Greinasafn fyrir flokkinn: Útfararræður

Ég birti margar útfararræður mínar en þó ekki allar – og sumar með hljóðskrá. Nálgast má minningarorð á sigurdurarni.annall.is.

Pétur Haukur Guðmundsson +++

Á þessum fagra degi – og jafnvel í grænlensku góðviðri – kveðjum við Pétur Hauk Guðmundsson. Öflugan mann, kraftmikinn fagmann með skarpan huga. Pétur gerði kröfur til sjálfs sín, var mikill af sjálfum sér, talaði ekki af sér, náin þeim sem hann tók og trúr þeim sem hann batt hug við. Verkefnin sem honum voru falin voru í góðum höndum og voru unnin til enda.

Hvað skiptir þig mestu máli í tengslunum við Pétur? Hvað var það eftirminnilegasta og hvað þótti þér vænst um? Var það festan, traustið? Já, nafnið hans merkir klettur og það var ástæða til að Jesús veldi mann að nafni Pétur, sem einn styrkasta og öflugasta byggingarmann kristinnar kirkju í heiminum. Það stóð sem Pétur Haukur byggði og lauk. Manstu húmorinn, eða spilagetuna, gáturnar hans og smáprófin? Manstu hve flottur hann var? Naustu handarverka Péturs eða eldaði hann einhvern tíma stórsteik fyrir þig með bernaisesósu? Var hann þér Haukur í horni – öflugur verkstjóri, stuðningur og traust fyrirmynd? Hann reiknaði yfirleitt rétt, en var líka opinn fyrir að hafa nota stundum rangar forsendur. Þannig vinnur öflugur og glöggur spilamaður. Og hann kunni líka að bíða í lífinu og vissi að utanaðkomandi breytur hafa áhrif á lífsferil og viðburði. Því reiknaði hann út fólk og aðstæður með íhygli og visku. Hann horfði og komst að niðurstöðu.

Lífsferill Péturs er merkilegur og íhugunarefni. Hann þurfti að hafa fyrir lífinu og var traustur í því sem hann tók að sér. Nú eru skil og þú mátt gjarnan nýta þessa stund til að hugsa um það merkilega og dýrmæta – íhuga lífið. Hvað skiptir máli og hvernig getur líf, eigindir og verk Péturs orðið þér til lífsbóta og eflingar?

Upphaf og uppvöxtur

Pétur Haukur Guðmundsson var sumardrengur. Hann fæddist á Akureyri þriðjudaginn 6. júlí árið 1948. Móðir hans var Gréta Doak Pétursdóttir. Pétur fékk nafn afa síns. Svo var hann skráður Guðmundsson í þjóðskrá og kirkjubækur. En sú feðrun var ákvörðun móðurinnar því hann var ekki kenndur til blóðföður. Pétur vissi hver raunverulegur faðir hans var og hitti hann þótt hann hafi ekki borið nafn hans. Það er margt í þessari veröld vitað þótt skráningin hafi þjónað einhverju öðru en raunveruleikanum.

Pétur var annar í röð fimm systkina. Ásta Guðrún Guðmundsdóttir – síðar Hurrin – var elst. Hún fædist árið 1947. Ásgeir V. Bjarnason var sá þriðji og fæddist árið 1952. Síðan komu Heimir Jón Guðjónsson 1954 og yngstur er John Michael Doak sem fæddist árið 1964.

Fyrstu árin bjó Pétur í fjölskylduhúsinu á Akureyri og naut gæða ástvina og fjölskyldu. Þegar Gréta, móðir hans, flutti suður var Pétur sendur í fóstur í Syðri Velli í Kirkjuhvammshreppi í V.-Húnavatnssýslu. Þar ílentist hann hjá Steinbirni Jónssyni og Elínbjörgu Jónasdóttir. Þar var barnafjöldi og hann var yngstur. Pétur eignaðist á Syðri Völlum fimm fóstursystkini sem hann naut samvista við og lærði af. Þau eru Steinbjörn Björnsson, Álfhildur Steinbjörnsdóttir, Samúel Ósvald Steinbjörnsson, Anna Steinbjörnsdóttir, kölluð Dúdda, og Sigurður Ingvi Steinbjörnsson. Heimilið var gott og það var ekki bara puð heldur líka skáldskapur í heimilismenningunni – tengingar til moldar, út til samfélags og upp í hæðir andans.

Steinbjörn og Elínbjörg hættu búskap þegar Pétur Haukur var á unglingsaldri. Þau fluttu suður og í Hveragerði árið 1962. Flutningurinn var til góðs fyrir Pétur. Hann naut bæjarlífisins syðra, eignaðist félaga í skólanum og á fótboltavellinum og hafði gaman af að etja kappi við sveitunga og líka Selfyssingana. Hann var duglegur og eftirsóttur til vinnu og góður félagi.

Námsmaðurinn og fjölhæfur dúx

Pétur hóf skólagöngu fyrir norðan, í Vestur Húnavatnssýslu og hélt svo áfram námi í Hveragerði. Svo fór hann norður á Akureyri og auk námsins í MA varð hann snjall briddsspilari. Hann festi ekki hug við menntaskólanámið og fór í launavinnu og var m.a. í múrverki hjá Hauki frænda. Pétur talaði oft um tímann fyrir norðan og sagði skemmtisögur af litríku mannlífi í höfuðstað Norðurlands.

Pétur var skarpur, söggur að læra og gerði sér fljótt grein fyrir að það væri betra að hafa starfsréttindi en ekki. Hann skráði sig í Tækniskólann og lauk byggingatæknifræði árið 1974. Skemmtilega saga um Pétur barst til mín nú í vikunni alla leið frá Tyrklandi. Sigurjón Jónsson og Pétur voru félagar í skóla. Þeir höfðu steypt og kunnu til verka og töldu sig geta nýtt dæmatímann betur en að reikna. Þeir tefldu því og Steindór kennari horfði á þá við skákina á meðan hinir nemarnir reiknuðu. En Pétur og Sigurjón urðu þó dúxarnir um vorið. Þeir sem reiknuðu um veturinn töldu að þeir hefðu orðið svona snjallir vegna þess að skákin hefði eflt heilastarfsemina. En Sigurjón fullyrti að þeir hefðu bara verið góðir í fræðnunum líka.

Svo bætti Pétur við réttindum í múrverki. Hann varð meistari í því fagi einnig. Pétur var alla tíð góður í því sem hann tók sér fyrir hendur eða sinnti. Hann gerði kröfur til sjálf sín, setti kröfurnar hátt varðandi gæði þess sem hann vann að. Hann var fagmaður í anda og störfum. Hann gat gert margt en dúxað samt.

Með tæknifræðiprófið upp á vasa og múrverkið að auki fékk Pétur vinnu hjá Hafnarfjarðarbæ. Hann vann að og stýrði framkvæmdum á vegum bæjarins. Árið 1983 söðlaði hann um og fór yfir til Hagvirkis og var meðal annars staðarhaldari við Sultartangavirkjun sem fyrirtækið byggði. Um 1990 ákvað hann að vera engum öðrum háður og var með eigin verktakarekstur. Hann tók að sér verk eða vann sem undirverktaki. Árið 1997 fór hann með gömlum félögum sínum hjá Hagvirki til Grænlands og vann þar á vegum Íslenskra Aðalverktaka. Það var upphafið að langdvölum Péturs á Grænlandi. Næstu árin vann hann til skiptis í Keflavík og á Grænlandi. Pétur náði að vera langdvölum á austurströnd Grænlands, vesturströndinni og syðst líka. Hann var í Tassilak, Assiat og Nanortalik. Árið 2009 flutti hann svo til Nuuk þar sem hann fór að vinna fyrir KANUKOKA, sem var samband sveitarfélaga. Í þágu þeirra vann hann til 2018 þegar sambandið var leyst upp. Eftir það gerðist hann eftirlitsmaður með uppyggingu spennistöðvar sem hann vann við þar til veikindi meinuðu honum að starfa áfram.

Ástin og fjölskyldan

Svo er það heimilislífið og ástin í lífi Péturs Hauks Guðmundssonar. Hann var 22 ára þegar hann sá Magneu Þórunni Ásmundsdóttur austur á Laugarvatni. Sumarið var þeim gott og þau urðu par. Þau giftust í september árið 1971. Þau eignuðust dæturnar Ásdísi Elvu og Árdísi Ösp. Þau gengu líka John, yngsta bróður Péturs í foreldrastað. Þau Pétur og Magnea skildu árið 2000.

Ásdís Elva er myndlistarkennari í Norðlingaskóla. Hún er gift Hallgrími Ólafssyni.  Börn þeirra eru þau Ísabella Ýrr (1997) og Kormákur Logi (2001).

Árdís Ösp er meistari í bílamálun. Hún er gift Destiny Nwaokoro. Börn þeirra eru Pétur Uzoamaka (2018) og Ásmundur Obiageri sem er nýkominn í heiminn (2020).

Á Grænlandi kynntist Pétur Elisu Olsen. Þau gengu í hjónaband árið 2006 og voru um tíma með fósturdrenginn Erneeraq hjá sér. Þau skildu árið 2016.

Síðustu tuttugu árin bjó Pétur á Grænlandi og lést hann á heimili sínu þann 8. september síðastliðinn.

Mótun

Lífsferill Péturs er laðandi og vekur marga þanka. Upphafið og lífsmótunin var flókin en Pétur varð mikill af sjálfum sér. Hann vann úr lífsháska áranna og var stöndugur og staðfastur í lífinu. Hvernig leið barninu að fara að heiman og í fóstur hjá vandalausum? Hvað skilur slíkt eftir? Það var eftirminnilegt að heyra af því að þegar hann var barn og átti að sækja kýrnar í haga fann hann þær ekki. Í ljós kom að hann var sjónskertur. Og alla tíð síðan vildi hann gera vel, var ákveðinn að skila sínu og missa ekki sjónar á verkefnu sínum í lífinu. Hvaða áhrif hefur föðurleysi á persónumótun? Og hvernig mótast maður af því að eiga sér mörg systkin en vera lítið hjá þeim, mörg fóstursystkin og öll mun eldri? Hvað var það í grænlenskri menningu og náttúru sem seiddi Pétur svo mjög að hann var ekki bara heima í Vestur Húnavatnssýslu, í Hveragerði, Hafnarfirði eða Skerjafirðinum? Hann var heima á Grænlandi, skynjaði hræringar fólksins, blístraði jáið á innsoginu að grænlenskum hætti og lagði gott til uppbyggingar samfélagsins. Hann vildi líka deyja fjáls í Grænlandi þótt líkami hans yrði lagður í festu íslenskrar moldar. 

Lífið í eilífð
Nú er lagður upp í lengstu og hinstu ferðina. Hann eldar ekki framar fyrir þig og pískar bernaisesósu. Hann dottar ekki framar með barnabarn við brjóst. Þú getur aldrei hringt í hann eða leitað til hans með einhver mál, stærri eða minni. Hann klæðir sig ekki framar upp. Bendir ekki á glas í hyllu eða leggur til góða meðferð á lífverum heimsins. Hann keyrir ekki framar stóran bíl eða rennir línu í á. Hann kennir ekki lengur þakklæti eða segir sögu um fortíð sem líka er saga um hann sjálfan. Hann horfir ekki framar á fólk til að greina það og hvort það væri traustins vert. Hann talar ekki framar hægt til að hjálpa fólki að skilja stóru málin. Og dansar ekki tangó eða vals.

Nú er þessi stóri, fallegi maður farinn inn í himininn, Syðri Velli eilífðar. Þar er ljómandi stuð, kærleiksheimur þar sem allt er rétt. Allar sudoku-þrautir lífsins ganga upp. Drengur góður, vinur vina sinna, óáreitinn. Takk Pétur Haukur.

Guð geymi Pétur Hauk og Guð styrki ykkur ástvini og vini. Amen.

Hallgrímskirkja 25. september 2020, útför. Kistulagt í Kapellunni í Fossvogi 23. september. Bálför. Jarðsett í Kópavogskirkjugarði.

