Greinasafn fyrir merki: Torhildur Rúna Gunnarsdóttir

Eggert Konráð Konráðsson – minningarorð

Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.

Á grænum grundum lætur hann mig hvílast,

leiðir mig að vötnum þar sem ég má næðis njóta.

Hann hressir sál mína,

leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns.

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal

óttast ég ekkert illt því þú ert hjá mér.

Haukagilsstrákurinn renndi sér á skólasvellinu út á Blöndósi. Fyrr um haustið hafði hann veikst hastarlega og úrskurður lækna var skæð sykursýki. Hann hafði því horfið skólasystkinum meðan hann var til lækninga. Nú var hann kominn aftur, feginn að vera laus úr spítalaeymdinni – reyndi á sig og renndi sér. En svo datt hann illilega, rak olnbogann í svellið. Þá brast Eggert í annað sinn þennan vetur. Hann brotnaði illa og þannig rann hann út úr skóla og inn í heim veikinda, átaka og lífs þess, sem alla ævi þarf að búa við skerta heilsu, annað líf. Hvað þýðir það í lífi fólks – í lífi hans? Það er einhver nístandi ógn í þessari sögu og spor inn í skuggasal. Myndu þessi áföll verða ævibrestur Eggerts sem yrði ekki lagfærður? Jafnvel þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því þú ert hjá mér, segir í 23. Davíðssálmi. Það er hægt að búa við skuggan, en aðeins ef menn eiga ljósið sitt víst. Hægt er að búa við stóran lífsama ef menn eiga góða stoð vísa. Það er hægt að öðlast vit, þroska og gæði, ef menn kunna að bregðast rétt við.

Lífsstiklur

Eggert Konráð Konráðsson fæddist á Blönduósi 10. janúar 1949. Foreldrar hans voru Haukagilshjónin Konráð Már Eggertsson og Lilja Halldórsdóttir Steinsen. Þau eru bæði látin. Systkini Eggerts voru fimm: Þau eru Guðrún Katrín, Ágústína Sigríður, Inga Dóra, Hólmfríður Margrét og bróðir sammæðra Sævar Örn Stefánsson. Fyrri kona Eggerts er Sóley Jónsdóttur. Þau gengu í hjónaband árið 1969. Börn Eggerts og Sóleyjar eru: Lilja Margrét f. 1970. Hún býr í Danmörk og á fjögur börn. Harpa Björt f. 1971 býr á Haukagili. Sambýlismaður hennar er Egill Herbertsson. Þau eiga þrjú börn. María Hlín f. 1972 býr á Akranesi. Hennar sambýlismaður er Marteinn Sigurðsson. Þau eiga samtals þrjú börn. Yngstur barna Eggerts og Sóleyjar er Heiðar Hrafn f. 1976. Eggert og Sóley slitu samvistum 1992. Kona Eggerts frá 1995 er Torfhildur Rúna Gunnarsdóttir. Þau gengu í hjónaband 1999. Rúnubörnin eru Arnór Ingi, Særún, Haukur og Davíð.

Lilja Margrét Eggertsdóttir hefur beðið fyrir kveðjur, en hún og börn hennar eru í Danmörk. Sömuleiðis hefur fjölskyldan í Holti í Svínavatnshreppi og Helgi Bragason beðið um kveðjur til þeirra sem hér eru samankomin.

Skólaganga

Skólafyrirkomulag í Vantsdal var í bernsku Eggerts með farskólasniði. Eins og önnur börn úr framdalnum sótti hann skóla að Ásbrekku hluta úr hverjum vetri. Eftir fermingu fór hann síðan út á Blönduós til svonefnds miðskólanáms, sem lauk með landsprófi. Í nóvember á þriðja og síðasta ári kom sykursýkin í ljós. Þar með var úti um skólagöngu Eggerts fyrir jól, því hann var sendur suður til lækninga. Eftir áramót byrjaði hann að nýju í skólanum, en við handarbrotið var útséð um námið þann veturinn. Fyrir þrautseigju og hjálp Lilju móður hans tók Eggert þó vorprófin utanskóla um vorið.

Á nöfinni

Mannlífið er undursamlegt. Það er aldrei og í engu tilviki samfelld sælubraut án hnökra. Slíkt líf tilheyrir aðeins himnaríki. Eggert fékk sinn skerf af mótlæti. En þegar í raunir rekur er hægt að bregðast við með ýmsu móti. Það er hægt að lúta mótlætinu, leggja á flótta og láta það sigra sig. Slík er för þeirra sem verða einhverju að bráð í lífinu. Hins vegar er þau sem bregðast við, reyna á sig til að hefja sig upp, reyna að eflast og þroskast við að glíma við raunina. Slík var för Eggerts. Það var honum manndómsraun að takast á við skerta heilsu og þær skorður sem sykursýkin settu honum. Hann naut vissulega stuðnings. Lilja vakti yfir matarræði hans og að hann hefði bita með sér þegar hann fór í smalamennsku eða gekk til rjúpna. Þó var lífi hans stundum stefnt í tvísýnu. Eitt sinn gekk hann vestur í Víðidalsfjall í leit að jólarjúpunum og í það sinn hafði hann farið án þess að hafa nestisbita meðferðis. Hann var ungur og léttur á fæti og ætlaði bara snögga ferð. Færið var þyngra en hann hafði búist við. Á leiðinni varð hann fyrir sykurfalli og nánast örmagnaðist. Það var honum til bjargar að hafa náð einum fugli, sem hann náði að rífa og tuggði síðan hrátt kjötið til að fá orku og ná heim! Oft síðar var Eggert á ystu nöf, oft var honum naumlega bjargað. Hann átti góðan hirði, sem lyfti honum upp þegar hann hrasaði. 

