Greinasafn fyrir merki: líf

Ljóssókn

12. desember er mikilvægur og stórmerkilegur dagur í sögu okkar Íslendinga. Árið 1904 var kveikt á fyrstu perunum hér á landi. Jóhannes Reykdal gangsetti þá ljósavél í Hafnarfirði. Svo logaði á perunum á nokkrum heimilum og ljósvæðing þjóðarinnar hófst. Raflýsing hefur gerbreytt aðstæðum fólks. Raforkan skiptir okkur miklu máli og finnum það best þegar allt slær út. Þá erum við í vandræðum. Við þörfnumst orku til að kveikja á perunni og til velferðar.

Ljós og myrkur er erkitvenna í skynjun manna. Þegar myrkur umlykur okkur vaknar ótti. Við kveikjum til að rjúfa myrkur nátta á norðurslóð og höldum í skreytingar jólanna fram eftir þorra til að stytta myrkrið svolítið.

En ljósið hefur dýpri merkingu en aðeins hina sjónrænu. Ljósið tjáir lífsgildi, ekki síst titrandi kertaljós. Þau miðla í viðkvæmni sinni að lífið er auðsæranlegt, að ekki megi mikið út af bregða til að illa fari. Kertaljós aðvetunnar skírskota til dýpri veruleika og verða tilefni íhugunar. Tilgangur ljósskreytinga, já allra kertakveikinganna, er að vekja þrá barnsins í okkur, tendra skynjun ljóskomunnar í veröldina sem sagan um Jesúbarnið tjáir með öllu sínu hlaðna táknmáli, reykelsislykt, jötuilmi, flakkandi stjörnu og konunglegum vitringagjöfum.

Kynslóðir fyrri tíma álitu tímann fyrir jól undirbúningstíð til að undirbúa sig fyrir komu jóla. Áar og eddur notuðu jafnvel ævintýri um jólasveinana til að brýna andann. Kannski trúðu fæstir að sveinarnir væru til, heldur voru þessir vondu gaurar fremur tákn. Sögurnar um þá voru kennslusögur til að minna á að ávallt væri sótt að dýrum, atvinnuvegum og heimilum fólks. Fólk þyrfti að gæta sín og gæða sinna.

Á myrkasta tíma ársins segir Rúrik Gíslason, knattspyrnumaður og hönnuður: „Það er alveg hægt að kvarta yfir þessum átján tímum þar sem er myrkur hérna um háveturinn en það er líka hægt að gleðjast yfir þessum sex tímum þar sem er birta.“ Síðasti jólasveinninn ætlaði að stela ljósinu úr húsunum. Það var hinsta tilraun til að hindra jólakomuna, svipta fólk jólunum. Aðventan er með eftirvæntingu og von sinni tími til undirbúnings svo ekkert megni að stela ljósi jólanna. Mörg ljós hafa verið kæfð á liðnu farsóttarári. En við höfum frelsi til að ákveða viðbrögð okkar. Sótt er að afkomu og hamingju fólks. Opnum vitund og greinum möguleikana. Njótum aðventunnar sem eftirvæntingartíma fyrir ljóskomuna. Ljósið kemur í heiminn.

Umboðsmaður og ráðherra

Er ekki alveg úrelt að auglýsa eftir ráðsmanni? Hefur þú einhvern tíma lesið eða heyrt í atvinnuauglýsingum: Ráðsmaður óskast! Er auglýst eftir slíku fólki. Er það ekki alveg úrelt? Og veit einhver hvað ráðsmaður gerir? Hvernig skilur þú hugtakið?

Þegar orðið er gúglað koma nokkur dæmi í ljós og gjarnan í tengslum við að setja einhvern stjóra vegna búskipta eða fjármálauppgjörs. Eins og vænta mátti – af því orðið kemur fyrir í dæmisögum Jesú – kann Google að nefna nokkur dæmi í tengslum við trú og Biblíuna.

Siðferðisþreyta

Þegar farið er að skoða nánar notkun orðsins kemur í ljós að starfsheitið ráðsmaður er að hverfa úr máli og lífi fólks og önnur orð að koma í staðinn. Af hverju skyldi svona merkilegt og gott og merkingarþrungið orð vera að hverfa úr málinu? Mig grunar að ein af ástæðum sé hægfara þróun í vestrænum samfélögum í marga áratugi, þróun sem hægt er að kalla siðferðisþreytu. Atvinnubreytingar skákuðu gömlum viðmiðum og siðferði til hliðar. Þegar auglýst var eftir fólki til vinnu var ekki venjan að vísa til Jesú Krists nema ef ráða átti kirkjulega starfsmenn. Og þar sem ráðsmannshlutverkið var tengt siðferði í Biblíunni þá varð hugtakið smátt og smátt óþjált og varla nothæft. Þegar samfélag tuttugustu aldar var orðið þreytt á siðferði þá datt þetta gamla starfsheiti út og önnur starfsheiti komu í staðinn.

Stjórinn

En hver var hin forna merking hugtaksins ráðsmaður? Hvað gerði ráðsmaður? Jú, ráðsmenn stjórnuðu og tóku ákvarðanir um verk, fjárnotkun o.s.frv. Slíkt fólk er nú nefnt stjórnarmaður, forstjóri, framkvæmdastjóri, deildarstjóri, yfirmaður, staðarhaldari, stjórnarformaður, stjórnmálamaður, umboðsmaður og embættismaður – svo nokkur séu nefnd. Og þetta fólk hefur margvíslegum umsýsluhlutverkum að gegna. Það gætir hagsmuna og stýra málum fyrir hönd þeirra sem eiga. Þessu fólki er auðvitað ætlað að axla ábyrgð og skila vel af sér. En höfum við þá tæmt hlutverk ráðsmanna? Eru þau aðeins umsýsluhlutverk vegna fjármuna og eigna?

Hvernig er með fjölskyldumálin þín? Hvað um vinnuna? Hvernig er með tengslin við annað fólk, líka þau sem eru allt öðru vísi og hinsegin? Kemur ráðsmennskan eitthvað þar við sögu? Hvað með pólitík og stóru siðferðisákvarðanir samtímans, náttúrverndarmál og framtíð jarðarkúlunnar? Og hvað um foreldra ungra barna? Hvað um þau sem sinna mannauðsmálum og starfsmannamálum? Gegna þau einhverju hlutverki ráðsmennsku?

Beint frá Jesú Kristi

Á fyrri öldum voru hlutverk yfirmanna alltaf tengd siðferðisábyrgð. Það var einfaldur kristilegur barnalærdómur að tengja völd og gott siðferði – hvort sem furstar, greifar, kóngar og keisarar vildu eða ekki. Það var kristileg skylda þeirra að vera dygðugir í lífi og verkum. Sálmarnir, bækurnar, guðfræðin og prestarnir minntu á að ráðsmaður ætti samkvæmt boðskap Jesú Krists að nota vald sitt með ábyrgð. Vald og siðvit ættu og skyldu fara saman.