Guðjón Ármann Eyjólfsson +

Í milljónir ára hafa menn starað upp í himininn – og hugsað. Hvað merkir þessi blikandi mergð þarna uppi? Hvað er að baki? Er eitthvað hinum megin? Og þegar mannabörnin hafa legið á bakinu, séð stjörnuhröpin og numið óravíddir alheimsins hafa þau skynjað smæðina en líka vaknað til vitundar um möguleika. Óravíddir og smæð heimsins. Er nema von að sálmaskáldið spyrji í áttunda Davíðssálmi. „Hvað er þá maðurinn að þú minnist hans og mannsins barn að þú vitjir þess?“ Eitt er að kunna að sigla um sjó og afreka í lífinu en svo er eilífðarsiglingin. Hver eru stefnumið fyrir þá ferð? Hvaða vitar eru nothæfir? Jesús talaði um sannleikann og kenndi hvaða leið átti að fara. Guðjón Ármann Eyjólfsson var sérfræðingur í siglingum en líka kunnugur eilífðarstefnunni. Hann þekkti Karlsvagninn, Fjósakonurnar og Pólstjörnuna, stjörnumerki sem gefa stefnuna. Hann kenndi börnum sínum að þekkja stjörnuhimininn og sagði þeim nöfnin og sögurnar sem tengdust stjörnumerkjunum. Hann tengdi þau og nemendur sína við fræðin, sem færðu menn frá einni strönd til annarrar, tengdi tímann við fortíðina og himininn. Menn eru alltaf á ferð, ef ekki frá punti A til B, þá á ferð í fræðum eða í huganum til hinna draumkenndu stranda hið innra, eða á vit eilífðarhafnar á himni. Heimaey er ekki aðeins eyja sunnan við meginland Íslands heldur áfangi á himnum, sem við kristnir menn köllum eilífð. Þar er Guð og þar er Guðjón Ármann Eyjólfsson. Hann vissi hvernig átti að stýra og rataði.

Ætt og upphaf

Guðjón Ármann Eyjólfsson kom í heiminn í ársbyrjun, 10. janúar árið 1935. Vestmannaeyjar voru upphaf hans og samhengi allrar æfi hans. Guðjón Ármann var sonur hjónanna Guðrúnar Brandsdóttur og Eyjólfs Gíslasonar. Húsið sem þau byggðu og bjuggu í hét því virðulega nafni Bessastaðir. Eyjólfur, faðir Guðjóns Ármanns, var í fjóra áratugi einn fremsti formaður Eyja. Hann var ekki aðeins mikill aflamaður heldur einnig áhugamaður um sögu Vestmannaeyja. Sonurinn naut þess áhuga og arfs frá föðurnum. Guðjón Ármann sagðist líka njóta getu föðurins til að skrifa. Guðrún, móðirin, var listfeng hannyrðakona. Erlendur var elsti bróðir Guðjóns Ármanns, samfeðra. Sigurlína og Gísli voru alystkin hans, en Sigurlína lést ung. Guðjón Ármann var yngstur í barnahópnum. 

Hann stundaði grunnnám á heimaslóð m.a. í skóla aðventista í Eyjum. Hann lauk landsprófi frá Gagnfræðaskólanum árið 1951. Þá hóf hann nám í Menntaskólanum á Laugarvatni en leiddist og fór suður og var sáttur og leiðalaus í Menntaskólanum í Reykjavík. Guðjón Ármann var fjölhæfur í námi. Fyrst lauk hann stúdentsprófi í máladeild vorið 1955. En hann vildi auka möguleika sína varðandi náms- og starfs-val. Með honum hafði vaknað löngun að fara til náms í danska Sjóðliðsforingjaskólanum. Skólinn gerði miklar kröfur og máladeildarprófið var ekki nóg. Guðjón Ármann stæltist alltaf við átök og var marksækinn. Hann ákvað því að bæta við öðru stúdentsprófi og lauk því líka stúdentaprófi frá stærðfræðideild ári síðar.

Með tvö stúdentsskírteini sótti Guðjón Ármann um nám Sjóliðsforingjaskóla danska sjóhersins. Hann var einn af 130 sem sóttu um en aðeins 30 komust inn. Námið var áháskólastigi og Guðjón Ármann lauk því árið 1960.[i] Þá fór hann til starfa hjá Landhelgisgæslunni og stundaði einnig rekstrarnám. Hann var aðstoðarframkvæmdastjóri frystihúsa í Vestmannaeyjum á árunum 1962-63. Hann var einnig hvatamaður og einn af stofnendum Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum og var skólastjóri hans frá stofnun árið 1964. Útgerðarmennirnir vildu laða unga efnismenn til Eyja og í skólann. Þeir vildu gefa þeim möguleika og menntun, en treystu því líka að stúlkurnar myndu síðan halda þeim í Eyjum, sem tókst vel!

Þegar gosið hófst í Eyjum var skólinn fluttur upp á land og í húsnæði Stýrimannaskólans í Reykjavík. Guðjón Ármann hélt áfram kennslu í skólanum eftir gos og varð skólastjóri Stýrimannaskólans í Reykjavík árið 1981. Hann gegndi starfi skólameistara til ársins 2003.

Guðjón Ármann helgaði starfsævi sína menntun íslenskra sjómanna. Hann var árið 1993 sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín að fræðslumálum sjómanna. Öryggis- og björgunarmál sjómanna voru honum hugleikin og var hann um árabil gjaldkeri Björgunarsjóðs Stýrimannaskólans í Reykjavík – Þyrlusjóðs.

Eftir Guðjón Ármann liggur mikið ritasafn. Hann skrifaði um sjómennsku, siglingasögu, siglingafræði og kennsluefni skipstjórnarmanna. Hann þýddi Alþjóðlegar siglingareglur og uppfærði þegar breytingar urðu (1972 og 1989). Hann skrifaði bókina Stjórn og sigling skipa, siglingareglur, sem gefin var þrisvar út í endurskoðuðum útgáfum (1982, 1989, 2006). Þá ritaði hann bækurnar Leiðastjórnun (2009) og Siglingafræði (2013). Þetta eru mikil rit og glæsilegar ritsmíðar.

En útgáfa rita um skipstjórnun og siglingafræði var ekki það eina sem Guðjón Ármann skrifaði. Eins og þegar er sagt var faðir hans mikill áhugamaður um sögu og mannlíf Vestmannaeyja. Um þau efni skrifaði Guðjón Ármann einnig mikið. Haustið 1973 kom út hin merkilega bók Vestmannaeyjar – byggð og eldgos, sem er heimild um mannlíf í Eyjum, horfna byggð og flótta íbúanna hina örlagaríku nótt, 23. janúar 1973. Þá skrifaði Guðjón Ármann um Vestmannaeyjar í ritið Landið þitt sem kom út árið 1984. Honum var síðar falið að skrifa Árbók Ferðafélags Íslands um Vestmannaeyjar sem kom út árið 2009 og var bókin að verðleikum tilnefnd til verðlauna Hagþenkis. Þessi Vestmannaeyjabók Guðjóns Ármanns er yfirgripsmesta ritið um Vestmannaeyjar. Auk annarra starfa var Guðjón Ármann ritstjóri Sjómannadagsblaðs Vestmannaeyja á árunum 1965-1975. Í því er á annað hundrað greina hans um mannlíf og sögu Eyjanna.

Guðjón Ármann var eftirsóttur félagsmálamaður enda glaður, áhugasamur um fólk, jákvæður og eflandi. Hann var virkur í Akóges um árabil og sinnti þar ýmsum trúnaðarstörfum. Þá var hann dugmikill tungumálamaður og áhugamaður um rómönsk tungumál. Þegar hann var barn fékk hann fyrstu frönsku orðabókina og drakk í sig frönsk áhrif. Guðjón Ármann var meðlimur í Alliance Française og sat í stjórn félagsins og skrifaði m.a. um rithöfundinn Guy de Maupassant. Þá þýddi hann smásögu úr frönsku eftir hann, sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins.

Anika og börnin

Svo er það fjölskyldan og Anika. Guðjón Ármann gerði sér alltaf grein fyrir gæðum og styrk. Anika Jóna Ragnarsdóttir, Arnfirðingurinn frá Lokinhömrum, vann á sjúkrahúsinu Sankt Josepí Kaupmannahöfn. Þau sáu hvort annað í Gullfossi við bryggju í Kaupmannahöfn. Svo hittustþau á Rauðu nellikunni, sem var vinsæll Íslendingastaður í Höfn. En Guðjón Ármann, sem var orðinn almælandi á dönsku þóttist vera Dani. En Anika sá gullið í gegnum þykistuna og dátabúninginn og hann sá gullið í henni. Nálgunaraðferð Guðjóns Ármanns var frumleg. Hann kom til Aniku og bað hana um að merkja fötin sín. Og hún gerði sér grein fyrir að hann var nákvæmur og kom úr formlegu vinnusamhengi sjóðhersins danska. Hún merkti vel og hann þakkaði vel fyrir sig. Þau gengu í hjónaband föstudaginn 30. desember árið 1960. Þau voru vinir og báru virðingu fyrir hvoru öðru. Þau stóðu saman, hrósuðu hvoru öðru og voru hinu styrkur. Guðjón Ármann hafði á hreinu alla tíð að góður eiginmaður ræktaði samband við konu sína og börn og þjónaði heimili sínu.

Þau byrjuðu búskapinn í Hátúni 4. Þegar Guðjóni Ármanni var boðin staða í Vestmannaeyjum var Anika til í að fara út með honum. Þau bjuggu í Eyjum í áratug, en fóru svo upp á land í gosbyrjun. Það tók tíma að koma sér fyrir í nýju samhengi eftir eld. Fjölskyldan bjó í Vesturbænum um tíma en eignuðust síðar sælureit í Fossvoginum þar sem Anika býr enn. Guðjón Ármann sagði, að hann hefði lært í danska flotanum að góður yfirmaður hugsaði vel um skip sitt og áhöfn og eiginkonu sína. Svo sagði hann við konu sína: „Þú hefur það eins og þú vilt, Anika mín.“

Börn Ármanns og Aniku eru fjögur. Ragnheiður er elst. Hún er MA í alþjóðasamskiptum og leiðsögumaður. Maður hennar er Leifur Björnsson. Synir þeirra eru Ármann og Björn. Ragnar er annar í röðinni. Hann er svæfingalæknir. Kona hans er Kristín Axelsdóttir og þau eiga synina Þórólf, Höskuld, Grím og Brand. Eyjólfur er sá þriðji. Hann er lögmaður. Kristín Rósa er svo yngst. Hún er hjúkrunarfræðingur og MA í lýðheilsuvísindum. Maður hennar er Jón Heiðar Ólafsson og þau eiga Ólaf Heiðar, Guðjón Ármann og Aniku Jónu.

Hvernig var Guðjón Ármann?

Hvernig manstu Guðjón Ármann Eyjólfsson? Byrjum á öguðu snyrtimenninu. Hann fékk ákveðið uppeldi heima um hvað væri gott og hvað ekki. Svo slípuðu Danir hann í öflugri regluhefð danska hersins. Guðjón Ármann var agaður sjálfur og sagði nemendum sínum, að það væru ekki öflugir yfirmenn, sem gætu ekki klárað skúringar eða hreinsað salernin. Hann var smekkmaður, gætti að klæðaburði sínum og miðlaði innri sem ytri ögun til nemanna í Stýrimannaskólanum. Þeir lærðu fljótt, að það þýddi ekki að koma vankaður eða illa verkaður í skólann. Þeir lærðu líka að taka á móti kennara með stæl í stofu. Þegar stýrimannaskólinn flutti upp á land í gosinu gerðu nemendur Reykjavíkurskólans sér grein fyrir að Eyjanemendurnir voru á allt öðru og æðra plani hvað fatnað og aga varðaði. Þegar horft er til baka tala nemendur Guðjóns Ármanns um hve aginn sem hann kenndi þeim hefði skilað þeim miklu í störfum og stjórnun. Hatturinn hans Guðjóns Ármanns og fatnaður voru ekki sýndarmál skartmennis heldur ásýnd hins þroskaða manns. Hann var formlegur í lífi og tengslum. Og hann heilsaði með handabandi.

