Skírn – niður og upp

Vertu Guð faðir, faðir minn,

í frelsarans Jesú nafni.

Hönd þín leiði mig út og inn

svo allri synd ég hafni.

Þessi bænavers Hallgríms standa á hinum stórkostlega skírnarfonti Hallgrímskirkju. Og í dag beinum við huga að skírn. Mér þykir dásamlegt að taka þátt í skírn, horfa í augu hvítvoðungs og sjá í þeim himin og framtíð. Í skírn kyssast allar góðar víddir mennsku og lífs. Tími og eilífð faðmast. Því er skírn hátíð.

Barnið, nýkomið frá Guði, er fært í klæði hreinleikans og hvílir í fangi ástvinar. Svo eru lesnir miklir textar, sem varða lífið og lífslánið. Vatnið í skírnarfontinum er hreint og vekur oft athygli hins unga lífs. Svo gutlar í vatninu og tilfinningar bylgjast í ástvinum, bros læðast í munna og augu. Og flestar skírnarathafnir eru gjörningur hins óvænta. Flestum nema foreldrunum fannst mjög fyndið þegar stóri bróðir átti að segja nafn barnsins en honum fannst nafnið sem pabbi og mamma höfðu ákveðið bara ekki gott. Hann sagði hátt og skýrt það nafn sem honum fannst flottast. Foreldrarnir hrópuðu neiiiiiiii. En svo var allt leiðrétt, nafnið var nefnt frammi fyrir Guði og mönnum. Skírn er gjörningur og fyrir lífið og ástvinir umvefja barnið með vonum og bænum. Krúttið er blessað og ég lyfti því gjarnan upp. Oft klappa allir. Já, mikil hátíð og tilfinningaþrungin.

Umstang – lífgjöf

En til hvers að skíra börn? Hátíð já en fyrirhöfn líka. Á kannski bara að einfalda? Nú er hægt að fara inn á vef þjóðskrár og ganga frá skráningu. Ekkert mál, tekur fimm mínútur, búið og gert. Er það ekki snjallast – eða hvað? Fólk segir líka stundum, að það vilji leyfa barninu að ráða hvort það verður skírt eða ekki. En er einhver ástæða að bíða með að gefa stærstu gjafirnar þar til krakkarnir eru unglingar? Skírn er ekki hættuleg heldur stórkostleg gjöf. Það er hægt að bíða með skírn ef fólk vill bara sætta sig við lágmörkin. Skírn er meira en nafngjöf eða skráning. Nafngjöf er lagaskylda en skírn er lífgjöf.

Skírnarsagan

Og þá fyrst sagan. Jesús var skírður í ánni Jórdan. Það var afgerandi stórviðburður í sögu skírnarinnar, raunar miðjan, sem skilgreinir allt hitt sem á eftir kom. Jóhannes, nefndur skírari af starfanum, var út í á og jós vatni á fólk eða dýfði því niður. Kristnir gerðu eins og meistarinn. Frumkirkjan sótti út í vatnið og vantssullið hefur einkennt allar stóru – raunar flestar – kirkjudeildir heimsins síðan. Skírn hefur alltaf verið meira en skráning, stærri bónus og djúktækari plús en bara að líma nafn við fólk. Skírn varðar hið stóra en nafngjöf hið smærra og best að þau fari saman. Skírn er það að leyfa öllum lífsvíddum að umfaðma barnið en ekki bara að setja nafn á það. Og í skírn er auðvitað beðið um að Guð verði alltaf vinur barnsins.

Orðið skírn er gegnsætt og tandurhreint orð. Sögnin að skíra merkir að hreinsa. Jesús talaði um skírn og ritarar Nýja testamenntisins líka. En í þeirra túlkun var skírn ekki eins og laugardagsbað til að þrífa skítugan kropp. Skírn var mál hins ytra og innra, tíma og alls þess sem er eftir dauða. Páll postuli var róttækur og skapandi hugsuður. Í Rómverjabréfinu, sem var lesið áðan, segir hann: „Eða vitið þið ekki að við öll, sem skírð erum til Krists Jesú, erum skírð til dauða hans?“ Barn skírt til dauða! En svo bætir hann strax við: „Og eins og faðirinn vakti Krist frá dauðum með dýrðarmætti sínum, eins eigum við að lifa nýju lífi.“ Skírð til lífs í tíma og eilífð.

Það er eitthvað mikið meira og dýpra á ferðinni í þessum orðum heldur en að pikka nafn á netinu í þjóðskrá. Jesús notaði raunar nefninguna skírn um allan feril sinn og hlutverk, þetta sem við íhugum á föstunni, skírdegi, föstudeginum langa og páskum. Jesús sagði vinum sínum að honum yrði dýft ofan í voðalegan hyl. Hann yrði beinlínis að fara á kaf svo hann mætti klára hlutverk sitt. Af orðum hans ályktuðu hugsuðir frumkristninnar að skírnin væri þátttökugjörningur. Skírn væri beintenging við allt sem Jesús Kristur stæði fyrir, kenndi, upplifði og afrekaði. Fullkomin samábyrgð og tenging.

Fer niður getur komið upp

Ólíkt reglunni í hagfræðinni sem segir, að það sem fari upp komi niður, er í kristninni andstæðar hæðarlýsingar og hreyfitjáning. Kristnin kennir, að það sem fer niður getur komið upp. Hugsuðir aldanna tóku eftir þessum merkilega ferðastíl kristninnar. Engin þjáning, engin neyð er til dauða í Jesúreisunni, heldur getur allt, sem við upplifum neikvætt, snúist til góðs af því Guð er nærri. Alþýðuvísdómurinn hefur túlkað þetta svo, að lífið sé harður skóli og engin viska verði til nema vegna lífsreynslu. Heimspekingurinn Hegel notaði þessa lífsspeki í heimspekikerfi sínu og talaði um aufhebung– upphafingu. Líf fólks og þjóðfélaga er aldrei samfelld hamingjusaga heldur baráttusaga. Lífið er agandi skóli. Hetjan verður ekki til nema í átökum, hetjan verður aðeins skírð í eldi baráttunnar. Sem sé, það sem fer niður getur farið upp ef Guð er nærri. Farsælar lyktir af því Guð er. Líf er ferli í stórum tíma en líka eilífð.

Sköpun, blessun vatns og ógn

Þegar við skoðum frásögur Biblíunnar og guðfræði fyrstu alda sjáum við, að skírnarboðskapur Jesú hafði stýrandi áhrif á hvernig bað kristninnar var skilið og túlkað. Skírn Jesú var frá fyrstu tíð tengd við sköpunarsögu Gamla testamentisins. Jesúskírnin var skilin með vísan til upprunasköpunar sem ný sköpun. Guð endurhelgaði heiminn. Við, sem höfum lesið miðaldaprédikanir Hómilíubókarinnarskynjum, vitum að kristnir miðaldamenn töldu að öll vötn veraldar væru helguð með skírn Jesú. Framhald – sköpunargjörningur.