Ef orðið ráðsmennska er orðið lítið notað og þar með að hverfa úr máli þjóðarinnar er íhugunarefni hvort siðferðið rýrnar líka. Við getum t.d. spurt okkur hvort fólgin sé einhver siðferðisvídd í orðinu fjármagnseigandi eða orðunum fjárfestir og forstjóri. Flestir skilja og vita að stjórn fólks og fjár verður aldrei farsæl án gilda. Siðlaus stjórn drepur eða veldur þjáningu. Stórfyrirtæki setja sér siðareglur vegna þess að siðsemi í viðskiptum borgar sig þegar til lengri tíma er litið. Siðlaus, siðbrengluð eða siðskert fyrirtæki tapa alltaf á viðskipum. Fyrirtæki eins og Boeing og Volkswagen urðu fyrir gífurlegu tjóni vegna þess að þau fóru í störfum sínum á svig við gott siðferði og siðareglur. Stjórnvöld, hreyfingar og fyrirtæki setja sér orðið reglur um viðmið, ferla og mörk. Ráherrar ríkisstjórnar Íslands eru t.d. bundnir í störfum sínum af siðareglum sem settar voru í árslok 2017. Þar kemur t.d. fram að ráðherra má aldrei láta persónulega hagsmuni rugla opinber störf sín, sem alltaf eiga að vera í þágu almennings fyrst og fremst. Ráðsmennskan er sem sé kjarni þjónustu ráðherrans og á að stýra stefnu, já öllum ákvörðunum.

Ráðsmennskan

Guðspjall dagsins er um eignir og ráðsmennsku. Til hvers eru eignir? Ef menn eiga hundruð milljóna er það ekki bara einkamál þeirra hvað þeir gera við peningana? Eða getur verið að einhver siðleg krafa sé á þeim sem eiga? Börnin, framtíðarkynslóðir, eiga kröfu á hendur okkur um góða meðferð náttúru og eigna. Við þurfum að skila af okkur því sem við höfum að láni, fé, verkefni, náttúru. Það skiptir máli hvernig við lifum og hverju við skilum. Við berum siðferðilega ábyrgð, líka gagnvart framtíðinni.

Jesús segir í guðspjalli dagsins sögu. Hún er ein af 38 dæmi- eða líkingasögum sem hafðar eru eftir Jesú. Í ræðum og fræðslu talaði hann gjarnan um hagnýt mál. Mörgum sem fara að lesa í Biblíunni kemur á óvart hversu oft Jesús talar um peninga. Helmingur smásagna hans varðar notkun á fjármunum. Í texta þessa sunnudags segir Jesús frá peningamanni, sem var nappaður því hann fór illa með. Honum var sagt upp en átti að vinna uppsagnartímann. Ráðsmaðurinn gat ákveðið sjálfur með hvaða móti hann skildi við fyrirtækið. Hann fékk að ráða hvað hann gerði. Og hann ákvað að vinna lítið fyrir vinnuveitandann en nota tímann aðallega fyrir sjálfan sig. Hann var bara sjálfhverfur en sýndi snilldartakta. Það eru jú engin takmörk fyrir því sem fólk gerir fyrir sjálft sig. Karlinn kallaði í alla, sem skulduðu vinnuveitanda hans eitthvað og afskrifaði skuldirnar að nokkru. Tilgangurinn með þessu athæfi var að ávinna sjálfum sér vináttu skuldaranna. Þegar hann væri orðinn atvinnulaus ætti hann greiða inni hjá þeim, hönk upp í bakið á skuldaraliðinu.

Egódólgar eða góð gagnrýni

Hver er nú tilgangur þessarar sögu? Er Jesús að kenna fólki að plata? Kennir Jesús prettavit? Örsaga Jesú er tvíræð, áleitin og umhugsunarverð. Fólk veit ekki hvernig eigi að skilja söguna. Er þetta gamansaga, brandari eða alvörusaga? Á að hlægja að henni eða taka hana alvarlega? Sögur Jesú teygja á og markmið þeirra er að fá fólk til að hugsa, bregðast við, dýpka skilning, rækta lífsleikni og bæta líf fólks. Jesús minnir einfaldlega á að fólk eigi ekki að vera heilagir sakleysingjar heldur með meðvitund gagnvart eigingjörnu fólki. Ljóssins börn eigi að vera raunsæ á sjálf sig, annað fólk og hve lífið er margbreytilegt og tvíbent. Jesús hvetur til að vel sé fylgst með hinum undirförulu. Ekki til að apa eftir þeim heldur til að vera það sem þau eru ekki. Gerið ekki það sem þau gera! Í stað þess að láta peninga fylla huga og líf notið þá í annarra þágu, til að hjápa öðrum. Þá verður til fjársjóður á himnum.

Jesús dregur vel fram, að viðskipti eru oft lituð af sjálfselsku og að embættismenn geta verið lélegir þjónar og uppteknir af eigin völdum, stöðu og fé. Freisting valdamanna er að gerast egódólgar. Prettavitið getur orðið gríðarlegt, en þjónustan léleg og réttlætið fótum troðið. Orð Jesú er því ekki lífsfjarlæg himneska. Kristnum mönnum er vissulega ætlað að tala um það sem vel er gert, benda á framúrskarandi þjónustu, framfarir og samfélagslegar bætur, en hika ekki heldur að ræða hvað fer úrskeiðis og hvað er hugsanlega úr takti við trú, gildi og siðferði í fjármálageiranum, náttúrumeðhöndlun, stríðsrekstri og samfélagi. Trú upplýsir menn um líf og lífsstefnu.

Sögur Jesú Krists og öll kristin fræði eru fyrir fólk, í þágu lífs fólks og til að hjálpa fólki við að gegnumlýsa kerfi og atferli og greina stefnu til góðs. Þó ekki sé rædd flokkspólitík eða dægurpólitík í kirkjunni er alltaf rætt um grunnþættina, hið mikilvæga og þar með einnig um skuggahliðar mannlífsins, einstaklinga og kerfa. Já, Jesús vildi ekki að við værum kjánar og sakleysingjar heldur ábyrg og elskurík og þyldum að horfast í augu við og tala um bresti og slæmt siðferði.

Himnesk glópska eða skerpa?

Trú er tengsl sem gefur sýn og hlutverk manna í heimi og framtíð. Að trúa er að tengja við það mesta, besta og stórkostlegasta í tilverunni. Og trú á aldrei að tapa sér í himinglápi, heldur reynir trúmaðurinn að temja sér – alla vega að æfa sig í – að horfa á heiminn með augum Guðs. Það merkir að vera fulltrúi Guðs í veröldinni, samverkamaður, þjónn lífsins í veröldinni og stuðla að góðu lífi.  

Hvort sem þú notar orðið ráðsmaður eða ekki hefur siðferðisdýptin ekki slaknað. Við erum öll ráðsmenn í lífi okkar, stjórn, peningamálum, kirkju, samfélagi og náttúru. Orðið ráðsmaður er kannski týnt en hlutverkið ekki, það er þitt og okkar svo lengi sem við lifum.

Amen

Hallgrímskirkja 9. ágúst.

