Greinasafn fyrir merki: trú

Músík sálarinnar

Á kirkjuhurð Hallgrímskirkju standa orðin: „Komið til mín.“ Þar stendur ekki farið – heldur komið. Og koma til hvers? Ávarpið er persónulegt. Það er Jesús sem segir. „Komið til mín.“ Hann er uppspretta lífs, heimsljós, vinur og verndari sem talar. „Komið til mín“ eru hvatningarorð hans til allra manna og fyrirheit um tengsl. Yfir dyrunum er vers Hallgríms Péturssonar úr 24. Passíusálmi og með fagurri stafagerð Leifs Breiðfjörðs. Þetta merkilega dyraávarp er svona:

„Þá þú gengur í Guðshús inn
gæt þess vel, sál mín fróma,
hæð þú þar ekki herrann þinn
með hegðun líkamans tóma.

Beygðu holdsins og hjartans kné,
heit bæn þín ástarkveðja sé.
Hræsnin mun síst þér sóma.“

Þessi magnaða kveðja er til íhugunar og mótunar. Í dag er bænadagur og líka mæðradagur. Það er mesta happ allra manna að eiga góðan föður og góða móður. Og á mæðradegi er gott að rifja upp og íhuga hvað mæður gerðu og gera. Svo er kirkjan kristnum móðir eins og segir svo fallega í sálminum sem við syngjum í dag.

Á bænadegi koma mömmuminningar í minn huga. Mamma kenndi mér að tala við Guð sem vin og sem móður. Hún kenndi mér líka að biðja Faðir vor og bænavers fyrir kvöld- og morgunbænir. Hún kenndi mér að leggja fram lífsefnin fram fyrir hinn vel hlustandi Guð á himnum.

En heyrir Guð? Ég velti vöngum yfir Guðshlustuninni. Þegar ég var barn ræddum við mamma stundum um hvort eyrað á Guði væri svona stórt að það heyrði allt. Hafði Guð kannski mörg eyru og hvernig væri svarað? Væri eitthvað kerfi í svörunum? Væri þjónusta stórguðsins við smáfólkið svo alger að hún væri persónuleg og aðlöguð þörfum hvers og eins? Mamma var viss um að hvert orð væri heyrt sérstaklega og brugðist væri við öllum smáatriðum í bænum. En við ættum að muna að biðja alltaf í þeim anda að Guðs vilji verði áður en við lykjum með ameninu.

Svo kenndi mamma mér að bænirnar eru eitt, en líf okkar væri best og fegurst ef það væri ein samfelld bænaiðja. Líf okkar mætti helst vera þannig, að það væri eins og bænaferli. Milli morgun- og kvöldbæna væri tími, hugsanir, samskipti, vinna og verk sem trúmenn ættu að helga Guði, ekki síður en frátekinn bænatíma. Ég trúði þessu því mamma lifði í samræmi við trú sína. Bæn og ábyrgð fóru saman. Hennar kristindómur var sömu ættar og Hallgríms Péturssonar, að trú væri ekki tæki í þágu manns sjálfs heldur ástartengsl við uppsprettu lífsins sem við mættum rækta í þágu allra. Trú og verk, orð og æði færu saman. Tengsl við Guð hefðu afleiðingar til góðs fyrir aðra. Heit bæn er ástarkveðja og beinist að heimi ekkert síður en himninum.

Þegar ég eltist fylgdist ég stundum með helgistundum móður minnar. Þegar pabbi var dáinn, amma einnig og börnin flogin úr hreiðrinu, átti hún daginn og stundirnar og gat nýtt tímann í samræmi við eigin þarfir og langanir. Þá las hún skáldsögur, ljóð, frásögur og alls konar bókmenntir. Hún var kona orðanna. Svo las hún líka í Biblíunni góða stund og síðan í einhverri hugvekjubók. Þessar bækur bera merki um notkun. Síðan bað hún. Þegar heyrnin var farin til Guðs á undan henni, eins og Sigurbjörn Einarsson orðaði það, var hún farin að tala við Guð með nokkuð hærri rödd en áður og skeytti engu um hvort einhverjir væru nærri. Hún umvafði alla ástvini og fyrirbænarefni elsku sinni og sendi óhikað og með fullu trausti langt inn í himininn. Þetta var guðsþjónusta mömmu og allir dagar voru bænadagar.

Það var heillandi að hlusta á gamla konuna biðja fyrir ástvinum sínum. Að eiga sér fyrirbiðjanda er ríkidæmi. Þegar við, fólkið hennar, rötuðum í vanda í lífinu bar hún hann fram fyrir Guð. Þegar allt gekk vel og við nutum gæða og hamingju vissum við að það allt var einnig orðfært við Guð. Hún bað fyrir garðinum sínum og gróðri, nágrönnum og málum þeirra. Meira segja spretta og heyskaparhættir norður í Svarfaðardal voru mál sem hún taldi rétt að nefna við Guð. Ef einhvern hefur undrað árgæska nyrðra er kannski ein skýringin að kona við Tómasarhaga í Reykjavík var með á nótum og lyfti upp í himinhæðir.

