Greinasafn fyrir merki: hönnuður

Hilmar Sævald Guðjónsson – minningarorð

Hilmar S H 445aAutt og óskrifað blað er ögrandi og jafnvel krefjandi. Hvað á að skrifa og hvað er hægt að teikna? Óskrifað blað er hreinn veruleiki – allra möguleika. Hvernig verður svo teiknað eða ritað? Verða pensilstrokurnar léttar og túlkandi – eða vondar og særa augu? Verður það sem fært verður á blað hrífandi eða meiðandi? Að skrifa og teikna er ekki sálarlaust handverk heldur krefst ögunar, alúðar, meðvitundar, samstillingar huga og handar og jafnvel líka ástríðu. Það er hrífandi að skoða myndir Hilmars – hvernig hann reyndi að láta pensil eða krít líða átakalaust yfir örkina til að draga fram svífandi línur, eðlileg form, skugga og birtu svo úr yrðu þokkafullar myndir af fólki. Og þessar frjálsu en öguðu línur og strokur vekja tilfinningaviðbrögð. Teikningar Hilmars tjá vel listfengi hans og hæfni.

Hvernig teiknaði Hilmar sína eigin mynd inn í líf ykkar? Hvaða mynd dró hann af sér inn á glugga minninga þinna? Hilmar lifði í þágu fólks, fjölskyldu og vina. Hann lifði í þjónustu við aðra og notaði hæfni sína og list til eflingar öðrum. Vegna hógværðar og umhyggju varð Hilmar farvegur gæsku. Hann þjónaði og kunni listina að lifa fallega.

Þegar við hugsum um fólk – gott fólk – sjáum við oft lífið í stærra samhengi og skynjum jafnvel spor eilífðar. Gæska í tíma vekur vitund um hið stóra og mikilvæga. Hendi Hilmars með pensil og örk er mynd af skapara og verðandi. Til hvers að skapa? Til að efla lífið. Til hvers að draga upp myndir? Til að gleðja og efla. Til hvers er list? Til hvers lifum við sem menn? Hlutasvörin eru að list og einstaklingur eru aldrei aðeins í eigin þágu – sjálfhverf og eigingjörn – heldur tengd hinu stóra. Og trúmaðurinn sér í allri framvindu heimsins að lífið hefur ekki bara smátilgang heldur fjölþætta merkingu, margbreytilega gleði, stórt samhengi – af því til er Guð sem elskar og þjónar.

Ætt og uppruni

Hilmar Sævald Guðjónsson fæddist í Reykjavík 27. janúar 1941. Móðir hans var Halla Sæmundsdóttir (f. 24. janúar 1918  d. 18. október 2013) og Guðjón Steingrímsson (f. 2. desember 1917, d. 12. apríl 1996). Guðjón lést fyrir nær 18 árum en milli Hilmars og Höllu voru aðeins fjórir mánuðir. Hún lést í október síðastliðnum. Foreldrar Hilmars, þau Halla og Guðjón, bjuggu ekki saman og Halla fór með Hilmar ungan og óskírðan norður til ættfólks hennar í Strandasýslu. Hún sendi svo tilkynningu suður síðar að hann drengurinn héti Hilmar – og reyndar var hann Sævald að auki.

Fyrir norðan kynntist Halla Jóhanni Snæfeld og giftist honum. Þau bjuggu á Hamarsbæli við Steingrímsfjörð. Af bæjarnafninu fékk Hilmar svo viðurnefndið Hilmar í Bælinu! Fóstri Himars, Jóhann, reyndist honum hinn besti vinur og fóstri.

Hilmar eignaðist marga bræður og systur og var elstur í stórum hópi systkina. Sammæðra á hann systurnar Bettý, Kolbrúnu og Báru – allar Snæfeld. Samfeðra á hann systkinin Magnús,  Steingrím, Sigríði, Ingólf og Kjartan. Þau lifa öll bróður sinn.

Mótun

Í Hamarsbæli komst Hilmar til manns, lærði að axla ábyrgð, þjóna fólki og lífi. Hann lærði að fara á sjó og sækja björg í bú, lesa tekningar í Popular Mechanics, vanda til allra verka og smíða stórt úr litlu. Strandamenn hafa um aldir smíðað báta og Hilmar vissi vel að hugur og hönd urðu að vinna saman og allt yrði að falla vel til að fleytan yrði góð. Hann gat því öruggur sjósett kajak sinn sem hann smíðaði ungur. Hann lærði einnig að aga innri mann og í fjölskyldu hans var höfð fyrir honum reglusemi, natni og heillyndi. Hann lærði einnig af ástvinum sínum að betra er að vera umtalsfrómur en leggja öðrum illt til. Svo lærði hann að gefa – og jafnvel of vel að betra er að gefa en þiggja.

