Greinasafn fyrir merki: himinn

Dagur látinna og dagur lífs

Hver hafði mest áhrif á þig í uppvexti þínum? Hver mótaði þig? Hvernig vannstu úr reynslu bernskunnar? Og hvernig vinnur þú með minningar? Á allra heilagra messu vakna minningar um ástvini okkar sem eru horfin sjónum okkar.

Nokkrum dögum fyrir allra heilagra messu kom vinur minn og rétti mér bók sem hann hafði skrifað. Hann hafði gefið hana út í takmörkuðu upplagi og hú var ætluð vinum og stórfjölskyldunni. Ég hreiðraði um mig í lestrarstólnum og sökkti mér í efnið. Í formála skýrði höfundurinn, að hann hefði notað tímamótaviðburð í lífi sínu til að staldra við og hugsa um fólkið sem hefði skipt hann miklu máli í lífinu. Það var fjölskyldufólkið, fólk bernsku hans, vinir, velgerðarmenn, ættingjar, sem höfðu látið sér annt um hann, sem og önnur sem voru svo eftirminnileg að þau mörkuðu spor í sálina. Bókin var því safn minninga um karla og konur sem höfundi þótti vænt um, fólk sem var látið. Bókin var þrungin virðingu en líka húmor gagnvart fólki, sem var margbrotið og sum voru erfið í samskiptum. Í henni er lotning, sem kallaði fram eigið þakklæti gagnvart fólkinu, sem ég hef tengst og er farið inn í ljós eilífðar. Líf okkar hefur orðið vegna þess að annað fólk hefur tengst okkur, sinnt okkur eða snortið okkur. Við stöndum í þökk við þetta fólk og líf okkar verður betra þegar við getum þakkað það sem við höfum notið. Á allra heilagra messu megum við hugsa um þau sem eru dáin, þakka gjafir þeirra og messa í lotningu til Guðs og í þökk og bæn.

Líf á himni – líf í heimi

Á þessum eilífðardegi er guðspjallstextinn – undarlegt nokk – ekki um eilífa lífið heldur um lífið hér og nú. Við lifum í tíma og hverju nýju núi en við megum lifa og vera líka í ljósi eilífðar.l

Jesús sagði: Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? … Þér eruð ljós heimsins. Salt og ljós – boðskapur á allra heilagra messu. Textinn er úr frægustu ræðu heimsins, Fjallræ.lðunni í Matteusarguðspjalli, strax á eftir hinum frægu sæluboðum. Hvað gerir maður þegar saltið dofnar? Það er nú reynsla okkar að salt dofnar ekki svo spurningin vaknar: Við hvað er átt? Ein skýringin er að á Dauðahafssvæðinu var og er mikið af salti. Í ofurhitanum gufar vatn upp og eftir sitja alls konar efni í bland við saltið, m.a. natrón, sem við notum til bökunar. Natrón blandaðist saltinu og saltið bragðbreyttist og dofnaði. Jesús vissi, að saltdeyfa var vond fyrir matargerðina. Þér eruð salt – er því ræða, sem varðar hvort fólk er dofið eða kraftmikið.

Hvað er málið?

Jesús bætir við: Þér eruð ljós – og minnir á að ljós á að nota til lýsingar. Borg eða bær uppi á fjalli sést vel, minnir hann líka á og vísar þar með í heimsmál þeirrar tíðar, sem eru áþekk samtíðinni. Hvar miðja heimsins er skapar aðalviðfangsefni heimsmála hverrar tíðar. Svo var einnig á tímum Jesú. Þjóðernissinnarnir í Palestínu voru vissir um, að fjallið Zíon og þar með Jerúsalem væri miðjan. Þaðan ætti ljósið að berast. Rómverjarnir vissu um mátt Rómar og Cicero talaði um þá stórborg og heimsmiðju sem ljós þjóðanna. Svo ljósræðurnar voru um hvar miðjan væri eða ætti að vera. Orðfæri Jesú er því í samræmi við talsmáta tímans og hann talar því inní pólítík samtíðarinnar. En Jesús var snillingur hins óvænta. Hann stækkaði og umbreytti venjum og vitund fólks. Hann notaði hið venjulega til að skýra hið óvenjulega. Jesús benti fólki á, að það eru ekki borgir, stjórnmál eða valdahópar sem væru mál málanna – heldur annað, meira og mikilvægara. Það væri Guð, sem væri miðjan, en ekki menn og mannaverk. Hlutverk okkar manna er að lýsa svo menn sjái. Við eigum að lifa svo ljós eilífðar skíni.

Þar með er tilgangur ræðunnar ljós – stefnan, sem Jesús markar Guðsríkinu. Fyrirtæki, félög og stofnanir semja og samþykkja stefnu fyrir starf sitt á hverri tíð. Jesús markar hér stefnu fyrir lærisveina sína, kirkju sína. Tilgangur lífs manna er að lifa vel, hafa alls staðar áhrif til góðs og að mannlíf tengist Guði. Kristnir menn eru borgarar tíma en líka eilífðar, krydd og ljós.