Meðfylgjandi mynd tók ég á aðalhóteli Santander á Spáni. Þessi gömlu salt og pipar- staukar voru búnir að þjóna mörgum. Þeirra siðferði var skýrt og klárt. 

A-textaröð

Lexían: Orðs. 2.1-6

Son minn, ef þú veitir orðum mínum viðtöku
og geymir boðorð mín hjá þér,
svo að þú ljáir spekinni athygli þína,
hneigir hjarta þitt að hyggindum,
já, ef þú kallar á skynsemina
og hrópar á hyggindin,
ef þú leitar að þeim sem að silfri
og grefst eftir þeim eins og fólgnum fjársjóðum,
þá munt þú skilja, hvað ótti Drottins er,
og öðlast þekking á Guði.
Því að Drottinn veitir speki,
af munni hans kemur þekking og hyggindi.

Pistillinn: 1. Pét. 4.7-11

En endir allra hluta er í nánd. Verið því gætnir og algáðir til bæna. Umfram allt hafið brennandi kærleika hver til annars, því að kærleikur hylur fjölda synda. Verið gestrisnir hver við annan án möglunar. Þjónið hver öðrum með þeirri náðargáfu, sem yður hefur verið gefin, sem góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs. Sá sem talar flytji Guðs orð, sá sem þjónustu hefur skal þjóna eftir þeim mætti, sem Guð gefur, til þess að Guð vegsamist í öllum hlutum fyrir Jesú Krist. Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen.

Guðspjallið: Lk. 16.1-9

Enn sagði hann við lærisveina sína: Maður nokkur ríkur hafði ráðsmann, og var sá sakaður við hann um það, að hann sóaði eigum hans. Hann kallaði hann fyrir sig og sagði við hann: Hvað er þetta, er ég heyri um þig? Gjör reikningsskil ráðsmennsku þinnar, því þú getur ekki verið ráðsmaður lengur. Ráðsmaðurinn sagði þá við sjálfan sig: Hvað á ég að gjöra, fyrst húsbóndi minn sviptir mig ráðsmennskunni? Ekki orka ég að grafa og skömm þykir mér að betla. Nú sé ég, hvað ég gjöri, til þess að menn taki við mér í hús sín, þegar ég verð sviptur ráðsmennskunni. Hann kallaði nú á skuldunauta húsbónda síns, hvern og einn. Við þann fyrsta sagði hann: Hve mikið skuldar þú húsbónda mínum? Hann svaraði: Hundrað kvartil viðsmjörs. Hann mælti þá við hann: Tak skuldabréf þitt, set þig niður og skrifa sem skjótast fimmtíu. Síðan sagði hann við annan: En hvað skuldar þú? Hann svaraði: Hundrað tunnur hveitis. Og hann sagði honum: Tak þú skuldabréf þitt og skrifa áttatíu. Og húsbóndinn hrósaði rangláta ráðsmanninum fyrir að hafa breytt kænlega. Því að börn þessa heims eru kænni í skiptum við sína kynslóð en börn ljóssins. Og ég segi yður: Aflið yður vina með hinum rangláta mammón, svo að þeir taki við yður í eilífar tjaldbúðir, þegar honum sleppir.

 

 

Lík, líkn og líf – líkræður

Presti varð á í útför. Við kistuhornið varð moldunarbænin með þessu móti: “Drottinn minn, gef þú dauðum ró og hinum líkin, sem lifa!“ Eitt i getur breytt miklu! Það sem á að vera líkn umbreytist í lík. Öllum verða á orðaglöp, líka prestum við bænagerð. Kannski klerkur hafi verið heltekinn af önnum, varla hefur hann verið að biðja Guð um fleiri lík. Dauðsfall og þar með lík er vissulega forsenda útfarar, en markmið prestsstarfsins er að þjóna líkn, upplýsingu, lífi – Guði. Hlutverk prests er ekki vera tæknir dauðans heldur verkæri líknar.

Mikilvægi líkræðunnar

Hið íslenska samfélag hefur löngum metið útför mikils og ekki síst líkræðuna. Í könnun Gallup 2004 kom t.d. í ljós að yfir 41% aðspurðra álitu, að ræðan væri mikilvægasti þáttur útfararathafnarinnar og ferlis útfarardagsins. Allt annað, t.d. söngur, kirkjan, umbúnaður, skreytingar, erfidrykkjan, hvarf í skugga líkræðunnar. Í útfararathöfnum finna prestarnir oft, að orðunum er nánast kippt út. Það er sem öll eyru verði orðsugur, sem svolgra. Sjaldan er betur hlustað og tekið við með meiri áfergju en í útförinni. Okkar, prestanna, er að vanda verk.

Í líkræðunni er margt skilgreint og mótað, sem máli skiptir. Trú og von eru boðuð, líf einstaklinga túlkað og prófíll hins kirkjulega vonarboðskapar í hverri samtíð teiknaður. Presturinn leggur til eigin nálgun og þarf að gæta að meðalhófinu en forðast ýmis fen, m.a. að dilla eigin sjálfi og sinna eigin þörfum.

Í eftirfarandi verður fyrst hugað að nokkrum þáttum varðandi texta og textanotkun í útfararæðum. Í síðari hlutanum mun ég skýra eigin nálgun, sem er í flestu lík afstöðu og iðkun margra presta. Ég geri hér ekki greinarmun á merkingu orðanna líkræða, minningarorð og útfararræða og nota heitin um ræður presta við útför. Vert er að minna á hin gömlu heiti eins og líksermón og líkprédikun. Samkvæmt hefðinni var líkræðan prédikun og það má vera hverri kynslóð presta til íhugunar.

Hvaða textar? 

Hvernig prestar nota Biblíuna sem ræðugrunn eða textasamhengi útfararræðunnar hefur aldrei verið grandskoðað. Mér skilst, að flestir prestar  noti jafnan eitthvert biblíuvers, sem uppistöðu eða ívaf minningarorða. Aðstæður skipta máli og lífsefni hins látna ræður oftast efni ræðunnar og oft textavalinu. Í einstaka tilvikum nota prestar texta utan Biblíunnar sem ígildi biblíuvers. Það geta verið ljóð eða meitlaður texti, sem varðar hinn látna, lýsir honum eða henni eða hefur verið uppáhaldsljóð eða orðtæki. Stundum hef ég flutt ljóð í útför eða við kistulagningu sem hinn látni hefur samið.

Ræðutegund

Ýmsar gerðir eru til af útfararræðum. Inntak, form og tilgangur hafa áhrif á ræðumótun. Notkun biblíutexta ræður miklu um hvernig ræðan er stílfærð. Síðan skiptir miklu hvernig fjallað er um líf þess sem kvaddur er. Þar gefast ýmsir möguleikar. Einnig er afdrifaríkt á hvaða guðfræðigrunni útfararræðan er reist, með öðrum orðum: Hver er tilgangur hennar?

