Greinasafn fyrir merki: vantrú

Jerúsalem – kvikmynd Billie August

Kvikmyndin Jerúsalem byggir á samnefndri sögu sænsku skáldkonunnar Selmu Lagerlöf sem kom út í tveim bindum á árunum 1901-1902. Sagan fjallar um raunverulega atburði og segir frá því þegar hópur bændafólks frá Nås í sænsku Dölunum fluttist til Jerúsalem árið 1896 til að mæta Kristi þegar hann kæmi aftur. Lítil frétt í blaði um þennan atburð vakti áhuga Selmu Lagerlöf og hún fór bæði til Nås og Jerúsalem til að kynna sér aðstæður og leita svara við því hvað fékk bændur úr Dölunum til að rífa sig upp með rótum og halda á vit óvissunnar suður í Palestínu..

Söguþráður

Í upphafi myndar Billie August er dregin upp mynd af fábrotnu bændasamfélagi, sem tekst á við erfiða lífsbaráttuna. Undir niðri ríkir upplausn því þetta litla samfélag vantar bæði andlegan og veraldlegan leiðtoga eftir að foringi þess fórst við að bjarga börnum á fleka á beljandi fljóti. Dag einn kemur Hellgum, sænsk-amerískur predikari til sögunnar, leikinn af þeim magnaða Sven Bertil Taube. Með mælsku sinni hefur hann mikil áhrif á einstaklinga sem og bændasamfélagið í heild og fær að lokum hóp fólks til að selja eigur sínar og fylgja sér til Jeúsalem í von um frelsun þegar Jesús kemur aftur.

Inn í myndina fléttast ástarsaga tveggja aðalpersónanna, Ingmars, sem leikinn er af Ulf Friberg, og Gertrud, sem Maria Bonnevie leikur. Þau alast upp saman eftir að Ingmar hefur misst foreldra sína. Þegar ástin kviknar milli þeirra ákeður Ingmar að fara í skógarhöggsvinnu til að vinna sér inn peninga svo hann geti tekið við ættaróðali fjölskyldunnar og orðið leiðtogi í sveitarsamfélaginu líkt og faðir hans hafði verið og sveitungar hans reiknuðu með. Á meðan bíður Gertrud þolinmóð. Framtíðin virðist björt. Allt fer þó á annan veg. Karina eldri systir Ingmars, sem leikin er af eiginkonu leikstjórans Pernillu August, hefur búið á ættaróðalinu allt frá dauða föður þeirra. Hún verður fyrir sterkum áhrifum af predikun Hellgum og ákveður að selja óðalið og halda til Jerúsalem með fjölskyldu sína. Kaupandinn er bóndinn Persson. Í örvæntingu sinni svíkur Ingmar Gertrud og ákveður að giftast Barbro, dóttur Perssons (Lena Endre), til að bjarga óðalinu. Niðurbrotin er Gertrud auðveld bráð fyrir Hellgum og slæst í för með honum til Jerúsalem eftir að hafa séð Jesú í sýn.

Sveitarsamfélagið í Nås er nú enn sundraðra en fyrr og pílagrímanna í Jerúsalem beið allt annað en þeir höfðu vænst. Umhverfið var framandi og við tók erfið barátta með vonbrigðum og efasemdum. Barbro gerir sér hins vegar smám saman grein fyrir því að hún hafði farið illa með annað fólk og brotið á þeim. Hún vill reyna að bæta fyrir það og hvetur Ingmar til að fara til Jerúsalem og sækja Gertrud.

Trúarstef

Bille August sagði að kvikmyndin Jerúsalem væri í hans huga ekki trúarleg mynd heldur ljóðræn ástarsaga. Þó að rétt sé að myndin sýni ástarsögu þá fjallar hún ekki síður um mátt trúar og vonar í lífi fólks. Hún vekur einnig upp ýmsar spurningar um heimsslitavæntingar, endurkomu Krists, eðli guðsríkisins ásamt því að fjalla um mikilvæg guðfræðileg stef, s.s. synd og frelsun, ósætti og sátt, glötun og eilíft líf. Myndin segir frá venjulegu fólki, aðstæðum þess, samskiptum og örlögum. Hún dregur fram meginstef manlegrar tilveru og fjallar um trú og efa, kærleika og svik, von og örvæntingu, sekt og fyrirgefningu. Styrkur myndarinnar er m.a. sá að hún lýsir því hvernig þessir þættir koma fyrir í lífi og samskiptum fólks án þess að fella dóma um verk þess. Áhorfendur geta því dregið lærdóm af reynslu og viðbrögðum ólíkra einstaklinga.