Guðjón Ármann var alltaf að læra. Hann var opinn, hæfileikaríkur og námsfús. Hélt áfram að þjálfa sig í tungumálum og menningu. Hann íhugaði hverju hann gæti miðlað og þar með bætt stöðu stéttar sinnar. Hann var gjarnan með bók í hendi. Hann var heillaður af dýpt franskrar menningar. Hann sótti inn á söfn, skoðaði allt vel, íhugaði og gleymdi stund og stað. Þar var hann að læra og lærði mikið. En börnum hans fannst stundum að safnaferðirnar mættu vera hraðari og styttri.

Guðjón Ármann var af kynslóð kraftaverkamanna, sem byggðu upp nútímasamfélagÍslendinga. Hann var frjálslyndur og – eins og margir af hans kynslóð – opinn gagnvart öllum gagnlegum nýungum og því sem nýta mætti í þágu íslenskrar þjóðar. Hann gekk til þjónustu við nútímasamfélaið og beitti sér af fullum þunga, ekki í eigin þágu heldur heildarinnar. Í æsku gerði hann sér grein fyrir mikilvægi útfærslu landhelginnar og mikilvægi sjómælinga. Guðjón Ármann miðlaði hugsjónum sínum til nemenda sinna og minnti þá á að góður yfirmaður lætur sér annt um velferð og hag allra um borð. Og hann minnti þá á að góður yfirmaður á sjó væri líka góður eiginmaður í landi. Mannrækt var honum mikilvæg, styrkur og fágun hið innra sem ytra. Hann mat hæfni fólks og hæfileika óháð stöðu eða stétt. Hann varumtalsfrómur mannvinur. Það er ástæða fyrir að sonur hans las áðan kærleiksóð Páls postula.

Guðjón Ármann var marksækinn og einbeittur í lífi og vinnu. Þegar hann hafði sett sér stefnu sótti hann ákveðið fram. Hann hafði að orðatiltæki „Vedligehold af målsætning.“ Hann notaði vel tímann en gekk jafnvel nærri sér vegna einbeitninnar. „Gutta cavat lapidem.“ Dropinn holar steininn – minnti hann á – og svo vissi hann og kenndi: „sed saepe legendo“ „ … ekki með afli heldur með því að falla jafnt og þétt; þannig verður maðurinn lærður, ekki með afli heldur stöðugum lestri.“ Guðjón Ármann var afkastamikill eljumaður. Hann kunni ekki vel – frekar en aðrir af hans kynslóð – að slappa af. Þegar tómstundir gáfust opnaði hann bók eða skrifaði. Hann miðlaði lífsafstöðu mennta, skynsemdar og ráðdeildar til barna sinnar. Þegar krakkarnir vildu fara í bíó eða þurftu peninga til tómstunda eða bara til að fara í sjoppuna lágu þeir ekki á lausu. En ef þau ætluðu að kaupa sér bók var afstaða pabbans mun opnari. Peningar voru ekki markmið heldur tæki til góðs og til menntunar. Og hann var áhugasamur um menntun barna sinna og studdi þau.

Í pólitík og menningarmálum taldi Guðjón Ármann mikilvægt að fjármunir væru ekki á fárra höndum, heldur ættu auðlindir að nýtast heildinni. Um skeið var hann virkur í bæjarpólitíkinni í Eyjum en taldi tíma sínum best varið við að mennta, fræða og tryggja velferð stéttar sinnar. Guðjón Ármann var gagnrýnin á þær stefnur og stjórnsýslu sem ekki tryggði velferð heildarinnar. Hann var t.d. gagnrýninn á kvótakerfið sem hann taldi of lokað og útilokandi.

Guðjón Ármann var afar hæfur félagslega. Hann hafði t.d. gaman af að tala við félaga barna sinna. Hann bar hag nemenda sinna mjög fyrir brjósti. Hann fylgdist með þeim og gladdist yfir velferð þeirra og árangri. Alltaf jákvæður og glaður. Svo héldu nemendur hans góðu sambandi við hann. Hann hélt gjarnan ræður á mannamótum, inntaksríkar, vinsamlegar og jákvæðar tölur. Hann starfaði að margvíslegum félagsmálum, sótti samkomur á vegum Eyjamanna og ræktaði vini sína, innlenda sem erlenda.

Eldurinn í Heimaey hafði djúptæk áhrif á Guðjón Ármann eins og aðra Eyjamenn. Hann skrifaði: „Það var mér stórkostleg og ólýsanleg sjón, er ég sá þessa firnakrafta að verki stundarfjórðungi eftir að þeir leystust úr læðingi. Í sömu andrá varð maður fullur furðu, skelfingar og lotningar gagvart því sem gerzt hafði.“ Minningin um eldinn lifði í honum síðan. Þegar fólk lendir í áföllum eru kostir einkum tveir, að bogna undan vandanum eða bregðast við. Guðjón Ármann fór upp á land – og öll fjölskyldan – og hann settist niður við skriftir. Hannskrifaði sig í gegnum gosskelfinguna. Þegar á gosárinu gaf hann út bók um Vestmannaeyjar. Hann setti allt hið mikilvægasta um Eyjarnar á blað, vildi tryggja að sem flest yrði varðveitt og sem minst yrði eldi gleymskunnar að bráð. Framlag Guðjóns Ármanns um sjómennsku, skip og farmennsku er veigamikið en einnig það, sem hann skrifaði um Vestmannaeyjar. Lof sé honum og þökk.

Guðjón Ármann Eyjólfsson er farinn inn í himininn. Hann hefur sett hattinn upp í síðasta sinn og bindið líka. Hann brýnir ekki framar fyrir nemum sínum mikilvægi skapandi reglu í vinnu og lífi. Fjölskylda Guðjóns Ármanns sér á eftir ljúfum, kærleiksríkum og menntandi fjölskylduföður. Þau eiga allar minningarnar, bækurnar og sverðið hans. Hvað er þá maðurinn að þú minnist hans? Guð gleymir ekki. Stefnumiðin voru skýr. Guðjón Ármann þekkti stefnuvitana og kunni að sigla. Hann er kominn til Heimaeyjar hið efra. Guð geymi Guðjón Ármann Eyjólfsson og gæti þín. Amen.

Kveðjur hafa borist frá Sigrúnu Ragnarsdóttur, Lilju Ragnarsdóttur og fjölskyldu og Jónasi Ragnarsyni og fjölskyldu sem eru búsett á Akureyri.

Ása Ingibergsdóttir biður fyrir kveðju, fyrir hönd skólasystkina Guðjóns Ármanns úr árgöngunum 1934 og 1935 úr barnaskólanum í Vestmanneyjum.

Þá barst kveðja frá Sveini Valgeirssyni, sem skrifaði: „Við, nemendur skólaárgangs 1972 til 1974, vottum eiginkonu og afkomendum Guðjóns Ármans okkar dýpstu virðingu og samúðarkveðjur með þökk fyrir góðar stundir í Stýrimannaskóla Vestmannaeyja.“

Jarðsett í Sóllandi, Fossvogi. Erfidrykkja í Hörpu, Norðurbryggja, 1. hæð. Ritningarlestrar, Sálm 8; 1. Kor. 13; Jóh. 14. Hallgrímskirkju, 23. júní, 2020 kl. 15.

[i] Nám Guðjóns Ármanns kom við sögu Alþingis ári síðar. Í ræðu Jóns Árnasonar, sem er að baki þessari smellu,  kemur fram að hann hafi meiri menntun en þá sem nemendur í íslenskum stýrimannaskóla hefðu getað veitt honum. https://www.althingi.is/altext/raeda/?lthing=81&rnr=1441

+ Lilja Helga Gunnarsdóttir +

Það var svo gaman þegar Lilja kom. Hún var glaðlynd, jákvæð og hrífandi. Og stutt stund leið þar til hún var orðin miðja fagnaðarins. Hún laðaði að sér fólk, var fultrúi hins bjarta og góða í lífinu. Og því var svo heillandi að fylgjast með henni í hópi fólks, hve auðveldlega og eðlilega hún var aflvaki kátínu og gleðigjafi. Kristindómur er átrúnaður fagnaðarerindis, gleðifréttarinnar stærstu, að lífið er sterkari en dauðinn. Skarparinn hefur skipulegt veröldina svo að lífið er til að njóta, hafa gaman. Lilja var fólkinu sem hún kynntist, vinkonum sínum og ástvinum fulltrúi þeirrar lífsafstöðu. Hún var fulltrúi hins besta og hafði ríkuleg áhrif á fólk. Hún var elskuð. Og nú kveðjum við. Við minnumst hennar og þökkum fyrir samskiptin. Og við megum gjarnan íhuga hvað það var sem hafði mest áhrif á okkur. Hvað það var sem var minnistæðast í lífi hennar? Við tímaskil megum við þakka og blessa brottför hennar. Nú er hún komin á einhvern Ísafjörð eilífðar. Það er gott að ímynda sér hana í miðjum stórskara í gleðiríku, himnesku samkvæmi þar sem enginn þarf að hafa áhyggjur af tveggja metra reglunni né heldur fjöldatakmörkum. Þar er Lilja í miðjum hópnum, gleðin hrein og hlátrarnir dillandi.

Ættir og upphaf

Lilja Helga Gunnarsdóttir fæddist á Ísafirði mivikudaginn 3. febrúar 1932. Guðlaug Kvaran, móðir hennar, var af skáldprestaættum. Foreldrar Guðlaugar voru hjónin Lilja Metta Kristín Ólafsdóttir og presturinn Jósef Hjörleifsson Kvaran. Afabróðir Lilju var því rithöfundurinn Einar Hjörleifsson Kvaran og langafi Hjörleifur Einarsson, sem sögufróðir kannast við úr íslenskri menningar- og kirkju-sögu 19. aldar.

Faðir Lilju var Gunnar Andrew. Hann fæddist á Þingeyri og var af kjarnmiklum, vestfirskum ættum. Foreldrar hans voru Helga Samsonardóttir og Jóhannes Ólafsson, alþingismaður. Gunnar starfaði við fræðslu- og stjórnunar-störf á Ísafirði og hann var m.a. forstöðumaður sjúkrahússins. Gunnar byggði upp skátastarf á Ísafirði, sem enn er í minnum haft vestra. Gunnar var kraftmikill leiðtogi og efldi hina ungu kynslóð Ísfirðinga til afreka í lífinu.  

Guðlaug og Gunnar eignuðust fimm börn. Lilja var yngst og hún var eina systirin í hópnum. Bræður Lilju voru Bolli, Jósef, Kári og Kjartan. Bolli fæddist við lok fyrri heimstyrkjaldar, árið 1918, og svo fæddust hinir bræðurnir næstu sex árin. Síðan varð hlé eða nær átta ár, en þá kom Liljan í heiminn og var fagnað. Það þarf ekki mikið hugarflug til gera sér grein fyrir að hún naut athygli og elsku, eina stúlkan í hópnum. Bræður og foreldrar voru öflug skjólvörn hennar. En hún þurfti líka að hafa fyrir til að heyrast og sjást í kraftmiklum og kátum hópi. Það efldi félagsgetu hennar og stælti eða jók hæfni hennar sem við nutum síðar. Lilja var alla tíð náin bræðrum sínum og var annt um velferð þeirra og fjölskyldna þeirra. Þá var hún vel tengd foreldrum sínum. Bræður Lilju eru allir látnir og nú er systkinahópurinn allur farinn í sólarkaffið efra.

Lilja ólst upp á Ísafirði fyrstu æviárin og sótti þar skóla. Foreldrar Lilju skildu þegar hún var að komast á unglingsárin. Lilja og Guðlaug, mamman, fluttu þá frá Ísafirði árið 1944 og fóru suður. Mægðurnar bjuggu síðan saman. Fyrst var Guðlaug húsmóðirin en eftir að Lilja byrjaði að búa með Inga sínum, var Guðlaug áfram á heimilinu og svo varð hún amman. Þrjár kynslóðir bjuggu saman. Fyrst eftir suðurferð bjuggu þær mæðgur í Hafnarfirði en síðar í Reykjavík og héldu þar heimili alla tíð síðan.