Himneska líkræðan

Formgerðir líkræðu eru nokkrar. Í fyrsta lagi eru þær líkræður, sem eru fyrst og fremst útlegging biblíutexta. Þessar líkræður eru svipaðar biblíuskýrandi prédikun. Í sinni einföldustu gerð hefur þessi ræðugerð fremur lítið pláss fyrir líf hins látna og fjallar fremur um vonarmál hins kristna manns, um eilífa lífið. Vítan er gjarnan stutt, en erindi kristninnar aðalefnið. Vonarefnin eru útlistuð og hvernig einstaklingurinn er umlukinn hinum himneska veruleika. Svona ræða getur vissulega slitnað úr sambandi við jarðneskan veruleika.

Fáir íslenskir prestar einskorða sig við þessa ræðugerð, en hún var og er algeng í Skandínavíu. Líf einstaklingsins hverfur í stórramma hins almenna eða himneska. Útfararræðan verður sem næst stöðluð og breytilegu liðirnir eru þá þau örfáu atriði, sem nefnd eru varðandi líf hins látna. Staða útfararathafna er talsvert önnur í skandinavísku en í íslensku samhengi og kann að skýra mismunandi ræðunálgun. Útfarir eru félagslegur viðburður og mikið sóttar á Íslandi en víðast erlendis fámennar og fyrst og fremst ritualviðburður fjölskyldunnar.

Hinar himnesku ræður er hægt að setja í handbækur presta og væri ástæða til að skjóta einni slíkri í handbók presta þegar hún verður endurútgefin. Sjaldan kemur fyrir að íslenskur prestur semji ekki ræðu og aðstæður eru þá sérstæðar. Þá væri gott að geta hvílt í vönduðum sermón af himneska taginu og úr handbók.

Samlokuræðan

Í öðru lagi er svo minningarræðan þar sem texti úr Biblíunni og útlegging hans verður meginefni inngangs og mótar niðurlag ræðu. Á milli biblíulaganna er víta hins látna. Biblíutextinn verður í þessari ræðugerð uppistaða en útlegging ívafið sem er látið falla að vítunni svo bæði biblíuandinn og lífssaga hins látna rími þokkalega eða vel, þegar best tekst til. Textinn er þá valinn svo hann passi vel að lífshlaupi eða tilefni dauðsfallsins. Þessi samlokuaðferð getur hentað í flestum gerðum útfara og einu gildir hvort dauðsfall hefur borið eðlilega að eða þegar slys hafa orðið eða dauða borið að með voveiflegum hætti. Þessa aðferð nota margir íslenskir prestar en hlutföll milli texta og lífs eru mismunandi og misvel unnið úr og tengt saman. Vegna hins augljósa, oft þrískipta, forms verður ræðubyggingin skýr og þægileg bæði presti og söfnuði.

Flétturæðan

Þriðja ræðan er lík samlokunni í því að biblíutexti og lífsþættir faðmast. En í stað lagskiptingar samlokunnar eru þættirnir fremur fléttaðir saman. Ævibrot eru tengd einhverju í textanum, sem er ætlað að upplýsa og nýtúlka ævibrotin. Ræðan verður að flæða eðlilega og fléttan verður að móta óbrotna heild þegar allt er sagt og ræðu lokið. Texti og líf hafa þá notið samþættunar. Gjarnan er unnið með ákveðið markmið í huga, t.d. að skýra og upplýsa æviþátt í anda guðfræðistefs eða að tengja líf hins látna við huggunarorð og prédika svo að syrgjendur geti tekið nýtt og mikilvægt skref í sorgarvinnunni.

Flétturæður gera miklar kröfur til höfunda sinna. Þær gera kröfur um vandvirkni við val efnis, til þokkalegrar formskynjunar, hæfni til að velja þræði við hæfi úr fjölbreytilegu efni og þor til túlkunar. Mér hugnast líkræður af þessu tagi og tel, að þær henti til skapandi túlkunar. Þær gefa færi á fjölbreytilegri skynjun tilheyrenda og þar með trúarlegri dýpkun. En þær gera ögrandi kröfur til prestsins og oft mikillar vinnu. Flétturæðan gerir líka kröfur til áheyrenda og verður vart sú algengasta.

Skrautræðan

Í fjórða lagi er svo sú gerð líkræðu þar sem biblíutextinn er skraut. Textinn er þá eins og skyldulesning, fluttur til að uppfylla þá venju að eitthvert biblíuorð skuli hljóma. En ræðan er þá ekki beisluð af textanum, heldur stingur ræðumaður sér út úr eða af textanum eins og um dýfingar væri að ræða. Líkræðan verður lausgirt og það sem er rætt um lífssögu hins látna er án Ritningartengsla. Síðan er gjarnan einhvers staðar á ferðinni skvett vonarorðum til áheyrenda, sem vegna sundurgerðar eru oftast klisjur.

Skrautsækjandi stökkbrettisræður eru hvimleiðar. Stundum eru þær jafnvel illa unnar og til þeirra kastað höndum. Ef Biblíunotkunin er marklaus og textinn er skreyting má spyrja, hvort ekki sé alveg eins gott að sleppa biblíutexta í þeim tilvikum, sem presturinn finnur engan texta eða getur ekki tengt texta og líf hins látna með eðlilegum hætti. Auðvitað verða menn stundum andlitlir og aðstæður hindra góð vinnubrögð. Ég man úr eigin prestsskap hversu textaleitin gat orðið tímafrek, ekki síst á frumbýlingsárunum. Þó ég ætti nokkrar voru biblíuhandbækur mínar ekki sérlega góðar og engin leitarforrit voru þá til í veröldinni. Margra klukkutíma leit skilaði stundum litlu. Leitarvélar samtímans eru hins vegar þarfaþing og hafa stytt leitartímann.

Illa er komið, ef Ritningartexti er ekkert meira en skreyting, bara snagi til að hengja á nokkrar þokkalega gerðar trúarslaufur. Biblíuskreyti vekur grun um, að Biblían sé þá lítið annað en varahlutalager fyrir það handverk að klambra saman veifu fyrir sýningu í útförinni. Prestur má aldrei leyfa sér að reyna að búa til sýndarveruleika. Hlutverk prestsins er að miðla merkingu, vera merkingarberi. Prestar eiga að gera ríkar kröfur til sín varðandi Biblíunotkunina. Vandi líkræðunnar er að einhverju leyti vandi prédikunarinnar í samtíðinni. Þó margir eigi í vandræðum heimildir og erindi, mega prestar ekki flýja erindi sitt vegna kirkjunnar, vegna trúarinnar, vegna þjónustunnar við Guð.

Er skylda að nota Biblíuna?

Er skylda að nota Biblíutexta við skrif líkræðu? Verðum við að nota Biblíuna? Við getum líka snúið spurningunni við og spurt, hvort ekki væri hentugast og þægilegast að sleppa ritningartextanum? Hvaða hlutverki þjónar hann? Hann er alveg örugglega ekki til þess eins að létta prestinum lífið, vera handhægt sett til að grípa í þegar andinn flögrar fjaðrafár og annir að kæfa.