Þegar mammna var á tíræðisaldri fékk hún tappa í heila og minnið hvarf að mestu. En trúin hvarf þó ekki eða samræðan við Guð. Í kjarna mömmu var músík sálarinnar, söngurinn um Guð og samtalið við Guð. Hvað ungur nemur gamall temur og fer í kjarnann. Það sem þjálfað hefur verið alla ævi nýtist á neyðarstund. Síðustu dagana í þessu lífi gat mamma ekkert talað. Þegar komið var að lífslokum hennar sat Elín Sigrún, kona mín, hjá henni og þá allt í einu og skyndilega opnaði mamma augun og sagði hátt og skýrt: “Amen!” Meira sagði hún ekki. En þetta amen var örugglega endir á bænagerð í huganum, því amen var ekki til eitt og sér heldur sem lokaorð í beinu samtali við Guð. Meira sagði móðir mín ekki í þessu lífi. Amen var hennar hinsta orð, lokorðið í allri orðræðu lífsins. Hún var bænakona og þegar lífi var lokið kemur amen og þá dó hún. Þegar amen er sagt heyrir eyra Guðs, opnar faðminn og svarar með ástarkveðju og iðju. Líf sem er bænalíf og endar með amen er gott líf.

Þetta þykir mér gott að rifja upp á bænadegi og til íhugunar fyrir okkur við byrjun nýs tíma í starfi Hallgrímskirkju. Ung kona hringdi í mig á föstudag til að panta kirkjuna fyrir hjónavígslu í haust. Hún vildi fá að ganga í hjónaband í kirkjunni því “Hallgrímskirkja er frábær“ sagði hún. Og við vorum sammála. Skömmu fyrir guðsþjónustuna áðan voru ferðamenn frá New York sem töluðu fjálglega um hve falleg kirkjan væri. Já, hún er hrífandi, björt og stílhrein. Kirkjan er líka gott ómhús fyrir söng og margar gerðir tónlistar. Listaverkin heilla einnig í þessum ljósmusteri. Stórkostleg verk Leifs Breiðfjörðs hrífa og margir staldra við Kristsstyttu Einars Jónssonar. Kirkjuleg fegurð varðar ekki aðeins útlit, efni, liti eða form, heldur fremur að kirkja er hús Guðs. Það er aðalatriði og kirkjulegt skilgreiningaratriði handan smekks einstaklinga. Kirkja er hús fyrir samfélag, fyrir mikilvægustu söngva lífsins og bestu orð veraldar. Kirkja er veruleiki og samhengi þess að himin og jörð kyssast. Fegurð kirkju er frá Guði. Hallgrímskirkja er fallegt hús því hún er hlið himins. Og slíku húsi tilheyrir list fyrir augu, eyru, munn, nef og sál. Hallgrímskirkja er stórstaður í borgarlandslaginu, jafnvel einkenni borgarinnar og lógó ferðamennskunnar. Hallgrímskirkja teiknar sjónarrönd Reykjavíkur. Þegar farið er yfir ferðasíður heimsins kemur í ljós að kirkjan er heimsótt sem kirkja. Stórmiðillinn the Guardian felldi þann úrskurð að kirkjan væri eitt af tíu mikilvægustu íhugunarhúsum heimsins. Hingað hefur fólk komið til að fá gott samband, inná við, út og upp. Tugir milljóna ferðalanga lífsins hafa fundið, að eitthvað hefur smollið í lífi þeirra. Þeir hafa náð sambandi við himininn. Og þannig hús á þessi kirkja að vera, staður til að tengja.

Kirkjan er oss kristnum móðir. „Komið til mín“ segir Jesús og Hallgrímur bætir við:

Þá þú gengur í Guðshús inn
gæt þess vel, sál mín fróma …

Beygðu holdsins og hjartans kné,
heit bæn þín ástarkveðja sé.

Íhugun á bænadegi og alþjóðlegum mæðradegi. 

Doktor Jesús Kristur og Matthías

Matthías Jochumsson var risi í menningarlífi Íslendinga, skemmtilega frakkur guðfræðingur og eitt besta sálmaskáld þjóðarinnar bæði fyrr og síðar. Í dag er eitt hundraðasta ártíð Matthíasar, en hann lést 18. nóvember árið 1920.

Matthías Jochumsson var samsettur maður og hugðarefnin voru því fjölbreytileg. Af bréfum og bókum hans má vel sjá hvílíkur lestrarforkur hann var. Hann reif í sig það, sem hann náði í og skrifaði síðan um stefnurnar, hugmyndirnar og bækurnar. Hann var afar hrifnæmur og hreifst af hverjum nýjum kenningavindi, sem honum barst. Þótt Matthías væri nýjungagjarn sagðist hann þó lesa eins og hann væri að lesa Sturlungu, taka það gott og gilt, sem honum þætti skynsamlegt! En eigið sjálfsmat getur blekkt, ekki síst ef skaphöfnin er ólgukennd. Líklega hefur blaðamaðurinn og fagurkerinn í Matthíasi verið öflugri en greinandi kerfissmiðurinn.

Guðfræðibyltur

Matthías var farvegur erlendra strauma í guðfræði. Hann var byltingamaður í flestum greinum mannvísinda og sérlega mikilvægur íslenskri kristni því hann vakti athygli landa sinna og þ.m.t kirkjumanna á þeim vatnaskilum, sem urðu með vísindahugsun nítjándu aldarinnar. Í ritum hans birtist sígruflandi hugur, sem ekki festi andans trúss við neina kreddu og kenningu. Matthías dró sjálfur saman eigin trúarstefnu og skoðanamyndun:

„…minn idealismus, minn individualismus og minn subjectivismus þolir engar kreddur eða mannlegar doctriner; þess vegna átti ég aldrei þjóðkirkjuklerkur – og kannske alls enginn – klerkur að vera.“

Þannig leit hann á og segir talsvert um stöðu þjóðkirkju fyrir liðlega hundrað árum. Þjóðkirkjan varð, m.a. fyrir tilstilli Matthíasar, rúmgóð og þolgóð kirkja, sem hvetur til fjölbreytileika og víðfeðmi.