Vinnan utan heimilis

Lilja var félagslynd og glaðsinna og var því eftirsótt í störf, sem kröfðust félagsgreindar og samskiptahæfni. Lilja hóf ung störf í Reykjavíkurapóteki og vann þar við afgreiðslustörf í nærtvo áratugi. Þá fór hún til starfa í lyfjaheildversluninni Hermes hjá Kjartani, bróður hennar. Hún hafði ekki aðeins samband við apótekara þjóðarinnar símleiðis, heldur fór líka í söluferðir um landið til að koma apótekavörum til smásalanna. Hún þótti öflugur og skemmtilegur sölumaður og gerði góðar ferðir. Svo var það móttakan á Hótel Sögu. Lilja tók þar á móti landsmönnum með bros á vör og átti góð orð fyrir alla. Fyrstu áhrifin á hóteli skipta miklu máli. Og af því Lilja var góð í tungumálum sjarmeraði hún líka erlendu ferðamennina. Þegar hún hafði þjónað landsmönnum og ferðamönnum heimsins á Sögu færði hún sig um set og vann í Búnaðarbankanum. Alls staðar eignaðist Lilja vinkonur og vini. Hún hafði áhuga á fólki, lagði sig fram um að gera vinnustaðina sína ánægjulega og naut því elsku og virðingar.

Ingi, heimilið og ríkidæmið í fólkinu

Svo var það Ingimundur Magnússon. Ingi sá hana fyrst á götu í Hafnarfirði þegar hún var unglingur. Hann man enn hvernig kápan hennar var og að hægt var að snúa henni við og þá var komin ný flík. Síðar sagði Ingi Lilju frá þessari sýn, sem greiptist í huga hans. Ingi hafði sem sé frá bernsku gott auga fyrir fegurðinni og gæðunum. Svo hittust þau í Hveradölum næst þar sem unga fólkið safnaðist saman til að hafa gaman og flest fóru eitthvað upp í brekkurnar. Ingi mundi eftir kápustúlkunni úr Hafnarfirði og hún gerði sér grein fyrir hve flottur hann var. Þau Lilja náðu saman og gengu síðan saman æfiveginn. Hún 17 og hann 18. Svo fékk Ingi forsetaleyfið að hann mætti ganga í hjónaband bráðungur. Þau sögðu já í kirkjunni í októberlok árið 1951. Hún var drottingin í lífi hans og hann kóngurinn. Gott líf og litríkt.

Synir þeirra Lilju eru Magnús, Gunnar og Bolli Þór.

Magnús er framhaldsskólakennari. Kona hans er Brynhildur Ingvarsdóttir, augnlæknir. Sonur Magnúsar er Ingi Fjalar og kona hans er Sólveig Ólafsdóttir. Börn þeirra eru Þór Fjalar, Magnús Fjalar og Katrín Helga. Jóhanna Katrín Magnúsdóttir er gift Finni Vilhjálmssyni. Þau eiga börnin Öldu, Ægi og ónefnda dóttur. Svo eru Lilja Ósk Magnúsdóttir og Gunnar Ingi Magnússon. Unnusta hans er Eva Harðardóttir.

Annar sonur Lilju og Inga, Gunnar, er framkvæmdastjóri. Kona hans er Hrund Sch. Thorsteinsson, hjúkrunarfræðingur. Börn Gunnars eru Davíð, Jakob, Soffía og Magnús. Kona Davíðs er Nína Björg Arnbjörnsdóttir. Börn þeirra eru Soffía Hrund og Gunnar Óli. Börn Nínu eru Kjartan Páll og Kolbrún Dís. Unnusti Soffíu er Jón Dagur Þorsteinsson og Glódís Ylja Hilmarsdóttir er unnusta Magnúsar.

Bolli Þór Bollason er svo þriðji strákurinn og elstur. Hann kom ungur til Guðlaugar ömmu sinnar og Lilju þegar blóðforeldrar hans skildu. Faðir Bolla var bróðir Lilju og þeim mægðum rann blóðið til skyldunnar og hann varð eiginlega sonur þeirra beggja og gat þar með ráðið sjálfur til hvorrar hann leitaði. Það var því talsverð forréttindastaða, að njóta styrkleika tveggja kvenna sem voru báðar miklar fyrir sér. Svo þegar Ingi kom á heimilið varð hann stjúpi Bolla. Bolli Þór var ráðuneytisstjóri. Kona hans er Hrefna Sigurðardóttir viðskiptafræðingur. Börn Bolla eru Ólöf og maki hennar Guðmundur Pálsson. Þau eiga Pál, sem giftur er Margréti Ósk Hildar Hallgrímsdóttur. Sonur  þeirra er Guðmundur Alex. Anna Þórunn er gift Jósef K. Jósefssyni og þau eiga synina Daníel Loga og Arnór Breka. Þá er Guðmundur Ingi og Lárusog unnusta hans er Aþena Eir Jónsdóttir Elizondo og þau eiga óskírða dóttur. Svo er það Lilja Guðlaug, sem fékk nöfn mæðranna beggja. Sonur hennar er Jóhann Arnar Sigurþórsson. Unnusta hans er Ástrós Eiðsdóttir og á dóttirina Katrínu. Þá er Lárus og kona hans er Lára Björg Björnsdóttir. Dóttir þeirra er Halla María. Þórunn er gift SigurgeiriGuðlaugssyni og þau eiga synina Aron Fannar, Ísak Andra og Guðlaug Breka. Stjúpdóttir Bolla er Jóhanna Guðmundsdóttir. Hennar maður er Mohsen Rezakahn Khajeh. Börn þeirra eru Bolli Þór og unnusta hans er Heiðveig R. Madsen. Síðan eru Lárus og Anna Birna. Dóttir Jóhönnu er Halla Guðrún Richter og hún á börnin Jóhönnu, Jakob og Önnu Lilju. Dætur Hrefnu eru Karen Þóra og Hanna Christel Sigurkarlsdætur.

Þetta er mikill ættbogi sem Lilja fylgdist með. Hún hafði áhuga á fólki, fagnaði auðlegðinni í fólki og opnaði heimili sitt og hjarta fyrir öllum sem hún mátti og gat sinnt. Mörg þessara, sem hér hafa verið nefnd voru svo lánsöm að fá að gista hjá Lilju og Inga eða fara í sumarbústaði með þeim eða í ferðir um landið. Í Lilju var alltaf einhver lífsplús sem hún var tilbúin að deila með öðrum og leyfa öðrum að njóta. Undur lífsins. Fyrir hönd alls þessa fólk er þakkað í dag.

Svo eru þau sem beðið hafa fyrir kveðjur til ykkar. Fólkið hans Bolla sem býr í Danmörkukemst ekki til útfararinnar vegna ferðaskerðinga. Lilja Guðlaug og sonur hennar, Jóhann Arnar, og Jóhanna og fjölskylda biðja fyrir kveðjur. Þá biðja einnig fyrir kveðjur Soffía í Danmörk og Ingi Fjalar í Noregi, en þau komast ekki heldur af sömu ástæðum. Elín Kristjánsdóttir, æskuvinkona Lilju, biður fyrir saknaðarkveðju.

Minningarnar

KONICA MINOLTA DIGITAL CAMERA

Að kveðja vini sína og ástvini er mikilvægt, þakka fyrir tímann, hlátrana, hlýjuna, ferðalögin, gleðiefnin og allt þetta ríkulega, sem Lilja gaf vinum og fólkinu sínu. Hvernig manstu hana? Manstu eftir pólitískum áhuga ömmu krata? Manstu, að Ísafjörður var nánast himanríki á jörðu og þau voru eðalborin sem þaðan komu – eða fengu syndakvittun út á upphafið? Manstu félagsgetu Lilju, verkin hennar, matin sem hún bjó til og kökurnar sem hún gladdi með? Manstu hve ræktarsöm hún var? Manstu að hún gat verið föst fyrir í uppeldinu? Það muna strákarnir alla vega! Manstu hve fagurlega hún bjó heimili sitt? Og manstu kannski líka, að þegar hún var á Kaplaskjólsveginum hrópaði hún á strákana sína út á völl? Það var nú þægilegt fyrir hana en kannski þótti þeim síðra að fá svona beinskeitt kall úr eldhúsinu heima og út á og yfir KR-svæðið. Manstu menntunaráhersluna hennar Lilju og flestir ættu að fara vesturbæjarleiðina, Melaskóla, Hagaskóla, MR og HÍ? Aðrar leiðir voru síðri að hennar áliti. Manstu handverkskonuna Lilju og hve dugmikil hún var og gaf mörgum fallegar peysur og prjónles? Og svo var hún á ferðinni og allt til hinstu stundar var hún dugmikil og snögg í hreyfingum. Sagði Lilja þér einhvern tíma sögur, sem hún spann og dramatíseraði þau ósköp, að sögurnar urðu upphafin ævitýri? Lilja gat spunnið. Hún átti til skálda að telja. Manstu hve Lilju var létt að halda uppi vörnum fyrir sitt fólk? Manstu umhyggju hennar? Hvað þótti þér skemmtilegast við Lilju? Hvað sagði hún sem lifir í þér? Hvað hefur þú lært af henni eða getur dregið lærdóm af til að efla þitt eigið líf?

Mörk tímans – tilgangur á göngu lífsins

Það var svo gaman þegar Lilja kom. Nú kemur hún ekki framar í Neskirkju og ekki í þitt hús. Nú lifir hún í minningu þinni. Amma krati fer ekki framar með þér á pólitískan fund. Hún fær sé enga fingurbjörg framar hjá þér. Hún hringir ekki. Hún drífur ekki stóran hóp af vinkonum sínum í ferð til útlanda. Hún setur ekki framar upp andlitið eða spyr um ástalíf þitt. Hún kemur ekki framar og býður barnafólkinu pössun eða kemur með súkkulaðiköku Lilju í afmælin. Hún er farin. Svo verður hún jarðsett síðar í Sóllandinu nær. Lilja var trúuð og hún hafði unnið úr gæðum og áföllum lífsins. Hún gekk ljóssins megin í lífinu og þjónaði fólki. Og svo túlkaði hún líf sitt og sinna með jákvæðum hætti. Um dagana sendi hún frá sér margar minningargreinar. Fyrsta lína í einni þeirra er þessi: „Hvert er hlutverk okkar og tilgangur á göngu lífsins.“ Það eru meginspurningar, sem læðast að okkur þegar við elskum og kveðjum. Og svarið er: Að vera lífsins megin, þjóna gleðinni og trúa að lífið lifir. Lilja sagði við æfilok: „Nú fer ég bráðum til ömmu Guðlaugar.“ Og nú er hún farin inn í Sólland eilífðar.

Guð geymi Lilju og Guð styrki Inga, Magnús, Gunnar, Bolla og ykkur ástvini og vini.

Kistulagning, útför og erfidrykkja í Neskirkju og safnaðarheimili kirkjunnar miðvikudaginn 27. maí. Bálför og jarðsett í Sóllandi. 

KONICA MINOLTA DIGITAL CAMERA

Lík, líkn og líf – líkræður

Presti varð á í útför. Við kistuhornið varð moldunarbænin með þessu móti: “Drottinn minn, gef þú dauðum ró og hinum líkin, sem lifa!” Eitt i getur breytt miklu! Það sem á að vera líkn umbreytist í lík. Öllum verða á orðaglöp, líka prestum við bænagerð. Kannski klerkur hafi verið heltekinn af önnum, varla hefur hann verið að biðja Guð um fleiri lík. Dauðsfall og þar með lík er vissulega forsenda útfarar, en markmið prestsstarfsins er að þjóna líkn, upplýsingu, lífi – Guði. Hlutverk prests er ekki vera tæknir dauðans heldur verkæri líknar.

Mikilvægi líkræðunnar

Hið íslenska samfélag hefur löngum metið útför mikils og ekki síst líkræðuna. Í könnun Gallup 2004 kom t.d. í ljós að yfir 41% aðspurðra álitu, að ræðan væri mikilvægasti þáttur útfararathafnarinnar og ferlis útfarardagsins. Allt annað, t.d. söngur, kirkjan, umbúnaður, skreytingar, erfidrykkjan, hvarf í skugga líkræðunnar. Í útfararathöfnum finna prestarnir oft, að orðunum er nánast kippt út. Það er sem öll eyru verði orðsugur, sem svolgra. Sjaldan er betur hlustað og tekið við með meiri áfergju en í útförinni. Okkar, prestanna, er að vanda verk.