Kristnin er átrúnaður bókarinnar og við höfum búið við biblíuáherslu í kirkju- og guðfræði-hefð okkar. Ég hef aldrei efast um, að það sé kirkjulega göfugt og dyggilega lúterskt að styðja sig við Biblíuna í útleggingunni. Því oftar sem ég puða í líkræðugerðinni læðist hins vegar að sú vangavelta, hvort ekki væri bæði boðlegt og guðfræðilega ábyrgt að sleppa textavísuninni algerlega. Á hvaða forsendu? Jú, á forsendu trúar á Guð skaparann, þennan sem brosir í smæstu ódeilum, dansar í stærstu stjörnukerfum en hefur líka blessað líf hans og hennar í kistunni fyrir framan okkur.

Líf fólks sem texti líkræðu

Það er í þessu samhengi, sem við getum talað um fimmtu gerð líkræðu, sem er hin bóktextalausa. Líf fólks verður þá texti útleggingar. Þetta getur hljómað sem ókristileg hugsun og óbiblíuleg vangavelta. En þá er vert að minna á, að það er hvorki Guðlast né Biblíulast að viðurkenna verkan Andans. Líf einstaklingsins er vitnisburður um anda Guðs í veröldinni, um lækningu í sögu meina og áfalla, um hjálp í nauðum hins látna, um upprisu úr eða frá sorgum og sjúkdómum, um skin páskasólar þegar lífið hefur lifnað eða líkamleg, andleg eða félagsleg lækning hefur orðið. Birta hins góða, kraftur hins guðlega, í erfiðum aðstæðum blasir ávallt við þegar kafað er í lífssögu hins látna.

Allt frá líkræðuleiðbeiningum Marteins Einarssonar, Skálholtsbiskups, á 16. öld, hefur verið varað við að ana ekki í vitleysurnar. Þaðan í frá hafa kirkjuhirðar og leiðbeinendur bent á hættur og pytti, sem hægt er að rata í. Það getur vissulega reynst snúið að leggja út af ævi þess, sem virðist hafa klúðrað eigin lífi og spillt lífi síns fólks. Margt má liggja kyrrt og ekki er auðvelt að koma orðaböndum á hrylling eða álappaskap. Enginn prestur hefur þörf fyrir að segja allt og engin ástæða til. Á okkur prestum er rík krafa um góða dómgreind, að við túlkum og orðum með skapandi hætti það sem segja þarf.

En líf allra er merkingarríkidæmi, sem má lyfta upp í vitund syrgjenda. Engu skiptir hvort ævin hefur verið það, sem einhverjir teldu vera sorgarsögu eða samfelld sigurganga. Líf allra er köflótt, flétta gleði og rauna. Líf hvers manns er einstakt og undur. Guð er samhengi og gjafari gæðanna. Er slíkt ekki texti til að leggja út af, verðugt viðfangsefni fyrir frjálsa guðfræðinga, skapandi fólk á tímum breytinga? Mér er spurn hvort stætt sé á bóktextalausri líkræðu? Prestur, sem ætlar sér að skrifa slíka ræðu, verður að vera meðvitaður um, að verkefnið gerir miklar kröfur og auðvelt er að tapa þráðum og áttum. Skýr guðfræði verður að marka grunn og skýr guðfræðirammi verður að móta skrifin. Annars er hætt við, að allt verði párað í anda heimafengins smekks skrifarans. Við getum einnig spurt hvort það séu fyrst og fremst áhugamenn um sköpunarguðfræði, sem vilja sleppa biblíutextunum? Hvað verður um Biblíuskilning kirkjunnar og skilning á holdtekjunni?

Þrenna guðfræðinnar: Biblía – hefð – samtíð

Biblíufesta í prédikunargerð er ekki trúarlegt stjórnarskrármál og biblíueinfeldni er trúarlöstur. Allir prestar verða að ákvarða forsendur eigin guðfræði og þar með prédikunar. Biblían er ekki eina forsenda nútímaguðfræði eða prestsskapar. Jú, vissulega er Biblían meginlind lífmikillar guðfræði, en þó ekki sú eina. Trúarhefðin er önnur lind, sem presturinn þarf að nýta vel. Ef við trúum á skapandi Guð og óttumst ekki breytingar og þróun samfélags verðum við að taka mark á þeim gildum, áherslum og dýrmætum sem menningin kallar fram. Kirkja, sem aðeins lifir af hefð og með Biblíuslitur, er kirkja flóttans. Kirkja, sem iðkar biblíurýni í tengslum við samfélag sitt, mun lifa og getur orðið fólki til hjálpar. Samtíminn, veruleiki hverrar tíðar, er að mínu viti gjörningur Skaparans, sem kirkjan verður að innlífast og svara í guðfræði, atferli, starfsháttum og þar með prédikun og líkræðum. Þetta er þriðja lind skapandi guðfræði. Líf hins látna er vitnisburður um líf og starf Andans og hluti þessa. Líkræða er að mínu viti kall til guðfræði ekki síður en sálgæslu. Líkn er margþætt og margbrotin.

Við ættum ekki að slíta texta úr samhengi og nota sem skraut. En það er nauðsynlegt, að nota Biblíuna með fullri meðvitund og túlka anda Ritningarinnar og þeirrar guðfræði, sem presturinn aðhyllist. Líkræða er ekki bara túlkunarverk varðandi lífshlaup hins látna. Líkræðugerð er a.m.k. þreföld túlkunarvinna, samruni þriggja hringa, svo notuð sé túlkunarlíking Hans Georg Gadamer. Í fyrsta lagi er líf hins látna túlkað. Þá vinnu verður að vanda. Oft er mikið puð að tala við aðstandendur, skilja lífssöguna, greina stofna og aðalatriði, vinsa og raða, opinbera veilur og varnarhætti, meta fjölskyldu og ákvarða hvar er hægt að byggja upp og hvað er hægt og má tala um.

Síðan eru hinir hringirnir, erindi kristninnar. Annar hringurinn er ritningarhringur Biblíunnar, sá þriðji er síðan guðfræðisagan eða hefðin. Biblíuboðskapur, eitthvað í guðfræðisögu eða innlendri eða erlendri trúarhefð, kemur jafnan í hugann, sem andblær af hæðum, og nýtist til að hringarnir falli saman og ræðan nái merkingarskapandi möguleikum, hafi burði til að hugga, færa fólk til í sorgarvinnunni og gangi erinda huggunar og vonar. Form ræðu ræðst af lífi og hvaða atriði úr Biblíu eða hefð nær að upplýsa líf hins látna.

Viðmælendur

Mikilvægt er að spyrja sig reglulega í líkræðuskrifum fyrir hverja er unnið. Fyrir hverja eru minningarorðin? Ekki fyrir hinn látna eða englana. Þau eru ekki flutt vegna kirkjunnar. Þau eru ekki tæki prestsins til að sannfæra söfnuð um snilld hans. Minningarorð geta átt sér vítt samhengi, hinn látni getur verið fulltrúi stéttar, málstaðar, sveitar, landshluta eða þjóðar. Auðvitað þarf að minnast þessa og stundum að fara nokkrum orðum um slíkt. Það getur líka verið afar ríkulegt viðfangsefni t.d. þegar stólpi deyjandi byggðar fellur. Dauðsfallið getur hafa orðið með því móti, að ekki verði undan vikist að ræða samhengi og tala með rödd huggarans inn í aðstæður og leiðbeina, t.d. við sjálfsvíg eða fráfall barns eða ungs foreldris.