Hrekkjavaka

Á enskunni var talað um holy eve eða heilagt kvöld, sem síðan breyttist í halloween og hrekkjavöku í ýmsum enskumælandi löndum. Upprunalega var þetta aðfangakvöld allra sálna messu. Undir bandarískum áhrifum bregða krakkarnir yfir sig skikkjum, ganga um eins og safna nammi undir slagorðinu trick or treat – happ eða hrylling. Svo hafa góðir foreldrar auðvitað frætt þau um sálir, að líf er eftir þetta líf og um samhengi alls er.

Jesús sagði ekki, að við ættum að ganga um og safna nammi, heldur væri hlutverk okkar að verða krydd veraldar og selta fyrir heiminn. Hann sagði ekki að við ættum setja ljósið okkar inn í grasker eða rófur, heldur leyfa því að lýsa öðrum. Hlutverk okkar er að vera ljósasól og í sambandi við orkubú veraldar.

Dagur látinna og dagur lífs

Allra heilagra messa er dagur, sem við notum til að minnast látinna, bera þau fram fyrir Guð í bæn, minnast alls sem gert hefur verið.

Hvernig þakkar þú og minnist þú? Vinur minn skrifaði minningar sínar um fólk og gaf út. Að skrifa er ein aðferð við að vinna með sorg og missi. Og alltaf er mikilvægt að leyfa sögum að lifa um látna ástvini. Í sorgarvinnu er mikilvægt að segja sögur um þann sem er syrgður. Leyfa minningum að flæða til að skoða tengslin og tilfinningarnar. Þegar við segjum sögum um fólkið sem hefur tengst okkur skilum við líka áfram gildum, viðmiðum og fyrirmyndum. Hver viljum við að verði ávöxtur lífs okkar?

Í þessu hliði himinsins, spyr ég þig: Hver hafði mest áhrif á þig til að gerði þig að þeirri mannsekju sem þú ert? Var það móðir þín eða faðir, afi eða amma? Reyndu að svara spurningunni hið innra? Hvert þeirra, sem býr í himninum, varð þér til hjálpar og eflingar? Var eitthvert þeirra kunnáttusamur kúnstner sem efldi þig? Hver varð þér vitringur? Var eitthvert þeirra sem kenndi þér að spenna greipar og tala við Guð eins og vin? Var eitthvert þeirra þér hlýr faðmur, skjól og hálsakot sem þú áttir víst í flóknum heimi? Var einhver sem bjargaði þér í erfiðum aðstæðum eða hjálpaði þér þegar þú þarfnaðist þess? Dragðu upp í huganum myndir og leyfðu þér að þakka fyrir þau. Og ljúktu ekki þessum degi fyrr en þú ert búinn að vega áhrifavalda lífs þíns.

En líf er ekki bara fortíð, heldur nú – og framtíð. Minningardagur um þau sem við elskuðum er ekki bara fortíðarmál, dagur til að gráta. Allra heilagra messa er dagur lífsins. Hvað tekur þú með þér frá ástvinum sem eru farin og hverju miðlar þú? Ertu salt – ertu ljós? Hver er lífsstefna þín og hvernig viltu lifa áfram? Erindi kristninnar er, að Guð vakir yfir tíma og eilífð með elskusemi. Guð er í ljósinu og kallar fólkið okkar inn í birtu sína. Trúir þú því? Á allra heilagra messu máttu þakka, en líka stæla trú í núinu.

Allra heilagra messa.

Meðfylgjandi mynd tók ég í fyrstu  kvöldkirkjunni 24. okbtóber, 2019.

Lexía: 5Mós 33.1-3

Þannig blessaði guðsmaðurinn Móse Ísraelsmenn áður en hann dó:
Drottinn kom frá Sínaí,
hann lýsti þeim frá Seír,
ljómaði frá Paranfjöllum.
Hann steig fram úr flokki þúsunda heilagra,
á hægri hönd honum brann eldur lögmálsins.
Þú sem elskar þjóðirnar,
allir þeirra heilögu eru í hendi þinni.
Þeir hafa fallið þér til fóta,
rísa á fætur er þú skipar.

Pistill: Opb 7.13-17

Einn af öldungunum tók þá til máls og sagði við mig: „Hverjir eru þessir menn sem skrýddir eru hvítum skikkjum og hvaðan eru þeir komnir?“
Og ég sagði við hann: „Herra minn, þú veist það.“
Hann sagði við mig: „Þetta eru þeir sem komnir eru úr þrengingunni miklu og hafa hvítþvegið skikkjur sínar í blóði lambsins. Þess vegna eru þeir frammi fyrir hásæti Guðs og þjóna honum dag og nótt í musteri hans og sá sem í hásætinu situr mun búa hjá þeim. Þá mun hvorki hungra né þyrsta framar og eigi mun heldur sól brenna þá né nokkur breyskja vinna þeim mein. Því að lambið, sem er fyrir miðju hásætinu, mun vera hirðir þeirra og leiða þá til vatnslinda lífsins. Og Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra.“

Guðspjall: Matt 5.13-16

Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum.
Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu. Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum.

