Wilhelm Kempff og svo varð þögn

Fyrstu píanótónleikarnir sem ég sótti sem barn voru einleikstónleikar Wilhelm Kempff í Austurbæjarbíói.  Í lok tónleikanna voru allir í salnum sem lamaðir af mætti tónlistarinnar og snilli píanistans. Eftir að kempan hafði reist alla hina stórkostlegu hljómakastala varð djúp þögn eftir lokahljóminn, eins og gjá sem við sukkum í. Þögnin sprakk síðan í lófataki og háreysti. Tónlistin var stórkostleg, hárið á píanistanum eftirminnilegt, lýrísk túlkun hans líka en þögnin varð þó eftirminnilegasta vídd og fang þessara tónleika. Hún gagntók mig og varð mér íhugunarefni. Tónlist lifnar ekki án þagnar og í því fangi  verður hún  til og snertir sálina. Í þögn fellur allt í skorður í upplifun þess sem nýtur. Einleikstónleikar hafa sérstöðu því tónleikar eru skipulagðir með ákveðnu móti og sólistinn getur stýrt hvenær risið verður mest og hvernig flæði þeirra verður. Við skynjum oft að eftirköst eru hluti ferlis. Eftir mikla atburði og dramatískar aðstæður verður kyrra áleitin og hægt að upplifa hana sterkt.  „Höfg er þögn akursins eftir storminn.” Eftir óveður dagsins verður stjörnubjört hvelfing næturinnar stórkostlegt. Sálin getur farið á flug og orðið að stjörnu á festingunni. Eftir flóðið verður fjara þagnar og íhugunar. Hvað er mikilvægasta augnablikið á lífskonsert þínum? Jú, að þú þagnir, vinnir úr reynslunni áður en þú byrjar að klappa.