Allir vita að ekkert lifir án vatns. En vatn getur líka fært í kaf og drekkt lífi. Syndaflóðasögur tjá þá ógn. Flóðbylgjur aldanna hafa eytt lífi. Í öllum landdýrum býr óttinn við of mikið vatn. Vatn slekkur ekki aðeins þorsta lífs, heldur er jafnframt tákn um að lífið er óöruggt. Nútímamengun sjávar og æðakerfis vatnsheimsins er svo syndaflóð samtíma okkar, sem við menn berum alla ábyrgð á.

Stórviðburðir – adráttarafl og túlkun

Skírn Jesú var ofurviðburður sem kallaði á skýringar, tákn og túlkun. Jesúskírnin var  slíkur samsláttur kraftanna að stór tákn soguðust til þeirrar miðju. Skírn dró að sér túlkun og tákn. Myrkur, þjáning, dauði, vatn og þorsti hafa verið skýrð með margvíslegu móti. Svo er dúfa líka tengd hinum lífgefandi en einnig lífsógnandi vötnum í táknheimi Biblíunnar. Í hinum fornu ritningum var rok tákn um návist Guðs. Fyrst var kaos, óreiða, en orð og blástur Guðs komu skipan á og til varð veröld. Úr líflausri frumvatnaveröld varð til blái hnöttur hinnar góðu sköpunar. Guð sá, að allt var harla gott. Frumkristnin tengdi skírn Jesú og skírn allra manna við þessa sköpun heimsins. Í skírn var tengt inn í lífið, sem Guð hafði gert svo gott. Vatnið var ekki bara ógnandi heldur líka lífgefandi. Harla gott. Veröldin væri ekki aðeins til dauða heldur var og er stefna kristninnar stefna Guðs upp úr dauðadalnum og til lífs og hamingju. Svo skildi fólk, að allir sem tóku þátt í þessum skírnargjörningi voru kysstir af himninum og eilífðinni. Og ættarmótið er heyrum kunnugt og opinbert: „Þetta er sonur minn.“„Þetta er dóttir mín.“ Fólk á Guðs vegum. Líka börn í samtíð okkar – ekki bara nöfn í skrá, heldur elskuð og kysst af himinum. Það sem fer niður kemur upp af því að Guð hefur áhuga á hinu ríkulega og stóra – sem er meira en nafngjöf. Guð skapar líf í risastóru samhengi.

Fonturinn geislar

Er lífið einfalt? Nei. Hefur þú einhvern tíma átt erfitt, misst marks eða orðið fyrir áfalli? Já. Ekkert okkar flögrar átakalaust í gegnum lífið. Það er raunsæisboðskapur skírnarinnar. Það, sem fer niður, getur farið upp vegna þess að Guð er nærri. Enginn er einn og óstuddur. Guð er alltaf nærri, fer með okkur á kaf þegar við þjáumst, heldur í hendi okkar þegar við erum að kafna, sleppir aldrei og er alltaf tilbúinn. Það, sem fer niður, fer upp ef Guði er leyft að vera með. Líf hins skírða er opið líf, með bónus, fullt af möguleikum. Aðalmál skírnarinnar er að Guð fær að vera nálægur vinur. Það er hægt að hafna skírn og afþakka þá nálægð, en Guð er nærri og býður hlýja návist.

Skoðaðu hinn dásamlega skírnarfont Hallgrímskirkju. Á hann er ekki aðeins letrað bænaversið – líka með stafagerð höfundarins Leifs Breiðfjörð – sem við báðum áðan. „Vertu Guð, faðir faðir minn…“ Hitt, sem er líka letrað, er versið í Markúsarguðspjalli : „Sá sem trúir og skírist mun hólpinn verða.“ Ekkert lítið heldur stórt, beintenging við lífið í tíma og eilífð. Upp, upp mín sál.

13. janúar, 2019. 

 

Greta, Guð og blessunin

Hún er fimmtán ára gömul og vakti athygli Svía í haust. Í stað þess að fara í skólann á föstudögum fór hún í skólaverkfall. Hún fór að þinghúsinu í Stokkhólmi og mótmælti mengun jarðar og lofts. Hún heitir Greta Thunberg og skólaverkfallið hennar vakti svo mikla athygli að henni var boðið til Katovice í desember síðastliðnum til að flytja ávarp á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem þar var haldin. Þessi lágvaxni risi sakaði leiðtoga heimsins um að stela framtíð barna. Í fjögurra mínútna ræðu sagði hún, að gömlu aðferðir þeirra hefðu ekki skilað neinu. Allt of mikið væri talað í stað þess að gera það sem væri lífsnauðsynlegt. Hún sagði: „Þið talið bara um grænan hagvöxt því þið eruð hrædd við óvinsældir. Þið talið bara um sömu vondu hugmyndirnar, sem komu okkur í vanda í stað þess að taka í neyðarhemilinn. Þið eruð ekki nógu þroskuð til að segja hlutina eins og þeir eru. … Þið segist elska börnin ykkar heitar en nokkuð annað, en samt stelið þið framtíð þeirra fyrir framan nefið á þeim.“ Og svo hélt hún áfram og minnti á að lífhvolfi jarðar væri fórnað svo að auðugt fólk í löndum gæti áfram lifað í vellystingum. Þægindi fárra væru keypt með þjáningu. Og Greta Thunberg sagði pótíkusunum upp. Hún hefur sett sér áramótaheit, kveikti skilning margra og kallar til ábyrgðar og starfa. Boðskapur þessarar ungu konu er erindi úr framtíð.

Blessunin er alls konar

Nú er nýársdagur, opinn tími nýrra möguleika. Hvert er nýársheit Guðs? Það kemur úr framtíðinni líka. Og hvert er þitt heit? Áttu þér draum? Hvað viltu að hverfi og yfirgefi þig? Við erum kölluð til góðs lífs. Sá nýársboðskapur kemur fram í textum dagsins. Er þar eitthvað sagt, sem varðar líf okkar á nýju ári, gilt fyrir heila, hjarta, hendur og fætur? Framtíðin kallar til þín – kallar þig.

Lexía dagsins eru eiginlega stóryrði – og svo mikilvæg að Gyðingar álitu þau meginmál. Og kristnin, með Jesú Krist sem fyrirmynd, gerði þau að niðurlagi í messum. Þetta eru blessunarorðin, sem prestar fara með í lok allra messugerða. Þau eru skráð í fjórðu Mósebók. Kannski hljóma þau eins og þula eða orðasúpa, en þau eru svo sannarlega ekki inntantóm merkingaleysa, heldur varða líf og hamingju allra:

Drottinn blessi þig og varðveiti þig. Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur. Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.

Hefur þú heyrt þessi orð? Þetta er hin aronítíska blessun, sem líka er kölluð prestslega blessunin. Svo eru til fleiri blessanir í Biblíunni, t.d. sæluboðin og postulega kveðjan. Og mömmur og pabbar, afar og ömmur hafa breitt elsku yfir fólkið sitt og afkomendur í sama anda og sagt: „Guð blessi þig“ – eða – „Guð geymi þig.“

Blessun merkir að lífið verði gott þeim, sem þiggur blessun. Blessun er til bóta. Við menn erum farvegur en Guð er lind blessunar. Þegar Guð blessar eru gjafir gefnar og þær eru allt hið góða, sem við njótum; gjöful og fögur náttúra, friður meðal þjóða og hópa, matur, öryggi fólks, gott skólakerfi og heilsugæsla. Ekkert af þessu eru sjálfsögð gæði, sem við eigum heimtingu á til að nota eða misnota. Hver er blessun þín?

