Greta, Guð og blessunin

Hún er fimmtán ára gömul og vakti athygli Svía í haust. Í stað þess að fara í skólann á föstudögum fór hún í skólaverkfall. Hún fór að þinghúsinu í Stokkhólmi og mótmælti mengun jarðar og lofts. Hún heitir Greta Thunberg og skólaverkfallið hennar vakti svo mikla athygli að henni var boðið til Katovice í desember síðastliðnum til að flytja ávarp á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem þar var haldin. Þessi lágvaxni risi sakaði leiðtoga heimsins um að stela framtíð barna. Í fjögurra mínútna ræðu sagði hún, að gömlu aðferðir þeirra hefðu ekki skilað neinu. Allt of mikið væri talað í stað þess að gera það sem væri lífsnauðsynlegt. Hún sagði: „Þið talið bara um grænan hagvöxt því þið eruð hrædd við óvinsældir. Þið talið bara um sömu vondu hugmyndirnar, sem komu okkur í vanda í stað þess að taka í neyðarhemilinn. Þið eruð ekki nógu þroskuð til að segja hlutina eins og þeir eru. … Þið segist elska börnin ykkar heitar en nokkuð annað, en samt stelið þið framtíð þeirra fyrir framan nefið á þeim.“ Og svo hélt hún áfram og minnti á að lífhvolfi jarðar væri fórnað svo að auðugt fólk í löndum gæti áfram lifað í vellystingum. Þægindi fárra væru keypt með þjáningu. Og Greta Thunberg sagði pótíkusunum upp. Hún hefur sett sér áramótaheit, kveikti skilning margra og kallar til ábyrgðar og starfa. Boðskapur þessarar ungu konu er erindi úr framtíð.

Blessunin er alls konar

Nú er nýársdagur, opinn tími nýrra möguleika. Hvert er nýársheit Guðs? Það kemur úr framtíðinni líka. Og hvert er þitt heit? Áttu þér draum? Hvað viltu að hverfi og yfirgefi þig? Við erum kölluð til góðs lífs. Sá nýársboðskapur kemur fram í textum dagsins. Er þar eitthvað sagt, sem varðar líf okkar á nýju ári, gilt fyrir heila, hjarta, hendur og fætur? Framtíðin kallar til þín – kallar þig.

Lexía dagsins eru eiginlega stóryrði – og svo mikilvæg að Gyðingar álitu þau meginmál. Og kristnin, með Jesú Krist sem fyrirmynd, gerði þau að niðurlagi í messum. Þetta eru blessunarorðin, sem prestar fara með í lok allra messugerða. Þau eru skráð í fjórðu Mósebók. Kannski hljóma þau eins og þula eða orðasúpa, en þau eru svo sannarlega ekki inntantóm merkingaleysa, heldur varða líf og hamingju allra:

Drottinn blessi þig og varðveiti þig. Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur. Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.

Hefur þú heyrt þessi orð? Þetta er hin aronítíska blessun, sem líka er kölluð prestslega blessunin. Svo eru til fleiri blessanir í Biblíunni, t.d. sæluboðin og postulega kveðjan. Og mömmur og pabbar, afar og ömmur hafa breitt elsku yfir fólkið sitt og afkomendur í sama anda og sagt: „Guð blessi þig“ – eða – „Guð geymi þig.“

Blessun merkir að lífið verði gott þeim, sem þiggur blessun. Blessun er til bóta. Við menn erum farvegur en Guð er lind blessunar. Þegar Guð blessar eru gjafir gefnar og þær eru allt hið góða, sem við njótum; gjöful og fögur náttúra, friður meðal þjóða og hópa, matur, öryggi fólks, gott skólakerfi og heilsugæsla. Ekkert af þessu eru sjálfsögð gæði, sem við eigum heimtingu á til að nota eða misnota. Hver er blessun þín?

Tvíhyggja eða eining?

Mörgum hættir til að hugsa um hið trúarlega sem innra líf, hugarró, innra traust eða æðruleysi. Já, það er blessun en hún er líka stærri. Blessun Guðs varðar líka efnaferla í eldfjöllum, sprengingar í sólkerfum, nýjustu rannsóknir í krabbameinslækningum og hvort Trump trompast (aftur og áfram?). Okkur hættir til að hugsa um trú í anda tvíhyggju. Tvíhyggja er sú nálgun, að hið efnislega og andlega séu andstæður og trúmenn eigi bara að halda sér til hlés frá ati heimsins. Hið andlega sé aðalmálið en líkami, efni, peningar og samfélag sé óæðra. En slík lífsafstaða er ekki komin frá Jesú Kristi eða Biblíunni. Trú varðar heilsu fólks, líkamlega næringu, efnislegar þarfir, náttúru, frið og líka flóttafólk. Samkvæmt Bibllíunni er hið andlega, félagslega, náttúrulega og pólitíska þættir sem varða Guð og trú. Hið hebresk kristna samhengi kennir heildarhyggju. En tvíhyggjan, sem kom inn í heim fólks, eyðilagði þá heild. Og það er komið að því að við hættum að rugla.

Hvað er blessun? Hún er stórpólitísk yfirlýsing og kall til átaka. Blessunin í messunni er ekki fróm ósk prestsins um að þér líði skár innan í þér í næstu viku en í þeirri síðustu. Hún varðar að þú lifir lífinu vel á öllum sviðum, gerir upp brot þín og áföll, vinnir í þínum málum, hugir að heilsu þinni, látir ekki spillt fólk spilla friði og fara illa með aðra. Og hún merkir, að þú leggir þitt á vogarskálar svo líf heimsins fái lifað. Blessun Guðs er áramótagjöf Guðs svo líf þitt og líf heimsins batni.

Umhverfi, blessun, ábyrgð

Nýtt ár, nýir möguleikar og framkvæmdir til góðs.

Drottinn blessi þig – en við menn dælum samt árlega átta milljónum tonna af plastefnum í hafið, sem skaða alla þætti lífríkisins. Ein milljón fugla deyr árlega vegna þessa og eitt hundrað þúsund sjávarspendýr. Drottinn varðveiti þig.

Drottin láti sína ásjónu lýsa yfir þig. Ant­onio Guter­res, fram­kvæmda­stjóri Sam­einuðu þjóðanna, sagði í liðnum mánuði í Katovice, að lofts­lags­breyt­ing­ar væru nú þegar spurn­ing um líf eða dauða í mörg­um lönd­um heims.Það merkir á máli trúar, að gott fólk um allan heim er kallað til að láta til sín taka en ekki bara tala eins og forréttindafólki vestursins hættir til. Og Drottin sé þér náðugur.

Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig. Þegar þú skrúfar frá krana í eldhúsinu heima hjá þér streymir dásamlegt vatn. Um fjórðungur mannkyns, 2 milljarðar, býr við alvarlegan vatnsskort. Vatn er heilagt eins og fram kemur í sakramentum kirkjunnar, altarisgöngu og skírn. Þú varst borin til skírnar sem barn. Milljarðagamalt hreint vatn lék um hársvörð þinn og vatnið, sem þú nærðist af í móðurmjólkinni varð þér til lífs. Þegar þú gengur til altaris á eftir gengur þú að uppsprettu lífsins í margföldum skilningi. Og Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.

Við erum kölluð til lífs og verndar lífi. Á nýju ári kallar Guð lærisveina, fólk til starfa. Áramótablessun Guðs varðar þitt líf. Við erum ekki kölluð til að bjarga heiminum en öll getum við gert eitthvað. Á heimilum okkar og vinnustöðum, í neyslu okkar og meðferð lífsgæða, hvernig við verjum athkvæði okkar og notum peninga.  Sóknarnefnd Hallgrímskirkju t.d. undirbýr nú að Hallgrímskirkja verði græn kirkja.

Á nýju ári er heimurinn blessaður. Í ómstríðri raddhviðu heimsbyggðarinnar hljóma hughreystingarorð, í sorg hljómar hvísl vonarinnar. Gegn mengun hljóma textar blessunar. Kristnin virðir skugga og áföll – talar alltaf með rödd hins góða og eflandi.

Kristindómur er átrúnaður lífs gegn dauða. Boðskapurinn er: Dauðinn dó en lífið lifir. Guð kallar fram líf – gleði, von, vit, ljós og kallar fólk til verka. Nýársheit Guðs er blessun.

Amen.

Prédikun 1. janúar, 2018. Hallgrímskirkja. 

Grist: https://grist.org/article/greta-thunberg-activist-cop24-katowice/

http://www.visir.is/g/2018181219320

Blessunarorðin – 4Mós 6.22-26
Drottinn talaði til Móse og sagði: „Ávarpaðu Aron og syni hans og segðu: Með þessum orðum skuluð þið blessa Ísraelsmenn: Drottinn blessi þig og varðveiti þig, Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur, Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.