Fyrir hverja eru þá minningaroðin? Þeim er beint til syrgjandi ættingja og þeirra sem kveðja hinn látna og eiga að vera orð til styrks og veita hjálp við að sjá tilgang og merkingu í lífi hins látna. Þau mega vera sorgarhvíla, hjálpa fólki til að orða sorg sína. Þau mega líka vera reiðiskífa, hjálp við að fá útrás fyrir angist og jafnvel hatur. Það á að segja satt um mikilvæg mál, en auðvitað að tala svo að til gagns verði en ekki til að gera illt verra. Menn skyldu ræða við aðstandendur hvernig eigi að orða það sem er tvíbent. Líkræðan er ekki tilefni til að sprengja tilfinningabombur, heldur hjálpa fólki við að rísa upp. Líkræðan á ekki heldur að vera rennibraut út úr krísum fortíðar. Viðmælendurnir í kirkjunni og syrgjandi fjölskylda og vinir eru eiginlega fjórði hringurinn, sem þarf að taka tillit til og er réttnefndur lífhringur túlkunarferlins. Ef fyrri þrír hringir túlkunar ná að snerta og fléttast um hinn fjórða hefur handverkið lánast, andinn verið gefinn og líkn Guðs fengið farveg.

Inntak og liðir

Mörg kvíða útfarargrátinum, sem þau óttast að hellist yfir. Mörg eru óörugg gagnvart eigin viðbrögðum og vona að athöfnin sendi þau ekki á einhvern rússíbana tilfinninganna. Flestir prestar eru aðgætnir sálusorgarar og passa að snara ekki spenntum taugum um háls fólks og maka svo í framhaldinu vanlíðan í augu og eyru.

Húmor er ekki útfarartabú. Stundum getur bros eða hlátur orðið til léttis og hjálpar. Hið skoplega er þó vandmeðfarið. Prestur er ekki í hlutverki uppistandara í kirkjunni. Útför er ekki skemmtun, heldur fæðingardeild merkingar. Best er þegar allur söfnuðurinn fer í ferðalag, inn í vítu hins látna, nær að tengja við eigin líðan og tilfinningar, nær að gleðjast yfir lífshæðunum, bogna við áföllin, brosa eða hlægja að gleðiefnunum, vera með á för, vera alsgáður og samlíðandi. Þegar svo fer getur líkræðan haft mikilvægu samfélagslegu sálusorgunarhlutverki að gegna. Hin trúarlega orðræða getur komið fólki að miklu gagni.

Fólk kemur í kirkjuna, ekki aðeins til að votta virðingu hinum látna, heldur líka til að glíma við eigin líðan, eigið sjokk, eigin hrörnun og til að vinna með ágenga árás dauðans á öryggisnet sjálfsins. Hvar er staðfestan, hvernig get ég gert þetta upp? Gagnvart merkingarspurningum þarf að tala með viti en ekki klisjum, tala í krafti trúar, með von og vissu úr veröld kærleikans, þar sem enginn týnist heldur öllum er til skila haldið.

Í útförinni gegnir prestur ekki almennu upplýsingarhlutverki hvorki varðandi trúarkenningar eða um lífsþætti og stöðu hins látna í samfélaginu. Mogginn sér um æviágripið í flestum tilvikum og presturinn á alls ekki að gerast Moggaþulur. Einföld vinnuferilslýsing, upptalning á félögum og helstu lífsstiklum fer langt með að kalla fram í huga tilheyrenda það sem máli skiptir. Presturinn hefur hins vegar túlkunarhlutverki að gegna. Klerkinum ber að lyfta mikilvægum stefjum upp, setja líf viðkomandi í trúarlegt samhengi, tengja líf einstaklingsins við von og veruleika trúarinnar. Hlutverk líkræðunnar er ekki að skilgreina sögulegt gildi einstaklings, heldur að vera trúartúlkun fyrir syrgjandi söfnuð. Þar er dýpsta hlutverk presta, að tengja eilífð og tíma, trúarvisku við líf og dauða, Guð og söfnuð.

Tvílestur

Ýmis atriði geta skolast til við ræðuskrifin. Aðstendur muna stundum rangt eftir einstökum efnum, áherslur geta verið misjafnar og upplýsingar í prentuðum heimildum beinlínis rangar. Vegna þessa hef ég þá reglu, að ég les minningarorðin fyrir nánustu aðstandendur eða senda í tölvupósti. Með yfirlestri er betur fyrirbyggt, að meinlegar villur slæðist með. En hitt er þó mikilvægara, að aðstandendur vita hvers er að vænta, geta því slakað á gagnvart því sem sagt verður og geta hvílt í öryggi að presturinn segi rétt eða vel frá. Þar sem ég geri talsvert úr túlkunarþættinum er beinlínis bæði heiðarlegt og siðlegt að tryggja, að fólk komi ekki af fjöllum og hafi á tilfinningunni, að presturinn fari í furðulegar skógarferðir í ræðu sinni. Aðstandendur eru þá líka undirbúnir undir samræður um áherslur ræðunnar og geta fremur nýtt hana til sorgarvinnu.

Efnistök og skipan ræðu

Ég er ekki sáttur við eigin útfararvinnu, nema ég hafi á tilfinningunni að ég hafi 1. náð að skilja flesta mikilvæga lífsþætti hins látna; 2. hafi þokkalega góðan skilning á fjölskylduaðstæðum og þar með lífsskoðunum og trúarþroska; 3. geti tengt við trúarlega huggun eða skýringu.

Meginkaflar minningarorða minna eru gjarnan fimm en eru í mismunandi hlutföllum og uppröðun eftir aðstæðum.

  1. Inngangur: Ég byrja líkræður oft talsvert bratt með sögu um hinn látna eða lýsi atburði, sem vísa á meginstef síðar í líkræðunni. Inngangurinn verður að vera í samræmi við meginmál og niðurlag rímar gjarnan við upphafið. Tilgangur inngangs er að vekja athygli og opna vegna hins, sem á eftir kemur.
  2. Lífsstiklur: Þau atriði eru tekin með, sem helst vísa til þess sem rætt er um og verður til skilnings.
  3. Trúartúlkun: Með bakvísunum og viðbótarlífsstiklum má túlka lífshlaup trúarlega, mikilvæga atburði og tengsl við höfuðpersónur í lífi hins látna. Ævi hvers manns lyftir upp mörgum stórstefjum trúarinnar og gefur prestinum tækifæri til prédikunar. Klisjur eiga ekki heima hér fremur en annars staðar.
  4. Sálgæsla: Farið er yfir þau atriði, sem hægt er að nefna og ræða. Fólk er orðið það vant að talað sé um erfið mál að hægt er að ræða um sjálfsvíg, erfiða sjúkdóma t.d. geðsjúkdóma ef við á. Eins og dæmin sanna getur líkræðan þjónað samfélagssálgæslu.
  5. Hin kristna von: Hvað verður um fólk þegar það deyr? Hvað er himininn og hvernig kemur elska Guðs við sögu? Síðasti hluti ræðunnar má gjarnan fjalla um líf og hið stóra Guðsfang.

