Skírn – niður og upp

Vertu Guð faðir, faðir minn,

í frelsarans Jesú nafni.

Hönd þín leiði mig út og inn

svo allri synd ég hafni.

Þessi bænavers Hallgríms standa á hinum stórkostlega skírnarfonti Hallgrímskirkju. Og í dag beinum við huga að skírn. Mér þykir dásamlegt að taka þátt í skírn, horfa í augu hvítvoðungs og sjá í þeim himin og framtíð. Í skírn kyssast allar góðar víddir mennsku og lífs. Tími og eilífð faðmast. Því er skírn hátíð.

Barnið, nýkomið frá Guði, er fært í klæði hreinleikans og hvílir í fangi ástvinar. Svo eru lesnir miklir textar, sem varða lífið og lífslánið. Vatnið í skírnarfontinum er hreint og vekur oft athygli hins unga lífs. Svo gutlar í vatninu og tilfinningar bylgjast í ástvinum, bros læðast í munna og augu. Og flestar skírnarathafnir eru gjörningur hins óvænta. Flestum nema foreldrunum fannst mjög fyndið þegar stóri bróðir átti að segja nafn barnsins en honum fannst nafnið sem pabbi og mamma höfðu ákveðið bara ekki gott. Hann sagði hátt og skýrt það nafn sem honum fannst flottast. Foreldrarnir hrópuðu neiiiiiiii. En svo var allt leiðrétt, nafnið var nefnt frammi fyrir Guði og mönnum. Skírn er gjörningur og fyrir lífið og ástvinir umvefja barnið með vonum og bænum. Krúttið er blessað og ég lyfti því gjarnan upp. Oft klappa allir. Já, mikil hátíð og tilfinningaþrungin.

Umstang – lífgjöf

En til hvers að skíra börn? Hátíð já en fyrirhöfn líka. Á kannski bara að einfalda? Nú er hægt að fara inn á vef þjóðskrár og ganga frá skráningu. Ekkert mál, tekur fimm mínútur, búið og gert. Er það ekki snjallast – eða hvað? Fólk segir líka stundum, að það vilji leyfa barninu að ráða hvort það verður skírt eða ekki. En er einhver ástæða að bíða með að gefa stærstu gjafirnar þar til krakkarnir eru unglingar? Skírn er ekki hættuleg heldur stórkostleg gjöf. Það er hægt að bíða með skírn ef fólk vill bara sætta sig við lágmörkin. Skírn er meira en nafngjöf eða skráning. Nafngjöf er lagaskylda en skírn er lífgjöf.

Skírnarsagan

Og þá fyrst sagan. Jesús var skírður í ánni Jórdan. Það var afgerandi stórviðburður í sögu skírnarinnar, raunar miðjan, sem skilgreinir allt hitt sem á eftir kom. Jóhannes, nefndur skírari af starfanum, var út í á og jós vatni á fólk eða dýfði því niður. Kristnir gerðu eins og meistarinn. Frumkirkjan sótti út í vatnið og vantssullið hefur einkennt allar stóru – raunar flestar – kirkjudeildir heimsins síðan. Skírn hefur alltaf verið meira en skráning, stærri bónus og djúktækari plús en bara að líma nafn við fólk. Skírn varðar hið stóra en nafngjöf hið smærra og best að þau fari saman. Skírn er það að leyfa öllum lífsvíddum að umfaðma barnið en ekki bara að setja nafn á það. Og í skírn er auðvitað beðið um að Guð verði alltaf vinur barnsins.

Orðið skírn er gegnsætt og tandurhreint orð. Sögnin að skíra merkir að hreinsa. Jesús talaði um skírn og ritarar Nýja testamenntisins líka. En í þeirra túlkun var skírn ekki eins og laugardagsbað til að þrífa skítugan kropp. Skírn var mál hins ytra og innra, tíma og alls þess sem er eftir dauða. Páll postuli var róttækur og skapandi hugsuður. Í Rómverjabréfinu, sem var lesið áðan, segir hann: „Eða vitið þið ekki að við öll, sem skírð erum til Krists Jesú, erum skírð til dauða hans?“ Barn skírt til dauða! En svo bætir hann strax við: „Og eins og faðirinn vakti Krist frá dauðum með dýrðarmætti sínum, eins eigum við að lifa nýju lífi.“ Skírð til lífs í tíma og eilífð.

Það er eitthvað mikið meira og dýpra á ferðinni í þessum orðum heldur en að pikka nafn á netinu í þjóðskrá. Jesús notaði raunar nefninguna skírn um allan feril sinn og hlutverk, þetta sem við íhugum á föstunni, skírdegi, föstudeginum langa og páskum. Jesús sagði vinum sínum að honum yrði dýft ofan í voðalegan hyl. Hann yrði beinlínis að fara á kaf svo hann mætti klára hlutverk sitt. Af orðum hans ályktuðu hugsuðir frumkristninnar að skírnin væri þátttökugjörningur. Skírn væri beintenging við allt sem Jesús Kristur stæði fyrir, kenndi, upplifði og afrekaði. Fullkomin samábyrgð og tenging.

