Nr 7 Þú skalt ekki stela

Föstudaginn 15. mars dreif að ungt fólk úr öllum áttum og allir stefndu að Hallgrímskirkju. Unglingar í 8.-10. bekk og fjöldi úr framhaldsskólunum og nokkur eldri líka. Þau komu með mótmælaspjöld, litrík spjöld með hvatningarorðum um aðgerðir í náttúruverndarmálum: „Ekki stela framtíðinni.“„Það er engin pláneta B.“ „Framtíð okkar er í húfi.“ Þau voru komin til að mótmæla loftslagsmengun og hvöttu til aðgerða. „Gerið eitthvað áður en það er of seint“ stóð á mörgum spjöldum. Sum mótmælenda fóru að föstutré Hallgrímskirku, sem hafði verið flutt úr kórnum og út á Hallgrímstorg. Unga fólkið batt bænabönd á tréð og mislit böndin táknuðu mismunandi bænir. Föstutréð er birkitré og er að bruma og grænkar smátt og smátt. Svo gengu þúsund mótmælendur af stað undir söng kirkjuklukknanna niður Skólavörðustíginn og niður á Austurvöll.

Stela framtíð?

Í huga mér hljómaði setning Gretu Thunberg til heimsbyggðarinnar og skilaboðin voru á spjöldum líka: „Þið stelið framtíð okkar.“ Þeirri ákæru er beint til valdhafa og forréttindafólks heimsins, sem keyra áfram neyslukapphlaupið. Unga fólkið vekur athygli á stóru málunum og vill ekki að neinn steli framtíðinni. Þau berjast gegn stuldi lífsins. Ég stóð svo við Leifsstyttuna og horfði á eftir framtíðarfólkinu, sem vill góða framtíð en ekki mengaða veröld. Ég og mín kynslóð getum ekki annað en viðurkennt, að við höfum brugðist því hafið er að fyllast af plasti, hitastig lofthjúps jarðar er að hitna vegna okkar neyslu. Hreint vatn, sem er öllu lífi nauðsyn og raunar bæði náttúruréttindi og mannréttindi, er dýrmæti sem aðeins minnihluti mannkyns nýtur. Stelum við? Ætla ég að vera þjófur? En þú? Að menga er að stela heilbrigði annarra. Að stela framtíðinni er stórkostlegt afbrot – dauðasynd.

Sjöunda orðið

Þessar vikurnar ræðum við Hallgrímskirkjuprestar um boðorðin. Við vissum vel, að boðorðin eru merkileg. En við höfum líka enduruppgötvað hve andi þeirra er nútímalegur þegar búið er að skræla frá umbúðir fortíðarsamfélags. Boðorðin eru lífsviska, áttavitar fólks, sem vissi hvað þrælabúðir voru og hvað þrældómur spillts valds gat verið hræðilegur. Boðorðafólkið vildi ekki búa við helsi heldur frelsi. Og heilbrigt samfélag verður ekki til nema að fólk njóti mannréttinda og samfélagið hafi góðar reglur sem hemja ofbeldi. Fólk er ekki og má aldrei vera bara hjól í vél, tæki í þágu valdahópa. Gott samfélag verður til þegar fólk fær að vera það sjálft og fullveðja. Inntak boðorðanna er virðing fyrir Guði en líka djúp, ástrík virðing fyrir mönnum. Boðorðin tjá manngildi og mikilvægi mennskunnar.