 

Himinn í mömmubumbu

Á þessum mæðradegi ræðum við um himininn og móður allrar miskunnar, Guð. Margar sögur eru um hvernig fólk hugsar um líf handan dauða. Lína langsokkur var móðurlaus og horfði oft upp í himininn og hugsaði um mömmu sína. Henni fannst hliðin, sem að okkur snýr, öfuga hliðin á himninum, vera falleg og dró því þá ályktun, að hin hliðin hlyti að vera enn betri fyrst rangan væri svona flott.

Veraldarvefurinn ber vott um, að himininn er mikilvægt umhugsunarefni. Ég fletti með Google og komst að því að 640 milljón síður koma upp þegar leitað er undir orðinu heaven. Himmel vísaði á 173 milljónir síðna. Og þegar íslenska orðið himinn var sett inn voru vísanirnar 634 þúsund. Paradís er það, sem flestir vona og um það efni eru á vefnum 664 milljónir vísanir.

Himnaríkisdæmi

Áhuginn er mikill, en svo eru hugmyndirnar um himnaríki mjög mismunandi. Allir foreldrar þekkja glímuna við að skýra út dauðann fyrir börnum, lífsför langömmu eða afa inn í eilífðina. Síðan verður að skýra hvar Guð býr og hvar ekki. Barnið gerir sér bókstaflegar ímyndir og skýringar. Niður er vont, upp er gott.

Í Gullna hliðinu notaði Davíð Stefánsson – í viðbót við stefin úr Opinberunarbók Jóhannesar – kotbændatúlkun á himinhliðinu. Húmor er til hjápar við að nálgast flókin mál, en kannski fjallaði Gullna hliðið fremur um meðvirka eiginkonu hins látna en ferð þeirra hjóna að himinhliðinu!

Í Islam hefur himindýrðin verið útmáluð með munúðarfullum sögum um líkamsnautnir hinna hólpnu í Paradís. Í fornöld vildu norrænir spennufíklar og dýrkendur hermennsku gjarnan halda leikjum áfram. Í Valhöll var hryllingi stríðsins sleppt en haldið í gamanið. Spíritistar fregnuðu og kenndu á sínum tíma, að himinvíddir væru alla vega sjö og sálin færi mishratt um þær veraldir á þroskaferli sínum. Joe Hill talaði um “You’ll get pie in the sky, when you die.” Astrid Lindgren dró upp dásamlega veröld í Rósadal Nangijala í bókinni Bróðir minn Ljónshjarta, sem flestir íslenskir krakkar hafa heyrt eða lesið. Himnaríkið, sem Astrid Lindgren lýsti, var þróunarveröld rétt eins sálarheimar spíritista.

Frá hinu þekkta til hins óþekkta

Himinsýn – mynd Þorsteins Jósepssonar

Hvernig verða himnaríkismyndir til? Eins og barnið, sem sér stjörnurnar og skilur með sínum forsendum, erum við öll misstór börn, sem liggjum á bakinu, störum upp í himininn og skiljum og tjáum með okkar viti hvað verður. En orð um aðra veröld eru ekki og verða aldrei sannanleg lýsing. Við getum aldrei talað um himininn í öðru en líkingum. Myndmálið er tæki til að tjá það, sem við höfum hugboð um, dreymir um og vonum.

Til að staðsetja trúarhugmyndir okkar, sem varða himnaríkið og framhaldið, ættum við íhuga fyrst hvernig við manneskjurnar hugsum. Það er þarft að muna hvernig við lærum og þroskumst. Við byrjum alltaf þar sem við erum, lærum út frá því sem við kunnum, skiljum alltaf út frá hinu þekkta.

Himinvarp

Munum, að menn varpa þrá og djúpsettum hugmyndum upp á himin vonanna. Það þarf ekki mikið hugarflug til að gera sér grein fyrir að þá múslima, sem dreymdi munúðarfulla drauma um tilkippilegar meyjar, voru kynsveltir karlar. Kannski má sjá í elýsesískri þægindaveröld Grikkja að einhverju leyti vörpun á vonum þeirra, sem var annað hvort of heitt eða kalt. Vísast var Valhallarveröldin draumur hermanna og spennufíkla, sem hræddumst hrylling stríðs en þráðu spennuna áfram. Gullslegin hús og prýdd veröld himnaríkis er vörpun á þrá hins fátæka manns. Kannski er Disneyland einna besta raungering hinna barnalegu drauma.

Himnaríkið þitt

En hvert er þitt himnaríki? Íhugaðu og virtu vonir þínar og reyndu að greina þína himinveröld. Það er mikilvægt og frjótt að vinna það verk því þá lærir þú betur að þekkja þig. Þér mun örugglega ekki takast að búa til himininn. En ef þér lánast vel gerir þú þér kannski betur grein fyrir takmörkunum sjálfs þín, mörkum hinnar mannlegu ímyndunar og skilnings og hvert er sumarland þinnar dýpstu þrár.

