Jólin hans Hallgríms í Þýskalandi

Fyrir jólin kom út í Þýskalandi bókin Norræn jól (Skandinavische Weinachten) hjá Oetinger forlaginu í Hamborg. Þar er meðal annars að finna þýðingu Florence Groizier á Jólunum hans Hallgríms eftir Steinunni Jóhannesdóttur með myndum Önnu Cynthiu Leplar. Í bókinni er auk þess birt Jólasveinakvæði Jóhannesar úr Kötlum með myndum Erlu Siguðardóttur og sagan Jólin í Hælavík eftir Jakobínu Sigurðardóttur, myndskreytt af Imke Sönnischen.

Norræn jól er vegleg bók, um 220 síður í stóru broti og ríkulega myndskreytt. Þar eru mikilvægustu norrænu jólasögurnar sagðar af höfundum eins og Astrid Lindgren, Selmu Lagerlöf, H. C. Andersen, Ellen Reumert, Jo Tenfjord, Tor Åge Bringsværd, Tove Jansson, Zacharias Topelius og fleiri, ásamt myndum Elsu Beskow, Katrin Enkelking, Sven Nordqvist, Carola Sturm og fleiri listamanna. Einnig er greint frá ýmsu sem tengist jólahaldi og aðventu á Norðurlöndunum. Íslenskir jólasveinar, Grýla, Leppalúði og skötuilmur á Þorláksmessu koma við þá sögu.

Bók Steinunnar Jóhannesdóttur opnar sýn að jólum á tíð Hallgríms Péturssonar. Í Hallgrímskirkju var bæði í desember 2015 og 2016 tekið á móti barnahópum og þeim kynnt jólahald á tíð hins unga Hallgríms sem Steinunn segir svo frábærlega vel. Saga hennar hefur verið nú verið valin í úrvalssafn norræns jólaefnis. Það er magnað og fagnaðarefni.