Uppvöxtur

Matthías Jochumsson fæddist í Skógum í Þorskafirði á Marteinsmessu, 11. nóvember, 1835 og lést 18. nóvember árið 1920. Bernskuheimilið virðist hafa verið fjörmikill vettvangur andans. Þar var ákaft rætt um hræringar tímans og meðal annars um trúmál. Virðast foreldrar Matthíasar ekki hafa veigrað sér við að skoða annarlegar kenningar. Matthías vandist því þegar í foreldrahúsum umræðum um trúmál. Hann var sendur til starfa og náms í menningar- og verslunarmiðstöðinni í Flatey. Liðlega tvítugur fór hann utan og var veturinn 1856-57 í Kaupmannahöfn. Hann hóf síðan nám í Lærða skólann í Reykjavík og lauk stúdentsprófi árið 1863. Tveimur árum síðar lauk hann prófi frá Prestaskólanum, þá tæplega þrítugur.

Matti í Móum

Matthías var vel lesinn og hafði þegar tekið út nokkurn þroska áður en hann hóf nám. Hann var því sjálfstæður í skóla og fór eigin leiðir, svo sem sjá má í fjörlegri og bersögulli sjálfsævisögu hans Sögukaflar af sjálfum mér. Matthíasi var veitt Kjalarnesþing í ágúst 1866 og vígðist í maí 1867. Bjó hann á Móum og kallaði sig gjarnan Matta í Móum í bréfum á þessum tíma.

Dauðsföll og dramatík
Matthías var þríkvæntur. Elín Sigríður Didrichsdóttir lést annan jóladag 1868 eftir aðeins þriggja ára sambúð þeirra. Enn skemmri var sambúð hans með Ingveldi Ólafsdóttur, sem hann kvæntist í júlí 1870. Lést hún tæpu ári síðar í júní 1871. Gekk kvennamissirinn mjög nærri hinum geð- og tilfinningaríka Matthíasi. Festi hann ekki yndi við prestsskapinn og lagðist í útlandaflakk. Fór hann um Danmörk og Noreg 1872-73 og var í Englandi 1873-74. Í þessum ferðum kynntist hann mörgum andans jöfrum og peningamönnum. Var hann styrktur af enskum unitörum til að kaupa blaðið Þjóðólf og ritstýrði honum frá 1874-80. Vænkaðist og hagur hans í einkamálum.

Í júlí 1875 kvæntist hann Guðrúnu Runólfsdóttur og nutu þau samvista í 45 ár. Lifði Guðrún mann sinn. Þau eignuðust tíu börn! Matthías var prestur í Odda á árunum 1880-86 og síðan á Akureyri 1886-99. Bjó hann nyrðra til dauðadags og er heimili þeirra hjóna, Sjónarhæðir, varðveitt sem minjasafn.

Skáldskapur og ritstörf

Kunnastur er Matthías Jochumsson fyrir ritstörf sín. Eftir hann liggur gífurlegt magn af greinum, ljóðum, sálmum, þýðingum og öðru frumsömdu efni. Lofsöngin „Ó, Guð vors lands…“ samdi hann vegna hátíðahaldanna og konungskomunnar áruð 1874. Varð sálmurinn síðar þjóðsöngur Íslendinga.

Unitaraguðfræði

Þótt Matthías væri hverflyndur í trúarkenningum og menningarmálum, er þó kenningaslóði, sem hægt er að greina, í flestum ritverkum hans. Áberandi er, að Matthías virðist hafa aðhyllst ýmsar hugmyndir ameríska unitarans Channing. Matthías hafði þó aldrei þolinmæði til að fjalla skipulega um trúfræði eða samræma hugmyndir sínar. Þær voru í sífelldri mótun. Ritgerðir hans voru sem sjálfstæð myndverk en ekki hluti heildar. Skáldið skapaði fremur eindir en síður endanlegan heim heildar.

Matthías gerði skynsemi manna hátt undir höfði. Eins og margir guðfræðingar um aldamótin 1900 greindi hann skarplega að trú og kenningu. Kenningakerfi vildi hann fyrst og fremst nálgast með hjálp skynseminnar. Þótt Matthías væri ávallt hinn heitasti trúmaður vildi hann lesa Biblíuna fyrst og fremst með hjálp vitsmuna.

Guðsmynd Mattíasar

Þær hugmyndir, sem Matthías gerði sér um Guð, eru í anda rómantísku stefnunnar. Guð, sem hann tilbað, var Guð jafnvægis, en jafnframt skapandi Guð, sem kallað hefur fram allan heim. Matthías trúði því, að Guð væri alls staðar að starfi. Ekki áleit hann, að Guð væri sama og heimur. Hann var ekki algyðistrúar (panteismi). Hann var fremur pan-en-teisti. Það merkir, að Matthías lagði áherslu á, að Guð sé með ákveðnu móti í heiminum. Allt efni, frá hinu smæsta ódeili til hinna stóru stjörnukerfa, taldi hann gegnsýrt veru Guðs. Þessi guðsívera einkennist af lífi, ljósi og kærleika. Mönnum er auðið að njóta þessarar návistar eða sljóvga hana og kæfa. Okkur er í sjálfsvald sett, hvort við leyfum guðsstarfinu að vinna gott eða hvort við drepum það í dróma.