Búa ykkur stað

Verið ekki áhyggjufull minnir Jesús vini sína á í guðspjalli dagsins. Ég fer frá ykkur til að undirbúa framtíðarveröld ykkar, búa ykkur stað því vistarverur guðsríkisins eru svo margar að komu ykkar þarf að undirbúa. Tómas var nægilega jarðtengdur og í sambandi við sjálfan sig að hann viðurkendi, að hann skildi Jesú ekki, vissi ekki hvaða leið lægi til ríkis Guðs og hvernig himnaríkið yrði. Hvernig eigum við að vita hvaða leið við eigum að fara?

Jesús tekur af allan vafa um, að það sé hann sem opnar hliðið, það sé hann sem gerir veginn og segir efasemdarmanninum Tómasi, að hann sé vegurinn sjálfur, sannleikurinn og lífið. Þar með gerði hann grein fyrir himninum, skýrði út eðli og gerð hans.

Fósturhugmyndir

Oft horfi ég dáleiddur á litlu börnin, sem ég skíri og velti vöngum yfir upplifunum þeirra og hugsunum. Einu sinni varstu svona peð. Hvað hugsaðir þú, hvernig var veröld þín? Var hún ekki talsvert ólík veröld þinni nú?

Og hvað hugsaðir þú þegar þú enn varst í kviði móður þinnar? Gastu ímyndað þér veröldina þegar þú varst þar inni? Vissulega gastu heyrt hljóð, fannst til með mömmu þinni, fékkst innskot af adrenalíni í æðar þínar, þegar hún var hrædd eða spennt, fannst fyrir vellíðan hennar, þegar henni leið vel. Þá slakaðir þú á í kyrrð mömmunnar. Þú fannst fyrir veröldinni utan bumbunnar en skildir hana ekki. Vissir ekkert um liti hennar, fannst ekki fyrir vindinum, sást ekki fuglana, ásjónur þeirra sem elskuðu þig, vissir ekkert um útlit herbergjanna eða vistarveranna, sem fjölskylda þín bjó í.

Vissir þú í móðurbumbunni nokkuð um bíla, neyslu, fátækt, kreppu eða loftslagsvá? Nei, en þú varst samt sprellifandi. Smátilveran var þér fullkomlega nægileg. En þó tilveran væri stærri en móðurlegið skildir þú hana ekki. Þú og öll börn fæðast fákunnandi um veröldina. Það er nóg sem gefið er til að hefja lífið. Kunnáttan, skilningurinn kemur síðar þegar þroskinn vex í þessari raunveröld okkar. Eitt skref í einu og góðir hlutir gerast hægt. Góðar mömmur og góðir pabbar eru undraverðir leiðbeinendur og þroskavakar. 

Hin stórkostlega fæðing

Við fáum og njótum þess, sem er okkur nægilegt á hverju skeiði. Fóstrið hafði allt og síðan elskuarma til stuðnings eftir fæðingu til nýrrar veraldar. Og það er okkur til skilningsauka þegar við hugsum um eilífa lífið. Hvað tekur við eftir dauðann? Hvernig verður hinum megin? Getur þú ímyndað þér það? Þó að þú hafir ekki getað ímyndað þér hvað tæki við þegar þú fæddist þá tók tilveran við og var margbreytileg og fjölskrúðug. Þó þú getir ekki ímyndað þér hvernig eilífa lífið verður getur það orðið mun stórkostlegra en þú getur ímyndað þér, rétt eins og tilveran varð litríkari og fjölbreytilegri en barn í móðurkviði hefði getað hugsað sér.

Margir eiga í erfiðleikum með trú og eru kvíðnir gagnvart óvissuferðinni inn í eilífðina. Fólk á í erfiðleikum með hvað við tekur, reynir að fá botn í hugsanir sínar, uppgötva með skynsemi sinni um framhaldið. Að vera kristinn er að fylgja Jesú alla leið. Hann dó en hann reis upp. Þú munt deyja, allir þínir munu deyja, en Jesús vill að þú og allt þitt fólk rísið upp til eilífs lífs. Hann fór alla leið og leiðir þig leiðina líka. Vegurinn, sannleikurinn og lífið.

Þú mátt horfa með augum barnsins og ímynda þér réttuna á himinum. Þú getur gert þér grein fyrir, að allt eru þetta aðeins vísbendingar því þú ert í móðurkviði náttúrunnar. Þú átt eftir að fæðast til réttunnar, inn í faðm þeirra sem elska þig. Og sá móðurfaðmur er Guð. Jesús Kristur, er búinn að hanna og smíða stórkostlega veröld. Þar eru vistarverur handa þér. Við vitum ekki hvernig hún verður nákvæmlega, því hið biblíulega málfar er ekki bókstafleg lýsing heldur er mál Biblíunnar myndrænt, hliðstæðu-orðræða. En þú mátt trúa Jesú, að hann verði nærri og það er aðalatriðið.

