Ástareldur

Jólaminningar bernskunnar hafa vitjað mín síðustu vikur og ég hef verið að segja ungviðinu á heimilinu frá. Og klementínuflóðið á heimilinu hafa minnt mig á hvernig ávextir voru stórkostleg áminning um að jólahátíðin var að nálgast.

Þegar appelsínurnar komu í Árnabúð og KRON á Grímsstaðaholtinu vissu allir í hverfinu og fundu á lyktinni að jólin væru að koma. Ég man hve stórkostlegt var að rogast með heilan appesínukassa – og svo annan með eplum – upp tröppurnar heima. Hátíðarilmur fyllti vitin, fjölskyldan safnaðist saman og hlátur hljómaði. Síðan eru appelsínur, mandarínur og klementínur mér tákn um dásemd lífsins og vekja tilfinningu um lífsunað – það besta sem til er.

Og nú eru jólin komin. Jól eru ekki aðeins tilefni til að hvílast. Jólin varða hamingju og líf fólks. Hvað er mikilvægt? Hvað er þér mikilvægast í lífinu? Við þurfum ekki að spyrja ástfangið fólk sem kom með Elvu Björku til skírna í kirkjunni í dag. Þau eiga undur lífs í huga og höndum. Hvað blasir við þessari ungu stúlku, hvernig verður líf hennar?

Hvað gerir mannlíf þess virði að lifa því? Og svo er til önnur tengd spurning, sem þó er meiri. Hvað er það sem gerir líf Guðs þess virði að lifa því? Í faðmlögum fjölskylduboðanna og augnatillitum hinna ástföngnu eru kannski vísbendingar um svör við báðum spurningum.

Tengsl og líf

Norski rithöfundurinn og lífsspekingurinn Jostein Gaarder skrifaði dásamlega bók sem heitir Appelsínustelpan. Í sögunni er sagt frá Georg, fimmtán ára dreng. Einn daginn fékk hann bréf og það var ekkert venjulegt bréf eða tölvupóstur heldur bréf sem látinn faðir hans skrifaði. Pabbinn hafði dáið mörgum árum áður. Pabbabréfið og viðbrögð drengsins eru uppistaðan í sögu um ástina, lífið og þá dásamlegu veröld sem við öll byggjum. 

Sagan er ástarsaga og fjallar um mann, sem heillaðist af stúlku sem rogaðist með appelsínur þegar hann sá hana fyrst. Appelsínuburðurinn átti sér eðlilegar skýringar og margt er ofið inn í söguna um þann merka ávöxt.

Stúlkan og maðurinn áttust en maðurinn veiktist ungur og lést eftir skamma legu. Hann skrifaði ástarsögu sína áður en hann dó fyrir Georg, drenginn þeirra. Enginn vissi um, að maðurinn var dauðsjúkur þegar hann ritaði þetta opinskáa og tilfinningaþrungna bréf til drengsins því hann faldi það. En svo fannst það ellefu árum síðar, þegar Georg var kominn á unglingsaldur.

Sagan er grípandi. Hin áleitna meginspurning, sem pabbinn vill fá drenginn sinn til að hugsa um – og höfundurinn beinir að lesendum að íhuga – er: Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Menn hafa pælt í þeirri gátu frá árdögum manna. Aristóteles glímdi við hana, sjáendur Gamla testamentisins einnig. Jesús Kristur vann með þá spurningu með ýmsu móti. Við komust ekki undan því að svara henni eða bregðast við henni, jafnvel þó við flýjum eða viljum ekki horfast í augu við hana. Við svörum með atferli, vinnu, tómstundum, hugðarefnum – og líka hvernig við strjúkum og föðmum ástvini okkar – eða látum það vera.

Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Og tengdar spurningar eru: Ef lífið er stutt er það ekki líf sem vert er að lifa? Hvað þarf maður, að hafa lifað til að vera sáttur við líf sitt? Er stutt líf minna virði en það sem er langt og jafnvel ekki þess virði að lifa því?

Niðurstaðan er hin sama fyrir fólk allra alda, fólk suður í Grikklandi, austur við Genesaretvatn, norður á Íslandi, að lífið er mikils virði vegna þess að fólk elskar, fólk upplifir ástina, upplifir að lífið er í ástvinunum. Ekkert okkar sleppur við einhverjar raunir – líka vegna ástvina okkar. Við missum ástvini og syrgjum þá. Öll lifum við mótlæti, en lífið er stórkostlegt og gjöfult vegna þess, að við fáum að elska og vera elskuð.

Jólaboðskapurinn

Í tilfinningum og ástarsögum manna getum við séð speglast ástleitni Guðs. Við megum gjarnan sjá í öllum elskutjáningum manna brot af því, að Guð teygir sig til manna, Guð réttir hjálparhönd. Af því Guð elskar erum við mikils virði, eigum í okkur gildi og erum markmið í sjálfum okkur. Guð er forsenda alls sem er, allra gilda, sjálfsvirðingar manna og ástarinnar þar með.

Menn geta elskað þótt þeir trúi ekki á Guð, en trúmaðurinn sér í þeirri elsku afleggjara Guðs. Menn geta elskað börnin sín og maka óháð trú, en trúmaðurinn sér í þeirri elsku ávöxt himinelskunnar, sem er hið stóra samhengi þegar lífsferð manna lýkur. Við erum elskuð.

Guð og barn virðast í fljótu bragði vera fullkomnar andstæður, en eru þó meginmál kristninnar. Spurningin um hvað geri mannlífið þess vert að lifa því er áleitin. Hin hlið þeirrar spurningar er hvað geri líf Guðs þess virði að lifa því. Kristnir menn hafa í tvö þúsund ár gruflað í af hverju Guð hafi orðið maður. Já, af hverju lætur Guð sig varða þennan útnára geimsins, sem jörðin og mannheimur er? Af hverju lýtur stórveldið að smælkinu? Af hverju nemur það, sem er allt – hitt sem er nánast ekkert? Af hverju er Guð ekki bara upptekinn af sínu eigin jólaboði í eilífðinni, heldur tekur eftir þér í þínum aðstæðum, heyrir í þér, finnur til með sjúkum frumum þínum, fagnar með þér þegar gleðin hríslast um þig, líður með þér angist þína og kemur til þín þegar þú ert komin-n í öngstræti? Það er vegna þess, að Guð er guð elskunnar. Guð er vanur að elska í fjölbreytni samfélags guðdómsins. Guð er ekki innilokaður og sjálfhverfur heldur stór og útleitandi í ástalífi sínu. Guð er ríkur og fangvíður. Sagan af Guði er ástarsaga – stórkostleg ástarsaga.

Hvernig horfir þú á veröldina? Er hún þér smá og lokuð eða stór og skapandi? Getur þú hugsað þér að túlka jörð og stjörnur, heimsferla og vetrarbrautir, líf þitt og líf í fjarlægð sem ástarsögu, sögu sem á sér rætur í guðlegu drama? Ef þú ert reiðubúin-n til slíks nálgast þú veröld Guðs.

Saga þín er merkileg saga. Og þú ert einstakur og einstök og þið eruð elskuð. Saga appelsínustelpunnar staldrar við lífsmálin og hjálpar okkur að horfa elskulega á fólkið okkar. Mest er ástarsaga Guðs, sem elur af sér heiminn, viðheldur honum og blessar hann. Spurningunni, af hverju varð Guð maður, verður best svarað með skírskotun til ríkulegs ástalífs Guðs. Ástfangnir heyra og sjá. Guð sér þig, heyrir raddir heimsins, miðlar inn í veröldina hæfni til elska, næra og ala af sér líf.

Í ástarsögum heimsins sjáum við Guð. Veröldin er frá upphafi alin í ástareldi. Allt efni, öll tilveran kraumar af ást, Guðsástinni meðal mannanna.

Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu…

Amen

Hugleiðing jóladag.