Matthías virðist ekki hafa efast um, að Guð væri algóður og réttlátur. Hins vegar átti hann erfiðara með að viðurkenna réttmæti þeirrar kenningar, að Guð væri þríeinn. Hann trúði á Guð föður, en síður á Guð í þremur hlutverkum, í mynd föður, sonar og anda. Guð hans var faðir lífs, máttugur kraftur, sem kallar líf úr dauða, bregður ljósi upp í myrkri, útdeilir gæsku í kröppum kjörum og leiðir með umburðarlyndi breisk börn sín til þroska og visku.

Doktor Jesús Kristur

Kristsdýrkun Matthíasar var ávallt mikil. Svo er að skilja á sumu því sem hann skrifar, að Jesús Kristur hafi verið lítt meira en maður. Aldrei virðist hann þó hafa efast um, að Jesús hefði mjög mikilvægu hlutverki að gegna í mannheimi sem fulltrúi Guðs, siðferðisviðmið, lærimeistari og fullkominn maður. Hann talaði jafnvel um hann, sem doktor Jesú Krist! Eftir því sem árin færðust yfir Matthías óx Kristsdýrkun hans þó hann tæki ekki beinlínis fræðilegum afleiðingum af tilbeiðslu sinni.

Höfuðlausnir og möguleikar

Eins og margir unitarar og rómantískir hugsuðir á nítjándu öld hafði Matthías mikla trú á möguleikum manna til sigra í heimi andans. Hann trúði á siðferðilegar framfarir manna. Hann taldi, að mannkyn væri á þroskabraut. Hann tók mjög nærri sér böl, vonsku og hörmungar, bæði í einkalífi og preststarfi. Fátt var honum erfiðara viðfangs en dauði ungmenna. Eitt erfiðasta verkið í lífinu þótti honum að tilkynna ekkju lát sona hennar. Oft rugluðu tilfinngarnar hann og í aðkrepptum eða yfirspenntum aðstæðum vissi hann ekki sitt rjúkandi ráð. Trúarlíf hans var líkara stríðum straumi og ólgandi hafi en lygnum sæ. Margir sálmar hans urðu til við sorgarglímu og voru n.k. höfuðlausnir. Sér og öðrum til hugarhægðar talaði Matthías um mannkyn í anda dæmisögu Jesú um glataða soninn. Hann taldi, að skuld manna væri stór við höfund lífsins og að allt væri að láni; heilsa, líf, gáfur og gæði. Gegn hinum myrku þáttum mannlífs barðist hann, en vildi samt ekki gera of mikið úr þeim.

Allir með

Í ljósi skynsemisáherslu og bjartsýnnar heimsskoðunar hafnaði Matthías fornum kenningum um útskúfun og glötun. Lenti hann í stælum um þau atriði frá og með 1891 og varð hann að draga í land, sjálfsagt gegn betri vitund. Biskup bað Matthías, sem þá var þjónandi prestur, að taka orð sín aftur um ógildi útskúfunarkenningarinnar. Almannrómur taldi, að ef hann hefði ekki beðist velvirðingar á skrifum sínum, hefði hann verið sviptur hempunni. Svo mun þó ekki hafa verið.

Guð getur

Skáldpresturinn fetaði eigin stigu. Þrátt fyrir bölið í heiminum hélt Matthías fast í trúna á góðan Guð. Hann möglaði við Guð og menn og leysti ekki með vitsmunum, fremur en aðrir, gátuna miklu um eðli þjáningarinnar. En Matthías átti sér lausnarleið. Hann skaut gjarnan þungbærum þrautum og torráðnum gátum til Guðs, sem hann treysti fyrir leyndustu hörmum og taldi Guð eiga ráðsnilld gagnvart hvers kyns vanda.

Þegar líf, ljóð og skrif Matthíasar eru skoðuð blasir við glíma trúmannsins við Guð. Ritverk hans eru flott, en mesta gildi Matthíasar er hvernig hann túlkar þau fangbrögð. Kreddur og kerfi vöfðust aldrei fyrir honum hvernig sem í hann var rifið hið innra eða ytra. Þótt allt brysti hvarf honum aldrei samfylgd hins guðlega. Það heitir trú á máli kristninnar. Matthías er ekki mesti trúarhugsuður Íslendinga en eitt af bestu trúarskáldum síðustu tveggja alda. Og hann var þjóðskáld.

 

Hvenær endar þetta?

Fólk er orðið þreytt á faraldrinum. Bylgjan nú er mörgum þungbærari en í vor. Ekki sér til enda farsóttarinnar. Veiran hemur samfélag manna. Þreyta fólks, ótti og leiði hefur nafn; fararsóttarþreyta. Sú þreyta er jafnvel í veldisvexti. Þegar álag vex og ekki sér út úr kófinu verður styttra í kviku fólks. Samfélagsstreitan vex og ósætti líka. Deilur hafa vaknað um hvert eigi að stefna og hvað og hver eigi að ráða. Hverjum á að þjóna í samfélaginu í aðkrepptum aðstæðum? Það eru djúpu siðferðisspurningarnar sem dynja á okkur þessa daga.

Hvenær dagar?