Í líkræðunni er margt skilgreint og mótað, sem máli skiptir. Trú og von eru boðuð, líf einstaklinga túlkað og prófíll hins kirkjulega vonarboðskapar í hverri samtíð teiknaður. Presturinn leggur til eigin nálgun og þarf að gæta að meðalhófinu en forðast ýmis fen, m.a. að dilla eigin sjálfi og sinna eigin þörfum.

Í eftirfarandi verður fyrst hugað að nokkrum þáttum varðandi texta og textanotkun í útfararæðum. Í síðari hlutanum mun ég skýra eigin nálgun, sem er í flestu lík afstöðu og iðkun margra presta. Ég geri hér ekki greinarmun á merkingu orðanna líkræða, minningarorð og útfararræða og nota heitin um ræður presta við útför. Vert er að minna á hin gömlu heiti eins og líksermón og líkprédikun. Samkvæmt hefðinni var líkræðan prédikun og það má vera hverri kynslóð presta til íhugunar.

Hvaða textar? 

Hvernig prestar nota Biblíuna sem ræðugrunn eða textasamhengi útfararræðunnar hefur aldrei verið grandskoðað. Mér skilst, að flestir prestar  noti jafnan eitthvert biblíuvers, sem uppistöðu eða ívaf minningarorða. Aðstæður skipta máli og lífsefni hins látna ræður oftast efni ræðunnar og oft textavalinu. Í einstaka tilvikum nota prestar texta utan Biblíunnar sem ígildi biblíuvers. Það geta verið ljóð eða meitlaður texti, sem varðar hinn látna, lýsir honum eða henni eða hefur verið uppáhaldsljóð eða orðtæki. Stundum hef ég flutt ljóð í útför eða við kistulagningu sem hinn látni hefur samið.

Ræðutegund

Ýmsar gerðir eru til af útfararræðum. Inntak, form og tilgangur hafa áhrif á ræðumótun. Notkun biblíutexta ræður miklu um hvernig ræðan er stílfærð. Síðan skiptir miklu hvernig fjallað er um líf þess sem kvaddur er. Þar gefast ýmsir möguleikar. Einnig er afdrifaríkt á hvaða guðfræðigrunni útfararræðan er reist, með öðrum orðum: Hver er tilgangur hennar?

Himneska líkræðan

Formgerðir líkræðu eru nokkrar. Í fyrsta lagi eru þær líkræður, sem eru fyrst og fremst útlegging biblíutexta. Þessar líkræður eru svipaðar biblíuskýrandi prédikun. Í sinni einföldustu gerð hefur þessi ræðugerð fremur lítið pláss fyrir líf hins látna og fjallar fremur um vonarmál hins kristna manns, um eilífa lífið. Vítan er gjarnan stutt, en erindi kristninnar aðalefnið. Vonarefnin eru útlistuð og hvernig einstaklingurinn er umlukinn hinum himneska veruleika. Svona ræða getur vissulega slitnað úr sambandi við jarðneskan veruleika.

Fáir íslenskir prestar einskorða sig við þessa ræðugerð, en hún var og er algeng í Skandínavíu. Líf einstaklingsins hverfur í stórramma hins almenna eða himneska. Útfararræðan verður sem næst stöðluð og breytilegu liðirnir eru þá þau örfáu atriði, sem nefnd eru varðandi líf hins látna. Staða útfararathafna er talsvert önnur í skandinavísku en í íslensku samhengi og kann að skýra mismunandi ræðunálgun. Útfarir eru félagslegur viðburður og mikið sóttar á Íslandi en víðast erlendis fámennar og fyrst og fremst ritualviðburður fjölskyldunnar.

Hinar himnesku ræður er hægt að setja í handbækur presta og væri ástæða til að skjóta einni slíkri í handbók presta þegar hún verður endurútgefin. Sjaldan kemur fyrir að íslenskur prestur semji ekki ræðu og aðstæður eru þá sérstæðar. Þá væri gott að geta hvílt í vönduðum sermón af himneska taginu og úr handbók.

Samlokuræðan

Í öðru lagi er svo minningarræðan þar sem texti úr Biblíunni og útlegging hans verður meginefni inngangs og mótar niðurlag ræðu. Á milli biblíulaganna er víta hins látna. Biblíutextinn verður í þessari ræðugerð uppistaða en útlegging ívafið sem er látið falla að vítunni svo bæði biblíuandinn og lífssaga hins látna rími þokkalega eða vel, þegar best tekst til. Textinn er þá valinn svo hann passi vel að lífshlaupi eða tilefni dauðsfallsins. Þessi samlokuaðferð getur hentað í flestum gerðum útfara og einu gildir hvort dauðsfall hefur borið eðlilega að eða þegar slys hafa orðið eða dauða borið að með voveiflegum hætti. Þessa aðferð nota margir íslenskir prestar en hlutföll milli texta og lífs eru mismunandi og misvel unnið úr og tengt saman. Vegna hins augljósa, oft þrískipta, forms verður ræðubyggingin skýr og þægileg bæði presti og söfnuði.

Flétturæðan

Þriðja ræðan er lík samlokunni í því að biblíutexti og lífsþættir faðmast. En í stað lagskiptingar samlokunnar eru þættirnir fremur fléttaðir saman. Ævibrot eru tengd einhverju í textanum, sem er ætlað að upplýsa og nýtúlka ævibrotin. Ræðan verður að flæða eðlilega og fléttan verður að móta óbrotna heild þegar allt er sagt og ræðu lokið. Texti og líf hafa þá notið samþættunar. Gjarnan er unnið með ákveðið markmið í huga, t.d. að skýra og upplýsa æviþátt í anda guðfræðistefs eða að tengja líf hins látna við huggunarorð og prédika svo að syrgjendur geti tekið nýtt og mikilvægt skref í sorgarvinnunni.

Flétturæður gera miklar kröfur til höfunda sinna. Þær gera kröfur um vandvirkni við val efnis, til þokkalegrar formskynjunar, hæfni til að velja þræði við hæfi úr fjölbreytilegu efni og þor til túlkunar. Mér hugnast líkræður af þessu tagi og tel, að þær henti til skapandi túlkunar. Þær gefa færi á fjölbreytilegri skynjun tilheyrenda og þar með trúarlegri dýpkun. En þær gera ögrandi kröfur til prestsins og oft mikillar vinnu. Flétturæðan gerir líka kröfur til áheyrenda og verður vart sú algengasta.

Skrautræðan

Í fjórða lagi er svo sú gerð líkræðu þar sem biblíutextinn er skraut. Textinn er þá eins og skyldulesning, fluttur til að uppfylla þá venju að eitthvert biblíuorð skuli hljóma. En ræðan er þá ekki beisluð af textanum, heldur stingur ræðumaður sér út úr eða af textanum eins og um dýfingar væri að ræða. Líkræðan verður lausgirt og það sem er rætt um lífssögu hins látna er án Ritningartengsla. Síðan er gjarnan einhvers staðar á ferðinni skvett vonarorðum til áheyrenda, sem vegna sundurgerðar eru oftast klisjur.

Skrautsækjandi stökkbrettisræður eru hvimleiðar. Stundum eru þær jafnvel illa unnar og til þeirra kastað höndum. Ef Biblíunotkunin er marklaus og textinn er skreyting má spyrja, hvort ekki sé alveg eins gott að sleppa biblíutexta í þeim tilvikum, sem presturinn finnur engan texta eða getur ekki tengt texta og líf hins látna með eðlilegum hætti. Auðvitað verða menn stundum andlitlir og aðstæður hindra góð vinnubrögð. Ég man úr eigin prestsskap hversu textaleitin gat orðið tímafrek, ekki síst á frumbýlingsárunum. Þó ég ætti nokkrar voru biblíuhandbækur mínar ekki sérlega góðar og engin leitarforrit voru þá til í veröldinni. Margra klukkutíma leit skilaði stundum litlu. Leitarvélar samtímans eru hins vegar þarfaþing og hafa stytt leitartímann.

Illa er komið, ef Ritningartexti er ekkert meira en skreyting, bara snagi til að hengja á nokkrar þokkalega gerðar trúarslaufur. Biblíuskreyti vekur grun um, að Biblían sé þá lítið annað en varahlutalager fyrir það handverk að klambra saman veifu fyrir sýningu í útförinni. Prestur má aldrei leyfa sér að reyna að búa til sýndarveruleika. Hlutverk prestsins er að miðla merkingu, vera merkingarberi. Prestar eiga að gera ríkar kröfur til sín varðandi Biblíunotkunina. Vandi líkræðunnar er að einhverju leyti vandi prédikunarinnar í samtíðinni. Þó margir eigi í vandræðum heimildir og erindi, mega prestar ekki flýja erindi sitt vegna kirkjunnar, vegna trúarinnar, vegna þjónustunnar við Guð.

Er skylda að nota Biblíuna?

Er skylda að nota Biblíutexta við skrif líkræðu? Verðum við að nota Biblíuna? Við getum líka snúið spurningunni við og spurt, hvort ekki væri hentugast og þægilegast að sleppa ritningartextanum? Hvaða hlutverki þjónar hann? Hann er alveg örugglega ekki til þess eins að létta prestinum lífið, vera handhægt sett til að grípa í þegar andinn flögrar fjaðrafár og annir að kæfa.

Kristnin er átrúnaður bókarinnar og við höfum búið við biblíuáherslu í kirkju- og guðfræði-hefð okkar. Ég hef aldrei efast um, að það sé kirkjulega göfugt og dyggilega lúterskt að styðja sig við Biblíuna í útleggingunni. Því oftar sem ég puða í líkræðugerðinni læðist hins vegar að sú vangavelta, hvort ekki væri bæði boðlegt og guðfræðilega ábyrgt að sleppa textavísuninni algerlega. Á hvaða forsendu? Jú, á forsendu trúar á Guð skaparann, þennan sem brosir í smæstu ódeilum, dansar í stærstu stjörnukerfum en hefur líka blessað líf hans og hennar í kistunni fyrir framan okkur.

Líf fólks sem texti líkræðu

Það er í þessu samhengi, sem við getum talað um fimmtu gerð líkræðu, sem er hin bóktextalausa. Líf fólks verður þá texti útleggingar. Þetta getur hljómað sem ókristileg hugsun og óbiblíuleg vangavelta. En þá er vert að minna á, að það er hvorki Guðlast né Biblíulast að viðurkenna verkan Andans. Líf einstaklingsins er vitnisburður um anda Guðs í veröldinni, um lækningu í sögu meina og áfalla, um hjálp í nauðum hins látna, um upprisu úr eða frá sorgum og sjúkdómum, um skin páskasólar þegar lífið hefur lifnað eða líkamleg, andleg eða félagsleg lækning hefur orðið. Birta hins góða, kraftur hins guðlega, í erfiðum aðstæðum blasir ávallt við þegar kafað er í lífssögu hins látna.

Allt frá líkræðuleiðbeiningum Marteins Einarssonar, Skálholtsbiskups, á 16. öld, hefur verið varað við að ana ekki í vitleysurnar. Þaðan í frá hafa kirkjuhirðar og leiðbeinendur bent á hættur og pytti, sem hægt er að rata í. Það getur vissulega reynst snúið að leggja út af ævi þess, sem virðist hafa klúðrað eigin lífi og spillt lífi síns fólks. Margt má liggja kyrrt og ekki er auðvelt að koma orðaböndum á hrylling eða álappaskap. Enginn prestur hefur þörf fyrir að segja allt og engin ástæða til. Á okkur prestum er rík krafa um góða dómgreind, að við túlkum og orðum með skapandi hætti það sem segja þarf.