Að stela fólki

Í dag beinum við sjónum að sjöunda boðorðinu. Hvernig er það? Jú, þetta sem bannar að stela. Þegar ég fór að skoða uppruna þess brá mér. Sumir fræðimenn sem sé telja, að þetta boðorð hafi upprunalega ekki verið vörn fyrir eignarrétt, heldur hafi fremur átt við fólk. Boðorðið hafi eiginlega verið bann við að stela fólki, gera fólk að þrælum, kaupa og selja þræla. Í hefðum Gyðinga hefur um aldir verið lögð áhersla á, að boðið varði mannrán. Þetta breytti sýn minni og skilningi á boðinu og opnaði það. Allt í einu varð boðorðið ágengara en sjálfsögð sannindi um efnislega hluti. Boðorðið er þá ekki bara almennt um fjármálagjörninga, viðskipti, kaup og sölu eða vernd eignarréttar, sem vissulega er mikilvægt í siðuðu samfélagi. Boðið varðar fremur fólk en eigur þess. Ef við manntengjum boðorðið verður betur skiljanlegt, að Jesús túlkaði siðfræði og lagahefð þjóðar sinnar fremur í þágu fólks en peninga. Við vitum, að Jesús var alltaf með hugann við velferð einstaklinga. Hann talaði um manngildi óháð lit, kyni og stöðu fólks. Hórseka konan var honum jafn mikils virði og musterispresturinn. Útlendingurinn var í huga hans jafngildur Gyðingum. Þorparinn var jafn mikilvægur og landstjórinn. Það var ekkert við og þið, yfirstéttin og undirsátar, betri og verri. Jesús felldi saman öll boðorðin og siðvit hebrea og Gyðinga og sagði, að aðalmálið væri, að við elskuðum Guð og náungann eins og okkur sjálf. Gullna reglan og tvíþætta kærleiksboðið? Það eru boðorðaprédikanir Jesú.

Manngildið og mennskan

Í ljósi þessarar manngildisáherslu las ég í liðinni viku greinar, blöð og fréttir með nýjum hætti. Boðið gegn því að stela getur átt við eða gilt fyrir öll þau tilvik þegar einhverjir brjóta á öðru fólki, ræna tíma og rétti, æru og vinnu, frelsi og lífsgleði. Það eru þjófar skv. boðorðinu, sem gera lítið úr skólafélögum og einelta aðra. Þeir pabbar eða mömmur, sem fara illa með börn sín og ástvini, svifta þau bernskunni eru þjófar. Það eru margir þjófar í hjónaböndum, sem fara illa með maka sína. Þeir stela raunverulega. Þjófarnir eru víða. Ertu þjófur? Stelur þú? Kannski ekki peningum, en stelur þú lífsgleði annarra, hamingju eða möguleikum? Og stelur þú framtíðinni?

Stela bernskunni

Sævar Þór Jónsson, lögmaður, sagði frá í nístandi blaðaviðtali í Morgunblaðinu, að þegar hann var átta ára þegar hann var misnotaður. Þrír ofbeldismenn níddust á honum og rændu hann bernsku og lífshamingju. Ofbeldi af því tagi er brot á mörgum boðum – slíkir menn eru bófar, þeir eru þjófar og ræningjar mennskunnar. Og það hefur verið verkefni Sævars Þórs að vinna úr þessu ofbeldi síðan. Og nú hefur Sævar Þór lagt draugana til hvílu – vonandi hinnar hinstu. Í haust, 2. október, mun hann segja frá – hér í Hallgrímskirkju – hvernig hann lifði af þetta bernskurán og brást við. Það er merkileg og rosaleg saga, sem hann hefur að segja, en líka saga um upprisu og hvernig fólk getur brugðist við missi, brotinu á sjöunda boðorðinu – og brotum á anda boðorðanna.

Eltihrellar stela

Ásta Ragnarsdóttir, hjá Bakkastofu á Eyrarbaka og fyrrum námsráðgjafi í Háskóla Íslands, sagði frá því fyrir skömmu, að hún hefði orðið fyrir barðinu á eltihrelli, sem sendi henni hræðilega hótunarpósta. Ástu var hótað líkamsmeiðingum, íkveikju og fleiri skelfingarefnum. Börn Ástu og Valgeirs Guðjónssonar, manns hennar, læstust inn í svartholi þessarar aðsóknar. Að lokum bognaði Ásta gagnvart hryllingnum, sagði sig frá vinnu sinni til að reyna að slíta sig frá ofsóknarfólkinu. Eltihrellar valda skaða, stela friði heimilis og fjölda fólks, meiða sálir og valda andlegum og félagslegum hörmungum. Eltihrellar eru þjófar og í sumum tilvikum morðingjar líka. Þeirra glæpur er rosalegur. En það var mikilvægt og hetjulegt, að Ásta sagði þessa sögu.

Rán á heimilum

Mörg okkar munum eftir bókinni Myndin af pabba,sem er saga Thelmu Ásdísardóttur. Í bókinni er sagt frá ofbeldi, sem faðir Thelmu beitti hana, systur hennar og fjölskyldu. Gerður Kristný, rithöfundur og skáld, skráði söguna og bókin stuðlaði að viðhorfsbreytingu Íslendinga (og endurskoðunar samfélagsins og þar með dómstóla) varðandi kynferðisofbeldi. Gerður Kristný hefur skrifað fleira um þetta þungbæra efni og m.a. áleitna og nístandi ljóðabók Sálumessu, sem var gefin út á síðasta ári – 2018, sem kallast á við efni Thelmubókarinnar. „Það sem aldrei er rætt virðist ekki vera til,“ segir Thelma (s. 215) í frásögn sinni af kynferðisofbeldi bernskunnar. Myndin, sem Thelma dró upp af föðurnum, er skelfileg, en sýnir einnig að hann var ekki bara djöfull í mannsmynd, heldur persóna sem átti líka góðar hliðar. Saga Thelmu er lýsing á hvernig hún, sem þolandi ofbeldis, gat snúið sér til lífs, birtu og frelsis. Thelma varð fyrir því, að faðir rændi hana og systur hennar bernskunni og fjölskylduna hamingjunni. Þessi pabbi var þjófur. Og þannig er það í mörgum fjölskyldum og mörgum hjónaböndum. Margir makar eru þjófar í samskiptum. Býrðu við stuld í þínum tengslum? Viltu að stolið sé af þér?

Að segja sögurnar er mikilvægur eflingargjörningur og heilsuátak hversu erfitt sem það nú er fólki. Sævar Þór,  Ásta og Thelma eru hetjur. „Sannleikurinn mun gera yður frjálsa,“ sagði Jesús Kristur. Þau orð eru sönn. Sú speki, er líka skráð í hornsteini Alþingishúss okkar Íslendinga og varðar okkur öll.  

Endurskoðun og framtíðin

Þegar við endurskoðum boðorðið um stuld – og tengjum við fólk en ekki bara fé – opnast ýmsar gáttir. Þú skalt ekki stela. Já, við eigum ekki að stela peningum og við eigum að vernda eignarréttinn. Og ég uppgötvaði, að við ættum helst að hugsa um þetta boð í tengslum við fólk. Allt fólk er dýrmætt, djásn í augum Guðs. Fólk, sem er notað, er rænt og af því stolið. Virðum fólk og stelum engu af lífsgæðum þess, frelsi, tíma og sjálfsvirðingu. Við erum öll jafngild, óendanlega dýrmæt. Jesús mat einstaklinga og eilíft gildi þeirra. Þannig megum við einnig vera. „Þið stelið framtíð okkar“ segir framtíðarfólkið. Nei, við viljum ekki stela. Við viljum lifa með ábyrgð í nánum samskiptum, í samfélagi okkar, í uppeldi, vernd gilda og náttúru. Og andi boðorðanna er að elska Guð, virða fólk og vernda líf.

Hallgrímskirkja 24. mars 2019. 

Lexía: 2. Mós 20.2-3,15

Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig. … Þú skalt ekki stela.

Pistill: Róm. 13.8-10

Skuldið ekki neinum neitt nema það eitt að elska hvert annað því að sá sem elskar náunga sinn hefur uppfyllt lögmálið. Boðorðin: „Þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki girnast,“ og hvert annað boðorð er innifalið í þessari grein: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Kærleikurinn gerir ekki náunganum mein. Þess vegna er kærleikurinn uppfylling lögmálsins.

Guðspjall: Matt. 6.19-24

Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela. Safnið yður heldur fjársjóðum á himni þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela. Því hvar sem fjársjóður þinn er þar mun og hjarta þitt vera. Augað er lampi líkamans. Sé auga þitt heilt mun allur líkami þinn bjartur. En sé auga þitt spillt verður allur líkami þinn dimmur. Ef nú ljósið í þér er myrkur, hvílíkt verður þá myrkrið. Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.