Jóhann, fóstri Hilmars, sótti sjó og Hilmar fór í róðra um leið og hann hafi getu til. Á sjó var ekki bara fiskur og fegurð. Hilmar varð snemma góður skotmaður og þeir fóstrar skutu fugl til matar. Jóhann mundaði haglabyssu og skaut oft marga í skoti en Hilmar stóð í bátnum, dansaði limamjúkt í takt við ölduna og skaut svo markvisst og hratt að hann veiddi oft meira en sá sem skaut marga í skoti. Hilmar kenndi svo strákum sínum og jafnvel sonarsonum að skjóta. Engum sögum fer af skotum kvenna sem af Hilmari eru komnar!

Íbúum í Kaldrananeshreppi fjölgaði mjög um miðja tuttugustu öldina og skóli var byggður í Drangsnesi og var tekinn í notkun árið 1944. Í skólanum var bæði kennt og messað – og svo er enn. Í þennan fjölnota barnaskóla sótti Hilmar menntun sína.

Bændur í Hamarsbæli bjuggu ekki við fé heldur fisk og sjór var sóttur af kappi. Hilmar var því óbundinn af stað og búskap móður og fósturföður og frjáls til atvinnu. Steingrímsstöð við Sog var byggð á árunum 1957-60. Þar starfaði Guðjón, blóðfaðir Hilmars, og ungi maðurinn fékk þar vinnu einnig. Það varð til að þeir feðgar kynntust betur og áttu eftir að vera í talsverðum og oft miklum samskiptum síðan.

Eftir vinnu í Steingrímsstöð var Hilmari ljóst að gæfulegt væri að afla sér atvinnuréttinda. Og Hilmar hóf nám við Iðnskólann á Skólavörðuholti og lauk þaðan tækniteiknaranámi árið 1972. Um árabil starfaði hann síðan á verkfræðistofu Benedikts Bogasonar. Árið 1979 færði hann sig um set og gekk til liðs við stórfyrirtækið Phil & Sön í Kaupmannahöfn. Þar var hann tækniteiknari í þrjú ár. Hjá Benson innréttingum starfaði hann frá árinu 1982 og síðar við auglýsingagerð, innréttingahönnun og smíði.

Þegar í bernsku teiknaði Hilmar af miklu listfengi myndir af Hamarsbælisbátunum. Alla tíð var hann drátthagur, hafði áhuga á línum og teikningu. Og ástríðan til hins auða blaðs leiddi til að árið 1969 fór Hilmar á námskeið við Myndlistarskóla Reykjavíkur og naut leiðsagnar ýmissa meistara, m.a. Hrings Jóhannessonar – og fór svo að kenna sjálfur. Yfir fjörutíu ár var Hilmar síðan tengdur skólanum og naut þess að vera fullgildur þáttakandi þessarar merku listasmiðju og uppeldisreit. Auk þess að Hilmar kenndi teikningu um árabil sá hann einnig um viðhald, smíðar og breytingar. Eftir að hann varð fyrir heilsufarsáfalli fyrir liðlega áratug dró hann úr kennslu en þjónaði skólanum áfram með ýmsum hætti. Og í Myndlistarskóla Reykjavíkur lauk hann ævi og starfi. Þar varð Hilmar kvaddur burt úr heimi með skyndingu og fyrirvaralaust þann 11. febrúar síðastliðinn.

Hjúskapur
Hilmar kvæntist Ásthildi Sveinsdóttur, þýðanda, árið 1962. Þau skildu áratug síðar í vinsemd og stóðu saman vörð um hag sona sinna þriggja. Elstur er Pétur Sævald. Hann er viðskiptafræðingur. Kona hans er Margrét K. Sverrisdóttir, íslenskufræðingur. Þau eiga börnin Kristján Sævald og Eddu.

Síðan komu tvíburarnir Axel Viðar og Snorri Freyr.

Axel er verkfræðingur og kona hans er Ásdís Ingþórsdóttur, arkitekt. Dætur Axels og fyrri konu hans, Þórnýjar Hlynsdóttur, bókasafnsfræðings, eru Sunna og Álfrún. Börn Ásdísar eru Guðmundur og Linda.

Snorri Freyr er leikmyndateiknari. Kona hans er Ann Söderström, sem stundar nám í þjóðfræði. Dóttir þeirra er Hilda Sóley. Börn Snorra og fyrri konu hans, Láru Hálfdánardóttur, kennara, eru Skarphéðinn og Unnur.

Sambýliskona Hilmars var Jóhanna Thorsteinson,  kennari. Þau slitu samvistir en ekki vináttu.

Hilmar var drengjum sínum góður og natinn faðir. Hann hafði gleði af barnabörnum sínum, naut samvista við þau og að fræða þau. Hann föndraði með þeim, smíðaði og vakti yfir framvindu í lífi þeirra. Og svo var hann mikilvægur börnum Jóhönnu líka.