Ferðin þín inn í eilífðina byrjar ekki í framtíð, heldur í bernsku þinni, þegar rétta himinsins umvafði tilveru þína við skírnarfontinn. Eilífðarlífið er byrjað í þér – það byrjaði í skírninni. Þú ert á meðgönguskeiði en fæðing til himins verður síðar. Notaðu lífið, þessa meðgöngu anda þíns og sálar til að leyfa hinum andlegu líffærum að þroskast vel. Stressaðu þig ekki yfir því þótt þú skiljir ekki öll hljóð og áhrif himinsins nú þótt þau berist þér í gegnum náttúrubumbuna og móðurleg kirkjunnar. Þegar þú deyrð, fæðist þú til nýrrar tilveru og þá muntu sjá ljós, liti og dýrð sem tekur fram öllu því, sem þú ímyndar þér á fósturskeiði trúar þinnar. Spennandi! Já, svo sannarlega því lífið lifir fyrir Jesú Krist.

Hallgrímskirkja 3sdepaska 2019, mæðradagurinn, messunni úrvarpað á RÚV. Slóðin verður opin einhverja daga: https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/gudsthjonusta/24228?ep=7hi3bm

Lexía: Slm 126

Þegar Drottinn sneri við hag Síonar
var sem oss dreymdi.
Þá fylltist munnur vor hlátri
og tungur vorar fögnuði.
Þá sögðu menn meðal þjóðanna:
„Mikla hluti hefur Drottinn gert við þá.“
Drottinn hefur gert mikla hluti við oss,
vér vorum glaðir.
Snú við hag vorum, Drottinn,
eins og þú fyllir þurra farvegi í Suðurlandi.
Þeir sem sá með tárum
munu uppskera með gleðisöng.
Grátandi fara menn
og bera sáðkorn til sáningar,
með gleðisöng koma þeir aftur
og bera kornbindin heim.

Pistill: 2Kor 4.14-18
Ég veit að Guð, sem vakti upp Drottin Jesú, mun einnig uppvekja mig ásamt Jesú og leiða mig fram ásamt ykkur. Allt er þetta ykkar vegna til þess að náðin verði sem mest og láti sem flesta flytja þakkargjörð Guði til dýrðar. Fyrir því læt ég ekki hugfallast. Jafnvel þótt minn ytri maður hrörni þá endurnýjast dag frá degi minn innri maður. Þrenging mín er skammvinn og léttbær og aflar mér eilífrar dýrðar sem stórum yfirgnæfir allt. Ég horfi ekki á hið sýnilega heldur hið ósýnilega. Hið sýnilega er stundlegt en hið ósýnilega eilíft.

Guðspjall: Jóh 14.1-11
„Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo hefði ég þá sagt yður að ég færi burt að búa yður stað? Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað kem ég aftur og tek yður til mín svo að þér séuð einnig þar sem ég er. Veginn þangað sem ég fer þekkið þér.“ Tómas segir við hann: „Drottinn, við vitum ekki hvert þú ferð, hvernig getum við þá þekkt veginn?“ Jesús segir við hann: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.

Undur lífsins

IMG_4139Kæri hlustandi – góðan dag. Hvernig ætlar þú nú að vera og lifa í dag? Má bjóða þér meðal gegn öldrun? Ég er búin að uppgötva það. Hvað skyldi það vera? Jú, að umgangast börn. Vísast er öflugasta meðalið til lífsgæða að eignast líka börn seint og á efri árum! Öldrun er ekki aðeins það að missa heilsuna. Fyrir slíku geta allir orðið á öllum aldursskeiðum. Nei, verst er þegar heilsugott fólk hrynur inn í sjálft sig, verður svo upptekið af sínu, að það sér vart út yfir smáhring eigin þarfa og aðstæðna. Sögurnar verða nærsýnar og harmhneigðar. Með ellinni veikjast varnir og hverfa jafnvel. Gallar koma í ljós, sálarsprungur stækka og gleypa lífsgæðin. Þá fjarar lífið út en grjótið verður eftir í fólki.

Börn eru dásamlegir afréttarar og hvatar til lífs og gleði. Afstaða og tilraunir barna þjóna þroska þeirra. Leikjasókn þeirra er ekki aðeins í þeirra þágu, heldur megum við læra af þeim og efla spuna í lífi okkar, sem eldri erum. Leikur í hjónalífi þeirra, sem hafa verið gift lengi, er meðmælanlegur. Prufið bara og aldrei of seint. Og það er afar fátýtt að fólk deyji af undrun og fögnuði, en gáski í tjáskiptum gerir oft kraftaverk. Fróðleikssókn er í anda lífssóknar barna. Verkefni hvers manns er vinna að hamingjunni. Okkar eldri er að setja mörk og markmið, en börnin kenna okkur líka stórkostlegar kúnstir og sýna okkur aðferðir lífsleikninnar.

Jesús Kristur miðlaði trausti, hann var barnavinur. Hann hafði ekki aðeins þá afstöðu að börn væru leir til að móta, heldur benti á hæfni og skapandi leit sem væri til eftirbreytni. Temjum okkur því opna og einlæga sókn þeirra. Hvernig er himnaríki? Það birtist í gleðileik barnanna.