Tvíhyggja eða eining?

Mörgum hættir til að hugsa um hið trúarlega sem innra líf, hugarró, innra traust eða æðruleysi. Já, það er blessun en hún er líka stærri. Blessun Guðs varðar líka efnaferla í eldfjöllum, sprengingar í sólkerfum, nýjustu rannsóknir í krabbameinslækningum og hvort Trump trompast (aftur og áfram?). Okkur hættir til að hugsa um trú í anda tvíhyggju. Tvíhyggja er sú nálgun, að hið efnislega og andlega séu andstæður og trúmenn eigi bara að halda sér til hlés frá ati heimsins. Hið andlega sé aðalmálið en líkami, efni, peningar og samfélag sé óæðra. En slík lífsafstaða er ekki komin frá Jesú Kristi eða Biblíunni. Trú varðar heilsu fólks, líkamlega næringu, efnislegar þarfir, náttúru, frið og líka flóttafólk. Samkvæmt Bibllíunni er hið andlega, félagslega, náttúrulega og pólitíska þættir sem varða Guð og trú. Hið hebresk kristna samhengi kennir heildarhyggju. En tvíhyggjan, sem kom inn í heim fólks, eyðilagði þá heild. Og það er komið að því að við hættum að rugla.

Hvað er blessun? Hún er stórpólitísk yfirlýsing og kall til átaka. Blessunin í messunni er ekki fróm ósk prestsins um að þér líði skár innan í þér í næstu viku en í þeirri síðustu. Hún varðar að þú lifir lífinu vel á öllum sviðum, gerir upp brot þín og áföll, vinnir í þínum málum, hugir að heilsu þinni, látir ekki spillt fólk spilla friði og fara illa með aðra. Og hún merkir, að þú leggir þitt á vogarskálar svo líf heimsins fái lifað. Blessun Guðs er áramótagjöf Guðs svo líf þitt og líf heimsins batni.

Umhverfi, blessun, ábyrgð

Nýtt ár, nýir möguleikar og framkvæmdir til góðs.

Drottinn blessi þig – en við menn dælum samt árlega átta milljónum tonna af plastefnum í hafið, sem skaða alla þætti lífríkisins. Ein milljón fugla deyr árlega vegna þessa og eitt hundrað þúsund sjávarspendýr. Drottinn varðveiti þig.

Drottin láti sína ásjónu lýsa yfir þig. Ant­onio Guter­res, fram­kvæmda­stjóri Sam­einuðu þjóðanna, sagði í liðnum mánuði í Katovice, að lofts­lags­breyt­ing­ar væru nú þegar spurn­ing um líf eða dauða í mörg­um lönd­um heims.Það merkir á máli trúar, að gott fólk um allan heim er kallað til að láta til sín taka en ekki bara tala eins og forréttindafólki vestursins hættir til. Og Drottin sé þér náðugur.

Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig. Þegar þú skrúfar frá krana í eldhúsinu heima hjá þér streymir dásamlegt vatn. Um fjórðungur mannkyns, 2 milljarðar, býr við alvarlegan vatnsskort. Vatn er heilagt eins og fram kemur í sakramentum kirkjunnar, altarisgöngu og skírn. Þú varst borin til skírnar sem barn. Milljarðagamalt hreint vatn lék um hársvörð þinn og vatnið, sem þú nærðist af í móðurmjólkinni varð þér til lífs. Þegar þú gengur til altaris á eftir gengur þú að uppsprettu lífsins í margföldum skilningi. Og Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.

Við erum kölluð til lífs og verndar lífi. Á nýju ári kallar Guð lærisveina, fólk til starfa. Áramótablessun Guðs varðar þitt líf. Við erum ekki kölluð til að bjarga heiminum en öll getum við gert eitthvað. Á heimilum okkar og vinnustöðum, í neyslu okkar og meðferð lífsgæða, hvernig við verjum athkvæði okkar og notum peninga.  Sóknarnefnd Hallgrímskirkju t.d. undirbýr nú að Hallgrímskirkja verði græn kirkja.

Á nýju ári er heimurinn blessaður. Í ómstríðri raddhviðu heimsbyggðarinnar hljóma hughreystingarorð, í sorg hljómar hvísl vonarinnar. Gegn mengun hljóma textar blessunar. Kristnin virðir skugga og áföll – talar alltaf með rödd hins góða og eflandi.

Kristindómur er átrúnaður lífs gegn dauða. Boðskapurinn er: Dauðinn dó en lífið lifir. Guð kallar fram líf – gleði, von, vit, ljós og kallar fólk til verka. Nýársheit Guðs er blessun.

Amen.

Prédikun 1. janúar, 2018. Hallgrímskirkja. 

Grist: https://grist.org/article/greta-thunberg-activist-cop24-katowice/

http://www.visir.is/g/2018181219320

Blessunarorðin – 4Mós 6.22-26
Drottinn talaði til Móse og sagði: „Ávarpaðu Aron og syni hans og segðu: Með þessum orðum skuluð þið blessa Ísraelsmenn: Drottinn blessi þig og varðveiti þig, Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur, Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.

Bullandi karlmennska

Hvað eigum við þá að gera? Það er spurning guðspjallsins. Samtöl á bar rétt hjá Dómkirkjunni og Alþingishúsinu fönguðu athygli margra síðustu vikurnar. Klausturupptökur Marvins, sem reyndar er kona og heitir Bára, voru opinberaðar í skömmtum. Sumt af því, sem sagt var á barnum, var meinlítið röfl en annað var meiðandi. Fjölmiðlafólkið, sem hlustaði fyrst á upptökurnar, spurði sig. „Hvað eigum við þá að gera?“ Og þegar efnið var svo opinberað þyrluðust upp álitaefni. Hvernig átti að bregðast við hlutgervingu kvenna og að þær voru túlkaðar sem tól? Fötlun fólks varð enn einu sinni skotspónn. Samtölin opinberuðu ýmsa fordóma og reiði. Já, hvað eigum við þá að gera?

Textar þessa þriðja sunnudags í aðventu varða samtöl á bar og reyndar líka hvernig karlar, já allt fólk, þarf að lifa og vera. Karlar hafa lengi ráðið mestu í hinu opinbera rými. Hlutur karla er íhugunarefni. Og þar sem karlarnir gegna mörgum hlutverkum í messu dagsins, ómbrimandi karlakór syngur, karl spilar á orgelið og tveir þjóna fyrir altari – og textinn gefur tilefnið – verður talað um karlmennsku af prédikunarstóli, eðli hennar og skuggahliðar. Þau, sem eru með símana sína tilbúna, hafa hér með fulla heimild til að taka upp allt, sem hér verður sagt, birta á netinu og framsenda hvert sem er.