Ég birti sumar líkræður á netinu. Ég ræði við aðstandendur hvort þeir telji sér hag í að hafa ræðuna á vefnum. Fólk les þessar ræður talsvert og oft er haft samband vegna efnis þeirra síðar. Þegar rætt er um viðkvæm mál er niðurstaða stundum, að ræðan eigi ekki erindi á netið þótt hún segi ekki neitt sem þoli ekki almenningssjónir. Oft má satt hvíla í kyrru kirknanna.

Líkn fremur en lík

Þegar okkur tekst ekki upp í útförinni rætist bænin: “Drottinn minn gef þú dauðum ró, en hinum líkin sem lifa.” En þegar presturinn gengur inn í þjónustu við hina trúarlegu merkingarveitu verður ekki lengur bara lík og sorg, heldur líkn sem er fyrir lífið. Hlutverk presta er ekki að þjóna guði, sem safnar líkum, heldur að þjóna lífsins Guði.

Fyrst flutt sem fyrirlestur á prestafundi í Skálholti í október 2006. Birtist sem grein í Kirkjuritinu; 2009; 75 (2): bls. 30-34. Meðfylgjandi myndir tók ég í Hallgrímskirkju. Þá neðstu á allra heilagra messu. Myndina með skírnarfont Leifs Breiðfjörð í forgrunni tók ég við útför Lilju Sólveigar Kristjánsdóttur, móðursystur minnar. Svo er kenninmyndin frá sumartónleikum. 

 

Samastað syninum hjá

Gleðileg jól. Hvað veitir gleði og hvað kallar fram mesta hamingju? Hvernig tengjust við fólki, lífi og sjálfum okkur? Hvernig lifum við?

Fyrr í þessum mánuði lést maður, sem ég þekkti. Hann stóð alla tíð lífisins megin, þjónaði fólki og veitti þúsundum heilsubót. Hann varð fyrir áföllum í lífinu en bugaðist ekki heldur þroskaðist í eldi lífsreynslunnar. Hann var vitur maður og mat gæði lífsins mikils. Meðal annars hafði hann áhuga á tónlist og fólkið hans söng. Svo brast heilsa hans og fyrr á árinu var ljóst að komið væri að lífslokum. Undir það síðasta gat hann ekki lengur talað. Síðustu vikurnar komu börn og ástvinirnir til hans og sungu fyrir hann og umvöfðu hann elsku. Lífi hans lauk nú á aðventunni. Síðustu dagana sungu þau fyrir hann aðventu- og jólasálma. Vonarstef aðventusálmanna hljómuðu. Gleðiefni jólasálmanna liðuðust að grunnri öndun hins deyjandi manns. Svo var komið að Heims um ból, erkisálmi íslenskra jóla. Og dóttir hans söng jólasálminn fyrir föður sinn. Í síðasta versinu lést maðurinn og fór inn í himininn.

Um hvað fjallar síðasta erindið í Heims um ból? Það er um englasönginn frá himnum. Og líka um frið á jörðu því Guð umvefur þau, sem eiga sér samastað hjá syninum – eru vinir Guðs, vinir Jesú Krists. Þegar dóttirin söng „samstað syninum hjá“ fór faðir hennar inn í himininn. Tíminn endaði og eilífðin byrjaði. Barnið, sem fæðist á jólum, kom til hins deyjandi manns. Þeirra samastaður var hinn sami.

Sálmar jóla

Sálmurinn Heims um ból er jólasálmur. Guðspjallssagan í Biblíunni er jólasálmur líka. Allir jólatextarnir eru ljóðrænar tjáningar um hið mesta og besta, sem hægt er að tjá. Eru þessir textar blekkingasögur og ótendar við lífið, glimmersögur sem sem eru fyrir börn og hrifgjarnt fólk? Nei. Þessir textar eru um það sanna og mikilvæga. Jólasagan er vissulega litrík. En það er engin ástæða til að taka skynsemi úr sambandi til að njóta hennar og virða. Jólaboðskapurinn er ekki fyrst og fremst um meyjarfæðingu, um vitringa, englaskara eða að Jesús fæddist í Betlehem. Þetta eru atriði varðandi umgjörð fremur en inntak. Erindi jólanna varðar ekki heldur hvort Jesús Kristur fæddist árið 1, árið 0 eða 4 árum eða 6 fyrir tímatal okkar. Helgisögur eigum við ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega. Trúin leitar að inntaki að baki bókstaf sögunnar – þarf að kafa í merkingu, meiningu, en staldra ekki í forskála sögunnar. Veruleiki helgisögu varðar gildi og dýpt.

Skilja helgisögu

Hvernig eigum við að nálgast og túlka helgisögur? Fólk fortíðar gerði sér vel grein fyrir staðreyndum og túlkun. Ytri veruleiki væri eitt en síðan mætti sjá mynstur, dýpri sannindi, viðmið og siðgildi menningar og einstklinga. Þau kunnu að greina að meginmál og aukaatriði. Þau skildu flest hvenær saga var krydduð og hvernig flokka ætti í viðburðasögur, viskusögur, kennslusögur, skemmtisögur eða siðkennsludæmi. Saga er meira en samsuða nokkra atriða um hvar, hvenær, hvernig og af hverju. Við þörfnumst meira en bara staðreynda til að líf okkar öðlist gildi og við njótum þess. Ást okkar á fólki verður hvorki vakin né kæfð vegna staðreynda einna. Lífið er meira en efnisveruleikinn.

Þegar við lesum klassík, hvort sem er Biblíuna eða rit fornaldar, er vert að muna að lengi voru sögur og viðburðir marglaga og oft fjórþrepa. Það var túlkunarháttur, sem vestræn kristni tók í arf úr v-asísku og grísku samhengi. Hið fyrsta var, að nálgast viðburði í ljósi staðreynda, rétt eins og góðir fræðimenn og fjölmiðlafólk gera. Önnur túlkunarvídd var spávíddin sbr. allir textarnir í gamla testamentinu sem sögðu fyrir um uppfyllingu í Jesú Kristi – nú eða rannsóknir náttúruvísindamanna um mengun, sem hafa forspárgildi varðandi þróun veðurfars og þróun lífs á plánetu okkar. Þriðja merkingarlagið varðaði siðvit og andlega visku. Rétt eins og við verðum fyrir áhrifum frá þroskuðu fólki getum við gert annað fólk fortíðar að viðmiðum okkar á lífsgöngunni og hvernig við getum orðið ábyrgari í athöfnum og samskiptum við aðra og náttúruna. Svo er síðasta víddin og varðar framtíð, hinstu tíma og eilífðina. Samstaðurinn í eilífðinni hefur áhrif á hvernig við lifum í þessu lífi.