Fer niður getur komið upp

Ólíkt reglunni í hagfræðinni sem segir, að það sem fari upp komi niður, er í kristninni andstæðar hæðarlýsingar og hreyfitjáning. Kristnin kennir, að það sem fer niður getur komið upp. Hugsuðir aldanna tóku eftir þessum merkilega ferðastíl kristninnar. Engin þjáning, engin neyð er til dauða í Jesúreisunni, heldur getur allt, sem við upplifum neikvætt, snúist til góðs af því Guð er nærri. Alþýðuvísdómurinn hefur túlkað þetta svo, að lífið sé harður skóli og engin viska verði til nema vegna lífsreynslu. Heimspekingurinn Hegel notaði þessa lífsspeki í heimspekikerfi sínu og talaði um aufhebung– upphafingu. Líf fólks og þjóðfélaga er aldrei samfelld hamingjusaga heldur baráttusaga. Lífið er agandi skóli. Hetjan verður ekki til nema í átökum, hetjan verður aðeins skírð í eldi baráttunnar. Sem sé, það sem fer niður getur farið upp ef Guð er nærri. Farsælar lyktir af því Guð er. Líf er ferli í stórum tíma en líka eilífð.

Sköpun, blessun vatns og ógn

Þegar við skoðum frásögur Biblíunnar og guðfræði fyrstu alda sjáum við, að skírnarboðskapur Jesú hafði stýrandi áhrif á hvernig bað kristninnar var skilið og túlkað. Skírn Jesú var frá fyrstu tíð tengd við sköpunarsögu Gamla testamentisins. Jesúskírnin var skilin með vísan til upprunasköpunar sem ný sköpun. Guð endurhelgaði heiminn. Við, sem höfum lesið miðaldaprédikanir Hómilíubókarinnarskynjum, vitum að kristnir miðaldamenn töldu að öll vötn veraldar væru helguð með skírn Jesú. Framhald – sköpunargjörningur.

Allir vita að ekkert lifir án vatns. En vatn getur líka fært í kaf og drekkt lífi. Syndaflóðasögur tjá þá ógn. Flóðbylgjur aldanna hafa eytt lífi. Í öllum landdýrum býr óttinn við of mikið vatn. Vatn slekkur ekki aðeins þorsta lífs, heldur er jafnframt tákn um að lífið er óöruggt. Nútímamengun sjávar og æðakerfis vatnsheimsins er svo syndaflóð samtíma okkar, sem við menn berum alla ábyrgð á.

Stórviðburðir – adráttarafl og túlkun

Skírn Jesú var ofurviðburður sem kallaði á skýringar, tákn og túlkun. Jesúskírnin var  slíkur samsláttur kraftanna að stór tákn soguðust til þeirrar miðju. Skírn dró að sér túlkun og tákn. Myrkur, þjáning, dauði, vatn og þorsti hafa verið skýrð með margvíslegu móti. Svo er dúfa líka tengd hinum lífgefandi en einnig lífsógnandi vötnum í táknheimi Biblíunnar. Í hinum fornu ritningum var rok tákn um návist Guðs. Fyrst var kaos, óreiða, en orð og blástur Guðs komu skipan á og til varð veröld. Úr líflausri frumvatnaveröld varð til blái hnöttur hinnar góðu sköpunar. Guð sá, að allt var harla gott. Frumkristnin tengdi skírn Jesú og skírn allra manna við þessa sköpun heimsins. Í skírn var tengt inn í lífið, sem Guð hafði gert svo gott. Vatnið var ekki bara ógnandi heldur líka lífgefandi. Harla gott. Veröldin væri ekki aðeins til dauða heldur var og er stefna kristninnar stefna Guðs upp úr dauðadalnum og til lífs og hamingju. Svo skildi fólk, að allir sem tóku þátt í þessum skírnargjörningi voru kysstir af himninum og eilífðinni. Og ættarmótið er heyrum kunnugt og opinbert: „Þetta er sonur minn.“„Þetta er dóttir mín.“ Fólk á Guðs vegum. Líka börn í samtíð okkar – ekki bara nöfn í skrá, heldur elskuð og kysst af himinum. Það sem fer niður kemur upp af því að Guð hefur áhuga á hinu ríkulega og stóra – sem er meira en nafngjöf. Guð skapar líf í risastóru samhengi.

Fonturinn geislar

Er lífið einfalt? Nei. Hefur þú einhvern tíma átt erfitt, misst marks eða orðið fyrir áfalli? Já. Ekkert okkar flögrar átakalaust í gegnum lífið. Það er raunsæisboðskapur skírnarinnar. Það, sem fer niður, getur farið upp vegna þess að Guð er nærri. Enginn er einn og óstuddur. Guð er alltaf nærri, fer með okkur á kaf þegar við þjáumst, heldur í hendi okkar þegar við erum að kafna, sleppir aldrei og er alltaf tilbúinn. Það, sem fer niður, fer upp ef Guði er leyft að vera með. Líf hins skírða er opið líf, með bónus, fullt af möguleikum. Aðalmál skírnarinnar er að Guð fær að vera nálægur vinur. Það er hægt að hafna skírn og afþakka þá nálægð, en Guð er nærri og býður hlýja návist.

Skoðaðu hinn dásamlega skírnarfont Hallgrímskirkju. Á hann er ekki aðeins letrað bænaversið – líka með stafagerð höfundarins Leifs Breiðfjörð – sem við báðum áðan. „Vertu Guð, faðir faðir minn…“ Hitt, sem er líka letrað, er versið í Markúsarguðspjalli : „Sá sem trúir og skírist mun hólpinn verða.“ Ekkert lítið heldur stórt, beintenging við lífið í tíma og eilífð. Upp, upp mín sál.

13. janúar, 2019.