Greinasafn fyrir merki: nýtt líf

Nýr tími

Tímaskil geta orðið ágeng og vakið miklar tilfinningar. Mér er minnistætt þegar einn drengja minna var sjö ára og yfirkominn af tímaöng. Hann fylltist af depurð yfir glötuðum tíma. Hann sá svo óskaplega eftir gamla árinu sem kæmi aldrei til baka. Hann var lostinn harmi yfir að gleðitíminn væri farinn og aldrei væri hægt að lifa hann aftur. Við foreldrarnir tókum drenginn í fangið og töluðum um víddir og takt tímans og möguleika lífsins. Þá var líka gott að tala um hvað afar og ömmur, við foreldrar og allir hinir ástvinirnir hugsum og gerum gagnvart tortímanda tímans. Eftir gamlárskvöld kemur nýr dagur og nýir möguleikar. Tíminn er ekki búinn heldur opinn. Til að tákna það breiðum við á nýársdegi hvítan dúk á borð nýársdags. Blóm dagsins væru hvít til að tákna að dagurinn væri upphaf nýs og óspjallaðs tíma. Meira segja litur kirkjunnar á þessum degi væri hvítur til að minna okkur á að framtíðinn væri opinn faðmur. Hvítt gegn myrkvaðri glatkistu fortíðar til að minna okkur á að hið liðna er farið. En tíminn er opinn.

Nýr tími merkir að við erum frjáls. Hvað um tíma nýs árs í vinnu, í einkalífi og í samskiptum? Er eitthvað sem bindur hug og líf? Þarf að losa festur, opna tabú og segja satt? Hver er djúplöngunin? Hvað viljum við gera við tímann, hvernig næra sjálf og stæla líkama? Kostur hvers tíma og hvers dags er að vera farþegi eða við stýrið í eigin lífi.

Skáldið bað: „Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.“ Það er verkefnið. Viturt hjarta – fyrir líf og dauða, fyrir gleðistundir, hörmungartíma og hamingjuvegi. Guð hefur úthlutað gáfum og gæðum til að vinna verkin og vit til að greina úrræðin. Guð hefur skapað tímann og okkur mannfólkið svo listilega að okkur er það mögulegt. Framundan er nýr tími, ómengaður og hreinn tími. Tímaöng varðar fortíð en fögnuður hæfir framtíð. Gleðilegt nýtt ár 2021.

Myndina tók SÁÞ eftir helgihald í Hallgrímskirkju á nýársdegi. Myndin er af bílrúðu við Hnitbjörg, safn Einars Jónssonar. Textinn er Gleðilegt nýtt ár 2021.