að lesa allt ritið, allar 331 blaðsíðurnar. Niðurstaða mín er einföld. Þetta er besta bókin sem ég hef lesið um Miðausturlönd. Magnús Þorkell er ekki aðeins snjall fræðimaður heldur vel skrifandi höfundur líka. Litrík, fræðandi, vel túlkandi og yfirveguð fræðimennska og textinn er leifrandi.

Í hverjum kafla er farið yfir menningarsögu, trúarheim, pólitík og hagsmunasögu menningarhópa landssvæðis eða ríkis. Sjónum er aðallega beint að Egyptalandi, ríkjum á Arabíuskaga, Írak, Íran, Ísrael, Líbanon, Jórdaníu, Sýrlandi og Tyrklandi. Einstakir hópar eða þjóðarbrot eru líka rædd þvert á ríkjamæri, s.s. Kúrdar og mismunandi trúarhópar. Með leiftrandi sögum, útlistunum, fræðslu og túlkun málar Magnús Þorkell myndir og útskýrir af hverju málin þróuðust með ákveðnu móti en ekki öðru vísi. Heimsveldi Breta kemur víða við sögu og einnig Bandaríkin. Ottómanveldið er þarna auðvitað líka. Höfundur skrifar óhikað um hvernig stórveldin hafa beitt sér, hver áhrifin voru og þar með líka hvernig hópar hafa verið misnotaðir og þjóðir jafnvel verið rændar. Olía, auðlindir og flutningaleiðir skiptu máli í þróuninni. Hlutur Frakka, Þjóðverja og Rússa er skýrður og hvernig átök veraldar áttu sína afleggjara á mismunandi svæðum og í mismunandi löndum Miðausturlanda. Fjölbreytileg þróun Islam er túlkuð, mismunandi áherslur og guðfræði sem og átök hópa. Af hverju Ísraels-og Palestínu-vandinn hefur þróast með þeim sárgrætilega hætti sem við verðum vitni að þessa dagana fær skýrt baksvið í meðförum Magnúsar Bernharðs.  

Ég hef haft áhuga á Miðausturlöndum lengi og fylgst með fréttum frá svæðinu allt frá áttunda áratugnum. Ég þekki því flesta gerendur og hinar opinberu skýringarsögur fjölmiðlanna. Magnús Þorkell segir persónusögurnar með litríkum hætti og notar til að fara á dýptina. Hann hreif mig með sér og lánaðist að leysa upp marga fordóma mína og ímyndanir um þróun og einstaklinga. Hann túlkaði fyrir mér sögu þjóða og hópa með svo trúverðugum hætti að ég sé margt með öðrum og skýrari hætti en áður. Þannig eru snilldarbækur, þær breyta, dýpka og kalla fram skilning og þegar best lætur visku. Takk.

Slagorð um Palestínu, Gyðinga, Ísraela og stjórnmálamenn hljóma í mótmælum, fjölmiðlum og átökum hörmungarmánaða frá 7. október 2024. Klisjur magna ófrið en aðeins góð fræði og viska skapa eða fæða frið. Það er þarft fyrir okkur að ná í bókina Miðausturlönd og lesa. Þar er gott veganesti fyrir yfirveguð viðbrögð okkar einstaklinga og skilvirka menningar- og utanríkispólitík okkar Íslendinga.

Fimm stjörnu bók – og mínusarnir svo fáir og smáir að ég kann ekki einu sinni við að nefna þá. Tolle lege.