Greinasafn fyrir merki: kraftaverk

Jerúsalem – kvikmynd Billie August

Kvikmyndin Jerúsalem byggir á samnefndri sögu sænsku skáldkonunnar Selmu Lagerlöf sem kom út í tveim bindum á árunum 1901-1902. Sagan fjallar um raunverulega atburði og segir frá því þegar hópur bændafólks frá Nås í sænsku Dölunum fluttist til Jerúsalem árið 1896 til að mæta Kristi þegar hann kæmi aftur. Lítil frétt í blaði um þennan atburð vakti áhuga Selmu Lagerlöf og hún fór bæði til Nås og Jerúsalem til að kynna sér aðstæður og leita svara við því hvað fékk bændur úr Dölunum til að rífa sig upp með rótum og halda á vit óvissunnar suður í Palestínu..

Söguþráður

Í upphafi myndar Billie August er dregin upp mynd af fábrotnu bændasamfélagi, sem tekst á við erfiða lífsbaráttuna. Undir niðri ríkir upplausn því þetta litla samfélag vantar bæði andlegan og veraldlegan leiðtoga eftir að foringi þess fórst við að bjarga börnum á fleka á beljandi fljóti. Dag einn kemur Hellgum, sænsk-amerískur predikari til sögunnar, leikinn af þeim magnaða Sven Bertil Taube. Með mælsku sinni hefur hann mikil áhrif á einstaklinga sem og bændasamfélagið í heild og fær að lokum hóp fólks til að selja eigur sínar og fylgja sér til Jeúsalem í von um frelsun þegar Jesús kemur aftur.

Inn í myndina fléttast ástarsaga tveggja aðalpersónanna, Ingmars, sem leikinn er af Ulf Friberg, og Gertrud, sem Maria Bonnevie leikur. Þau alast upp saman eftir að Ingmar hefur misst foreldra sína. Þegar ástin kviknar milli þeirra ákeður Ingmar að fara í skógarhöggsvinnu til að vinna sér inn peninga svo hann geti tekið við ættaróðali fjölskyldunnar og orðið leiðtogi í sveitarsamfélaginu líkt og faðir hans hafði verið og sveitungar hans reiknuðu með. Á meðan bíður Gertrud þolinmóð. Framtíðin virðist björt. Allt fer þó á annan veg. Karina eldri systir Ingmars, sem leikin er af eiginkonu leikstjórans Pernillu August, hefur búið á ættaróðalinu allt frá dauða föður þeirra. Hún verður fyrir sterkum áhrifum af predikun Hellgum og ákveður að selja óðalið og halda til Jerúsalem með fjölskyldu sína. Kaupandinn er bóndinn Persson. Í örvæntingu sinni svíkur Ingmar Gertrud og ákveður að giftast Barbro, dóttur Perssons (Lena Endre), til að bjarga óðalinu. Niðurbrotin er Gertrud auðveld bráð fyrir Hellgum og slæst í för með honum til Jerúsalem eftir að hafa séð Jesú í sýn.

Sveitarsamfélagið í Nås er nú enn sundraðra en fyrr og pílagrímanna í Jerúsalem beið allt annað en þeir höfðu vænst. Umhverfið var framandi og við tók erfið barátta með vonbrigðum og efasemdum. Barbro gerir sér hins vegar smám saman grein fyrir því að hún hafði farið illa með annað fólk og brotið á þeim. Hún vill reyna að bæta fyrir það og hvetur Ingmar til að fara til Jerúsalem og sækja Gertrud.

Trúarstef

Bille August sagði að kvikmyndin Jerúsalem væri í hans huga ekki trúarleg mynd heldur ljóðræn ástarsaga. Þó að rétt sé að myndin sýni ástarsögu þá fjallar hún ekki síður um mátt trúar og vonar í lífi fólks. Hún vekur einnig upp ýmsar spurningar um heimsslitavæntingar, endurkomu Krists, eðli guðsríkisins ásamt því að fjalla um mikilvæg guðfræðileg stef, s.s. synd og frelsun, ósætti og sátt, glötun og eilíft líf. Myndin segir frá venjulegu fólki, aðstæðum þess, samskiptum og örlögum. Hún dregur fram meginstef manlegrar tilveru og fjallar um trú og efa, kærleika og svik, von og örvæntingu, sekt og fyrirgefningu. Styrkur myndarinnar er m.a. sá að hún lýsir því hvernig þessir þættir koma fyrir í lífi og samskiptum fólks án þess að fella dóma um verk þess. Áhorfendur geta því dregið lærdóm af reynslu og viðbrögðum ólíkra einstaklinga.