En líf allra er merkingarríkidæmi, sem má lyfta upp í vitund syrgjenda. Engu skiptir hvort ævin hefur verið það, sem einhverjir teldu vera sorgarsögu eða samfelld sigurganga. Líf allra er köflótt, flétta gleði og rauna. Líf hvers manns er einstakt og undur. Guð er samhengi og gjafari gæðanna. Er slíkt ekki texti til að leggja út af, verðugt viðfangsefni fyrir frjálsa guðfræðinga, skapandi fólk á tímum breytinga? Mér er spurn hvort stætt sé á bóktextalausri líkræðu? Prestur, sem ætlar sér að skrifa slíka ræðu, verður að vera meðvitaður um, að verkefnið gerir miklar kröfur og auðvelt er að tapa þráðum og áttum. Skýr guðfræði verður að marka grunn og skýr guðfræðirammi verður að móta skrifin. Annars er hætt við, að allt verði párað í anda heimafengins smekks skrifarans. Við getum einnig spurt hvort það séu fyrst og fremst áhugamenn um sköpunarguðfræði, sem vilja sleppa biblíutextunum? Hvað verður um Biblíuskilning kirkjunnar og skilning á holdtekjunni?

Þrenna guðfræðinnar: Biblía – hefð – samtíð

Biblíufesta í prédikunargerð er ekki trúarlegt stjórnarskrármál og biblíueinfeldni er trúarlöstur. Allir prestar verða að ákvarða forsendur eigin guðfræði og þar með prédikunar. Biblían er ekki eina forsenda nútímaguðfræði eða prestsskapar. Jú, vissulega er Biblían meginlind lífmikillar guðfræði, en þó ekki sú eina. Trúarhefðin er önnur lind, sem presturinn þarf að nýta vel. Ef við trúum á skapandi Guð og óttumst ekki breytingar og þróun samfélags verðum við að taka mark á þeim gildum, áherslum og dýrmætum sem menningin kallar fram. Kirkja, sem aðeins lifir af hefð og með Biblíuslitur, er kirkja flóttans. Kirkja, sem iðkar biblíurýni í tengslum við samfélag sitt, mun lifa og getur orðið fólki til hjálpar. Samtíminn, veruleiki hverrar tíðar, er að mínu viti gjörningur Skaparans, sem kirkjan verður að innlífast og svara í guðfræði, atferli, starfsháttum og þar með prédikun og líkræðum. Þetta er þriðja lind skapandi guðfræði. Líf hins látna er vitnisburður um líf og starf Andans og hluti þessa. Líkræða er að mínu viti kall til guðfræði ekki síður en sálgæslu. Líkn er margþætt og margbrotin.

Við ættum ekki að slíta texta úr samhengi og nota sem skraut. En það er nauðsynlegt, að nota Biblíuna með fullri meðvitund og túlka anda Ritningarinnar og þeirrar guðfræði, sem presturinn aðhyllist. Líkræða er ekki bara túlkunarverk varðandi lífshlaup hins látna. Líkræðugerð er a.m.k. þreföld túlkunarvinna, samruni þriggja hringa, svo notuð sé túlkunarlíking Hans Georg Gadamer. Í fyrsta lagi er líf hins látna túlkað. Þá vinnu verður að vanda. Oft er mikið puð að tala við aðstandendur, skilja lífssöguna, greina stofna og aðalatriði, vinsa og raða, opinbera veilur og varnarhætti, meta fjölskyldu og ákvarða hvar er hægt að byggja upp og hvað er hægt og má tala um.

Síðan eru hinir hringirnir, erindi kristninnar. Annar hringurinn er ritningarhringur Biblíunnar, sá þriðji er síðan guðfræðisagan eða hefðin. Biblíuboðskapur, eitthvað í guðfræðisögu eða innlendri eða erlendri trúarhefð, kemur jafnan í hugann, sem andblær af hæðum, og nýtist til að hringarnir falli saman og ræðan nái merkingarskapandi möguleikum, hafi burði til að hugga, færa fólk til í sorgarvinnunni og gangi erinda huggunar og vonar. Form ræðu ræðst af lífi og hvaða atriði úr Biblíu eða hefð nær að upplýsa líf hins látna.

Viðmælendur

Mikilvægt er að spyrja sig reglulega í líkræðuskrifum fyrir hverja er unnið. Fyrir hverja eru minningarorðin? Ekki fyrir hinn látna eða englana. Þau eru ekki flutt vegna kirkjunnar. Þau eru ekki tæki prestsins til að sannfæra söfnuð um snilld hans. Minningarorð geta átt sér vítt samhengi, hinn látni getur verið fulltrúi stéttar, málstaðar, sveitar, landshluta eða þjóðar. Auðvitað þarf að minnast þessa og stundum að fara nokkrum orðum um slíkt. Það getur líka verið afar ríkulegt viðfangsefni t.d. þegar stólpi deyjandi byggðar fellur. Dauðsfallið getur hafa orðið með því móti, að ekki verði undan vikist að ræða samhengi og tala með rödd huggarans inn í aðstæður og leiðbeina, t.d. við sjálfsvíg eða fráfall barns eða ungs foreldris.

Fyrir hverja eru þá minningaroðin? Þeim er beint til syrgjandi ættingja og þeirra sem kveðja hinn látna og eiga að vera orð til styrks og veita hjálp við að sjá tilgang og merkingu í lífi hins látna. Þau mega vera sorgarhvíla, hjálpa fólki til að orða sorg sína. Þau mega líka vera reiðiskífa, hjálp við að fá útrás fyrir angist og jafnvel hatur. Það á að segja satt um mikilvæg mál, en auðvitað að tala svo að til gagns verði en ekki til að gera illt verra. Menn skyldu ræða við aðstandendur hvernig eigi að orða það sem er tvíbent. Líkræðan er ekki tilefni til að sprengja tilfinningabombur, heldur hjálpa fólki við að rísa upp. Líkræðan á ekki heldur að vera rennibraut út úr krísum fortíðar. Viðmælendurnir í kirkjunni og syrgjandi fjölskylda og vinir eru eiginlega fjórði hringurinn, sem þarf að taka tillit til og er réttnefndur lífhringur túlkunarferlins. Ef fyrri þrír hringir túlkunar ná að snerta og fléttast um hinn fjórða hefur handverkið lánast, andinn verið gefinn og líkn Guðs fengið farveg.

Inntak og liðir

Mörg kvíða útfarargrátinum, sem þau óttast að hellist yfir. Mörg eru óörugg gagnvart eigin viðbrögðum og vona að athöfnin sendi þau ekki á einhvern rússíbana tilfinninganna. Flestir prestar eru aðgætnir sálusorgarar og passa að snara ekki spenntum taugum um háls fólks og maka svo í framhaldinu vanlíðan í augu og eyru.

Húmor er ekki útfarartabú. Stundum getur bros eða hlátur orðið til léttis og hjálpar. Hið skoplega er þó vandmeðfarið. Prestur er ekki í hlutverki uppistandara í kirkjunni. Útför er ekki skemmtun, heldur fæðingardeild merkingar. Best er þegar allur söfnuðurinn fer í ferðalag, inn í vítu hins látna, nær að tengja við eigin líðan og tilfinningar, nær að gleðjast yfir lífshæðunum, bogna við áföllin, brosa eða hlægja að gleðiefnunum, vera með á för, vera alsgáður og samlíðandi. Þegar svo fer getur líkræðan haft mikilvægu samfélagslegu sálusorgunarhlutverki að gegna. Hin trúarlega orðræða getur komið fólki að miklu gagni.

Fólk kemur í kirkjuna, ekki aðeins til að votta virðingu hinum látna, heldur líka til að glíma við eigin líðan, eigið sjokk, eigin hrörnun og til að vinna með ágenga árás dauðans á öryggisnet sjálfsins. Hvar er staðfestan, hvernig get ég gert þetta upp? Gagnvart merkingarspurningum þarf að tala með viti en ekki klisjum, tala í krafti trúar, með von og vissu úr veröld kærleikans, þar sem enginn týnist heldur öllum er til skila haldið.

Í útförinni gegnir prestur ekki almennu upplýsingarhlutverki hvorki varðandi trúarkenningar eða um lífsþætti og stöðu hins látna í samfélaginu. Mogginn sér um æviágripið í flestum tilvikum og presturinn á alls ekki að gerast Moggaþulur. Einföld vinnuferilslýsing, upptalning á félögum og helstu lífsstiklum fer langt með að kalla fram í huga tilheyrenda það sem máli skiptir. Presturinn hefur hins vegar túlkunarhlutverki að gegna. Klerkinum ber að lyfta mikilvægum stefjum upp, setja líf viðkomandi í trúarlegt samhengi, tengja líf einstaklingsins við von og veruleika trúarinnar. Hlutverk líkræðunnar er ekki að skilgreina sögulegt gildi einstaklings, heldur að vera trúartúlkun fyrir syrgjandi söfnuð. Þar er dýpsta hlutverk presta, að tengja eilífð og tíma, trúarvisku við líf og dauða, Guð og söfnuð.

Tvílestur

Ýmis atriði geta skolast til við ræðuskrifin. Aðstendur muna stundum rangt eftir einstökum efnum, áherslur geta verið misjafnar og upplýsingar í prentuðum heimildum beinlínis rangar. Vegna þessa hef ég þá reglu, að ég les minningarorðin fyrir nánustu aðstandendur eða senda í tölvupósti. Með yfirlestri er betur fyrirbyggt, að meinlegar villur slæðist með. En hitt er þó mikilvægara, að aðstandendur vita hvers er að vænta, geta því slakað á gagnvart því sem sagt verður og geta hvílt í öryggi að presturinn segi rétt eða vel frá. Þar sem ég geri talsvert úr túlkunarþættinum er beinlínis bæði heiðarlegt og siðlegt að tryggja, að fólk komi ekki af fjöllum og hafi á tilfinningunni, að presturinn fari í furðulegar skógarferðir í ræðu sinni. Aðstandendur eru þá líka undirbúnir undir samræður um áherslur ræðunnar og geta fremur nýtt hana til sorgarvinnu.

Efnistök og skipan ræðu

Ég er ekki sáttur við eigin útfararvinnu, nema ég hafi á tilfinningunni að ég hafi 1. náð að skilja flesta mikilvæga lífsþætti hins látna; 2. hafi þokkalega góðan skilning á fjölskylduaðstæðum og þar með lífsskoðunum og trúarþroska; 3. geti tengt við trúarlega huggun eða skýringu.

Meginkaflar minningarorða minna eru gjarnan fimm en eru í mismunandi hlutföllum og uppröðun eftir aðstæðum.

  1. Inngangur: Ég byrja líkræður oft talsvert bratt með sögu um hinn látna eða lýsi atburði, sem vísa á meginstef síðar í líkræðunni. Inngangurinn verður að vera í samræmi við meginmál og niðurlag rímar gjarnan við upphafið. Tilgangur inngangs er að vekja athygli og opna vegna hins, sem á eftir kemur.
  2. Lífsstiklur: Þau atriði eru tekin með, sem helst vísa til þess sem rætt er um og verður til skilnings.
  3. Trúartúlkun: Með bakvísunum og viðbótarlífsstiklum má túlka lífshlaup trúarlega, mikilvæga atburði og tengsl við höfuðpersónur í lífi hins látna. Ævi hvers manns lyftir upp mörgum stórstefjum trúarinnar og gefur prestinum tækifæri til prédikunar. Klisjur eiga ekki heima hér fremur en annars staðar.
  4. Sálgæsla: Farið er yfir þau atriði, sem hægt er að nefna og ræða. Fólk er orðið það vant að talað sé um erfið mál að hægt er að ræða um sjálfsvíg, erfiða sjúkdóma t.d. geðsjúkdóma ef við á. Eins og dæmin sanna getur líkræðan þjónað samfélagssálgæslu.
  5. Hin kristna von: Hvað verður um fólk þegar það deyr? Hvað er himininn og hvernig kemur elska Guðs við sögu? Síðasti hluti ræðunnar má gjarnan fjalla um líf og hið stóra Guðsfang.

Ég birti sumar líkræður á netinu. Ég ræði við aðstandendur hvort þeir telji sér hag í að hafa ræðuna á vefnum. Fólk les þessar ræður talsvert og oft er haft samband vegna efnis þeirra síðar. Þegar rætt er um viðkvæm mál er niðurstaða stundum, að ræðan eigi ekki erindi á netið þótt hún segi ekki neitt sem þoli ekki almenningssjónir. Oft má satt hvíla í kyrru kirknanna.