Suður

Eftir landspróf var Eggert heima við bústörfin. Þótt skólagangan hafi eflaust blundað í honum var hann bóndaefni og fór því einn vetur í Bændaskólanum á Hvanneyri. Þegar hann hafði fest ráð sitt urðu þau Sóley bændur á Haukagili frá 1970 og allt til 1987. Þá hafði líkami Eggerts enn á ný brostið. Um vorið var orðið ljóst að nýru hans störfuðu ekki eðlilega og þurfti hann að fara af og til í nýrnavél. Niðurstaðan var sú, að elsta systirin gæfi honum nýra. Lögðust þau systkin undir hnífinn á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn í nóvember 1987 og tókst aðgerðin hið besta. Guðrún nýragjafi lengdi því líf bróður síns um mörg ár. Þökk sé henni. Vegna heilsufars Eggerts ákváu þau Sóley að bregða búi og flytja til Reykjavíkur.

Nýr kafli hófst í lífi Eggerts. Hann fékk vinnu í fyrirtæki frænda sinna, Plastprenti. Þá tóku við vörslu- og umsjónar-störf; við húsvörslu í Iðnskólanum í Reykjavík. Um tíma starfaði Eggert á Alzheimerdeildinni við Lindargötu, var síðan hjá Ríkisspítölum og síðast hjá Bykó í Kópavogi. Þar var hann að vaktstörfum við hliðið og tók á móti tugþúsundum stressaðra húsbyggjenda, sem þutu um með vörur og áhyggjur. Það var Byko ómetanlegt að hafa mann, sem Eggert á þessum mikla álagsstað. Glögg rósemi, friður og gáski skein úr augum hans og snöggfriðaði taugaþanda viðskiptavini.

Eftir að þau Sóley skildu hafði fólkið hans Eggerts skiljanlegar áhyggjur af heilsufari og velferð hans. Jafnvel þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því þú ert hjá mér. Svo sannarlega kom Rúna inn líf hans sem framrétt Guðshönd. Ég náði að fylgjast með því kraftaverki frá upphafi til enda. Það er ein af þessum undrasögum um lífið þvert á svig við dauðann – þegar maður staðreynir að elskan er sterkari en samfellt sjúkrastríð og hel. Rúna og Eggert rugluðu reitum 1995. Það var ljóst að hún var tilbúin að vera honum stuðningur og hvikaði aldrei.

En sykursýkin var eitt, en síðan féll næsta slagið 1998, þegar í ljós kom að Eggert var með krabbasýktan maga. Síðan hefur með stuttum hléum allt verið á sama veg, ný meinvörp, nýjar aðgerðir, ný lyfjameðferð, ný geislun. Að lyktum dró og Eggert féll frá hinn 12. desember síðastliðinn aðeins 54 ára gamall.

Að bregaðst við

Hvernig má lifa í skugga sjúkdóma og slysfara? Auðvitað dró Eggert sig í hlé á unglingsárum. Hann var hlédrægur frá upphafi og kunni vel að vinna með sína kröm í hljóði. Hann erfði jafnlyndi móðurinnar, en hann átti einnig skapfestu föðurins. Hann var ekki ánægður með hlut sinn en ákvað að lifa. En alla tíð þarfnaðist hann næðis, öryggis og kyrru. Hann naut stuðnings síns fólks fyrr og síðar og svo þegar síðasta áfanga var náð var Rúna öflugur gleðigjafi og gaf honum styrk til að njóta hvers dags þrátt fyrir áföllin.

Eggert var stefnufastur, stöndugur og gegn. Með ýmsum ættmennum sínum var hann staðfastur Sjálfstæðimaður og brást ákveðið við ef honum þótti vegið að einhverju mikilvægu í landsmálum. Hann gerði allt vel sem honum var falið, hann var jú alinn upp við að gerð í verki væri ekki síðri en gerð í orði.

Hugur og verk

Eggert var mikill ættjarðarvinur, unni ferðalögum, lagði sig eftir fróðleik um byggðir og sögu, vildi skoða landið sem best, fór gjarnan utan alfaraleiða til að fá sem næmasta sýn á landshagi. En mest og best unni hann heimahögunum. Hann elskaði sveitina sína. Aldrei var hann glaðari en þegar hann fór norður og beygði heim í Haukagil, sem hann var sterkast og tryggast bundinn.