Sálfræðileg efnistök myndarinnar eru ekki síður sannfærandi. Góður leikur dregur þá hlið vel fram. Sálarástand og tilfinningaglíma aðalpersónanna skilar sér vel. Þunglyndi Gertrud eftir að henni var hafnað er þrúgandi. Ólæknuð sár Karin skína í gegn þrátt fyrir að hún reyni að halda yfirborðinu sléttu og felldu. Barbro þarf að horfast í augu við sjálfa sig, gjörðir sínar og þjáningu og togstreitu Ingmars og það kostar innri átök. Hellgum nær sálrænum tökum á ráðvilltum einstaklingum með sefjunarmætti sínum. Þótt úrvinnslan sé sálfræðileg er hún einnig trúarleg og kemur m.a. fram í því þegar Jesús birtist Gertrud við vatnið og Karin virðist loks finna frið í Jerúsalem þótt hún hafi misst allt sem henni var kærast. Viðbrögð Ingmars þegar þjáningu hans er létt og Barbro hafði fætt honum son sýna hið sama.

Myndin fjallar þó ekki bara um sálarástand og samskipti fólks og afleiðingar þeirra heldur sýnir hún jafnframt hvernig ytri aðstæður þess hafa áhrif á líf þess og örlög og hve auðvelt það getur verið fyrir sterka persónuleika að misnota trú og traust fólks. Undir niðri býr þó spurningin sem Ingmar spyr systur sína þegar hann er kominn til Jerúsalem: Hver er það sem stjórnar lífi hvers? Það er áhugaverð tilvistarspurning sem á bæði við efni kvikmyndarinnar Jerúsalem og líf okkar flestra.

Í mynd Augusts er mikill fjöldi fólks sem áhorfandinn sér en kynnist ekki nógu vel til að geta skilið orð þess og athafnir. Nokkrar persónur eru þó eftirminnilegar og setja sterkan svip á myndina enda leikur flestra leikaranna afbragðsgóður. Hellgum, predikarinn gustmikli, er sterk persóna enda nær hann tökum á mörgum í sveitinni og fær fólkið með sér í Jerúsalemreisuna. Einhverjum kann að finnast að verið sé að gera lítið úr eða hæðast að vakningapredikurum og guðlegri köllun. Sú er þó ekki raunin.

Hellgum er fyrst og fremst dæmi um mælskan einstakling sem kann að notfæra sér aðstæður. Um leið er hann verkfæri í annars höndum. Honum tekst að gefa ráðvilltu sveitarsamfélagi ramma til að túlka veruleika sinn út frá. Sá rammi er hins vegar allur málaður með svörtum og hvítum litum. Ábyrgð sterks leiðtoga er mikil. Hann getur fallið í þá gryfju að hlutgera syndina í aukaatriðum og jafnvel leitast við að þurrka út persónueinkenni áhangenda sinna í stað þess að leiða fólk fram til þroskðarar trúar sem tekur Guð alvarlega mitt á sviði hins daglega lífs.

Ingmar er aumkunarverð persóna. Á honum hvílir sú mikla ábyrgð að feta í fótspor föður síns og verða leiðtogi bændanna í héraðinu. Aðstæður haga því þannig til að hann þarf að gera upp á milli ábyrgðarinnar gagnvart sveitarsamfélaginu og eigin tilfinninga til Gertrud. Það uppgjör hefur mikil áhrif bæði á líf hans sjálfs og fjölda annarra. Greinilegt er að Ingmar vill bæði gera það sem hann telur rétt en líka forðast að særa nokkurn. Að ná hvoru tveggja í senn er ekki einfalt mál fyrir hann fremur en aðra sem lenda í svipuðum aðstæðum. Að axla ábyrgð á eigin mennsku og manndómi er aldrei einfalt og sjaldnast augljóst í hverju skylduræni og manndómur felst.

Þrjár konur setja sterkan svip á myndina. Þar fer Gertrud fremst í flokki. Leikur Mariu Bonnevie er áhrifamikill. Með svipbrigðum og látæði sýnir hún vel sálarástand Gertrud og þær tilfinningar sem búa undir yfirborðinu, bæði vonir hennar og trúarvissu og ekki síður sársaukann, vonbrigðin og þunglyndið sem fylgja höfnuninni. Trúarleg einlægni blandast síðan sjúklegu ástandi og hún virðist ekki alltaf greina á milli raunveruleika og draums. Athyglisvert er að bera saman mynd hennar við upphaf myndarinnar og lok. Hún er einlæg, saklaus og lífsglöð í upphafi en við endi hefur erfið reynslan sett mark sitt á hana og sakleysið og lífsgleiðin virðast horfin.

Barbro er einnig áhugaverð persóna. Henni hafði hlotnast það sem hún hélt að væri ómögulegt, þ.e. óðalið og Ingmar, en sér jafnframt hverju hún hefur komið til leiðar með því að fótumtroða tilfinningar hans og Gertrud. Líf hennar er því óbærilegt, ást hennar til Ingimars fjötrar og henni finnst hún vera ofurseld ættarbölvun. Hún skilur þó að lokum mikilvægi þess að gera upp og vill jafnframt gera gott á ný það sem hún hafði eyðilagt, jafnvel þótt það kosti hana allt sem henni hafði hlotnast. Barbro er þannig margbrotin og sérstæð persóna sem dregur lærdóm af gjörðum sínum. Innst inni þráir hún sátt við sig og umhverfi sitt. Þegar þeirri sátt er náð er hún laus úr fjötrum ótta og bölvunar.

Þriðja konan er Karin, eldri systir Ingmars. Hún hefur þurft að þola marga raun og virðist líða vegna óuppgerðs sársauka og sorgar og óheilinda við bróður sinn. Hún þráir frið og tekur því fegins hendi á móti boðskap Hellgum og lítur á hann sem bjargvætt í lífi sínu. Hún væntir lausnar í Jerúsalem en verður fyrir enn meiri raunum og vonbrigðum þegar hún missir það sem henni er kærast, dóttur og eiginmann. Var vonin um frelsun og frið í Jerúsalem þá bara blekking? Í Karin endurspeglast þrá fólks eftir að finna vilja Guðs sem oft reynist svo torskilinn, þrá eftir ást Guðs sem virðist svo fjarri í hörðum heimi, þrá eftir að finna þá „Jerúsalem“ sem býr yfir lausn sem gefur frið við Guð og menn.

Myndin Jerúsalem lyftir upp og spyr fjölda spurninga um líf og samskipti fólks á öllum tímum, trú þess, von og kærleika, örlög þess og hinstu rök tilverunnar. Undir lok myndarinnar er lítið barn skírt. Í þeim gjörningi er svar við mörgum spurningum myndarinnar. Ósjálfbjarga menn í hörðum heimi finna sátt og frið við Guð, sjálfa sig og sín á milli vegna elsku Guðs, hverjar svo sem ytri aðstæður þeirra og örlög eru.

Leikstjóri: Bille August

Handritshöfundur: Bille August eftir samnefndri skáldsögu Selmu Lagerlöf.

Helstu leikarar: Maria Bonnevie, Ulf Friberg, Pernilla August,  Lena Endre,  Sven-Bertil Taube, Reine Brynolfsson, Jan Mybrand, Max von Sydow, Olympia Dukakis, Björn Granath, Viveka Seldahl, Sven Wollter, Johan Rabaeus, Mona Malm, André Beinö

Framleiðsluland: Svíþjóð

Framleiðsluár: 1996

Lengd: Kvikmynd: 168 mín. Sjónvarpssería: 220 mín.

Trúartextar:1M 2, Sl 52:2, Sl 139:9, Mt 7:14, Mt 10:37, Mt 18:3, Mt 28:18-20, Mk 13:13, Jh 10:12, Jh 20:29, Rm 6:23, Opb 19:7-8, Opb 21:10, Opb 22:17

Hliðstæður: 1M 2, Mk 6:48, Opb 21-22

Persónur í trúarritum: Jesús Kristur, Jóhannes skírari, Jóhannes postuli, Pontíus Pílatus

Guðfræðistef:

brúður Krists, bölvun, Eden, efi, eftirfylgd, eilíft líf, eldur, endurkoma Krists, engill, falsspámaður, freistingar, frelsun, fyrirgefning, glötun, heilagur andi, heimsslit, helvíti, hin nýja Jerúsalem, hreinleiki, iðrun, kraftaverk, kross Krists, kærleikur, köllun Guðs, lífsins vatn, náð, náðargjöf, opinberun, paradís, refsing Guðs, réttlæti, rödd Guðs, satan, sekt, sköpun, synd, trú, útvalning, vantrú, vegir Guðs, yfirbót, þrenningin