Börn og ástvinir eru flestum mestu dýrmæti lífsins. Þau gefa lífi okkar lit, sögur, ævintýri og auðvitað líka vandkvæði. Líf án skugga er blekking. Brandarar, spenningur yfir veðri og náttúru, tilraunir, spurnargleði, vilji til að skoða og þroskast eru einkenni bernskunnar. Við megum gjarnan temja okkur undrun. Börn eru hæfir kennarar í símenntun hinna eldri. Að vera með börnum skerpir okkur til lífs. Til að vera nálægur börnum og tengjast þeim verðum við að þola hið bernska, að hrífast, gleðjast, gráta og hlægja. Þetta varðar fólk á öllum aldri, líka þig. Leikur er list lífsins. Börn opinbera undur lífsins.

Bænir

Guð gefi þér leikandi lífsgleði og góðan dag.

Morgunorð – morgunbæn RÚV 2. október 2014.

Hilmar Sævald Guðjónsson – minningarorð

Hilmar S H 445aAutt og óskrifað blað er ögrandi og jafnvel krefjandi. Hvað á að skrifa og hvað er hægt að teikna? Óskrifað blað er hreinn veruleiki – allra möguleika. Hvernig verður svo teiknað eða ritað? Verða pensilstrokurnar léttar og túlkandi – eða vondar og særa augu? Verður það sem fært verður á blað hrífandi eða meiðandi? Að skrifa og teikna er ekki sálarlaust handverk heldur krefst ögunar, alúðar, meðvitundar, samstillingar huga og handar og jafnvel líka ástríðu. Það er hrífandi að skoða myndir Hilmars – hvernig hann reyndi að láta pensil eða krít líða átakalaust yfir örkina til að draga fram svífandi línur, eðlileg form, skugga og birtu svo úr yrðu þokkafullar myndir af fólki. Og þessar frjálsu en öguðu línur og strokur vekja tilfinningaviðbrögð. Teikningar Hilmars tjá vel listfengi hans og hæfni.

Hvernig teiknaði Hilmar sína eigin mynd inn í líf ykkar? Hvaða mynd dró hann af sér inn á glugga minninga þinna? Hilmar lifði í þágu fólks, fjölskyldu og vina. Hann lifði í þjónustu við aðra og notaði hæfni sína og list til eflingar öðrum. Vegna hógværðar og umhyggju varð Hilmar farvegur gæsku. Hann þjónaði og kunni listina að lifa fallega.

Þegar við hugsum um fólk – gott fólk – sjáum við oft lífið í stærra samhengi og skynjum jafnvel spor eilífðar. Gæska í tíma vekur vitund um hið stóra og mikilvæga. Hendi Hilmars með pensil og örk er mynd af skapara og verðandi. Til hvers að skapa? Til að efla lífið. Til hvers að draga upp myndir? Til að gleðja og efla. Til hvers er list? Til hvers lifum við sem menn? Hlutasvörin eru að list og einstaklingur eru aldrei aðeins í eigin þágu – sjálfhverf og eigingjörn – heldur tengd hinu stóra. Og trúmaðurinn sér í allri framvindu heimsins að lífið hefur ekki bara smátilgang heldur fjölþætta merkingu, margbreytilega gleði, stórt samhengi – af því til er Guð sem elskar og þjónar.

Ætt og uppruni

Hilmar Sævald Guðjónsson fæddist í Reykjavík 27. janúar 1941. Móðir hans var Halla Sæmundsdóttir (f. 24. janúar 1918  d. 18. október 2013) og Guðjón Steingrímsson (f. 2. desember 1917, d. 12. apríl 1996). Guðjón lést fyrir nær 18 árum en milli Hilmars og Höllu voru aðeins fjórir mánuðir. Hún lést í október síðastliðnum. Foreldrar Hilmars, þau Halla og Guðjón, bjuggu ekki saman og Halla fór með Hilmar ungan og óskírðan norður til ættfólks hennar í Strandasýslu. Hún sendi svo tilkynningu suður síðar að hann drengurinn héti Hilmar – og reyndar var hann Sævald að auki.

Fyrir norðan kynntist Halla Jóhanni Snæfeld og giftist honum. Þau bjuggu á Hamarsbæli við Steingrímsfjörð. Af bæjarnafninu fékk Hilmar svo viðurnefndið Hilmar í Bælinu! Fóstri Himars, Jóhann, reyndist honum hinn besti vinur og fóstri.

Hilmar eignaðist marga bræður og systur og var elstur í stórum hópi systkina. Sammæðra á hann systurnar Bettý, Kolbrúnu og Báru – allar Snæfeld. Samfeðra á hann systkinin Magnús,  Steingrím, Sigríði, Ingólf og Kjartan. Þau lifa öll bróður sinn.

Mótun

Í Hamarsbæli komst Hilmar til manns, lærði að axla ábyrgð, þjóna fólki og lífi. Hann lærði að fara á sjó og sækja björg í bú, lesa tekningar í Popular Mechanics, vanda til allra verka og smíða stórt úr litlu. Strandamenn hafa um aldir smíðað báta og Hilmar vissi vel að hugur og hönd urðu að vinna saman og allt yrði að falla vel til að fleytan yrði góð. Hann gat því öruggur sjósett kajak sinn sem hann smíðaði ungur. Hann lærði einnig að aga innri mann og í fjölskyldu hans var höfð fyrir honum reglusemi, natni og heillyndi. Hann lærði einnig af ástvinum sínum að betra er að vera umtalsfrómur en leggja öðrum illt til. Svo lærði hann að gefa – og jafnvel of vel að betra er að gefa en þiggja.

Jóhann, fóstri Hilmars, sótti sjó og Hilmar fór í róðra um leið og hann hafi getu til. Á sjó var ekki bara fiskur og fegurð. Hilmar varð snemma góður skotmaður og þeir fóstrar skutu fugl til matar. Jóhann mundaði haglabyssu og skaut oft marga í skoti en Hilmar stóð í bátnum, dansaði limamjúkt í takt við ölduna og skaut svo markvisst og hratt að hann veiddi oft meira en sá sem skaut marga í skoti. Hilmar kenndi svo strákum sínum og jafnvel sonarsonum að skjóta. Engum sögum fer af skotum kvenna sem af Hilmari eru komnar!

Íbúum í Kaldrananeshreppi fjölgaði mjög um miðja tuttugustu öldina og skóli var byggður í Drangsnesi og var tekinn í notkun árið 1944. Í skólanum var bæði kennt og messað – og svo er enn. Í þennan fjölnota barnaskóla sótti Hilmar menntun sína.

Bændur í Hamarsbæli bjuggu ekki við fé heldur fisk og sjór var sóttur af kappi. Hilmar var því óbundinn af stað og búskap móður og fósturföður og frjáls til atvinnu. Steingrímsstöð við Sog var byggð á árunum 1957-60. Þar starfaði Guðjón, blóðfaðir Hilmars, og ungi maðurinn fékk þar vinnu einnig. Það varð til að þeir feðgar kynntust betur og áttu eftir að vera í talsverðum og oft miklum samskiptum síðan.

Eftir vinnu í Steingrímsstöð var Hilmari ljóst að gæfulegt væri að afla sér atvinnuréttinda. Og Hilmar hóf nám við Iðnskólann á Skólavörðuholti og lauk þaðan tækniteiknaranámi árið 1972. Um árabil starfaði hann síðan á verkfræðistofu Benedikts Bogasonar. Árið 1979 færði hann sig um set og gekk til liðs við stórfyrirtækið Phil & Sön í Kaupmannahöfn. Þar var hann tækniteiknari í þrjú ár. Hjá Benson innréttingum starfaði hann frá árinu 1982 og síðar við auglýsingagerð, innréttingahönnun og smíði.

Þegar í bernsku teiknaði Hilmar af miklu listfengi myndir af Hamarsbælisbátunum. Alla tíð var hann drátthagur, hafði áhuga á línum og teikningu. Og ástríðan til hins auða blaðs leiddi til að árið 1969 fór Hilmar á námskeið við Myndlistarskóla Reykjavíkur og naut leiðsagnar ýmissa meistara, m.a. Hrings Jóhannessonar – og fór svo að kenna sjálfur. Yfir fjörutíu ár var Hilmar síðan tengdur skólanum og naut þess að vera fullgildur þáttakandi þessarar merku listasmiðju og uppeldisreit. Auk þess að Hilmar kenndi teikningu um árabil sá hann einnig um viðhald, smíðar og breytingar. Eftir að hann varð fyrir heilsufarsáfalli fyrir liðlega áratug dró hann úr kennslu en þjónaði skólanum áfram með ýmsum hætti. Og í Myndlistarskóla Reykjavíkur lauk hann ævi og starfi. Þar varð Hilmar kvaddur burt úr heimi með skyndingu og fyrirvaralaust þann 11. febrúar síðastliðinn.

Hjúskapur
Hilmar kvæntist Ásthildi Sveinsdóttur, þýðanda, árið 1962. Þau skildu áratug síðar í vinsemd og stóðu saman vörð um hag sona sinna þriggja. Elstur er Pétur Sævald. Hann er viðskiptafræðingur. Kona hans er Margrét K. Sverrisdóttir, íslenskufræðingur. Þau eiga börnin Kristján Sævald og Eddu.

Síðan komu tvíburarnir Axel Viðar og Snorri Freyr.

Axel er verkfræðingur og kona hans er Ásdís Ingþórsdóttur, arkitekt. Dætur Axels og fyrri konu hans, Þórnýjar Hlynsdóttur, bókasafnsfræðings, eru Sunna og Álfrún. Börn Ásdísar eru Guðmundur og Linda.

Snorri Freyr er leikmyndateiknari. Kona hans er Ann Söderström, sem stundar nám í þjóðfræði. Dóttir þeirra er Hilda Sóley. Börn Snorra og fyrri konu hans, Láru Hálfdánardóttur, kennara, eru Skarphéðinn og Unnur.

Sambýliskona Hilmars var Jóhanna Thorsteinson,  kennari. Þau slitu samvistir en ekki vináttu.

Hilmar var drengjum sínum góður og natinn faðir. Hann hafði gleði af barnabörnum sínum, naut samvista við þau og að fræða þau. Hann föndraði með þeim, smíðaði og vakti yfir framvindu í lífi þeirra. Og svo var hann mikilvægur börnum Jóhönnu líka.

Ég hef verið beðinn að bera þessum söfnuði kveðju frá Ásthildi, fyrrverandi eiginkonu Hilmars, sem er á sjúkrahúsi og komst ekki til þessarar athafnar. Ennfremur hafa Kristinn Sæmundsson og Þorbjörg, kona hans, beðið fyrir kveðjur. Þá hafa Sjöfn og Auður, frænkur Hilmars sem eru erlendis, beðið fyrir kveðjur til þessa safnaðar. Einnig eru kveðjur frá frá Önnu Fanney Helgadóttur og Valdimar Jónassyni.

Myndirnar af Hilmari

Hilmar dró upp myndir. En hvaða mynd er dregin upp í huga þinn af Hilmari? Hvernig minnistu hans? Og hvað viltu muna og af hverju?

Manstu hve elskulegur hann var? Manstu hve bóngóður hann var? Sástu Hilmar einhvern tíma setja upp eldhúsinnréttingu? Kom hann jafnvel til þín til að hjálpa við að leggja partkett, smella upp gerektum og baðinnréttingu eða lagfæra skáp- eða dyrahurð, sem var orðin skekkt eða féll ekki lengur vel í fals? Hilmar hefur væntanlega ekki innheimt stórar upphæðir? Það var ekki hans stíll. Hvernig ætlar þú að þakka fyrir greiða og gæsku?

Manstu hve hógvær Hilmar var? Aldrei tranaði hann sér fram og undi glaður við sitt. En gott þótti honum að vera háseti á fleyi listarinnar í landinu. Hann undi vel í Myndlistaskólanum og var metinn að verðleikum til hinsta dags. Lof sé samstarfsfólki og yfirmönnum skólans fyrir þá elskusemi sem Hilmar naut þar og þá hlýju sem þau sýndu fjölskyldunni við fráfall hans.

Var hann þér fyrirmynd í tengslum við fólk? Brostu ekki augu hans við veröldinni? Manstu hve hlýlegur hann var í samskiptum og tók börnum. Manstu hve iðjusamur hann var? Manstu þegar hann settist niður með bilaðan hlut, stóran eða smáan til að skoða gangverkið, athuga hvort hægt væri að laga, smíða varahluti eða flikka til svo hægt væri að koma í gagnið á ný? Hilmar var fremur maður endurvinnslunnar en neyslunnar og því varð í höndum hans margt til úr “engu.” Það sem aðrir hefðu kastað á hauga naut náðar í augum hans og var komið til brúks á ný. Jafnvel ryðgaður lás reis upp til nýs lífs vegna þess að Hilmar hafði í sér þolinmæði til að sitja við og pússa, liðka og laga. Gangverk eilífðar birtist í fingrum og tíma Hilmars.

Á síðari árum fór hann æ oftar heim í Hamarsbæli og síðustu misserin undi hann glaður við að gera bæinn upp. Þið fjölskylda og ástvinir Hilmars munuð njóta verka hans um ókomin ár.

Hamarsbæli himinsins

Og nú er Hilmar farinn. Ekki fleiri pensilstrokur og engar fleiri skissur. Einu sinni talaði Hilmar við sonardóttur sína um himininn og ferð sína inn í eilífðina. Í hógværð sinni eða jafnvel sjálfsgagnrýni sagði hann henni að hann væri ekki viss um að komast inn í himininn. En hún hafði góða þekkingu á afa sínum og fullkomnunarsókn hans. Hún taldi líka víst að gangverk og opnunarbúnaður gullna hliðsins væri ekki beintengt við sjálfsgagnrýni og verk mannanna. Og það er rétt og góð guðfræði. Opnunarbúnaður himinsins er mekaník sem teiknarinn mesti hefur hannað, smíðað og prufkeyrt sjálfur. „Jú afi minn þú flýgur inn í himininn“ var hennar niðurstaða.

Íhugun Hilmars er eðlileg og sammannleg. Að okkur sækja þankar um framvindu lífsins og hvernig eilífðin verður uppteiknuð og með hvaða línum, birtu og skuggum. En lífið er ríkulegt og ekki eitt strik og svo allt búið. Öldurnar í hafinu, vindurinn, sólstafirnir, undur hjalandi barna, merkingin í öllu því besta sem mennirnir upplifa læðir að þeim grun um að lífið er ekki smátt heldur stórt, að við megum eiga von á að það sé meira en snögg blýantslína. Trúin lokar ekki heldur opnar – kristnin boðar elsku, frelsi, hinar frjálsu línur – að heimurinn sé vel teiknaður og fallega. Himinn er opinn fyrir menn og líf. Menn sem fæðast með eilífð í augu og fingrum eru gerðir fyrir framhald. Það er þokkinn í skissu teiknarans mesta. Heimurinn er dreginn upp af ástríki og lífsarkirnar eru fullar af gleðiefnum.

Himinn er opinn fyrir Hilmar. Nú er hann farinn inn í hina frjálsu, fallegu, undursamlegu mynd sem Guð teiknar.

Guð geymi Hilmar Sævald Guðjónsson og Guð teikni þig vel.

Amen.

Minningarorð í Neskirkju 26. febrúar, 2014. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði.