Greinasafn fyrir merki: Lilja Jóhanna Gunnarsdóttir

Guðlaugur Stefánsson – minningarorð

Guðlaugur kom hjólandi að Ísaksskóla. Þar beið dótturdóttir hans í ofvæni eftir afa. Hann sveigði upp að skólanum, steig af hjólinu og tók á móti stúlkunni fagnandi. Henni fannst afi vera eins og frelsari sem bjargaði henni úr skólanum. Það eru fleiri slíkir en á hvítum hestum. Svo kom Guðlaugur mjúkum poka fyrir á bögglaberanum til að sæti dömunnar yrði sem þægilegast. Svo kom hún sér fyrir og þau fóru af stað. Þetta var þeirra ferð og gæðastund. Það var gaman þegar afi kom, að halda í hann og líða svo um heiminn, horfa á hús, bíla og mannlíf og vita að kaka biði heima hjá ömmu og afa. Svo sást fjölskyldutréð, hlynurinn í garðinum við Fjölnisveg og þá voru þau komin á leiðarenda. Engir hjálmar – en aldrei duttu þau eða lentu í áföllum. Þetta voru hamingjuferðir. Guðlaugur var traustsins verður, gætinn, glöggur og glaður. Svo þegar afastúlkan hugsar til baka þá voru þessar reisur þeirra góðar ævintýraferðir.

Þetta er ein af mörgum sögum sem ég hef heyrt um valmennið Guðlaug, um ferðirnar hans í þágu fólks og lífs, lífsreisur hans með Lilju, börnum hans, afkomendum og ástvinum. Guðlaugur þjónaði líka nemendum sínum og menntun og menningu þeirra sem hann bar ábyrgð á, hvort sem það var fyrir austan, hér syðra eða í þeim hópum og greinum sem hann tengdist.

Upphaf

Upphaf Guðlaugs var í Eyjum en svo fór hann austur barn að aldri. Hann var sumarmaður, fæddist í Vestmannaeyjum 12. júlí árið 1936, elstur í systkinahópnum. Foreldrar hans voru hjónin Stefán Pétur Pétursson og Halla B. Guðlaugsdóttir. Þau eignuðust þrjár systur eftir að skrákurinn fæddist. Elst systranna er Halla Valgerður sem kom í heiminn 1937, ári á eftir Guðlaugi. Þar á eftir fæddist systir árið 1942 en hún lést aðeins fjögurra mánaða gömul. Hvaða skuggar settust að í heimilislífinu og hvernig var unnið úr sorginni? Það vitum við ekki en mynd af henni í kistunni var til á heimilinu – en ekki um hana rætt. Svo kom gleðigjafin Stefanía árið 1947.

Guðlaugur sótti skóla í Neskaupstað. Lífið í bænum var fjörmikið. Sundlaugin var tekin í notkun 1943 og varð miðstöð yngri sem eldri bæjarbúa, gleðigjafi og sundiðkendum heilsubót. Guðlaugur varð snemma afburða sundmaður. Þeir félagarnir í Skyttunum þremur kepptu í sundi. Alla tíða þótti Guðlaugi gaman að synda og hann sótti í vatnið. Síðustu árin sóttu þau Lilja í sundlaugina í Laugardal. Guðlaugur varð snemma fjölhæfur íþróttamaður og keppti á unglingsárum í frjálsum íþróttum og einkum hlaupum. Alla tíð sinnti hann heilsurækt sinni dyggilega. Hann var líka valinn til forystu í félagsmálum og var um tíma formaður íþróttafélagsins Þróttar í Neskaupstað. Eftir hann liggja m.a. ritsmíðar á þess vegum og um íþróttir.

Stefán, faðir Guðlaugs, var vélstjóri og sjómaður. Vegna sjósóknar var hann löngum fjarri heimili. Halla, móðir hans, var dugmikil líka og eina vertíðina var hún í Sandgerði og sonur hennar var þar með henni. Guðlaugur lærði því snemma að bjarga sér, sjá um sig og sína. Hann varð sjálfbjarga og sjálfstæður.