Siðfræðistef: Andleg kúgun, félagslegur þrýstingur, fórn fyrir aðra, flokkadrættir, fyrirgefning, heimshöfnun, náungakærleikur, ofbeldi, óvinátta, réttlæti, ritskoðun, skilnaður, útskúfun

Trúarbrögð: gyðingdómur, helgunarfjölskyldan, islam, kristni, lútherska kirkjan

Helgistaðir: kirkja, moska, trúboðshús, vígð mold

Trúarleg tákn: harpa, kross, skeifa

Trúarembætti: prestur, predikari, spákona

Trúarlegt atferli: bæn, fyrirbæn, pílagrímsför, píslarganga, sálmasöngur, skírn, trúarsamkoma

Trúarleg reynsla: afturhvarf, köllun, opinberun, sýn

Upprunalega skrifað fyrir kvikmyndavefinn www.dec.is

Kennimyndin að ofan er af Grátmúrnum í Jerúsalem. 

Vinátta

Uppástand RÚV þessa dagana er vinátta. Á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna 2022 var þessi pistill minn fluttur á rás 1 í hádeginu, skömmu fyrir fréttir: 

Því stundum verður mönnum á.
Styrka hönd þeir þurfa þá,
þegar lífið, allt í einu – sýnist einskisvert.

Þetta hefur verið sungið á mörgum böllum. Oft hefur allur hópurinn á dansgólfinu gefið í þegar kemur að niðurlaginu um vináttuna:

Gott er að geta talað við – einhvern sem að skilur þig.
Traustur vinur – getur gert – kraftaverk.

Er það svo? Hverjir eru traustir vinir? Gera þeir kraftaverk? Og hvað er að vera vinur? Bandarískur fræðimaður hélt fram að fjórðungur Bandaríkjamanna ættu enga vini – bara kunningja, ættingja og samstarfsfélaga. Hvað um okkur? Eigum við bara kunningja eða líka vini? Kunningjar geta skemmt sér saman og talað margt, en þó ekki um viðkvæmu málin. Það gera vinir hins vegar. Kunningjar eiga sér leikreglur um mörk samskipta, en vinir tala á grundvelli trausts og trúnaðar. Kunningjar fara að mörkum hins óþægilega, en vinir þora að fara lengra vegna gagnkvæms trausts, umhyggju og heiðarleika. Kunningjar geta verið afar skemmtilegir félagar, en vinir efla hvern annan. Og reynsla mín sem prests er að þau hjónabönd dugi best þegar makar eru vinir en ekki bara félagar með aðgang að sama ísskáp og rúmi.

Í teiknimyndinni Tommi og Jenni mála bæinn rauðan er gott lag og grípandi texti sem margir krakkar hafa sungið fyrir framan skjáinn:

Ekkert jafnast á við það,
að eiga góðan vin í stað.
Að standa tveir í hverri raun
eru vináttulaun.

Þó skáldskapurinn sé ekki rismikill skilst boðskapurinn – að það sé mikilvægt vera ekki einn þegar maður á erfitt. Allir þarfnast stuðnings einhvern tíma. Í afþreyingarefni er vinátta fremur tengd börnum en fullorðnum. Þegar vinátta er gúgluð á netinu birtast aðallega myndir af bangsa, teiknimyndir eða myndir af hestum og hundum! Hvað merkir það? Eru bestu vinirnir dýr en mennirnir eru frekar kunningjar og félagar?

Maður, sem ég hef þekkt í áratugi, kom í heimsókn til að tala við mig. Við röbbuðum saman, miðluðum fréttum og fórum víða. En svo kom að því að viðmælandi minn fór inn á svið, sem var hvorki einfalt né auðvelt. Hann var kominn til að gagnrýna mig og benda mér á bresti mína. Hann sagði mér frá göllunum, sem ég gæti bætt. Ég sat á móti þessum manni, sem ég hef svo oft talað við, dáðst að, stundum pirrað mig yfir en líka hrifist af. Ég fann hversu heill hann var og talaði við mig í trúnaði. Svona talar ekki kunningi manns, heldur raunverulegur vinur. Vinur er sá er til vamms segir.