Sálfræðileg efnistök myndarinnar eru ekki síður sannfærandi. Góður leikur dregur þá hlið vel fram. Sálarástand og tilfinningaglíma aðalpersónanna skilar sér vel. Þunglyndi Gertrud eftir að henni var hafnað er þrúgandi. Ólæknuð sár Karin skína í gegn þrátt fyrir að hún reyni að halda yfirborðinu sléttu og felldu. Barbro þarf að horfast í augu við sjálfa sig, gjörðir sínar og þjáningu og togstreitu Ingmars og það kostar innri átök. Hellgum nær sálrænum tökum á ráðvilltum einstaklingum með sefjunarmætti sínum. Þótt úrvinnslan sé sálfræðileg er hún einnig trúarleg og kemur m.a. fram í því þegar Jesús birtist Gertrud við vatnið og Karin virðist loks finna frið í Jerúsalem þótt hún hafi misst allt sem henni var kærast. Viðbrögð Ingmars þegar þjáningu hans er létt og Barbro hafði fætt honum son sýna hið sama.

Myndin fjallar þó ekki bara um sálarástand og samskipti fólks og afleiðingar þeirra heldur sýnir hún jafnframt hvernig ytri aðstæður þess hafa áhrif á líf þess og örlög og hve auðvelt það getur verið fyrir sterka persónuleika að misnota trú og traust fólks. Undir niðri býr þó spurningin sem Ingmar spyr systur sína þegar hann er kominn til Jerúsalem: Hver er það sem stjórnar lífi hvers? Það er áhugaverð tilvistarspurning sem á bæði við efni kvikmyndarinnar Jerúsalem og líf okkar flestra.

Í mynd Augusts er mikill fjöldi fólks sem áhorfandinn sér en kynnist ekki nógu vel til að geta skilið orð þess og athafnir. Nokkrar persónur eru þó eftirminnilegar og setja sterkan svip á myndina enda leikur flestra leikaranna afbragðsgóður. Hellgum, predikarinn gustmikli, er sterk persóna enda nær hann tökum á mörgum í sveitinni og fær fólkið með sér í Jerúsalemreisuna. Einhverjum kann að finnast að verið sé að gera lítið úr eða hæðast að vakningapredikurum og guðlegri köllun. Sú er þó ekki raunin.

Hellgum er fyrst og fremst dæmi um mælskan einstakling sem kann að notfæra sér aðstæður. Um leið er hann verkfæri í annars höndum. Honum tekst að gefa ráðvilltu sveitarsamfélagi ramma til að túlka veruleika sinn út frá. Sá rammi er hins vegar allur málaður með svörtum og hvítum litum. Ábyrgð sterks leiðtoga er mikil. Hann getur fallið í þá gryfju að hlutgera syndina í aukaatriðum og jafnvel leitast við að þurrka út persónueinkenni áhangenda sinna í stað þess að leiða fólk fram til þroskðarar trúar sem tekur Guð alvarlega mitt á sviði hins daglega lífs.

Ingmar er aumkunarverð persóna. Á honum hvílir sú mikla ábyrgð að feta í fótspor föður síns og verða leiðtogi bændanna í héraðinu. Aðstæður haga því þannig til að hann þarf að gera upp á milli ábyrgðarinnar gagnvart sveitarsamfélaginu og eigin tilfinninga til Gertrud. Það uppgjör hefur mikil áhrif bæði á líf hans sjálfs og fjölda annarra. Greinilegt er að Ingmar vill bæði gera það sem hann telur rétt en líka forðast að særa nokkurn. Að ná hvoru tveggja í senn er ekki einfalt mál fyrir hann fremur en aðra sem lenda í svipuðum aðstæðum. Að axla ábyrgð á eigin mennsku og manndómi er aldrei einfalt og sjaldnast augljóst í hverju skylduræni og manndómur felst.

Þrjár konur setja sterkan svip á myndina. Þar fer Gertrud fremst í flokki. Leikur Mariu Bonnevie er áhrifamikill. Með svipbrigðum og látæði sýnir hún vel sálarástand Gertrud og þær tilfinningar sem búa undir yfirborðinu, bæði vonir hennar og trúarvissu og ekki síður sársaukann, vonbrigðin og þunglyndið sem fylgja höfnuninni. Trúarleg einlægni blandast síðan sjúklegu ástandi og hún virðist ekki alltaf greina á milli raunveruleika og draums. Athyglisvert er að bera saman mynd hennar við upphaf myndarinnar og lok. Hún er einlæg, saklaus og lífsglöð í upphafi en við endi hefur erfið reynslan sett mark sitt á hana og sakleysið og lífsgleiðin virðast horfin.

Barbro er einnig áhugaverð persóna. Henni hafði hlotnast það sem hún hélt að væri ómögulegt, þ.e. óðalið og Ingmar, en sér jafnframt hverju hún hefur komið til leiðar með því að fótumtroða tilfinningar hans og Gertrud. Líf hennar er því óbærilegt, ást hennar til Ingimars fjötrar og henni finnst hún vera ofurseld ættarbölvun. Hún skilur þó að lokum mikilvægi þess að gera upp og vill jafnframt gera gott á ný það sem hún hafði eyðilagt, jafnvel þótt það kosti hana allt sem henni hafði hlotnast. Barbro er þannig margbrotin og sérstæð persóna sem dregur lærdóm af gjörðum sínum. Innst inni þráir hún sátt við sig og umhverfi sitt. Þegar þeirri sátt er náð er hún laus úr fjötrum ótta og bölvunar.

Þriðja konan er Karin, eldri systir Ingmars. Hún hefur þurft að þola marga raun og virðist líða vegna óuppgerðs sársauka og sorgar og óheilinda við bróður sinn. Hún þráir frið og tekur því fegins hendi á móti boðskap Hellgum og lítur á hann sem bjargvætt í lífi sínu. Hún væntir lausnar í Jerúsalem en verður fyrir enn meiri raunum og vonbrigðum þegar hún missir það sem henni er kærast, dóttur og eiginmann. Var vonin um frelsun og frið í Jerúsalem þá bara blekking? Í Karin endurspeglast þrá fólks eftir að finna vilja Guðs sem oft reynist svo torskilinn, þrá eftir ást Guðs sem virðist svo fjarri í hörðum heimi, þrá eftir að finna þá „Jerúsalem“ sem býr yfir lausn sem gefur frið við Guð og menn.

Myndin Jerúsalem lyftir upp og spyr fjölda spurninga um líf og samskipti fólks á öllum tímum, trú þess, von og kærleika, örlög þess og hinstu rök tilverunnar. Undir lok myndarinnar er lítið barn skírt. Í þeim gjörningi er svar við mörgum spurningum myndarinnar. Ósjálfbjarga menn í hörðum heimi finna sátt og frið við Guð, sjálfa sig og sín á milli vegna elsku Guðs, hverjar svo sem ytri aðstæður þeirra og örlög eru.

Leikstjóri: Bille August

Handritshöfundur: Bille August eftir samnefndri skáldsögu Selmu Lagerlöf.

Helstu leikarar: Maria Bonnevie, Ulf Friberg, Pernilla August,  Lena Endre,  Sven-Bertil Taube, Reine Brynolfsson, Jan Mybrand, Max von Sydow, Olympia Dukakis, Björn Granath, Viveka Seldahl, Sven Wollter, Johan Rabaeus, Mona Malm, André Beinö

Framleiðsluland: Svíþjóð

Framleiðsluár: 1996

Lengd: Kvikmynd: 168 mín. Sjónvarpssería: 220 mín.

Trúartextar:1M 2, Sl 52:2, Sl 139:9, Mt 7:14, Mt 10:37, Mt 18:3, Mt 28:18-20, Mk 13:13, Jh 10:12, Jh 20:29, Rm 6:23, Opb 19:7-8, Opb 21:10, Opb 22:17

Hliðstæður: 1M 2, Mk 6:48, Opb 21-22

Persónur í trúarritum: Jesús Kristur, Jóhannes skírari, Jóhannes postuli, Pontíus Pílatus

Guðfræðistef:

brúður Krists, bölvun, Eden, efi, eftirfylgd, eilíft líf, eldur, endurkoma Krists, engill, falsspámaður, freistingar, frelsun, fyrirgefning, glötun, heilagur andi, heimsslit, helvíti, hin nýja Jerúsalem, hreinleiki, iðrun, kraftaverk, kross Krists, kærleikur, köllun Guðs, lífsins vatn, náð, náðargjöf, opinberun, paradís, refsing Guðs, réttlæti, rödd Guðs, satan, sekt, sköpun, synd, trú, útvalning, vantrú, vegir Guðs, yfirbót, þrenningin

Siðfræðistef: Andleg kúgun, félagslegur þrýstingur, fórn fyrir aðra, flokkadrættir, fyrirgefning, heimshöfnun, náungakærleikur, ofbeldi, óvinátta, réttlæti, ritskoðun, skilnaður, útskúfun

Trúarbrögð: gyðingdómur, helgunarfjölskyldan, islam, kristni, lútherska kirkjan

Helgistaðir: kirkja, moska, trúboðshús, vígð mold

Trúarleg tákn: harpa, kross, skeifa

Trúarembætti: prestur, predikari, spákona

Trúarlegt atferli: bæn, fyrirbæn, pílagrímsför, píslarganga, sálmasöngur, skírn, trúarsamkoma

Trúarleg reynsla: afturhvarf, köllun, opinberun, sýn

Upprunalega skrifað fyrir kvikmyndavefinn www.dec.is

Kennimyndin að ofan er af Grátmúrnum í Jerúsalem. 

Af hverju er Guð ekki í tísku?

Ég talaði við vinkonu mína í vikunni. Hún sagði mér að hún hefði farið að bera kross um hálsinn og hefði fengið harkaleg viðbrögð við þessum krossburði. Nánast verið skömmuð, eins og hún hefði gert eitthvað rangt! Viðbrögðin hefðu verið slík að hún hefði farið yfir mörk vina sinna. Kross hennar vekti álíka viðbrögð eins og hún væri múslimakona með búrku! Kross, sem tákn, allt í einu óleyfilegur? Er trú jaðarsett? Er fólk sem staðsetur sig innan kristinnar trúarhefðar allt í einu orðið geislavirkt – menningarlega hættulegt? Trú sem nútíma líkþrá? Eru syndir klerka og trúmanna slíkar að vinsældir Guðs hafi hrapað og fólk, sem merkir sig sama trúartákni og er í þjóðfánanum sé jaðarsett? Vinkona mín brást við áreitninni með því setja á sig annan kross í viðbót. Hún ber því tvo krossa!

Merkingarferð í opnu rými

Eitt er trú einstaklings og annað opinber staður. Hallgrímskirkja er ekki á jaðrinum heldur í miðju borgarlífs og líka logó Reykjavíkur og túrisma. Kirkjuturninn er táknmynd um uppstefnu alls sem íslenskt er. Á hverjum degi kemur fjöldi fólks í kirkjuna, raunar þúsundir. Þetta fólk kemur ekki aðeins af því kirkjan er ferðamannastaður, ljóshús eða hreinn helgidómur með bjartan hljóm. Það kemur ekki aðeins af því að hér eru listaverk, gott orgel og fínn útsýnisstaður. Flestir koma vegna þess að þetta fólk er á ferðalagi – á lífsleið hamingjunnar. Og slíkt ferðalag varðar ekki aðeins skemmtilegar upplifanir eða fallegt umhverfi, heldur það sem rímar við djúpa þrá hið innra. Þetta sem trúmenn hafa kallað hið heilaga og aðrir merkingu eða tilgang lífsins.

Á hverjum degi sest fólk niður í kirkjunni til að njóta kyrrðarstundar. Margir íhuga og biðja, flestir hugsa um líf sitt og sinna. Margir fara svo og kveikja á kerti, koma fyrir á ljósberanum og biðja bæn. Hallgrímskirkja er eitt af tíu mikilvægustu íhugunarhúsum heimsins er mat the Guardian. Hér er gott samband – í allar áttir, til hliða, inn á við og út á við. Og við trúmenn vitum að hér er ekki aðeins gott samband við innri mann heldur frábært samband við Guð. Þetta er heilagur staður.  

Hvað er heilagt?

Hvaða hugmyndir eða skoðanir sem við höfum um Guð og trúarefni eigum við öll löngun til þess sem er heilt, friðsamlegt, viturlegt og lífgefandi. Það er þráin eftir hinu heilaga. Þar hittir Guð okkur.

Ég hef mætur á rithöfundinum Karen Armstrong sem hefur skrifað af viti og þekkingu um trúarbrögð, vanda þeirra og vegsemd. Í bókinni Jerusalem, one city, three faiths ræðir hún m.a. um að meðal okkar, Vesturlandabúa, sé Guð kominn úr tísku. Af hverju? Jú, í viðbót við makræðið og efnishyggjuna hafi of margir trúmenn verið slæmir fulltrúar Guðs, notað Guð til að réttlæta eigin geðþótta, eigin vilja, þarfir, pólitík og hernað. Reynt að hagnýta sér Guð. Trúmenn hafi komið óorði á Guð. Þeirra vegna hafi Guð hrapað á vinsældalistanum. Og við getum bætt við – vegna frétta liðinna vikna – að prestar og áhrifamenn í menningarlífi – hafa gerst sekir um skelfilega glæpi, m.a. ofbeldi gegn börnum. Þeir hafa komið óorði á Guð, átrúnað og trúfélög. En þrátt fyrir að spilltir prestar séu til, illskan teygi sig víða og Guð fari úr tísku heldur manneskjan þó áfram að leita að hinu heilaga.

Armstrong bendir á, að allir menn leiti að hinu stórkostlega í lífinu. Margir reyna eitthvað einstakt í náttúrunni, aðrir eigi sínar stærstu stundir í faðmi ástvina. Listin er mörgum uppspretta unaðar. Allir leita að samhengi, sátt, að því sem sefar dýpstu þrá hjartans og veitir samhengi fyrir líf, þerrar sorgartárin og veitir tilgang. Þetta er það sem margir kalla hið heilaga.

Og hvernig sem trúfélögum reiðir af og Guð fellur á vinsældakvarðanum geta menn aldrei slitið þörfina fyrir heilagleikann úr sálinni, eytt strikamerki hins heilaga úr anda sínum. Ef myndin af Guði hefur orðið smærri í samtímanum vegna mannlegrar spillingar brýtur mannsandinn þó ávallt af sér fjötra og leitar hins stórkostlega. Við leitum alltaf út fyrir mörk og skorður. Við þolum ekki fangelsi hins lágkúrulega, segir Armstrong. Og þetta heillar guðfræðinginn í mér: Hið heilaga er heillandi. Við megum gjarnan spyrja okkur gagnrýnið: Er Guðsmynd okkar of smá? Eru kreddur okkar til hindrunar? Erum við of lítillar trúar? Viljum við frekar hafa Guð í vasanum, en að opna fyrir stórkostlegum Guði, sem gæti ógnað eða sprengt heimatilbúið öryggi okkar og smáþarfir?

Guð á ferð

Efasemdarmenn aldanna hafa haft nokkuð til síns máls. Við náum aldrei að galopna sálar- og lífsgáttir okkar nægilega mikið gagnvart veru og merkingu Guðs. Mál okkar megnar ekki að lýsa Guði nema með líkingamáli sem stækkar skynjun, en nær þó aldrei að lýsa fullkomlega hinu guðlega. Engin kirkja, kirkjudeild eða átrúnaður megnar að umfaðma algerlega hið heilaga. Hið heilaga er alltaf meira, hið heilaga er alltaf í plús. Kannski er erindi okkar trúmanna hvað brýnast að fara að baki Guði – þ.e. okkar eigin túlkunum og til hins heilaga? Það merkir að fara að baki einföldum hugmyndum og kenningum og opna – svo hinn heilagi fái að snerta okkur í líkþrá huga eða líkama okkar. Og Heilagleiki Guðs færir sig um set þegar trúmenn bregðast og spilling læðist inn í huga fólks og musteri. Guð er ekki fasteign kirkjunnar – heldur Guð á ferð, lifandi Guð.

Og nú ert þú á ferð? Hvað er þér heilagt? Og hver er vandi þinn? Meistari, miskunna þú oss kölluðu hin sjúku í texta dagsins. Þegar þú biður um hjálp, leitar að merkingu, opnar og kallar í djúpum sálar þinnar ertu á heilögum stað, í heilögum sporum. Krossar eða ekki krossar, kirkjur eða ekki kirkjur, gamlar hugmyndir eða nýjar – Guð er þar sem fólk er, púls sköpunarverksins. Heilagleiki Guðs hríslast um veröldina, guðlaus maður nær líka sambandi. Vinsældafall Guðs hefur ekkert með Guð að gera heldur fremur flekkun manna. Guð er ekki fortíð og stofnun heldur framtíð og líf. Það erum við, sem köllum á hjálp en ekki Guð. Guð er ekki háður mönnum heldur menn Guði. Erindi Jesú varðar mannelsku, að Guð elskar, styður, hjálpar. Guð er alltaf lífsmegin – nærri okkur öllum.

Hugleiðing í Hallgrímskirkju 2. sept. 2018. Norrænar Maríusystur í kirkju ásamt söfnuði.