Einu sinni var spekingur í fornöld að kenna nemahóp og spurði spurningarinnar: „Á hvaða augnabliki endar nóttin og dagurinn byrjar?“ Einn neminn svaraði: „Það er þegar nógu bjart er til að hægt sé að greina milli hunds og kindar.“ Annar sagði: „Þegar það er nógu bjart er til að sjá hvað er ólífutré og hvað fíkjutré.“ Meistarinn sagði: „Þetta eru góð svör en þó ekki hin réttu. Svarið er: „Þegar ókunnugur maður kemur og við höldum að hann sé bróðir okkar og allar deilur hætta, þá er nákvæmlega stundin þegar nóttin endar og dagur byrjar.“

Hvað finnst þér um svona svar? Það er ekki svar um birtumagn eða myrkur, ekki um skilgreiningar eða yfirborðsmál heldur er það svar um fólk og lífsgæði. Þegar ókunnugir koma sem við ekki þekkjum og við sjáum í þeim hrífandi fólk, vini, eins og systur og bræður og höfum bara löngun til að gleðjast með þeim þá endar nóttin. Þegar við virðum aðra og metum enda deilurnar og dagurinn getur orðið bjartur.

Þrennan

Textar þessa sunnudags kirkjuársins eru eins og burðarvirki menningar og kristni. Lexían úr gamla testamentinu eru boðorðin. Þau eru eins og umferðarreglur fyrir lífið, forskriftir um hvað gagnist fólki í samskiptum. Í nýjatestamentistextanum segir frá að spekingur í lögfræði lífs og samfélags fór til Jesú Krists til að að spyrja hann hvernig hann fengi botn í lífsreglurnar og lögspekina. Hvað er æðsta boðorðið? spurði hann. Og Jesús svaraði með því að fara með það sem Gyðingar allra alda hafa lært: Shema Yisrael ( Heyr Ísrael… ). Það er æðsta boðorðið um að elska Guð algerlega, með sínu innsta inni, með skilningi og í öllu athæfi og annað fólk eins og sjálft sig. Þessi lífsspeki Gyðingdómsins – Shema – er arfur spekinnar í kristninni líka. Þetta boð er nefnt tvöfalda eða tvíþætta kærleiksboðið en það má líka kalla það þrefalda kærleiksboðið. Það er þrenna: Ást til Guðs, annarra og sjálfs sín. Allt þarf að vera í jafnvægi til að vel sé lifað. Ef fólk elskar bara aðra en ekki sjálft sig verður innra hrun. Ef maður elskar bara sjálfan sig hrynur maður inn í sjálfan sig og hamingjan visnar. Ef sambandið við Guð dofnar er lífi ógnað samkvæmt trú og reynslu þúsunda kynslóða.

Siðferði – líf

Hvenær endar nóttin og hvenær byrjar dagurinn? Lífið flæðir alltaf yfir mörk. Ekkert þolir algerar skorður og kassahugsun. Það er hægt að þjálfa fólk í hlýðni, en allt verður til einskis og óhamingju nema ræktin verði á dýptina í fólki. Það var þessi innsýn sem Jesús tjáði með því að beina sjónum að baki lögum og reglum og inn í fólk. Alla leið.

Jesús hafði enga trú á ytri þjónkun ef innri maður var ósnortinn. Hvaða skoðun hefur þú á því? Við getum lifað við allsnægtir en þó verið frosin, búið við stórkostleg kerfi, þróaða löggjöf og háleitar hugsjónir en ekkert verður þó gott nema fólk sé ræktað til dýpta. Jesús sagði að fólk væri ekki heilt nema innri maður þess væri tengdur hinu góða.

Hvenær endar nóttin og hvenær byrjar dagurinn? Það er þegar við viðurkennum dýrmæti annarra, að aðrir eru djásn Guðs, ómetanleg og undursamleg þá getum við elskað. Og dagur er á lofti þegar við virðum aðra eins og okkur sjálf. Getum við tamið okkur slíka mannsýn, mannrækt, mannelsku? Snilldarviðbót Jesú Krists var að Guð legði ekki aðeins til hugsun, mátt, kraft og anda heldur gerði eitthvað í málum, kæmi sjálfur. Guð sætti sig ekki við myrkur fólks heldur horfir á mennina sem sína bræður og systur. Saga Jesú er saga um dagrenningu heimsins, að Guð ákvað að sjá í mönnum bræður og systur. Okkar er að lifa í þeim anda.

Í farsóttarþreytu er myrkrið svart, kuldinn sækir í sálina, deilurnar magnast. Þegar innlokanir fara illa með fólk, streitan vex, kvíði og reiði er þarfast að opna, rækta hið jákvæða, sækja í það sem eflir fólk og láta ekki myrkrið taka yfir sál og útrýma vitund um gildi annarra. Hvenær byrjaði dagurinn? Það var þegar Guð horfði með vinaraugum á veröldina. Hvenær byrjar þinn dagur? Þegar þú lærir að lifa í elskuþrennunni.

Verkefnið er að elska Guð, elska aðra, elska okkur sjálf. Það er þrennan fyrir lífið. Og hefur mikil áhrif á hvort dagar í lífi þínu og margra annarra. En Guð í elskuþrennu sinni er þér nærri og styður.

Amen.