Allir þarfnast vináttu. Djúprit mannkyns tala um vinaþörf. Í Biblíunni er Guði lýst sem vini. Jesús sagði: „Ég kalla ykkur ekki framar þjóna … en ég kalla ykkur vini.” Vinirnir styðja þig í vandræðum tjá Tommi og Jenni. Og „traustir vinir geta gert kraftaverk“ var sungið á móti sól. Fjölskyldubönd hafa verið sterk á Íslandi, en mig grunar að gildi þeirra fari minnkandi og önnur tengsl fólks komi í staðinn og þá ekki síst vinatengsl. Kunningjar eru mikilvægir í lífinu en vinir dýrmæti. Áttu vin? Hverjum treystir þú fyrir stóru málunum? Traustur vinur – getur gert – kraftaverk.

Uppástand, mánudaginn 4. júlí 2022. Hljóðskráin RÚV er að baki þessari smellu.

Barnið í garðinum

Við prestarnir lifum ekki bara frá degi til dags heldur líka frá sunnudegi til sunnudags. Í byrjun vikunnar förum við gjarnan að skoða texta næsta sunnudags, þrennuna sem eru lexía, pistill og guðspjall. Í samráði við organistann veljum við svo sálma næsta helgidags. Þegar við Björn Steinar vorum búnir að ræða saman um sálmana á mánudeginum fór ég að lesa textana. Sumum vinum mínum þykja föstutextarnir leiðinlegir og rökin eru að í þeim væru svo dapurlegar hörmungarsögur! En mér fannst lexía þessa annars sunnudags í föstu úr Orðskviðunum vera heillandi. Þar er talað af skáldlegri visku og elsku um hjartað, munninn og fæturna, sannleikann og framtíðina. Hrífandi texti. Pistillinn er fermingarlegur því þar kemur kórónan við sögu eins og í fermingarávarpinu. Þar er líka áminning til ævigöngunnar um staðfestu og trúmennsku. Góður og gefandi texti. En svo er í guðspjallinu furðusaga af dreng sem var illa leikinn. Hann var mállaus, fékk svo hroðaleg köst að hann skókst til, froðufelldi og afskræmdist. Þegar verst lét hljóp hann líka í vatn og eld og var því í lífshættu. Guðspjallið segir frá því að faðirinn kom með drenginn sinn til Jesú Krists. Það er ljóst að ekki bara Jesús heldur fólkið í kringum hann stundaði lækningar. Þetta var lýðheilsuhreyfing. Lærisveinarnir gegndu heilsueflingarhlutverkum. Þeir voru fengnir til að lækna, voru taldir hafa eitthvað af mætti meistarans. Í þessu tilviki og í samræmi við trú samtíðar áttu þeir að reka út illan anda sem rændi drenginn máli og friði. En þessi illi vágestur hafði náð svo algeru valdi á persónumiðju drengsins og líkama að hann fékk engu ráðið. En lækningin tókst ekki. Drengurinn var eftir jafn illa kominn, skekinn, málllaus en froðufellandi. Miklar tilfinningar flæddu og háværar deilur geisuðu þegar Jesús kom að. En þeir náðu að tala saman – ráðalaus faðirinn sem bæði trúði og efaðist og Jesús sem notaði tækifæri til að kenna en líka færa drenginn til heilsu.

Þetta er undarleg saga og mér þótti hún tyrfin og minna laðandi en lexían og pisitlllinn. Ég renndi yfir söguna nokkrum sinnum á mánudeginum áður en ég brá mér á skíði í Bláfjöllum og hélt svo áfram að íhuga söguna meðan ég puðaði í fjallageimnum. Eftir kvöldmantinn hélt ég svo áfram að lesa nýja bók í handriti sem mér var send fyrir síðustu helgi. Hún heitir Barnið í garðinum og er uppvaxtarsaga Sævars Þórs Jónssonar. Ég lauk lestri bókarinnar um kvöldið og sagan sat í mér.

Svo fór ég að sofa og guðspjallstexti Markúsarguðspjalls og saga Sævars Þórs fléttuðust saman í draumum næturinnar. Ég rumskaði tvisvar um nóttina. Í bæði skiptin voru sögurnar saman í undarlegri draumaflækju í hálfsofandi meðvitund. Þær blönduðust saman sögurnar um mállausa drenginn í guðspjallinu og málhefta drenginn Sævar Þór. Undirmeðvitundin vann sitt fléttustarf og þegar ég vaknaði á þriðjudeginum voru þessar sögur mannabarna tengdar, gamall og nýr tími – tveir drengir í djúpum vanda. Þegar ég vaknaði fannst mér sögurnar speglast, tvö þúsund ára saga guðspjallsins og samtímasaga okkar.

Barnið í garðinum

Fyrst um sögu Sævars Þórs, Barnið í garðinum. Þetta er nístandi frásögn um barn sem farið var illa með, naut ekki elsku og verndar við hæfi. Sagt er frá uppvexti Sævars á alkóhólíseruðu heimili og frá líðan og viðbrögðum hans og systkinanna við drykkju foreldranna. Svo fylgjumst við með Sævari Þór átta ára gömlum sem var narraður inn í dimma byggingu þar sem vondir menn misnotuðu hann. Sagt er frá félagslegri einangrun í kjölfarið, erfiðleikum í skóla, kækjum, líðan og innri baráttu, sjálfsskaða, englum sem björguðu og studdu, vansælli fjölskyldu og hvernig hæfileikaríkur strákur tók ákvörðun um að lifa þrátt fyrir dauðaógnir allt í kring og hið innra einnig. Þetta er uppvaxtarsaga, áfallasaga, fíknisaga, bisnissaga og menntasaga. Þetta er samtímasaga Íslands síðustu fjörutíu ára sögð frá sjónarhóli lemstraðs drengs sem lifði af. Það er ekkert minna en kraftaverk að drengurinn skyldi lifa, menntast og verða að öflugum lögmanni og réttargæslumanni fólks, líka þeirra sem hafa lent í rosalegum aðstæðum og eiga fáa málsvara. Þetta er nútíma kraftaverkasaga. Hvernig eigum við að túlka þessa sögu? Það bíður um stund.

Mállaus til heilsu

Og þá sveiflum við okkur í tímarólunni yfir í guðspjallssöguna. Það er nístandi frásögn af ráðþrota föður og fjölskyldu. Við vitum ekkert um hvort þetta var ofbeldisfjölskylda eða lemstruð af fíkn eða hvort þetta var venjulegt fólk sem varð fyrir því skelfilega áfalli að efnilegi drengurinn veiktist. Við vitum ekki hvort drengurinn varð fyrir misnotkun eða veikindin væru geðræn, félagsleg eða vefræn. Það var eitthvað mikið að. Hann var fárveikur. Allt var því gert til að reyna að afla honum lækninga. Farið var með hann til hóps af mönnum sem vildu vel, reyndu að gera það sem þeir kunnu til að reka út meinið. Túlkun ástvina og hjúkrunarfólks var að drengurinn væri bugaður af einhverju sem ylli málleysi, flogaköstum og sjálfskaða sem gæti dregið hann til dauða. Því reyndi fólkið lækningu en án árangurs. Þá töluðu Jesús og faðirinn saman um vandann. Og faðirinn sagði svo eftirminnilega og tjáði togstreituna: „Ég trúi, hjálpa þú vantrú minni.“

Sjúkdómar og heilsa

Hin almenna skýring fólks á þessum tíma var að þegar engar sýnilegar ástæður fundust fyrir svona einkennum væri líklegast að illur andi hefði flutt inn í viðkomandi. Illir andar voru forðum taldir valda veikindum, fötlun, andlegum kvillum og ófélagslegri hegðun þeirra sem hýstu þá. Þegar slíkt gerðist tæki þessi líkamsleitandi viljavera yfir stjórnstöðvar persónunnar. Andsetning var illvíg yfirtaka. Til að hið veika fólk næði heilsu yrði að reka andann út með særingum. Þessi gerð af sjúkdómsgreiningu og lækningum var útbreidd víða um heim, líka meðal Gyðinga og í nágrannaríkjum þeirra og hefur verið meginviðhorf um víða veröld fram á síðustu aldir.  Kraftaverkasögurnar sem eru sagðar í Biblíunni verður að skilja í þessu forvísindalega samhengi.

Tilgangur og innri rök

Þegar nemendur og vinir Jesú gátu ekki læknað drenginn var komið að meistaranum. Hann talaði, framkvæmdi, fræddi og upplýsti. Sagan endaði vel. Drengurinn fékk mál, faðirinn fylltist trú, lærisveinarnir nutu þjálfunar og fræðslu og mannfjöldin fékk innsýn í eðli guðsríkisins og mátt Jesú. Hið mikilvæga er að virða að áhersla sögunnar er ekki á kraftaverk, furðuverk, töfra eða sértæka þekkingu Jesú. Kraftaverkasögur Biblíunnar á ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega. Það merkir að við – rétt eins og Biblíufólk fyrir tvö þúsund árum – leitum að merkingu viðburða fremur en að glepjast af ásýnd þeirra. Við lesum ekki kraftaverkasögur Biblíunnar eins og jarðskjálftagröf Veðurstofunnar eða fréttafrásagnir stórviðburða í fjölmiðlum. Lækningar og læknisfræði fornaldar er merkilegt viðfangsefni en er þó alls ekki erindi eða mál guðspjallstextans. Frásagnir um lækningar í Biblíunni eru ekki textar í uppflettiriti um sjúkdóma. Biblían kennir ekkert um hvað sé rétt læknisfræði, stjörnufræði, jarðeðlisfræði eða önnur vísindi. Biblían er ástarsaga sem beinir sjónum að ástgjöf Guðs, Jesú Kristi, og segir gleðitíðindin, þetta margnefnda fagnaðarerindi til hvers hann hafi komið, hvaða líftengsl hann skapi og hvaða möguleika hann gefi. Tilgangur guðspjallanna er að tala um að Guð elskar og kemur og hefur jafn mikinn áhuga á froðufellandi málstola dreng og okkur hinum.

Mein í lífi mannabarna

Og þá er það barnið sem var rekið út úr Paradísargarðinum. Uppvaxtar- og átakabók Sævars Þórs rífur í og hrífur. Hann var illa leikinn. Drykkja foreldranna varð til að börnin nutu ekki ástar, umönnunar, eflingar, næringar, hróss og viðurkenningar. Það eru frumefni og byggingarefni heilbrigðrar persónugerðar. Svo voru illir anda í mannsmynd sem réðust á hrekklausan dreng og tóku yfir persónudýptir hans, rændu hann frelsi, sjálfstæði og rugluðu hann svo hann varð málstola og gat ekki sagt frá. Kækir skóku drenginn rétt eins og hann væri haldinn. En englarnir í lífi Sævars Þórs björguðu því sem bjargað varð. Það voru amma, konur í viðkomuhúsum Sævars og konurnar í skólanum sem sáu þurfandi dreng og studdu. Svo varð Lárus Sigurður eins og lærisveinn Jesú sem alltaf hlúði vel að sínum manni, læknaði og studdi til lífs. Sævar Þór segir svo mikla og áhrifaríka sögu að það er eins og hún sé kraftaverkasaga. Hann lýsir brenglun Reykjavíkur samtímans, segir frá illum öndum í skólum, kerfum og bisniss. Þetta er svo stór saga að það er ástæða til að skoða hana í sem víðustu samhengi. Hún er ekki bara saga um kynferðismisnotkun eða fíknifræði. Hún er ekki heldur bara karlafræði eða happy-ending-saga. Þetta er saga um líf okkar margra. Saga um að líf nútímafólks er baráttusaga og að alls konar andar eru á ferð. Siðblinnt fólk er illt, kerfi geta verið helsjúk og fíknir eru vondar. Illska kemur fram í ástskertu fólki og óuppgerðum fíknum. Barnagirnd er alvarlegt mál, ofdrekkandi foreldrar líka, misnotkun vímuefna í mörgum hópum og lögum samfélags okkar er risamál. Og það er fólk sem verður fyrir barðinu og líður fyrir. Barnið í Garðinum segir okkur það. Að vera andsetinn er ekki bara það að forvísindalegur andi kemur heldur líka þegar eiturefni hafa yfirtekið stjórn fólks eða óstillt og óheft girnd af einhveruu tagi eða einhver illvígur sjúkdómur. Fórnarlömbin eru lemstruð jafnvel þó takist að greina veilurnar og hrekja hið vonda út, hvort sem það er hjá AA hreyfingunni, sálfræðingum, læknum eða prestum. En það verður að lækna, opna og reka út hið illa. Kraftverkið varð. Bókin Barnið í Garðinum er upprisubók, um nýtt líf. Að Sævar Þór og maki hans tóku við litlum dreng er eins himinljós í bókinni. Og minnir okkur á spennuparið Guð og barn í jólaguðspjallinu. Barn í heimi og á ábyrgð fjölskyldu minnir á dýpstu köllunarmál okkar í lífinu. Ástarsaga.

Jesús læknaði, hið illa fór, drengurinn lifði. Við sjáum kraftaverkin enn gerast. Tilveran er opin af því hún er þannig gerð. En guðspjallssagan, saga Sævars Þórs og saga fólks um allar aldir sýnir okkur að við erum öll í hættu. En Guð er nærri sem býður okkur að vera heil og rísa upp til lífsins. Guð laðar, biður og styður. Og við megum gjarnan vera í hópi hans. Fagnaðarerindi á tíma þegar allt skelfur og veirurnar trylla.

Prédikun í Hallgrímskirkju 28. febrúar 2021. 2sd. í föstu. Þriðja textaröð.

Lexía: Okv 4.23-27
Varðveit hjarta þitt framar öllu öðru 
því að þar eru uppsprettur lífsins. 
Haltu munni þínum fjarri fláum orðum 
og vörum þínum fjarri lygamálum. 
Beindu augum þínum fram á við
og sjónum þínum að því sem fram undan er. 
Veldu fótum þínum beina braut,
þá verður ætíð traust undir fótum. 
Víktu hvorki til hægri né vinstri, 
haltu fæti þínum frá illu.

Pistill: Op 3.10-13
 
Af því að þú hefur varðveitt orð mitt um þolgæði mun ég varðveita þig á þeirri reynslustund sem á að koma yfir alla heimsbyggðina til að reyna þau sem á jörðinni búa. Ég kem skjótt. Haltu fast því sem þú hefur til þess að enginn taki kórónu þína. Þann er sigrar mun ég gera að máttarstólpa í musteri Guðs míns og hann skal aldrei framar fara þaðan. Á hann mun ég rita nafn Guðs míns og nafn borgar Guðs míns, hinnar nýju Jerúsalem, er kemur af himni ofan frá Guði mínum, og nafnið mitt hið nýja. Hver sem eyra hefur hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.

Guðspjall: Mrk 9.14-29
Þegar þeir komu til lærisveinanna sáu þeir mannfjölda mikinn kringum þá og fræðimenn að þrátta við þá. En um leið og fólkið sá hann sló þegar felmtri á menn og þeir hlupu til og heilsuðu Jesú. Hann spurði þá: „Um hvað eruð þið að þrátta við þá?“ En einn úr mannfjöldanum svaraði honum: „Meistari, ég færði til þín son minn sem er haldinn illum anda svo að hann getur ekki talað. Hvar sem andinn grípur hann slengir hann honum flötum og hann froðufellir, gnístir tönnum og stirðnar upp. Ég bað lærisveina þína að reka hann út en þeir gátu það ekki.“ Jesús svarar þeim: „Þú vantrúa kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá ykkur? Hversu lengi á ég að umbera ykkur? Færið hann til mín.“ Þeir færðu hann þá til Jesú en um leið og andinn sá hann teygði hann drenginn ákaflega, hann féll til jarðar, veltist um og froðufelldi. Jesús spurði þá föður hans: „Hve lengi hefur honum liðið svo?“ Faðirinn sagði: „Frá bernsku. Og oft hefur illi andinn kastað honum bæði í eld og vatn til að fyrirfara honum. En ef þú getur nokkuð þá sjá aumur á okkur og hjálpa okkur.“ Jesús sagði við hann: „Ef þú getur! Sá getur allt sem trúir.“ Jafnskjótt hrópaði faðir sveinsins: „Ég trúi, hjálpa þú vantrú minni.“ Nú sér Jesús að mannfjöldi þyrpist að. Þá hastar hann á óhreina andann og segir: „Þú daufdumbi andi, ég býð þér, far út af honum og kom aldrei framar í hann.“ Þá æpti andinn, teygði hann mjög og fór en sveinninn varð sem nár svo að flestir sögðu: „Hann er dáinn.“ En Jesús tók í hönd honum og reisti hann upp og hann stóð á fætur. 
Þegar Jesús var kominn inn og orðinn einn með lærisveinum sínum spurðu þeir hann: „Hvers vegna gátum við ekki rekið hann út?“ Jesús mælti: „Þetta kyn verður eigi út rekið nema með bæn.“