Biblían hefur margt að segja við karla um styrkleika þeirra og veikleika – hvað þeir geta gert eða ættu að gera. Já, Biblían hefur mótað margt í sögu okkar og þar á meðal haft áhrif – með biblíupersónum – á karlmennskuhugmyndir okkar. Og þegar karlar láta allt flakka, óra sína, fordóma, stefnumál og átök þá er margt, sem Biblían getur bent þeim á og bætt við. Biblían heldur áfram að leggja til vísdóm og líka karlímyndir.

Klausturbarsgjörningurinn er merkilegt stykki á leiksviði þjóðfélags. Ekkert handrit var skrifað, heldur var flæðið og spuninn í samræmi hvatir og tilfinningar. Á Klausturbarnum var öll mennska undir, tengsl fólks, gildi og þrýstilínur samfélags, eðli og hlutverk kvenna og fatlaðra. Því er þetta mál rætt í dag og varðar alla karla og allar konur.

Verk karla

„Hvað eigum við þá að gera?“ Svo var og verður spurt. Jóhannes skírari var merkilegur karl. Hann fór ekki á barinn heldur út í eyðimörkina. Hann hafði komist að því að gamla pólitíkin hafði bara klúðrað málum og nú þurfti eitthvað nýtt að vinda ofan af vitleysunni. Jóhannes barðist fyrir bættu samfélagi. Margir hrifust og töldu, að fram væri kominn nýr leiðtogi fyrir nýjan miðflokk fólksins. Jóhannes kom úr eyðimörkinni og að vatninu, skírði og hélt ræður, sem hlustað var á. Hann var vissulega rosalegur, með hunang í skegginu og þyrna í kyrtli, en það var ekkert rugl eða röfl í málflutningi hans. Boðskapurinn var fyrir karla í krapinu, konur að störfum og réttlátt samfélag. Hann hélt fram: Ef þið eruð rík, náið þá í fjármunina úr skjólum ykkar og gefið hinum fátæku. Ef þið eigið föt og mat aflögu ættuð þið að að gefa með ykkur. Og þau, sem voru jaðarsett í samfélaginu (og biblían kallar tollheimtumenn), spurðu: „Meistari, hvað eigum við þá að gera?“ Jóhannes sagði þeim að græða ekki meira en hæfilega. Allir skyldu taka tillit til annarra, enginn skyldi beita slægð eða svikum. Menn skyldu gæta hófstillingar. Og af því það var stemming fyrir búsáhaldabyltingu í þjóðfélaginu vildu margir að Jóhannes yrði foringinn. „Nei, nei,“ sagði hann. Hann væri ekki í pólitík til að bola einni valdastétt frá til að koma annarri að. Hann væri í stóru málunum – þessum sem jól og páskar varða.

Orð og gerðir Jóhannesar skírara sýna karl, sem var sterkur leiðtogi og skilgreindi forystu sína í þágu annrra. Jóhannes sýndi okkur meginþætti karlmennsku. Karl sem þjónn, karl sem siðferðisvera, karl sem vitringur, karl sem lítur á sig sem hlekk í keðju, hluta heildar og í þágu annarra. Það er karlaímynd Biblíunnar – og enginn ábyrgðarflótti.

Karlímyndir

Það var nú ekki markmið þeirra á Klausturbarnum að bjóða Jóhannesi skírara til sín. En Jóhannes þarf að mæta þangað líka með alvöru pólitík. Hann þarf að mæta til okkar allra því við gerum öll mistök, dettum í rugl og missum okkur. Við erum öll undir auga alskyggninnar. Þegar karlar lýsa konum sem tólum er karlmennskan sködduð. Karlar, sem tala niður til einhverra og jafnvel gera grín að þeim eins og þau væru dýr, hafa tapað getunni og flekkað mennskuna. En klausturbargjörningurinn er ekki undantekning heldur eitt af mörgum dæmum um afstöðu einstaklinga og hópa í samfélagi okkar, sem höndla illa samfélagsbreytingar, ógnanir alþjóðavæðingar og fljótandi siðferðisviðmið. Óttinn hefur magnast. Alls konar ótti, við nýbúa, flóttamenn, homma og lesbíur og fleiri. Og reiðin er systir óttans. Þegar karlmennskan tapar getunni er stutt í ofbeldið. Um það verðum við að ræða undanbragðalaust og ekki setja okkur sjálf utan hrings.

Styrkur eða veikleiki

Í öllum samfélögum eru til karlar, sem eru hræddir við sjálfa sig, um sjálfa sig og þar með hræddir við konur. Ein af aðferðum hins hrædda er að hlutgera annað fólk, niðurlægja, lítillækka og hreykja sér á kostnað annarra. Þegar konur eða karlar ná ekki að þroskast til visku og máttar – verða til skuggamenni, sem misnota. Hverjir verða fyrir? Jafnan þrenningin: Börn, konur og náttúra. Það eru helstu þolendur sjúkrar mennsku. Litlir karlar níða aðra niður eða riðlast á öðru fóki til að sjást. Hræddir karlar beita ofbeldi. Ófullnægðir karlar tuddast áfram og trampa á öðrum. Siðblekktir karlar varpa draumórum um eigin mikilleika á heiminn og sækja í vald. Kenna öðrum eða aðstæðum um allt sem aflaga fer. Ábyrgðarflótti einkennir atferli þeirra.

Það er annað en karlímynd Biblíunnar. Stóru karlar kristninnar eru þjónar, karlar sem siðferðisverur, vitringar sem sjá hlutverk sitt í tengslum og í þágu annarra. Og gangast við ábyrgð sinni.

Lýsa upp skuggana

Tónlistarmaðurinn Svavar Knútur sagði einu sinni frá því, að í skóla dóttur hans hefðu tólf ára drengir sagt, að það þyrfi að nauðga stelpum með skoðanir. Og takið eftir: Þetta eru drengir, sem ekki eru komnir á fermingaraldur! Ekki væri tekið mark á stelpunum vegna þess að þær væru “ómerkilegar, þær væru ílát, drasl” – eins og drengirnir orðuðu það! Tólf ára drengir í skóla, en töluðu eins og drengir á bar. Ofbeldismenning varðar okkur öll og skiptir okkur máli. Við eigum að bregðast við henni. Allt annað er meðvirkni. Hið illa lifir og dafnar meðan gott fólk gerir ekkert. Við þurfum að staldra við og spyrja okkur sjálf hvort við ræktum óttann innan í okkur og ofbeldið þar með? Við erum öll í hættu og hættir til að verða skuggaverur.

Jóhannes var flottur karl. Hann ól ekki á ótta og lagði ekki til nauðganir og mannfyrirlitningu. Nei, hann beindi sjónum að því, sem mestu máli skipti, Guði, komu hins góða, trúarlega í mannheim. Aðventan er undirbúningstími. Við megum gjarnan skúra að hætti Jóhannesar. Skúra út ótta og hreinsa okkar andans vistarverur. Taka á móti Jesú Kristi. Hann þjónaði alltaf fólki, virti fólk, gerði ekki grín að fötlun þess, heldur studdi og læknaði. Jóhannes var flottur karl og Jesús Kristur er ímynd þroskaðrar karlmennsku.

Aðventan kallar á alvöru kalla!

Stöldrum við og þorum að endurskoða mennsku okkar. Þið karlar, syngjandi, þjónandi, verandi. Þorið að vera alvöru karlar, sem ræktið þroska en ekki smæðarlegar skuggamyndir. Dætur okkar og synir, allt fólk í umhverfi okkar á að fá að njóta hæfileika sinna án heftinga. Haturshópar eiga ekki rétt á starfsfriði og ofbeldiskúltúr hentar bara í endurvinnsluna. Nú eigum við að leyfa draumum að rætast. Bönnum lausagöngu karltrölla í almannarýminu, en ræktum mennskuna. Notum aðventuna til að hreinsa út fordóma og falsímyndir úr lífi okkar. Hvað eigum við þá að gera? Opnum bar himinsins, leyfum sálmum lífsins að hljóma, körlum að leika og mannlífi að blómstra.

Amen.

Íhugun um karlmennsku, skuggahliðar og alvöru karla.

B-röð texta. Hallgrímskirkja 16. des 2018

Ofurhugar Íslands

5. desember 1948, vígsla fyrsta hluta kirkjunnar, Hallgrímskapella. Fremst á mynd er Vörðuskóli. Í baksýn eru braggar og Hnitbjörg. Skólavörðuholt. Nú er þetta kapella undir kór kirkjunnar.

París hefur sinn Eiffelturn, London Big Ben og Reykjavík Hallgrímskirkju. Þannig var Reykjavík uppteiknuð í ferðakynningu og tjáir hlutverk kirkjunnar í borgarlandslagi Reykjavíkur. Hallgrímskirkja er orðin einkenni borgarinnar, lógó ferðamennskunnar. Auglýsingabransinn notar hana, sem bakgrunn til að staðfæra og sannfæra. Hallgrímskirkja teiknar sjóndeildarhring Reykjavíkur og Íslands. En svo hefur það nú ekki verið um aldir.

Hvar er Hallgrímskirkja?

Gamlar myndir frá Reykjavík eru skrýtnar því á þeim er enginn gnæfandi kirkja á Skólavörðuholti, turnspíra hálfa leið til himins, kirkjuskip og nettur kórkúpull. Það, sem nú er nauðsyn í auglýsingum ferðaþjónustunnar og sjónrænn stimpill vitundar okkar, er ekkert sjálfsagt heldur ávöxtur starfs stórmenna. Þegar byrjað var á byggingu kapellunnar, neðri hluta kirkjukórsins, var á holtinu braggabyggð stríðsáranna. Það var erfitt að afla heimilda fyrir lóð fyrir kirkjuna. Svo hafði hernámsliðið ekki mikla þolinmæði fyrir eitthvert kirkjurask í miðri heimsstyrjöld. Miðað við fátækt fólks var fáránlegt að láta sig dreyma svona stóra byggingu, hvað þá að fara af stað. Byggingaráform Hallgrímskirkju voru órar, enda var enginn skortur á andstæðingum, úrtölumönnum og glefsandi uppistöndurum. Þegar fyrsta skóflustungan var tekin að Hallgrímskirkju á köldum desemberdegi árið 1945 var ekki einn einasti fjölmiðlamaður við þann merka atburð og hvergi var frá honum sagt. En kvenfélag Hallgrímskirkju lét sig það litlu varða og bakaði með gleði upp kapellu og turn stórkirkjunnar. Þökk sé þeim einbeittu konum. Þær eru meirihluti ofurhugaliðsins.  

Trú er alltaf stærri en hræddar peningasálir. „Við skulum fara til og byggja“ var prédikað á Skólavörðuholti. Hetjur heyrðu. Þær voru stórhugar Íslands, sem við stöndum í þakkarskuld við. Þær voru frumkvöðlar, sem eru okkur skínandi fyrirmyndir um að þora að hugsa stórt, þora að framkvæma og halda því fram sem mestu máli skiptir fyrir heilbrigði einstaklinga og samfélags, þjóðfélag og kristni. Það var farið til að byggja. Milli bragganna í Skipton Campá Skólavörðuholti var kapellan svo vígð Guði þann 5. desember árið 1948. Sjötug kapella, sjötíu náðarár.

Kapellan og fólkið

Við höfum notið náðar Guðs. Sum ykkar voru fermd hér og önnur gift. Hvað eru mörg ykkar, sem voru skírð í Hallgrímskirkju? Gerið svo vel að rétta upp hönd! Hvað eru mörg í þessum söfnuði, sem voru fermd hér? En gengu í hjónaband? Já og öll hafið þið komið til messu í þessari kirkju. Og við erum í stórum söfnuði fólks, sem hefur lagt lið, notið og verið í liði himinsins.

Í fjölskyldu minni var alltaf talað með mikilli elsku um kapellu Hallgrímskirkju. Foreldrar mínir stóðu með framtíðarfólkinu á Skólavörðuholti og sóttu oft messur hingað. Og svo þegar ég var nýkominn frá Guði fóru foreldrar mínir upp á holtið og sr. Sigurjón Þ. Árnason skírði mig. Og ég var með foreldrum mínum í guðsþjónustum síðar. Eins og mörg önnur börn starði ég heillaður á Kristsmynd Einars Jónssonar og pálmann, sem Guðrún og Karl Ryden gáfu kirkjunni. Bæði voru í kapellunni, síðar í Suðursalnum og eru enn í kirkjuskipi Hallgrímskirkju nú. Eins og tákn um hið lífræna samhengi hins lifandi boðskapar í sjötíu ár. Og mörg munum við líka hve gluggarnir voru hátt uppi í kapellunni og hve stór hún var. Í minni fjölskyldu var börnum kennt að tala þessa kirkju upp en ekki niður. Hún væri á ábyrgð okkar allra. Erindið væri aðalatriðið og það varðar: Að lífið væri ekki bara stríð, braggar, ógnanir og búralegt hyggjuvit – heldur dásamlegt, fullt af möguleikum, fagnaðarefnum og opinni framtíð. Því var svona kirkja byggð. Við njótum stórhuga Anda.

Það sem rætist

Kirkja á sér fortíð. Kirkja er líka saga og þessi kirkja á sér langa sögu. Hvers virði er minning og saga? Í guðspjalli dagsins er Jesús kominn í heilan hring og inn í sögu þjóðar og fjölskyldu. Hann hafði verið í langferð og var loksins kominn heim. Hann fór í sína kapellu á sínu holti á helgidegi. Og tók las orð úr ritasafni þjóðmenningar sinnar, orð um hlutverk, gleðilegan boðskap, hinum þurfandi lausn, nýja og heilbrigða sýn. Þetta voru stærri orð en braggamenn heimsins gætu skilið. Og allir viðstaddir gerðu sér grein fyrir að orð þessa manns voru þvert á allar hugmyndir hagnýts hyggjuvits: „Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar.“ Orð úr fortíð, sem opnuðu framtíð. Söguleg samtíð. Allt stórt, allt nýtt, allt opið. Jesús Kristur, sem veruleiki nýrrar nálgunar alls. Samstaða með hinum kúguðu, líðandi og hömluðu. Já, það væri einkenni þess samfélags, sem Guð kallaði fram, að bæta líf fólks, kalla það til samúðar og samheldni. Og þetta með fagnaðarerindið væri ekki bara að búa til ræðupall fyrir hnyttna uppistandara, heldur opna tímann. Lífið væri meira en matur og frumskógarlögmál. Lífið væri skapað af elskandi Guði. Síðan varð til kristni og alls konar kirkjur. En erindið er alls staðar hið sama, fagnaðarerindi fyrir fólk, heim og framtíð.