Þegar Eggert mátti sig lítt hræra utan húss síðustu mánuði og ár ævinnar undi hann löngum við að vinna við Örnefnaskrá og byggingasögu jarðarinnar og vildi halda málum hennar vel til haga þótt hann hefði látið af búskap. Hafði jafnvel mikið fyrir að hafa uppá tækjum sem afi hans hafði smíðað, eins og hornaklippurnar sem hann náði austan úr Hornafirði og kom á heimaslóðir. Þetta er einbeitt tryggð.

Eggert var söngmaður. Söngæfingar kirkjukórs Undirfellskirkju voru í heimahúsum á hans uppvaxtarárum, ekki síst heima á Haukagili. Pabbinn var í kirkjukór og hafði um sína daga sungið sópran, tenór og bassa í kórnum! Kirkjusöngur var því uppeldismál. Eftir að Eggert kom til Reykjavíkur söng hann síðan í kirkjukór Hjallakirkju, eignaðist söngfélaga, sem kveðja vin sinn svo vel í kirkjunni í dag. Þökk sé þeim og kantor þeirra.

Eggert var reglumaður og snyrtimenni og leið nokkra önn fyrir alla lausung í hverju sem var. Hann hafði skoðun jafnvel á litum þegar mála skyldi. Hvítt skyldi það vera, annað væri ekki snyrtilegt.

Hirðir, vitringur og engill

Myndirnar af Egget blasa misvel við okkur. Ég sá aðeins þær sem blöstu við síðustu æviár hans. Á aðventutíð er jólaguðspjallið nærri og Eggert hefði getað verið í mörgum hlutverkum í þeirri sögu. Hann var afbragðs fjármaður og um tíma með á sjötta hundrað fjár í húsi. Hann leitaði í gripahúsin þegar hann kom heim, leið vel þar og átti hjarta sem sló í takt við hjörðina og var sem sál safnsins. En hann var meira. Fáa menn hef ég hitt sem átti jafn djúptækt æðruleysi og Eggert, sama á hverju gekk. Vissulega naut hann stuðnings síns fólks, átti stuðning systkina og barna vísan. Og Rúna reyndist honum fágætur sálufélagi og stuðningur í lífinu. En hann hafði frá upphafi náð að slípa sinn lífsstein svo vel að það var sama hversu myrkt var, lífsljósið, gleðin að handan fékk ávallt speglun og mögnun í honum og kom fram í augum, orðum og brosum. Aldrei var hann svo aðkrepptur að hann hefði ekki orku til að þjóna Rúnu sinni, vinum og þeim sem hallir stóðu. Þetta sá ég hvað eftir annað og aðrir hafa staðfest. Eggert var á stuttri ævi orðinn vitur maður, margreyndur en djúpur þroskabrunnur. Æðruleysi, gleði þrátt fyrir æðstæður, gerði okkur forviða, en jafnframt þakklát fyrir að lífskúnstin og hamingjan skuli hafa átt svo kunnáttusaman fulltrúa meðal okkar. Og kanski var það hirðirinn sem sameinaðist vitringnum í honum. En svo var Eggert einnig frábær vörslumaður hvar sem hann var, hvort sem það var á Haukagili, í samskiptum við ættmenni og foreldra, systkini og sveitunga. En hann var einnig öflugur vörslumaður í vinnu, tryggur í störfum eins og við sem áttum leið um hliðið góða vitum best. En bestur var hann á síðasta skeiði í vörslu ástarinnar og hamingjunnar. Þar varð vörðurinn að verndarengli. Hann varð Rúnu sem gjöf himinsins, og hún honum sömuleiðis. Ég hef séð fólk kunna að lifa en fá sem hafa kunnað að rækta hamingju sína með eins kröftugu móti og þau. Gagnvart undri lífisins er það best hlutverk að geta sungið með englunum á Betlehemsvöllum um dýrð Guðs og velþóknun yfir mönnunum.

Brotinn, orkulaus, en samt góður hirðir og vitringur. Hæggerður, hlédrægur en samt ótrúlega sterkur og ávirkur. Skaddaður en heilbrigður í vernd og lífsgáska. Hirðir á för um myrk sund og hrellingarhóla, samt kyrr og öruggur. Hann dó fyrir aldur fram, alltof snemma. Slegin stöndum við nú á útjaðri Betlehemsvalla og skiljum ekki þetta ráðalag, en megum vita að hirðirinn besti, Jesús Kristur hefur opnað fang sitt. Eggert hafði lært á lífið og ástina, nú fellur hann í fang hans sem er sjálft lífið og orkubrunnur elsku, hlátra, gáska, og framtíðar.

Já gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga

og í húsi Drottins bý ég langa ævi.

10.1. 1949 – 12.12. 2003

Myndin af Eggerti einum tók Rúna af honum fyrir framan Þingvallabæinn. Samsetta myndin er frjá hjónavígsludegi Rúnu og Eggerts 19. mars 1999 og svo af þeim saman á Benidorm.