2020 11. OKT 18. SUNNUDAGUR EFTIR ÞRENNINGARHÁTÍÐ A

Lexía: 2Mós 20.1-17

Drottinn mælti öll þessi orð: „Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig. Þú skalt hvorki gera þér líkneski né neina eftirlíkingu af því sem er á himnum uppi eða því sem er á jörðu niðri eða í hafinu undir jörðinni. Þú skalt hvorki falla fram fyrir þeim né dýrka þau því að ég, Drottinn, Guð þinn, er vandlátur Guð og refsa niðjum í þriðja og fjórða lið fyrir sekt feðra þeirra sem hata mig en sýni kærleika þúsundum þeirra sem elska mig og halda boð mín. Þú skalt ekki leggja nafn Drottins, Guðs þíns, við hégóma því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt sem leggur nafn hans við hégóma. Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. Þú skalt vinna sex daga og sinna öllum verkum þínum. En sjöundi dagurinn er hvíldardagur Drottins, Guðs þíns. Þá skaltu ekkert verk vinna, hvorki þú sjálfur né sonur þinn eða dóttir, þræll þinn né ambátt eða skepnur þínar eða aðkomumaðurinn sem fær að búa innan borgarhliða þinna. Því að á sex dögum gerði Drottinn himin og jörð, hafið og allt sem í því er en hvíldist sjöunda daginn. Þess vegna blessaði Drottinn hvíldardaginn og helgaði hann. Heiðra föður þinn og móður svo að þú verðir langlífur í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér. Þú skalt ekki morð fremja. Þú skalt ekki drýgja hór. Þú skalt ekki stela. Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum. Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, þræl hans eða ambátt, uxa hans eða asna eða nokkuð það sem náungi þinn á.“

Guðspjall: Mark 12.28-34

Þá kom til Jesú fræðimaður einn. Hann hafði hlýtt á orðaskipti þeirra og fann að Jesús hafði svarað þeim vel. Hann spurði: „Hvert er æðst allra boðorða?“Jesús svaraði: „Æðst er þetta: Heyr, Ísrael! Drottinn, Guð vor, hann einn er Drottinn. Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum. Annað er þetta: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ekkert boðorð annað er þessum meira.“Fræðimaðurinn sagði þá við Jesú: „Rétt er það, meistari, satt sagðir þú. Einn er Guð og enginn er Guð annar en hann. Og að elska hann af öllu hjarta, öllum skilningi og öllum mætti og elska náungann eins og sjálfan sig, það er öllum brennifórnum og sláturfórnum meira.“Jesús sá að hann svaraði viturlega og sagði við hann: „Þú ert ekki fjarri Guðs ríki.“

Jón Vídalín +300

Vídalínspostilla er höfuðrit íslenskrar kristni síðari alda við hlið Passíusálma Hallgríms Péturssonar. Passíusálmarnir eru enn lesnir og reglulega endurútgefnir. Vídalínspostilla var mikið lesin í nær tvær aldir. En postillan hefur í seinni tíð ekki notið sömu vinsælda og áður. Er Vídalínspostilla aðeins vitnisburður um liðinn tíma eða hefur hún enn eitthvað gildi? Þó viðmið fólks hafi breyst og málfar okkar sé annað er bókin klassík.

Þrjú hundruð ár eru liðin frá dauða Jóns Vídalíns sem samdi postilluna. Hann lést 30. ágúst árið 1720. Æfi Jóns Vídalíns var litrík. Þegar hann lauk námi frá Skálholtsskóla var um hann sagt að hann væri borinn til stórvirkja. Jón var stefnufastur maður mikilla hæfileika og varð einn mesti ræðusnillingur Íslendinga. Hann fæddist á Görðum á Álftanesi, naut góðrar bernsku en missti föður sinn aðeins ellefu ára. Þá tóku við þeytings- og mótunarár. Hann var sendur víða, austur á Fáskrúðsfjörð, undir Eyjafjöll, að Þingvöllum, vestur í Selárdal og út í Vestannaeyjar. Jón mannaðist og menntaðist og fór til náms í Kaupmannahöfn. Eftir að hafa flækst í hermennsku kom hann út til Íslands til prestsþjónustu og varð einn yngsti biskup Íslendinga. Postilluna gaf hann út og af miklum metnaði á árunum 1718-20. Ræðustef postillunnar tengjast reynslu höfundarins. Sjúkdómar herjuðu á landsmennn og stjórnvöld brugðust í mörgu. Jón sá á eftir báðum börnum sínum í dauðann. Vídalínspostilla speglar lífsreynslu hans, háska fólks og þjóðaraðstæður en líka þroskaðan mann sem hafði unnið heimavinnuna sína.

Og hvert er svo gildi Vídalínspostillu? Málfar hennar er safaríkt og inntakið lífshvetjandi. Jón Vídalín hafði gaman af stóryrðum og yddaði til að ná eyrum fólks. Orðfæri postillunnar hafði áhrif á málnotkun tilheyrenda og lifði meðal þjóðarinnar. Ræðurnar eru kraftmiklar, snjallar, vekjandi og skemmtilegar aflestar. Postillan gefur góða innsýn í hvernig klassísk fræði, guðfræði og heimspeki voru nýtt til fræðslu og mannræktar. Hún var því fræðandi og menntandi.

Jón Vídalín talaði ákveðið inn í aðstæður samtíðar sinnar. Hann lifði á upphafstíð einfaldskonungs og notaði konungshugmyndir til að túlka eðli og eigindir Guðs, heims og manna. Í postillunni er skýr siðfræði og hvernig siðferði menn eigi að temja sér. Jón Vídalín dró ekki af sér þegar hann benti á ábyrgð fólks gagnvart öðrum og samfélagi manna. Í postillunni er djúp samfélagsspeki, gagnrýni á vond stjórnvöld og Jesústefna um vernd hinna máttlitlu. Í prédikunum er talað með visku um lífshugmyndir manna. Jón Vídalín skipaði ekki fólki fyrir um trú þess eða afstöðu en hvatti til skynsamlegrar og einlægrar skoðunar fólks á stóru og smáu málunum. Postillan var hvetjandi og eflandi fremur en letjandi eða slævandi. Mannlýsingar Jóns Vídalíns eru litríkar og áhugaverðar. Jón Vídalín lýsti mönnum sjálfselskunnar með sjokkerandi nákvæmni. Hann hafði mikil áhrif á hvernig fólk hugsaði um sjálft sig og varnaði markalausri einstaklingshyggju.  

Gildi Vídalínspostillu? Klassísk verk hafa að geyma plús eða merkingarbónus sem er óháður tíma. Vídalínspostilla varpar upp möguleikum á góðu mannlífi og heilbrigðum sjálfsskilningi sem kallar einstaklinga og samfélag til ábyrgðar. Jón Vídalín lagði siðfræðilegan grunn að samúðarþjóðfélagi okkar Íslendinga. Lof sé honum og lesum postilluna.

Greinin birtist í Morgunblaðinu, 29. ágúst 2020, bls. 29.

Nánar um Jón Vídalíns og guðfræði Vídalínspostillu sjá: 

Majesty of God and the Limitation of the World – Vídalínspostilla

Íslandskirkja

Hvað er kirkja? Hvernig er hún og til hvers? Og hvaða stefnu hefur trúmaður í lífinu?

Ólafur Elíasson er orðinn einn frægasti myndlistarmaður heims. Verk hans vekja mikla athygli. Ólafur kom til Íslands í síðustu viku. Tilgangurinn var að opna sýningu í Listasafni Reykjavíkur. Á sýningunni eru jöklaljósmyndir sem sýna dramatískt hop jöklanna á tuttugu árum. Landið, sem kennt er við ís, er að tapa jöklum sínum! Skiptir það einhverju máli? Kemur það Jesú Kristi við? Hefur það eitthvað með trú að gera?

Spurningin varðar tilgang og erindi kirkju í heiminum. Kirkjur eru ekki aðeins athvarf fyrir lífsflóttamenn heldur fremur faðmar fyrir líf. Og Hallgrímskirkja, sem er orðin pílagrímastaður alls heimsins, er nothæf til íhugunar á nútímahlutverki trúmanna. Skipulag guðshússins er merkilegt. Altari í kirkju er staðsett á áhrifaríkasta bletti rýmisins. Þegar fólk kemur að altarinu finnur fólk, að það er statt á „heitum“ reit, sem trúmaðurinn kallar heilagan stað.

Sjónarhornið

Sjónarhorn skipta alltaf máli, alla menn í öllum efnum, líka í kirkjulífi, listum og trú. Hvað sérðu þegar þú situr á kirkjubekknum og horfir inn í kórinn? Þú sérð ekki bíla, hús eða mannlíf heldur himinn, skýjafar og leik ljóssins í skýjabólstrum. Fuglar fljúga stundum fyrir glugga og flugvélar líka. Á sólardögum skín sólin inn um kórgluggana og jafnvel blindar söfnuðinn. Það er eins og að fara inn í ljósríki að ganga að altarinu. Kórinn verður sem upphafinn ljósveröld. Kirkjan er jú forskáli himinsins. Augun leita fram og upp og hlið himins opnast.

En hvað sér maður í kórnum? Sjá þau, sem ganga upp tröppurnar og að altarinu, eitthvað annað en það sem þið sjáið í kirkjunni? Í hvert einasta sinn sem ég fer upp í kórinn og til þjónustunnar undrast ég því útsýn breytist algerlega. Sjónarhornið er allt annað í kórnum en frá bekkjunum. Sjónsvið prestsins er allt annað en sýn safnaðarins. Við altarið leita augun ekki lengur upp í himininn, til skýja, fugla eða himinljósa. Augun leita þvert á móti niður! Upp við altarið sér maður beint út um lága gluggana í bogahring kórsins og niður. Frá altarinu blasa við hús, og allt það sem tilheyrir mannlífinu. Þessa borgarsýn hefur söfnuðurinn ekki og fjöllin eru í fjarska sem sjónarrönd.

Þetta er raunar makalaus áminning fyrir öll, sem eiga erindi í kór og að altari. Þegar komið er í hið allra heilagasta breytist sjónsviðið. Fyrir augliti Guðs sér maður menn og náttúru! Þetta skipulag kirkjunnar má verða okkur öllum til íhugunar hvernig skilja má og túlka Guð, náttúruna, sköpunarverkið, mennina, jökla, dýr og þar með líka kirkju. Þegar við komum næst Guði förum við að sjá með nýjum hætti. Við lærum að sjá með augum Guðs sem er ekki upptekinn af eigin upphöfnu dýrð, heldur tengslum við veröldina og þig.

Þegar menn leita Guðs sem ákafast þá opnar Guð mönnum sýn – ekki inn í himinn og eilífð heldur beint inn í heim tímans, til mannfólks og náttúru. Þegar við sjáum Guð beinir Guð sjónum okkar að veröldinni, sem þarfnast okkar og verka okkar. Við menn erum kölluð til að elska – ekki aðeins að elska Guð – heldur fólk, jökla, lífið – líka Karlakór Reykjavíkur, messuþjónana, Björn Steinar, sem situr við orgelið, og allt fólkið sem er hér í kirkunni.

Nálægur Guð

Textar dagsins beina augum okkar upp en líka niður, að eilífð en líka í tíma. Lexían í Jesajabókinni er upphafið friðarljóð – eða friðarsálmur. Þar er lýst jafnvægi mannlífs og dýra. Þetta er stílfærð vonarveröld þar sem pardus, ljón, kýr, kálfar, nöðrur og börn eru öll vinir. Þegar við tengjum þessa markmiðssýn við raunaðstæður mengunar lífheimsins verður hún enn ágengari. Þetta er sýn Guðs fyrir veröldina. Okkar er að gera allt, sem við getum, til að tryggja heilbrigði umhverfisins. Textar dagsins minna okkur á samhengið. Guð talar við okkur í náttúru, í samfélagi og okkar er að axla ábyrgð og gegna kalli Guðs. Við eigum ekki að þjóna bara sjálfum okkur heldur lífinu.

Að trúa er ekki að fara úr þessum heimi og vakna til annars, heldur er trú tengsl og hefur siðlega vídd, að vera til taks fyrir fólk og veröld. Trú er ekki að skutlast frá jarðlífi til einhverrar geimstöðvar eilífðar. Í öllum bókum Biblíunnar er dregin upp sú mynd af nálægum Guði, að Guð er ástríðuvera sem elskar, grætur, faðmar, syrgir og gleðst. Guð kemur og skapar fólk til frelsis og yfirgefur menn aldrei. Fagnaðarerindi merkir, að lífið er góður gerningur Guðs, Guð leysir, frelsar, hjálpar. Guð elskar og við erum samverkafólk ástariðju Guðs.

Niður er leiðin upp!

Kirkjugangurinn og leiðin að altarinu er til íhugunar. Leiðin fram og upp er jafnframt niður. Leiðin til jóla og leiðin upp í himininn er alltaf í gegnum mannheim. Leið elskunnar til Guðs er vegleysa nema um raunheim mennskunnar. Trú, sem ætlar sér bara að veita mönnum gott símasamband við Guð í hæðum – en tengir fram hjá fólki í vandræðum – er guðlaus og þar með trúleysa.

Guð elskar og kallar okkur til að elska líka. Elska varðar það hugrekki að segja nei við öllu því, sem hemur og kúgar fólk. Við erum kölluð til að elska – jafnvel það, sem okkur hugnast ekki. Þegar þú gengur inn í Hallgrímskirkju horfir þú til himins og þegar þú ferð alla leið að altarinu sérðu veröldina. Að horfa upp til Guðs leiðir til að þú ferð að horfa á veröldina með augum Guðs og með elsku Guðs. Guðsnánd felur í sér mannnánd og náttúrunánd.

Aðventa

Þegar Ólafur Elíasson kom í Hallgrímskirkju fór hann upp í turn til að skoða sig um. Hann fór svo og opnaði sýninguna í Listasafni Reykjavíkur. Myndirnar sýna jöklana að ofan, frá sjónahorni Guðs. Það er trúarlegur blær á þessari myndaröð og þær hvísla til okkar rödd að ofan og handan. Það horft með elskuaugum á þessa hopandi jökla frá sjónarhóli Guðs.

Þeir Andri Snær Magnason Ólafur ræddu saman við sýningaropnunina um náttúru, list og ábyrgð manna. Ólafur sagði í samtalinu, sem er aðgengilegt á vefnum, frá heimsókn sinni í kirkjuna. Hann sagðist hafa verið að þvælast upp í kirkjuturni með Sigga presti! Hann sagði svo, að kirkja væri vettvangur fyrir lífið, opinn staður fyrir fólk til að fjalla um það sem mestu máli skiptir. Við Ólafur erum sammála um hlutverk okkar manna varðandi vernd lífs og þjónustu við umhverfi og fólk. Kristin kirkja beinir ekki sjónum okkar bara til himins heldur til manna. Leiðin upp er leiðin niður í dali manna og ríki lífs.

Af hverju heldur þú að Jesús hafi komið í þennan heim? Af því Guð horfir á heiminn og lætur sig þig varða. Að elska Guð er jafnframt að elska menn – og elska þessa veröld. Hlutverk okkar er að vera augu, hendur og faðmur Guðs í heimi. Gakktu fram til Guðs og þá sérðu heiminn.

Í Jesú nafni – Amen.

For those of you not understanding Icelandic. The biblical texts of the day are striking. The first one depicts a world of global peace. The poetic text celebrates a good and just world. The other texts contextualize the peace. It is God´s peace. God actualizes that which God aims for the world. And it is ours to work with God for the good. I did also tell about Ólafur Elíasson who is one of the outstanding visual artists of the world. He shows his works all over the world and also in Reykjavik. Last week he visited Hallgrimskirkja. At the opening of his exhibition in the Reykjavik Art museum he did tell the audience that he had been hanging around with the priest in the tower of Hallgrimskirkja. Then, with deep apreciation, he talked about the role of the Christian church to make space for people in working for the benefit of the world. That, I think, is a deep understanding of healthy Christianity. Faith is never a jump out of time and life into a heaven of eternal bliss. The road to God and with God is always through a world in time, dealing with people, tasks, responsibility, indeed all the tasks of life. The texts of Bible, the show of Ólafur Elíasson and the structure of this church direct us to face our role as responsible people in our life.

Ljósmynd með þessari íhugun  er tekin af Ólafi Elíassyni.