Staðreyndir þurfa samhengi. Öll þörfnumst við næringar líkama, en líka andlegt fóður og gjöfula menningu og réttlátt samfélag. Við erum ekki einvíddar heldur fjölvídda. Merking er alls konar, söguleg og staðreyndir en líka andleg, siðferðileg, samfélagsleg, tilfinningaleg og trúarleg.

Jólasagan er helgisaga. Og slíkar sögur eru flétta stefja, ímynda og minna, sem þjóna boðskap eða virkni helgisögunnar. Við megum reyna að skræla burt það, sem ekki hefur í okkar samtíð skiljanlega skírskotun til hins guðlega. Forðum voru kraftaverk talin skýr tákn um Guðsnánd, en eru það ekki lengur. Vitringar voru tákn um stórviðburði og þjónuðu þar með ákveðnu hlutverki mikilvægis. En þannig er það ekki lengur. Svo var þjóðmenning og túlkunarhefð að baki í Biblíunni, sem var eins og stýrikerfi, sem stjórnaði hvaða atriði varð að nefna til að hægt væri að gera skiljanlega dulkóðun merkjakerfisins, hvernig átti að segja hlutina til að samhengið væri ljóst. Þetta var túlkunarhefðin, sem stýrði skilningi.

Mál hjartans og lífsviskan

Í spekibókinni Litla Prinsinum segir refurinn við drenginn þessi merkilegu orð: “Hér er leyndarmálið. Það er mjög einfalt: Maður sér ekki vel nema með hjartanu. Það mikilvægasta er ósýnilegt augunum.”

Við ættum ekki að láta hið yfirborðslega í jólasögunni rugla okkur og ekki taka söguna bókstaflega. En hvernig eigum við þá að skilja hana alvarlega? Þegar allt er skoðað og líka með hjartanu er boðskapurinn að Guð elskar. Guð tjáir þá ást með róttæku móti, ekki aðeins skriflega, bréflega eða með fréttatilkynningu í helgri bók. Guð sendir ekki fyrirskipanir og skoðanabombur eins og gamaldags einvaldur, heldur kemur – í eigin persónu. Þegar við játumst veruleika þess, að Guð er og elskar, verður nýr samastaður okkar til. Við verum börn tíma en líka eilífðar, að við megum lifa hamingjuna í samskiptum við fólk og náttúru og líka lifa í opnum tengslum við himininn.

Hvert barn – hver lifandi mannvera – getur skilið með hjartanu. Sannindi lífsins verða ekki bara túlkuð með vitsmunum, heldur lifuð á dýptina. Engin stærri gjöf fæst í lífinu, heldur en þegar sagt er við okkur og tjáð með margvíslegu móti: „Ég elska þig.“ Í því ljósi megum við hugsa og lifa guðssambandið – og tjá hvernig Guð er: Guð elskar ákaft og ævinlega. Í trú  lærir þú að skynja, að alltaf er Guð að tala – á öllum stundum lífsins, á álagstundum, á hátíðum, með börnum, þegar þú faðamar ástvini þína. Alltaf eru skilaboðin þau sömu, tjáningin hin sama: „Ég elska þig. Mig langar til að vera þinn og langar til að þú sért mín og minn.”

Samastaðurinn

Þegar við syngjum jólasálmana syngjum við um ást himinsins á heiminum. Og þegar Heims um ból er sungið kyssir himinn heim. Og því er undurfagurt þegar lífi lýkur í ómfangi sálmsins – að eiga heima, hvílustað hjá Guði. Það er margvídda mál að fara úr tíma og inn í líf himins, fara úr fangi ástvina inn í Guðsfangið. Þú ert elskuð og elskaður, þú mátt njóta þess að lifa, njóta þess sem þér er gefið, horfa í augu fólksins þíns og sjá í þeim undur lífsins. Samastað syninum hjá. Gott líf í heimi og gott líf í veröld Guðs. Orðið varð hold og bjó með oss. Jól þessa heims og annars. Guð gefi þér gleðileg jól.

Íhugun Hallgrímskirkju jóladag 2019.

Meðfylgjandi mynd er eftir Karolínu Lárusdóttur og ég hef aðeins enskt heiti hennar: Wondrous Happenings.

Lifandi vatn

Af hverju hefur þú svona mikinn áhuga á vatni? Vinir mínir hafa stundum spurt mig þeirrar spurningar. Mér hefur alltaf þótt vatn heillandi, hreyfingin, speglun vatns, gegnsæi, hringrás vatnsins. Þegar ég var strákur í Vesturbænum tók ég mig til og fékk gefins dekkjaslöngur hjá körlunum á Landleiðum þar sem nú eru Stúdentagarðarnir. Blés upp og batt saman og bjó til bát sem ég síðan sigldi við Þormóðsstaðafjöruna. Og móðir mín var ekkert að skipta sér af þessu fyrr en systir mín datt í sjóinn og kom holdvot og köld heim. Í sveitinni gekk ég með bæjarlæknum til að skoða vatnsmagnið, hvernig hann nagaði bakkana, laumaði sér milli steina og kom hlægjandi mót sólu. Ég var heillaður af vorflóðum, hvernig snjórinn blotnaði og lyppaðist niður og bunurnar skoppaði niður brekkurnar og faðmaði aðrar og af varð mikill vatnadans. Mér fannst heillandi að fylgjast með hvernig Svarfaðardalsá fór yfir bakka og allur hinn mikli dalur var undir vatni. Mér þótti merkilegt að sjá stíflumannvirkin sem bændurnir í dalnu höfðu byggt til að geta veitt vatni yfir engi. Og svo þegar ég var tíu ára vakti frændi minn mig snemma og sagði mér að nú ætti ég að drífa mig í fötin því værum að fara að veiða. Hann kunni tökin, kenndi mér að kasta og sjaldan hefur straumurinn orðið jafnsterkur í taugum mínum þegar stór bleikja kippti í og ég var nærri búinn að missa stöngina í hylinn. Svo varð ég hamslaus veiðimaður. Hvergi leið mér betur en við straumvatn. Það laðaði, heillaði, og snart einhver djúp hið innra. Milli mín og vatnsins voru tengsl. Á menntaskolaárunum ákvað ég að ég ætlaði í líffræði og sérhæfa mig í vatnalíffræði. En eftir veikindi og lífsháska þegar ég var 19 ára sneri ég við blaðinu og í stað þess að læra allt um vatnið fór ég í guðfræðinám og lærði allt um vatn lífsins. En meðan blóðið hefur runnið um hjarta mér hefur vatnið farið þar um. Alla tíð hef ég heillast af vatni, hugsað um vatn, snert það, dáðst að því og leyft því að vera inntak, umhverfi, áhugaefni og dýrð. Vatni hefur aldrei farið en ég hef notið þess í öðrum skilningi en kannsi hefði orðið í líffræði. Ég hef skírt ótrúlegan grúa barna. Ég hef útdeild víni sem er vatn i altarisgöngum. Ég hef reynt að túlka hið lifandi vatn himins á jörðu í ræðu minni og starfi. Ég er af vatni, þjóna vatni, nýt vatns og leyfi vatninu að heilla og næra mig.