Staður tengingar

Saga Hallgrímskirkju er lykilsaga. Hún hófst í andófi og í miðju braggahverfi. Þar voru gleðimálin túlkuð og iðkuð, samfélagið ræktað, fátækir virtir og náðarár kunngerð. Sjötíu árum síðar er Hallgrímskirkja eitt af tíu mikilvægustu íhugunarhúsum heimsins. The Guardianhefur fellt þann úrskurð vegna þess að hér hafa milljónir ferðalanga lífsins fundið, að eitthvað hefur smollið í lífi þeirra, náð sambandi við himininn. Ritningin hefur ræst. Byggingunni er ætlað að vera hlið himins, benda upp, teikna landslag menningar og samfélags, vera athvarf hinum jaðarsettu, vettvangur fegurðar, vörn gilda, farvegur skapandi listar, stefnumótastaður tíma og eilífðar. Staðurinn þar sem Jesús Kristur er, stendur upp, opnar bókina og segir skýrt og klárt: „Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar.“

Til hvers kirkja?

Vestræn samfélög eru að breytast og hið íslenska einnig. Hvernig á að túlka vinsældahrun kirkjunnar? Er trú að hverfa? Nei. Guð hættir ekki að vera til þó fólk og samfélög ruglist. Þrá í grunni mennskunnar hverfur ekki. En formgerðir og stofnanir breytast í rás tímans. Kirkjustofnanir fremur en kristni eru á skilorði samfélagsins. Það merkir ekki að kirkja sé ónauðsynleg – heldur að kirkja sé að breytast. Við, sem viljum hlusta á Jesúboðskap daganna, megum vita að Guð kallar alltaf með raunhæfum hætti á hverri tíð. Eðli trúar er að lifa í minningu sögunnar, en líka í hverri nútíð guðskallsins og þora að ganga til móts við opna framtíð. Ef við bara snúum til fortíðar, lifum í fortíð, munum við ekki verða vör við að Jesús hefur staðið upp og kallað til lífs og starfa. Hvernig eigum við að þjóna öllu þessu fólki sem hingað kemur? Hvernig getum við verið farvegur fyrir gleði Guðs, fagnaðarerindi, fyrir alla?

Nunnurnar

Þær þúsundir, sem koma í Hallgrímskirkju á hverjum degi, eru á lífsferð sinni, pílagrímagöngu frá fortíð til framtíðar. Allt sálir, fólk í leit að merkingu fyrir líf sitt. Fyrir nokkrum dögum var hér á ferð hópur af nunnum. Reyndar voru tveir karlar í nunnubúningi og annar þeirra var með yfirvaraskegg. Nunnurnar íslensku og þmt þessir klæðskiptu munkar eru að ljúka framhaldsskóla. Þau voru uppáklædd vegna dimissjónar. Tímum er lokið og stúdentsprófin eru framundan. Hópnum var boðið inn í kirkjuna og þegar búið var ræða við þau sagði einn í hópnum: „Ég vissi ekki, að þjóðkirkjan væri svona opin og skemmtileg. Eða er þetta kannski fríkirkja?“ Nei, var svarið. „Þjóðkirkjan er svona opin og skemmtileg.“ Og svo kom niðurstaða stráksins: „Ég þarf nú að fara endurskoða fordóma mína gagnvart þjóðkirkjunni.“ Presturinn sagði „amen.“

Svo tók ég mynd af nunnuhópnum við kór kirkjunnar. Þegar ég skoðaði myndina síðar um daginn og setti hana á vef Hallgrímskirkju varð mér hugsað til allra þúsundanna, sem hafa verið skírð, fermd og gift í þessum kór, í þessum helgidómi. Til þeirra líka, sem hafa verið kvödd með tárum. Og ég hugsaði til eldhuganna, sem þvert á efnisást, fóru til að byggja þetta risahús hinum mesta Guði. Og ég fylltist þakklæti til hugsjónafólksins, sem byggði þessa kirkju og hefur þjónað henni. Er hlutverkinu lokið, nei þetta sjötuga hlið himins er á bernskuskeiði, er vissulega í andlistlyftingu, aðgerð, þessa dagana og framtíðin er opin. Kirkjan er að breytast og þjónusta okkar þar með. Fólkið, sem kemur hingað, þarf að heyra að Jesús Kristur er staðinn upp og talar. Þann dag rætist ritningin.

Hallgrímskirkja 2. desember, 2018.

Lexía

Þeir dagar koma, segir Drottinn, þegar ég læt hið góða fyrirheit rætast sem ég gaf Ísraelsmönnum og Júdamönnum. Á þeim dögum og þeim tíma mun ég láta réttlátan kvist vaxa af ætt Davíðs. Hann mun framfylgja rétti og réttlæti í landinu. Á þeim dögum mun Júda bjargað og Jerúsalem verða óhult. Þetta nafn verður henni gefið: Drottinn er réttlæti vort. Jer. 33. 14 -16

Pistill

Ég stend við dyrnar og kný á. Ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrunum mun ég fara inn til hans og neyta kvöldverðar með honum og hann með mér. Þann er sigrar mun ég láta sitja hjá mér í hásæti mínu eins og ég sjálfur sigraði og settist hjá föður mínum í hásæti hans. Hver sem eyra hefur hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum. Op. 3. 20-22

Guðspjall

Jesús kom til Nasaret, þar sem hann var alinn upp, og fór að vanda sínum á hvíldardegi í samkunduna og stóð upp til að lesa. Var honum fengin bók Jesaja spámanns. Hann lauk upp bókinni og fann staðinn þar sem ritað er: 

Andi Drottins er yfir mér 
af því að hann hefur smurt mig. 
Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, 
boða bandingjum lausn 
og blindum sýn, 
láta þjáða lausa 
og kunngjöra náðarár Drottins.

Síðan lukti Jesús aftur bókinni, fékk hana þjóninum og settist niður en augu allra í samkundunni hvíldu á honum. Hann tók þá að tala til þeirra: „Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar.“  Lk. 4.16-21

 

 

+ Jón Örvar Skagfjörð +

Það var gott að leita til Jóns Skagfjörð. Fyrir meira en þrjátíu árum var ég í vandræðum með póstsendingu þegar hann var stöðvarstjóri á Selfossi. Ég var ósáttur við málsmeðferð póstsins og yfirmaðurinn var því kallaður til. Jón hlustaði vel, spurði lykilspurninga, bar fulla virðingu fyrir viðmælanda sínum og úrskurðaði svo í málinu og allir máttu vel við una. Ég hugsaði með mér þegar ég kom út úr pósthúsinu á Selfossi. Þetta er merkilegur maður. Hann er vanda og stöðu vaxinn, góður yfirmaður, sem hlustar og fer ekki í varnarstöðu og greiðir farsællega úr vanda.

Fyrstu kynni okkar rifjuðust upp þegar við vorum báðir komnir til Reykjavíkur að nýju eftir langdvalir í Árnessýslu. Hann á Dunhagann og ég á Grímsstaðaholtið. Og svo tengdust við betur þegar Unnur lést og var jarðsungin frá Neskirkju. Við töluðum saman og fórum yfir stærstu mál lífsins Þá leyfði hann mér að skyggnast inn í huga sinn og kynnast sér persónulega. Þá skildi ég betur gæðin, skerpuna, greindina og mannúð Jóns og vinsemd. Við kveðjum þennan Jón Örvar Skagfjörð, mannkostamann, sem alla vildi virða og efla, gekk til verka sinna með heilindum og alúð og færði allt til betri vegar. Í honum bjó viska, gæði, festa og kyrra, sem hreif mig og samferðamenn hans. Hann speglaði í lífi sínu og tengslum bylgjur af himninum, þessu sem Jesús Kristur vildi að einkenndi samskipti fólks. Kærleika.

Upphaf og æfi

Jón Örvar Skagfjörð var Reykjavíkurmaður, en bjó lengi á landsbyggðinni. Hann var sumarmaður, fæddist 14. júlí 1928, en lést svo inn í haustið. Foreldrar Jóns voru Sigurður Skagfjörð, trésmiður (1878 -1964) og Guðfinna Skagfjörð, húsmóðir (1899-1988). Talsverður aldursmunur var á foreldrum hans, 21 ár. Sigurður var ekkjumaður þegar þau Guðfinna tóku saman. Jón átti eldri hálfsystkin af fyrra hjónabandi föður hans. Þau voru Vilhelm Stefán (1905-1973) og Björghildur Klara, (1907-1985), bæði látin fyrir áratugum, Vilhelm lést 1973 og Björghildur 1985. Alsystkini Jóns, sammæðra voru Sigríður (f. 1933) og Jórunn (1937-1948). Sigríður lést árið 2007 en Jórunn varð ekki nema tíu ára er hún dó.

Jón ólst upp í Þingholtunum. Fjölskyldan bjó á Baldursgötu 16, sem er næsta hús við þar sem nú er veitingastaðurinn Þrír frakkar. Í hverfinu var ríkulegt mannlíf, fjöldi barna var í flestum húsum og margir að leika við. Jón rölti yfir Skólavörðuholtið til náms í Austubæjarskola. Svo þegar hann hafði lokið honum fór hann í Gagnfræðaskóla Austurbæjar.

Jón var sá lukkhrólfur, að geta farið í sveit á sumrum. Hann fór austur í Ölfus og var snúningadrengur á Krossi hjá afa sínum og ömmu, Jóni Jónssyni og Jórunni Markúsdóttur, fram á unglingsár. Bærinn Kross var í þjóðleið og Jón fylgdist því með því sem var að gerast í Hveragerði, sveitunum í kring og líka Selfossi. Hann sagði síðar, að hann hefði verið hændur að skepnunum og verið mikill vinur heimilishundsins á Krossi. Og þeir hefðu haft líka skoðun á tómötum, sem Jón smakkaði í fyrsta sinn þar eystra. Honum þótti tómaturinn forvondur og hundinum líka. Vegna þessarar sveitaveru í Ölfusinu varð Jón líka sveitamaður og Árnesingur. Og kannski skýrir það að hann vildi síðar búa austan fyrir fjall.   

Þegar Jón stálpaðist fór hann að leita sér að vinnu í Reykjavík. Á unglingsaldri tók hann að sér það ábyrgðarverk að sendast með lyf og vörur fyrir Reykjavíkurapótek. Unglingum hefði ekki verið treyst fyrir slíku verki nú, en Jóni Örvari Skagfjörð var treyst. Honum var alltaf treystandi.

Eftir gagnfræðapróf fór Jón í Loftskeytaskólann og lærði síðan símvirkjun hjá Landssímanum. Hann fékk strax vinnu að loknu námi og starfaði á radíóverkstæði Landsímans. Og af því Jóni var treystandi var hann sendur víða um land til að gera við fjarskiptabúnað. Honum þótti gaman að fá tækifæri til að skoða landið og m.a. þótti honum áhrifaríkt að koma í Breiðafjarðareyjar.

Á þessum árum þróðust fjarskipti ört og símamennirnir fylgdust með að lórantæknin lofaði góðu. Svo varð að ráði í samskiptum við Bandaríkjamenn að byggð var Lóranstöð á Gufuskálum á Snæfellsnesi. Hópur af símamönnum var sendur vestur um haf til að læra tæknina og á tækin. Jón var í þeim hópi og fór árið 1960 til New Jersey og Connecticut til náms. Í framhaldinu varð Jón næstráðandi á Gufuskálum og var þar til ársins 1966 og naut stuðnings konu sinnar til þessarar veru á Snæfellsnesi. Það var ekki sjálfsagt að fara með tvö ung börn vestur, en þau hjón voru samstiga. Eftir flutning í bæinn – þ.e. frá 1966 – starfaði Jón á skrifstofu ritsímastjóra í Reykjavík til 1975. Þá var hann skipaður stöðvarstjóri Pósts og síma á Selfossi og var í einn og hálfan áratug. Árið 1989 varð Jón svo umsjónarmaður Póst- og símaminjasafnins í Hafnarfirði og var þar næstu tíu árin.

Hjúskapur Jóns og Unnar

Það var hrífandi að heyra Jón tala um Unni, tilhugalíf þeirra og hjúskap. Jón átti í konu sinni öflugan maka, félaga, ráðgjafa og vin.

Það var á móts við Hegningarhúsið við Skólavörðustíg, sem Jón sá Unni og hún hann. Hann var á leiðinni til mömmu sinnar í mat, en hún var á leið milli saumastofu Kápunnar og heimilis. Hegningarhúsið hefur sjaldan verið talið ástartákn, en Unnur var húmoristi, kannski vissi hún um ferðir Jóns og valdi jafnvel staðinn! En ævi þeirra Jóns var líf í frelsi, líf fyrir hvort annað og í krafti beggja. Þeirra hús var hús elskunnar. En Skólavörðustígurinn til móts við Hegningarhúsið verður ávallt rómantískur staður í mínum huga eftir að ég heyrði Jón segja svo fagurlega og blíðlega frá ástarvitrun þeirra!

Þau höfðu séð hvort annað áður en Skólavörðustígurinn varð þeirra ástarstígur. Jón hafði séð þennan „vel klædda kvenmann“ – eins og hann orðaði það sjálfur – á balli í Vetrargarðinum í Tívolí, „konuna með stóru, brúnu augun.“ Honum leist vel á hana. Einhver hvíslaði líka að Unni, að hún skyldi hafa augun með þessum Jóni því hann væri góður strákur! Frá vorinu árið 1951 leiddust þau síðan í gegnum lífið og gengu í hjónaband 12. júní 1953. Þau áttu samleið í meira en hálfa öld þar til Unnur lést árið 2005.