Líkn fremur en lík

Þegar okkur tekst ekki upp í útförinni rætist bænin: “Drottinn minn gef þú dauðum ró, en hinum líkin sem lifa.” En þegar presturinn gengur inn í þjónustu við hina trúarlegu merkingarveitu verður ekki lengur bara lík og sorg, heldur líkn sem er fyrir lífið. Hlutverk presta er ekki að þjóna guði, sem safnar líkum, heldur að þjóna lífsins Guði.

Fyrst flutt sem fyrirlestur á prestafundi í Skálholti í október 2006. Birtist sem grein í Kirkjuritinu; 2009; 75 (2): bls. 30-34. Meðfylgjandi myndir tók ég í Hallgrímskirkju. Þá neðstu á allra heilagra messu. Myndina með skírnarfont Leifs Breiðfjörð í forgrunni tók ég við útför Lilju Sólveigar Kristjánsdóttur, móðursystur minnar. Svo er kenninmyndin frá sumartónleikum. 

 

Steinar Sigurðsson + minningarorð

Ég sá Helgu og Steinar þegar ég beygði upp að Hallgrímskirkju. Þau stóðu á leigubílastéttinni milli Tækniskólans og kirkjunnar. Það var greinilega gaman hjá þeim og þau hlógu. Svo opnaði Steini faðminn og tók utan um konu sína og kyssti hana af íslenskri ástúð og ítalskri áfergju – og hún tók á móti. Senan var eins og ástríðutangó með dramatískan kirkjubakgrunn. Þeim var alveg sama þótt presturinn snarhemlaði og hlypi út og hrópaði þakkir til þeirra fyrir að gleðja tilsjáendur. Þau bara héldu áfram.

Lífið er stutt – og skemmtilegt. Lífið er til að elska, vera og kyssast. Þetta var í ágúst í fyrra. Og ég hugsaði um Steinar og Helgu flesta daga síðastliðinn vetur þegar ég keyrði í vinnuna og fram hjá kossastaðnum. Síðustu dagana kom ástarsenan enn upp í huga. Eftirsjáin hríslaðist út í taugaenda.  Og allt í einu er annar bragur á veröldinni. Lífsþorstamaðurinn Steini er farinn, kemur aldrei aftur með hraði, vinnur fljótt og vel og dassar kryddi í mat eða lit og gleði í líf okkar og heimsins. Hann þorði að vera. Hann sem var svo lífríkur skilur eftir hjá okkur fyrirmynd um að kyssa og vera.

Upphaf og fjölskylda

13 09 Steinar Sigurðsson fæddist í Reykjavík 13. september árið 1958. Hann var alla tíð meðvitaður um númer fæðingardagsins. Hann fagnaði ákaflega á handboltaleikjum og öðrum íþróttaviðburðum þegar staðan var 13:9 – eins og það væri honum til sérstaks heiðurs. Ættingjarnir og vinir fengu stundum myndir af markatöflum þar sem 13:09 kom fyrir. En þó hann væri oft á klukkunni í ÍR hef ég þó engar fréttir um, að hann hafi breytt niðurstöðum í 13:9. Þó Steini væri grallari kunni hann sig.

For­eldr­ar Steinars voru hjón­in Sigurður Kristófer Árnason og Þorbjörg J. Friðriksdóttir. Pabbinn var skipstjóri. Mamman hafði líka í mörg horn að líta, sá um heimili og strákagengið og vann alla tíð utan heimilis einnig. Hún var hjúkrunarfræðingur og síðar hjúkrunarkennari. En Þorbjörg lést fyrir aldur fram, aðeins 49 ára gömul.

Steinar var annar í röð fimm bræðra. Friðrik er eldri en yngri eru Árni Þór, Þórhallur og Sigurður Páll. Fimm strákar og allir miklir af sjálfum sér. Það þarf ekki mikla veraldarvisku eða þekkingu á einhverjum þeirra bræðra til að skilja, að oft var gaman á heimilinu og talsvert gekk á. Steinar var kátur og uppátækjasamur. Bernskusögurnar af honum eru því litríkar. Þegar fataskápar heimilisins voru málaðir varð að endumála því Steinar fór inn í þá áður en þeir voru fullþurrir. Sagan segir, að skápana hafi orðið að mála níu sinnum! Svo var hveitidallur mömmunnar freistandi því það var svo gaman að hella úr honum og skoða hve víða hveitið gæti dreifst. Silfur heimilisins fór á flakk og sósulitur fór á nýmálað. Einu sinni kveiktu bræðurnir í gardínu heima og þegar byrstur slökkviliðsmaður spurði hvort strákunum þætti sniðugt að leika með eldinn urðu þeir lúpulegir og gengust við verknaðinum. En þeim þótti nú íkveikjan samt dálítið sniðug! Einu sinni sturtuðu eldri strákarnir einum yngri út af svölunum og niður í snjó fyrir neðan. Steinar fékk hugmyndir og framkvæmdi, en kom aldrei sök á aðra. Hann gekkst raunar við fleiru en hann hafði gert því hann taldi sig ábyrgan fyrir bræðrum sínum. Steinar vildi frekar alsaklaus taka við skömmum en að þeir yrðu fyrir aðkasti. Steinar var kjarkmaður og vék sér aldrei undan.

Steinar þoldi breytingar og þorði að breyta. Þegar í bernsku var ljóst, að hann var víðfeðmur og þoldi hið stóra. Hann var af sveitasendingarkynslóðinni. Einu sinni var hann á Böggvistöðum í Svarfaðardal og þá þurfti að draga hann upp úr feni þegar hann var sokkinn upp að geirvörtum. Hann var líka ungur sendur norður í Lómatjörn í Grýtubakkahreppi og var önnur ár á Grund í sama hreppi. Geðslag hans og skaphöfn passaði við Þingeyinga. Steinar var af Skagfirðingum kominn og Snæfellingum, en var líka stórþingeyskur að lífsafstöðu.

MH og arkitektúr

Foreldrar Steinars voru drengjum sínum fyrirmynd um dugnað, vinnusemi og menntun. Ekkert annað en menntun stóð til boða. Steinar fór í Menntaskólann í Hamrahlíð. Þar blómstraði gleðigjafinn og naut vinsælda. Hann spilaði á gítar, heillaðist af pönkinu, spilaði í hljómsveit og var kunnur af nafninu Steini Rotten í anda Johnny Rotten þess tíma. Það var músík í Steinari og á vinnustofunni hans heima hanga gítararnir í röð. Hamrahlíðarárin voru skemmtileg og Steinar varð stúdent frá Menntaskólanum vorið 1978.

Og hvað svo? Steinar var meðvitaður um, að umgjörð mannlífs mætti skipuleggja með ýmsum hætti og var líka drátthagur. Hann hafði verið á sjó, var útsækinn. Hann sagði löngu síðar í viðtali við erlendan fagfjölmiðil, að hann hefði viljað búa erlendis. Því hefði hann lært það, sem skolaði honum til útlanda. Hann skráði sig til náms í arkitektúr í Glasgow og var í Skotlandi veturinn 1978-79. En Thatcher eyðilagði menningardeiglu Bretlands með himinhækkun skólagjalda. Nemendur heimsins – og Steinar þeirra á meðal – höfðu ekki lengur efni á skólaveru á Bretlandseyjum. Steinar fór yfir sundið til Danmerkur og hélt áfram arkitektanámi í Kaupmannahöfn og lauk prófi frá kúnstakademíunni árið 1986. Hann fór svo vestur um haf og lauk mastersnámi í Seattle í Washington árið 1988.  Samhliða námi starfaði Steinar á arkitektastofum í Kaupmannahöfn og Seattle.

Heimsborgarinn

Alla tíð útsækinn – en á þessum árum varð Steini heimsborgari. Hann eldaði með skólafélögum sínum og lærði trixin í kokkhúsinu og á kryddin og kynntist vínum veraldar. Hann ræddi menningu, hlustaði á sögur og var fólki opinn, kátur og náinn. Íslendingurinn ógnaði engum, heldur var virtur af sjálfum sér, hæfni og gæðum og tengdist fólki víða að. Eitt sumarið ók hann bíl fyrir bílaleigu suður alla Evrópu og fór til skólabróður síns í Lígúríu á Norður Ítalíu. Og þar vann hann um sumarið og lærði ítölsku í leiðinni og að meta matargerð Ítala. Íslandsgáski rímaði ágætlega við káta, orðmarga og tilfinningaríka Ítali. Og Steinar varð Miðjarðarhafsmaður. Seinna lærði hann líka bandarískan hressileika vestur við Kyrrahaf. Og það var eins og Steini ætti vini í öllum borgum fyrir utan svo að þekkja alla bestu veitingastaðina.

Samverkafólk og verkefni

Eftir öll ævintýrin var komið að heimför. Steinar var lánssamur með samverkafólk, verkefni og vinnustaði. Hann byrjaði hjá Studio Granda og var með í ævintýrinu að teikna Ráðhúsið. Síðan var hann á Teiknistofu Manfreðs Vilhjálmssonar og stofnaði árið 1996 teiknistofuna Manfreð Vilhjálmsson – Arkitektar ehf og varð síðar meðeigandi VA Arkitekta. Á árunum 2007 -11 var Steinar arkitekt Kaupþings og stofnaði svo eigin arkitektastofu, Teikn arkitektaþjónustu, árið 2011 og rak til dauðadags. Steinar kom að hönnun fjölda aðal-og tákn-bygginga borgar og Íslendinga. Og Steinar var metinn og virtur fyrir verk sín og hlaut margar viðurkenningar fyrir og aðdáun þeirra sem hann vann fyrir.  

Helga og fólkið hans Steinars

Svo var það jólafríið þegar hann kynntist Helgu árið 1983. Steinar fór í partí og svo á ball. Helga var á Opel Kapitan árgerð 1961 og var bílstjóinn. Steinari var starsýnt á þessa konu, sem hann hafði ekki séð áður og sagði skýrt og ákveðið. „Ég fer með þér.“ Helga Siugrjónsdóttir var ekki viss um hvort það var bíllinn eða konan við stýrið sem heillaði. En svo vildi hann nánara samband en bara rúntinn á ball. Og bað hana að koma til sín til Köben. Steinar fékk hugmyndir og viðraði óhræddur við Helgu sína og hún hugsaði og sagði já – eða nei. Hún virti Steinar frá byrjun, hreifst af því, að hann var svo tilfinningaríkur og kallaði upphátt í hrifningarbríma að hann væri svo ástfanginn. Og hvað gat hún gert gagnvart sjarmörnum? Hún sagði upp vinnunni í Kópavogi og þau Sigurjón Árni, sonur Helgu, fluttu til Hafnar. Og við tók litríkur, ástríkur og viðburðaríkur hjúskapur, sem blómstraði allt til enda.

Eftir Hafnarárin fór fjölskyldan svo vestur um haf. Og Kaninn vildi enga lausung í hjúskaparmálum. Þau Steinar og Helga fóru til Íslendingaprestsins Haraldar Sigmar í Seattle, sem ræddi við þau um dýrmæti hjónabandsins en líka skuldbindingar. Þau höfðu orð klerksins að leiðarljósi síðan og gengu í hjónaband 5. desember árið 1987. Vígsluathöfnin var bæði já og fall. Helga datt aftur fyrir sig, en Steinar greip hana áður en hún féll til skaða. Helga hefur síðan stutt Steinar sinn og alla stórfjölskylduna. Helga starfar sem félagsráðgjafi og hefur unnið hjá Reykjavíkurborg. Sigurjón Árni Kristmannsson, sonur Helgu var stjúpsonur Steinars.

Dætur Steinars og Helgu eru Þorbjörg Anna, hjúkrunarfræðingur, sem fæddist í september árið 1991. Maður hennar er Hannes Ólafur Gestsson og þau eiga dótturina Unu Margréti, sem er á fyrsta ári. Og Steinar lagðist á gólfið – og þau hjón bæði – til að tala við þá stuttu á gólfinu. Steinar var tilbúinn til hins nýja hluverks afans.