Ég hef verið beðinn að bera þessum söfnuði kveðju frá Ásthildi, fyrrverandi eiginkonu Hilmars, sem er á sjúkrahúsi og komst ekki til þessarar athafnar. Ennfremur hafa Kristinn Sæmundsson og Þorbjörg, kona hans, beðið fyrir kveðjur. Þá hafa Sjöfn og Auður, frænkur Hilmars sem eru erlendis, beðið fyrir kveðjur til þessa safnaðar. Einnig eru kveðjur frá frá Önnu Fanney Helgadóttur og Valdimar Jónassyni.

Myndirnar af Hilmari

Hilmar dró upp myndir. En hvaða mynd er dregin upp í huga þinn af Hilmari? Hvernig minnistu hans? Og hvað viltu muna og af hverju?

Manstu hve elskulegur hann var? Manstu hve bóngóður hann var? Sástu Hilmar einhvern tíma setja upp eldhúsinnréttingu? Kom hann jafnvel til þín til að hjálpa við að leggja partkett, smella upp gerektum og baðinnréttingu eða lagfæra skáp- eða dyrahurð, sem var orðin skekkt eða féll ekki lengur vel í fals? Hilmar hefur væntanlega ekki innheimt stórar upphæðir? Það var ekki hans stíll. Hvernig ætlar þú að þakka fyrir greiða og gæsku?

Manstu hve hógvær Hilmar var? Aldrei tranaði hann sér fram og undi glaður við sitt. En gott þótti honum að vera háseti á fleyi listarinnar í landinu. Hann undi vel í Myndlistaskólanum og var metinn að verðleikum til hinsta dags. Lof sé samstarfsfólki og yfirmönnum skólans fyrir þá elskusemi sem Hilmar naut þar og þá hlýju sem þau sýndu fjölskyldunni við fráfall hans.

Var hann þér fyrirmynd í tengslum við fólk? Brostu ekki augu hans við veröldinni? Manstu hve hlýlegur hann var í samskiptum og tók börnum. Manstu hve iðjusamur hann var? Manstu þegar hann settist niður með bilaðan hlut, stóran eða smáan til að skoða gangverkið, athuga hvort hægt væri að laga, smíða varahluti eða flikka til svo hægt væri að koma í gagnið á ný? Hilmar var fremur maður endurvinnslunnar en neyslunnar og því varð í höndum hans margt til úr “engu.” Það sem aðrir hefðu kastað á hauga naut náðar í augum hans og var komið til brúks á ný. Jafnvel ryðgaður lás reis upp til nýs lífs vegna þess að Hilmar hafði í sér þolinmæði til að sitja við og pússa, liðka og laga. Gangverk eilífðar birtist í fingrum og tíma Hilmars.

Á síðari árum fór hann æ oftar heim í Hamarsbæli og síðustu misserin undi hann glaður við að gera bæinn upp. Þið fjölskylda og ástvinir Hilmars munuð njóta verka hans um ókomin ár.

Hamarsbæli himinsins

Og nú er Hilmar farinn. Ekki fleiri pensilstrokur og engar fleiri skissur. Einu sinni talaði Hilmar við sonardóttur sína um himininn og ferð sína inn í eilífðina. Í hógværð sinni eða jafnvel sjálfsgagnrýni sagði hann henni að hann væri ekki viss um að komast inn í himininn. En hún hafði góða þekkingu á afa sínum og fullkomnunarsókn hans. Hún taldi líka víst að gangverk og opnunarbúnaður gullna hliðsins væri ekki beintengt við sjálfsgagnrýni og verk mannanna. Og það er rétt og góð guðfræði. Opnunarbúnaður himinsins er mekaník sem teiknarinn mesti hefur hannað, smíðað og prufkeyrt sjálfur. „Jú afi minn þú flýgur inn í himininn“ var hennar niðurstaða.

Íhugun Hilmars er eðlileg og sammannleg. Að okkur sækja þankar um framvindu lífsins og hvernig eilífðin verður uppteiknuð og með hvaða línum, birtu og skuggum. En lífið er ríkulegt og ekki eitt strik og svo allt búið. Öldurnar í hafinu, vindurinn, sólstafirnir, undur hjalandi barna, merkingin í öllu því besta sem mennirnir upplifa læðir að þeim grun um að lífið er ekki smátt heldur stórt, að við megum eiga von á að það sé meira en snögg blýantslína. Trúin lokar ekki heldur opnar – kristnin boðar elsku, frelsi, hinar frjálsu línur – að heimurinn sé vel teiknaður og fallega. Himinn er opinn fyrir menn og líf. Menn sem fæðast með eilífð í augu og fingrum eru gerðir fyrir framhald. Það er þokkinn í skissu teiknarans mesta. Heimurinn er dreginn upp af ástríki og lífsarkirnar eru fullar af gleðiefnum.

Himinn er opinn fyrir Hilmar. Nú er hann farinn inn í hina frjálsu, fallegu, undursamlegu mynd sem Guð teiknar.

Guð geymi Hilmar Sævald Guðjónsson og Guð teikni þig vel.

Amen.

Minningarorð í Neskirkju 26. febrúar, 2014. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði.