Elín Guðrún Óskarsdóttir

Það er við hæfi að syngja um fuglana þegar við minnumst Elínar og líka brag um vor og ást. Myndirnar í sálmaskránni heilla. Þær sýna Elínu og ástvini hennar og kalla fram minningar. Elín var á seinni árum gjarnan í bláum fötum og svo eru þarna líka myndir af henni í hvítu. Hvítt og blátt og ástin þeirra Þráins smitar og læðist inn í stórfjölskyldumyndirnar. Mig langar til að bæta við einni mynd. Hún varð ekki til í myndavél Þráins heldur í frásögum hans og barna þeirra Elínar. Það er myndin af fuglavininum sem gaf fuglum á köldum vetrardögum. Elín fór út og dreifði fuglafæðu á blettinn. Á snjóatíma ruddi hún eða einhver í fjölskyldunni flötina til að gefa. Þegar hún birtist í svörtu kápunni í dyrunum komu vinir hennar fljúgandi. Fréttin barst um Fossvoginn og herskarar himinsins komu svífandi í vonarferð til Elínar sem elskaði lífið, virti náttúruna og var umhugað um þau sem voru þurfandi. Eitt árið var þrastapar búið að gera sér hreiður á garðverkfærunum úti og þá mátti ekki hreyfa þau frekar eða koma í hús. Svo hændir voru fuglarnir að henni að þeir komu gjarnan að gluggaglerinu til að tengja við hana og einu sinni eltu þeir hana inn í stofu. Varla féll úr dagur að Elín kannaði ekki svengdarstuðul hinn fiðruðu. Svo gerði hún tilraunir með tegundir og komst að því að rúsínur gerðu þeim gott og gáfu hinum máttlitlu orku.

Að virða fugla og gefa þeim er eitt af stóru minnum kristninnar. Jesus talaðí í ræðum sínum um fuglana og sagði: „Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá.“ Dýrlingar kirkjusögunnar voru gjarnan fuglavinir og Frans frá Assisi kunnur fyrir fuglavinsemd og frægur fyrir að hann talaði við þá. Elín var fuglunum í Fossvoginum sem Frans þeim ítölsku. Fólk sem elskar lífið og styður aðra skapar heimilisfrið, ástríki og nærir til manndóms og visku. Elín var lífgjafi, nærði hamingju Þráins, barna sinna og ástvina. Lof sé henni og þökk.

Bernska og Herjólfsstaðir

Elín Guðrún Óskarsdóttir fæddist í Reykjavík í byrjun aðventu, 6. desember, árið 1943. Svo fór hún inn í himininn við upphaf jóla. Foreldrar hennar voru Unnur Benediktsdóttir og Óskar Magnússon. Hún var eina barn þeirra. Elín var ávöxtur ástar norðurs og suðurs. Mamman var frá Moldhaugum í Eyjafirði og faðirinn sunnlenskur, frá Steinum undir Eyjafjöllum. Elín var ekki aðeins tveggja vídda landsins heldur líka hagvön í tveimur heimum dreifbýlis og þéttbýlis. Hún ólst upp í Reykjavík og sótti skóla þar. En á sumrum var hún í sveit. Það var vissulega algengt að senda stálpuð börn í sveit í uppvexti hennar en fátítt að börn færu mjög ung. Elín var ekki nema fjögurra ára þegar húm fór fyrst austur í Herjólfsstaði í Álftaveri. En sveitaveran varð henni ávaxtarík. Hún naut einstakrar velvildar og elskusemi meðal frændfólksins eystra. Lífið í stórum faðmi skaftfellskrar menningar og náttúru gaf einbirninu systkini í Herjólfsstaðabörnunum Elínu, Hönnu og Hannesi. Í sveitinni var unnið af dug, hlaupið til verka, sungið hástöfum, hlegið og talað og svo farið í ævintýra- og fræðsluferðir upp í heiði til að gleðjast yfir vel unnum verkum. Ég kynntist Herjólfsstaðaheimilinu sem prestur fyrir austan og get því þakkað Vigdísi og Hirti og börnum þeirra fyrir að gefa Elínu svo ríkulegt viðbótarheimili og alls kyns menningarlega og tilfinningalega bónusa til lífsferðarinnar. Hún fór ung austur og beið engan skaða af heldur aðeins gæði sem hún þakkaði fyrir og taldi lán í lífinu.

MR og latínan

Elín var skarpur námsmaður og eftir grunnskólapróf hóf hún nám í Menntaskólann í Reykjavík. Henni sóttist námið vel og hafði mestan áhuga á tungumálum. Uppáhalds námsgrein hennar var latína og allir sem glímt hafa við datíva, accusatíva og flókna latneska málfræði vita að það þarf stálaga til að klífa það tungumálabjarg. En Elín fór upp eða flaug yfir þá tinda sem hún ætlaði. Síðar skilaði latínufærnin að ferðakonan Elín var snögg að átta sig á hinum rómönsku tungumálum, fljót að skilja vegvísa og átta sig á inntaki annars ókunnara texta. Námið í skólanum við Lækjagötu gekk vel og Elín útskrifaðist sem stúdent árið 1963. Launin fyrir veruna í ellefu sumur á Herjólfsstöðum höfðu verið innlögn lamba til verslunarfélagsins í Vík. Innistæðan var orðin það mikil að nýstúdentinn flaug alla leið að Gardavatninu á Ítalíu.

 Áhugaefni og viðskiptafræði

En hvað ætlar þú svo að verða? Þráinn spurði Elínu og fleiri stúdínur síðar þeirrar spurningar. Elín hafði einlægan áhuga tilfinningum, tengslum og lífi fólks. Hún íhugaði um tíma að hefja nám í sálfræði en þá var sú grein ekki kennd í háskóla á Íslandi. Þegar allt var skoðað leyfði fjárhagur ekki nám erlendis og Víkurinnstæðan var búin. Elín valdi því viðskiptafræði og þegar hún hóf námið var engin kona þar við nám. Þær voru þó tvær sem innrituðust í viðskiptadeild haustið 1963. Elín sagði síðar að strákarnir í deildinni hefðu spurt hana hvað hún væri eiginlega að gera í viðskiptafræði – af hverju hún hefði ekki bara farið í húsmæðraskóla! Karleinokunin hafði verið það alger að aðeins fjórar konur höfðu útskrifast sem viðskiptafræðingar á þeim nær þrjátíu árum áður en Elín hóf nám. Hún var sú fimmta í röð viðskiptafræðinga frá upphafi þegar hún útskrifaðist vorið 1969. Fyrsta starf hennar var í hagdeild Reykjavíkurborgar. Í þrettán ár stýrði Elín Félagi viðskipta- og hagfræðinga og starfaði löngum með manni sínum að viðskiptatengdum verkefnum og við stjórn og rekstur fyrirtækja.

Þráinn og hjónaband

Elín kynntist Þráni Þorvaldssyni í viðskiptafræðinni í Háskólanum. Henni leist ekki á skólabróðurinn í fyrstu, sýndist hann vera drengstauli! Þráinn ritstýrði Hagmálum á þessum tíma og tók myndir og viðtöl fyrir blaðið. Hann hafði greinilega áhuga á stúlkunum í viðskiptafræðinni og bað um viðtal við þær. Elín var ekki viss um ástæður áhuga hans en ekki fer sögum að því hvort hún grunaði hann um græsku eða fara svo fagmannlega á fjörur við hana. En hún var hugsi yfir spurningu hans: Hvað ætlið þið svo að verða? Elín svaraði kröftuglega – hún ætlaði að verða viðskiptaráðherra! Þráinn mundi alltaf svarið. Í viðskiptaleiðangri norður á Akureyri fóru þau Elín að draga sig saman. Dans á Sjallanum varð afdrifaríkur og þau kynntust æ betur. Á þessum tíma keyrði Þráinn Austin Gypsy-jeppa. Elínu þótti hann herralegur þegar hann hljóp alltaf út til opna fyrir henni farþegamegin. Elín hreifst af. Drengstaulinn var orðinn eins og amerískur sjentilmaður. Það var ekki fyrr en löngu síðar sem hann sagði henni að lásinn hennar megin hefði verið bilaður svo það var ekki um annað að ræða fyrir hann en að opna. En Elín þáði þjónustuna með aðdáun og gilti einu hvort lásinn var bilaður eða ekki. Þráinn var og hefur alla tíð verið þjónustulipur. 

Svo ýttu húsnæðismál á og það varð beinlínis hagkvæmnismál að þau Elín gengju í hjónaband. Og svo stóð Þráinn í Háskólakapellunni og beið eftir brúði sinni. Hann reyndi eftir megni í spennu dagsins að vanda sig við að brosa. Svo gekk hún svo glæsileg í hvítum kjól á móti honum og varð hans og alla ævi síðan. Þau tóku til sín boðskap dagsins um að vanda sig við að halda ástareldinum lifandi – alla ævi og bæði. Það gekk eftir.

 „Gott hjónaband er eins og geirnegling“ sagði Þráinn. Og það er grípandi og hnyttin myndlíking. Þau Elín féllu vel saman og nutu styrkleika hvors annars. Þau voru nægilega ólík til að styrkja hvort annað og mættust á miðri leið. Þau voru samstillt, samstiga í gagnkvæmri aðdáun og samvinnu.

Börnin og vinna

Næstu áratugir urðu fjölbreytilegir og litríkir í lífi þeirra Elínar. Þau fluttu norður á Sauðarkrók og stýrðu nýrri sútunarverksmiðju Loðskinns. Börnin komu svo í heiminn. Þau Elín eignuðust fjögur börn. Þrjú þau yngri lifa. Þorsteinn var elstur og hann dó skömmu eftir fæðingu. Svo fæddist Sif ári síðar eða 1971 og Hrönn árið 1976. Óskar Þór fæddist áratug á eftir bróður sínum. Sif er gift Bjarna Frey Ágústssyni og þau eiga Örnu Ösp, Eyrúnu og Ægi. Maður Hrannar er Helgi Jónsson og Freydís og Daði Freyr eru þeirra börn. Kona Óskars er Harpa Valgeirsdóttir og þau eiga Val Kára, Heiðu Unni og Rögnu Hlín. Elín þjónaði fólkinu sínu og studdi sem hún gat og meðan hún hafði getu til.  

Eftir veruna fyrir norðan bjuggu Elín og Þráinn um tíma í Reykjavík og fóru síðan  til Bretlands og Sif með þeim. Fyrstu barnaárin var Elín heimavinnandi. Hún starfaði um tíma hjá Hildu hf. Svo stofnaði hún með Þráni og fleirum SagaMedica og sá við upphaf um fjármál þess. Heimilislíf, vinnulíf og áhugamál þeirra Elínar fléttuðust vel saman í þykka hamingjufléttu. Þau Þráinn ferðuðust mikið innan lands og utan. Þau voru bæði náttúrubörn og lögðu mikið á sig að tengja ungviðið við dýrmæti náttúru Íslands. Eftirminnilegar voru allar tjaldferðirnar með búnað fyrir allar árstíðir og skoðunarferðir í alla landsfjórðunga m.a. í hópi góðra ferðafélaga. Elín var vön hlaupunum á Herjólfsstöðum bernskunnar og var kraftmikill göngugarpur og gekk m.a. Laugaveginn úr Landmannalaugum.

Þau Elín fengu sér húsvagn og fóru um á hverju sumri og fundu ýmsa „leynistaði“  til að njóta sem best undra landsins. Elín og Þráinn dönsuðu gjarnan og voru glæsilegt par á gólfi. Söngur var hluti heimilislífsins og Elín hafði gjarnan ofan af fyrir ungviðinu á langferðum með söngiðkunum. Elín lærði að spila á hljóðfæri á unglingsárum eins og bóndi hennar og tónlist varð því snar þáttur heimilislífsins. Yngri kynslóðinni fannst kannski að tónlistarsmekkur foreldranna væri kannski aðeins vh-legur sem útleggst sem væminn og hallærislegur. En þau gerðu ekki ágreining við eldri kynslóðina. Svo varð ljósmyndun mikilvæg vídd í hjónalífi þeirra Þráins. Elín hafði ríkan skilning á að ljósmyndun krefðist tíma og beið þolinmóð eftir að Þráinn næði góðum skotum. Þetta var gott líf.

Eigindir og minningarnar

Hvaða minningar áttu um Elínu? Nú eru skil. Minningar þyrlast upp og líka þarft að þakka og að vinna með sorgarefnin. Hvað finnst þér merkilegast í persónu og sögu Elínar? Hvað finnst þér mikilvægast? Var eitthvað sem hún sagði við þig sem snart þig djúpt? Hvað lærðir þú af henni? Gaf hún þér eitthvað? Gerði hún eitthvað sem varð þér til stuðnings eða eflingar? Hvað var einstakt í henni og gerðum hennar? Sagði hún eitthvað við þig sem hefur lifað í þér? Og hvað er það sem þú vilt taka inn í framtíðina af því sem Elín var, gerði eða tjáði?