Kristjana Björk, yngri dóttirin, er hagfræðingur, og fæddist í maí 1995. Maður Kristjönu er Einar Þór Ísfjörð.

Steinar var alla tíð mikill heimilismaður og ástríkur eiginmaður. Hann var natinn og ábyrgur faðir, bonus pater familiae, sinnti dætrum sínum og stjúpsyni, áhugamálum þeirra og uppeldisþörfum. Og svo gætti hann að næringu þeirra og menntun. Það var alltaf líf og fjör á heimilinu. „Vá hvað þau gerðu mikið“ sagði ástvinur um Steinar og fjölskyldu. Þau þorðu að fara í skyndiferðir og líka að gera lífsreisurnar litríkar. Einu sinni tilkynntu Helga og Steinar að þau ætluðu í sumarbústað í Sandgerði í skólafríi stelpnanna. Þeim þótti það ekki sérlega spennandi kostur. En svo fóru þau af stað og á leiðinni var hringt í pabbann. Reyndar var það Helga, sem sat við hlið hans í framsætinu sem lét símann sinn hringja í hann. Og Steinar játaði, þrátt fyrir mótmælin úr aftursætunum, að fara aðeins upp á flugvöll til að sinna smáverkefni. En þegar þangað kom var það ekki arkitektinn, sem reddaði smámáli, heldur alsæll og brosandi pabbi sem afhenti ungviðinu umslög með farseðlum og vegabréfum. Og þá uppgötvaðist að ferðin væri til New York. Menn ættu aldrei að vanmeta sumarbústaðaferðir í Sandgerði, alla vega ekki í boði Helgu og Steinars.

Og Steini fór með Sigurjóni Árna á handbolta- og fótboltaleiki í Danmörku en þau bjuggu einmitt í Danmörku þegar Danir tóku þátt í heimsmeistaramótinu í fótbolta í Mexíkó árið 1986. Og þegar þeir fóru saman á  Seattle Seahawks leiki í Seattle, þá var mikið hrópað og hvatt.

Lífheimur Steinars hverfðist um fólkið hans. Hann talaði mikið um Helgu og börnin við fólkið, sem hann hitti. Hann bjó til brýr tilfinninga og innsæis gagnvart heimi hans. Því fannst mér ég þekkja þau þegar ég loks hitti konurnar og stjúpson hans. Heimur Steinars var opinn öðrum og því er svo mikil félagsgeta og félagsauður í fólkinu hans Steina.

Lífríkur veislumaður

Steinar var veislumaður og elskaði ævintýri. Hann var e.k. karlútgáfa Babette. Og það verður að segja satt og segjast eins og er, að Steinar var ekki og hefði alls ekki getað orðið vegan. Heimili þeirra Helgu varð stórfang fjölskyldu, vina og hverfis. Heimilið var opið, Steinar fór í eldhús og miklar veislur eða naglasúpur galdraði hann fram – oft við furðu Sigurjóns Árna og dætra hans, sem ekkert höfðu séð í ísskápnum, en undrin urðu. Steinar var líka vínspekingur og hafði góða þekkingu, gott nef og líka bragðskyn. Það eru til dásamlegar myndir af ungum Steinari á ferð í Evrópu með mikið safn af flöskum og alla ævi hélt hann áfram að auka þekkingu sína á vínum. Vinirnir nýttu jafnvel facetime í Ríkinu til að fara með rekkunum og fá Steinar til að benda á það, sem best væri að kaupa. Steinar las matreiðslubækur eins og reyfara. Og Helga lærði snemma í tilhugalífinu, að ástmaður hennar lagðist í gúrmetískar rannsóknir þegar í byrjun desember til undirbúnings jólamatnum. Og það voru engin burtflogin hæsni, sem hann eldaði, heldur alvöru matur. Steinar valdi líka vel verkfærin í kokkhúsið, passaði að setja blautt undir skurðarbrettin til að hnífar yllu engum slysum. Þegar hann fór í ferðir og ætlaði að elda tók hann jafnan með sér slíkan lager af kryddi sem meðal-matvöruverslun hefði verið vel sæmd af. Steinar gerði ekki bara sósur heldur var sósufagurkeri. Á stóru matardögunum bárust taktföss skurðarhljóðin gjarnan um húsið þegar að morgni. Þá var Steini byrjaður að efna til sósu, sem nota átti að kvöldi. Maturinn hans Steina var ekki bara veisla fyrir bragðlauka eða afrek yfir pottunum heldur hafði tilgang. Hann eldaði fyrir fólk, vildi að fólk settist niður til að vera saman, eiga samfélag, njóta, deila hugmyndum, sögum, skoðunum og gæti viðrað tilfinningar og svo auðvitað hlegið. Og í þessu húsi, sem er miðjað um borð, er vert að minna á, að Steinar iðkaði guðfræði borðhaldsins. Steinar útdeildi mat við borð, valdi vín við hæfi og til blessunar. Hann gegndi hlutverki manneflingar, sem er heilagt, og útdeildi í þágu samfélags. Og svo hafði hann orð um þetta allt og glettnin skein úr augum: „Så tar man först et sölvfad … “ og svo hafði Steinar platta hjá sér í eldhúsinu í L10: „I love cooking with wine – sometimes I even put it in the food.“ Ég held nú reyndar að sósugerð Steina hafi aldrei liðið fyrir vínskort. Kannski segir það talsvert um hugðarefni hans, að þegar Steinar varð fimmtugur gáfu bræður hans honum dag í eldhúsi Friðriks V – sem hann kunni vel að meta. Alls staðar þar sem Steinar fór var hann kominn í pottana og pönnurnar. Einu sinni var honum boðið að vera með í öflugum Formúlu 1 hópi og meðlimirnir elduðu flestir. Fjörið var mikið, eldamennskan öllum hjartansmál, en í þessum alþjóðlega klúbbi meistara var nýi utangarðsmaðurinn brátt virtur snillingur. Að njóta eldamennsku Steinars var að njóta matarsnilli heimseldhússins og margar máltíðir hans voru umfram það sem margir Michelinkokkar heims myndu afreka. Hið fábrotna varð að undri, kraftaverk verða í borðhúsum.

Eigindir Steinars

Hvernig manstu Steinar? Hann var litríkur hæfileikamaður. Ég kynntist Steinari vegna tengslanna við Halla, bróður hans. Ég fylgdist með þessum geðríku hæfileikamönnum og dáðist að djúpum tengslum þeirra, umhyggju og gagnkvæmri virðingu. Samband þeirra varð mér fyrirmynd um ræktað vinasamband. Og fátítt er það, að faðir nefni son sinn í höfuð bróður. Það segir mikla sögu og Steinar yngri er farinn að elda, baka og spila á gítar.

Já hvernig manstu Steinar? Hann var uppátækjasamur unglingur og kátur menntaskólastrákur, sem þroskaðist í góðan fagmann og heimsborgara. Steinar varð meistari verkefnastjórnunar, var mjög laginn við að sætta andstæðar skoðanir og finna nýjar leiðir. Í huga Steina voru tækifæri aðalmál fremur en hindranir. Í stórfjölskyldunni sem og í arkitektavinnunni var Steinar fljótur að opna festur, finna leiðir, redda, sækja efni og klára mál. Steini var ekki bara lausnamiðaður heldur lausnasnillingur. Hann var því einstaklega vel liðinn af verkkaupendum sínum. Þeir kunnu að meta hve Steinar hlustaði vel, tók athugasemdir gildar, tók upp skissublokkina á fundum, rissaði mögulegar lausnir og gerði tillögur strax. Arkitektinn Steinar mat mikils einfaldleika og stílhreina fegurð í hönnun. Og svo vildi hann, að auðvelt væri framkvæma það, sem hann teiknaði. Og þú mátt gjarnan minnast Steina þegar þú kemur í Gullhamra á eftir eða ferð um Keflavíkurflugvöll.

Steinar var ævintýramaður. Manstu ÍR-inginn sem studdi sitt lið með krafti og einurð. Steinar átti jafnvel til, þegar dómararnir skildu ekki leikinn eða misstu tökin á dómgæslunni, að hoppa ofan af áhorfendapöllum til að ræða við þá og hjálpa þeim í vandastörfum. Hann var ekki bara pabbi sem fylgdi sínu fólki á leiki heldur heilshugar og jafnvel andlitsmálaður stuðningsmaður. Og kappsamur var hann í að afla félagi fjár og sínu fólki farareyris á leiki og viðburði. Steinar var sumpart á undan sinni samtíð sem styðjandi foreldri. ÍR-ingar vottuðu Steinari virðingu og þökk á leik síðastliðinn laugardag.

Það var gaman að vera með Steina á leikjum, ekki bara á Húsvíkurmóti í 6. flokki eða á landsleikjum í Laugardalnum heldur líka erlendis. Hann þorði að láta í sér heyra, naut þess að vera í stemmmingshópum og fagnaði hjartanlega. Hann fylgdi ekki aðeins með í handbolta eða karlaliðinu í fótbolta heldur líka kvennaliðinu. Og Steinar vílaði ekki fyrir sér að fara um langan veg til að styðja okkar fólk. Eftir EM-leikinn á Stade de France 2016 fór Steinar fram og til baka um Evrópu til að komast heim.

Manstu kraftinn í honum? Þegar hann gerði sér grein fyrir einhverjum vanda vina, ættingja eða verktaka gekk hann í málin. Einu gilti hvort vantaði timbur í pall eða málningu til að klára verk. Dugnaðurinn og hugurinn var óbilandi og kraftmikill maður getur líka gert mistök. Stundum gleymdi Steinar stopptakkann. En hann var alltaf maður til að viðurkenna takmarkanir og að eitthvað hefði mátt betur fara. Í því er viska fólgin og viska verður til. Manstu vinnusemi Steinars? Honum hentaði ekki að gaufa og bíða. Hann gekk í málin, tók líka u-beygjur ef þurfti og fór milli landa ef það væri til að efla fólk, klára verk eða bæta veislugæði vina eða ættingja.

Manstu sjávarsókn hans og hve vel honum leið á sjó? Vissir þú að hann hafði skipstjórnarréttindi á skipum undir tólf metrum?

Einn af stóru kostum Steinars var hve gjöfull forystumaður hann var. Hann setti sig aldrei á háan hest og skipaði fyrir úr hæðum. Hann var félagi, stuðningsmaður, veitull, hrósandi, jákvæður, opinskár, hlýr og eflandi. Þau, sem voru óákveðin, gátu treyst á stuðning hans. Hann hafði aldrei þörf fyrir að berja sér á brjóst, hreykja sér, heldur var jafningi. Í honum var slíkur styrkur, að hann varð gjarnan fremstur meðal jafninga. Samferðafólk hans treysti honum, virti hann og naut hans því hann tók ekkert frá öðrum. Það var gott að vera með honum í liði. Hann hafði leiðtogahæfileika af Klopp-taginu.

Steinar í Ljárskógum eilífðar

En nú eru skil. Hann fer ekki framar austur í Mosa á Síðu og dáist að fegurð jarðar. Það breiðist ekki framar ilmur um húsið frá sósugerðinni hans. Hann teiknar ekki fleiri hótel, veitingahús eða hallir. Og kemur ekki hlaupandi með krydd eða sagir. Og hann mun ekki leggjast á gólfið til að horfa í augu barnabarna sinna og sjá í þeim ævintýri framtíðar. Hann er farinn inn í blámann, Ljárskóga eilífðar. Hann signdi dætur sínar þegar hann klæddi þær í nærfötin. Við signum hann á útleið hans. Það eru okkar teikn í hans garð. Hann kyssti Helgu og sitt fólk og kyssir okkur í minngunum. Guð geymi hann, blessi fólkið hans og Guð geymi þig.

Amen.

Bálför. Erfidrykkja í Gullhömrum. Útför í Hallgrímskirkju 3. desember 2019 kl. 13. Kistulagning í kapellunni Fossvogi 2. desember.

Viðtal við Steinar Sigurðsson um arkitektúrinn:

Teikn Architects: Small firm, big architectural magic