Fyrstu hjúskaparárin leigðu þau Jón á Skeggjagötu 6. Þeim var svo boðið að vera með í byggingu símablokkarinnar við Dunhaga. Tilboðið var einfalt: Þau Unnur þyrftu ekki að eiga neina peninga, þetta kæmi allt af sjálfu sér! Íslenska aðferði, þetta reddast, og hún gekk í þetta skiptið, enda Jón og Unnur samstillt og stefnuföst. Fyrsta innborgun – tíu þúsund krónur – var ekki auðveld viðureignar, en þau hvikuðu ekki. Þeim tókst að öngla saman og héldu áfram með ráðdeild og með hjálp ættingja og vina

Á Dunhaganum varð heimili fjölskyldunnar og umhverfi, með öllum tilbrigðum, kostum, möguleikum og spennu nýbyggingarhverfis. Stutt var niður í fjöru, stutt í mjólkurbúðina, skóbúðina og KRON. Dóri í fiskbúðinni seldi fiskinn og barnafjöldinn var mikill í hverfinu sem iðaði af lífi og leikjum. Og stutt var í skólana í hverfinu. 

Börnin og afkomendur

Börn Unnar og Jóns eru tvö: Guðfinna Alda Skagfjörð og Gísli Skagfjörð. Guðfinna fæddist 2. nóvember árið 1953 en Gísli 14. ágúst árið 1957.

Guðfinna hefur starfað sem viðskiptafræðingur hjá dönsku póstþjónustunni. Maður hennar er Björgvin Gylfi Snorrason. Þau eiga þau tvær dætur. Þær eru Karen Lilja og Eva Björk. Karen Lilja (f. 14. apríl 1985) er meistari í viðskiftafræði og vinnur hjá Pepsico Nordic. Sambýlismaður hennar er Christian Parisot Guterres. Þau eiga synina Tao Lilja (f. 27. júní 2012) og Soul Lilja (f. 16. júlí 2014).

Eva Björk (f. 28. nóvember 1988) er með meistarapróf í stærðfræði og hagfræði og vinnur hjá orkufyrirtækinu Örsted. Sambýlismaður hennar er Anders S. R. Ødum.

Sonur Unnar og Jóns er Gísli Skagfjörð, verkfræðingur. Hann starfar hjá Borgarskjalasafni.

Jón var natinn fjölskyldumaður, sinnti börnum sínum vel í uppvexti, studdi í námi, hafði skoðun á ballferðum unglingsáranna og Guðfinna hafði lag á að fá mömmu sína að tala við pabban ef óvisst var um útivistarleyfið. Engum sögum fer af því, að Gísli hafi beitt sömu ráðum! Þau Unnur fóru gjarnan til Danmerkur til að vitja Guðfinnu og fjölskyldu hennar, þótti gott að vera með þeim og hjá þeim. Og svo þegar dótturdæturnar voru nægilega stórar komu þær og nutu góðs atlætis á Dunhaganum. Jón sá til þess að ungviðinu liði vel.

Dinah Dunn og Magnús Hansson geta ekki verið við útför en biðja fyrir kveðju til ykkar ástvina og fjölskyldu.

Minningarnar

Nú er valmennið Jón Örvar Skagfjörð allur. Hvernig minnistu hans og hvernig viltu vitja hans í huga þér? Hann var skapgóður geðprýðismaður, sanngjarn og traustur. Alltaf var hægt að reiða sig á Jón – á hverju sem gekk. Hann hafði líka hvetjandi áhrif og vænti þess að fólk stæði við það sem það hafði lofað eða talað um. Hann efldi fólk til ábyrgðar og að vera stöndugt. Jón var því öflugur uppaldandi og eflandi stjórnandi. Enda var honum falin ábyrgð fyrr og síðar í störfum. Jóni var treystandi. Og hann vildi að fólkið hans væri þannig, afkomendur einnig. Það hefur enda gengið eftir.

Það var tónlist í Jóni og þau Unnur sóttu gjarnan tónleika. Jón var félagslyndur, sótti gjarnan mannfundi og kom sér hvarvetna vel vegna gæflyndis og jákvæðni í samskiptum. Og ég tók eftir, að þegar hann fór að sækja kirkjustarf í Neskirkju, laðaðist fólk að honum. Hann hafði lag á að skapa traust og allir áttu í honum góðan og hlýjan viðræðufélaga. Þökk sé Jóni fyrir allt það sem hann lagði gott til.

Jón fylgdist vel með samfélagsmálum. Hann var fær um að breyta til í pólitík þegar hann taldi það nauðsynlegt. Hann kaus ekki endilega sama flokkinn aftur og aftur. Unnur var líka góður greinandi þjóðfélags og þau hjón stóðu með uppbyggingu og réttlæti.

Jón var ljóðamaður og las ekki bara Einar Ben., Stephan G. og Tómas heldur líka nútímaskáldin. Hann var alla tíð opinn og þorði að skoða nýungar og íhuga dýpri rök og þróun. Jón var enginn dellumaður en hafði hins vegar áhuga á mörgu og skoðaði með vökulum huga.

Og hann vann svo með líf og störf að hann horfði sáttur til baka. Sátt við eigin líf er öllum mikilvægt.

Leiðarlok

Þegar aldur færðist yfir og heilsan fór að bresta flutti Gísli til föður síns til að tryggja velferð hans. Þökk sé Gísla fyrir umhyggjuna. En Jón var meðvitaður um eigin stöðu og heilsufarsmál sín og ákvað sjálfur, að tímbært væri að hann færi á dvalarheimili. Hann fékk inni á Grund og dvaldi þar í góðu yfirlæti í tvö ár. Flestir, sem þangað hafa farið og verið, vita að fólkið er mikilvægara en húsnæði. Starfsfólkið gerir allt hvað það getur til að þjóna heimilisfólki vel. Þökk sé þeim. Jón lést á Grund þann 30. október síðastliðinn og var því níræður þegar hann fór inn í himininn.

Við leiðarlok horfum við til baka. Jón kunni að tengja, kunni á löngu línurnar – í atvinnu- og einka-lífi einnig. Við megum gjarnan hugsa um, hvað við getum lært af honum í tengslum. Við þurfum að gæta þess að rækta stöðugt tengsl við fólk, atvinnulíf og gildin í djúpum sálar og menningar. Í því var Jón okkur skínandi fyrirmynd. Svo hafði hann ágætar tengingar inn í ofurvíddir himinsins. Þar virkar ekki lóran, bylgjur eða búnaður – heldur sálaropnun – trú. Þegar lífi lýkur og við stöndum við brú eilífðar þá megum við opna. Guð kristninnar er Guð algerrar elsku. Guð er traustur, alltaf til staðar, staðsetur okkur af nákvæmni og týnir okkur aldrei. Inn í þá bylgjuvídd er Jón farinn og Unnur líka. Guð geymi þau. Og Guð geymi þig.

Minningarorð í Neskirkju þriðjudaginn 20. nóvember 2018, kl. 13. Bálför og erfidrykkja í Neskirkju. Vinakórinn. Steingrímur Þórhallsson. Útfararstofa kirkjugarðanna.