Manstu hæfileika hennar? Elín var listræn. Hún gat spunnið sögur og fangað athygli þeirra sem heyrðu. Hún samdi ljóð en vildi síður varðveita þau. Þráni tókst reyndar að koma nokkrum undan áður en þau fóru í glatkistuna. Svo rissaði hún og teiknaði og notaði snifsin sem fyrir hendi voru. Jafnvel skjöl voru myndskreytt. Elín hafði ríkulega tónlistargáfu og studdi sitt fólk í námi og tónlistariðkun. Manstu nýtni hennar og hve vel hún fór með? Fékkstu einhvern tíma bréf frá henni? Þrátt fyrir mikinn fjölda vina um allan heim vildi hún ekki senda fjölfaldaðar jólakveðjur heldur handskrifaði þær. Og einu gilti hvort þær voru á ensku, þýsku eða dönsku – svo mikil málakona var hún.

Manstu hlýju og góðmennsku Elínar? Natnina í samskiptum, væntumþykju og elskulegheit? Manstu litina á fötum hennar? Manstu vilja hennar til að hjálpa öðrum og finna sér verðug hlutverk? Manstu að Elín mætti þegar stuðnings var þörf? Manstu garðvinnuna og metnaðinn í útistörfunum og hve berjarunnar, blóma- og grænmetisbeð brostu við henni og heiminum öllum? Svo var hún stöndugur uppalandi, góð í sínu fagi og skilaði alltaf góðu dagsverki og lagði metnað í störf sín og verk.

Afstaðan til veikinda og alzheimer

Og svo læddist alzheimer að Elínu. Og hún bað Þráin að dansa við sig ef eins færi fyrir henni og móður hennar. Það gerði hann. Þau voru ekki bara sálufélagar sem höfðu fallið saman í geirneglingu ástarinnar. Ég hef fylgst með hvernig sjúkdómurinn hefur þróast í áratug en líka dáðst að hvernig þau hafa dansað lífsvalsinn saman. Þau hafa ekki aðeins tjáð samstöðu heldur líka opinberað okkur hve ástin er marglaga og faðmvíð. Við höfum orðið vitni að því að jafnvel þegar orða er vant og getan til máls hverfur er jafn mikilvægt að tjá ást með strokum, blíðu, faðmlagi, kossum, augnablíðu og hlýju.

Sálufélag er líka það að umvefja með ástarorðum þó engra sé að vænta til baka. Þetta er að halda loganum lifandi allt til enda, dansa allt til enda. Veikindatími Elínar ól með þeim Þráni nýjan skilning hjónalífs og nándar þeirra. 58 ár frá því að þau hittust fyrst. 56 ár gift. Svo sneri Elín sér að manni sínum undir lokin þótt hún gæti ekki almennt tjáð sig og sagði við hann skýrum rómi: „Takk fyrir hve þú ert  góður við mig.“ Og við getum ekki annað en sagt. Takk fyrir að þau voru svo góð við hvort annað. Í lífinu tjáðu þau djúpgildi hins kristna arfs, að við erum fyrir hvert annað, megum þjóna hvert öðru, lifa í geirneglingu ástarinnar. Þannig er ást Guðs sem speglast í fólki sem tekur lífinu vel, þorir að vera, þorir að elska, hlægja, dansa og ljóða um vonir lífsins.  

Fuglarnir eltu Elínu og jafnvel inn í stofu. Og væntanlega er lífið ríkulegt í eilífðinni. Vonandi voru þúsundir af fiðruðum vinum sem tóku á móti Elínu með Þorsteini þegar hún fór inn í jól himinsins. Þar hefur henni verið fagnað. Þar er geirnegld himinást, tónlist, gleði og fögnuður. Guð geymi Elínu og styrki þig Þráinn, Sif, Hrönn, Óskar Þór, tengdabörn, barnabörn og ástvini.  Amen.

Minningarorð SÁÞ  við útför Elínar í Fossvogskapellu, 8. janúar, 2023. Í athöfninni var lagt út af kærleiksóði Páls postula og leiðarlýsingu Jesú í fjórtánda kafla Jóhannesarguðspjalls. 

Bálför. Jarðsett í Fossvogskirkjugarði. 

Hrynja gullin tár

af greinum trjánna.

Falla mjúklega til jarðar

og faðma sölnað grasið.

Við hittumst aftur í vor

og byrjum á ný.

Elín Guðrún Óskarsdóttir

Við moldun í lok athafnar var sem þrastargoggur sprytti af krossmarkinu. Var sem tákn við útför fuglavinarins Elínar.