Framhaldsskóli og nám

Guðlaugur tók stefnuna á hinn nýja Menntaskóla á Laugarvatni. Þá tóku við mótunar- og menntaár. Hann las ekki aðeins bækur, lærði fyrir tíma og glósaði danska og þýska texta heldur straujaði skyrturnar sínar og festi lausar tölur. Hann hafði gaman af námi og lífi, var góður námsmaður, kom sér vel, lagði gott til allra og var góð fyrirmynd samnemenda sinna. Stúdentshúfan fór á kollinn hans vorið 1956. Hann var hæfileikaríkur, gat margt, íhugaði möguleika og stefnu og í honum bjó líka útþrá. Þýskan togaði og hann fór til náms í þýsk-dönsku borginni Kiel. Svo athugull og skipulagður sem Guðlaugur var sá hann hve illa borgin hafði verið leikin af skelfingum seinni heimsstyrjaldar. Veran í Kiel varð til að Guðlaugur markaði sér fræðasvið. Hann valdi þýsku og dönsku, lauk kennaraprófi frá stúdentadeild Kennaraskólans árið 1960 og síðan BA-prófi þremur árum síðar eða 1963. Svo varð kennslan meginstarfi Guðlaugs þaðan í frá. Skólastjórinn í Vogaskóla hafði samband við hann og bað hann að koma til starfa sem hann gerði og kenndi þar í áratug eða til 1972. Svo var Menntaskólinn við Tjörnina stofnaður sem hleypti miklu lífi í miðborgina. Þangað fóru dugmikilir kennarar til starfa og Guðlaugur var einn þeirra. Hann kenndi þýsku í MT og fór síðan með kollegum sínum inn í Sund þegar MT varð að MS, Menntaskólanum við Sund. Guðlaugur kenndi einnig þýsku í MS til starfsloka árið 2006. Öllum kom Guðlaugur til nokkurs þroska. Hann var öflugur og hæfur skólamaður, góður félagsmálamaður og var því eftirsóttur til ýmissa starfa. Guðlaugur var flokksstjóri Vinnnuskólans í Reykjavík í mörg sumur og kenndi að auki um tíma í Námsflokkum Reykjavíkur.

Lilja og heimilið

Svo var það ástin og fjölskyldan. Guðlaugur og Lilja Jóhanna Gunnarsdóttir elskuðu hvort annað. Ást þeirra lifði öll árin þeirra. Þau gengu í hjónaband í Háskólakapellunni laugardaginn 16. júní 1962. Það er við hæfi að minna á að þann dag sem þau sögðu já við hvort annað var efst á vinsældalistanum í Bandaríkjunum hið dásamlega lag um ástina – I can‘t stop loving you í flutningi Ray Charles. Jáin þeirra voru staðföst og til framtíðar og þau hættu aldrei að elska. 

Guðlaugur og Lilja sáust fyrst í Lídó á fullveldisdeginum 1. desember 1961 og Lilju varð starsýnt á hinn vörpulega unga mann. Svo hittust þau á Garðsballi og fóru að dansa. Þau tóku falleg spor á gólfinu, fundu taktinn og dönsuðu sig til ástar sem lifði í sex áratugi. Þau hættu aldrei – stoppuðu aldrei – að elska hvort annað. Þau hófu búskapinn í fjölskylduhúsinu á Fjölnisvegi 15 og bjuggu þar alla tíð og nutu samvistanna við tengslafólkið í húsinu. Svo byggðu þau við húsið og bættu aðstöðu fyrir íbúana.

Stefán fæddist í nóvember 1962 og Jórunn Sjöfn kom í heiminn í febrúar árið 1967 og Halla Sif tólf árum síðar – í ágúst 1979. Þau fengu því öll rými, elsku og næði til þroska. Dóttir Jórunnar er Lilja Rut og hún á soninn Benedikt Búa með Eiríki Inga Lárussyni. Synir Höllu eru Daníel Snær; Anton Örn og Tómas Ari og þeir eru synir Jesús Rodríguez.

Húsið í skjóli fjölskylduhlynsins var hús ástar og vaxtarreitur kærleikans. Guðlaugur bar virðingu fyrir Lilju sinni, treysti dómgreind hennar, tók tillit til þarfa hennar og afstöðu og mat ráð hennar. Þau voru samrýmd og samstiga í lífinu. Sambúð þeirra var gæfusöm og hamingjurík.

Minningarnar

Hvernig manstu Guðlaug? Hvað var það sem hann sagði við þig sem sat í minni þér? Hver er skemmtilegasta minning þín um hann? Hvað kenndi hann þér? Manstu hve vel hann skrifaði og hve skrautskriftin hans var glæsileg? Nemendur og kollegar hans hafa sagt frá hve öflugur skólamaður og stöndugur kennari Guðlaugur var. Mannvirðing var honum í blóð borin. Hann var hlýr, orðvar, dagfarsprúður og kurteis í samskiptum við nemendur sína og samverkafólk, hvatti til dáða án nokkurs hávaða og kom hugmyndum sínum og skoðunum á framfæri með hlýju og lagni. Með því lagi þokaði hann málum fram.

Guðlaugur var vinnusamur. Honum var það gefið þegar í uppvexti frá foreldrum og samfélagi. Hann lærði af föður sínum smíðar og viðgerðir. Hann var laginn til verka og var sjálfbjarga um fleira en tölur og við straubretti. Heima dittaði hann að og smíðaði – jafnvel innréttingar. Nemendur gátu verið vissir um að Guðlaugur byggi til glósuhefti til að létta þeim vinnu í glímunni við þýskuna. Í sólbaði féll honum jafnvel ekki verk úr hendi heldur notaði yndisstundirnar til gefandi verka. Garðurinn naut hans ríkulega og ber alúð íbúanna vitni og atorku Guðlaugs sem þótti gott beita sér í útiverkunum við slátt, verk og snjómokstur.

Guðlaugur hafði auga fyrir umhverfi sínu. Hann fékk áhuga á ljósmyndun og tók mikið af myndum sem skrásettu og varðveita sögu hans og fjölskyldu. Svo hafði hann áhuga á tónlist og ekki síst jazz og hlustaði á Benny Goodman, Ellu Fitzgerald eða Lois Armstrong. Fegurðarskynið náði líka til handanna því hann var einnig drátthagur og ljómandi teiknari. 

Guðlaugur var alla tíð áhugasamur um útivist og íþróttir. Hann sótti íþróttaviðburði hvort sem það var nú leikur Eusebio og Benfica við Val eða skákmót Spasskys og Fishers. Hann var alla tíð léttur á fæti og gekk gjarnan á fjöll með vinum sínum um helgar. Þeir félagar voru vel heima á Vífilfelli, Helgafelli og í Jósepsdal. Þau Lilja gengu líka gjarnan saman í Öskjuhlíðina, á Mosfell eða eitthvað annað sér til heilsubótar og gleði. Guðlaugur hafði lært í bernsku að heilbrigð sál býr í hraustum líkama. Hann hafði alla tíð þörf fyrir loft í lungu og góðan félagsskap. Svo hvatti hann börn sín til heilsuræktar og fór með fjölskylduna á skíði og í sund.

Guðlaugur var reglumaður í öllu. Lágt vetrarsólskinið opinberaði ekki ryk á heimili þeirra Lilju. Hann sótti gjarnan ryksuguna ef þörf var á og sá til að allt væri í röð og reglu. Guðlaugur var opin og aðlagaðist þörfum hvers tíma. Hann tók tillit til annarra í fjölskylduhúsinu. Og þegar aðstæður breyttust var hann fús að sinna nýjum hlutverkum. Hann var ekki gamaldags húsbóndi sem var fastur í farinu heldur brást við með skapandi hætti. Þegar börnin komu í heiminn eldaði hann og axlaði líka ábyrgð á heimilisrekstrinum. Þegar Lilja þurfti að nota bílinn tók hann bara hjólið og fór í sína vinnu. Reglumaðurinn var opinn, sveigjanlegur, tillitsamur og aðlagaðist. Í vinnu vann hann með fólki og þoldi vel breytingar og þróun skólanna sem hann þjónaði. Guðlaugur var í mörgu á undan sinni samtíð. Pólitísk stefnumál var hann til í ræða og breyta um skoðun ef hann heyrði góð rök. Kynhlutverk og venjur voru eitthvað sem Guðlaugur einfaldlega vann með í þágu konu sinnar, fólksins síns og annarra. Við erum ekki eyland heldur í tengslum. Hlutverk okkar mega vera fljótandi og breytast til að tryggja gott líf, vöxt og gjöfula menningu. Guðlaugur er fyrirmynd okkur hinum.

Inn í eilífðina

En nú er Guðlaugur farinn inn í heiðríkjuna. Líf hans var góð guðsþjónusta. Hann skildi eftir þekkingu, visku og elsku í sál og lífi fólksins síns. Það verða ekki fleiri helgarkaffi eða samverur með honum en minningarnar um hann lifa. Handaverkin hans sjást í og við Fjölnisveg 15. Guðlaugur skrifar ekki framar á fjölda útskriftarskírteina MS en falleg rithönd hans sést í Biblíum barna hans. Hann mokar ekki framar skafla af stéttinni og engin handryksuga fer framar á loft til að hreinsa upp confetti-snifsin á gamlárskvöldi! Hann fer ekki framar í sund eða smellir mjúkum poka á bögglabera. Við vitum ekki hvort það verða einhver DBS-reiðhjól á eilífðarbrautunum en engin far- eða ferðabönn verða. Guðlaugur horfir ekki framar hlýlega á Lilju sína, börnin eða fjölskyldu. Nú er hann farinn inn í ljósríki himinsins. Öll stríð eru að baki og hann fær að hvíla í skugga einhvers himnesks fjölskylduhlyns – og blessa Lilju, börnin sín, ástvini og félaga.

Þökk fyrir líf Guðlaugs. Guð blessi hann og geymi – og líkni ykkur ástvinum.

Lagt út af kærleiksóði Páls í 1. Korintubréfi 13 og leiðarlýsingu Jesú í Jóhannesarguðspjalli 14. Kistulagt í kapellunni Fossvogi 21. febrúar. Útför Hallgrímskirkju 24. febrúar kl. 15. Bálför. Jarðsett í Fossvogi 9. mars. Erfi í Þingholti á Hótel Holt. Útfararstofa kirkjugarðanna. Óskar Einarsson, tónlistarstjóri.